Category: Málfar

Hladdu símann!

Í dag var hér spurt hver væri boðháttur sagnarinnar hlaða. Eins og fram kemur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er venjulega myndin, með viðskeyttu annarrar persónu fornafni, hladdu – en hlað þú ef fornafnið er ekki haft viðskeytt. Þessi boðháttur var sjaldgæfur til skamms tíma – innan við tuttugu dæmi fram til síðustu aldamóta á tímarit.is. En með tilkomu fartölva, farsíma, rafskútna og ýmissa annarra rafhlöðudrifinna tækja sem þarf að hlaða hefur þörf fyrir að nota hlaða í boðhætti stóraukist á síðustu áratugum, auk þess sem sögnin er notuð í samböndum eins og hlaða upp og hlaða niður. Tíðni boðháttarins hefur því aukist, en minna en við væri að búast – ekki eru nema tæp 40 dæmi um hladdu í Risamálheildinni.

Það kom líka fram í umræðum að mörgum virðist enn finnast boðhátturinn hladdu framandi eða hljóma óeðlilega – hann væri „mjög óþjáll og ekki notaður í daglegu tali“ –  og vildu reyna að finna leið fram hjá honum, t.d. með umorðun. Þetta er vel þekkt – í Degi-Tímanum 1997 segir: „Hladdu! Furðulegur boðháttur.“ Á Twitter 2016 segir: „Síminn minn sagði "hladdu batteríið". Mér fannst það eitthvað óþægilegt.“ Á Twitter 2017 segir: „Er hladdu orðskrípi eða rétt?“ Fjöldi hliðstæðra boðháttarmynda er þó til – boðháttur af vaða er vaddu, af ráða ráddu, af ákveða ákveddu, af breiða breiddu, af biðja biddu, af bíða bíddu, af sjóða sjóddu, af ræða ræddu, o.fl. Flestar þessara mynda eru algengar og hljóma eðlilega í eyrum málnotenda.

Boðháttur er myndaður af stofni sagna sem kemur fram í nafnhætti, og allir þessir boðhættir eru reglulega myndaðir þótt það sé kannski ekki augljóst. Stofn allra sagnanna endar á , og við hann bætist fornafnið þú sem verður -ðu í áhersluleysi – hlað-ðu. En langt eða tvöfalt ð er ekki til í íslensku – þar sem tvö ð koma ættu að koma saman kemur alltaf fram langt eða tvöfalt dd í staðinn. Það er ekki bundið við boðháttinn – þetta gerist líka í þátíð margra sagna eins og breið-ði > breiddi, ræð-ði > ræddi, í mörgum lýsingarorðum (sem eru upphaflega lýsingarháttur þátíðar af sögn) eins og klæð-ður > klæddur, sað-ður > saddur (sbr. seðja), í nafnorðum eins og breið-ð > breidd, víð-ð > vídd, og í gælunöfnum eins og Gudda.

Vegna þess að þessi boðháttarmyndun er regluleg og hljóðbreytingin ðð > dd á sér fjölmörg fordæmi mætti búast við að boðhátturinn hladdu hljómaði eðlilega í eyrum málnotenda, en því virðist vera misbrestur eins og áður segir. Ástæðan er sennilega sú að myndir með -ddu eru óneitanlega talsvert ólíkar nafnháttarmyndum með -ða. Slíkur munur truflar okkur ekki í þeim orðum sem við erum vön og alin upp við, svo sem bíddu, ræddu o.s.frv., en eins og áður segir var boðháttur af hlaða sjaldgæfur til skamms tíma og þrátt fyrir að víxl ð og dd séu algeng í málinu virðast málnotendur ekki tengja þetta auðveldlega. En vegna aukinnar tíðni hlaða má búast við að dæmum um boðháttinn fari fjölgandi og við venjumst smátt og smátt við hladdu.

Baldur og faraldur

Aðalending sterkra karlkynsorða, bæði nafnorða og lýsingarorða, í nefnifalli eintölu er -urhest-ur, góð-ur o.sfrv. En í sumum nafnorðum og lýsingarorðum er -ur ekki beygingarending, heldur hluti stofns og r-ið á því að haldast í öllum beygingarmyndum – -ið fellur aftur á móti brott ef beygingarending hefst á sérhljóði. Þannig fáum við akur akur akr-iakur-s, Baldur Baldur Baldr-i Baldur-s, fagurfagr-anfögr-um fagur-s. Það fer eftir uppruna orðanna hvort -(u)r er hluti stofnsins eða beygingarending og um það gildir engin sérstök regla – oft haga orð sem eru með sambærilegt hljóðafar sér á mismunandi hátt að þessu leyti. Við segjum t.d. fald-ur um fald en galdur um galdur, og hag-ur um hag-an en fagur um fagr-an.

