Category: Málfar

Hvað gerðist í mars 1997?

Það er alkunna að forsetningarnar í og á eru mjög oft notaðar með staðaheitum eða orðum sem tákna einhvers konar staðsetningu – örnefnum, heitum eða númerum húsa, stofnanaheitum o.s.frv. Oft er erfitt að átta sig á hvers vegna önnur forsetningin er notuð fremur en hin og iðulega eru mismunandi forsetningar notaðar með orðum sem virðast hliðstæð – þekkt dæmi eru í Reykjavík en á Húsavík, í Borgarnesi en á Akranesi, í Kópavogi en á Djúpavogi, o.m.fl. Stundum eru báðar forsetningar notaðar með sama orði en í mismunandi merkinguí Siglufirði vísar fremur til fjarðarins en á Siglufirði til kaupstaðarins. Stundum eru báðar forsetningar notaðar án þess að merkingarmunur sé á, en hugsanlega mállýskumunur af einhverju tagi.

Það er þó hægt að finna ýmsar þumalfingursreglur um notkun forsetninganna en flestar eiga þær sér fjölmargar undantekningar. En svo eru líka dæmi um að notkunin hafi breyst. Mjög áhugavert dæmi um það var nefnt í innleggi í „Málspjalli“ í gær. Þar var bent á að áður hefði forsetningin í oft verið notuð með heitum eins og Landspítalinn og Borgarspítalinn, t.d. lést í Landspítalanum. Nú er hins vegar nær alltaf notuð forsetningin á með þessum heitum – og sama virðist gilda um önnur hliðstæð eins og Fjórðungssjúkrahúsið (á Akureyri / á Ísafirði / í Neskaupstað). Höfundur innleggsins sagði að í stuttri og óformlegri könnun á þessu á tímarit.is hefði komið í ljós að í virtist að mestu hafa vikið fyrir á stuttu eftir 1990.

Ég skoðaði þetta nánar og varð steinhissa á niðurstöðunum. Dæmi um í með Land(s)spítalanum, Borgarspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu voru töluvert fleiri en dæmin um á með sömu orðum fram um 1990, þótt heldur drægi saman með forsetningunum og árið 1996 væru dæmin um í komin niður í rúmlega 40% af heildarfjölda dæma. En árið eftir, 1997, hrapar dæmafjöldinn um í gífurlega – niður í sjö og hálft prósent. Þessi breyting verður ekki smátt og smátt yfir árið – fjöldi dæma um í er svipaður og áður fyrstu tvo mánuðina, en í byrjun mars hverfa dæmin nær alveg og eru sárafá það sem eftir er ársins 1997, og fer svo enn fækkandi næstu ár og eru komin niður í eitt prósent af heildinni upp úr aldamótum.

Ég held að ég hafi aldrei séð svona snögga breytingu á nokkru málfarsatriði – breytingu sem þó virðist hafa gengið yfir þegjandi og hljóðalaust, án þess að nokkur tæki eftir henni, og án þess að nokkur skýring sé sjáanleg. Nú er þetta auðvitað breyting á ritmáli, nánar tiltekið máli blaða og tímarita, og við höfum enga möguleika á að kanna hvort talmál breyttist á sama hátt á svipuðum tíma. Engar líkur eru samt á öðru en bæði í og á hafi verið algengt í talmáli áður fyrr og það er ljóst að á er nú einhaft í máli flestra, en ólíklegt er að breyting á talmálinu hafi orðið jafn snögglega og á ritmálinu. Ég held að einhverjar ytri aðstæður hljóti að liggja að baki svo snöggri breytingu en veit ekki hverjar þær gætu verið – varla tilmæli frá Íslenskri málnefnd.

Í umræðum í „Málspjalli“ var þess getið til að skipt hefði verið um prófarkalesara, en það getur ekki verið skýringin því breytingin varð ekki bara í einu blaði heldur öllum að því er best verður séð – þótt aðeins í Morgunblaðinu og DV séu dæmi svo mörg að eitthvað sé á þeim byggjandi. Einnig var nefnt í umræðum að sumir kennarar um og upp úr miðri öldinni hefðu talið í spítala rétt en á spítala málvillu, og því kann að vera að í spítala hafi lengi verið mun tíðara í ritmáli en talmáli. En jafnframt kom þar fram að Morgunblaðið hefði leiðrétt í í á undir lok síðustu aldar. Ótrúlegt er samt að leiðréttingar eða breytingar á þeim hafi valdið svo snöggri breytingu. Ef einhverjum dettur einhver skýring í hug, eða veit um skýringu, væri gaman að heyra af því.

