Category: Málfar

Vöplur

Vöfflur hafa lengi verið vinsælt kaffibrauð á Íslandi og eru enn. Elsta dæmi um orðið er í Einföldu matreiðslu-vasakveri fyrir heldri manna húsfreyjur sem gefið var út árið 1800 og eignað Mörtu Maríu Stephensen en almennt talið eftir Magnús Stephensen mág hennar: „Vøfflur eru tilbúnar af Hveitimjøli.“ Elsta dæmið á tímarit.is er frá 1892 en orðið virðist ekki sérlega þekkt um aldamótin og þarfnast skýringar – í ritdómi í Nýju öldinni 1899 segir, í upptalningu á villum: „„vafla“ á líklega að vera „vaffla“ (útl. nafn á köku).“ Orðið er væntanlega komið af vaffel í dönsku en á upphaflega rætur í hollensku eins og Haraldur Bernharðsson hefur rakið skilmerkilega í grein í afmælisriti Guðrúnar Ingólfsdóttur, 38 vöplur.

Í titli þess rits er notuð myndin vöplur, einnig oft skrifuð vöpplur, enda er enginn framburðarmunur á pl og ppl. Rithátturinn vapla er mun eldri – elsta dæmi um hann er í Þjóðólfi 1910: „Nýar kleinur, vöplur og pönnukökur fást keyptar á Klapparstíg 4.“ Dæmi um samsetninguna vöplujárn er þó heldur eldra – úr Auglýsingablaðinu 1903. Rithátturinn vappla sést fyrst í Vísi 1945: „sem skafinn var yfir lummurnar, pönnukökurnar og vöpplurnar.“ Á seinustu áratugum virðist sá ritháttur hins vegar nær einhafður og hinn sést varla nema í áðurnefndum titli. Ég mæli með rithættinum vapla vegna þess að hann er eldri og pl er mun algengara en ppl, auk þess sem mér finnst almennt rétt að nota frekar færri bókstafi en fleiri.

Heimildir um myndina vapla eru fáskrúðugar. Í áðurnefndri grein Haraldar Bernharðssonar kemur fram að nokkur dæmi séu um hana í talmálssafni Orðabókar Háskólans frá því um 1980. Haraldur segir þau benda til að þessi mynd hafi verið nokkuð útbreidd en e.t.v. verið algengust í máli Norðlendinga, og hafi líklega „hopað nokkuð í seinni tíð“. Á tímarit.is eru um 30 dæmi um þessa mynd, ýmist með pl eða ppl. Í Norðurslóð 2006 eru birt nokkur orð og orðasambönd „sem Kristján Eldjárn heyrði í æsku og skráði hjá sér“. Meðal þess er „Vappla, vöpplur – vöfflur, ætíð borið þannig fram“. Á annan tug dæma frá þessari öld er um myndina vöpplur á tímarit.is en það er athyglisvert að nær öll dæmin eru úr minningargreinum.

Þar er orðið vöpplur oftast haft innan gæsalappa og stundum skýrt sérstaklega. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Á meðan heilsan leyfði bauðstu oftast upp á eitthvert bakkelsi og oftar en ekki „vöpplur“, ekki vöfflur.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Aldrei fór neinn maður þaðan svangur, því ávallt voru „vöpplur“ eins og þú sagðir alltaf, smurbrauð og annað fínerí lagt á borð.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „„Fáið ykkur vöpplur krakkar mínir,“ sagðir þú í hvert skipti sem við komum til þín.“ Í sama blaði sama ár segir: „Hún elskaði súkkulaði og önnur sætindi, bakaði dýrindis smákökur, pönnukökur og „vöpplur“ meðan hún gat.“ Meirihluti þeirra sem um er skrifað er frá Norðurlandi, en einnig er þar fólk úr Borgarfirði og af höfuðborgarsvæðinu.

Oftast eru það barnabörn sem skrifa þessar minningargreinar og augljóst að þeim hefur fundist þessi framburður sérkennilegur og gamaldags og nefna hann þess vegna. Þetta sýnir glöggt að þessi framburður er að hverfa – sem er skaði. Haraldur Bernharðsson bendir á að með því að breyta vaffla í vapla sé orðið lagað betur að íslensku hljóðkerfi og segir að „myndin vaffla, ft. vöfflur sýni erlendan uppruna sinn í hljóðastrengnum [fl] sem annars er sjaldgæfur í íslensku. […] Á hinn bóginn er myndin vap(p)la, ft. vöp(p)lur betur löguð að hljóðkerfi íslenskunnar […] Frá sjónarhóli íslenskrar tungu má því ef til vill segja að vöp(p)lur fari betur í munni en vöfflur.“ Ég ólst upp við vöplur í Skagafirði en lagði þann framburð af – en hef nú tekið hann upp aftur.

Í persónu

Ýmis nútímatækni hefur gert það að verkum að merking algengra hugtaka og orða sem varða mannleg samskipti er ekki jafn ljós og áður – orða eins og sjá(st), hitta(st), halda fund o.s.frv. Áður fyrr voru þessi orð bundin stund og stað – fólk þurfti að vera samtímis í sama rými. En með tilkomu síma, útvarps, sjónvarps og sérstaklega netsins og snjallsíma hefur þetta breyst. Nú tölum við um að sjást, hittast, halda fundi o.s.frv. með hjálp tækninnar og þurfum ekki að vera í sama rými – og jafnvel ekki endilega á sama tíma. Mörgum finnst samt nauðsynlegt að greina þarna á milli – taka t.d. fram hvort við ætlum að koma saman á tilteknum stað til að halda fund, eða vera hvort/hvert á sínum stað og halda netfund. Hvernig gerum við þann mun?

