Posted on Færðu inn athugasemd

Breytum viðhorfi og framkomu

Í Vísi í dag er mjög fróðlegt viðtal við Randi Stebbins, konu frá Bandaríkjunum sem býr á Íslandi og margt í því sem við þurfum að taka eftir – og taka til okkar. Hún er lögfræðingur en hefur ekki leyfi til að starfa sem slík á Íslandi, þrátt fyrir að vera sérfræðingur á sviði þar sem okkur vantar sárlega fólk – málefni innflytjenda. Hún segir: „Ég er bara alls ekki sammála því að allar konur af erlendu bergi brotnu þurfi að byrja á því að vinna á leikskóla. Því okkur er endalaust sagt að það sé svo gott fyrir okkur að læra íslenskuna þar. […] Það er bara alls ekki rétt. Ég lærði íslenskuna í Háskóla Íslands. Það er bara alls ekki réttlátt að því sé endalaust haldið að konum sem flytja til Íslands, að þær þurfi að vinna á leikskóla.“

Þetta er athyglisvert. Ég hef oft heyrt því haldið fram að leikskóli sé góður staður til að læra íslensku en ég hef aldrei heyrt áður að því sé beinlínis haldið að fólki að það þurfi að vinna á leikskóla til að læra málið. Sjálfsagt er það sagt af góðum hug, og vissulega getur fólk lært talsvert í málinu af samskiptum við börn og skiljanlegt að innflytjendur séu ráðnir á leikskóla í því starfsfólkshallæri sem ríkir. En þótt þeir geti vitanlega verið frábært starfsfólk verður ekki litið fram hjá því að notkun leikskóla til íslenskukennslu fer ekki vel saman við það mikilvæga hlutverk leikskólans að efla málþroska barnanna, eins og hér hefur oft verið bent á. Hátt hlutfall starfsfólks sem talar litla íslensku dregur úr íslensku í málumhverfi barnanna.

En Randi var ekki bara nemandi í Háskóla Íslands, heldur starfaði þar líka í átta ár, m.a. sem forstöðumaður Ritvers Háskólans og það reyndi oft á: „Starfið þar var erfitt því til viðbótar við það að sinna því sem starfsmaður, fór jafn mikill tími í að vera að sanna mig. Því gagnrýnin var svo oft á að ég væri ekki að skilja fræðiskrif á íslensku, væri ekki að skrifa nógu góða íslensku sjálf og svo framvegis. […] Þarna þurfa Íslendingar aðeins að fara að hugsa sinn gang. Samfélagið er að breytast og ef ætlunin er að nýta mannauð fólks sem kemur erlendis frá, getum við ekki verið föst í að hér geti enginn gert neitt eða kunnað 100% nema hann eða hún eigi ömmu sem fæddist á Íslandi. Það er bara alls ekki þannig.“

Þetta er grundvallaratriði – við þurfum að breyta viðhorfi okkar til „ófullkominnar“ íslensku og framkomu okkar við fólk sem hefur ekki náð fullkomnu valdi á málinu. Randi hefur gert sitt til að stuðla að því og stofnað „ÓS Pressuna, sem ætlað er sem vettvangur fyrir fólk erlendis frá til skapandi skrifa. […] ÓS gengur út á skapandi skrif og það er mjög mikilvægt fyrir fólk sem talar annað tungumál að móðurmáli að hafa vettvang til skapandi skrifa.“ Þetta er hárrétt og skáldverk innflytjenda hafa sannarlega auðgað íslenskuna að undanförnu. Íslenskan þarf nefnilega að endurspegla það samfélag sem býr í landinu og það gerir hún ekki nema við veitum fólki sem á hana ekki að móðurmáli fullan aðgang að íslensku málsamfélagi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að hafast og hefjast

Í Málvöndunarþættinum sá ég bent á að í sjónvarpsfréttum í gær hefði sambandið „Þetta hófst“ verið notað í merkingunni 'þetta kláraðist, þetta tókst' eins og um væri að ræða sögnina hafast. Hefðbundin beyging þeirrar sagnar en hins vegar veik, þannig að þarna hefði mátt búast við myndinni hafðisthófst er hins vegar hefðbundin þátíð sagnarinnar hefjast sem merkir 'fara í gang, byrja'. Þarna var þessum tveim sögnum því slegið saman sem er ekkert einsdæmi. Skýringin er væntanlega sú að beyging þeirra fellur saman að hluta – (ég) hef, (þú) hefur, (hann/hún/hán) hefur er framsöguháttur nútíðar í eintölu af báðum sögnunum. Í umræddu tilviki var þetta samfall yfirfært á þátíðina og hófst notað sem þátíð af hafast.

