Nýr áhersluforliður: fox-
Í „Málspjalli“ var í gær spurt um uppruna þess að kalla eitthvað foxljótt sem fyrirspyrjandi sagðist hafa oft hafa heyrt fyrir 10-20 árum en fyndi lítið um upprunann – aðeins fáein dæmi á samfélagsmiðlum. Ég kannaðist ekki við þetta orð og það er ekki í orðabókum en ég finn tæp 40 dæmi um það í Risamálheildinni, þau elstu frá 2004, og þrjú á tímarit.is, það elsta í DV 2005: „Mér finnst hún samt foxljót, reyndar ekki andlitið á henni en líkaminn á henni er hörmulegur.“ Það er svo sem enginn vafi á því hvað orðið merkir þarna og í öðrum dæmum, sem sé 'mjög ljót', en uppruninn er samt á huldu. Mér datt fyrst í hug að þetta væri misskilningur á eða afbrigði af forljótur sem merkir 'mjög ljótur' en við nánari athugun reyndist það ekki rétt.
Orðið fox merkti í fornu máli 'svik' en í síðari alda máli 'norn' samkvæmt Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – Íslensk orðabók bætir við merkingunum 'meinhorn, uppstökk manneskja'. Í Safni af íslenzkum orðskviðum eftir Guðmund Jónsson frá 1830 er málshátturinn „Opt er flagð í fögru skinni (fox í fögrum ham)“ sem sýnir að fox merkir svipað og flagð sem er skýrt 'ófrýnileg og óvinsamleg kona' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er nær eða alveg horfið úr nútímamáli en samsetningarnar foxvondur og foxillur eru þekktar og báðar skýrðar ‚mjög reiður‘ í Íslenskri orðabók. Þær virðast ekki ýkja gamlar – sú fyrrnefnda kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en elstu dæmi um báðar á tímarit.is eru frá því um 1950.
Einnig er til foxreiður í sömu merkingu en miklu sjaldgæfara en hin – ekki í orðabókum og aðeins sex dæmi á tímarit.is, þau elstu frá 1967. Trúlegt er að þessi orð séu upphaflega viðlíkingar – 'vondur/illur/reiður eins og fox' – og þá vísað til merkinga eins og 'meinhorn, uppstökk manneskja, flagð'. Einnig eru dæmi um að fox sé notað eitt og sér og þá greinilega stytting á foxillur/-reiður/-vondur – „Ég get alveg orðið fox þegar þeir hringja“ segir á Bland.is 2004. En vegna þess að fox er að öðru leyti horfið úr málinu sem sjálfstætt orð glatast tenging við upprunann og málnotendur fara að skilja fox- sem áhersluforlið. Þá opnast sá möguleiki að nota fox- til áherslu í fleiri orðum sem eiga ekkert skylt við upphaflega merkingu orðsins.
Dæmi um þetta er orðið foxljótur sem gæti svo sem líka merkt 'ljótur eins og fox' en líklegast er þó að fox sé þarna áhersluforliður frá byrjun. Í Risamálheildinni fann ég slæðing af samsetningum með fox-, öllum mjög sjaldgæfum og dæmin öll af samfélagsmiðlum. Þetta voru orðin foxdýr, foxgamall, foxglaður, foxgóður, foxheitur, foxleiðinlegur, foxmyndarlegur, foxnettur, foxríkur, foxsætur. Það er athyglisvert að mörg þessara orða hafa jákvæða merkingu sem sýnir að bókstaflegur skilningur, 'X eins og fox', kemur ekki til greina, heldur hlýtur að vera um áhersluforlið að ræða, 'mjög X'. Ýmis fordæmi eru fyrir endurtúlkun af þessu tagi og mér finnst ekkert athugavert við þessa notkun á fox- sem áhersluforlið – hún auðgar bara málið.