Category: Málfar

Andvaraleysi er varasamara en enskættað orðalag

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Næfurþunnur meirihluti virðist vera fyrir tillögu um að aðild að Evrópusambandinu verði fest í stjórnarskrá landsins.“ Ég mundi ekki eftir að hafa séð þetta orðalag áður en fann fáein dæmi um það á netinu, það elsta í Morgunblaðinu 2008: „eftir tímabil brothætts og næfurþunns meirihluta vinstrimanna undanfarin ár.“ Í fyrirsögn á Vísi 2018 segir: „Þunnur meirihluti hjá Netanjahú“ og í fréttinni segir „er meirihluti ríkisstjórnarinnar á þingi orðinn ansi þunnur“. Í Viðskiptablaðinu 2019 segir: „skv. BBC er um næfu þunnan [svo] meirihluta að ræða.“ Nokkur dæmi eru í Kjarnanum 2021, m.a. „Það gæti dugað til þess að flokkarnir nái næfurþunnum meirihluta eftir kosningar.“

Varla leikur vafi á að þetta orðalag er ættað úr ensku – þar er talað um thin majority og í mörgum erlendum fréttum af atkvæðagreiðslunni sem fjallað var um í fréttinni sem vísað var til í upphafi er einmitt notað orðalagið razor-thin majority / margin. Vitanlega er ekkert að því að þýða razor-thin sem næfurþunnur – það er einmitt mjög góð þýðing, margfalt betra en orðrétta þýðingin *rakhnífsþunnur. Og vitanlega er (næfur)þunnur meirihluti íslenska – orðin eru íslensk og sambandið brýtur engar reglur málsins. Það er bara ekki venja að orða þetta svona á íslensku, heldur tala um nauman meirihluta, og mjög nauman ef ástæða þykir til – ég hef líka séð orðalagið örnauman meirihluta. Í fyrirsögn fréttarinnar er reyndar talað um nauman sigur.

En þótt (næfur)þunnur meirihluti eigi sér fyrirmynd í ensku, og hefð sé fyrir að nota annað orðalag í þessari merkingu í íslensku, er það ekki næg ástæða til þess að hafna þessu orðalagi eða fordæma það. Mikill fjöldi íslenskra orðasambanda sem nú þykja góð og gild á sér erlendar fyrirmyndir án þess að við áttum okkur á því. Endurnýjun og nýsköpun er málinu nauðsynleg og ekkert að því að koma með ný orðasambönd og nýjar líkingar, jafnvel þótt kveikjan sé erlend. Það skiptir hins vegar máli að einhver hugsun sé að baki – að erlent orðalag sé ekki yfirfært hugsunarlaust. Stærsta ógnin sem steðjar að íslenskunni um þessar mundir er nefnilega ekki ensk áhrif út af fyrir sig, heldur andvaraleysi gagnvart áhrifum og þrýstingi enskunnar.

Súrdeigsdeig

Ég fékk senda mynd af auglýsingu um súrdeigsdeig. Mér fannst þetta í fyrstu mjög sérkennilegt orð – þarna kemur deig tvisvar í röð þótt súrdeig virðist alveg ná merkingunni, án tvítekningar. En við nánari athugun fann ég fleiri dæmi um orðið, m.a. eitt á tímarit.is: „Margir segja að súrdeigsdeig fari mun betur í meltinguna en venjulegt gerdeig“ segir í Fréttablaðinu 2020. Á vefnum meniga.is segir: „Svo á ég alltaf í frystinum súrdeigsdeig frá Garra.“ Auk þess eru nokkur dæmi um súrdeigspizzadeig, ýmist í einu eða tveimur orðum – það hljómar ekki eins undarlega vegna þess að þar kemur orðið eða orðhlutinn deig ekki tvisvar í röð. Orðið hljómar því frekar eins og bílaleigubíll, borðstofuborð, pönnukökupanna og aðrar þekktar samsetningar.

Forsendurnar fyrir því að orð eins og súrdeigsdeig getur komið upp eru tvær – báðar vel þekktar og eiga við um fjölda orða. Annars vegar hafa skilin milli orðhlutanna súr og deig í súrdeig dofnað og hlutarnir renna saman í eina merkingarheild í huga okkar. Orðið fer þá að vísa til ákveðinnar tegundar af deigi frekar en til deigsins sjálfs, í merkingunni 'blandað, hrært eða hnoðað efni í brauð og kökur áður en bakað er' eins og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók hljóðar, og því merkir súrdeigsdeig í raun 'hrært eða hnoðað efni af tegundinni súrdeig' í dæminu úr Fréttablaðinu. Hins vegar hefur orðið deig svo bætt við sig merkingunni 'afmarkað efnismagn (oft kúla eða klumpur) úr deigi' eins og sést á því að farið er að nota það í fleirtölu.

