Category: Málfar

Hrafnadís

Í nýjum úrskurði Mannanafnanefndar er nafninu Hrafnadís hafnað á tvennum forsendum – annars vegar sé það „afbökun á eiginnafninu Hrafndís“ og hins vegar fari það „í bág við hefðbundnar nafnmyndunarreglur eiginnafna“, þ.e. „þeirri meginreglu íslenskrar nafnmyndunar að eignarfall fleirtölu sé ekki í forlið eiginnafns“. Þetta er mjög sérkennilegur úrskurður sem ég get ekki kallað annað en rugl. Í samsettum orðum getur fyrri liður ýmist verið stofn, eins og í Hrafndís, eða eignarfall – annaðhvort eintölu eða fleirtölu. Þetta eru jafngildar orðmyndunaraðferðir og fjölmörg dæmi eru um hliðstæðar tvímyndir þar sem fráleitt er að kalla aðra „afbökun“ af hinni. Fjöldi margs kyns tvímynda af mannanöfnum er líka til.

Ég kannast ekki heldur við að einhverjar sérstakar reglur gildi um mannanöfn sem banni að fyrri liður þeirra sé í eignarfalli fleirtölu. Sú „regla“ er bara tilbúningur nefndarinnar og mér finnst hún fara langt út fyrir öll eðlileg mörk í túlkun sinni á því hvað „brjóti í bág við íslenskt málkerfi“ enda eru vissulega til nöfn á mannanafnaskrá þar sem fyrri liður er í eignarfalli fleirtölu, svo sem Eyjalín, Rósalind, Alparós og Reykjalín og til dæmis. Tvö síðarnefndu nöfnin hafa m.a.s. verið samþykkt sérstaklega af Mannanafnanefnd án þess að nokkrar athugasemdir væru gerðar við myndun þeirra. Það er löngu kominn tími á að breyta lögum um mannanöfn og verður að vona að nýr dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp að nýjum lögum hið fyrsta.

Að fatta upp á kókómjólkinni

Hér hefur áður verið skrifað um tökusögnina fatta sem hefur verið notuð í óformlegu máli síðan snemma á tuttugustu öld. En sambandið fatta upp á er miklu yngra og ekki komið í orðabækur – elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er fyrirsögn í NT 1984: „Hann hét Kolli sem fattaði upp á þessu.“ Í DV 1984 segir: „Einu sinni hélt ég nefnilega að ég hefði fyrstur fattað upp á því að pissa standandi.“ Í Degi 1987 segir: „Það voru eiginlega Jakob, Sara og nokkrir í viðbót sem föttuðu upp á þessu.“ Í Degi 1988 segir: „Svo einfalt raunar að maður furðar sig á því að maður hafi ekki sjálfur fattað upp á þessu.“ Um 90 dæmi eru um sambandið á tímarit.is en í Risamálheildinni eru tæp 400 dæmi um það, öll nema 50 af samfélagsmiðlum.

Ekki hugnast öllum þetta samband, og í Málvöndunarþættinum var í gær verið að amast við því að þáttastjórnandi á Bylgjunni hefði sagt „Hann fattaði upp á kókómjólkinni“. Þátttakendum í umræðunni fannst þetta óboðlegt og töldu það „barnamál“, og sama athugasemd er oft gerð í dæmum úr formlegu máli: „Allavega var það einhver frægur maður sem nú er löngu dauður sem „fattaði upp á þessu,“ eins og börnin segja“ segir í Skessuhorni 2008; „Efnahagslegu fyrirvararnir sem við þingmenn sem hér störfuðum í sumar vorum svo stolt af að hafa „fattað upp á“, eins og börnin segja“ var t.d. sagt í ræðu á Alþingi 2009; „Sniðugt hjá þeim að hafa fattað upp á þessu, eins og krakkarnir segja“ segir á vef Ríkisútvarpsins 2020.