Mörg mismunandi brögð

Í „Málspjalli“ var í dag spurt um fleirtöluna brögð í samböndum eins og mörg brögð af mat. Nafnorðið bragð hefur fleiri en eina merkingu og er vitanlega oft notað í fleirtölu í merkingunni 'klækjafullt ráð eða aðferð' en hins vegar hefur það oftast aðeins verið haft í eintölu í merkingunni 'skynjun á tungu, bragðskyn' svo að vitnað sé í skýringar Íslenskrar nútímamálsorðabókar. „Því miður hefur ft. skotið hér upp kollinum og menn flestir finna samt óbragð að þeirri notkun“ sagði Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 1995 og ári seinna sagði hann að sér fyndist „ástæðulaust, að ég segi ekki fáránlegt, að nota fleirtöluna brögð í þessu sambandi“ og hún ætti „að sjálfsögðu […] ekki að heyrast í vönduðu máli“.

Það má finna slæðing af dæmum um fleirtöluna brögð í umræddri merkingu á tímarit.is. Elsta dæmi sem ég finn er í auglýsingu frá ísbúð í Morgunblaðinu 1958: „Milk-shake. Þykkur og ljúffengur. Mörg brögð.“ Í Alþýðublaðinu 1959 er sagt frá PEZ-töflum sem var nýfarið að framleiða: „Enn eru komin aðeins 2 brögð á markaðinn, en alls verða þau 8“ og „verður það væntanlega framleitt með 3 mismunandi brögðum“. Í Vísi sama ár er einnig sagt frá PEZ-framleiðslu: „Eru þetta litlar og ljúffengar töflur 14 í pakka en mismunandi brögð.“ Í Alþýðublaðinu 1961 er sagt frá nýju megrunarlyfi sem unnt er að fá „með ýmsum mismunandi brögðum“. Í auglýsingu í Dagblaðinu 1978 segir: „Tannkrem í 3 brögðum.“

Ýmis nýleg dæmi má einnig finna. Í Vísi 2013 segir: „hugmyndin var að fólk myndi upplifa öll mismunandi brögðin sem er að finna í viskíinu.“ Í Bændablaðinu 2012 segir: „það er ótrúlegt að geta búið til svona mikið af mismunandi brögðum með ostum.“ Í Vísi 2016 segir: „Þeir bjóða upp á tvöhundruð vörutegundir í sjöhundruð mismunandi brögðum og stærðum.“ Í Bleikt.is 2014 segir: „Við erum með […] fiskispjót með þrem tegundum af fisk marineruðum í mismunandi brögðum.“ Í Bændablaðinu 2015 segir: „Við […] erum á þann hátt stöðugt að þróa og bæta hin mismunandi brögð sem við fáum út úr mismunandi tegundum.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Vísindamenn hafa uppgötvað fimm hundruð ólík brögð í súkkulaði.“

Í öllum tilvikum er um að ræða einhvers konar vörur þar sem fleiri en ein bragðtegund er í boði. Þarna er því um sömu þróun að ræða og hefur orðið í fjöldamörgum orðum sem ég hef skrifað um – auk þess að vísa til ákveðinnar hugmyndar, fyrirbæris eða tilfinningar þar sem fleirtala er óþörf og óeðlileg geta þau nú vísað til tegundar eða eintaks af þessari hugmynd, fyrirbæri eða tilfinningu, og þá verður eðlilegt og nauðsynlegt að hafa þau einnig í fleirtölu. Vitanlega getur sú notkun truflað þau sem ekki hafa alist upp við hana, en fleirtalan brögð er vitanlega góð og gild í annarri merkingu og ég get ekki séð að nokkuð sé unnið með því að tala um mismunandi eða margar bragðtegundir frekar en mismunandi eða mörg brögð.

Athugasemdir hafa áhrif

Um daginn var birt í „Málspjalli“ mynd af skilti frá Sjóvá með áletrun á ensku – Drive carefully – án nokkurs íslensks texta. Ég skrifaði Sjóvá um þetta og sagði m.a.: „Ég treysti því að fleiri skilti af þessu tagi verði ekki sett upp og þeim skiltum sem komin eru upp verði skipt út fyrir skilti sem eru bæði á íslensku og ensku – með íslenskuna á undan.“ Nú var ég að fá póst frá markaðsstjóra Sjóvá sem sagðist hafa fengið „fjölda svipaðra ábendinga um umrætt skilti“ og hélt áfram: „Við hjá Sjóvá leggjum ríka áherslu á að nota íslensku í öllum samskiptum og það á auðvitað við um skilti sem þessi. Við erum þegar farin af stað með að skipta út skiltunum og það ætti að klárast á næstu dögum. Við þurfum sannarlega að standa vörð um íslenskuna.“

Fyrir skömmu var líka skrifað í „Málspjalli“ um markaðsherferð Arion banka sem beint er til ungs fólks og rekin undir enskum einkunnarorðum. Í gær birtist frétt á vefmiðli um að hætt hefði verið við þessa herferð, og nú segist Sjóvá ætla að hafa íslensku á skiltum sínum. Ég veit að mörgum finnst óþörf smámunasemi og sparðatíningur að agnúast út í einstaka stutta texta á ensku eða þar sem ensku er hampað umfram íslensku – upplýsingar, skilti, merkingar, kynningar, auglýsingar o.fl. Fólk telur – líklega með réttu – að slíkir textar hafi lítil sem engin bein áhrif á íslenskuna. En þetta snýst ekki heldur um bein áhrif á tungumálið, heldur áhrif óþarfrar enskunotkunar á hugarfar fólks og ómeðvituð viðhorf þess til tungumálsins.