Fleirtalan er þó ekki ný – elsta dæmi sem ég finn um hana er í frétt í Alþýðublaðinu 1948. Það er reyndar sérlega gott dæmi vegna þess að þar koma mismunandi merkingar orðsins deig vel fram. Í fréttinni er talað um hrærivélar „sem hver getur búið til um 400 kg af deigi í einu“. Síðan koma lyftivélar sem „steypa […] deiginu í vélar á næstu hæð fyrir neðan, er móta brauðin og flytja […] deigin að bökunarofnunum“. Í fyrri dæmunum tveimur er deig safnheiti og því í eintölu, en í seinasta dæminu er búið að móta deigið í mátulega klumpa og þá er fleirtalan deigin notuð um óbökuðu brauðin. Í dæminu af meniga.is hér að framan hefur súrdeigsdeig sambærilega merkingu og merkir því í raun 'kúla eða klumpur úr súrdeigi'.

Merkingarlega séð er því í raun ekkert við orðið súrdeigsdeig að athuga. Orðhlutinn deig hefur þar tvær mismunandi merkingar og því er ekki um merkingarlega tvítekningu að ræða – ekki frekar en í t.d. tréherðatré þar sem aðeins fyrra tré-ið vísar til efnis en það seinna er merkingarlega runnið saman við herða- í orðinu herðatré sem vísar til gerðar og hlutverks en ekki (lengur) til efnis. Frá orðfræðilegu sjónarmiði er hins vegar óneitanlega dálítið klúðurslegt að sami orðhluti sé tvítekinn í einu og sama orðinu, einkum tvisvar í röð. Einhverjar hliðstæður eru þó til, svo sem aflandsland, ferskvatnsvatn og djúpsjávarsjór, og sjálfsagt myndum við venjast súrdeigsdeigi ef það kæmist í verulega notkun – það verður bara að koma í ljós.

Á að segja niðurstöður prófkjöranna eða prófkjaranna?

Eins og við er að búast þegar kosningar nálgast ber orðið prófkjör stundum á góma, þótt minna sé reyndar um prófkjör nú en venjulega vegna skamms fyrirvara á kosningum. Orðið er hálfrar annarrar aldar gamalt í málinu – elsta dæmi um það er í Víkverja 1874: „Nokkru á undan kjörþingi koma menn erlendis saman, þeir er kjósa eiga, og halda pá prófkjör.“ En orðið sést ekki aftur á tímarit.is fyrr en rúmri hálfri öld síðar og var sárasjaldgæft lengi vel. Upphaflega vísaði það til aðferðarinnar prófkjör fremur en einstakra kosninga, eins og í „Sjálfstæðismenn boða til prófkjörs í öllum kjördæmum“ í Morgunblaðinu 2009 og var þá eðlilega eingöngu notað í eintölu, en um miðja öldina var farið að nota það til að vísa til einstakra kosninga.

Samfara þessari breytingu snarfjölgaði dæmum um orðið, og breytingin kallaði á að hægt væri að nota orðið í fleirtölu. Elsta dæmi sem ég finn um fleirtöluna er í Tímanum 1946: „Miðstjórnarmaður flokksins í Suður-Þingeyjarsýslu […] færði almenn prófkjör flokksmanna í sýslunni tal við hann í vetur.“ Í Tímanum 1952 segir: „Eins og sakir standa er erfitt að spá um úrslitin í prófkjörunum hjá republikönum.“ En ekki hugnaðist öllum þetta – í bréfi í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986 sagði að „ekki fyrir margt löngu“ hefði orðið „fallið í kviksyndi fleirtölunnar“ og Gísli Jónsson sagði í sama þætti: „Prófkjör fer illa í fleirtölu“ og bætti við: „Hugsum okkur bara eignarfallið. Á það að vera prófkjara eða prófkjöra?“

Elstu dæmi um báðar eignarfallsmyndirnar eru jafngömul, frá árinu 1970. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru báðar myndir gefnar og í athugasemd þar við orðið kjör segir: „Í merkingunni skilmálar; hagur; laun er orðið aðeins notað í fleirtölu og þar er eignarfallið alltaf kjara“ en „Í merkingunni val, kosning er orðið yfirleitt haft í eintölu. Í þessari merkingu er fleirtalan fágætari og þá er eignarfallið yfirleitt kjöra, t.d. í samsetta orðinu prófkjör.“ Þetta er þó ekki rétt – á tímarit.is er hlutfallið milli prófkjara og prófkjöra u.þ.b. 3:4, en í Risamálheildinni er það u.þ.b. 5,5:4,5. Myndin prófkjara sækir því greinilega á og í Málfarsbankanum er ekki gert upp á milli myndanna og sagt: „Ef.ft. prófkjara eða prófkjöra.“

Langflest hvorugkynsorð sem hafa ö í stofni í nefnifalli, þolfalli og þágufalli fleirtölu fá a í eignarfalli fleirtölu. Þetta eru orð eins og börn – barna, lönd – landa, göt gata o.m.fl. Sama gildir um orð sem aðeins eru til í fleirtölu (í tiltekinni merkingu) eins og kjör, lög o.fl. – eignarfall þeirra er kjara og laga. Út frá þessu mynstri mætti búast við eignarfallinu prófkjara af nefnifalli fleirtölu prófkjör. En öfugt við prófkjör hafa þessi orð a í stofni í eintölunni, ef þau hafa eintölu á annað borð: barn, land, gat. Hvorugkynsorð sem hafa ö í stofni í eintölunni, eins og prófkjör, halda því hins vegar í allri fleirtölunni – líka eignarfalli. Þetta eru orð eins og rör, uppgjör, ör sem eru röra, uppgjöra, öra í eignarfalli fleirtölu – ekki *rara, *uppgjara, *ara.

