Category: Málfar

Óvirk lagaákvæði um íslenskt mál

Í viðtali á Bylgjunni í gær minntist Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir á það að áður hefði það verið lagaskylda að fyrirtæki bæru íslensk nöfn en það væri nú fallið úr lögum, og sagði „Það sem einu sinni var getur orðið aftur“. Þau lög sem þarna er um að ræða eru Lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð frá 1903 (!) og þar er umrætt ákvæði reyndar enn að finna í 8. grein sem hljóðar svo: „Hver sá er stundar atvinnurekstur skal hlýða ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, […] enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.“ Nú er það verkefni Fyrirtækjaskrár að meta hvort firmanöfn samrýmist lögum, m.a. hvað varðar umrætt ákvæði.

Á vef Fyrirtækjaskrár segir þó að hún telji sig „aðeins leiðbeinandi aðila í málum er varðar firmaheiti“ og ákvarðanir hennar sé hægt að kæra til menningar- og viðskiptaráðuneytisins og síðan til dómstóla ef því er að skipta. Í leiðbeiningum segir: „Fyrirtækjaskrá leggur ekki lengur bann við því að menn noti erlend heiti í firmanafni sínu“ og enn fremur: „Fyrirtækjaskrá hefur á sl. árum og áratugum hins vegar verið að draga úr kröfum að þessu leyti, sérstaklega með hliðsjón af því að ekki eru lengur aðeins skráð íslensk firmaheiti í skrána. Það kemur þó alltaf upp öðru hvoru að neitað er um skráningu á heiti þar sem það verður talið brjóta það sterklega gegn íslensku málkerfi að ekki er talið unnt að heimila skráningu þess í opinberar skrár.“

Lögin eru sem sé óbreytt, en slakað hefur verið á framkvæmdinni hvað þetta varðar. En meðan lögunum var fylgt fastar eftir – að nafninu til – var reyndar sífellt verið að fara í kringum þau, með því að skrá eitt nafn í firmaskrá en nota annað í kynningum og auglýsingum. Þetta var alkunna og oft um það rætt. Þekkt dæmi var Veitingahúsið Álfabakka 8 hf. sem svo hét í firmaskrá, en almenningur þekkti undir heitinu Broadway. Þetta er því dæmi um lagaákvæði sem í reynd var ekki hægt að fylgja eftir, og ekki virðist hafa verið vilji fyrir því hjá stjórnvöldum að breyta lögunum þannig að ekki væri hægt að fara kringum þau á þennan hátt. Niðurstaðan hefur í staðinn orðið að láta eins og þetta ákvæði sé ekki til. Það er ekki heppilegt.

Annað dæmi um vísun til íslensks máls í lögum er í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu frá 2005 en þar segir í 6. grein: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Við þekkjum samt fjölda dæma um auglýsingar sem eru að meira eða minna leyti á ensku. Stundum geta auglýsendur e.t.v. skákað í því skjóli að þeir séu ekki að höfða til Íslendinga, t.d. á veitingastöðum þar sem mikill meirihluti gesta er erlent ferðafólk, en eftir sem áður gengur það gegn íslenskri málstefnu að auglýsa eingöngu á ensku. En það er með þessi lög eins og firmalögin, að mikið skortir á að þeim sé framfylgt. Það er til lítils að hafa ákvæði um íslensku í lögum ef okkur skortir vilja og getu til að framfylgja þeim.

Atvinnulífið gefur skít í íslensku

Fern samtök í íslensku atvinnulífi skrifuðu utanríkisráðherra þann 27. júní sl. bréf sem er allt á ensku. Þarna eru sem sé fern samtök í íslensku atvinnulífi að skrifa íslenskum ráðherra og íslensku ráðuneyti á erlendu tungumáli, þrátt fyrir að í fyrstu grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segi skýrt: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Í annarri grein sömu laga segir enn fremur: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs“ og í fimmtu grein segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Þetta er svo skýrt sem verða má.

Fyrir utan skýr lagaákvæði er í gildi þingsályktun um íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 2009 og þar segir í upphafi: „Alþingi ályktar að efla skuli íslensku sem opinbert mál og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Vissulega er ekki lagaleg skylda frjálsra félagasamtaka að nota íslensku í starfi sínu, en það verður samt að ætlast til þess að þau taki tillit til skýrra lagaákvæða um íslensku sem þjóðtungu á Íslandi. Það gengur gersamlega gegn anda laganna og íslenskrar málstefnu að íslensk samtök sendi íslenskum ráðherra bréf á ensku og er í raun alveg óskiljanlegt. Þarna er íslenskri tungu og íslenskri málstefnu sýnd slík lítilsvirðing að það er með fádæmum og algerlega óboðlegt að þessi samtök geri það.