Slæðing af hliðstæðum dæmum má finna frá síðasta aldarfjórðungi en vel má vera að eldri dæmi séu til. Í DV 2000 segir: „Ég fékk eiginlega of stóran skammt en þetta hófst allt saman á endanum.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þetta hófst allt að lokum og rúmlega það.“ Í blaðinu 2007 segir: „Það tók mig svolítinn tíma að sannfæra hann um að taka þátt í þessu, en það hófst á endanum.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var erfið fæðing hjá okkur en þetta hófst að lokum.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Það hófst að lokum og þá lá leiðin upp í brú.“ En þetta eru ekki einu dæmin um að beyging sagnanna hefjast og hafast blandist saman eins og Jón G. Friðjónsson benti á í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2005.

Jón segir að beyging sagnanna sé „mjög ólík og merking þeirra reyndar einnig“ en heldur áfram: „Samt er það svo að þessum sögnum (einkum vh.þt.) er stundum ruglað saman“ og nefnir dæmi um notkun hefðust í stað hæfust en segir síðan: „Hér er vafalaust um að ræða klaufaskap eða mismæli fremur en tilhneigingu til málbreytingar (þótt ruglingur sagnanna hefja og hafa í viðtengingarhætti þátíðar sé reyndar allgamall).“ Mér finnst hins vegar mun líklegra að um tilhneigingu til málbreytingar sé að ræða. Nútíð viðtengingarháttar af hefjast er (þótt ég) hefjist og ekki furða að málnotendum finnist eðlilegt að þátíð viðtengingarháttarins sé (þótt ég) hefðist frekar en (þótt ég) hæfist – það er hliðstætt t.d. (þótt ég) krefjist – (þótt ég) krefðist.

Dæmi eru allt frá 19. öld um hefðist í stað hæfist. Í Heimskringlu 1895 segir: „hjá því gat ekki farið að almenningur, svívirtur og þrælkaður, hefðist handa að lokum.“ Í Verkamanninum 1919 segir: „Reyndar væri eðlilegast að læknarnir hefðust handa í þessu máli.“ Í Alþýðublaðinu 1930 segir: „Setti þá Alþýðuflokkurinn á stefnuskrá sína, að þegar hvalveiðar hefðust á ný, þá ætti landið sjálft að reka þær veiðar.“ Í Landnemanum 1943 segir: „Honum var bersýnilega umhugað um, að umræðurnar hefðust aftur.“ Í Degi 1988 segir: „ekki bjóst hann við að viðræður hefðust á ný á næstunni.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Varaði fundurinn við hræðsluáróðri öfgasamtaka og hvatti til þess að hvalveiðar hefðust strax á nýju ári.“

Beyging sagnanna hafast og hefjast blandast því saman á tvennan hátt – annars vegar kemur framsöguháttur þátíðar af sterku sögninni hefjast í stað samsvarandi myndar af veiku sögninni hafast, þ.e. hófst í stað hafðist. Það er athyglisvert vegna þess að stefnan í málbreytingum er venjulega öfug, frá sterkum myndum í veikar. Þarna spilar e.t.v. inn í að hófst er styttri og einfaldari mynd en hafðist. Í hinu tilvikinu er stefnan öfug – þar kemur viðtengingarháttur þátíðar af veiku sögninni hafast í stað samsvarandi myndar af sterku sögninni hefjast. Þar er skýringin væntanlega einföldun eins og áður segir – hefðust liggur beinna við en hæfust. En þótt þessar breytingar séu eðlilegar væri æskilegt að halda sögnunum áfram aðgreindum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Við þurfum að ræða viðmið og kröfur