Þegar málnotendur þurfa að nota tiltölulega sjaldgæfar beygingarmyndir eins og eignarfall fleirtölu, sem óvíst er að þeir hafi lært sérstaklega, leita þeir – ósjálfrátt og ómeðvitað – að mynstri til að fara eftir, og í þessu tilviki er um tvennt að ræða. Annars vegar er hægt að miða við beygingardæmið í heild og þá verður eignarfallið prófkjöra af því að orðið hefur ö í stofni í eintölunni. Hins vegar er hægt að miða eingöngu við fleirtöluna og þá verður eignarfallið prófkjara af því að þannig er það oftast af orðum með ö í nefnifalli fleirtölu – auk þess sem líklegt er að eignarfall fleirtöluorðsins kjör styrki þessa mynd. En þetta val milli mynstra getur verið truflandi – „Mér þykir hvort tveggja álíka hallærislegt“ sagði Gísli Jónsson.

„Veðurfregnir og jarðarfarir“

Í sjónvarpsþættinum „Kiljunni“ var í síðustu viku rætt við skáldkonuna Maó Alheimsdóttur sem er upprunnin í Póllandi en býr á Íslandi. Hún er nú að gefa út skáldsögu og segir að ekki hafi annað komið til greina en skrifa á íslensku: „Ég tileinkaði mér hana og nota hana eftir mínu höfði. Ég skrifa íslensku eins og ég skynja hana. Ég veit ekki alltaf hvort það sé rétt en ég gerði þetta eins og ég finn fyrir tungumálinu.“ Þegar bókin er lesin má vissulega finna sitthvað sem ekki er í samræmi við venjulega íslenska málnotkun og málhefð. Það þýðir samt ekki að þetta sé rangt eða ástæða hefði verið til að breyta því, eins og ég komst að þegar ég skoðaði þrjú dæmi af þessu tagi – að gráta lágum stöfum, að koma augum á og að brjóta þögnina.

gráta lágum stöfum. Orðmyndin hástöfum í sambandinu gráta hástöfum – og einnig með sögnum eins og hljóða, hrópa, kalla, kveina, æpa o.fl. – er vitanlega gömul í málinu og vel þekkt, og til eru dæmi um háum stöfum í sömu merkingu. Í Dagskrá 1897 segir: „það jafnrjetti […] sem franska byltingin milda kunngjörði svo háum stöfum um síðustu aldamót.“ Í Morgunblaðinu 1930 segir: „Það er erfitt, þegar annar lastar það niður fyrir allar hellur, sem hinn lofar háum stöfum.“ Hins vegar eru engin dæmi um að *gráta lágstöfum eða *gráta lágum stöfum. En þótt ekki sé hefð fyrir þeim samböndum er gráta lágum stöfum sem kemur fyrir í bók Maó vitanlega auðskilið – og alveg rökrétt – út frá gráta hástöfum.

koma augum á. Sambandið koma auga á er einnig gamalt í málinu og mjög algengt – dæmi um það á tímarit.is skipta tugum þúsunda. Þar er eintalan auga langoftast notuð þótt færa megi rök að því að fleirtalan væri „rökréttari“ – það sem við sjáum á annað borð sjáum við oftast með báðum augum en ekki bara öðru. Því er ekkert undarlegt að Maó skuli tala um að koma augum á í bók sinni og það á sér reyndar ýmis fordæmi, það elsta „Ef mey þú kemur augum á / um aptanstund“ í kvæði eftir Björn M. Ólsen í Norðanfara 1877. Í Þjóðviljanum 1967 segir: „Ég hamaðist við að koma augum á alla þessa kröm og neyð.“ Í Austra 1999 segir: „Þau eru nefnilega alltaf í felulitunum og ekki alltaf gott að koma augum á þau.“

brjóta þögnina. Í íslensku er talað um að rjúfa þögn – það samband hefur tíðkast a.m.k. síðan á nítjándu öld en ekki verður séð að neitt órökréttara sé að tala um að brjóta þögn í sömu merkingu eins og gert er í bók Maó. Vissulega gæti það samband hljómað eins og bein yfirfærsla úr break silence í ensku – og er það kannski upphaflega, en ýmis gömul dæmi um það má samt finna, ekki öll í þýðingum úr ensku. Í Norðanfara 1875 segir: „ekki nema einstaka fugl þorði að brjóta þögnina syndandi í himinblámanum.“ Í Norðurljósinu 1888 segir: „Hann efast um, hvort hann hafi verið heppinn í því, að brjóta þögnina um verzlunina á Húsavík.“ Auk þess er algengt að tala um að brjóta þagnarmúrinn þótt rjúfa þagnarmúrinn sé algengara.

Þótt málnotkunin í þessum þremur dæmum sé ekki í samræmi við málhefð hefði verið fráleitt að „leiðrétta“ hana – hún er fullkomlega rökrétt og á sér að auki bein eða óbein fordæmi í eldri textum. Vissulega er samt ýmislegt annað í bók Maó sem víkur frá málhefð og sumu hefði ég kannski breytt ef ég hefði verið í hlutverki yfirlesara – en það hefði ekki verið rétt. Við eigum að fagna því að fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli skuli vilja nota málið til listrænnar sköpunar, og það verður að fá að gera það á þann hátt sem það kýs – verður að fá að eignast hlut í íslenskunni. Eins og dæmin hér að framan sýna getur óhefðbundin málnotkun þess iðulega sýnt okkur íslenskuna í nýju ljósi og vakið okkur til umhugsunar um fjölbreytileik málsins.