Í ensku er sambandið in person notað í þessum tilgangi – það vísar þá til þess að fólk kemur saman í raunheimum. Í íslensku hefur samsvörunin í persónu verið tekin upp í sama tilgangi. Enska sambandið merkir raunar líka 'persónulega' og sú er merkingin í elstu dæmum sem ég finn um í persónu. Í viðtali við Björk Guðmundsdóttur í Helgarpóstinum 1995 segir: „Á Íslandi þekkja mig allir í persónu.“ Sama merking er í „þegar maður hittir hann í persónu er hann ósköp venjulegur gaur“ í Morgunblaðinu 2000, og oft í minningargreinum – „þó að þú sért ekki hjá mér í persónu“ í Morgunblaðinu 1997, „þó að þú verðir ekki hér í persónu“ í Morgunblaðinu 1999, „Ég fékk ekki að kynnast þér í persónu“ í Morgunblaðinu 2000, o.fl.

En svo fara að koma dæmi þar sem í persónu er andstæða við með stafrænum hætti eða eitthvað slíkt. Í Monitor 2011 segir: „Hvort er hún skemmtilegri á netspjallinu eða í persónu?“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Jingjun Xu setti nemendunum það fyrir að reyna að selja hlutabréf með mismunandi hætti, í persónu, í síma, með myndspjalli eða með því að senda textaskilaboð.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „Er tölvan tekin fram yfir að hitta vini í persónu?“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Að öðrum kosti þurfi fólk að mæta í persónu til að endurnýja.“ Stundum mætti setja persónulega í stað í persónu en þó ekki alltaf, t.d. varla í setningunni „Hann segist bæði spila á vefnum og í persónu“ í Morgunblaðinu 2010.

En með tilkomu covid-19 snemma árs 2020 dró mjög úr beinum samskiptum fólks augliti til auglitis og netsamskipti jukust að sama skapi, og við það margfaldaðist notkun sambandsins í persónu. Jafnframt virðist merkingarsvið þess hafa víkkað og þó að ég sé farinn að venjast því hnykkti mér við í morgun þegar ég sá frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem fjallað var um breytt útlit EM-stofunnar og birtar tvær myndir, önnur með textanum „Svona lítur stofan út í útsendingu“ en undir hinni stóð „Svona lítur stofan út í persónu.“ Þarna er ljóst að sambandið í persónu hefur rofið tengslin við orðið persóna og er farið að merkja 'í raun' – nema hugmyndin hafi verið að persónugera stofuna þarna sem mér finnst ekki líklegt.

En þótt sambandið í persónu eigi sér ekki langa sögu í íslensku gegnir öðru máli um sambandið í eigin persónu. Það hefur tíðkast a.m.k. síðan á seinni hluta 19. aldar og er væntanlega komiðúr dönsku, i egen person. Það stendur iðulega með sjálfur og gegnir oft því hlutverki að leggja áherslu á að um viðkomandi sjálfan / sjálfa / sjálft er að ræða en ekki fulltrúa hans / hennar / háns. Í Eimreiðinni 1902 segir: „Þetta barst prófastinum til eyrna og kom hann sjálfur í eigin persónu til að vera við prófið.“ Í Morgunblaðinu 1990 segir: „Wynette afhendir verðlaunin í eigin persónu í samkvæmi, sem haldið verður henni til heiðurs.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Þakið rifnar svo af Háskólabíói þegar Maxímús birtist loks á sviðinu í eigin persónu.“

Þótt orðið persóna sé upphaflega tökuorð í íslensku kemur það fyrir þegar í fornu máli og er vitanlega fyrir löngu orðið fullgilt íslenskt orð. En sambandið í persónu í þeirri merkingu sem hér hefur verið lýst er tekið úr ensku og á sér ekki hefð í málinu. Það er hins vegar ekki hægt að benda á eitthvert eitt orðalag sem hægt væri að nota í staðinn. Eins og áður segir væri oft hægt að nota persónulega, en stundum jafnvel sjálfur / sjálf / sjálft. Einnig mætti oft segja í raunheimi / raunheimum, í raunveruleikanum eða í raun. En svo kemur líka til greina að leita ekki að neinum staðgenglum heldur taka bara sambandinu í persónu fegins hendi og reyna að venjast því þrátt fyrir upprunann. Það verðum við bara að meta hvert fyrir sig.

Fóru þau vill vega eða villur vega?

Orðasambandið fara villur vega(r) í merkingunni 'vera villtur' eða 'hafa rangt fyrir sér, skjátlast' kemur fyrir þegar í fornu máli – „sný ég þessu níði á landvættir […] svo að allar fari þær villar vega“ segir í Egils sögu. Oft er sambandið sagt notað ranglega. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Lýsingarorðið villur (vill, villt) hefur sömu merkinu og lýsingarorðið villtur. Hann fer villur vegar. Þeir fara villir vegar. Hún fer vill vegar. Ekki: „þeir fara villur vegar“, „hún fer villur vegar“ enda er það ekki nafnorðið villa sem hér um ræðir.“ Og Jón G. Friðjónsson segir í Morgunblaðinu 2007: „Í nútímamáli (reyndar frá fyrri hluta 20. aldar) er villur stundum skilið sem þf.flt. af villa […]. Slík notkun samræmist hvorki uppruna né málvenju.“

Í nútímamáli kemur lýsingarorðið villur tæpast fyrir nema í sambandinu fara villur vega(r). Nafnorðið villa er hins vegar mjög algengt og þess vegna er engin furða að málnotendur telji að um það orð sé að ræða í þessu sambandi. Reyndar er sú notkun eldri en frá fyrri hluta 20, aldar – frá því fyrir aldamótin 1900. Í Heimskringlu 1891 segir: „þeir hafa farið villur vegar.“ Í Lísingu 1899 segir: „Vér sjáum það, að samviskan getur farið villur vegar.“ Í Þjóðviljanum 1899 segir: „Það er að vísu raunalegt, að sjá góða, og í raun og veru skynsama, menn fara villur vegar.“ Dæmum fjölgar svo þegar kemur fram yfir aldamót og alla 20. öldina má finna á tímarit.is fjölda dæma sem sýna glöggt að villur er skilið sem nafnorð en ekki lýsingarorð.