Umræðan um íslenskukennsku og mikilvægi íslenskukunnáttu heldur áfram. Í ágætu viðtali í Ríkissjónvarpinu í gær spurði Jasmina Vajzović Crnac: „Hver eru viðmiðin? Hve mörg orð þarf ég að kunna? Þarf ég að kunna málfræði? Hversu mikla kunnáttu þarf ég að vera með til að starfa í ferðaþjónustunni, hótelinu eða við að þrífa? Eða eins og ég, í stjórnunarstarfi? Hversu miklar kröfur eigum við að gera til þess? Og við þurfum að setja kröfur. Það er bara eðlilegt og almennt þurfum við að setja kröfur á allt í samfélaginu.“ Þetta rímar alveg við það sem ég skrifaði fyrir þremur árum um ensku á Íslandi og nauðsyn þess „að hefja öfluga og markvissa umræðu um það hvaða hlutverk og stöðu við ætlum henni í málsamfélaginu“:

„Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig eflum við íslenskuna þannig að hún verði nothæf á öllum sviðum þjóðlífsins? Hvernig gerum við íslenskuna áhugaverðari og eftirsóknarverðara að nota hana? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?“ Ég bætti við: „Þetta eru nokkur dæmi um það sem þarf að ræða á næstunni – og byrja strax.“ Því miður hefur skipuleg umræða um þetta enn ekki hafist – en verður sífellt brýnni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Sótsvartur almúginn

Hér var nefnt í gær að í þætti í Ríkisútvarpinu hefði verið talað um „sótsvartan almúgann“ þótt venja væri að tala um sauðsvartan almúgann – í þættinum var spurt: „Hvað þurfum við, sótsvartur almúginn að borga stóran hluta af mánaðarlaununum okkar fyrir eina nótt á fimm stjörnu hóteli á Íslandi?“ Það er auðvitað rétt að venjuleg gerð orðasambandsins er sauðsvartan almúgann – það er t.d. gefið í Íslenskri orðabók og skýrt 'ómenntað fólk, alþýða manna, almenningur'. Elsta dæmi um sambandið á tímarit.is er í Gesti Vestfirðingi 1850: „Gestur er heldur ekki upp á marga fiska, og ekki fyrir sauðsvarta almúgann töfluverkið í honum.“ Á tímarit.is eru tæp 1200 dæmi um sambandið, og í Risamálheildinni eru dæmin tæplega 650.

En það er ekki nýtt að tala um sótsvartan almúgann – elsta dæmið á tímarit.is er í Speglinum 1943: „en trúboðið gengi illa meðal sótsvarts almúgans.“ Spegillinn var reyndar skopblað, „samvizkubit þjóðarinnar“, þannig að þetta gæti verið skrifað í gríni. Næsta dæmi er úr Alþýðublaðinu 1961: „meðan sótsvartur almúginn dansi á götum úti.“ Í Alþýðublaðinu 1985 segir: „Mismunurinn er því 6.6 milljónir króna og munar um minna – að minnsta kosti fyrir sótsvartan almúgann!“ Þrjú dæmi í viðbót eru fram að aldamótum en um 2005 fer þeim að fjölga og eru hátt í 30 frá þessari öld. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í 150, þar af um 110 af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að þetta afbrigði orðasambandsins er í sókn.

Orðið sauðsvartur merkir 'sem hefur eðlilegan svartan sauðarlit'. Með breyttri þjóðfélagsgerð og lífsháttum er kannski ekkert óeðlilegt að tengsl við sauðkindur og sauðarlit dofni í huga fólks og leitað sé annað í líkingum. Vissulega má segja að sót sé ekki heldur áberandi í umhverfi okkar núorðið en hins vegar er sót- algengur áhersluforliður – notaður í orðum eins og sótillur, sótrauður, sótreiður, sótvondur, sótbölva, sótroðna o.fl. Orðið sótsvartur er ekki heldur tengt við sót í orðabókum, heldur skýrt 'dökkur, kolsvartur' í Íslenskri orðabók og 'mjög dökkur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þótt farið sé að tala um sótsvartan almúgann þótt mörgum finnist örugglega æskilegt að halda í eldri gerð sambandsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Evstur

Í gær var hér spurt hvort framburður með rödduðu hljóði, v, væri að verða algengari í lýsingarorðinu efstur – þ.e. evstur [ɛvstʏr̥]. Í venjulegum framburði er þarna óraddað f-hljóð en í miðstiginu efri er hins vegar raddað hljóð, v, þótt skrifað sé f. Inni í orðum er meginreglan sú að á undan sérhljóðum og rödduðum samhljóðum, t.d. r, kemur raddaða hljóðið v, í orðum eins og efi [ɛːvɪ] og efri [ɛvrɪ], en á undan órödduðum samhljóðum eins og s og t kemur óraddaða hljóðið f, í orðum eins og ofsi [ɔfsɪ] og aftur [aftʏr̥], og þess vegna mætti búast við órödduðu f í efstur [ɛfstʏr̥]. Framburðurinn evstur er hins vegar þekktur en lítið er hægt að byggja á rituðum textum um tíðni hans þar sem bókstafurinn f getur bæði staðið fyrir hljóðið f og v.