Um þessar mundir er mikið rætt um það að íslenskan eigi undir högg að sækja, einkum vegna erlendra áhrifa af ýmsu tagi – bæði frá stafrænum miðlum og frá mikilli enskunotkun vegna fjölda erlend starfsfólks á vinnumarkaði og gífurlegs fjölda ferðafólks. Ábyrgð atvinnulífsins á þessu sviði er mikil – atvinnurekendur þurfa að leggja mun meiri áherslu á að kenna starfsfólki sínu íslensku og auðvelda því íslenskunám, auk þess sem þeir þurfa að sjá til þess að hvers kyns auglýsingar og merkingar séu á íslensku. Samtök atvinnulífsins hafa stutt þessa stefnu í orði, og fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra hvatti fyrirtæki oft til að nota íslensku. Þetta bréf kemur því eins og hnefahögg – eitt versta högg sem íslenskan hefur fengið lengi.

Auðvitað má segja að eitt bréf á ensku breyti engu – það sé ekki ætlað almenningi, fjalli um mjög sérhæft efni, og valdi því ekki auknum enskum áhrifum á íslenskt mál eða málsamfélag. Það er í sjálfu sér rétt, svo langt sem það nær. En málið snýst ekki um bréfið sjálft eða innihald þess, heldur um ástæður þess að samtök í íslensku atvinnulífi skuli kjósa að skrifa íslenskum ráðherra á öðru tungumáli en opinberu máli landsins. Með því er verið að lýsa frati á íslenskuna, segja að hún sé ónothæf sem alvöru tungumál. Á bak við liggur e.t.v. sú hugmynd bréfritara að meiri líkur séu á að tekið sé mark á bréfi sem er á ensku. Þá kann að styttast í að íslenskan verði að heimilismáli sem eingöngu er notað í óformlegum samskiptum en ekki til alvarlegra hluta.

DEleríum BÚbónis eða DeLEríum búBÓnis?

Í morgun var sagt frá könnun á framburði Íslendinga á snakkinu Bugles og það minnti mig á annað svolítið hliðstætt sem ég var að velta fyrir mér um daginn. Nú ætlar Borgarleikhúsið að taka söngleikinn „Deleríum búbónis“ eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni til sýninga á ný. Ég hef stundum undanfarið heyrt þetta borið fram með áherslu á öðru atkvæði – DeLEríum búBÓnis. Leikritið er litlu yngra en ég, var frumsýnt 1959, og þótt ég sæi það ekki á þeim tíma heyrði ég það mjög oft nefnt þegar lögin úr því voru flutt í útvarpinu. Ég er viss um að í þá daga bar ég þetta alltaf fram eins og hvert annað íslenskt orð, með áherslu á fyrsta atkvæði – DEleríum BÚbónis. Ég skal ekki fullyrða að sá framburður hafi verið notaður í útvarpinu, en held það þó.

Á þessum tíma, fyrir daga sjónvarps svo að ekki sé talað um netið, komu erlend orð aðallega til okkar á prenti. Þá var eðlilegt að fólk bæri þau fram samkvæmt íslenskum reglum og hefði t.d. áhersluna á fyrsta atkvæði – og áttaði sig jafnvel ekki á orðunum ef þau voru borin fram „rétt“. Ég man t.d. eftir því að nafn Haile Selassie sem var keisari Eþíópíu til 1974, og oft var nefndur í útvarpi þegar ég var strákur, var þar borið fram Hæle SeLASSí, þ.e. með áherslu á öðru atkvæði eftirnafnsins – sem ég held að sé réttur framburður. En ég skynjaði þetta alltaf sem Hælese Lassí, þ.e. skynjaði áherslulausa fyrsta atkvæðið í eftirnafninu sem lokaatkvæði fornafnsins, og fannst þarna vera undarlegt ósamræmi við það hvernig nafnið var á prenti.