Það eru nefnilega ekki síst „smáatriði“ eins og þau sem hér eru til umræðu sem grafa undan íslenskunni vegna þess að þau ýta undir þá hugmynd að enska sé nóg og íslenska óþörf þegar ná þarf til allra. Það leiðir til þess viðhorfs að íslenska sé ófullkomin og ófullnægjandi og skapar þannig neikvætt viðhorf til hennar en ýmsar rannsóknir sýna að lífvænleiki smáþjóðatungumála veltur ekki síst á viðhorfi ungu kynslóðarinnar – ef hún hefur neikvætt viðhorf til móðurmálsins á það sér ekki viðreisnar von. Það er ástæða til að hrósa Arion banka og Sjóvá fyrir að bregðast fljótt og vel við ábendingum um óþarfa enskunotkun – og um leið er ástæða til að hvetja ykkur öll til að gera athugasemdir við fyrirtæki og stofnanir sem hampa ensku umfram íslensku.

Hún skaut í slánna

Fyrir fimm árum skrifaði ég pistil (sem birtist svolítið breyttur í bókinni Alls konar íslenska) um framburð orð­mynda eins og ána, brúna, frúna, klóna, kúna, slána, spána, tána, þrána (þolfall eintölu með greini af á / ær, brú, frú, kló, kýr, slá, spá, , þrá), skóna (þolfall fleirtölu með greini af skór) og fleiri orðmynda með n á eftir á, ó eða ú. Þessar orð­mynd­ir eru oft bornar fram með stuttu sér­hljóði í stað langs, eins og n-ið væri tvíritað – sagt fara yfir ánna, hlusta á spánna, missa trúnna, fara í skónna o.s.frv. „Enginn vandi er að venja sig af þessu“ segir Árni Böðvarsson í bókinni Íslenskt málfar, en það virðist samt hafa gengið illa að venja þjóðina af þessum framburði sem Gísli Jónsson amaðist margoft við í þáttum sínum í Morgunblaðinu.

Í fyrri pistli mínum nefndi ég að elstu ritmálsdæmi sem vitnuðu um þennan framburð væru síðan um 1930 en þeim færi smátt og smátt fjölgandi á fimmta og sjötta áratugnum. En ég benti einnig á að þar sem flestir textar á tímarit.is væru prófarkalesnir væri vart við því að búast að þar væru mörg dæmi, en sá fjöldi sem þó fyndist þar benti til þess að umræddur framburður hefði lengi verið alltíður – væntanlega talsvert algengari en dæmafjöldi á prenti bendir til. Síðan þessi pistill var skrifaður hafa textar af samfélagsmiðlum bæst við Risamálheildina og með þeim miklar upplýsingar um notkun þessa framburðar í óformlegu málsniði samtímans sem benda til þess að tíðni hans sé þar mjög mikil þótt hún sé nokkuð misjöfn eftir orðum.

Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru t.d. 890 dæmi um yfir/við/undir brúna en 456 um yfir/við/undir brúnna; 453 dæmi um yfir/við ána en 203 um yfir/við ánna; 2369 um trúna en 1406 um trúnna; 220 um veðurspána en 123 um veðurspánna. Í þessum dæmum eru myndir með tvírituðu nn því hálfdrættingar eða meira á við hinar viðurkenndu myndir með einu n. Eitt orð, slá, sker sig þó alveg úr að þessu leyti – 117 dæmi eru um sambandið í slána en 235 um í slánna. Það er líka eina dæmi sem ég finn um að tíðni „röngu“ myndarinnar slagi hátt upp í tíðni þeirrar „réttu“ í Risamálheildinni allri, ekki bara á samfélagsmiðlum – það eru 1997 dæmi um í slána en 1802 um í slánna. Hins vegar eru 1145 dæmi um í skóna en bara 157 um í skónna.

Það verður að hafa í huga að í hinni viðurkenndu stafsetningu umræddra orðmynda er alltaf bara eitt n. Trúlegt er að nokkur fjöldi þeirra sem bera orðin fram með stuttu sérhljóði og löngu n kunni stafsetningarreglurnar og skrifi orðin því með einu n þrátt fyrir að það rími ekki við framburð þeirra – svona eins og fólk skrifar oftast langur en ekki lángur þrátt fyrir að síðarnefndi rithátturinn samræmist framburði flestra. Það er því nokkuð öruggt að ritmyndir, jafnvel úr textum með óformlegu málsniði, sýna lægri tíðni umrædds framburðar en raunin er. Mér sýnist allt benda til þess að meirihluti notenda samfélagsmiðla – sem eru einkum yngra fólk – hafi þennan framburð og hann verði því fljótlega meirihlutaframburður málsins.