Sögnin fatta er merkt „óformlegt“ í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'skilja (e-ð)', en 'skilja, botna í' í Íslenskri orðabók. Þótt þessar skýringar séu ekki rangar eru þær ófullnægjandi – oft væri 'átta sig á' heppilegri skýring. Í fatta felst nefnilega oft að skilningurinn komi skyndilega frekar en smátt og smátt. Þetta kemur skýrast fram í sambandinu vera að fatta. „Ég var að fatta að mig vantar alveg trampólín“ segir t.d. í Fréttablaðinu 2007 – hér væri hægt að segja ég var að átta mig á að mig vantar alveg trampólín en alls ekki *ég var að skilja að mig vantar alveg trampólín. Sama máli gegnir með „Fólk er að fatta hvað við erum að segja“ í Vísi 2013, „Ég er að fatta að ég er bara þó nokkur listamaður í mér“ í DV 2019, og ótal fleiri dæmi.

Sambandið fatta upp á má reyna að skýra sem 'finna upp' en það samband nær þó ekki merkingunni alveg. Það virðist nefnilega oftast vísa til útkomu úr einhverju ferli eins og kemur fram í skýringunni 'upphugsa e-ð' í Íslenskri orðabók. Þar að auki vísar það fremur til einhvers áþreifanlegs hlutar eða tækis – 'búa e-ð til sem ekki hefur verið til áður' segir í Íslenskri orðabók. Aftur á móti vísar fatta upp á ekki síður til einhvers óáþreifanlegs, eins og dæmin hér að framan sýna, og mér finnst það líka vísa fremur til skyndilegrar hugdettu eða hugljómunar en til útkomu úr löngu ferli. Það stemmir einmitt við þá merkingu í sögninni fatta sem lýst er hér að framan – eitthvað sem gerist skyndilega frekar en eitthvað sem kemur smátt og smátt.

Þótt sögnin fatta sé óumdeilanlega komin úr dönsku virðist sambandið fatta upp á vera íslensk nýsmíði – í dönsku er sagt hitte på eða finde på í sömu merkingu en ekki *fatte på. Það er vel trúlegt að sambandið sé upprunnið í máli barna eins og oft er haldið fram, en það er a.m.k. fjörutíu ára gamalt og fyrstu notendurnir því komnir á miðjan aldur eða eldri og nota það sumir hverjir enn – varla eru það eintóm börn sem nota það athugasemdalaust á samfélagsmiðlum. Vissulega sýnir hlutfallslega mikil notkun þess þar að það er að verulegu leyti bundið við óformlegt mál enn sem komið er, en dæmum í formlegu máli virðist þó fara smátt og smátt fjölgandi. Mér finnst þetta gagnlegt samband sem engin ástæða er til að amast við.

Græna gímaldið

Fátt ber hærra í samfélagsumræðunni þessa dagana en risastórt vöruhús sem verið er að byggja við Álfabakka. Þetta hús hefur í fréttum iðulega verið nefnt græna gímaldið en hér var áðan bent á að gímald væri ekki rétta orðið þarna. Upphaflega merkir það 'vítt gap, stórt ílát eða vistarvera' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók og er skylt orðunum geimur og gína, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'mjög stórt (hátt og vítt) rými, t.d. salur e.þ.h.'. Það er ljóst af þessu að orðið vísar til innri gerðar rýmisins. Við myndum t.d. tæplega tala um Hörpu eða Kringluna sem gímöld þótt þau hús séu mjög stór, vegna þess að þau skiptast í fjölda minni rýma. Hins vegar væri hugsanlegt að tala um einhver þeirra rýma, t.d. Eldborg, sem gímöld.

Það virðist ljóst af fréttum að margs konar starfsemi á að fara fram í vöruhúsinu við Álfabakka og því líklegt að því verði skipt í nokkur rými. Ég veit ekki hvort það hefur þegar verið gert, enda skiptir það ekki máli vegna þess að greinilegt er að í allri umfjöllun er verið að vísa til ytra umfangs hússins en ekki innri gerðar. Ein ástæðan fyrir því að gímald hefur verið notað um húsið er e.t.v. sú að orðið hefur á sér frekar neikvæðan blæ og hæfir því viðhorfinu til hússins. En hægt væri að finna önnur neikvæð orð sem vísa til ytra umfangs og ættu því betur við, t.d. ferlíki. Líklega er samt komin hefð á að tala um græna gímaldið enda stuðlar það og festist því vel í minni. Það eru svo sem lítil málspjöll en samt rétt að hafa hefðbundna merkingu í huga.