Þetta er sem sé eitt af því sem hefur breyst, bæði með breyttri tungumálakennslu þar sem meiri áhersla er lögð á talað mál en áður, en fyrst og fremst auðvitað með meiri beinum kynnum okkar af erlendum málum í gegnum sjónvarp og net, og stóraukin ferðalög til útlanda og fjölgun útlendinga á Íslandi. Nú eru minni líkur en áður á því að við beitum íslenskum framburðarreglum, þar á meðal áherslu á fyrsta atkvæði, ósjálfrátt á erlend orð – eða orð sem líta út fyrir að vera erlend. Þess vegna er skiljanlegt að yngra fólk segi DeLEríum búBÓnis en við sem eldri erum höldum okkur við DEleríum BÚbónis. Í þessu er ekkert réttara en annað – þetta er bara áhugavert dæmi um það hvernig kynni af erlendum málum hafa áhrif á framburð.

Það er hugarfarið sem er vandamál, ekki erlendu heitin

Það hefur verið talsverð umræða bæði á netinu og í fjölmiðlum um nafnbreytingu Rúmfatalagersins yfir í Jysk, og sýnist sitt hverjum. Mörgum þykir lítil eftirsjá í gamla nafninu og vissulega er rétt að það er nokkuð þunglamalegt þótt þar komi styttingin Rúmfó til bjargar – um hana eru rúm sex þúsund dæmi í Risamálheildinni en ekki nema rúm fjögur þúsund um fullt nafn verslunarinnar. Þar að auki má auðvitað deila um það hversu góð íslenska lager sé þótt það hafi vitanlega unnið sér hefð í málinu. En óneitanlega er tilbreyting að nýja heitið er danskt en ekki enskt, þótt þau rök eigenda fyrir nafnbreytingunni að gamla nafnið lýsi ekki lengur vöruvali verslunarinnar eigi auðvitað ekki síður við Jysk en Rúmfatalagerinn.

Auðvitað er það rétt sem nefnt hefur verið í umræðunni að þarna er um að ræða fjölþjóðlega keðju og í sjálfu sér ekki óeðlilegt að hún hafi sama nafn alls staðar þar sem hún starfar, eins og t.d. IKEA og Elko og Bauhaus og Costco – og það er svo sem ekki eins og Bónus og Nettó séu sérlega íslenskuleg nöfn. Og erlend nöfn verslana og veitingahúsa eru engin ný bóla – í upphafi 20. aldar voru í Reykjavík verslanir eins og Thomsens Magasín, H.P. Duus, Edinborg og J.J. Lambertsen, veitingahús eins og Café Tivoli og Café Uppsalir o.s.frv. En það sem er sérstakt í þessu tilviki er að verið er að taka úr notkun íslenskt heiti sem hefur unnið sér hefð og setja erlent heiti í staðinn – rétt eins og þegar drykkurinn „Toppur“ varð „Bonaqua“ nýlega.

Einstök erlend heiti, hvort sem það er á verslunum, veitingahúsum eða öðru, skipta engu máli og það er engin ástæða til að ætla að þau opni leið fyrir straum erlendra orða inn í málið. Það eru ekki heitin í sjálfu sér sem ástæða er til að hafa áhyggjur af fyrir hönd íslenskunnar, heldur hugsunin – eða kannski fremur hugsunarleysið – á bak við þau. Af hverju finnst eigendum og stjórnendum þessara fyrirtækja eðlilegt og nauðsynlegt að kalla þau erlendum nöfnum? Skýringin er oft sögð sú að meginhluti viðskiptavina séu ferðafólk, en eru einhverjar líkur á að ferðafólk borði frekar á veitingastað sem heitir ensku nafni en íslensku? Það er ekki heldur eins og allt ferðafólk sem hingað kemur eigi ensku að móðurmáli, og sumt skilur alls ekki ensku.

Þessi heiti bera þess vegna fyrst og fremst vott um það (meðvitaða eða ómeðvitaða) viðhorf þeirra sem reka verslanir og veitingastaði að íslenskan henti ekki í heiti þessara fyrirtækja – sé ekki nógu smart eða kúl. Þegar við sjáum tæpast verslanir og veitingastaði með íslenskum nöfnum má búast við að þetta viðhorf síist líka inn í almenning. Það getur svo aftur haft þau áhrif að við verðum ónæmari fyrir óþarfri ensku á öðrum sviðum – hún er orðin svo áberandi og svo víða í umhverfi okkar að við tökum ekki eftir því þótt hún teygi sig smátt og smátt inn á fleiri og fleiri svið, og á endanum verður ekki aftur snúið. Við þurfum að vinna gegn þessu – ekki erlendum nöfnum út af fyrir sig, heldur því hugarfari sem veldur því að þau þykja sjálfsögð.