Í fyrri pistli mínum nefndi ég tvær hugsanlegar ástæður fyrir þessum framburði – annars vegar áhrif frá þágufallinu ánni, brúnni, slánni, trúnni o.s.frv. þar sem sérhljóðið er alltaf stutt en n-ið langt. Hins vegar nefndi ég að um gæti verið að ræða útvíkkun á lengingu samhljóða og meðfylgjandi styttingu sérhljóðs á eftir á, ó, ú r og t hafa lengst í orðmyndum eins og há-rri, mjó-rri, trú-rri (og fleirri sem er ekki viðurkennt) og svo há-tt, mjó-tt, trú-tt. Í þessu sambandi má benda á að í færeysku, sem þar sem margar málbreytingar eru hliðstæðar breytingum í íslensku en verða oftast fyrr, er þolfall fleirtölu af öllum umræddum orðum með nnánna, brúnna, spánna, trúnna o.s.frv. Stundum er sagt að færeyska sé íslenska framtíðarinnar.

Mér finnst því mál til komið að taka þennan framburð í sátt – lokaorð mín í fyrri pistli um þetta efni eru enn í fullu gildi: „Mörgum finnst umræddar myndir ljótar – sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að allt eru þetta framburðar­mynd­ir sem eru viðurkenndar í málinu, bara sem aðrar beyg­ing­ar­myndir en hér er um að ræða. En flest kunnum við best við málið eins og við lærðum það – eða eins og við lærðum að það ætti að vera – og ömumst þess vegna við breyt­ing­um sem okkur finnst óþarfar. Það er fullkomlega eðlileg til­finn­ing, en í ljósi þess að þessi framburður á sér aldarlanga sögu, er mjög út­breidd­ur, er hliðstæður breyt­ing­um sem áður hafa orðið í málinu og eru fullkomlega viður­kenndar, og veldur eng­um ruglingi, þá tel ég hann engin málspjöll.“

Ekki fokking glóru

Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ sá ég að verið var að hneykslast á þýðingu í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi, þar sem ummæli Donalds Trump um Ísrael og Íran, „they donʼt know what the fuck theyʼre doing“, voru þýdd „þær hafa ekki fokking glóru hvað þær eru að gera“. Það var orðið fokking sem fór fyrir brjóstið á ýmsum sem fannst að heldur hefði átt að nota íslenskt blótsyrði en „hallærislega slettu“. Orðið er auðvitað komið af fucking í ensku sem aftur er komið af sögninni fuck sem er óformlegt og ruddalegt orð. Töluvert hefur verið skrifað um notkun orðsins í íslensku, einkum BA-ritgerð Einars Lövdahl Gunnlaugssonar, grein Veturliða Óskarssonar í Orði og tungu, og grein Ástu Svavarsdóttur um blótsyrði í sama riti.

Í ensku þykir orðið fuck sem Trump notaði sérlega gróft og alls ekki við hæfi að valdafólk noti það á opinberum vettvangi. Iðulega er vísað til þess sem „the f-word“ til að komast hjá að segja það eða skrifa, og notkunardæmi við „the f-word“ í Merriam-Webster orðabókinni er einmitt „He got in trouble for using the f-word on television“. Það má líka sjá á fyrirsögnum erlendra miðla að notkun Trumps á orðinu vekur athygli svo að ekki sé meira sagt – „Trump just became first US president to drop the F-bomb“, „Breaking another presidential norm, Trump drops the f-bomb on camera“, „Trump drops an f-bomb on live TV“, „Trump’s f-bomb toward Iran and Israel breaks norm of keeping presidential profanity off-camera“, og svo mætti lengi telja.

Vitanlega hefði mátt nota ýmis hefðbundin íslensk blótsyrði í þýðingunni og jafnvel tvinna þau saman – tala um andskotans helvítis djöfulsins glóru eða eitthvað slíkt – en það hefði ekki sýnt nógu vel þann ruddaskap og brot á félagslegum normum sem kom fram í orðfæri Trumps. Þau sem amast við fokking þarna líta fram hjá því að hlutverk þýðanda er ekki eingöngu að koma merkingu til skila heldur einnig og ekki síður að nota viðeigandi málsnið og orð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er tökuorðið fokking(s) eitt af algengustu blótsyrðum í málinu og orðið „óaðskiljanlegur hluti af íslenskum blótsyrðaforða“ eins og segir í áðurnefndri grein Ástu Svavarsdóttur. Það var einmitt rétta orðið í umræddri þýðingu.

