Posted on

Þetta hófst að lokum – eða hafðist það?

Í nýrri skáldsögu sem ég var að lesa rakst ég á setningu sem byrjaði á „Einhvern veginn hófst það samt“. Af samhenginu var ljóst að merkingin er þarna 'klárast, takast' eins og miðmyndin hafast er skýrð í Íslenskri nútímamálsorðabók. Venjuleg þátíð hennar er hins vegar ekki hófst heldur hafðist eins og sést á notkunardæminu það gekk erfiðlega að ná skipinu af strandstað en hafðist þó. Myndin hófst er þátíð af miðmyndarsögninni hefjast sem er skýrð 'fara í gang, byrja' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en sú merking átti augljóslega ekki við í umræddu dæmi. Þarna er því tveimur sögnum blandað saman en við nánari athugun kom í ljós að það er ekki einsdæmi og ekki alveg nýtt – stundum er reyndar ekki alveg ljóst hvor merkingin er lögð í sambandið.

Elsta örugga dæmi sem ég fann í fljótu bragði er á Bland.is 2003: „Það hófst að lokum og hann elskaði mjólkina sína.“ Í Bæjarins besta 2005 segir: „Það var dálítið basl að fá grasið á þakinu til þess að vaxa en það hófst á endanum.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var erfið fæðing hjá okkur en þetta hófst að lokum.“ Í Bæjarins besta 2007 segir: „En það hófst að lokum.“ Í blaðinu 2007 segir: „Það tók mig svolítinn tíma að sannfæra hann um að taka þátt í þessu, en það hófst á endanum.“ Í Bjarma 2010 segir: „Það gekk ekki vandræðalaust að raða hópnum í tvo báta og leggja af stað, en það hófst að lokum.“ Í Víkurfréttum 2011 segir: „En þetta hófst að lokum.“ Í Fréttablaðinu 2014 segir: „Þetta hófst á endanum og er ótrúlega gaman.“

Það er slæðingur um þessa merkingu í hófst á tímarit.is og tugir eða hundruð dæma á samfélagsmiðlum þannig að ljóst er að þessi notkun hefur verið að breiðast út undanfarinn aldarfjórðung eða svo. Þótt sagnirnar séu eiginlega andstæðrar merkingar er breytingin skiljanleg út frá nútíðarbeygingu þeirra sem fellur saman í framsöguhætti eintölu – ráða verður af samhengi hvort þetta hefst örugglega í dag merkir ‘það tekst örugglega að ljúka þessu í dag’ eða ‘þetta byrjar örugglega í dag’. Þetta samfall getur ruglað málnotendur í ríminu og valdið því að sagt er t.d. þetta hófst á endanum í staðinn fyrir þetta hafðist á endanum. En eins og við er að búast gengur þetta ekki bara í aðra áttina – þátíðin hafðist er líka stundum notuð í stað hófst.

Þetta sést einkum í sambandinu hefjast handa. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Heimskringlu 1905 – „hjá því gat ekki farið að almenningur […] hefðist handa að lokum.“ Í Verkamanninum 1919 segir: „Reyndar væri eðlilegast að læknarnir hefðust handa í þessu máli.“ Í Morgunblaðinu 1920 segir: „Ef nú ætti að reyna að halda slíkt mót í sumar, þá þarf fljótt að hafast handa.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „Þeir höfðust handa um þetta fyrir fáum árum.“ Alls eru á annað hundrað dæmi um þetta á tímarit.is en aðeins tæp þrjátíu í Risamálheildinni þannig að það virðist ekki fara í vöxt. En þótt þessi blöndun sagnanna sé skiljanleg vegna samfalls nútíðarmynda í eintölu er samt æskilegt að virða málhefð og halda beygingu þeirra aðgreindri.

Posted on

Hvað merkir „fara á svig við alþjóðalög“?

„Aðgerðir Bandaríkjamanna í Caracas, höfuðborg Venesúela, í nótt fóru á svig við þjóðarrétt og alþjóðalög að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra“ segir á mbl.is. En hvað merkir fara á svig við? Í fornu máli hafði sambandið bókstaflega merkingu, 'sveigja hjá, krækja fyrir' og í Íslenskri orðabók er ganga á svig við eitthvað skýrt 'fara í sveig fram hjá e-u, forðast e-ð' – sama máli gegnir um Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924 þar sem fara, ganga á svig við eitthvað er skýrt 'gaa uden om, søge at undgaa n-t'. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er eingöngu gefin yfirfærð merking sambandsins og nokkuð afdráttarlaus – þar er beinlínis sagtfara á svig við sannleikann merki 'segja ekki satt'.

