Sögnin spotta er skýrð 'hæðast að (e-m), gera gys að (e-m)' í Íslenskri nútímamálsorðabók og það var eina merking hennar til skamms tíma, en það er nú gerbreytt. Á Facebook er t.d. hópur með nærri 25 þúsund félögum sem heitir „Spottaði kött“ og hefur þann tilgang að „safna saman myndum og tilkynningum um að köttur hafi verið spottaður“. Það þarf ekki að skoða mörg innlegg til að sjá að spottaður merkir þarna ekki 'hæddur' heldur vísar til þess að köttur hafi sést eða fundist. Sögnin spotta merkir þarna sem sé 'koma auga á, bera kennsl á' eða eitthvað slíkt og nokkuð augljóst að sú merking hennar er komin úr ensku. Hin nýja merking virðist hafa komið inn í málið upp úr 1990 þótt stundum sé vissulega erfitt að fullyrða um merkinguna.
Þannig segir í erindi úr Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson sem birtist í Eintaki 1993: „Ég var fegurðardrottning hér fyrrum / og fríðari engin var, / þangað til spakvitur spegill / spottaði hrukkurnar.“ Hér getur merkingin samhengisins vegna verið bæði 'hæddist að' og 'kom auga á'. En ótvíræð dæmi um nýja merkingu eru til frá svipuðum tíma. Í Morgunblaðinu 1993 segir: „Ykkur tekst aldrei að spotta okkur út.“ Í Sjómannablaðinu Víkingi 1994 segir: „Ég hafði ekki séð þær margar þennan tíma sem ég dvaldi á Hafnarkránni, eina hafði ég þó spottað við innkomuna innan um glaðværa karlmenn við hornborð.“ Í DV 1998 segir: „Að vísu vorum við fyrst í Límbandinu sem entist bara tvær æfingar en þar spottaði ég Kristínu.“
Dæmum um nýju merkinguna fjölgar svo mjög ört upp úr aldamótum, einkum eftir 2005, en að sama skapi hefur eldri merkingin hörfað. Ekki verður betur séð en að í langflestum dæmum frá síðustu tíu árum eða svo, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni, hafi sögnin nýju merkinguna. Hún kemur líka oft fyrir í sambandinu spotta út sem samsvarar spot out í ensku og merkir þá ekki beint 'koma auga á' heldur 'sigta út sem hugsanlega bráð' – í víðum skilningi. Á Bland.is 2004 segir: „Ég er búin að spotta út dagmóður sem er nálægt vinnunni minni.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Ég held að […] hafi spottað mig út þannig þegar hann byrjaði að kenna mér.“ Í mbl.is 2018 segir: „svo erum við búin að spotta út nokkur lið sem okkur langar að vinna.“
Nafnorðið spott er talið skylt sögninni spýta og upphafleg merking þess vera 'spýting' sem er tákn lítilsvirðingar. Sögnin spotta er leidd af spott og merkingin 'hæða' skiljanleg út frá þessu. Enska nafnorðið spot merkir upphaflega 'blettur' og samhljóma sögn 'merkja eða óhreinka með blettum'. Merkingin 'koma auga á og bera kennsl á' vísaði upphaflega til þeirra sem höfðu verið „merktir“ á einhvern hátt („blettaðir“) sem glæpamenn eða grunaðir, en á nítjándu öld fékk sögnin þá almennu merkingu sem hún hefur í nútíma ensku – og hefur fengið í íslensku. Þótt ný merking spotta í íslensku virðist gerólík eldri merkingu hennar er því í raun um sömu sögn að ræða, sem hefur þróast á ákveðinn hátt í ensku og sú merking verið tekin upp í íslensku.
Sögnin spotta fellur vitanlega jafnvel að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins í nýju merkingunni og þeirri eldri og ekki hægt að amast við henni á þeim forsendum. Það eru líka ótal dæmi um að samhljóma og óskyld orð hafi mismunandi merkingar og ekki heldur hægt að fordæma nýju merkinguna á þeim forsendum að spotta hafi aðra merkingu fyrir. Vissulega er óheppilegt að í einstöku tilvikum getur leikið vafi á því hvor merkingin á við, en oftast sker samhengið þó úr. Auðvitað er samt hægt að amast við hinni nýju merkingu sagnarinnar spotta á þeirri forsendu að hún sé komin úr ensku en í ljósi þess að um sameiginlegan uppruna virðist vera að ræða er þó tæpast ástæða til harðrar baráttu gegn nýju merkingunni, enda ljóst að hún hefur þegar sigrað.

+354-861-6417
eirikurr