Hvers vegna er h-hljóð í Netflix?

Netflix er oft borið fram með h-hljóði vegna þess að við beitum (ósjálfrátt og ómeðvitað) íslenskum hljóðkerfisreglum á orðið. Samkvæmt þeim eru sérhljóð stutt ef tvö samhljóð fara næst á eftir. Í samsettum íslenskum orðum er misjafnt hvort þessari lengdarreglu er beitt á samsetninguna í heild eða á orðhlutana hvorn fyrir sig, og það skiptir máli ef fyrri hlutinn endar á samhljóði og sá seinni hefst líka á samhljóði. Í orði eins og vitlaus [vɪhtlœis] er reglunni yfirleitt beitt á orðið í heild og þess vegna fáum við stutt sérhljóð á undan tl, en í orðinu bitlaus [pɪːtlœis] er reglunni beitt á hvorn orðhluta fyrir sig, bit-laus, og þess vegna fáum við langt i [ɪː] því að aðeins eitt samhljóð kemur á eftir því innan orðhlutans.

Þetta er bara fyrri hluti skýringarinnar. Í Netflix koma saman tvö samhljóð, fl, og við beitum iðulega íslensku lengdarreglunni á orðið sem heild og fáum því stutt e. Þegar sérhljóð er stutt á undan samhljóðaklasa sem byrjar á p, t eða k kemur h-hljóð, svokallaður aðblástur, alltaf inn í orðið á eftir sérhljóðinu í íslenskum orðum. Það gerist t.d. í vitlaus sem er borið fram vihtlaus [vɪhtlœis] og við beitum þessari reglu líka oft þegar við berum fram erlend orð. Þess vegna er Netflix oft borið fram með hljóði, Nehtflix [nɛhtflɪks] í íslensku. Það er mjög algengt að við beitum íslenskum hljóðkerfisreglum á erlend orð, og aðblástur er reyndar eitt af því sem helst einkennir íslenskan hreim og mörgum veitist erfitt að losa sig við.

Hinsegin orðaforði

Á undanförnum árum hefur hin hefðbundna kynjatvíhyggja látið undan síga og nú er almennt viðurkennt að kyn, kyngervi, kynhneigð, kyntjáning og kynvitund sé miklu fjölbreyttari en áður var talið. Þessari fjölbreytni fylgir fjöldi nýrra orða sem koma til okkar erlendis frá, yfirleitt úr ensku, en talsvert hefur verið gert í því að finna og búa til íslenskar samsvaranir hinna erlendu orða. Í tilefni Hinsegin daga er rétt að minna á að Samtökin ‘78 hafa þrisvar efnt til nýyrðasamkeppni undir heitinu Hýryrði. Í fyrstu keppninni árið 2015 komu fram orð eins og eikynhneigð, dulkynja, vífguma, kærast, flæðigerva og bur. Í keppninni 2020 komu fram orðin stálp og kvár, og einnig samsetningarnar mágkvárog svilkvár. Keppnin 2023 er enn í gangi.

Í þessum hópi hafa birst ýmsir pistlar um hinsegin og kynsegin orðaforða. Þeir helstu eru: Tveir pistlar um hán, „Má bæta við persónufornafni“ og „Fornafnið hán“; „hinsegin“ um sögu og merkingarþróun orðsins hinsegin; „Leghafar og aðrir -hafar“, um orðið leghafi og gagnsemi þess; „Hýryrði“, um kvár, stálp og orð sem fram komu í nýyrðasamkeppninni 2020; „Bur“ um endurnýtingu orðsins bur í kenninöfnum; „Kynhlutlaus nöfn“, um það hvort íslensk mannanöfn geti verið kynhlutlaus; og „Er verið að úthýsa afa og ömmu?“ um misskilning eða rangtúlkun á ósk um kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra í Hýryrðum 2023. Þessu tengist svo umræða um kynhlutlaust mál en fjölda pistla um það efni má finna á heimasíðu minni.