Bókstafleg merking sambandsins var ennþá algeng á nítjándu öld – í Ísafold 1894 segir: „Þýzku hersveitirnar gengu tvöfalt og þrefalt á við hinar frönsku, […], fóru á svig við þær í langa króka og langt fram úr þeim.“ Í Dagskrá 1896 segir: „Við göngum á svig við tvo þrjá bestu veiðistaðina.“ En yfirfærð merking tíðkaðist einnig á þessum tíma – í Austra 1897 segir: „Það þarf til þess höfuð og hjarta í óvilhöllum manni, sem ekki er hræddur við að halda uppi lögunum, og lætur ekki múta sér til þess að fara á svig við þau.“ Í Þjóðólfi 1898 segir: „Er veiting þessi ný sönnun þess, hvernig stjórnin gengur á svig við menntastofnanirnar hér heima.“ Þarna er ljóst að fara á svig við merkir ‚sniðganga, líta fram hjá, taka ekki mark á‘.

Þegar talað er um að fara á svig við lög er stundum átt við að nýta sér einhverjar gloppur í lögum, ganga gegn anda laganna eða eitthvað slíkt. En oftast er samt beinlínis um það að ræða að lög eru brotin og þannig er það í þessu tilviki. Ég hef lesið færslur virtra lögfræðinga sem eru sammála um að aðgerðir Bandaríkjamanna í Venesúela séu skýrt brot á alþjóðalögum. Þá er spurningin hvaða merkingu utanríkisráðherra leggur í sambandið fara á svig við alþjóðalög. Á hún við að aðgerðirnar gangi gegn anda laganna, eða telur hún að alþjóðalög hafi verið brotin en veigrar sér við að segja það og notar þess í stað sambandið fara á svig við alþjóðalög sem eins konar skrauthvörf? Við eigum kröfu á að ráðafólk tali skýrt í alvarlegum aðstæðum.

Posted on

Að taka sér göngutúr

Í nýlegu innleggi í „Málvöndunarþættinum“ sagðist höfundur hafa heyrt ungling segja ég tók mér göngutúr í staðinn fyrir ég fór í göngutúr sem höfundur sagðist alltaf segja. Hann sagðist aldrei hafa heyrt þetta orðalag áður en vita að það væri „tekið upp úr amerísku“ en á breskri ensku væri það I had a walk sem væri ég fékk mér göngutúr á íslensku. Vissulega er sagt I took a walk í ensku, frekar amerískri en breskri, en þýðir það endilega að ég tók mér göngutúr sé komið úr ensku – og þótt svo væri, er það næg ástæða til að amast við því? Og hvað þá með ég fékk mér göngutúr – bendir eitthvað til þess að það orðasamband sé undir breskum áhrifum? Sögnin er önnur, en ekki hafa sem væri bein yfirfærsla, þótt vissulega merki have oft 'fá sér'.

En því fer fjarri að orðalagið taka sér göngutúr sé nýtt í íslensku. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Gjallarhorninu 1903: „við skulum taka okkur dálítinn göngutúr úti undir berum himni.“ Þetta dæmi, og annað í sama blaði ári síðar, er úr þýddri sögu og vitanlega gæti frumtextinn hafa haft áhrif á orðalagið, og sama gildir um nokkur dæmi úr vesturíslensku blöðunum sem ég sleppi að tilfæra. En það eru líka til fjölmörg gömul dæmi um orðalagið í textum frumsömdum á íslensku. Í Norðra 1912 segir: „Hann hafði tekið sér göngutúr einn úti.“ Í Alþýðublaðinu 1921 segir: „Ef þú, lesari góður, vilt taka þér göngutúr og hrista af þér miðbæjarrykið.“ Í Íþróttablaðinu 1928 segir: „Taki maður sér t.d. göngutúr snemma morguns um götur bæjarins.“

