Í nýrri skáldsögu sem ég var að lesa rakst ég á setningu sem byrjaði á „Einhvern veginn hófst það samt“. Af samhenginu var ljóst að merkingin er þarna 'klárast, takast' eins og miðmyndin hafast er skýrð í Íslenskri nútímamálsorðabók. Venjuleg þátíð hennar er hins vegar ekki hófst heldur hafðist eins og sést á notkunardæminu það gekk erfiðlega að ná skipinu af strandstað en hafðist þó. Myndin hófst er þátíð af miðmyndarsögninni hefjast sem er skýrð 'fara í gang, byrja' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en sú merking átti augljóslega ekki við í umræddu dæmi. Þarna er því tveimur sögnum blandað saman en við nánari athugun kom í ljós að það er ekki einsdæmi og ekki alveg nýtt – stundum er reyndar ekki alveg ljóst hvor merkingin er lögð í sambandið.
Elsta örugga dæmi sem ég fann í fljótu bragði er á Bland.is 2003: „Það hófst að lokum og hann elskaði mjólkina sína.“ Í Bæjarins besta 2005 segir: „Það var dálítið basl að fá grasið á þakinu til þess að vaxa en það hófst á endanum.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var erfið fæðing hjá okkur en þetta hófst að lokum.“ Í Bæjarins besta 2007 segir: „En það hófst að lokum.“ Í blaðinu 2007 segir: „Það tók mig svolítinn tíma að sannfæra hann um að taka þátt í þessu, en það hófst á endanum.“ Í Bjarma 2010 segir: „Það gekk ekki vandræðalaust að raða hópnum í tvo báta og leggja af stað, en það hófst að lokum.“ Í Víkurfréttum 2011 segir: „En þetta hófst að lokum.“ Í Fréttablaðinu 2014 segir: „Þetta hófst á endanum og er ótrúlega gaman.“
Það er slæðingur um þessa merkingu í hófst á tímarit.is og tugir eða hundruð dæma á samfélagsmiðlum þannig að ljóst er að þessi notkun hefur verið að breiðast út undanfarinn aldarfjórðung eða svo. Þótt sagnirnar séu eiginlega andstæðrar merkingar er breytingin skiljanleg út frá nútíðarbeygingu þeirra sem fellur saman í framsöguhætti eintölu – ráða verður af samhengi hvort þetta hefst örugglega í dag merkir ‘það tekst örugglega að ljúka þessu í dag’ eða ‘þetta byrjar örugglega í dag’. Þetta samfall getur ruglað málnotendur í ríminu og valdið því að sagt er t.d. þetta hófst á endanum í staðinn fyrir þetta hafðist á endanum. En eins og við er að búast gengur þetta ekki bara í aðra áttina – þátíðin hafðist er líka stundum notuð í stað hófst.
Þetta sést einkum í sambandinu hefjast handa. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Heimskringlu 1905 – „hjá því gat ekki farið að almenningur […] hefðist handa að lokum.“ Í Verkamanninum 1919 segir: „Reyndar væri eðlilegast að læknarnir hefðust handa í þessu máli.“ Í Morgunblaðinu 1920 segir: „Ef nú ætti að reyna að halda slíkt mót í sumar, þá þarf fljótt að hafast handa.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „Þeir höfðust handa um þetta fyrir fáum árum.“ Alls eru á annað hundrað dæmi um þetta á tímarit.is en aðeins tæp þrjátíu í Risamálheildinni þannig að það virðist ekki fara í vöxt. En þótt þessi blöndun sagnanna sé skiljanleg vegna samfalls nútíðarmynda í eintölu er samt æskilegt að virða málhefð og halda beygingu þeirra aðgreindri.

+354-861-6417
eirikurr