Þetta er sem sé eitt af því sem við þurfum að læra fyrir hvert orð um sig og vegna þess að það er margfalt algengara að -ur sé beygingarending en hluti stofns er ekkert undarlegt að málnotendur meðhöndli það stundum sem endingu þar sem það er í raun hluti stofns – felli það brott í þolfalli ef um nafnorð er að ræða eða setji -an þess í stað ef um lýsingarorð er að ræða. Þetta er ekki nýtt, a.m.k. ekki hvað varðar Baldur – í Reykvíkingi 1902 segir: „hús Balds Benediktssonar trjesmiðs.“ Í móðurmálsþætti í Framsóknarblaðinu 1954 segir: „Röng beyging á þessu orði er mjög algeng í málinu.“ Í móðurmálsþætti í Vísi 1956 segir: „Þá hefi eg heyrt eignarfallið af Baldur haft til Balds, sem er auðvitað rangt.“

Eitt þeirra orða þar sem -ur er stofnlægt er faraldur – öfugt við mannsnafnið Haraldur þar sem -ur er nefnifallsending. Eignarfall orðsins er faraldurs og því mætti búast við samsetningum eins og faraldursfræði enda segir Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 2001: „Læknar munu tala um faraldursfræði, ekki faraldsfræði.“ En það er reyndar ekki rétt – faraldsfræði er eina myndin sem gefin er upp í Íðorðasafni lækna í Íðorðabankanum þótt faraldursfræði gefið í öðru orðasafni í bankanum, og í Málfarsbankanum segir: „Talað er um faraldsfræði og faraldsfræðing.“ Þar að auki er faraldsfræði margfalt algengara en faraldursfræði á tímarit.is – þar eru 1800 dæmi um fyrrnefnda orðið en rúm 120 um það síðarnefnda.

Í Læknablaðinu 2005 hafði Jóhann Heiðar Jóhannsson formaður orðanefndar Læknafélagsins það eftir Ólafi Ólafssyni fyrrverandi landlækni að „heitið faraldsfræði hefði orðið til í starfshópi sem vann að undirbúningi á hóprannsókn Hjartaverndar árin 1967-1968. Naut hann meðal annars aðstoðar Vilmundar Jónssonar, fyrrum landlæknis“. En eins og fram kemur í grein Jóhanns Heiðars er ekki bara til karlkynsmyndin faraldur þótt hún sé einhöfð í nútímamáli, heldur einnig hvorugkynsmyndirnar faraldur og farald. Allar þessar myndir koma fyrir í fornu máli, en farald er þó algengust. Eignarfall þeirrar myndar er faralds og það er því hægt að líta svo á að sú mynd sé notuð í samsetningunni faraldsfræði sem þar með er fullkomlega eðlileg.

Árvakur eða Árvakran?

Í gær var vakin hér athygli á því að í frétt á vef Ríkisútvarpsins hefði verið talað um „Netárás á Árvakran, útgáfufélag Morgunblaðsins“. Þarna er Árvakur sem sé beygt eins og lýsingarorð en ekki nafnorð eins og venja er, enda hefur fréttinni verið breytt og þar er nú talað um „Netárás á Árvakur“. Orðið árvakur er upphaflega lýsingarorð og merkir 'sem vaknar snemma' en hefur lengi einnig verið notað sem nafnorð – „Þeir hestar heita svo: Árvakur og Alsvinnur“ segir í Snorra-Eddu. Helgi J. Halldórsson segir í Skírni 1975: „Árvakur mun eiga að beygjast eins og akur. Orðið kemur fyrir á tveimur stöðum í Snorra-Eddu og einnig á tveimur stöðum í Sæmundar-Eddu. Þar er eignarfallið Árvakurs.“ En ég hef ekki fundið þessi dæmi.

Í lýsingarorðinu árvakur er -ur ekki ending nefnfalls eintölu í karlkyni eins og t.d. í góður, heldur hluti stofnsins og árvakran er því hárrétt lýsingarorðsbeyging. Jafnframt er eðlilegt að þegar orðið er gert að nafnorði sé -ur sé einnig hluti af stofni þess, eins og Jón Aðalsteinn Jónsson segir í Morgunblaðinu 2001: „Þeir, sem mynduðu þetta nafnorð eftir lo., létu það fallbeygjast eins og no. akur, þ. e. sem a-stofna orð með stofnlægu r-i, sem helzt í öllum föllum et. og ft.: akur, akur, akri, akurs, ft. akrar, akra, ökrum, akra.“ En vitanlega er viðbúið að fólk skynji stundum -ur sem nefnifallsendingu og hafi aukaföllin Árvak, Árvaki og Árvaks – elsta dæmi um það er „Alla byrgir Árvaks mön“ í rímum eftir Árna Böðvarsson frá 1777.