Lítill vafi er á að þennan framburð má rekja til áhrifa frá miðstiginu efri þar sem f stendur fyrir raddað hljóð, enda raddað r á eftir. Svipuð áhrif einnar beygingarmyndar á aðra eru vel þekkt – það er rík tilhneiging til að stofn orðs haldi alltaf sömu hljóðum, enda þótt það gangi gegn venjulegum hljóðreglum. Sem dæmi má nefna sögnina segja þar sem borið er fram tvíhljóðið ei þótt skrifað sé e enda er almenn regla að sérhljóð tvíhljóðist á undan gi og gj. En boðhátturinn segðu er líka borinn fram með ei þótt þar komi hvorki gi gj á eftir – það eru áhrif frá öðrum nútíðarmyndum orðsins. Aftur á móti er venjulega borið fram einhljóðið e í þriðju persónu viðtengingarháttar þátíðar sem er skrifuð eins, (þótt þau) segðu – áhrifin ná ekki til þátíðarinnar.

Þótt framburðarmyndin seigðu í boðhætti gangi gegn almennum hljóðreglum málsins er hún því bæði skiljanleg og eðlileg, enda dettur engum í hug að amast við henni. En öðru máli gegnir um evstur. Málfarsbankinn segir: „Orðið efstur er ekki borið fram „evstur“. Réttur framburður er „efstur“.  Baldur Jónsson segir í Málfregnum 1988: „Þó að sleppt sé öllum smekkleysum, klaufaskap og álitamálum verður því ekki neitað að í útvarpi og sjónvarpi er allt of mikið um ambögur sem varla verða kallaðar neitt annað en málvillur. Ég nefni t.d. framburðinn evstur fyrir efstur [...].“ Jónas Kristjánsson segir í DV 1989: „Og málhelti af ýmsu tagi er útbreitt, ekki síður meðal „evstu“ fréttaþula í sjónvarpi en annarra, sem þar koma minna fram.“

Vitanlega er miklu eldri og ríkari hefð fyrir framburðinum efstur með órödduðu f – en það er líka hefð fyrir því í málinu að viðurkenna ýmis gamalgróin tilbrigði í framburði eins og alkunna er. Erfitt er að fullyrða nokkuð um aldur framburðarins evstur – eins og áður segir er ekki hægt að byggja á rituðum textum um tíðni hans og sama gildir vitaskuld um aldurinn. Mér finnst ég þó hafa heyrt þessum framburði bregða fyrir í að minnsta kosti 40-50 ár og minnst er á hann í textum frá því fyrir 1990 eins og áður segir, og hann gæti verið mun eldri. Áhrifsbreyting af þessu tagi er fullkomlega eðlileg og það er komin svo löng hefð á framburðinn evstur að það er engin ástæðu til að amast við honum, hvað þá kalla hann rangan.

Posted on Færðu inn athugasemd

Enskumælandi ráð vinnur ekki gegn íslensku

Undanfarna daga hafa orðið heilmiklar umræður um enskumælandi íbúaráð sem starfandi er í Mýrdalshreppi. Ráðið var reyndar stofnað fyrir tveimur árum en stofnun þess virðist ekki hafa vakið sérstök viðbrögð á þeim tíma. Upphlaupið núna er því óhjákvæmilegt að setja í samband við umræður undanfarið um fjölgun útlendinga í samfélaginu og ýmis vandræði sem hún skapi. Ég get alveg tekið undir það að vitanlega hefði verið best að ekki hefði þurft að stofna þetta ráð. Vitanlega væri best ef innflytjendur töluðu íslensku reiprennandi og gætu tekið fullan þátt í lýðræðislegri umræðu í samfélaginu án þess að þurfa sífellt að sitja undir gagnrýni og jafnvel háðsglósum vegna ófullkominnar íslensku eins og mörg hafa lent í.