Engin urðu kaun

Í frétt á mbl.is í dag um sprengingu í Malmö í Svíþjóð segir: „Engin urðu kaun á íbúum hverfisins við sprenginguna.“ Ég hef séð á Facebook, bæði í „Málvöndunarþættinum“ og víðar, að þessi setning hefur vakið spurningar hjá fólki – orðaröðin er fremur óvenjuleg en einkum er það þó orðið kaun sem vefst fyrir fólki enda er það ekki ýkja algengt. Orðið er skýrt 'sár' í Íslenskri nútímamálsorðabók og því mætti virðast eðlilegt að nota það í þessu samhengi, en við nánari athugun kemur í ljós að sú notkun er í meira lagi vafasöm. Í Íslenskri orðsifjabók er kaun skýrt 'kýli, sár, graftrarhrúður'. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'hrúður', 'skeina', 'kýli, sár', með dæminu kaunum hlaðinn. Sömu skýringar eru í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Í öllum dæmum um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans virðist það notað um sár eða kýli sem orsakast af sýkingum eða sjúkdómum, eða þá af kali. Í Riti þess konunglega íslenzka Lærdómslistafélags 1790 segir: „Kaun er eitt höfuðnafn bæði yfir lukta og opna sulli“ og „Kaun telst og blátt fram um flestöll útbrot á húðinni“. Einnig er talað um „kaun það er vogur er inní“ – vogur er 'gröftur' þannig að þarna er átt við kýli. Í Lækningabók handa alþýðu eftir Jónas Jónassen frá 1884 segir: „Kaun nefnast þau sár, sem gröptur eða graptrarvilsa rennur úr og sem fremur vilja jeta um sig og stækka en holdfyllast og græðast.“ Í notkunardæmi í Íslensk-danskri orðabók segir: „eg var hjá honum langa tíma, meðan eg gerði við kaunin (kalsárin)“.

Í nútímamáli er orðið kaun langoftast notað í sambandinu koma við kaunin á einhverjum sem merkir 'nefna það sem er viðkvæmast hjá einhverjum', 'koma við aumu blettina á einhverjum'. Einnig er það notað í sambandinu blása í kaun í merkingunni 'blása í lúkur sér, anda á gómana á krepptum höndum til að verma þá' en þar er uppruninn sennilega annar samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En þótt kaun geti vissulega merkt 'sár' eru það aðeins sár af ákveðnu tagi eins og hér hefur komið fram – það er ekki hefð fyrir því að nota orðið um sár sem orsakast af ytri aðstæðum eins og sprengingum, slysum, líkamsárásum eða einhverju slíku. Þess vegna verður að telja að notkun orðsins í umræddri frétt sé í ósamræmi við íslenska málhefð og því röng.

Tíu gráðu frost og fimmtán stiga hiti

Í dag var spurt í „Málspjalli“ hvort fólk þekkti dæmi um það að orðið stig væri aðeins notað um hita yfir frostmarki en gráður væri notað um frost. Ég hef aldrei vitað til þess að slíkur merkingarmunur væri gerður en í umræðum kom fram að þetta væri mál margra þátttakenda. Það kemur ekki beinlínis fram í orðabókum að merkingarmunur af þessu tagi sé á orðunum stig og gráða. En í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er ein skýring orðsins stig '(gráða) Grad' og notkunardæmi „10 stiga hiti; hafa 40 stiga hita“. Ein skýring á gráða er svo '(stig) Grad' og notkunardæmi „10 gráða frost“. Það getur auðvitað verið tilviljun að hiti er notaður í dæmum með stig en frost í dæmum með gráða en það gæti líka sýnt dæmigerða notkun.

Þegar hiti er tilgreindur er orðið stig margfalt algengara en orðið gráða, hvort sem talað er um frost eða hita, og það er því ljóst að meginhluti málnotenda gerir ekki umræddan merkingarmun á gráða og stig. En þó er munur á orðunum – í Risamálheildinni er orðið gráða notað í 17,5% dæma sem tilgreina frost en í tæplega 13% dæma sem tilgreina hita. Það er ólíklegt að þessi munur sé tilviljun enda staðfestir hann það sem kom fram í umræðum í „Málspjalli“ að fjöldi málnotenda gerir eða þekkir þennan mun. Ég hef ekki hugmynd um uppruna hans og hversu útbreiddur hann er, og veit ekki til að þetta hafi einhvers staðar verið rætt á prenti eða rannsakað. En þetta er mjög áhugavert og gott dæmi um tilbrigði í málinu sem við tökum sjaldan eftir.