En væri fráleitt að beygja orðið sem lýsingarorð eins og upphaflega var gert í fréttinni? Það má bera þetta saman við orðin hvítur og svartur sem vitanlega eru lýsingarorð en notuð sem nafnorð í skákmáli – svartur á leik, hvítur vinnur. Jón G. Friðjónsson segir í Málfarsbankanum: „Í máli skákmanna geta lo. svartur og hvítur ýmist vísað til þess sem stýrir svörtu/hvítu liðsmönnunum eða svarta/hvíta liðsaflans […]. Í fyrri merkingunni mun nokkuð á reiki hvort farið er með orðin svartur/hvítur sem lýsingarorð (hvítur, hvítan, hvítum, hvíts) eða nafnorð (hvítur, hvít, hvíti, hvíts). […] Ég hef vanist því að nota lo.-beyginguna í dæmum sem þessum en tel engin efni til að amast við no.-beygingunni, hér hlýtur málkennd að ráða […].“

Þegar lýsingarorð standa sjálfstæð án nafnorðs halda þau oft lýsingarorðsbeygingu sinni –sérstaklega ef auðvelt er að hugsa sér eitthvert undirskilið nafnorð þótt það sé ekki skilyrði. Þetta á ekki síst við um málshætti og föst orðasambönd, svo sem haltur leiðir blindan, fá sér einn gráan o.m.fl. En þegar lýsingarorð er gert að sérnafni eins og í þessu tilviki er eðlilegt að það fái nafnorðsbeygingu, sérstaklega þegar ljóst er að það er vilji stjórnenda fyrirtækisins sem um er að ræða. Yfirleitt finnst mér sjálfsagt að fólk, fyrirtæki og stofnanir ráði því hvernig nöfn þeirra eru beygð, svo framarlega sem beygingin brýtur ekki í bága við íslenskt málkerfi. Þótt Árvakran geti í sjálfu sér staðist var það því eðlilegt að breyta því í Árvakur í áðurnefndri frétt.

Að rýma fólk(i)

Í frétt á Vísi nýlega stóð: „Rýma þurfti fólk úr íbúðarhverfi í nágrenni við golfvellina vegna hvassviðris.“ Ég sá að gerðar voru athugasemdir við þetta orðalag í hópnum Skemmtileg íslensk orð, enda er sögnin rýma vissulega notuð þarna á óvenjulegan hátt. Hún er skýrð 'gera (e-ð) autt, laust' og 'tæma (byggingu) vegna hættuástands' í Íslenskri nútímamálsorðabók og því hefði mátt búast við rýma þurfti íbúðarhverfi af fólki eða álíka. En þess eru þó ýmis dæmi að andlagið vísi ekki til rýmisins sem losað er eða tæmt, heldur til þess sem er fært úr rýminu. Þá tekur rýma venjulega með sér orð eða orðasamband sem vísar til rýmisins sem losað er eða tæmt – forsetninguna úr, atviksorð eins og brott eða burt(u), eða þá forsetningar- eða atvikslið.

Í Skírni 1837 segir: „var þá 392 skógarmönnum rýmt úr héraðinu.“ Í Þjóðólfi 1895 segir: „og bað sendiherrana jafnframt liðveizlu til að rýma fólkinu úr kirkjunum.“ Í Læknablaðinu 1920 segir: „Ekki er gott að flytja barnaveiku börnin inn á einhverja sjúkrastofuna, og rýma fólkinu þaðan burtu.“ Í Heimilisblaðinu 1922 segir: „Hún ætlaði sér nú alveg að rýma honum úr huga sínum.“ Í Vísi 1975 segir: „Ef skyndilega þyrfti að rýma fólki af Reykjavíkursvæðinu og nágrenni þá er ekki með góðu móti hægt að komast neitt.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Landsbjörg tilkynnti í dag að björgunarsveitir höfðu verið kallaðar út í kringum svæðið til að rýma fólki.“ Sambandið rýma (einhverjum) úr vegi var líka nokkuð algengt áður fyrr.

Í þessum dæmum merkir rýma því ekki 'losa, tæma' heldur 'fjarlægja, færa' og það má bera saman við samsetninguna útrýma – við tölum um að útrýma fólki (af landsvæði) en ekki *útrýma landsvæði, þótt við segjum rýma landsvæði (af fólki). Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 eru nokkur dæmi, m.a. „Hann útrýmdi hórkalla af landinu“ og „En Sebúl útrýmdi Gaal og hans bræður so þeir máttu ekki vera í Síkem“. Merking útrýma hefur reyndar breyst dálítið – áður merkti hún 'fjarlægja, færa' eða 'vísa brott', og þá fylgdi henni oft vísun til þess rýmis sem fólki var vísað brott úr, en eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók merkir hún nú oftast 'eyða (e-u) alveg'– „ætlun nazista var að útrýma Gyðingum í heild“ segir í Frjálsri þjóð 1963.

Dæmin úr Guðbrandsbiblíu sýna að útrýma stýrði áður þolfalli en tekur nú ævinlega þágufall eins og rýma gerir oftast þegar hún vísar til þess sem fært er (rýma fólki). En dæminu sem vísað var til í upphafi stýrir sögnin þó þolfalli eins og hún gerir þegar andlagið vísar til þess sem er losað eða tæmt (rýma húsið). Einstöku önnur nýleg dæmi má finna um þetta – „Þannig þau þurfa að taka á sig smá krók til að komast vestur fyrir sprunguna til að rýma fólk þaðan frá“ segir t.d. í Fréttablaðinu 2021; „Byggingar eru fyrst og fremst hannaðar til að standast eld nægilega lengi til að rýma fólk úr þeim“ segir á Málefnin.com 2008. Trúlegt er að þar sé um að ræða áhrif frá hinni venjulegu notkun rýma þar sem ævinlega er notað þolfall eins og áður segir.