Nokkur dæmi: Í Frækorni 1908 segir: „Að sönnu er höfundurinn svo vægur, að hann ætlast ekki til, að neinn fari að álasa fornkirkjunni eða kirkjunni yfirleitt, að hún hefir farið villur vegar.“ Í Unga hermanninum 1909 segir: „Og þeir, sem hugsa, að Guð vilji ekki, að börn hans umgangist hann þannig, þeir fara villur vegar.“ Í Vísi 1937 segir: „Flugurnar fara villur vegar stundum.“ Í Skinfaxa 1939 segir: „Þau fara villur vegar í hríð og náttmyrkri.“ Í Íslendingi 1955 segir: „Báðir aðilar fara villur vegar.“ Í Skagablaðinu 1986 segir: „Það er ekki oft sem fréttist af fólki sem fer villur vegar á eða við Akranes.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Ég held að megnið af þessu unga fólki hafi nú gert sér grein fyrir því að það fór villur vegar.“

Vissulega er enginn vafi á því að villur er upphaflega lýsingarorð í sambandinu fara villur vega(r). En það þýðir ekki endilega að við séum bundin við þann skilning og annar skilningur sé sjálfkrafa rangur – það eru fjölmörg dæmi um að orð og orðasambönd hafi nú aðra merkingu eða séu skilin á annan hátt en í fornu máli. Það er enginn vafi á því að löng og mikil notkun orðsins villur sem nafnorðs í þessu sambandi hefur skapað nýja málvenju – til hliðar við þá gömlu sem auðvitað er enn í fullu gildi. Það er nefnilega ekkert að því að tvær mismunandi málvenjur séu í gangi – við þurfum ekkert öll að tala eins. Tilbrigði sýna að það er líf í málinu. Bæði blaðið fór villt vega og blaðið fór villur vega hlýtur að teljast rétt mál.

Niður til Afríku

Málfarsbankinn segir: „Athuga ber að tala fremur um norður og suður í heiminum en „upp“ eða „uppi“ og „niður“ eða „niðri“. Sagt er: suður til Afríku, suður í Afríku, norður til Kanada, norður í Kanada (ekki „niður til Afríku“, „niðri í Afríku“, „upp til Kanada“, „uppi í Kanada“).“ Í kverinu Gætum tungunnar er notað afdráttarlausara orðalag: „Sagt var: Hann fór niður til Afríku. Rétt væri: Hann fór suður til Afríku.“ Ólafur Oddsson tekur undir þetta í kverinu Gott mál og segir: „Sumir menn tala um að fara „niður“ til sólarlanda og þaðan fara þeir svo „upp“ til Íslands. Þessar áttaviðmiðanir eru dæmi um erlend máláhrif. Danir tala um að ferðast „ned til Hamborg“ en þetta er ekki málvenja hér.“ Þetta þarf þó að skoða nánar.

Vel má vera að það megi kalla þessa notkun atviksorðanna upp og niður „erlend máláhrif“, en hitt er fráleitt að segja að hún sé „ekki málvenja hér“ því að það hefur hún verið lengi. Allt frá því fyrir miðja 19. öld var alvanalegt að nota niður til um ferðir frá Íslandi til Danmerkur. Í Nýjum félagsritum 1842 segir: „Thórarensen amtmaður sendi mikið af kaupverði Hólajarðanna […] beinlínis niður til Kaupmannahafnar.“ Í Undirbúningsblaði undir þjóðfundinn 1850 segir: „Sjer í lagi þótti fundarmönnum, að það mundi verða nauðsynlegt, að senda menn niður til Danmerkur.“ Í Sunnanfara 1896 segir: „Nú þykir það nóg fyrir menntamenn okkar ef þeir drattast niður til Hafnarháskólans og drekka þar bjór í nokkur missiri.“

Enn algengara var þó að nota upp til um ferðir til Íslands, og það virðist raunar hafa verið hið venjulega orðalag – um það eru rúm 460 dæmi á tímarit.is, en tæp 270 um norður til Íslands. Í Skírni 1838 segir: „hún skyldi nú til vorsins senda 2 landmælara upp til Íslands.“ Í Þjóðólfi 1863 segir: „það var svo handhægt fyrir hann að fara sjálfr upp til Íslands til að læra íslenzkuna.“ Í Ísafold 1875 segir: „Í fyrra sendi bókmennta-fjelags deildin í Höfn bókapakka upp til Íslands í gegnum póstinn.“ Í Þjóðólfi 1875 segir: „Hún kemur út í Bretlandi um leið og hjer, og þaðan má ná henni upp til Íslands.“ Í Fréttum frá Íslandi 1879 segir: „Sömuleiðis lagði alþingi það til, að stjórnin hlutaðist til um, að seglskip yrði sent upp til Íslands.“

En þótt langalgengast væri að nota niður til um Danmörku og upp til um Ísland er þetta orðalag notað um fleira. Í Norðanfara 1879 segir: „áður en skólinn byrjaði fór jeg niður til Sljesvíkur að finna nokkra menn.“ Í Bjarka 1900 segir: „Fótatak þeirra á marmaratröppunum […] heyrðist út til kvenmans, sem gekk ein eftir veginum niður til Sevillu.“ Í Skírni 1841 segir: „Eptir þetta hörfaði Ibrahim undan upp til Damascusborgar.“ Í Dagfara 1906 segir: „Ritsímann upp til Færeyja var búið að leggja í lok júlí.“ Í Austra 1896 segir: „Að í stað þess feykimikla vatns, er streymir norðan frá Heimsskautinu niður til Grænlands og þaðan suður í höf, hljóti að streyma jafn stríður straumur frá Norður-Siberíu, upp að Heimsskautinu.“