Bilaðslega gott orð

Áðan sá ég fyrirsögnina „Ég læt mig dreyma og hlakka bilaðslega til“ á vef Ríkisútvarpsins. Ég hef vissulega heyrt atviksorðið bilaðslega áður en mundi ekki til að hafa séð það fyrr í rituðu máli. Á tímarit.is fundust þó tíu dæmi um orðið, það elsta í Monitor 2010: „Útúrdópaði mörðurinn var bilaðslega sætur.“ Í Risamálheildinni eru dæmin tæplega fjögur hundruð – langflest af samfélagsmiðlum en þó tæp fjörutíu af vef- og prentmiðlum. Elsta dæmi af samfélagsmiðlum er „svo er hann bilaðslega listrænn“ á Bland.is 2004. Þar sem orðið kemur fyrst fyrir þá þrátt fyrir að textar af samfélagsmiðlum nái allt aftur til ársins 2000 má leiða líkur að því að orðið hafi verið mjög nýlegt 2004 og sé því um það bil tuttugu ára gamalt í málinu.

Notkun hvorugkynsmynda lýsingarorða í stöðu atviksorða í samböndum eins og geggjað gott og geðveikt flott er alþekkt og hefur tíðkast í a.m.k. aldarfjórðung. „Fjölmörg […] orð í nútímamáli hafa nánast glatað eigin merkingu en hafa þess í stað fengið það sem kalla má hlutverksmerkingu eða ákvæðismerkingu“ segir Jón G. Friðjónsson. Sama grunnmerking getur falist í lýsingarorðinu bilaður og hvorugkyn þess hefur líka lengi verið notað á sama hátt – „það segja allir að þetta sé bilað skemmtilegt“ segir á Hugi.is 2002, „Er líka bilað stressuð út af vinnunni“ segir á Bland.is 2003. Þessa notkun má finna víðar en á samfélagsmiðlum – „Bilað fyndið!“ segir í DV 2010, „Þetta Íslandsmet er bilað gott“ segir í Morgunblaðinu 2016.

Þessi notkun hvorugkynsins bilað sem atviksorðs virðist vera eldri en atviksorðið bilaðslega enda eðlilegt að líta svo á að hvorugkynið liggi til grundvallar atviksorðinu. Tengsl orðanna sjást glöggt í íþróttafrétt í Fréttablaðinu 2013 þar sem haft er eftir knattspyrnumanni: „Það er ekki eins og við séum bilað reyndir í Evrópukeppni“ en millifyrirsögn í fréttinni er „Ekki bilaðslega reyndir“. Væntanlega kemur myndin bilaðslega til af því að málnotendum finnst þurfa að einkenna orðið betur sem atviksorð og bæta því hinni dæmigerðu -lega-endingu atviksorða við. Hugsanlegt er að líta á s-ið á orðhlutaskilunum sem eignarfallsendingu hvorugkynsmyndarinnar bilað en líklegra er þó eðlilegra að líta á það sem tengihljóð þarna.

Endingin -leg(a) er líka dæmigerð ending lýsingarorða og oftast eru til samsvarandi atviksorð og lýsingarorð með henni, enda má finna fáein dæmi um lýsingarorðið bilaðslegur sem líklega er myndað af atviksorðinu frekar en öfugt. Á Bland.is 2004 segir: „Talandi um bilaðslega hræðslu.“ Í Skessuhorni 2019 segir: „Pabbi er með bilaðslegt hlaupablogg.“ En einnig má finna fáein dæmi um atviksorðsmyndina bilæðislega. Á Málefnin.com 2005 segir: „allir hérna sem þykjast vera svona bilæðislega pólitískir og málefnalegir hvar eru þeir?“ Á twitter 2017 segir: „Þetta eru alveg bilæðislega flottar myndir sem þú ert að gera.“ Líklega liggur beinast við að líta á myndina bilæðislega sem einhvers konar samslátt á bilaðslega og æðislega.

Fólk getur auðvitað haft mismunandi skoðanir á þessari málnotkun – bæði á notkun hvorugkynsmynda lýsingarorða eins og geggjað, geðveikt og bilað í stöðu atviksorða til áherslu, og á myndun og notkun atviksorða eins og bilaðslega (og bilæðislega). Vitanlega er þetta upprunnið í óformlegu máli og trúlegt að mörgum finnist það eingöngu eiga heima þar, þótt það hafi reyndar sést nokkuð á prenti á síðustu tíu árum. En rétt er að hafa í huga að merking áhersluorða hefur tilhneigingu til að dofna með tímanum og þess vegna eru alltaf að verða til ný og ný áhersluorð – „Svo virðist sem hver kynslóð komi sér upp eigin orðaforða af þessum toga“ segir Jón G. Friðjónsson. Mér finnst ástæðulaust að ergja sig yfir þessu.