En það er bara ekki þannig og þar er ekki aðallega innflytjendunum sjálfum um að kenna. Meginábyrgðin liggur hjá okkur, innfæddum Íslendingum. Við ráðum fólk til starfa án þess að gera nokkrar kröfur um íslenskukunnáttu og án þess að gefa því tækifæri til að læra málið. Það er vont, og enn verra er ef við ætlum líka að útiloka fólkið frá þátttöku í lýðræðislegri umræðu. Ef enskumælandi ráð gefur fólki kost á þátttöku í samfélagsumræðu og stjórnmálum sem það hefði ekki haft annars er það vitanlega miklu betri kostur en að skortur á íslenskukunnáttu útiloki fólk frá slíkri þátttöku. Það er betri kostur fyrir samfélagið og lýðræðið, dregur úr skautun og hættunni á því að hér verði til tvískipt samfélag Íslendinga og innflytjenda.

Það sem meira er – þetta er líka miklu betri kostur fyrir íslenskuna vegna þess að það gerir innflytjendur ánægðari í íslensku samfélagi, fær þá til að upplifa sig sem hluta af samfélaginu, og eykur þannig líkurnar á því að þeir finni hjá sér hvöt og þörf til að læra íslensku. „Núna líður okkur ekki eins og við séum útskúfuð úr samfélaginu okkar“ segir formaður enskumælandi ráðsins í Vík, og eins og fundargerðir ráðsins sýna hefur þar mikið verið rætt um inngildingu og möguleika á aukinni og bættri íslenskukennslu. Í nýrri yfirlýsingu Samtaka kvenna af erlendum uppruna er líka bent á að ráð af þessu tagi auki bæði tækifæri og hvata innflytjenda til að bæta íslenskukunnáttu sína, auk þess að hvetja til virkrar samfélagsþátttöku.

Í umræðunni hefur verið bent á að fæstir innflytjenda eigi ensku að móðurmáli og því gefi enskumælandi ráð þeim ekkert frekar tækifæri til að tala móðurmál sitt en þátttaka í stjórnsýslu á íslensku myndi gera. Það er auðvitað alveg rétt, en það sem hér skiptir máli er að enskan er hlutlaus – þar stendur fólk jafnt að vígi og þarf ekki að búa við þann aðstöðumun sem verður á milli Íslendinga og innflytjenda þegar umræður fara fram á íslensku. En meginatriðið er að enskumælandi ráð er ekki markmið í sjálfu sér, heldur viðbrögð við vanda. Einangrun innflytjenda og tilkoma tveggja aðskilinna samfélaga í landinu er það versta sem getur komið fyrir íslenskuna og stofnun enskumælandi ráðs vinnur gegn slíku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mér finnst ég getað sigrað heiminn

Ég hnaut um fyrirsögnina „Stundum finnst mér ég getað sigrað heiminn“ á Vísi í gær. Ástæðan fyrir því að ég staldraði við er sú að þarna er notuð myndin getað sem er lýsingarháttur þátíðar – eða strangt tekið sagnbót – af sögninni geta, en sögnin finnast tekur venjulega með sér nafnhátt og því hefði mátt búast við Stundum finnst mér ég geta sigrað heiminn. En þegar ég fór að skoða þetta kom í ljós að myndin getað í stað geta er mjög algeng í öllum samböndum þar sem geta er hjálparsögn – tekur með sér sögn í lýsingarhætti þátíðar / sagnbót. Eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er sagnbótin getað þegar geta er hjálparsögn, þ.e. í merkingunni 'vera fær um', en annars getið, t.d. Oft kemur góður þá getið er.

Þetta er ekki nýtt – stöku dæmi má finna allt frá lokum 19. aldar. Í  Þjóðólfi 1897 segir: „Maður á að getað dansað án þess að hafa lært það sérstaklega.“ Í Nýjum kvöldvökum 1914 segir: „Ó, þér ætlið aldrei að getað skilið mig.“ Í Vísi 1914 segir: „Þjóðverjar voru svo vel undirbúnir, að ekki gátum vér vænst þess, stöðvunarlaust að getað rekið flóttana.“ Í Nýju kirkjublaði 1915 segir: „eg vildi getað lofað guð.“ Í Fálkanum 1936 segir: „Flestir munu getað giskað á, að þessi maður er enginn annar en Smith sá, sem bjargaði lífi Andrews.“ Í Alþýðublaðinu 1942 segir: „Henni fannst það gráthlægilegt, að hún skyldi getað elskað Eðvarð af jafnmikilli ástríðu og var.“ Í Morgunblaðinu 1962 segir: „Þarf að getað gert við og unnið á verkstæði þess á milli.“