Hvers kyns er ökumaður?

Töluverð umræða hefur spunnist hér af pistli mínum um íþróttamann ársins eins og oft vill verða þegar kynjað orðfæri ber á góma. Einn þátttakenda í umræðunni benti á fyrr í dag að ökumaður bifreiðar „þarf ekki að vera karl“ og „afar fáir myndu taka þannig til orða að „ökukona Toyotunnar virti ekki biðskyldu á gatnamótunum““. Það er alveg rétt að lítil hefð er fyrir orðinu ökukona þótt það sé sannarlega til í málinu – á tímarit.is eru tæp fjörutíu dæmi um það, hið elsta frá 1913. En þótt ökumaður sé vissulega orðið sem er venjulega notað í vísun til allra kynja táknar það ekki að orðið sé fullkomlega kynhlutlaust – a.m.k. sé ég yfirleitt fyrir mér karlmann þegar það er nefnt. Og notkun orðsins í textum sýnir að ég er ekki einn um það.

Á tímarit.is eru samtals 43 dæmi um orðasamböndin ökumaður(inn) (sem) var kona / kvenmaður og í Risamálheildinni eru samtals 22 dæmi um þessi sambönd. Aftur á móti eru aðeins sex dæmi um ökumaður(inn) (sem) var karl(maður) á tímarit.is og jafnmörg í Risamálheildinni. Það er sem sé margfalt algengara að tilgreina kyn ökumanns ef um konu er að ræða en ef karlmaður ekur. Líklegasta skýringin sem ég sé á því er sú að í huga margra málnotenda sé það sjálfgefið að ökumaður sé karlkyns og þess vegna þurfi venjulega ekki að taka það fram. Þegar kona er ökumaður er það frávik frá norminu og þess vegna frekar tekið fram. Þetta bendir til þess að orðið ökumaður sé fjarri því að vera kynhlutlaust í huga fólks.

Einhverjum gæti reyndar dottið í hug að þessi munur hefði ekkert með orðið ökumaður að gera, heldur stafaði einfaldlega af því að karlar ækju bílum mun meira en konur. Frávikið frá norminu sem ylli því að kynið væri tekið fram fælist þá í því að kona væri að aka, ekki í því að orðið ökumaður vísaði til konu. Þetta er vissulega hugsanlegt, en þá ætti sami munur að koma fram í öðrum orðum sömu merkingar, eins og bílstjóri. Um samböndin bílstjóri(nn) (sem) var kona / kvenmaður eru samtals tíu dæmi á tímarit.is og í Risamálheildinni – um bílstjóri(nn) (sem) var karl(maður) eru þrjú dæmi á tímarit.is en ekkert í Risamálheildinni. Tölurnar eru vissulega lágar en munurinn er miklu minni, og einnig rétt að hafa í huga að -stjóri er karlkynsorð.

Ég er nokkuð viss um að svipaðar niðurstöður fengjust við athugun á ýmsum samsetningum af -maður. En ég legg samt áherslu á að ég er ekki að leggja til að orðinu ökumaður verði ýtt til hliðar og kynhlutlaust orð fundið í stað þess, og ég er ekki heldur að leggja til að ökumaður verði framvegis eingöngu notað um karlmenn en lífi verði blásið í orðið ökukona og það notað í stað ökumaður um konur sem aka bílum. Ég er bara að benda á að sú tilfinning margra að orðið maður og samsetningar af því hafi sérstök tengsl við karla í huga málnotenda er ekki ímyndun eða uppspuni heldur birtist hún áþreifanlega í málnotkun fólks. Andstaða við notkun þessara orða í almennri vísun er því skiljanleg, en engin einföld leið til breytinga er í augsýn.