Gerum íslenskuna að kosningamáli

Þótt oft sé lögð áherslu á gildi og mikilvægi íslenskrar tungu og menningar í stjórnmálaumræðu skorar þetta ekki hátt þegar kjósendur eru spurðir hvaða mál þeim þyki mikilvægust – í könnun Prósents í ágúst nefndu aðeins 2% þátttakenda menningarmál sem eitt af mikilvægustu málunum. Vissulega má að einhverju leyti fella málið og menninguna undir menntamál sem 25% nefndu, og mannréttindamál sem 14% nefndu – og að sumra mati líklega undir málefni flóttafólks sem 11% nefndu. En eftir stendur að íslensk tunga út af fyrir sig er ekki ofarlega í huga kjósenda sem mikilvægt mál. Nú er hins vegar kominn fram frambjóðandi sem vill breyta þessu og gera íslensku að kosningamáli. Það er gott, en öllu máli skiptir á hvaða forsendum.

Frambjóðandinn sakar fáfarandi ríkisstjórn um að „missa gjörsamlega stjórn á ástandinu“, hafa sofið á verðinum og horft aðgerðalaus upp á „meiriháttar hrun í stöðu íslenskrar tungu á mörgum sviðum“ enda „sannleikurinn sá að stjórnvöld hafa ekki komist nálægt því að tryggja að innflytjendur í íslenskt samfélag tileinki sér tungumálið upp til hópa“. Það er sitthvað til í þessu – ég hef oft skrifað hér um nauðsyn þess að setja meira fé í íslenskukennslu og gagnrýnt stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi og metnaðarleysi á því sviði. En reyndar verður ekki heldur séð að stjórnarandstaðan hafi beitt sér fyrir auknu fé til þessara mála að frátalinni breytingartillögu Pírata við fjárlagafrumvarp þessa árs sem var felld – og þingmenn Miðflokksins studdu ekki.

Eins og ég hef skrifað hér um kemur íslenskan aðeins betur út úr fjárlagafrumvarpi næsta árs en undanfarin ár þótt miklu meira þurfi að koma til. Það er sannarlega ekki hægt að hrósa fráfarandi ríkisstjórn fyrir frammistöðu á sviði íslenskukennslu, en það þýðir ekki að hún hafi brugðist íslenskunni algerlega. Hún hefur þrátt fyrir allt varið meira fé til stuðnings íslenskunni en nokkur önnur ríkisstjórn með því að hrinda af stað og fjármagna – í góðri sátt allra flokka – metnaðarfulla máltækniáætlun sem er alger forsenda fyrir því að íslenskan verði gjaldgeng og lifi af í þeirri stafrænu veröld sem við lifum í. Máltæknin mun gagnast almenningi á ótal sviðum, veldur algerri byltingu í lífsgæðum margra hópa fatlaðs fólks, nýtist við íslenskukennslu o.fl.

Barátta fyrir íslenskunni er sannarlega mikilvæg, en það er hins vegar ekki heppilegt eða skynsamlegt að reka hana undir formerkjum andstöðu gegn inngildingu og fjölmenningu. Inngilding gengur út á að öll séu með og fái notið sín, óháð uppruna, kyni, hæfni eða fötlun, og barátta gegn henni er ekki líkleg til að auka áhuga innflytjenda á að læra íslensku. Sú barátta gerir ekki annað en kljúfa samfélagið, búa til málfarslega lágstétt, auka útlendingaandúð og efla flokkadrætti. Á endanum töpum við öll á þessu, bæði Íslendingar og innflytjendur – og ekki síst íslenskan. Gerum íslenskuna endilega að kosningamáli, en ekki á forsendum þess sem ekki hefur verið gert – látum gert vera gert og étið það sem étið er, eins og Bangsapabbi sagði.

Gerum íslenskuna þess í stað að kosningamáli á forsendum þess sem þarf að gera og hægt er að gera – þar ættu öll dýrin í skóginum að geta verið vinir. Á afmælismálþingi Íslenskrar málnefndar fyrr í vikunni tók menningar- og viðskiptaráðherra undir það að ekki hefði verið nóg að gert í kennslu íslensku sem annars máls og hvatti til þess að ráðist yrði í stórátak á þessu sviði. Máltækniáætlunin hefur sýnt hvers við erum megnug þegar gerð er vönduð og ítarleg áætlun sem fylgt er eftir með umtalsverðu fjármagni og góðu samstarfi allra sem málið varðar. Þetta ætti að verða kosningamál – en ekki mál sem deilt er um, ekki mál þar sem flokkarnir keppast við að yfirbjóða hver annan. Þetta ætti að vera sameiginlegt kosningamál  allra flokka.

Að leiða ágreining í jörð

Í viðtali á Vísi í dag sagði fjármálaráðherra: „Ekki síst því við áttum ágætis fund deginum áður og mitt mat var eftir þann fund að það væri hægt að leiða í jörð ágreining um til dæmis útlendingamál.“ Ég staldraði við sambandið leiða í jörð sem ég hef rekist á nokkrum sinnum undanfarið, einkum í stjórnmálaumræðu. Reyndar eru dæmi um að það sé notað í bókstaflegri merkingu: „Áður hefur verið vikið að því að annað skaut spennugjafans er leitt í jörð“ segir í Bændablaðinu 1997. En sambandið er einnig notað um spennulosun í yfirfærðri merkingu eins og í áðurnefndu dæmi og í Vísi 2013: „Við hvetjum allar þjóðir […] til þess að leiða þessa spennu í jörð“. Þessa merkingu er ekki að finna í orðabókum, enda virðist hún ekki gömul.