„Okkur í Samtökunum ‘78 er umhugað um að geta talað um veruleika okkar á íslensku“ segir í kynningu á yfirstandandi keppni. Það er grundvallaratriði að íslenskan þjóni öllum sem vilja nota hana, komi til móts við mismunandi hópa og lagi sig að breyttum hugmyndum og breyttu samfélagi. Ef fólk finnur sig ekki í íslenskunni missir það áhugann á því að nota hana og þá er hún feig. Þess vegna eigum við öll að fagna nýjum orðum á þessu sviði og leitast við að nota þau þegar við á. Sumum finnst erfitt að átta sig á öllum þessum nýju orðum og eru hrædd við að gera mistök en það er ástæðulaust. Það tekur tíma að læra á nýjan veruleika en það sem máli skiptir er að reyna – engum dettur í hug að ætlast til að við gerum allt rétt frá byrjun.

Illur – illari – illastur

Þótt flest lýsingarorð stigbreytist reglulega með endingunum -(a)ri í miðstigi og -(a)stur í efsta stigi hafa fáein algeng orð óreglulega stigbreytingu þar sem miðstig og efsta stig fá annan stofn en frumstigið. Þau helstu eru góður sem fær stofninn bet- í efri stigunum, betri og bestur, og illur, slæmur og vondur sem öll fá stofninn ver- í efri stigunum, verri og verstur. Það ber samt við að þessi orð fái reglulega stigbreytingu í samsetningum. Það eru fleiri dæmi um geðvondari en geðverri í Risamálheildinni og dæmi eru um geðillari, viðskotaillri, geðgóðari, vongóðari o.fl. Orðið úrillur fær eingöngu myndirnar úrillari og úrillastur enda er ekki augljóst að um samsetningu sé að ræða – ólíklegt að málnotendur þekki orðið úr eitt og sér (í þessari merkingu).

Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1984 vitnaði Gísli Jónsson í dæmi um miðstigið viðskotaillri og sagði: „Ég legg til að við stigbreytum illur, verri, verstur, svo sem verið hefur. Ef nauðsynlegt þykir að stigbreyta illur reglulega, væri illari hóti nær en illri.“ Þarna virðist hann sem sé ekki hafna reglulegri stigbreytingu alfarið, en þegar góður, illur, slæmur og vondur standa ein og sér er stigbreytingin nær alltaf óregluleg. Myndum eins og góðari / góðastur, vondari / vondastur og slæmari / slæmastur bregður þó fyrir á samfélagsmiðlum (og væntanlega í töluðu máli) – og einnig illari / illastur, en þær myndir hafa þó nokkra sérstöðu. Dæmi um þær eru nefnilega ekki bundin við óformlegt málsnið heldur má finna fáein slík í fjölmiðlum.

Í DV 1986 segir: „Nautin verða sífellt erfiðari viðureignar, eru orðin bæði illari og útsmognari en áður.“ Í Vísi 2007 segir: „segist þó iðrast einskis en hún var á sínum tíma kölluð „illasta kona Þýskalands““. Í DV 2007 segir: „Ekki er vitað hvað hann átti sökótt við lögreglustjórann en hann hefur að öllum líkindum orðið enn illari þegar hann vaknaði.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 2008 segir: „Á þessum tíma í sögu þungarokksins streittust menn við að vera hraðari, illari og þyngri en næsta sveit.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Hann var mjög umdeildur á fyrri hluta 20. aldarinnar og var m.a nefndur illasti maður Bretlandseyja.“ Í DV 2012 segir: „Hitastigið í Los Angeles er nógu ljúft fyrir sjávarböð meðan Kári gnauðar sem illastur hér heimafyrir.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar þrjár merkingar lýsingarorðsins illur: (1) 'slæmur, vondur', (2) 'erfiður', (3) 'reiður'. Mér finnst þó vanta þarna eina enn: (4) 'illvígur' en það orð er skýrt 'erfiður viðureignar, hættulegur'. Í öllum dæmunum hér að framan væri hægt að setja illvígari / illvígastur í stað illari / illastur, en ekki nóg með það: Það er hæpið eða útlilokað að nota venjulega stigbreytingu á illur í þessum dæmum – það myndi breyta merkingu. A.m.k. væri alveg fráleitt að segja á þessum tíma í sögu þungarokksins streittust menn við að vera hraðari, verri og þyngri en næsta sveit. Það er því eðlilegt að gera ráð fyrir að illur stigbreytist bæði reglulega og óreglulega en reglulega stigbreytingin sé bundin við eina merkingu orðsins.