Þótt slæðingur sé af dæmum um getað í stað geta alla tuttugustu öldina eru dæmin lengst af hlutfallslega svo fá að þau gefa ekki ótvíræða vísbendingu um málbreytingu heldur gæti verið um tilviljanakennd eða einstaklingsbundin frávik að ræða – á tímarit.is eru u.þ.b. 500 sinnum fleiri dæmi um að geta en að getað. En síðan 1980 hefur dæmum farið ört fjölgandi, sérstaklega þó eftir 2010, og eru á allra síðustu árum svo mörg að augljóst er að þarna er málbreyting í gangi. Það er líka athyglisvert að öfugt við margar nýjungar er þessi ekki bundin við samfélagsmiðla – þótt meirihluti dæma sé vissulega þaðan eru einnig fjölmörg dæmi úr mjög formlegum textum, svo sem útgefnum bókum, dómum, lagafrumvörpum og Alþingisræðum.

Langsamlega algengasta hjálparsögnin með geta er hafa, og hún tekur með sér sagnbótina getað. Ekki er ólíklegt að þetta sé undirrót breytingarinnar – málnotendum finnist eðlilegt að nota getað einnig með öðrum hjálparsögnum sem annars taka með sér nafnhátt. Það auðveldar eða ýtir undir þessa breytingu að í eðlilegum framburði verður ð í áherslulausum atkvæðum í enda orðs oft mjög veikt eða hverfur alveg og þess vegna er iðulega lítill sem enginn framburðarmunur á geta í mun geta gert það og getað í hefur getað gert það. Þess vegna er alveg hugsanlegt að þessi breyting hafi lengi verið útbreiddari en ritaðar heimildir benda til en verði meira áberandi þegar textum í óformlegu málsniði fjölgar og prófarkalestur minnkar.

Breytingin verður aðeins þegar geta tekur með sér aðra sögn en ekki þegar hún tekur með sér fornafn – og aðeins þegar geta stendur á eftir sögn. Þau örfáu dæmi sem finna má um að getað það / þetta á eftir sögn og Að getað fremst í setningu eru öll af samfélagsmiðlum og gætu verið stafsetningarvillur frekar en breytt orðmynd. Það er því ekki þannig að geta sé að breyta um nafnhátt, heldur er sagnbót sums staðar komin í stað nafnháttar. Breytingin er líka óháð því hvort sögnin sem fer á undan geta tekur með sér eða ekki – við fáum bæði ég vildi getað gert þetta, í stað ég vildi geta gert þetta, og ég ætti að getað gert þetta, í stað ég ætti að geta gert þetta. Þetta sýnir að tilheyrir þarna undanfarandi sögn frekar en vera nafnháttarmerki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Á brattan(n) að sækja

Um daginn var spurt hér út í nafnorðið bratti sem fyrirspyrjandi taldi hafa vikið fyrir orðinu brekka. Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér samböndum eins og leggja á brattann, halda á brattann, leita á brattann, sækja á brattann sem er tekið sem dæmi í Íslenskri stafsetningarorðabók, og fleiri svipuðum. Sambandið eiga á brattann að sækja er gefið í Íslenskri nútímamálsorðabók í merkingunni 'lenda í erfiðleikum, mæta mótstöðu'. Jón G. Friðjónsson tilfærir það einnig í Merg málsins og segir það vera „kunnugt frá síðari hluta 20. aldar.“ Um uppruna sambandsins segir Jón: „Líkingin er trúlega dregin af fjallgöngu fremur en um sé að ræða liðfellt orðasamband þar sem brattan standi sem kk.et.þf. af lo. brattur.“