En með þessu er ekki öll sagan sögð. Þótt orðið stig sé margfalt algengara en gráða þegar lofthiti er tilgreindur gegnir öðru máli um háar hitatölur, t.d. þegar tilgreindur er hiti á ofni. Þar er miklu algengara að segja t.d. hitið ofninn í 180 gráður en í 180 stig þótt það sé vissulega líka til. Ein ástæða fyrir því er sennilega sú að í ritmáli er hitastigið mjög oft ekki tilgreint með orði á eftir tölunni, heldur með tákninu ° – hitið ofninn í 180°. En ° heitir „gráðumerki“  og eðlilegt að það sé lesið sem gráður frekar en stig. Í þessu sambandi má einnig nefna að titill bókar Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000°, er ævinlega lesinn Konan við þúsund gráður en ekki þúsund stig. Sjálfsagt má finna fleiri dæmi um að annað orðið sé tekið fram yfir hitt í ákveðnu samhengi.

Að fá stígvélið

Í frétt á vef DV í dag segir: „Van Nistelrooy fær stígvélið um mánaðarmótin“ og í annarri frétt á sama miðli (og eftir sama blaðamann) í gær sagði: „Hann bjóst ekki við að fá stígvélið á þessum tímapunkti.“ Ég minntist þess ekki að hafa séð sambandið fá stígvélið áður en merkingin í því er svo sem augljós og þarf varla að lesa fréttirnar til að átta sig á því að það merkir 'vera sagt upp störfum, vera rekinn'. Við nánari athugun kom hins vegar í ljós að þetta orðasamband er ekki alveg nýtt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er á Hugi.is 2007: „annars ætti hún bara að fá stígvélið að mínu mati.“ Sambandið hefur töluvert verið notað á síðustu fimmtán árum – rúm hundrað dæmi eru um það í Risamálheildinni.

Sambandið fá stígvélið á augljóslega uppruna sinn í ensku þar sem samböndin get the boot og be given the boot eru notuð í óformlegu máli í merkingunni 'you are told that you are not wanted any more, either in your job or by someone you are having a relationship with' eða 'þér er sagt að þín sé ekki óskað lengur, annaðhvort í starfi eða af einhverjum sem þú ert í sambandi við/með'. Notkunarsviðið getur því verið nokkuð vítt, en notkun sambandsins fá stígvélið í íslensku er mun takmarkaðri – það virðist nær eingöngu vera notað í knattspyrnumáli þótt annarri notkun bregði stöku sinnum fyrir á samfélagsmiðlum, eins og í „Piers Morgan búinn að fá stígvélið á CNN“ á Twitter 2014 og „Fékk stígvélið frá Árna á Spot“ á Twitter 2017.

Það má segja að fá stígvélið sé myndrænt og gagnsætt, og þótt sambandið eigi sér enskan uppruna er það í sjálfu sér ekki næg ástæða til að amast við því ef það kemur að notum í íslensku – ný orðasambönd sem falla að málinu auðga það og ég hef oft sagt að orð og orðasambönd eigi ekki að gjalda uppruna síns. Ég hef sem sé engar athugasemdir við sambandið út af fyrir sig eða áhyggjur af því að það spilli málinu. Mér finnst hins vegar umhugsunarvert hver ástæðan er fyrir beinni upptöku enskættaðra orðasambanda af þessu tagi – ég er hræddur um að það sé oft annaðhvort hugsunarleysi eða vanþekking á því hvernig venja er að orða þetta í íslensku.

Í þessu tilviki eru til ágæt sambönd sem eiga sér meira en aldarlanga hefð í málinu – bæði vera sparkað eða fá sparkið sem vísa til sömu myndar og fá stígvélið, og einnig látinn taka pokann sinn sem er kannski dálítið mildara. Bæði samböndin hafa iðulega verið notuð í knattspyrnumáli á undanförnum áratugum, m.a. um nákvæmlega sömu aðstæður og vísað var til í fréttum DV. Í Vísi 1976 segir: „Þjálfaranum var sparkað.“ Í DV 1981 segir: „að undanförnu hafa þrír þjálfarar verið látnir taka pokann sinn.“ Jafnvel kemur fyrir að samböndin séu notuð saman – „Fyrsta þjálfaranum á Spáni, sem fær að taka pokann sinn, var sparkað frá Real Murcia í gær“ í DV 1986. Þótt sé í lagi að tala um að fá stígvélið er ástæðulaust að gleyma þessum samböndum.