Fámennur kúastofn

Um daginn var hér spurt hvort til væri lýsingarorð sambærilegt við fámennur „sem nær yfir aðrar tegundir en mannskepnuna?“. Fyrirspyrjanda fannst til dæmis fámennur kúastofn ekki hljóma gáfulega, enda er rótin -menn- í seinni hluta orðsins sú sama og í orðinu maður og fámennur er skýrt 'með fáu fólki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það má samt finna dæmi um að fámennur stofn sé notað um annað en fólk. Í Þjóðviljanum 1965 segir t.d.: „þó þykir það alltaf nokkrum tíðindum sæta ef ernir sjást utan varpstöðvanna sökum þess hve fámennur stofninn er orðinn.“ Í Degi 1994 segir: „Ríkið veitir geitaeigendum styrk til að halda um 200 geitur í landinu en skyldleikaræktun skapar vandamál í svo fámennum stofni.“

Þótt þessi dæmi hljómi kannski óeðlilega í eyrum flestra eru þau í raun hliðstæð þeirri þróun sem hefur orðið í fjölda samsettra orða sem hafa slitnað að meira eða minna leyti frá uppruna sínum. Hér hefur oft verið tekið dæmi af orðinu eldhús sem er ekki lengur sérstakt hús (og oft ekki einu sinni sérstakt herbergi) og þar sem yfirleitt brennur ekki lengur eldur – orðið merkir bara 'staður þar sem matseld fer fram'. Það má alveg hugsa sér og er ekki ólíklegt að fámennur fari smátt og smátt að merkja 'með fáum einstaklingum' í stað 'með fáu fólki' og þessir einstaklingar geti verið bæði fólk og dýr, og jafnvel hlutir. Slík þróun væri hvorki einsdæmi né óeðlileg á nokkurn hátt, heldur dæmigerð fyrir það hvernig merking orða breytist iðulega.

Í umræðum var nefnt að hugsanlegt væri að tala um fáliðaðan kúastofn og þótt fáliðaður sé vissulega skýrt 'sem hefur fáa menn‘' í Íslenskri nútímamálsorðabók eru þess mörg dæmi að talað sé um fáliðaðan stofn ýmissa dýrategunda. Í umræðu um rjúpuna í Samvinnunni 1948 segir t.d. „sjálfsagt að vernda þann fáliðaða stofn, sem eftir var“. Í Tímanum 1950 segir um sama efni: „við vildum stuðla að því, að sá fáliðaði stofn, sem eftir var, fengi að vaxa upp sem fyrst.“ Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Lífið í þýzku skógunum varð þessum fáliðaða stofni þvottabjarna sannkölluð paradís.“ Í Náttúrufræðingnum 2013 segir: „Skýringin á því er líklega nátengd fátæklegri fánu og tiltölulega fáliðuðum stofnum villtra spendýra.“

Í fornu máli eru orðin fámennur og fáliðaður ekki notuð um hópa, heldur um konunga eða aðra höfðingja og vísa til herafla þeirra – „Hergeir konungur var fáliðaður“ segir t.d. í einu handriti Hálfdanar sögu Eysteinssonar en í öðru handriti segir „Hergeir konungur var fámennur“. Það er ljóst að fáliðaður er komið lengra frá uppruna sínum en fámennur en síðarnefnda orðið er þó farið að fjarlægjast upprunann nokkuð ef vel er að gáð. Það er t.d. mjög algengt að tala um fámennan hóp fólks eða fámennan hóp manna en í raun og veru ætti fámennan hóp að vera nóg ef merkingin 'maður' er innifalin í fámennur. Tíðni sambandanna fámennur hópur fólks / manna bendir til þess að tengslin við maður séu eitthvað farin að dofna í huga málnotenda.

Notum viðeigandi málsnið

Í gær var hér spurt hvort orðalagið hvert er besta lagið með … og hvað er besta lagið með … væri jafngilt. Fyrirspyrjandi sagðist hafa fengið ábendingu um að það fyrrnefnda væri réttara, en sér fyndist það einhvern veginn stífara. Í umræðum kom líka fram hjá ýmsum að þeim hefði verið kennt að nota hvert í þessu samhengi, og í Málfarsbankanum segir vissulega: „Frekar skyldi segja hvert er (vanda)málið en „hvað er (vanda)málið“.“ Fornafnið hver, sem getur bæði verið spurnarfornafn og óákveðið fornafn, hefur þá sérstöðu að af því eru til tvær mismunandi myndir í nefnifalli og þolfalli eintölu í hvorugkyni, hvert og hvað, sem hafa með sér ákveðna verkaskiptingu. Sama gildir um samsetningarnar einhver og sérhver.