Málspjall þriggja ára

Fyrir fjórum árum, í byrjun ágúst 2019, byrjaði ég að skrifa pistla um málfræðileg efni í Málvöndunarþáttinn og skrifaði alls um 120 pistla þar næsta árið. Á endanum gafst ég hins vegar upp á þeim hópi vegna þess neikvæða anda sem þar ríkti – og ríkir enn – og stofnaði þennan hóp sem á þriggja ára afmæli í dag. Markmiðið var að efla jákvæða umræðu um íslenskt mál – birta fræðandi pistla um mál og málnotkun, svara spurningum, og skapa umræðuvettvang. En markmiðið hefur einnig verið að efla íslenskuna og auka notkun hennar, m.a. með því benda á óþarfa enskunotkun og berjast gegn henni og með því að tala fyrir því að öllum leyfist og sé auðveldað að nota íslenskuna á sinn hátt, þ. á m. kynsegin fólki og fólki af erlendum uppruna.

Á fyrstu vikum hópsins gengu um tvö þúsund manns í hann og síðan hefur fjölgað jafnt og þétt í honum, kringum tvö þúsund manns á ári – félagar eru nú rúm átta þúsund. Samtals hef ég birt hér tæplega 700 pistla, deilt ófáum fréttum og greinum og svarað aragrúa spurninga, auk þess sem aðrir hópverjar hafa vitanlega skrifað ótalmörg innlegg, tekið þátt í umræðum og svarað spurningum. Innlegg undanfarna tvo mánuði eru að meðaltali rúmlega fimm á dag, og athugasemdir rúmlega 100. Það er því óhætt að halda því fram að hópurinn sé mjög virkur og hann hefur líka haft áhrif – fjölmiðlar hafa iðulega vitnað í hann og athugasemdir sem hér hafa verið gerðar hafa nokkrum sinnum stuðlað að því að fyrirtæki hafa látið af óþarfri enskunotkun.

Ég er enn sannfærðari en áður um að jákvæð umræða, umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess er frekar til þess fallin að efla íslenskuna en hneykslun, umvandanir og leiðréttingar. Það þýðir ekki að við eigum að láta það afskiptalaust ef við heyrum eða sjáum í fjölmiðlum málfar sem gengur í berhögg við málhefð. Ég hef nokkrum sinnum, m.a. tvisvar í síðustu viku, sent fréttafólki Ríkisútvarpsins tölvupóst og bent á óhefðbundið orðalag í fréttum. Undantekningarlaust er brugðist vel við – ég fæ þakkarpóst og viðkomandi frétt er breytt. Ég er ekki í vafa um að slíkar ábendingar eru líklegri til að skila árangri og skapa jákvætt viðhorf til málvöndunar en opinberar leiðréttingar þar sem talað er með lítilsvirðingu um „fréttabörn“.

Haldið endilega áfram að skrifa innlegg og athugasemdir, spyrja spurninga og svara, og taka þátt í umræðum. Munið bara að athugasemdir við málfar einstaklinga eða hópa eru ekki leyfðar og verður eytt. Innlegg sem virðast hafa þann eina tilgang að vekja athygli á einhverju sem höfundi finnst mega betur fara eru ekki heldur leyfð, og sama gildir um innlegg sem ekki verður séð að komi íslensku máli neitt við. Allar skoðanir á máli og málfari eru leyfðar, að því tilskildu að þær séu settar fram á málefnalegan hátt og ekki með óviðurkvæmilegu orðalagi. Ég vonast til að hópurinn haldi áfram að vaxa og umræður verði áfram líflegar. Það skiptir máli fyrir íslenskuna að við ræðum hana, fræðumst um hana, og skiptumst á skoðunum um hana.

Skoðanalöggur

Í viðtali í Morgunblaðinu um helgina sagði Kristrún Heimisdóttir: „Svo verður ekki horft fram hjá því að það er stórhættulegt hvernig skoðanalöggur halda umræðunni í heljargreipum. Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli.“ Elsta dæmi sem ég hef fundið um orðið skoðanalögga er í Alþýðublaðinu 1992, þar sem rætt er um ágreining innan Kvennalistans um EES-aðild og talað um „skoðanalöggur Kvennalistans“ og sagt „þingsysturnar brugðu sér í gervi stalínískrar skoðanalöggu“. Í Degi-Tímanum 1997 er fjallað um brottrekstur pistlahöfunda frá Ríkisútvarpinu og sagt: „Markús Örn segir enga skoðanalöggu í útvarpinu.“ Markús notaði þó ekki orðið skoðanalögga.