Dæmin sem ég hef tilfært um notkun rýma þar sem andlagið vísar til þess sem er fært eða fjarlægt (rýma fólki), og ekki síst samanburður við sögnina útrýma þar sem andlagið hefur hliðstæða merkingu (útrýma fólki), sýna að dæmið sem vísað var til í upphafi, „Rýma þurfti fólk úr íbúðarhverfi“, er alls ekki jafn fráleitt og virst gæti að óathuguðu máli. Ég ætla samt ekki að leggja til að við förum að tala um að rýma fólk(i) – ég held að það sé heppilegast að halda sig við hina venjulegu notkun sagnarinnar. Tilgangurinn með þessari umfjöllun er bara að minna á að fara varlega í fordæmingu á því sem okkur virðist fráleitt eða óskiljanlegt í fljótu bragði – það á sér oft skýr fordæmi eða hliðstæður í málinu. Sýnum skilning og umburðarlyndi!

Að _____ kaffi

Í gær spannst hér heilmikil umræða af spurningu um það hvort algengt væri og eðlilegt að segja hella á kaffi – fyrirspyrjandi kannaðist aðeins við hella upp á kaffi. Það síðarnefnda er vissulega venjulega orðalagið, en hinu bregður þó fyrir stöku sinnum – elsta dæmi sem ég finn um það er í ljóðabókinni Villirím eftir Steinunni Eyjólfsdóttur frá 1981: „Þau sömu eiga ekki alltaf / að hella á kaffið.“ Í DV 1982 segir: „var hlaupandi að hella á kaffi og missti þar af leiðandi heilan helling úr“. Í Eyjafréttum 1984 segir: „Hjalli í Dölum var inni að hella á kaffi.“ Í Víkurfréttum 1986 segir: „Matti í bókabúðinni lánaði aðstöðu til að hella á kaffi.“ En dæmin eru sárafá – ekki nema tuttugu í Risamálheildinni, þar af helmingur af samfélagsmiðlum.

En sambandið hella upp á kaffi er reyndar ekki ýkja gamalt. Elsta dæmi um það er í Vikunni 1945: „Frú Blom var búin að hella upp á kaffi, og allt í einu var áfengi komið á borðið.“ Næstu dæmi eru frá 1956 og fáein dæmi eru frá næsta aldarfjórðungi þar á eftir, en orðalagið verður ekki algengt fyrr en eftir 1980. Aftur á móti hafa samböndin hella á könnuna og hella upp á könnuna sem merkja það sama og hella (upp) á kaffi tíðkast og verið algeng síðan í lok nítjándu aldar. Elsta dæmi um það fyrrnefnda er í Norðurljósinu 1891: „Þegar ég var búin með nægju mína af skyrinu, var kerling búin að hella á könnuna.“ Elsta dæmi um síðarnefnda sambandið er í Iðunni 1886: „Þorbjörg var að enda við að hella upp á könnuna.“

Samböndin hella (upp) á könnuna og hella (upp) á kaffi vísa til þess að heitu vatni er hellt yfir malað kaffi í síu – áður var sían yfirleitt efst í könnu. Vegna þess að samböndin merkja það sama og eru mjög svipuð er ekkert undarlegt að þeim slái saman, þannig að hella upp á kaffi missi stundum upp og verði bara hella á kaffi, hliðstætt við hella á könnuna – raunar má halda því fram að atviksorðinu upp sé ofaukið í þessu sambandi. En oft er andlaginu líka sleppt og sagt bara hella (upp) á. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1945: „Ég var nýbúin að hella á, en það var svolítið farið að kólna.“ Mig minnir að hella á hafi verið það orðalag sem oftast var notað þegar ég var að alast upp í Skagafirði á sjöunda áratugnum.

En fleiri sagnir og orðasambönd eru notuð um þessa athöfn, m.a. laga kaffi en elsta dæmi um það á tímarit.is er í Þjóðviljanum 1910: „Húsbóndinn segir, að þér eigið að fara á fætur, klæða yður, og laga kaffið.“ Þetta hefur þó ekki alltaf þótt gott og líklega talið komið af lave kaffe í dönsku. Í Dagsbrún 1916 segir: „Einn af vinum ritstjóra þessa blaðs […] hefir fundið að því, að það væri slæm íslenzka að segja »laga« kaffi […]. Sá, sem þetta ritar, hefir aldrei heyrt neinn Íslending kalla það annað en að »laga« kaffi […].“ Sambandið laga kaffi hefur þó alltaf verið töluvert notað, og einnig afleidda nafnorðið kaffilögun – elsta dæmi um það á tímarit.is er í Dagblaði 1925: „Að sjálfsögðu koma aðeins leysanlegu efnin til greina við kaffilögunina.“

Eldra er þó að tala um að hita kaffi. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Ísafold 1880: „Þeir sem hafa stóra báta, hafa hús í apturenda (skut) og liggja opt úti fleiri dægur, hafa með sjer mat og hita kaffi o.s.frv.“ Þetta samband hefur einnig verið töluvert notað alla tíð og er enn – ég held að þetta sé það orðalag sem ég nota oftast. En enn eldra orðalag er að búa til kaffi – elsta dæmi um það er í Íslendingi 1860: „Hann kom litlu síðar, og afsakaði sig, að hann hefði eigi fyr komið, með því, að hann hefði verið í eldhúsinu að búa til kaffi.“ Þetta er sjaldgæfara en hin samböndin en hefur þó verið nokkuð notað alla tíð og ég nota það oft. Að auki eru örfá dæmi um brugga kaffi sem e.t.v. eru áhrif frá brew coffee í ensku, og einnig sjóða kaffi.