Sambandið fá sér göngutúr virðist vera álíka gamalt. Í Frækorni 1909 segir: „Hann fékk sér göngutúr til að hugsa um, hvað hann skyldi gera.“ Í Vísi 1911 segir: „Þessvegna legg jeg bókina frá mjer á milli og fæ mjer göngutúr úti í skóginn.“ Í Vísi 1913 segir: „Hvað er gagnlegra en að fá sjer „göngutúr“ suður í Sundskála.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Og vart mun höfuðstaðarbúum annað hollara en fá sér göngutúr á fögru sumarkveldi.“ Um þetta samband gildir svipað, að mörg dæmi eru úr þýðingum, en sum einnig úr textum frumsömdum á íslensku. Einnig er talað um að ganga sér göngutúr – „Eg geng mér göngutúr á hverju kvöldi“ segir í Gjallarhorninu 1911; „þá gekk hann […] langan göngutúr“ segir í Læknablaðinu 1916.

Sögnin fara sést ekki með göngutúr fyrr en í Þrótti 1919: „Til þess að prófa nýtízkuferðalag fór eg […] þriggja daga göngutúr í sumar.“ En það samband sem nú er algengast, fara í göngutúr, kemur fyrst fyrir í Verkamanninum 1928: „A. fer í göngutúr út úr bænum kl. 9 í fyrramálið.“ Í Ljósberanum 1932 segir: „eldri börnin áttu að fá að fara í göngutúr langt út í skóg.“ Í Ungherjanum 1936 segir: „Á sumrin […] er oft farið í göngutúra og skógartúra á sunnudögum.“ Ef marka má tímarit.is virðist þetta samband ekki hafa orðið ýkja algengt fyrr en eftir 1980 þegar tíðni þess margfaldast á fáum árum. Sambandið fá sér göngutúr hefur verið algengt allan tímann, en taka sér göngutúr var fremur sjaldgæft á seinni hluta tuttugustu aldar.

Í Risamálheildinni sem sýnir málnotkun á tuttugustu og fyrstu öld er fara í göngutúr langalgengasta sambandið – um það eru meira en níu þúsund dæmi. Dæmin um fá sér göngutúr eru tæplega 1350, og um taka sér göngutúr rúm 950. Það er margfalt hærra hlutfall en á tímarit.is og bendir til þess að notkun sambandsins fari mjög í vöxt en talsverður meirihluti dæma um það er úr óformlegu máli samfélagsmiðla. Það er sem sé ljóst að taka sér göngutúr er a.m.k. 120 ára gamalt í málinu og þótt það kunni að vera tilkomið fyrir áhrif þýðinga hefur það auðvitað unnið sér hefð í íslensku. Hitt er líka nokkuð ljóst að aukna notkun þess á síðustu árum má rekja til enskra áhrifa – er það næg ástæða til að amast við því? Þið metið það bara.

Posted on

Vörutalningardagurinn

Annar janúar er einn þeirra daga sem hafa óopinbert heiti í óformlegu máli – hann er stundum kallaður vörutalningardagurinn. Þetta orð sést fyrst á prenti um þennan dag í Morgunblaðinu 1961: „Síðan kemur sunnudagur, svo nýársdagur  og þá vörutalningardagur, og verzlanir ekki opnaðar fyrr en þriðja janúar.“ Þarna er þetta þó augljóslega aðeins skilgreining eða lýsing á deginum en ekki heiti sambærilegt við þrettándinn eða eitthvað slíkt. Orðið varð ekki heiti þessa dags fyrr en eftir að Jón Gnarr notaði það í uppistandi sínu, „Ég var einu sinni nörd“, árið 1998. Þar lýsti hann því hvernig það hefði verið að eiga afmæli annan janúar þegar hafði gleymst að kaupa afmælisgjöf og allar verslanir voru lokaðar vegna þess að það var vörutalningardagur.

Jón notaði orðið líka sem lýsingu, án greinis, en upp úr þessu var farið að bæta á það greini og nota það sem heiti á deginum. Á Bland.is 2004 segir: „Ég á afmæli á vörutalningardaginn.“ Á Hugi.is 2007 segir: „Það er 2. janúar, betur þekktur sem vörutalningardagurinn.“ Í Austurglugganum 2013 segir: „Sjálf á ég afmæli á „vörutalningardaginn“ – 2. janúar.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2014 segir: „Gamli góði vörutalningardagurinn stendur fyrir sínu.“ Á twitter 2015 segir: Gleðilegan vörutalningardag kæru landsmenn!“ Á mbl.is 2019 segir: „Svo er ég ekta steingeit, enda fædd 2. janúar, á sjálfan vörutalningardaginn.“ Í Viðskiptablaðinu 2022 segir: „enda kemur hópurinn ekki saman fyrr en á sjálfan vörutalningardaginn, 2. janúar.“