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir um verkaskiptingu myndanna hvert og hvað: „Í hvorugkyni eintölu er orðmyndin hvert notuð hliðstætt, þ.e. með nafnorði: Þetta veit hvert barn. Orðmyndin hvað er notuð sérstætt: Heyrðirðu hvað hann sagði?“ Við þetta má bæta því að þegar spurnarfornafnið tekur með sér fornafn eða nafnorð í eignarfalli er notuð myndin hvert hvert þeirra / barnanna gerði þetta?, ekki *hvað þeirra / barnanna gerði þetta?. Þetta er óumdeilt og ekkert flökt á notkun myndanna í slíkum tilvikum svo að ég viti. En í dæmum eins og hvert / hvað er besta lagið með … stendur spurnarfornafnið ekki beinlínis hliðstætt með nafnorðinu lagið þótt það vísi vissulega til þess – sögnin kemur þarna á milli.

Þess vegna er ekkert óeðlilegt að sérstæða myndin hvað sé oft notuð í slíkum setningum, enda er það raunin. Svo að vitnað sé í dæmi Málfarsbankans eru rúmlega 8.700 dæmi um hvað er málið? í Risamálheildinni en aðeins 33 um hvert er málið?. Gífurleg aukning varð í notkun sambandsins hvað er málið? upp úr síðustu aldamótum og þess vegna mætti halda því fram að það sé fast (tísku)orðasamband og ekki marktækt í þessu sambandi. Hlutföllin milli hvað er vandamálið? og hvert er vandamálið? eru líka vissulega miklu jafnari, en þó eru um 390 dæmi um fyrrnefnda sambandið en 150 um það síðarnefnda. Það er því enginn vafi á því að sambönd þar sem hvað er notað í samböndum eins og hvað er besta lagið eru góð og gild íslenska.

Það táknar ekki að ábending Málfarsbankans, eða það sem fólki hefur verið kennt, sé rangt. Það er vissulega rétt að hvert er besta lagið er formlegra en hvað er besta lagið, eins og fyrirspyrjandi nefndi, og hæfir því betur við ákveðnar aðstæður, í ákveðnu samhengi. En við aðrar aðstæður og í öðru samhengi á betur við að segja hvað er besta lagið. Þetta snýst sem sé ekki um „rétt“ eða „rangt“, heldur um málsnið – að nota það orðalag sem er við hæfi hverju sinni. Það er því miður mjög algengt að fólk líti svo á – fyrir áhrif kennslu og málfarsleiðbeininga – að formlegt málsnið sé hin eina rétta íslenska en óformlegt málsnið sé rangt. Þannig er það alls ekki – vandað mál felst ekki síst í því að nota viðeigandi málsnið.

Íþróttamaður ársins

Í síðustu viku var tilkynnt um niðurstöður í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Stundum hefur titillinn verið gagnrýndur á þeim forsendum að hann sé of karllægur vegna þess að orðið maður og samsetningar af því tengist karlmönnum meira en konum í huga margra. Þetta var m.a. til umræðu hér í hópnum fyrir tveimur árum og þá birti einn hópverja svar stjórnarmanns í Samtökum íþróttafréttamanna við bréfi um þetta mál. Stjórnarmaðurinn sagði „alveg rétt að þetta mætti vera betur í takt við tímann“ og „við munum taka þetta fyrir á næsta aðalfundi hjá okkur í vor með það í huga að breyta þessu“. Mér er ekki kunnugt um hvort tillaga um breytingu kom fram, en hafi svo verið hefur henni greinlega verið hafnað.