Elsta dæmi sem ég finn um þessa merkingu er í Vísi 2005: „Þessi sáttagerð hefði aldrei orðið að veruleika nema vegna þess að í nefndina hefðu verið valdir stjórnmálamenn sem hefðu haft þor og metnað til þess að leiða í jörð þetta mál.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Ég vona því að bak helgi verði búið að leiða í jörð obbann af þeim erfiðu diplómatísku vandamálum sem hafa tengst þessum innlánsreikningum.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Það skiptir því miklu máli að hægt sé að leiða deiluna í jörð.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Hún ber þó augljóslega með sér að í vöfflutúrunum tókst oddvitum hennar ekki að leiða í jörð ágreining um hvernig á að efna kosningaloforð Framsóknar.“ En fram um 2015 eru dæmi í fjölmiðlum sárafá.

Það er athyglisvert að sambandið virðist langoftast vera notað af stjórnmálafólki – af rúmlega hundrað dæmum um það í Risamálheildinni eru um 60% úr þingræðum. Í ræðu 2006 segir: „Ég hef nú verið þeirrar skoðunar að langskynsamlegasta leiðin í þessu sambandi sé að þessi ágreiningur sé leiddur í jörð með því að menn nái samningum.“ Í ræðu 2007 segir: „En úr því að hv. þingmaður nefndi þann ágreining sem upp hefur komið og reyndar verið leiddur í jörð upp á síðkastið.“ Alls eru 36 dæmi um sambandið í þingræðum frá 2006-2014 en undanfarinn áratug hefur það sést meira og meira í fjölmiðlum – en meginhluti þeirra dæma sem þar má finna er annaðhvort hafður eftir þingmönnum eða úr stjórnmálaumræðu.

Líkingin í sambandinu er auðskilin – það er langoftast notað um mál sem ágreiningur hefur verið um, og merking þess er greinilega að 'leiða til lykta, leysa' eða 'úrskurða um'. Þó er ekki alveg frítt við að 'slá á frest' og jafnvel 'sópa undir teppið' gæti stundum náð merkingunni betur – sum þessara ágreiningsmála eru þess eðlis að ólíklegt er að búið sé að leysa þau fyrir fullt og allt, sbr. „leiddur í jörð upp á síðkastið“ í dæmi hér að framan. Að leiða málið í jörð hljómar eins og ágreiningurinn sé grafinn en ekki endilega gleymdur og minnir svolítið á grafa stríðsöxina sem Jón G. Friðjónsson skýrir 'sættast (oft tímabundið)' í Merg málsins. En þetta er í sjálfu sér ágætis orðasamband þótt ekki megi gleyma öðrum sömu merkingar.

Alls konar -skælingar

Í innleggi í Málvöndunarþættinum í dag voru nefnd orðin leikskælingar, grunnskælingar og háskælingar og sagt að þetta væru „nýjustu orðin“. Ég veit ekki alveg hvað átt er við með því – þótt öllum þessum orðum hafi vissulega brugðið fyrir hefur ekkert þeirra hefur komist í notkun sem heitið geti. Örfá dæmi eru þó um grunnskælingar – í skólaslitaræðu árið 1977 þegar fyrstu nemendurnir útskrifuðust með grunnskólapróf sagði skólastjóri Laugalækjarskóla: „Eftir áratug eða svo verðið þið stolt af því að vera í hópi seinustu gagnfræðinga á Íslandi, eða fyrstu „grunnskælinga“. En á tímarit.is eru ekki nema fimm dæmi eða svo um orðið, og sjö dæmi af samfélagsmiðlum í Risamálheildinni. Öðru máli gegnir um orðið menntskælingur.

Í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1956 segir: „Mér finnst tími til kominn, að gerð sé athugasemd við orðskrípi eitt, sem virðist á góðri leið með að festast í íslenzku máli. Það er orðið „menntskælingur“ – sama og menntaskólanemi. Fyrst í stað mun orðið hafa verið notað meðal skólafólksins aðeins – í nokkurs konar glensi, en nú er gengið svo langt, að við sjáum það og heyrum í dagblöðum og útvarpi. […] Það er anzi hart, að ein æðsta menntastofnun landsins skuli ganga á undan í að vanskapa móðurmálið – eða hvernig fyndist ykkur, ef hinir kæmu á eftir: háskælingar, iðnskælingar o.s.frv.? […] [O]rðið á bókstaflega engan rétt á sér. […] „[M]enntskælingur“ er ekki annað en leiðinleg „skæling“, sem ætti að hverfa með öllu.“

En orðið menntskælingur var ekki nýtt þegar þetta var skrifað. Elsta dæmi um orðið á prenti er í Speglinum 1928 og fáein dæmi eru um það á tímarit.is frá næstu tveimur áratugum, en árið 1948 var stofnað skólablað undir heitinu Menntskælingur í Menntaskólanum á Akureyri, og upp úr því verður orðið algengt og er enn. Í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 er það merkt „pop.“, þ.e. óformlegt (tal)mál, en er væntanlega löngu komið inn í formlegt mál. Orðið er myndað af menntaskóli með viðskeytinu -ing(ur) sem hefur sömu áhrif á grunnorðið og venjulega – styttir það í tvö atkvæði með brottfalli innan úr því (menntaskól- > menntskól-) og breytir stofnsérhljóði ef það getur tekið i-hljóðvarpi (menntskól- > menntskæl-).