Það er hátt á þriðja tug dæma um orðið í Risamálheildinni, flest af samfélagsmiðlum og meirihlutinn frá síðustu árunum 2013-2023. Það er skondið að heitið vörutalningardagurinn kom fyrst fram um þær mundir sem það var að verða úrelt – vegna strikamerkinga og rafrænnar skráningar á öllum vörum er það liðin tíð að verslanir séu lokaðar vegna vörutalningar annan janúar. Orðið hefur samt þótt fyndið og þess vegna komist í nokkra notkun, a.m.k. tímabundið. Mér sýnist þó að dregið hafi úr notkun þess á allra síðustu árum, e.t.v. vegna þess að yngra fólk man ekki eftir lokunum verslana vegna vörutalningar og tengir orðið því ekki við neitt. Líklega verður þetta eitt þeirra fjölmörgu orða sem eru aðeins notuð í stuttan tíma og hverfa svo.

Posted on

Málfarsfordómar í áramótaskaupi

Áður fyrr – og ekki fyrir mjög löngu – tíðkaðist og þótti sjálfsagt og eðlilegt að gera grín að fólki og hæðast að því vegna holdafars, fötlunar, þroskaskerðingar, geðröskunar, kynhneigðar, hörundslitar, trúarbragða og fleiri einkenna. Þetta er því miður allt til ennþá í þjóðfélaginu en er sem betur fer að mestu horfið af opinberum vettvangi – við vitum flest að þetta er ekki við hæfi. Það er eðlilegt að gera sérstakar kröfur til almannaútvarpsins, Ríkisútvarpsins, hvað þetta varðar og sérstaklega alvarlegt ef fordómar af þessu tagi koma þar fram. En jafnvel í Ríkissjónvarpinu virðist ein sambærileg tegund fordóma þó enn þykja eðlileg og sjálfsögð – og fyndin. Það eru málfarsfordómar þar sem gert er grín að tilteknum einkennum á máli fólks.

Áberandi fólk í þjóðlífinu verður að láta sér lynda að gert sé grín að skoðunum þess og athöfnum. En það á ekki að líðast – sérstaklega ekki í Ríkissjónvarpinu – að hæðst sé að fólki vegna málfars eins og gert var í upphafsatriði áramótaskaupsins í gær, og þá skiptir engu máli hvort um er að ræða mennta- og barnamálaráðherra eða einhvern annan. Þarna voru ráðherranum lögð í munn ýmis frávik frá viðurkenndu máli – sum þeirra hafa vissulega komið fram í máli hans en önnur alls ekki, og sum eru ekki eðlilegt mál nokkurra sem eiga íslensku að móðurmáli svo að ég viti. Þið getið kallað mig húmorslausan ef þið viljið, en mér fannst þetta ekki fyndið – og ekki bara það: Mér fannst þetta ósmekklegt, óviðeigandi og beinlínis ljótt.

Það er enginn vafi á því að menntamálaráðherra talar eðlilega íslensku – sömu íslensku og tugir þúsunda annarra sem eiga íslensku að móðurmáli. Fólk getur haft þá skoðun fyrir mér að sum einkenni á máli hans falli undir „rangt mál“ sem beri að forðast. Fólk getur líka haft þá skoðun fyrir mér að maður sem talar á þann hátt eigi ekki að vera menntamálaráðherra. Ég er ósammála hvoru tveggja en það er ekki málið – aðalatriðið er að þótt fólk hafi þessar skoðanir gefur það engum leyfi til að hæðast að málfari ráðherrans. Til að setja þetta í samhengi má nefna að við getum haft þá skoðun að óæskilegt og óheilbrigt sé að fólk sé í yfirþyngd, en það gefur okkur ekki leyfi til að vera með opinbera fitufordóma. Þetta er alveg sambærilegt.