Vitanlega er það rétt sem oft er bent á að þótt orðið maður vísi oft til karla hefur það líka almenna merkingu – vísar til tegundarinnar sem við erum öll af, karlar, konur og kvár. En það breytir því ekki að orðið hefur oft karllæga slagsíðu, ekki síst þegar það er notað um tiltekinn einstakling eins og í tilviki íþróttamanns ársins. Þetta kom vel fram í kynningu á þeim tíu sem fengu flest atkvæði í kjörinu. Í þeim hópi voru fjórir karlar og sex konur. Karlarnir voru allir kynntir með samsetningu af -maðurknattspyrnumaður (tveir), handknattleiksmaður, sundmaður. Konurnar voru hins vegar allar kynntar með samsetningu af -konaknattspyrnukona (tvær), fimleikakona, sundkona, lyftingakona, kraftlyftingakona.

Þetta er fullkomlega eðlilegt og mér hefði fundist mjög óeðlilegt og hljóma undarlega ef t.d. hefði verið talað um Ástu Kristinsdóttur fimleikamann eða Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingamann. Þess vegna hljómar óneitanlega svolítið sérkennilega að tala um Íþróttamann ársins, Glódísi Perlu Viggósdóttur knattspyrnukonu – en vitanlega hefði samt ekki gengið að kalla hana Íþróttakonu ársins. En Íþróttamaður ársins hefur verið kjörinn í nærri sjötíu ár og það er auðvitað ekki einfalt að breyta þessum titli, enda ekki augljóst hvað ætti að koma í staðinn – hugsanlega íþróttamanneskja, með vísun til þess að Rás tvö í Ríkisútvarpinu hefur undanfarin ár valið manneskju ársins í stað manns ársins eins og áður var.

Óvíst er þó að því orði yrði vel tekið – í áðurnefndu bréfi sagðist stjórnarmaður í Samtökum íþróttafréttamanna „ekki hrifinn af orðinu manneskja“ og fyndist það „bara ljótt“, en hins vegar væri hægt að finna „eitthvað annað hlutlaust“, til dæmis íþróttahetja. Orðið íþróttamanneskja hefur þó eitthvað verið notað í sambærilegum titlum, t.d. hefur „íþróttamanneskja ársins“ verið kosin nokkur undanfarin ár í Borgarbyggð og Strandabyggð, og nú hafa Fjarðabyggð og Akranes bæst í hópinn og e.t.v. fleiri sveitarfélög. Hugsanlegt er að þessi notkun breiðist út þótt mér finnist orðið íþróttamanneskja ekki að öllu leyti heppilegt. Ég tel samt æskilegt að reynt verði að finna titil sem ekki er jafn karllægur og íþróttamaður ársins óneitanlega er.

Að búa ekki yfir snefil/snefli af gæsku

Orðið snefill er ekki ýkja algengt en þó vel þekkt og einkum notað með neitun, í sambandinu ekki snefill sem skýrt er 'ekki vottur af e-u, ekki vitundarögn' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þótt það komi langoftast fyrir í nefnifalli eða þolfalli ættu önnur föll ekki að valda vandkvæðum, enda liggur beint við að beygja orðið eins og vel þekkt og algeng orð með sömu stofngerð svo sem hefill og trefill sem eru hefli og trefli í þágufalli eintölu. Þess vegna fannst mér áhugavert þegar ég rakst á orðalagið „láta eins og þau byggju yfir snefil af gæsku“ í nýrri skáldsögu. Sambandið búa yfir tekur venjulega með sér þágufall, en þarna er notuð þolfallsmyndin snefil í stað snefli sem búast mætti við út frá beygingu hliðstæðra orða.

Við nánari athugun kom í ljós að þetta er ekki einsdæmi. Í athugasemd við orðið í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Orðið er mjög sjaldséð í þágufalli en orðmyndunum snefli og snefil bregður fyrir.“ Á tímarit.is eru rúm 40 dæmi um snefli, t.d. „Hljómsveitin býr ekki yfir snefli af kunnáttu“ í Tímanum 1977. Erfitt er að leita að dæmum um að myndin snefil sé notuð í þágufalli en það virðist a.m.k. jafnalgengt – nefna má að fjögur dæmi eru um búa (ekki) yfir snefil en þrjú um búa (ekki) yfir snefli. Það kemur á óvart að snefill skuli þannig haga sér á annan hátt en önnur karlkynsorð með hljóðasambandið -efill í stofni sem öll virðast fá -efli í þágufalli – grefill, refill, skefill, Hnefill o.fl., auk hefill og trefill.