Það hefði e.t.v. mátt búast við því að önnur orð yrðu mynduð á sama hátt og menntskælingur en ekki hefur farið mikið fyrir því. Orðin sem nefnd voru í Morgunblaðinu 1956, háskælingur og iðnskælingur, eru bæði lipur en hafa ekki farið á flug – háskælingur væntanlega vegna augljósra hugrenningatengsla við sögnina háskæla, og iðnskælingur líklega vegna þess að fyrir var í málinu styttra og liprara orð sömu merkingar, iðnnemi. Ekki er heldur að sjá að notuð hafi verið orð mynduð á þennan hátt af heitum skólategunda sem áður voru algeng, barnaskóli og gagnfræðaskóli. Í seinna tilvikinu gæti það skipt máli að ekki er augljóst hvernig ætti að stytta gagnfræðaskól- niður í tvö atkvæði – *gagnskælingur er hæpið en gagnfræðingur merkti annað.

Þó má nefna að auk menntskælinga koma orðin Háskælingar, iðnskælingar og barnskælingar koma fyrir í Speglinum 1928, og einnig Kvenskælingar, Samskælingar, Verslskælingar, lýðskælingar, vélskælingar og kennaraskælingar. En Spegillinn var gamanblað og þessi orð eru þarna notuð í spaugi en ekkert sem bendir til þess að nokkurt þeirra nema menntskælingar hafi komist í notkun. Kven(n)skælingar kom þó til löngu síðar, en á seinni árum hefur verið eitthvað um að orð af þessu tagi væru mynduð af sérnöfnum – heitum einstakra skóla (reyndar má líta svo á að orðið menntskælingur hafi í upphafi verið leitt af heiti Menntaskólans (í Reykjavík og á Akureyri). Ekki er þó að sjá að neitt þeirra hafi náð útbreiðslu nema helst Hagskælingar.

Ástæðan fyrir því að menntskælingur hefur orðið algengt, öfugt við önnur (hugsanleg) orð mynduð á sama hátt, er e.t.v. að einhverju leyti sú að það er tveimur atkvæðum styttra en hitt orðið sem helst kæmi til greina í sömu merkingu, menntaskólanemi (sem er eldra og mun algengara) og þremur atkvæðum styttra en menntaskólanemandi (sem er enn eldra). Svipað er að segja um Kven(n)skælingur, en aftur á móti er grunnskælingur aðeins einu atkvæði styttra en grunnskólanemi, og leikskælingur einu atkvæði styttra en leikskólanemi – og jafnlangt og leikskólabarn. Til að stytta Verslunarskólanemi er hins vegar stundum farin önnur leið – skóla sleppt og sagt Verslingur (væntanlega að einhverju leyti fyrir áhrif frá nafnorðinu veslingur).

Aðvara, aðvörun, vara við, viðvörun – og viðvara

Í Málfarsbankanum segir: „Síður skyldi segja „aðvara“ en vara við. Á sama hátt ætti frekar að nota nafnorðið viðvörun en „aðvörun“.“ Á þessu hefur verið hamrað lengi. Í Íslenzkri stafsetningarorðabók frá árinu 1900 eru aðvara og aðvörun flokkuð sem „mállýti“. Í Syrpu 1947 segir Bjarni Vilhjálmsson: „Að aðvara og aðvörun er algengt í ritmáli nú, en verður að teljast dönskusletta. Að vara (e-n) við (e-u) og viðvörun er íslenzka.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Þeir hafa birt aðvaranir. RÉTT VÆRI: Þeir hafa birt viðvaranir.“ Í skýringu segir: „Dönsku orðin at advare eru á íslensku að vara við, en ekki að vara að, og advarsel er því á íslensku viðvörun.“ Ýmis fleiri dæmi í sama dúr mætti nefna.

Sögnin aðvara er vissulega komin af advare í dönsku en hún er gömul í íslensku – elstu dæmin um hana eru frá því snemma á 18. öld. Sambandið vara við kemur fyrir í fornu máli og virðist ævinlega hafa verið mun algengara en sögnin aðvara – ekki er hægt að átta sig á nákvæmri tíðni á tímarit.is en í Risamálheildinni er vara við nærri fimmtíu sinnum algengara en aðvara. Hér er rétt að hafa í huga að sambandið vara við er setningafræðilega fjölhæfara en sögnin aðvara, ef svo má segja. Það er hægt að segja ég varaði hana við þessu, ég varaði hana við og ég varaði við þessu en hins vegar aðeins ég aðvaraði hana – það sem varað er við getur ekki fylgt með. Þess vegna nýtist vara við í mun fleiri aðstæðum en aðvara og eðlilegt að hún sé mun algengari.