Þegar kemur fram á 20. öldina og ferðalög aukast fara að koma dæmi um fleiri og fleiri staðaheiti með þessum orðum, einkum niður. Í Morgunblaðinu 1915 segir: „Eftir skipan Viihjálms keisara, voru þeir allir sendir niður til Miklagarðs.“ Í Alþýðublaðinu 1922 segir: „Væri það maklegt, að J.M. fengi að velta niður til Spánar með tillögur sínar í fanginu.“  Í Siglfirðingi 1924 segir: „Veiða togararnir, sem kunnugt er, í ís og fara svo með aflann niður til Englands og selja hann þar.“ Í Alþýðublaðinu 1928 segir: „Á annan jóladag s.l. sendi ég niður til Þýzkalands landslagsmynd af mér í fornbúningnum.“ Í Ljósberanum 1934 segir: „hann átti að flytja móður með lítið barn alla leið niður til Egyptalands.“

Það er sem sé ljóst að það er hátt í 200 ára gömul málvenja að nota upp og niður með staðaheitum í merkingunni 'norður' og 'suður'. Vissulega eru orðin upp og niður ekki notuð í grunnmerkingu sinni þarna – þetta er myndlíking út frá landakorti eða hnattlíkani. En myndlíkingar þykja yfirleitt fremur skraut á máli en málspjöll og hliðstæðar myndlíkingar eru vitanlega algengar í málinu og alveg eðlilegar. Vissulega er trúlegt að þessi myndlíking sé upphaflega fengin að láni úr dönsku. En hún miðast ekkert fremur við danskar aðstæður en íslenskar og gæti því eins verið íslensk að uppruna. Að amast við þessu er þess vegna della sem hver hafa étið upp eftir öðrum – það er nákvæmlega ekkert að því að fara niður til Afríku.

Fláð og sláð

Í Málvöndunarþættinum var nýlega vitnað í þáttagerðarmann á K100 sem hefði sagt „Ég get sláð á þráðinn“ og spurt hvort einhverjum fyndist þetta í lagi. Væntanlega finnst fæstum það því að sögnin slá beygist sterkt – er slæ í nútíð, sló í þátíð og slegið í lýsingarhætti þátíðar eins og í umræddu dæmi. Það þarf samt ekki að koma á óvart að mynd eins og sláð bregði fyrir. Sögnin slá beygðist nefnilega alveg eins og flá og löng hefð er fyrir veikum myndum af þeirri sögn – flái í nútíð, fláði í þátíð og flegið í lýsingarhætti þátíðar. Það er samt ekki svo að veika beygingin hafi alveg tekið við af þeirri sterku, heldur tíðkast báðar að einhverju leyti í nútímamáli og hafa að hluta til með sér verkaskiptingu eins og fram kemur hér á eftir.

Veikar þátíðarmyndir sagnarinnar flá eru gamlar og koma fyrir þegar á 17. öld enda eru þær yfirleitt viðurkenndar – í Málfarsbankanum segir: „Kennimyndir: flá, fláði, flegið. Til var sterk þátíðarbeyging, fló sem vikið hefur fyrir veiku þátíðinni fláði.“ Skiptar skoðanir eru hins vegar um lýsingarháttinn fláður sem þó er einnig gamall og kemur  fyrir í kvæðinu „Kvölddrykkjan“ eftir Jónas Hallgrímsson: „skal það bændum / af baki fláð.“ Í Morgunblaðinu 1980 svaraði Gísli Jónsson spurningunni „Er rétt að segja að refirnir hafi verið fláðir?“ með „Nei, mér finnst það ekki rétt og því síður fallegt“ og Jón Aðalsteinn Jónsson segir í Morgunblaðinu 2000: „Ég hygg, að enn sé almennt talað um, að kindin hafi verið flegin, en ekki fláð.“

Í skýringum við beygingu sagnarinnar flá í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Sögnin hefur tvær merkingar: 1. 'spretta eða fletta e-u af, t.d. húð af líkama; féfletta, …': Hann flær dýrið. Í þessari merkingu er beygingin yfirleitt sterk nema í þátíð. Sjá Íslenska orðsifjabók. 2. 'flaka frá, vera fleginn' (o.fl.): Hálsmálið fláir. Í þessari merkingu er beygingin yfirleitt veik. Sjá Íslenska orðsifjabók. Í þátíð er beygingin nánast alltaf veik í báðum merkingum: Hann fláði dýrið. Hálsmálið fláði áður en það var lagað. Í lýsingarhætti þátíðar er fláður haft um fláningu en fleginn haft um fláa, t.d. flegið hálsmál. (Sterk beyging, t.d. framsöguháttur í nútíð: hann flær, þt. hann fló; veik beyging, t.d. framsöguháttur í nútíð: e-ð fláir, þt. e-ð fláði.)“

Þótt ákveðin verkaskipting sé milli veiku og sterku myndanna er valið líka oft smekksatriði: „Mér finnst rétt að halda í gömlu beyginguna af flá, eins og hægt er. Hún er fallegri, þykir mér“ sagði Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1982, og í pistli frá 1980 sagði hann að fláðir væri „nákvæmlega eins og sagt væri: Mennirnir voru sláðir, ekki slegnir“. Þetta er alveg rétt og þess vegna hefði mátt búast við því að slá fylgdi í kjölfar flá og fengi veika beygingu til hliðar við þá sterku, en engin dæmi um slíkt er að finna á tímarit.is nema í vísu eftir Ísleif Gíslason (1873-1960) þar sem er gantast með sagnbeygingu Guddu nokkurrar: „Í deig ég náði og brauðin bók, / Bjarni fláði og skinn af tók, / litli snáðinn lesti í bók, / Loftur sláði, en Gunna rók.“