Elsta sambandið af þessu tagi virðist þó vera gera kaffi sem kemur fyrir í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „og láti aðeins elðakonu skreppa á fætur snemma til að gjöra þeim kaffi.“ En annars finn ég ekki dæmi um það fyrr en í Alþýðublaðinu 1995: „Eftir að hafa gert kaffi í djúpri pönnu að hætti útigangsmanna og útlaga Villta Vestursins sest hann niður.“ Í DV 1996 segir: „Eiginkonan kallar úr svefnherberginu hvort ég ætli ekki að gera kaffi.“  Sambandið hefur verið að breiðast út á síðustu árum og töluvert af dæmum um það frá þessari öld er að finna í Risamálheildinni. Ekki er ótrúlegt að þarna komið til áhrif frá enska sambandinu make coffee en ástæðulaust að fordæma sambandið þess vegna og sjálfsagt að fagna því fjölbreytta orðalagi sem í boði er.

Elsku vinur

Um daginn var hér spurt hvaða orðflokkur elsku væri þegar orðið stendur með nafnorði, eins og elsku vinur, elsku Gunna o.s.frv. Í fljótu bragði mætti ætla að það væri lýsingarorð vegna þess að það hefur sömu setningarstöðu og ýmis ótvíræð lýsingarorð – góði vinur, kæra Gunna o.s.frv. Lýsingarorðið elskur er vissulega til, í merkingunni 'vinveittur, kær', en vandinn er sá að það ætti að beygjast og standa þarna í veikri beygingu – vera *elski vinur eins og góði vinur, *elska Gunna eins og kæra Gunna, o.s.frv. Í aukaföllum kæmi svo *elska vin eins og góða vin í karlkyni, en í kvenkyni kæmi rétt mynd – elsku Gunnu eins og kæru Gunnu. En það er tilviljun – elsku er alltaf í þeirri mynd, óháð kyni, tölu og falli orðsins sem það stendur með.

Afskrifum því lýsingarorð í bili og hugum að öðrum möguleikum. Til er nafnorðið elska sem í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýrt 'ást, kærleikur' og 'sá eða sú sem er elskaður; ávarpsorð' – undir þeirri skýringu er dæmið elsku systir þar sem litið væri á elsku sem eignarfall. Vissulega taka nafnorð oft á undan sér annað nafnorð í eignarfalli á þennan hátt, og dæmi eru um hliðstæð ávarpsorð – hjartans vinur, vesalings sóley, aumingja skinnið o.s.frv. Það er engin ástæða til að efast um að elsku sé upprunalega eignarfall af nafnorðinu elska en spurningin hvort rétt sé að greina það þannig samtímalega. Það er t.d. ekki hægt að setja samheitið ást í staðinn og segja *ástar vinur, *ástar Gunna eða eitthvað slíkt – merkingarlega gengur það illa upp.

Snúum okkur þá aftur að þeim möguleika að þrátt fyrir beygingarleysið sé þetta lýsingarorð, eins og setningarstaðan bendir til. Í 3. útgáfu Íslenskrar orðabókar er elsku sjálfstætt flettiorð, sagt óbeygjanlegt lýsingarorð og skýrt 'gæluorð í ávarpi eða umtali (oftast hliðstætt)'. Í Ritmálssafni Árnastofnunar er elsku einnig sjálfstætt flettiorð og greint sem lýsingarorð, og undir það felld tvö dæmi frá 20. öld. Hins vegar eru nokkur hliðstæð dæmi frá fyrri öldum felld undir nafnorðið elska. E.t.v. má túlka þetta þannig litið sé svo á að eðli orðsins hafi breyst – í eldri textum sé eðlilegt að líta á það sem nafnorð, en í nútímamáli sé það orðið að lýsingarorði. En vissulega gæti þetta líka stafað af ósamræmi í greiningu án þess að hafa nokkra merkingu.

Í umræðum um þetta var bent á að oft er elsku notað eitt og sér, án þess að nokkurt nafnorð fari á eftir. „Elsku, fáið ykkur köku“ segir í Sagan öll eftir Pétur Gunnarsson frá 1985. Í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur frá 1986 segir: „ef þetta er eitthvað svipað með þig þá elsku láttu mig vita bréflega, símlega eða persónulega.“ Þetta eru frekari rök fyrir því að greina elsku sem lýsingarorð vegna þess að svona er einmitt hægt að nota ýmis lýsingarorð. „Góði flýttu þér nú á fætur“ segir í Manndómi eftir Andrés Indriðason frá 1982. „Gamli komdu að mótmæla“ segir á Twitter 2014. Aftur á móti er útilokað að nota nafnorð í eignarfalli á þennan hátt – *hjartans vertu kyrr, *veslings láttu ekki svona, *aumingja farðu heim, o.s.frv.