Hér er nauðsynlegt að athuga að töluverð breyting verður á stofni þessara orða í þágufalli eintölu (og allri fleirtölunni, í þeim orðum þar sem hún er notuð). Áherslulausa sérhljóðið i í viðskeytinu -ill fellur brott þegar beygingarending hefst á sérhljóði – trefil+i verður ekki *trefili, heldur trefli. Þetta er regla sem gildir undantekningarlítið um sérhljóðin a, i og u í áhersluleysi, sbr. hamar+i > hamri, jökul+i > jökli. En þegar i fellur brott úr sambandinu -efil leiðir það til þess að f (sem er borið fram v milli sérhljóða) og l standa saman, og sambandið fl inni í orðum eða í lok orða er ævinlega borið fram bl tefla og afl er borið fram tebla og abl. Þess vegna segjum við trebli og treblar þótt við berum fram v í trefill, trefil og trefils.

Við lærum þessar stofnbreytingar áreynslulaust á máltökuskeiði og hugsum ekkert út í þær þegar við notum algeng orð eins og hefill og trefill. En almennt séð viljum við helst halda stofni orða sem mest óbreyttum í öllum beygingarmyndum og þess vegna geta hljóðbreytingar af þessu tagi truflað okkur þegar um er að ræða sjaldgæfar myndir. Sú virðist vera raunin með orðið snefill sem er langoftast notað í þolfalli og þágufalli eins og áður segir. Þegar við þurfum að nota þágufallið eigum við það því ekki „á lager“ ef svo má segja, heldur þurfum að búa það til í samræmi við þær reglur sem við kunnum. Það þýðir að við förum að hugsa út í það, og þá tökum við eftir því hversu miklar breytingar þarf að gera á stofninum í myndinni snefli.

Það er hægt að forðast myndina snefli með því að sleppa því að bæta við -i í þágufalli. Það er í sjálfu sér ekki andstætt málkerfinu – þótt meginhluti sterkra karlkynsorða fái að vísu -i í þágufalli eintölu er líka mikill fjöldi orða endingarlaus í því falli. En ef endingunni er ekki bætt við verður ekki neitt brottfall úr stofninum og við fáum myndina snefil – sem er eins og þolfallsmyndin en samt góð og gild þágufallsmynd. Með þessu móti er hægt að forðast myndina snefli sem vissulega hljómar nokkuð framandi. Orðið er aldrei notað í fleirtölu en ef við þyrftum á fleirtölunni að halda gætum við ekki leyst málið á sama hátt – þar er enginn annar kostur en nota endingar sem hefjast á sérhljóði og fá út *sneflar, borið fram sneblar.

Það er ekkert einsdæmi að reynt sé að forðast myndir með hljóðbreytingum í stofni. Orðanefnd Verkfræðingafélags Íslands vildi t.d. fremur nota veiku myndina rafali sem þýðingu á elektrisk generator en sterku myndina rafall. Ástæðan virðist hafa verið sú að nefndin vildi forðast fleirtöluna raflar sem væri borið fram rablar og nota fremur rafalar. Það er líka sagt að þegar stofnun fyrirtækis til að standa að gerð Hvalfjarðarganga var í undirbúningi hafi flestum litist vel á heitið Spölur – þangað til fólk áttaði sig á því að það ætti að vera Speli í þágufalli en sú mynd var nær óþekkt fram að því og hljómaði mjög framandi í upphafi. En hún vandist þó fljótt og nú man fólk tæpast eftir því að hún hafi nokkurn tíma þótt undarleg.

Systerni

Um daginn var hér spurt hvort til væri eitthvert kvenlægt orð sem samsvaraði orðinu bróðerni systerni er „eitthvað skrítið“ sagði fyrirspyrjandi. Í umræðum var minnt á orð eins og systralag og systraþel sem vissulega eru til í málinu þótt þau séu ekki mjög algeng og finnist ekki í almennum orðabókum, en einnig var bent á að bróðerni ætti ekkert síður við um konur en karla – skýring þess í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'gott samkomulag, vinsemd'. En það sýnir einmitt að orðin systralag og systraþel, svo ágæt sem þau eru, samsvara alls ekki bróðerni því að þau eru eingöngu notuð um konur að því er virðist. Væntanlega er verið að spyrja um orð sem hefur almenna merkingu en er laust við þann karllæga blæ sem bróðerni óneitanlega hefur.