Í Risamálheildinni eru þó um 100 dæmi um veikar myndir af slá, nær öll af samfélagsmiðlum. Í héraðsdómi frá 2019 segir þó: „já ég sláði hann … með hendinni“. Í Kjarnanum 2018 segir: „Þingmenn fá 181.050 í persónuuppbót sem er orlofs- og desemberuppbót sláð saman í eina tölu.“ Í Skessuhorni 2007 segir: „Hann hlaut að hafa sláð inn vitlaust númer.“ Ef eingöngu er litið á formið er það vitanlega rétt hjá Gísla Jónssyni að sláðir er „nákvæmlega eins“ og fláðir. En munurinn er sá að af einhverjum ástæðum hefur fólk farið að nota veikar myndir af flá og gert það svo lengi að hefð er komin á þær. Hið sama gildir ekki um slá – engin hefð er komin á veikar myndir af þeirri sögn og þess vegna rétt að halda í sterku beyginguna meðan kostur er.

Stafa málbreytingar af leti?

Í gær var hér minnst á tiltekna málbreytingu þar sem smáorði er sleppt úr samtengingu og hún þar með stytt. Í umræðum var þess getið til að ástæða breytingarinnar væri leti – hugmyndin er þá væntanlega sú að málnotendur nenni ekki að nota lengri og eldri gerð samtengingarinnar og stytti hana þess vegna. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta eða eina skipti sem málbreytingar hafa verið taldar stafa af leti – um það má finna ótal dæmi í skrifum frá 19. öld og til þessa dags. Þessi hugmynd kemur líka fram í orðum eins og latmæli sem 271 dæmi er um á tímarit.is, það elsta frá 1884 en það yngsta frá 2019; latmælgi sem 58 dæmi eru um, það elsta frá 1916 en það yngsta frá 2014; og málleti sem 25 dæmi eru um, það elsta frá 1911 en það yngsta frá 2002.

Þegar skoðað er í hverju hið meinta latmæli er talið felast kemur margt í ljós. Þannig er Steinastaðir talið latmæli fyrir Steinólfsstaðir, kvöld fyrir kveld eða hvíld, Skoradals- fyrir Skorradals-, sæli nú fyrir sælir nú, Olgeir fyrir Holgeir eða Hólmgeir, attur og ettir fyrir aftur og eftir, Effersey fyrir Örfirisey, skifti fyrir skipti, á stað fyrir af stað, Egla og Grettla fyrir Egils saga og Grettis saga, öðli fyrir röðli, Rifkelsstaðir fyrir Hripkelsstaðir, fjalla fyrir fjatla, netagerð fyrir netjagerð, daginn, bless og gúmorin fyrir sæll vertu og vertu sæll, hurðarás fyrir burðarás, Reyggjavigg og Agureyri fyrir Reykjavík og Akureyri, uppgöfga fyrir uppgötva, Normannar fyrir Norðmenn, pilsonum fyrir pilsunum, Holt fyrir Þjórsárholt, o.s.frv.

Hér eru býsna blandaðir réttir á borðum og skýringarnar misáreiðanlegar, og svipuð dæmi mætti taka um orðin latmælgi og málleti þótt það síðarnefnda hafi oft almenna vísun frekar en tengjast einstökum atriðum. En frá því fyrir miðja 20. öld eru orðin latmæli og latmælgi þó aðallega notuð um framburð: „Það er hið sunnlenzka latmæli, þegar p, t, k verður b, d, g milli sérhljóða og í enda orðs eftir löngu sérhljóði“ segir Stefán Einarsson í Studia Islandica 1949. „Latmæli, flámæli, linmæli og hvers kyns ófögnuður veður uppi, svo að ósköp eru á að hlýða“ segir Steindór Steindórsson í Heima er bezt 1960. Stundum virðist linmæli notað sem samheiti við latmæli en annars staðar virðist gerður einhver munur á þessu, en óljóst er hver hann er talinn.

Vissulega má segja að margar málbreytingar komi fram í einfaldari starfsemi talfæranna – samlögun hljóða, brottfall hljóða og atkvæða úr orðum, brottfall orða úr orðasamböndum o.fl. Með því að kenna þetta við leti sem þykir almennt neikvæður eiginleiki er vitanlega verið að lýsa vanþóknun á þessum breytingum. En eins er hægt – og miklu nær – að lýsa þeim á jákvæðan hátt sem vinnusparnaði og hagræðingu. Því fer líka fjarri að allar málbreytingar sem kenndar hafa verið við leti felist í einhverri einföldun. Til dæmis bendir ekkert til að „latmæli“ eins og framburður ófráblásinna lokhljóða í innstöðu í orðum á við hopa, vita, loka sé á nokkurn hátt einfaldari eða krefjist minni áreynslu eða orku en framburður fráblásinna lokhljóða.

Á árunum 600-800 tók ættmóðir íslenskunnar, frumnorræna, miklum breytingum. Mesta breytingin var hið svonefnda stórabrottfall, sem fólst í því að öll stutt, áherslulaus, ónefkveðin sérhljóð féllu brott. Eitthvert róttækasta dæmið um þetta er að úr orðinu harabanaR féllu brott hvorki meira né minna en þrjú sérhljóð – orðið styttist um þriðjung, fór úr níu hljóðum í sex og varð hrafnr, og styttist síðar enn þegar -r féll brott í enda þess og til varð nútímamyndin hrafn. Þrátt fyrir það hefur aldrei tíðkast að rekja þetta brottfall til leti forfeðra okkar og formæðra þarna í aðdraganda víkingatímans, enda væri það fráleitt. En jafn fráleitt er að kenna málbreytingar í samtímanum við leti. Ýmislegt óæskilegt á rót sína í leti, en ekki málbreytingar.