Það er nauðsynlegt að við áttum okkur á að fordómar gagnvart því málfari sem fólk hefur alist upp við, og er því eðlilegt, eru engu betri en þeir fordómar sem nefndir voru í upphafi. Þess vegna er óviðunandi að gert sé opinbert grín að málfari fólks og upphafsatriði áramótaskaupsins – þáttar sem mestöll þjóðin horfir á – var handritshöfundum og Ríkisútvarpinu til minnkunar. En kannski var ekki við öðru að búast, miðað við það sem einn handritshöfunda sagði í Vikunni hjá Gísla Marteini á þriðjudagskvöldið að hefði vantað á síðasta ári til að gera grín að. Höfum það nú áramótaheit okkar að hætta að hæðast að málfari fólks á opinberum vettvangi og temja okkur virðingu gagnvart öðru fólki og einkennum þess, hvort sem er í málfari eða öðru.

Posted on

Gaml(a)ársdagur

Í dag er gamlársdagur – eða er kannski gamlaársdagur? Um það eru skiptar skoðanir. Í Íslenskri stafsetningarorðabók sem er á vegum Íslenskrar málnefndar og verður að teljast eins konar hæstiréttur um stafsetningu er aðeins fyrrnefnda myndin gefin, og sama gildir um Réttritunarorðabók handa grunnskólum sem Baldur Jónsson ritstýrði og Námsgagnastofnun og Íslensk málnefnd gáfu út 1989. Í Íslenskri orðabók, 3. útgáfu 2002, eru hins vegar báðar myndir gefnar án þess að gert sé upp á milli þeirra og í Stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar sem var síðast gefin út 1994 segir: „gamlársdagur eða gamlaársdagur, rétt, að hver riti eftir sínum framburði.“ Allt það sama gildir vitanlega um gamlárskvöld eða gamlaárskvöld.

Orðin gaml(a)ársdagur og gaml(a)árskvöld koma ekki fyrir í fornu máli. Í Sturlungu er talað um „átta aptan jóla“ sem merkir 'kvöldið fyrir áttunda dag jóla', þ.e. gamlárskvöld, eftir því sem Pétur Sigurðsson segir í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta. Árni Björnsson segir í Sögu daganna að áður fyrr hafi dagurinn yfirleitt verið „kenndur við Sylvester páfa sem þá á sér messudag, eða nefndur síðasti dagur ársins, dagurinn fyrir nýársdag eða annað í þeim dúr“. Hann segir að gamlárskvöld sjáist ekki í rituðu máli fyrr en 1791 og gamlársdagur ekki fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1862, en reyndar má finna nokkur aðeins eldri dæmi um myndina gamlaársdagur – það elsta í Þjóðólfi 1855. Svo er líka til myndin gaml(a)ársdagskvöld.

Ritháttur þessara orða hefur lengi vafist fyrir fólki. Fyrir sextíu árum benti Davíð Oddsson (síðar forsætisráðherra) á það í háðskri grein í Skólablaði Menntaskólans í Reykjavík að kennarar þar teldu gamlaársdagur hinn eina rétta rithátt þrátt fyrir að uppflettirit ýmist viðurkenndu hvort tveggja eða hefðu aðeins gamlársdagur. Væntanlega endurspeglar rithátturinn gamlaársdagur/-kvöld myndun orðanna – um er að ræða lýsingarorð í veikri beygingu á undan nafnorði, gamla+ár, sem myndar svo eignarfallssamsetningu með dagur/ kvöld. Það er mjög eðlilegt að a falli niður í framburði á undan sérhljóði. Hliðstæðar tvímyndir eru t.d. til í örnefnunum Litl(a)holt og Mikl(a)holt þótt seinni hluti hefjist þar ekki á sérhljóði.

Ég efast um að gamlaársdagur, með a, sé algengur framburður – allavega hefur rithátturinn gamlársdagur, án a, alla tíð verið mun algengari en hinn þótt hann gangi í raun í berhögg við þá meginreglu stafsetningar að fara eftir uppruna orða (alltaf er t.d. ritað Elliðaár þótt a-ið sé líklega sjaldnast borið fram). Rithættinum gamalársdagur og gamalárskvöld bregður einnig fyrir – elstu dæmi um þær myndir eru frá því upp úr 1870 og nokkrir tugir dæma um þær eru í Risamálheildinni, einkum af samfélagsmiðlum. Þessar myndir er í sjálfu sér alveg rökréttar – þar er stofn lýsingarorðsins, gamal-, notaður í stað beygðrar myndar, sbr. gamaldags, gamalmenni, gamalær o.fl. En líklega er réttast að halda sig við ritháttinn gamlársdag/kvöld.