Sambandið er reyndar eldra en Jón telur – elsta dæmi sem ég finn er í Lögbergi 1909: „Þess vegna langar oss nú til þess, að gera bug á leiðina, fara að leita á brattann og reyna að komast ögn áleiðis upp eftir hæðum lífsins.“ Í Skírni 1913 segir: „Hann er þá ekki einn af þeim sem sækja á brattann og lyfta mannkyninu á hærra stig.“ Í Austurlandi 1920 segir: „Og hann lagði af stað, lagði á brattann í áttina þangað, sem loftið er hreint og heilnæmt og himininn heiður og víðfeðmur.“ Gömul dæmi um brattan má líka finna – í Þjóðólfi 1919 segir: „manninn, sem sótti á brattan í hljóði og hætti þeirri sókn ekki fyr en hann hafði komist upp.“ Í Sunnudagsblaðinu 1926 segir: „Var því á brattan að sækja og margan örðugan hjalla yfir að klífa.“

Alls eru rúm 500 dæmi um á brattan að sækja á tímarit.is, á móti rúmlega 4.500 um á brattann að sækja. Í Risamálheildinni eru hlutföllin svipuð – rúm 400 dæmi um brattan á móti rúmlega 3.400 um brattann. Við þetta bætast svo dæmi um leggja / halda / leita / sækja á brattan(n). Þetta þýðir samt ekki endilega að þau sem skrifa brattan séu í öllum tilvikum að nota lýsingarorð. Líklegt er að stundum telji fólk sig í raun vera að nota nafnorðið bratti en riti það ranglega með einu n-i í stað tveimur – ruglingur á einu og tveimur n-um í endingu er algengasta stafsetningarvillan sem fólk gerir. Eins er vitanlega hugsanlegt að þetta verki í hina áttina – í einhverjum tilvikum skrifi fólk brattann þótt það telji sig vera að nota lýsingarorðið brattur.

Hvað sem þessu líður er ljóst að engar líkur eru á að öll dæmi um brattan með einu n-i séu villur – greinilegt er að mörg skynja þetta sem lýsingarorð með undirskildu nafnorði sem gæti t.d. verið vegur án þess að endilega þurfi að vera hægt að hugsa sér tiltekið nafnorð. Það eru auðvitað ýmis fordæmi fyrir því að lýsingarorð séu notuð á þennan hátt – nefna má dæmið fá sér einn gráan í merkingunni 'fá sér í glas' þar sem ekki er heldur ljóst hvaða nafnorð er undirskilið. Ótvíræð nafnorðsdæmi eru eldri, þótt ekki muni miklu, og ekki ótrúlegt að það sé rétt hjá Jóni G. Friðjónssyni að sá sé uppruni sambandsins. Ekkert mælir þó gegn því að greina brattan sem lýsingarorð og því hlýtur að teljast rétt að skrifa það með hvort heldur n eða nn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hagsmunaárekstur sem verður að leysa

Í gær skapaðist hér heilmikil umræða um grein sem Snorri Másson skrifaði á Vísi og setti inn í þennan hóp. Þar gerir hann að umræðuefni enskumælandi ráð í Mýrdal sem var stofnað fyrir tveimur árum og á að vera „vettvangur fyrir erlenda íbúa sveitarfélagsins til að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum áfram“ eins og sagt var í tilkynningu þegar ráðið var stofnað. Snorri segir að nú fari „stjórnsýsla í landinu fram á íslensku og ensku; því verður ekki lýst öðruvísi“. Þetta er reyndar ekki rétt því að ráðið er aðeins ráðgefandi og því ekki beinn hluti af stjórnsýslu hreppsins. Snorra þykir sérstaklega athugavert að þetta ráð skuli hafa fengið samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar og spyr: „Er þetta í alvöru verðlaunaefni?“

Snorri telur „kostulegt út af fyrir sig að Byggðastofnun skuli veita sveitarfélögum hvatningarverðlaun fyrir að minnka hlut íslenskrar tungu í opinberri stjórnsýslu“. Þótt ráðið sé ekki beinn þáttur í stjórnsýslu sveitarfélagsins veikir þetta óneitanlega stöðu íslenskunnar sem eina opinbera tungumáls landsins (fyrir utan íslenskt táknmál) og gæti rutt brautina fyrir aukna enskunotkun á fleiri sviðum. Það er vitanlega rétt hjá Snorra að stofnun ráðs af þessu tagi er í ósamræmi við íslenska málstefnu þar sem áhersla er lögð á að íslenska né nothæf og notuð á öllum sviðum þjóðlífsins. Það má líka vel halda því fram að stofnun ráðsins dragi úr hvata innflytjenda til að læra íslensku og vinni þannig gegn stöðu íslenskunnar í samfélaginu.