Mörg mör

Í Málvöndunarþættinum var í gær spurt út í orðmyndina mör sem hafði verið notuð um manneskju sem var mikið marin. Þarna er augljóslega verið að nota orðið mar í fleirtölu – það er skýrt 'áverki á líkama af völdum höggs eða þrýstings, þar sem líkamshluti hefur kramist' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en er venjulega aðeins notað í eintölu og engin fleirtala gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í stað fleirtölunnar er venjulega notað orðið marblettur sem er skýrt 'blár eða gulur blettur á húð af völdum höggs, mar'. Merkingarmunur orðanna virðist kannski ekki mikill, en þó má segja að marblettur sé sýnilegri eða áþreifanlegri en marmarið er ekki bara hin sýnilegu ummerki á húðinni en marbletturinn er birtingarmynd þess.

En þrátt fyrir þetta er ljóst að mar er mjög oft notað í sömu merkingu og marblettur. Þannig er algengt að talað sé um stórt mar, ljótt mar, blátt mar o.s.frv. þar sem augljóslega er vísað til birtingarmyndarinnar frekar en undirliggjandi áverka. Þess vegna mætti búast við því að orðið væri notað í fleirtölu, ekkert síður en marblettur, en það er yfirleitt ekki gert. Hugsanlega stafar það af því að mör, sem er eina fleirtölumynd orðsins sem kemur til greina, fellur saman við nafnorðið mör sem merkir 'innanfita í dýrum, netja'. Þótt það samfall ætti svo sem ekki að geta valdið misskilningi getur það eigi að síður verið truflandi og valdið því að fólk forðist að nota mör í fleirtölu. Einstöku dæmi má þó finna um að það sé gert.

Þannig segir í héraðsdómi frá 2008: „4-5 cm mar sitt hvoru megin á höfði, 2 mör aftan á höfði, 4-5 cm hvort.“ Í mbl.is 2016 segir: „„Það fóru líka að birtast mör á handleggjum og fótleggjum, marblettir sem mér fannst erfitt að útskýra.“ Í annarri frétt á sama miðli sama ár segir: „Konan slasaðist nokkuð og er hún meðal annars með brotna hryggjarliði, brákað rifbein, skurð og mör.“ Á Hugi.is 2007 segir: „Ég veit ekki með hina en þessi sem ég þekki lenti uppi á slysó með nokkra skurði, þetta fína glóðurauga og mör útum allt.“ Á Twitter 2020 segir: „Er með mör á bakinu.“ Á Hugi.is 2007 kemur fram vafi um fleirtöluna: „Ég er bara með svo rosalega viðkvæma húð að ég fékk mar (mör?).“ En þetta er vissulega mjög sjaldgæft.

En orðið mar er þó stundum notað um annað en fólk, ekki síst um við, og þá vandast málið. Í héraðsdómi frá 2009 segir t.d.: „Ekki hefur verið gætt nægilega að því að skaða gluggana ekki, neglt í þá og viðurinn marinn og klofinn.“ Í héraðsdómi frá 2019 segir: „Mikið sé um litlar skemmdir og mar í viðnum.“ Þarna væri ekki hægt að nota marblettur í staðinn – þetta er annars eðlis. Ef þörf er á að nota fleirtölu er því ekki um annað að ræða en nota mör, eins og kemur fram á Hugi.is 2011: „Hann er í fullkomnu ástandi fyrir utan smávægileg mör á tveimur aftari hornum magnarans.“ Þarna er fleirtalan mör eðlileg og ég sé ekkert að því að nota hana líka um mar á fólki en auðvitað er það smekksatriði og þyrfti að venjast.

Það er rangt mál að tala um tvennra dyra bíl

Í Málfarsbankanum segir: „Orðið dyr er fleirtöluorð í kvenkyni. Einar, tvennar, þrennar, fernar dyr. Tvennra dyra bíll og fernra dyra bíll (ekki „tveggja dyra“ eða „fjögurra dyra bíll“).“ Frá upphafi bílaaldar á Íslandi var þó ævinlega talað um tveggja dyra og fjög(ur)ra dyra bíla. Elsta dæmið er í Morgunblaðinu 1926: „Hinn endurbætti tveggja dyra „Sedan“ er hið ákjósanlegasta fjölskyldufarartæki.“ Í auglýsingu í Vísi 1927 segir: „Ennfremur 2 FORD bifreiðar, yfirbygðar, tveggja og fjögra dyra.“ Næstu fimmtíu árin er samtals á fjórtánda hundrað dæma um tveggja og fjög(ur)ra dyra bíla á tímarit.is en ekki eitt einasta um tvennra eða fernra dyra bíla – fyrr en 1977. En 23. febrúar það ár skrifaði Helgi Hálfdanarson í Morgunblaðinu:

„Það leið heldur ekki á löngu, unz Ríkisútvarpið, í nafni einhvers kaupsýslumanns, tók til að bjóða Íslendingum „tveggja dyra“ bíla. […] [E]intöluorðið „dyr“ er ekki til í íslensku fremur en „ein buxa“ eða „eitt skæri“. Hver sem er svo málhaltur að geta ekki sagt „tvennra dyra bíll“ eða „fernra dyra bíll“, ætti þó að geta klöngrazt fram úr því að segja „bíll með tvennum dyrum“ og „bíll með fernum dyrum“, sem raunar færi betur á allan hátt. En sé hann svo heillum horfinn og skyni skroppinn, að honum séu einnig þær bjargir bannaðar, á hann þess enn kost að segja blátt áfram „tveggja hurða bíll“ og „fjögurra hurða bíll“, þó víst sé það vesall Íslendingur, sem leggur á flótta frá þeim yndislega vanda að tala íslenzku.“ Hér er ekki skafið utan af hlutunum.