Posted on

Hjólböruútgáfa

Þegar ég var að skrifa um orðið hjólbörur í gær rakst ég á orð sem ég þekkti en var búinn að gleyma – hjólböruútgáfa. Þetta nafnorð var stundum notað um þykkar bækur, mikla doðranta, og er auðvitað mjög gagnsætt. Orðið er ekki í neinum orðabókum enda tæplega við því að búast, og ég finn aðeins þrjú dæmi á tímarit.is, þar af tvö úr sömu greininni eftir Guðmund G. Hagalín í Vísi 1946: „Mér leiðast bókarflísar, sem varla er hægt að binda í almennilegt band eða finna í skáp – leiðast þær álíka og hjólböruútgáfurnar […] og sárlega kvíði eg því, þegar afturhvarfið kemur frá hjólböruútgáfunum.“ Þriðja dæmið er í grein eftir Guðrúnu Nordal í Morgunblaðinu 1985: „Þetta er mjög myndarleg rit, stórt og þykkt, sannkölluð hjólböruútgáfa.“

Það er vitanlega dálítil gamansemi í þessu orði og þess vegna má halda því fram að það sé frekar óformlegt og því ekki von á mörgum dæmum um það á prenti. En ekkert dæmi er samt um orðið í Risamálheildinni þar sem þó er mikið af óformlegum textum og Google finnur aðeins eitt dæmi á netinu, í Facebook-færslu frá versluninni Bókinni 2023: „Þá verður boðin upp svokölluð „hjólböruútgáfa“ af Einari Ben., mjög flott eintak útgefið af stuðningsmönnum Einars.“ Þótt þetta orð sé orðið a.m.k. áttatíu ára gamalt bendir því margt til þess að það hafi eingöngu lifað í þröngum hópi bókaáhugafólks en aldrei orðið almenningseign. Mér finnst þetta samt skemmtilegt orð sem full ástæða sé til að halda lífi í og nota þegar færi gefst.

Posted on

Hjólbörur

Nafnorðið hjólbörur er eitt þeirra orða sem yfirleitt eru aðeins notuð í fleirtölu, eins og t.d. buxur, skæri og ýmis fleiri. Fleirtöluna má í slíkum tilvikum stundum skýra með því að eitthvert grundvallareinkenni fyrirbæranna sem um ræðir er tvöfalt eða tvískipt – hjólbörur hafa tvo kjálka, buxur hafa tvær skálmar og skæri hafa tvo arma. Samt sem áður vísar orðið bara til eins stykkis, eins eintaks af fyrirbærinu í setningum eins og ég ek hjólbörum, ég er í buxum og ég klippi með skærum. Þess vegna væri í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt farið væri að nota þessi orð í eintölu, enda liggur ljóst fyrir hver eintala þeirra ætti að vera væri hún notuð, og í dag var nefnt í „Málspjalli“ að eintalan hjólbara væri orðin nokkuð algeng, a.m.k. hjá yngra fólki.

Orðið hjólbörur er þó aðeins sýnt í fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, og í Málfarsbankanum er sagt: „Kvenkynsnafnorðið hjólbörur er fleirtöluorð.“ Í Íslenskri orðabók er myndin hjólbara þó uppflettiorð en vísað á hjólbörur. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er eitt dæmi um eintöluna, úr þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Fáein dæmi má svo finna á tímarit.is. Í Stjörnunni 1919 segir: „Þessi gjörð hefir þá smám saman þroskast stig eftir stig þangað til að hún varð að hjólböru.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1956 segir: „vasar hafa ekki nægt fyrir vöruna, en orðið að grípa til hins þjóðlega flutningatækis, hjólbörunnar.“ Í DV 1979 segir: „Æi, þar fór illa fyrir lifandi hjólbörunni.“

Í Risamálheildinni er svo slæðingur af dæmum frá síðustu árum. Í Vísi 2013 segir: „Hjólbaran, skórinn og straujárnið voru öll á barmi þess hverfa úr spilinu fyrir fullt og allt.“ Í Vísi 2015 segir: „Hjólbaran er stelling sem reynir á báða aðila.“ Í Eyjar.net 2009 segir: „var hann með fulla hjólböru af peningum.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Enda keyrði ég hjólböruna mörg hundruð ferðir þetta sumar.“ Í Skessuhorni 2021 segir: „hann skóflar kurli í hjólböru.“ Það er eftirtektarvert að nefnifall eintölu, hjólbara(n), er mjög sjaldgæft bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni en aukaföllin mun algengari. E.t.v. stafar það af því að aukafallsmyndirnar eru allar með ö eins og fleirtalan hjólbörur og hljóma því ekki jafn framandi og nefnifallið.