Þetta er því áhugavert dæmi um að greiningarviðmið rekist á, eins og stundum vill verða og ég hef skrifað um – í þessu tilviki bendir uppruni og beyging í eina átt, en setningarstaða í aðra. Ef við viljum endilega að hægt sé að setja öll orð í einhvern ákveðinn orðflokk verðum við að velja okkur viðmið, og ég myndi í þessu tilviki fara eftir setningarstöðunni og segja að elsku sé lýsingarorð. En ég held hins vegar að það sé vont að þurfa að velja einn flokk. Eins og ég hef áður sagt er ég „sannfærður um að kennsla […] þar sem nemendur væru látnir skoða einstök orð og hegðun þeirra frá ýmsum sjónarhornum – beygingu, setningarstöðu, og merkingu – væri bæði margfalt gagnlegri og óendanlega miklu skemmtilegri en steindauð flokkunarfræði.“

Hryðjuverk – taka tvö

Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég um orðið hryðjuverk og benti á að merking þess hefði breyst á undanförnum áratugum – áður hefði það verið notað um ýmis ódæðisverk sem ekki yrðu kölluð hryðjuverk nú og sagði: „Orðið hryðjuverk hefur því í raun verið gert að eins konar íðorði og notað sem þýðing á (act of) terrorism í ensku. […] Það er í sjálfu sér gagnlegt að hafa sérstakt orð yfir ódæði af þessu tagi og ekki illa til fundið að nýta orðið hryðjuverk í þeim tilgangi, þótt það geti stundum verið svolítið ruglandi fyrir þau sem ólust upp við almennari merkingu orðsins.“ Um helgina kom einmitt upp mjög skýrt dæmi um það hvernig þessi merkingarbreyting orðsins getur valdið misskilningi og ruglað umræðuna.

Í viðtali í Vísi í fyrradag lýsti verslunareigandi aðkomunni að verslun sinni eftir brunann í Kringlunni svo: „Þetta var bara eins og hryðjuverk, þetta var bara skelfilegt.“ Þessi notkun orðsins hryðjuverk vakti blendin viðbrögð og DV hefur tínt saman nokkrar tilvitnanir af samfélagsmiðlum þar sem hún er fordæmd. Í einni er sagt „Algerlega óviðeigandi orðanotkun og þynnir algerlega það sem konan vil koma á framfæri. Oj.“ Í annarri tilvitnun segir „Bremsaðu þig drama-drottning held þú gerir þér litla grein fyrir hvað er að verða fyrir hryðjuverki!“ Í þriðju tilvitnuninni segir „Augljóst að Svava þekkir ekki merkingu orðsins „hryðjuverk“. Slíkt er venjulega framið af fólki í ákveðnum tilgangi. Hitt er tjón af völdum eldsvoða.“

Verslunareigandinn er um sextugt og hefur væntanlega alist upp við almennari merkingu orðsins hryðjuverk en nú tíðkast – rétt eins og ég, enda hnaut ég ekki um orð hennar þegar ég las viðtalið. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við að hún bregði þessu orði fyrir sig í geðshræringu í óundirbúnu viðtali og fráleitt að ráðast að henni fyrir það. Þetta dæmi sýnir annars vegar hættuna sem getur fylgt því að taka orð úr almennu máli og gera það að íðorði, og hins vegar hættuna sem getur fylgt því að byggja aðeins á eigin máli og málkunnáttu en leiða ekki hugann að því að orð geta haft aðra merkingu í máli annarra. En aðallega minnir þetta okkur þó á að dæma fólk ekki fyrir málfar þess og orðanotkun heldur sýna umburðarlyndi.

Þetta Danmerkurdæmi

Nafnorðið dæmi fær þrjár skýringar í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'þraut í stærðfræði, reikningsþraut, reikningsdæmi', 'sýnishorn af e-u (óáþreifanlegu)' (framkoma borgarstjórans er dæmi um hroka yfirvalda) og 'það að e-ð á sér stað, atburður, tilfelli' (þess eru mörg dæmi að menn kaupi hús í útlöndum). Engin þessara skýringa nær þó yfir algengustu notkun orðsins í samsetningum í óformlegu máli, þar sem ábendingarfornafnið þetta fer á undan – samböndum eins og þetta magadæmi, þetta platbarnadæmi, þetta grasadæmi, þetta koppadæmi, þetta vöðvabólgudæmi, þetta lyfjadæmi, þetta skilaboðadæmi, þetta föndurdæmi, þetta eggjadæmi, þetta fjórhjóladæmi, þetta breiðbandsdæmi, sem öll eru af Bland.is á árunum 2002 og 2003.