Í ljósi sögunnar er dálítið skondið að Þjóðviljinn skyldi í þetta skipti verða fyrstur til að hlaupa eftir því sem stóð í Morgunblaðinu. Strax daginn eftir,  24. febrúar 1977, stóð í auglýsingum þar: „Opel Rekord, árg. ´68, tvennra dyra bíll, blár“ og „Peugeot 203, árg. ´69, grár, fernra dyra bíll.“ Þjóðviljinn var svo einn um að nota þetta orðalag í auglýsingum fyrst um sinn, en eftir 1980 breiddist það út, enda hnykkti Helgi margoft á því í molunum Gætum tungunnar sem birtust í öllum dagblöðum á árunum 1982-1983 og í samnefndu kveri 1984. Síðan þá hefur verið algengt að tala um tvennra og fernra dyra bíla í auglýsingum þótt tveggja og fjögurra dyra sé einnig algengt. Aftur á móti sló „flóttaleiðin“ tveggja og fjögurra hurða bíll ekki í gegn.

Í bílaþætti í Lesbók Morgunblaðsins 1979 segir: „Gerðin, sem hingað flytzt er frá Simca-verksmiðjunum í Frakklandi og ævinlega fjögurra dyra eins og sagt er samkvæmt rótgróinni, íslenzkri málvenju og trúlegt er að haldist, þótt einn af spekingum okkar í meðferð móðurmálsins vilji fremur hafa það „fjögurra hurða“.“ Í bílaþætti Morgunblaðsins 1993 segir: „Í daglegu, mæltu máli er vart talað um annað en tveggja dyra, eða fjögra dyra bíla. […] Þessvegna munum við í bílaumfjöllun Morgunblaðsins halda okkur við dyr og tala áfram eins og hingað til um tvennra, fernra eða fimm dyra bíla.“ Þetta tókst þó ekki alltaf – í bílaþætti blaðsins 1997 segir: „Fyrir vikið virðist bíllinn tveggja dyra þegar hann er í raun fernra dyra.“

Það er auðvitað rétt að dyr er fleirtöluorð og samkvæmt því „ætti“ að tala um tvennar og fernar dyr. En hitt er ekki síður rétt, og þungvægara í þessu tilviki, að „samkvæmt rótgróinni, íslenzkri málvenju“ og í „daglegu, mæltu máli“ er nær undantekningarlaust talað um tveggja og fjögurra dyra bíla. Það orðalag var einhaft frá upphafi og í hálfa öld, þar til farið var að berjast gegn því með „rökrétt mál“ að vopni. En eins og hér hefur margsinnis verið skrifað um fer því fjarri að tungumálið sé alltaf „rökrétt“ – eða eigi að vera það. Það eru fjölmörg dæmi um það að óvenjulegar eða „órökréttar“ myndir orða séu notaðar í tilteknum föstum orðasamböndum. Það er ekki málvenja neinna að tala um tvennra og fernra dyra bíla – það er því í raun rangt mál.

Látbrögð

Í fyrradag var vakin hér athygli á því að í leikdómi í Ríkisútvarpinu sama dag hefði verið talað um „nóg af ýktum látbrögðum og grótesku“. Þarna er orðið látbragð notað í fleirtölu sem ekki er venja – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins gefin upp eintölubeyging orðsins. Það er eðlilegt miðað við þá merkingu orðsins sem gefin er upp í Íslenskri orðabók – 'fas, framganga, látæði'. Orðið kemur fyrir í þessari merkingu í fornu máli, t.d. í Laxdæla sögu: „Hann hafði allfagra hönd og sterklegan handlegg og allt var hans látbragð kurteislegt.“ Sama merking er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðri 19. öld: „Hún var velklædd, en þó skartlaus, kurteis í látbragði og hin fegursta.“ Þessi merking býður ekki upp á neina fleirtölu.

En þegar í upphafi 20. aldar er farið að nota látbragð til að vísa til einstakra athafna í tjáningu, og þá verður fleirtalan nauðsynleg og eðlileg. Elsta dæmi um fleirtöluna er í Heimskringlu 1902, en í Baldri 1905 segir: „Á vöxt voru þeir mjög líkir og í öllum látbrögðum, nema hvað Eliot var nokkuð hærri og þreknari.“ Sérlega áhugavert er dæmi úr Heimskringlu 1922: „En það eru ekki eingöngu þessar andlitsbreytingar og gráturinn, sem lýsa hugsunum vorum litlu síður en málið; limaburðir, látbrögð ýms og fas gera það oft eigi síður. […] Slík látbrögð eru það, sem ýmsir kynflokkar nota í stað reglulegs tungumáls. […] En einmitt á sama hátt og hvert látbragð er látið tákna eitthvað ákveðið hjá þessum mannflokkum […].“

Skýring orðsins í Íslenskri nútímamálsorðabók, 'tjáning með handarhreyfingum og líkamanum', fellur vel að þessari notkun og á tímarit.is er nokkuð af dæmum um að látbrögð vísi til líkamstjáningar leikara. Í Mánudagsblaðinu 1949 segir: „hann hefur fundið, hvaða setningar og látbrögð vekja mesta kátínu.“ Í Framsóknarblaðinu 1951 segir: „Nokkur tilsvör og látbrögð eru þó prýðilega af hendi leyst.“ Í Þjóðviljanum 1951 segir: „Hljómlist er með myndinni en ekkert tal – allt er tjáð með látbrögðum.“ Í Mánudagsblaðinu 1966 segir: „Arnar nær sér nú afbragðsvel upp, ekki aðeins sem leikari, látbrögðin eru honum eðlileg.“ Alls er nær hálft annað hundrað dæma um fleirtölumyndir orðsins látbragð á tímarit.is.