Kvæntir karlar, kvæntar konur, kvænt kvár

Í „Málspjalli“ var í gær vísað í fyrirsögn í DV, „Fékk áfall þegar hann komst að því að hann hefði gift sig án þess að vita af því“ og spurt hvort ekki hefði frekar átt að segja að hann hefði verið kvæntur án þess að vita af því vegna þess að karlmenn kvæntust en konur giftust. Vissulega er rétt að sögnin gifta er skyld gefa og merkti áður 'gefa til eiginkonu'. Sú merking er gefin fyrst í Íslenskri orðabók en einnig merkingin 'gefa saman, vígja í hjónaband'. Miðmyndin giftast er skýrð 'ganga í hjónaband' og sagt „nú bæði um karl og konu, áður aðeins um konuna“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er gifta sig skýrt 'ganga í hjónaband' og miðmyndin giftast skýrð 'ganga í hjónaband (með e-m)'. Þar er því ekki gert upp á milli kynja sem endurspeglar venjulega notkun.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er sagt að upphaflegum mun á giftast og kvongast sé oft haldið í ritmáli, en í talmáli sé giftast og gifta sig notað um bæði kyn. En þetta fór að riðlast löngu fyrr, líka í ritmáli. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 segir t.d. „Og Abraham gifti sig aftur“ og „Hver sína eiginkonu forlætur og giftist annarri, sá drýgir hór“.  Í Biskupa-annálum Jóns Egilssonar frá fyrri hluta sautjándu aldar segir: „sagði það eitt vera, að prestinum væri bannað að giptast.“ Fleiri dæmi frá sautjándu og átjándu öld eru í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, og á tímarit.is má finna fjölda dæma frá nítjándu öld um að karlmenn giftist. Það er því óhætt að segja að notkun sagnarinnar gifta(st) og lýsingarorðsins giftur um bæði karla og konur sé fullkomlega venjuleg og eðlileg.

Öðru máli gegnir um sögnina sem notuð var um karla sem gengu í hjónaband – kvænast (kvongast). Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'gifta sig (um karlmann)' og í Málfarsbankanum er varað sérstaklega við rangri notkun hennar: „Sögnin kvænast merkir: giftast konu. Konur giftast mönnum en kvænast þeim ekki.“ Þessi munur á giftast og kvænast er svo sem skiljanlegur. Hin orðsifjafræðilegu tengsl giftast við gefa eru málnotendum ekki ofarlega í huga, enda er það ekki í samræmi við nútíma hugmyndir að kona gefist manni eða sé gefin honum. Aftur á móti er kvænast komið af kván sem síðar varð kvon og kemur fram í myndinni kvongast, og þótt kvænast sé ekki sérlega líkt kona dugir eignarfallsmyndin kvenna e.t.v. til að málnotendur tengi kvænast við konu.

Það má þó finna slæðing af gömlum dæmum um að sögnin kvænast og lýsingarorðið kvænt sé notað um konur. Í Þjóðólfi 1863 segir: „þángað til hún í einhverju rænuleysi játaði, að hún hefði ekki verið „virgo immaculata‘‘, þegar hún kvæntist honum.“ Í Skuld 1879 segir: „Dagmar [...] kvæntist stórfurstanum af Rússlandi.“ Í Lögbergi 1891 segir: „Hún er nú kvænt, en barnið lifir.“  Í Þjóðviljanum 1900 segir: „kvæntist hún þá skömmu síðar fátækum, lítt þekktum hershöfðingja.“ Í Þjóðviljanum 1901 segir: „kona þessi hafði verið kvænt verkstjóra einum þar í borginni.“ Í Ísafold 1907 segir: „Hún kvæntist úr föðurgarði 1855.“ Í Bjarma 1907 segir: „Hún kvæntist eftirlifandi manni sínum 1894.“ Í Þjóðviljanum 1907 segir: „Hún var kvænt Jóhanni söðlasmið Jónssyni.“

Notkun sagnarinnar kvænast og lýsingarorðsins kvænt(ur) um konur á sér því langa sögu og alls eru a.m.k. þrjú hundruð dæmi (og sennilega mun fleiri) um það á tímarit.is að þessi orð séu notuð um konur. Sú notkun hefur farið vaxandi og er veruleg í nútímamáli – í Risamálheildinni eru dæmin a.m.k. hátt á fjórða hundrað og aðeins lítill hluti þeirra af samfélagsmiðlum enda eru þessi orð nokkuð formleg og lítið notuð í óformlegu málsniði. Það er athyglisvert að þetta er sérstaklega algengt í minningargreinum – höfundar þeirra eru oft fólk sem er ekki vant að skrifa formlegan texta en grípur þarna til formlegs orðs sem ekki er hluti af virkum orðaforða þess og áttar sig þess vegna ekki á því að notkun þess um konur er ekki í samræmi við málstaðalinn.

Grundvöllur þess að nota mismunandi orð um að ganga í hjónaband og vera í hjónabandi hefur gerbreyst með ýmsum samfélagsbreytingum seinni ára. Langt er síðan sögnin giftast hætti að vera bundin við karlmenn eins og áður segir, en með tilkomu samkynja hjónabanda og viðurkenningu á því að kynin eru ekki bara karl og kona eru forsendur fyrir kyngreiningu orða um hjónaband algerlega fallnar brott og sú kyngreining samræmist tæpast nútíma jafnréttishugmyndum. Vitanlega getur sögnin kvænast og lýsingarorðið kvæntur slitið tengslin við orðsifjafræðilegan uppruna sinn ekkert síður en giftast og giftur – fyrir slíku eru ótal fordæmi í málinu. Við eigum ekki að hika við að tala um að kvænast karli og kvænast kvári – og kvæntar konur og kvænt kvár.