Fréttin um Kvennalistann fjallar um það þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti annarri skoðun á EES-aðild en meirihluti þingflokksins sem brást hart við og hótaði m.a. að taka hana úr utanríkismálanefnd. Í fréttinni um pistlahöfundana var sagt frá því að þeir Illugi Jökulsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefðu verið endurráðnir sem pistlahöfundar við Ríkisútvarpið eftir að hafa verið sagt upp þremur árum áður. Um uppsögnina sagði þáverandi útvarpsstjóri: „Það var reyndar Illugi sem var látinn fara fyrst vegna þess að hann þótti hafa brotið af sér“ – með því að tjá ákveðnar skoðanir. Í báðum tilvikum er orðið skoðanalögga því notað í merkingunni 'fólk sem notar boðvald sitt til að (reyna að) stjórna umræðunni' eða eitthvað slíkt.

En notkun orðins skoðanalögga hefur breyst. Í „Staksteinum“ Mogunblaðsins 2014 er rætt um mótmæli gegn ummælum þáverandi forsætisráðherra um loftslagsbreytingar og sagt: „Að mati tiltekins hóps fólks er það að verða svo að ákveðnir menn mega helst ekki tjá sig og ákveðnar skoðanir mega helst ekki heyrast. Og ef þær heyrast, þá fara þessar skoðanalöggur af stað og reyna að ráðast af nægilegri heift á viðkomandi til að hann láti sér það að kenningu verða og lúti eftirleiðis vilja hópsins.“ Á Eyjunni 2014 segir: „fólk var sakað um föðurlandssvik og þeir sem vildu að mannréttindi og stjórnarskrá yrðu virt voru kallaðir „rétttrúnaðarsinnar“ og „skoðanalöggur“.“ Þarna er ekki verið að tala um fólk sem hefur eitthvert boðvald yfir öðrum.

Þannig virðist það eitt að lýsa andstöðu við tiltekna skoðun nægja til að fá á sig stimpilinn skoðanalögga sem er vitanlega mjög gildishlaðið og neikvætt orð. Vissulega er sumt fólk í betri aðstöðu en annað til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á skoðanir annarra, í krafti þjóðfélagsstöðu sinnar, valda, frægðar, þekkingar, valds á tungumálinu o.fl. Þetta fólk mætti t.d. kalla umræðustjóra eða jafnvel áhrifavalda, en svo framarlega sem það hefur ekki boðvald yfir öðrum er fráleitt að tala um það sem skoðanalöggur. Það er ekki til annars fallið en að gera málflutning fólks tortryggilegan og kæfa umræðuna – og er einmitt notað til þess. Þau sem nota orðið skoðanalögga um annað fólk hitta þess vegna fyrst og fremst sjálf sig fyrir.

Uppáhelling(ur)

Í gær var hér spurt hvaða orð væri haft um það þegar korgur væri nýttur til kaffilögunar. Þetta var stundum gert áður fyrr til að reyna að nýta kaffið betur, t.d. með því að hella upp á tóman korg eða með því að setja korg út í vatn áður en það var soðið og hella upp á með smávegis nýju kaffi í trektinni. Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Sumir helltu jafnvel upp á sama kaffið tvisvar. Það var kallað uppáhellingur og þótti ekki sérstaklega fínt.“ Bæði kvenkynsorðið uppáhelling og karlkynsorðið uppáhellingur eru skýrð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem 'kaffe som laves på allerede brugte bønner, påfyldning'. Í Íslenskri orðabók er aðeins karlkynsmyndin gefin og skýrð 'kaffi sem hellt hefur verið á kaffikorg'.