Orðið látbragðsleikur merkir 'leikræn þjáning með hreyfingum, svip og látbragði en án orða' en fyrri liðinn er hægt að túlka á tvo vegu. Annars vegar getur hann haft almenna vísun í fas og líkamstjáningu leikara, en hins vegar er hægt að skilja það svo að vísað sé til einstakra athafna í tjáningu. Myndin látbragðaleikur sem einnig er til endurspeglar væntanlega þann skilning. Þessar myndir eru álíka gamlar en látbragðaleikur þó aðeins eldri – elsta dæmi á tímarit.is frá 1942, en elsta dæmi um látbragðsleik frá 1947. Síðarnefnda myndin varð þó fljótt ofan á og hin hvarf algerlega. En þótt merking orðsins látbragð hafi víkkað út og það geti nú vísað til einstakra athafna í tjáningu heldur það vitaskuld eldri merkingu áfram.

Á seinustu árum hefur fleirtalan látbrögð fengið nýja merkingu, ekki síst í íþróttamáli. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Það var algjör óþarfi að tapa þeim leik en dómarinn féll fyrir látbrögðum sóknarmanns Búlgaríu.“ Á fótbolti.net 2019 segir: „hann svaraði illa fyrir sig, með ýmsum látbrögðum sem ekki eru fyrirliða sæmandi.“ Hér er merkingin líklega 'látalæti, blekkingar' (þar sem tenging við sögnina látast og nafnorðið brögð liggur hugsanlega að baki). En fleira kemur til. Á Vísi 2009 segir: „hún er alltaf tilbúin að létta andann hjá félögum sínum í liðinu með allskyns látbrögðum.“ Á Vísi 2021 segir: „Þar stóð fulltrúi sýslumanns með kjörseðil og hófust látbrögðin á ný.“ Hér virðist merkingin vera 'stælar, fíflagangur'.

Að fresta flugum

Hér voru settar inn með stuttu millibili tvær færslur þar sem verið var að amast við setningum eins og öllum flugum hefur verið frestað. Þessum færslum var hent út vegna neikvæðs anda í þeim og útúrsnúnings eins og „Hvenær breyttist flug í flugur“? – en það þýðir ekki að þetta sé ekki verðugt viðfangsefni. Það hefur reyndar verið rætt hér nokkrum sinnum áður en aðeins í framhjáhlaupi og nú skal bætt úr því. Orðið flug merkir 'það að fljúga' og í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tekin dæmin hún athugaði flug fuglanna og öllu flugi var aflýst vegna vonskuveðurs um þá merkingu. En auk þess merkir orðið 'einstök ferð flugvélar' og það er sú merking sem iðulega er amast við og því stundum haldið fram að sé tilkomin fyrir ensk áhrif.

En þessi merking er meira en aldargömul í málinu – meira að segja eldri en saga flugs á Íslandi. Elsta dæmi um hana er í Frækorni 1909: „Við flugin í Reims hefir Latham fengið uppreisn fyrir það hve óheppinn hann var með tilraunir sínar að fljúga yfir sundið.“ Í Vísi 1911 segir: „er flugin byrjuðu voru þar komnar 600 þús. áhorfenda.“ Í Morgunblaðinu 1919 er fyrirsögnin „Flugin yfir Atlanzhaf.“ Í sama blaði sama ár segir: „Flugin tókust bæði ágætlega.“ Í Sunnudagsblaðinu 1926 segir: „Skulu nú hér talin nokkur merkustu flugin.“ Í Morgunblaðinu 1928 segir: „þessar ferðir eru frekar skoðaðar sem skemtiferðir, á sama hátt og flugin yfir bæinn og nágrennið.“ Í sama blaði sama ár er fyrirsögnin „Hassel-flugin“. Svo mætti lengi telja.

Í öllum þessum dæmum er ljóst að verið er að vísa til tiltekinna ferða flugvéla og þess vegna er fleirtalan eðlileg. Það má vel vera að einhverjum finnist samfall orðanna flug og fluga í þágufalli fleirtölu truflandi, en slíkt samfall beygingarmynda er fjarri því að vera einsdæmi og vitanlega eru engar líkur á því að dæmi eins og öllum flugum aflýst misskiljist – það er orðhengilsháttur og útúrsnúningur að halda því fram. Vissulega er þarna líka hægt að nota eintöluna, öllu flugi aflýst – en hvað á að gera ef aflýsingin er ekki alger, í dæmum eins og „Þá var um 400 flugum aflýst til og frá landinu“ í Fréttablaðinu 2022? Oft er sagt að í slíkum tilvikum eigi að nota orðið flugferð í staðinn – en er það örugglega hægt?

Orðið flugferð merkir 'ferðalag með flugvél' og á ekki endilega við í þessu samhengi, þar sem merkingin er frekar 'ferð flugvélar'. Vissulega má segja að 400 flugferðum aflýst yrði fremur skilið sem '400 ferðum flugvéla' en 'ferðum 400 farþega' en stundum finnst mér vera greinlegur og mikilvægur merkingarmunur á flug og flugferð. Ég get t.d. sagt ég var að koma úr langri flugferð – þurfti að fara í þrjú flug. Þarna fyndist mér ótækt að segja ég var að koma úr löngu flugi ef ég skipti um vélar, en eins fyndist mér ótækt að segja þurfti að fara í þrjár flugferðir ef eitt flug tekur við af öðru – þá er þetta ein ferð. En hvað sem þessu líður er ljóst að það er ekkert athugavert við að segja öllum flugum hefur verið frestað.