Aftur á móti er enginn slíkur munur á setningafræðilegum eiginleikum nafnorðanna viðvörun sem kemur fyrir þegar í fornu máli og aðvörun sem dæmi eru um frá því í byrjun 18. aldar. Danska nafnorðið advarsel sem svarar til advare hefði getað orðið *aðvarsla í íslensku en um það eru engin dæmi heldur var búið til nafnorðið aðvörun sem er því strangt tekið ekki danskt tökuorð heldur íslensk nýsmíð. Frá því um miðja 19. öld var aðvörun talsvert algengara orð en viðvörun ef marka má tímarit.is en bæði hafa lengi verið mjög algeng – á þriðja tug þúsunda dæma um hvort þeirra á tímarit.is. Hlutfallið snerist við um 1980 og á þessari öld er viðvörun hátt í fjórum sinnum algengara en aðvörun bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni.

En samsetta sögnin viðvara er líka til og gömul í málinu þótt hún sé ekki algeng. Í bréfi frá 1547 segir: „Þar fyrir áminni ég og viðvara kristið fólk.“ Í Eyrarannál frá seinni hluta 17. aldar segir: „Sendi kongl. Majest. sína galíótu hingað til Bessastaða, að viðvara alla Íslands kaupmenn við tyrkneskum sjóreyfurum.“ Í Vikunni 1970 segir: „Ef einhver reyndi að að brjótast inn, myndi kerfið undireins viðvara næstu lögreglustöð.“ Í DV 2011 segir: „Hver sér um að viðvara lögregluna erlendis frá?“ Milli tíu og tuttugu dæmi af samfélagsmiðlum eru um viðvara í Risamálheildinni, t.d. „Kominn tími til að fólk sé viðvarað“ á Bland.is 2013. En á Bland.is 2008 er líka „Vinaleg ábending, held maður segi alveg örugglega aðvara, ekki viðvara.“

Í Málfregnum 1992 segir Baldur Jónsson: „Tökuorðið aðvara hefir hreiðrað býsna vel um sig í íslensku, einnig nafnorðið aðvörun sem af því er myndað.“ En þrátt fyrir að hafa „hreiðrað býsna vel um sig“ virðast bæði aðvara og aðvörun á hraðri niðurleið eins og fram kom hér á undan, hvort sem rekja má undanhald þeirra að einhverju leyti til málhreinsunar eða ekki. Það er auðvitað enginn vafi á því að þrátt fyrir danskan uppruna er sögnin aðvara gott og gilt íslenskt orð, enda hefur hún verið í málinu í þrjú hundruð ár – og aðvörun ekki síður, enda íslensk smíð. Stundum er haft á orði að mál sé til komið að friða þær „dönskuslettur“ sem enn lifi í íslensku og þótt það sé líklega oftast í gamni sagt finnst mér rétt að láta aðvara og aðvörun í friði.

Orðræðugreining er mikilvæg

Á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir helgi sagði borgarstjóri: „Mér finnst einhvern veginn öll statistík til dæmis bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar.“ Það er erfitt að skilja þetta öðruvísi en sem dylgjur í garð kennara um vinnufælni og jafnvel vinnusvik, enda hafa margir kennarar mótmælt þessum orðum harðlega. Borgarstjóri reyndi að bregðast við óánægju þeirra með greininni „Kæru kennarar“ á Vísi í gær, en mér sýnist að sú grein hafi frekar hellt olíu á eldinn en lægja öldurnar. Sem von er.

Í fyrsta lagi er þar reynt að drepa málinu á dreif – tala um eitthvað allt annað en það sem olli óánægjunni („Aðgerðir undanfarinna ára“, „Breyttur veruleiki skólakerfisins“, Einhversstaðar verður umræðan að byrja“, „Mannanna verk“). Í öðru lagi er nefnt að ummælin hafi verið óundirbúin og gefið í skyn að þau hafi verið slitin úr samhengi („Í óundirbúinni ræðu minni“, „Á myndbandið vantaði byrjunina á ræðu minni“). Í þriðja lagi er sagt eða látið að því liggja að ummælin hafi verið misskilin eða rangtúlkuð („sjónarmið mín hafa ekki komist nægilega vel á framfæri“). Í fjórða lagi er beðist afsökunar á þeim viðbrögðum sem ummælin ollu en ekki á ummælunum sjálfum („mér þykir leitt að þið hafið túlkað orð mín þannig“).

Það er því miður ákaflega sjaldgæft að fólk í áhrifastöðum biðjist einlæglega afsökunar á mistökum sínum og viðurkenni þau – það er eins og fólk hræðist það og telji það vera álitshnekk fyrir sig. En ástæðan fyrir því að ég skrifa um þetta hér er sú að grein borgarstjóra er frábært kennsluefni um mikilvægi orðræðugreiningar – hún er skólabókardæmi um viðbrögð þeirra sem vita sig hafa gert mistök og eru að reyna að klóra í bakkann en sökkva í staðinn dýpra í forina. Á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu, með kosningar í nánd, er mjög mikilvægt fyrir okkur, almenna málnotendur, að skoða orðræðu stjórnmálafólks með gagnrýnu hugarfari og átta okkur á því hvernig reynt er að nota tungumálið til að slá ryki í augun á okkur og afvegaleiða okkur.