Uppáhelling(ur) þótti oftast hálfgert hallæriskaffi eins og fram kemur í Hamri 1957: „Svo mikla lukku gjörði þetta, að allt seldist upp, meira að segja helltum við á korginn fyrir rest og því er ekki að leyna, að sú uppáhelling var hálfgert glundur.“ Í Heimilisblaðinu 1956 segir: „En það var eilífur uppáhellingur, sem ég varð að krydda með sírópi til þess að finna nokkurt bragð!“ Oft var gerður munur á uppáhellingi og alvöru kaffi eins og dæmi í Skólablaðinu 1915 sýnir: „Sumir hafa einhvern grun um það, að börnum sé kaffi óholt, og gefa þeim því ekki almennilegt kaffi, en „uppáhelling“ halda þeir að óhætt sé að gefa þeim.“ Í Vísi 1967 segir: „Hún bauð blaðamanninum að ganga í bæinn og þiggja kaffisopa, eða í það minnsta uppáhelling.“

En í seinni tíð hefur orðið uppáhelling(ur) töluvert aðra merkingu. Báðar myndirnar eru gefnar í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrðar 'kaffi sem hellt er upp á (kaffið sett í filter sem heitt vatn rennur í gegn)'. Þessi merking kemur skýrt fram í Fréttablaðinu 2010: „Algengasta aðferðin við að hella upp á kaffi á íslenskum heimilum hefur löngum verið svokallaður uppáhellingur. Þá er kaffið sett í kaffifilter í trekt og sjóðandi vatni hellt í gegnum það jafnt og þétt.“ Þarna er ekki lengur verið að tala um sérstakt hallæriskaffi þótt því sé ekki að neita að kaffi lagað á þennan hátt þyki kannski ekki eins fínt og kaffi sem lagað er með ýmsum tilfæringum og vélum og ber alls konar erlend heiti sem óþekkt voru á Íslandi til skamms tíma.

Merkingarbreyting orðsins virðist verða kringum 1970. Í í Þjóðviljanum 1971 er auglýst „sjálfvirk uppáhelling“. Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Eða þegar kaffipakkinn dugar varla í tvær uppáhellingar?“ Í þessum dæmum merkir orðið reyndar ekki afurðina, kaffið, heldur verknaðinn, þ.e. 'það að laga kaffi', en augljóslega er ekki verið að tala um að nýta korg til kaffilögunar. Skömmu síðar fara þó að sjást dæmi þar sem orðið á við afurðina, kaffið sjálft, t.d. í Dagblaðinu 1977: „Það lætur nærri, að venjulegur uppáhellingur kosti eitthvað um hundrað krónur fyrir utan vatn og hita.“ Í Tímanum 1979 segir: „Ég óska langlífis og góðrar sjónar og bið að heilsa […] konu hans og þakka mikinn uppáhelling og ágætt viðmót.“

Sagnirnar umhella og trekkja voru einnig notaðar í svipaðri merkingu, um mismunandi aðferðir til að nýta kaffið sem best, sem ekki var eingöngu gert í sparnaðarskyni heldur til að fá betra kaffi. Í Dagblaðinu 1981 segir: „Hin rétta aðferð væri sú að hella upp á venjulegan hátt en umhella síðan ¾ hlutum kaffisins.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Þegar búið var að hella upp á könnuna var – og er ennþá – algengt að hella fyrstu bununni í bollann og síðan aftur á pokann. Þetta var kallað að „umhella“ eða að „trekkja“ kaffið.“ Undir sögninni trekkja í Íslenskri orðabók er gefin merkingin 'hella upp á kaffi (einnig um það sérstaklega að hella nýlöguðu kaffi aftur í gegnum síupokann til að ná sem mestum styrk úr því)'.

Þótt uppáhelling(ur) hafi áður fyrr verið notað um lélegt kaffi gegnir öðru máli um sambandið hella upp á. Það hefur verið notað síðan á 19. öld, langoftast í sambandinu hella upp á könnuna – elsta dæmi sem ég finn um hella upp á kaffi er frá 1944. Þetta samband virðist aldrei hafa tengst notkun korgs við kaffilögun sérstaklega, og sama gildir um sambandið uppáhelt kaffi en elsta dæmi um það er í Nýjum vikutíðindum 1966: „Kaffið er ávallt ný-uppáhellt úr litlum cory-glerkönnum.“ En uppáhelling(ur) er skemmtilegt dæmi um orð sem hefur breytt um merkingu. Forsenda þeirrar breytingar var að þörfin fyrir orðið í eldri merkingu var úr sögunni með bættum efnahag fólks. Á svipuðum tíma kynntust Íslendingar fjölbreyttari aðferðum til kaffilögunar og þá var orðið á lausu og hægt að grípa það til að nota um kaffi lagað á hefðbundinn hátt.