En þrátt fyrir að notkun eintölunnar fari greinilega vaxandi er hún tæpast orðin útbreidd málvenja enn, og getur því ekki talist „rétt mál“ samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Í einu samhengi er orðið þó ævinlega haft í eintölu – það er í fyrri hluta samsettra orða. Við segjum hjólböruhjól, hjólböruhlass, hjólböruakstur, hjólbörudekk, o.s.frv. en ekki *hjólbar(n)ahjól, *hjólbar(n)ahlass, *hjólbar(n)aakstur, *hjólbar(n)adekk o.s.frv. Það er vel þekkt að þegar fyrri liður samsetningar er veikt kvenkynsorð stendur það oft í eignarfalli eintölu þótt fleirtala væri „rökrétt“, sbr. stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka, vöruhús o.s.frv., en það er mjög áhugavert að sama skuli gilda um orð eins og hjólbörur sem er annars yfirleitt ekki haft í eintölu.

Posted on

Óboðlegar þýðingar

Fyrir tæpum þrjátíu árum var ég einu sinni sem oftar að kenna nýnemum í íslensku í Háskóla Íslands og hafði m.a. lagt fyrir þau einhver verkefni til að kanna hvernig þau stæðu í ritun – sem var misjafnlega eins og við var að búast. En svo datt mér í hug að láta þau þýða stutta texta úr dönsku og ensku – ekki til að meta hversu góð þau væru í þessum málum, heldur til að skoða íslensku þýðinguna. Ég varð dálítið hissa þegar ég sá að ýmsir nemendur sem höfðu skrifað ágætan frjálsan texta skiluðu nú þýðingu fullri af ambögum og óíslenskulegu orðalagi. Ég dró þá ályktun að málkennd þeirra væri ekki nógu sterk til að standast utanaðkomandi áreiti – þau gátu skrifað góðan texta upp úr sér en þegar þau fóru að þýða flæktist frumtextinn fyrir þeim.

Mér dettur ekki í hug að þarna hafi ég verið að gera einhverja merka uppgötvun en mér fannst þetta athyglisvert á sínum tíma, og það rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar umræða um þýðingar á Storytel fór í gang á „Málspjalli“. Þar kom fram að margar „íslenskar þýðingar“ þar væru unnar á þann hátt að fyrst væri gervigreindarlíkan látið „þýða“ textann en síðan færi mannlegur þýðandi yfir hann og lagfærði. Í umræðunum kom fram að þessar þýðingar væru oft gallaðar og orðafar óíslenskulegt. Nefnt var dæmið „Hún fann hönd hans á öxl hennar“ þar sem í allri eðlilegri íslensku væri sagt öxl sinni. Á ensku er hins vegar ekki notað eignarfornafn þarna, heldur persónufornafn, on her shoulder, og það er væntanlega ástæðan fyrir hennar á íslensku.

Nú veit ég ekkert um reynslu eða kunnáttu þeirra sem lagfæra gervigreindartexta hjá Storytel en miðað við þau kjör sem mér skilst að þeim bjóðist finnst mér ekki líklegt að margir færir og þjálfaðir þýðendur fáist til verksins heldur er hræddur um að fólkið sem vinnur við þetta sé kannski á svipuðum stað og nemendur mínir sem ég sagði frá í upphafi. Ég óttast sem sé að þau búi ekki yfir nægilega sterkri og þjálfaðri málkennd og málkunnáttu til að vera fær um að taka eftir og átta sig á óíslenskulegu orðalagi og leiðrétta það. Til þess þarf nefnilega töluvert meira en að geta skrifað skammlausan texta frá eigin brjósti. Og það þarf líka umhugsun og yfirlegu sem varla er hægt að gera ráð fyrir hjá fólki sem vinnur á lágum launum og undir tímapressu.