Dæmin um þetta í Risamálheildinni eru á annan tug þúsunda, langflest af samfélagsmiðlum – þ.e. úr óformlegu máli. Þótt mörg þeirra séu skrifuð í tvennu lagi eða með bandstriki milli orðhluta, einkum ef fyrri hlutinn er erlendur, er eðlilegast sé að líta á þau öll sem samsetningar. Engin þessara orða er að finna í orðabókum, enda eru þetta einnota augnabliksmyndanir – orð sem verða til á tilteknum stað og stundu vegna þess að þörf er fyrir þau, en er ekki ætlað framhaldslíf. Þess vegna er merking þeirra mjög fljótandi – í þeim merkir -dæmi oftast eitthvað í átt við 'viðfangsefni, vandamál, vesen, mál, atburður, áætlun, hugmynd' o.fl. en nákvæmur skilningur byggist algerlega á samhengi og/eða þekkingu þeirra sem orðunum er beint til.

Í Morgunblaðinu 2006 segir: „Við erum náttúrulega búnir að plana þetta Danmerkurdæmi í kannski tvö ár.“ Í fréttinni kemur fram að málið snýst um útrás íslensks tónlistarfólks en í öðru samhengi gæti þetta Danmerkurdæmi vísað til fjölmargs annars – viðskipta við Danmörku, flutnings til Danmerkur, heimsóknar til Danmerkur, o.s.frv. Sama má segja um öll samböndin sem nefnd eru hér að framan – þið getið skemmt ykkur við að hugsa upp samhengi þar sem þau gætu átt við. Auðvitað er þetta misaugljóst – sumt er aðeins skiljanlegt innan þröngs hóps en ef við sæjum talað um þetta Grindavíkurdæmi væri augljóslega vísað einhvers sem tengdist eldsumbrotum í grennd við Grindavík þótt samhengið yrði alltaf að segja til um nákvæma vísun.

Það er erfitt að segja hversu gömul þessi notkun er í málinu. Mér finnst ekki mörg ár síðan ég fór að taka eftir henni en hún er orðin algeng í elstu textum á samfélagsmiðlum, frá 2002, þannig að hún er a.m.k. aldarfjórðungs gömul. Ég held að ástæðan fyrir þessari notkun sé svipuð og fyrir notkun sambanda eins og eða þannig og eða þar sem ég hef áður skrifað um –  þau eru notuð ýmist sem regnhlíf yfir ýmislegt tengt sem ekkert eitt nákvæmara orð nær yfir, eða til að sleppa við nákvæma útlistun vegna þess að hún er óþörf eða við treystum okkur ekki í hana. Tíðni þessarar orðmyndunar sýnir að hún þjónar ákveðinni þörf og ég sé ekkert að því að nota hana í óformlegu máli, og geri það sjálfur, en eftir er að sjá hvort hún kemst inn í formlegt mál.

Að gúmma

Samfélags- og tæknibreytingar hafa mismunandi áhrif á orð og orðasambönd sem notuð eru um það sem breytist. Oft haldast orðin þótt eðli þess sem þau vísa til gerbreytist, en missa þá iðulega það gagnsæi sem þau höfðu upphaflega – dæmi um það eru orðin eldhús og myndband. Í öðrum tilvikum lifa orðin eða orðasamböndin áfram í breyttri merkingu, oft sem líking – dæmi um það eru samböndin strauja kortið og spóla til baka. En stundum hverfa orðin – eða tiltekin merking þeirra – alveg með því sem þau vísuðu til. Dæmi um það er orðið ávísun en algengasta merking þess var til skamms tíma 'sérprentað blað, ígildi peninga, sem eigandi bankareiknings fyllir út og undirritar, og er upphæðin síðan dregin frá innistæðu hans við framvísun í banka, tékki'.

Vissulega hefur orðið fleiri merkingar en þessi er nær alveg horfin – sem og samheitið, tökuorðið tékki sem nefnt er í skýringunni, sem er úr Íslenskri nútímamálsorðabók. Á síðasta þriðjungi tuttugustu aldar voru ávísanir eða tékkar helsti gjaldmiðill í viðskiptum, ásamt seðlum, en viku fyrir debet- og kreditkortum og hurfu að mestu kringum aldamótin. Þessi orð leiddu af sér ýmsar samsetningar sem einnig eru horfnar – ávísanahefti, ávísanareikningur, ávísanafölsun, ferðaávísun, tékkhefti, tékkareikningur, ferðatékki o.fl. Merking allra þessara samsetninga er væntanlega nokkuð augljós, en hugsanlega þarf að skýra samsetninguna gúmmítékki sem var töluvert notuð í óformlegu máli og merkti 'innstæðulaus ávísun'.

Orðið gúmmítékki er væntanlega komið af rubber check/cheque sem er notað í óformlegri ensku í sömu merkingu – einnig er notað bounced check. Vegna þess að þetta er óformlegt orð er varasamt að nota prentuð blöð sem heimildir um aldur þess, en elsta dæmið sem ég finn er í Vikunni 1963: „Gúmmítékkar hafa lengi verið þekkt fyrirbrigði á voru landi, og ekki þótt neitt skemmtilegur gjaldmiðill.“ Þetta sýnir að orðið var vel þekkt á þessum tíma og það var algengt fram yfir aldamót, seinustu árin oft sem líking, en er nú nær horfið. En þótt orðin tékki og ávísun væru notuð jöfnum höndum kemur *gúmmíávísun ekki fyrir og það er mjög eðlilegt – ávísun er formlegt orð og ekki við því að búast að það væri notað í óformlegri samsetningu.