Orðið systerni hljómar vissulega frekar ókunnuglega og er ekki í almennum orðabókum frekar en systralag og systraþel en það er þó til í málinu – á tímarit.is eru tíu dæmi um orðið, það elsta í Heimskringlu 1888. Í Skírni 1909 segir: „Það er systerni á milli nýnorðrænu málanna, t. d. norsku og sænsku.“ Þetta er í grein eftir Jóhannes L. L. Jóhannsson sem var málfræðingur (þó ekki lærður) og mikill málvöndunarmaður. Í Tímanum 1959 segir: „Eiginkonur Brútusar og Cæsars fá sér kaffisopa í systerni eftir víg Cæsars.“ Í Veru 1995 segir: „Þetta fór auðvitað fram í mesta systerni, eins og venjan er í Kvennalistanum.“ Dómur um tónleika fjögurra sópransöngkvenna í Lesbók Morgunblaðsins 2009 ber fyrirsögnina „Í ferauknu systerni“.

Viðskeytið -erni kemur fyrir í ýmsum orðum, m.a. skyldleikaorðunum faðerni, móðerni og bróðerni. Orðið systerni er myndað á sama hátt og ekkert við það að athuga frá orðmyndunarlegu sjónarmiði – það þarf bara að venjast því. Hins vegar er spurning hvað fólk vill láta það merkja. Í dæmunum sem tilfærð eru hér að framan, og öðrum dæmum sem ég hef fundið, hefur það augljóslega ekki almenna vísun heldur vísar til kvenna (eða kvenkynsorða eins og tungumálaheita) og er þar með ekki samsvörun við bróðerni. En vegna þess hversu sjaldgæft orðið er hefur sú merking ekki unnið sér hefð og því væri vel hægt að taka orðið upp í almennri merkingu og nota það um fólk af öllum kynjum – eins og bróðerni.

Jólatréssala

Þessa dagana glymja auglýsingar um jólatrjáasölu í útvarpinu. Auðvitað er ekkert við það orð að athuga, en til skamms tíma var myndin jólatréssala þar sem fyrri liðurinn er í eintölu þó miklu algengari. Sú mynd virðist líka vera eldri í málinu þótt ekki muni miklu – elsta dæmi um hana á tímarit.is er frá 1948, en elsta dæmi um þá fyrrnefndu frá 1953. Dæmin um jólatréssala eru nærri þrisvar sinnum fleiri en um jólatrjáasala og það var ekki fyrr en eftir aldamót sem dæmum um síðarnefndu myndina fór að fjölga. Árið 2012 sigldi hún fram úr fyrrnefndu myndinni og á árunum 2010-2019 eru dæmin um jólatrjáasala nærri helmingi fleiri en um jólatréssala. Í Risamálheildinni eru dæmin um myndirnar álíka mörg.

Eina hugsanlega skýringin sem ég sé á þessari auknu notkun myndarinnar jólatrjáasala á kostnað jólatréssala er misskilin málvöndun – að fólk telji síðarnefndu myndina „órökrétta“ vegna þess að verið sé að selja fleiri en eitt tré. Slíkar athugasemdir má víða finna í málfarshópum og athugasemdadálkum, þrátt fyrir að Málfarsbankinn segi: „Bæði orðin jólatréssala og jólatrjáasala eru rétt mynduð.“ Það er nefnilega alls ekki alltaf þannig að tala fyrri liðar í samsettu orði endurspegli fjölda þess sem um er rætt. Þetta hefur oft verið hér til umræðu og um það má nefna ótal dæmi, svo sem rækjusamloka, perutré, stjörnuskoðun, nautalund, lambalæri, nýrnagjafi o.s.frv. Myndin jólatréssala er alveg hliðstæð við þessi orð.