Ég legg áherslu á að ég hef ekkert á móti gervigreindarþýðingum út af fyrir sig enda rak ég í aldarfjórðung áróður fyrir uppbyggingu íslenskrar máltækni – ekki síst í þeim tilgangi að gera vélrænar þýðingar mögulegar. Slíkar þýðingar eru frábær hjálpartæki þar sem þær eiga við, einkum við þýðingar ýmiss konar nytjatexta, og það er alveg hugsanlegt að í framtíðinni geti þær líka nýst eitthvað við þýðingu bókmenntatexta í höndunum á æfðum og færum þýðendum, þótt ég hafi efasemdir um það. En þýðingar af því tagi sem Storytel býður upp á virðast ekki bara vera svikin vara og móðgun við notendur heldur einnig tilræði við vandaðar þýðingar og færa þýðendur – og síðast en ekki síst við íslenskuna. Við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.

Posted on

Gleðilega rest

Í umræðu um gleðileg jól og gleðilega hátíð í dag bar sambandið gleðilega rest á góma en það tíðkaðist talsvert áður fyrr, a.m.k. á fyrri hluta síðustu aldar. Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1989 vitnar Jón Aðalsteinn Jónsson í Halldór Halldórsson prófessor sem „segist segja við menn milli jóla og nýárs: Gleðilega rest, og tekur fram, að honum sé þetta tamt frá barnsaldri, en hann er fæddur og uppalinn á Ísafirði“. Halldór var fæddur 1911 og þetta rímar við það að elsta dæmið um gleðilega rest á tímarit.is er í Vestra 1910 en það blað var gefið út á Ísafirði. Í Vísi 1921 segir: „Gleðilega „rest“ segja Reykvíkingar þegar liðin er aðal jólahelgin. Þetta er smekklaus ambaga sem er að ryðja sér til rúms úti um landið og þarf að útrýma.“

Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Hvar sem menn hittast kveða við árnaðaróskirnar: „Gleðileg jól“ og „gleðileg hátíð“. Það er sjálfsagt. En svo lenda menn í vandræðum með að orða árnaðaróskirnar þegar komið er fram á annan jóladag og þá grípa menn að láni setningu frá gömlu sambandsþjóðinni og segja „Gleðileg Rest“. – Sumir kunna ekki við dönskuna. Þeir segja sem vafalaust er rjett; við erum sjálfstætt fólk og þurfum ekki að fá neitt að láni hjá neinum. Við getum borið fram okkar árnaðaróskir á eigin tungu. Þeir segja því „gleðilegan afgang“, sem gerir alveg sama gagn og hitt. Fáum dettur í hug að halda áfram að segja bara gleðileg jól, þó að það sje gamall og góður siður, að halda jól þar til á þrettándanum.“

Þetta var þó á undanhaldi um miðja öldina. Í Morgunblaðinu 1948 segir: „Fyrir hádegi í gær hafði jeg ekki hitt einn einasta mann, sem bauð „gleðilega rest“. – Þessi gamli, leiði ósiður er gjörsamlega að hverfa úr málinu – og mátti enda missa sig.“ Í Þjóðviljanum 1950 segir: „Aldrei skal ég aftur segja gleðilega rest. Það er nefnilega komin upp sterk hreyfing á móti gleðilegri rest.“ Í Vísi 1956 segir: „Einu sinni sögðu menn oft gleðilega „rest“, þegar þeir hittust á götu eftir jólin og þótti það góður siður. Nú er þessi siður að leggjast niður, og verður satt að segja ekki eftir séð.“ Í Vísi 1960 segir: „Sem betur fer er nú að hverfa úr málinu sú leiða dönskusletta, sem lengi var hér tízku, að segja: „Gleðilega rest“, þegar menn hittust eftir hátíðisdagana.“

Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 2003 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson að orðalagið gleðilega rest myndi „trúlega vera horfið“. Það er þó ofmælt, en augljóslega hefur dregið verulega úr tíðni þess – í Risamálheildinni eru aðeins um 25 dæmi um sambandið. Eins og fram kom hér á undan er orðið rest komið úr dönsku og sést fyrst í íslensku kringum aldamótin 1700. Þótt orðið falli í sjálfu sér ágætlega að málinu og rími við orð eins og lest og pest (sem bæði eru reyndar tökuorð, en eldri) var það ætterni þess sem olli því að barist var gegn sambandinu gleðilega rest, eins og fram kemur í tilvitnunum hér að framan, og það hefur hlotið sömu örlög og fjölmargar aðrar „dönskuslettur“ í íslensku. Kannski er engin eftirsjá að því – eða hvað?