En gúmmítékki leiddi af sér skemmtilega sögn – gúmma, sem merkti ‚skrifa innstæðulausa ávísun, gúmmítékka‘. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Alþýðublaðinu 1975 þar sem fólk er spurt hvort það noti ávísanahefti og einn svarenda segir: „Ég „gúmmaði“ mikið í fyrra, það var þannig fyrirkomulag á kaupgreiðslunum.“ Þetta var fyrir daga rafrænna bankaviðskipta – á þessum tíma þurfti að senda allar ávísanir til þess bankaútibús þar sem ávísanareikningurinn var. Þetta gat tekið nokkra daga og þess vegna féll fólk stundum í þá freistingu að gúmma t.d. á djamminu um helgar. „Það var svo auðvelt að gúmma og redda þessu á mánudegi“ – þ.e. áður en ávísunin bærist bankanum – segir í upprifjuninni „Allt varð þetta úrelt“ í DV 2005.

Vegna þess að sögnin er óformleg gæti hún vitaskuld verið talsvert eldri en prentheimildir sýna, en alls eru um 50 dæmi um hana á tímarit.is, flest frá níunda og tíunda áratugnum. Stundum er hún notuð í líkingum – „Hugmyndabankinn virðist bara hafa verið orðinn tómur um miðja mynd og gúmmað eftir það“ segir t.d. í kvikmyndagagnrýni í DV 1991. Í Risamálheildinni eru um 20 dæmi um sögnina, flest af samfélagsmiðlum frá fyrstu árum aldarinnar, en nú er hún líklega horfin. Það er eftirsjá að henni, því að þótt gúmmítékki sé bein yfirfærsla úr ensku er sögnin gúmma væntanlega alíslensk orðmyndun og mjög áhugaverð og skemmtileg sem slík – aðeins leidd af fyrri hluta nafnorðsins en tengslin við tékka koma ekki fram í henni.

Sautjándinn

Í dag er þjóðhátíðardagurinn, 17. júní, sem iðulega er nefndur sautjándinn. Sú orðanotkun er meira en sextíu ára gömul – elsta dæmi sem ég finn um hana er í fyrirsögninni „Sautjándinn í Eyjum“ í Alþýðublaðinu 1962, átján árum eftir að 17. júní varð þjóðhátíðardagur. Næsta dæmi er úr sama blaði 1968, en þessi orðanotkun fer ekki að verða algeng fyrr en á níunda áratugnum. Alls eru rúm 220 dæmi um sautjándann á tímarit.is og tæp hundrað í Risamálheildinni. Fyrirmyndin er nokkuð augljós – talað hefur verið um þrettánda dag jóla sem þrettándann a.m.k. síðan á fyrri hluta nítjándu aldar. En þótt aldrei séu gerðar athugasemdir við þrettándann hefur sautjándinn iðulega sætt gagnrýni, ekki síst í þætti Gísla Jónssonar í Morgunblaðinu.

Í þættinum „Íslenskt mál“ 1988 taldi Gísli það „jaðra við óvirðingu, ef ekki helgispjöll að segja á 17. júní og bætti við: „Ég tala nú ekki um, þegar farið er að kalla þjóðhátíðardaginn sautjándann, svona rétt eins og þrettándann eða aðra minni háttar tyllidaga.“ Í sama þætti 1990 sagði Gísli: „Ég býst við að framhaldið verði „á sautjándanum“, ef ekki eru rammar skorður við reistar.“ Í sama þætti árið eftir talaði hann um fyrirsögnina „Hlýnar á sautjándanum“ sem „þetta lágkúrulega málfar“. Í sama þætti 2001 sagði Gísli: „Verst er þegar sagt er „á 17. júní“, eða „á sautjándanum“ sem sumum misheyrist „á sitjandanum“.“ Jón Aðalsteinn Jónsson og Baldur Pálmason skrifuðu einnig nokkrum sinnum um þetta í Morgunblaðið.

En öðrum fannst engin ástæða til að amast við þessu. Í þætti sínum 1996 birti Gísli Jónsson bréf frá Jóni Þórarinssyni tónskáldi sem sagði: „Og af því að þessar línur eru skrifaðar þrettánda dag jóla, á þrettándanum, get ég ekki stillt mig um að nefna að mér finnst móðurmálinu ekki hætta búin þótt talað sé um hátíðahöld á sautjándanum […].“ Gísli viðurkenndi að hann segði hiklaust „á þrettándanum“ en sagði: „Í vitund minni er þrettándinn feginsdagur, en þjóðhátíðardagurinn of hátíðlegur, þó gleðidagur sé, til þess að segja „á sautjándanum“.“ Mér finnst þetta þó fremur hlýlegt en lágkúrulegt og tek undir það sem Mörður Árnason segir í Málkrókum: „Það er ágætt mál að álfar fari á kreik á þrettándanum og að fjallkonan ávarpi þjóð sína á sautjándanum.“