Oft og/á tíðum

Í „Málspjalli“ var nýlega spurt hvort fólk legði sömu merkingu í orðasamböndin oft á tíðum og oft og tíðum. Bæði samböndin eru algeng en ég svaraði því til að oft og tíðum væri eldra, en merkingin sú sama. Í sambandinu oft og tíðum er tíðum atviksorð, í raun upphaflega þágufall fleirtölu annaðhvort af nafnorðinu tíð eða lýsingarorðinu tíður. Eins og Jón G. Friðjónsson hefur rakið er slík myndun atviksorða algeng, svo sem bráðum af lýsingarorðinu bráður, stundum af nafnorðinu stund o.fl. Jón bendir á að oft og tíðum er mun eldra en oft á tíðum og kemur fyrir þegar í fornu máli en síðarnefnda afbrigðið hefur tíðkast allt frá nítjándu öld. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Norðlingi 1876: „lifraraflinn eintómur verður opt á tíðum ónógur til að borga kostnaðinn.“

Í sambandinu oft á tíðum er á forsetning og tíðum skilið sem þágufall fleirtölu af nafnorðinu tíð – sem gæti líka verið uppruni tíðum í oft og tíðum þótt þar sé tíðum hugsanlega af lýsingarorði eins og áður segir. Munurinn er sá að í oft á tíðum heldur tíðum fallorðseðli sínu og setningarstöðu en hefur setningarstöðu atviksorðs í oft og tíðum. Það er varla vafi á því að yngra sambandið oft á tíðum er orðið til úr oft og tíðum og sú þróun er í sjálfu sér skiljanleg. Tengingin og er áherslulaus í oft og tíðum og framburðarmunur og og á við slíkar aðstæður er ekki mikill – hvort tveggja einhvers konar óráðið sérhljóð. Við það bætist að málnotendur kunna að hafa upplifað oft og tíðum sem óþarfa og óeðlilega tvítekningu, þar sem merking orðanna oft og tíðum er sú sama.

Hvað sem því líður er ljóst að bæði samböndin hafa lengi verið mjög algeng og hljóta vitanlega bæði að teljast „rétt mál“. Síðan upp úr miðri tuttugustu öld hefur oft á tíðum verið algengara og dæmin um það á tímarit.is eru hátt í helmingi fleiri en dæmi um oft og tíðum. Á seinustu árum sækir fyrrnefnda sambandið mjög á – í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar er það meira en tuttugu sinnum algengara en oft og tíðum sem virðist því vera að hverfa úr óformlegu málsniði. Það rímar við að sum þeirra sem tóku þátt í umræðum í „Málspjalli“, líklega fremur yngra fólk, sögðust aldrei hafa heyrt það, en önnur, líklega fremur úr hópi þeirra eldri, sögðust aftur á móti alltaf nota oft og tíðum og fannst jafnvel oft á tíðum vera „bara bull“. Þarna er því líklega kynslóðamunur.

Það kom mér hins vegar á óvart að í umræðunum kom fram að sumum fannst vera merkingarmunur á samböndunum, þannig að oft og tíðum merkti 'oft, margsinnis' en oft á tíðum merkti 'áður fyrr'. Mjög oft gætu báðar merkingar vissulega átt við. Í setningu eins og „Lífsbaráttan var oft á tíðum hörð“ í Morgunblaðinu 2000 er vel hægt – og ekkert óeðlilegt – að skilja oft á tíðum sem ‚áður fyrr‘. Svipaðar setningar eru algengar og slík tvíræðni er einmitt forsenda endurtúlkunar á merkingu. Það er líka þekkt tilhneiging meðal málnotenda að finna tilbrigðum mismunandi hlutverk – fólki finnst eðlilegt að gera ráð fyrir því að einhver ástæða sé fyrir því að tvö afbrigði eru til, og fyrst til er bæði oft og tíðum og oft á tíðum er farið að gefa þeim mismunandi merkingu.

Það getur ýtt undir þennan skilning að til eru ýmis sambönd þar sem á tíðum vísar til tíma – bæði fyrri tíðar, eins og fyrr á tíðum og áður á tíðum, en einnig til samtímans eins og nú á tíðum. Líkindi við þessi sambönd gætu leitt til þess að fólk tengdi tíðum í oft á tíðum fremur við tíma en við tíðni. Ég veit ekki hversu algengur þessi skilningur er og það er ógerningur að kanna það í textum vegna þess að oft er ekki hægt að ráða merkingu fyrir víst af samhenginu. En svo má spyrja hvort þessi merkingarbreyting – ef hún er að verða – sé í lagi, og því verður fólk að svara fyrir sig. Svipaðar breytingar eru algengar og valda sjaldnast vandræðum, en vissulega getur misskilningur – þó varla alvarlegur í þessu tilviki – hlotist af því ef fólk skilur tiltekið orðasamband á mismunandi hátt.