En málið hefur líka aðra hlið sem snýr að mannréttindum og lýðræði. Haft er eftir sveitarstjóra Mýrdals að það „hafi komið í ljós að stór hluti samfélagsins væri í raun frekar afskiptur og hefði hvorki rödd né tækifæri til að koma sínum hugmyndum á framfæri og taka raunverulega þátt í stefnumótunum og stjórnvaldsákvörðunum í sveitarfélaginu“ en „Sökum aðstæðna hafa ekki allir sömu tækifæri til þess að læra íslensku […]“. Formaður ráðsins segir: „Ég var búinn að búa í Vík í átta  ár en fannst ég aldrei  tilheyra að fullu eða geta haft einhver áhrif á samfélagið. Það er frábært að þarna sé kominn vettvangur fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og geta komið sínum hugmyndum á framfæri.“

Snorri telur að ráðið sýni uppgjöf – í því „birtist okkur sú sýn að eina leið íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif, eða í það minnsta áhrifamesta leið þeirra til að gera það, sé að stjórnsýslan færist yfir á ensku. Eins og það sé varla hægt að ætlast til þess úr þessu að umræddir íbúar læri íslensku og hafi áhrif eftir þeirri leið.“ Hér má nefna að Mýrdalshreppur hefur ekki, frekar en flest önnur sveitarfélög, sett sér málstefnu þrátt fyrir skýr ákvæði Sveitarstjórnarlaga: „Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.“

Í tilkynningu Byggðastofnunar um viðurkenninguna er vikið að báðum hliðum málsins, stöðu íslenskunnar og lýðræði og mannréttindum: „Enskumælandi ráð eflir samfélagslega þátttöku íbúa sem annars væri hætt við að yrðu jaðarsettir og gefur erlendum íbúum vettvang til þess að koma sjónarmiðum og áherslum sínum á framfæri. Allar fundargerðir ráðsins eru skrifaðar bæði á íslensku og ensku og veita þannig ráðsmeðlimum og þeim sem lesa fundargerðirnar jafnframt aukna innsýn í íslenska tungu en eru um leið öllum skiljanlegar. Ráðið hefur fjallað um íslenskukennslu og hefur fjallað umtalsvert um leiðir sem hægt væri að fara til þess að efla stöðu tungumálsins í enskumælandi hagkerfi, sem ferðaþjónustusamfélög jafnan eru.“

Í þessu máli kemur glöggt í ljós það sem ég hef margoft skrifað hér um: Með atvinnustefnu sem byggist á láglaunastörfum þar sem fólk vinnur langan vinnudag, og með því að leggja alltof litla áherslu á kennslu íslensku sem annars máls, erum við að búa hér til tvískipt samfélag. Það er eðlilegt að ætlast til þess að íslenska sé notuð og nothæf á öllum sviðum, en jafnframt er eðlilegt að fólk sem hefur ekki verið búin nægilega góð aðstaða og tækifæri til að læra málið vilji njóta lýðræðislegra réttinda til þátttöku í samfélaginu. Eins og staðan er núna verður árekstur milli hagsmuna íslenskunnar og hagsmuna innflytjenda. Við verðum að finna leið til að leysa úr því þannig að réttur fólks sé virtur án þess að það komi niður á íslenskunni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ráðherranefnd um íslenska tungu deyr drottni sínum

Fyrir hálfu öðru ári var sett á stofn sérstök ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu og tilkynnt um hana með pomp og prakt á málþingi sem haldið var í tengslum við dag íslenskrar tungu 2022. Í fréttatilkynningu um stofnun nefndarinnar sagði að henni væri „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.“ Nefndin var undir formennsku forsætisráðherra en að auki áttu menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í henni.

Nefndin stóð að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um íslenska tungu sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram í haust – hálfu ári á eftir áætlun – og er enn í meðförum Alþingis þótt hún eigi að gilda fyrir árin 2023-2026. Annað hefur ekki heyrst frá nefndinni en í fréttatilkynningu um stofnun hennar sagði að viðkomandi ráðuneyti myndu „hafa umsjón með skilgreindum áherslum sem verða útfærð í aðgerðaáætlun um íslenska tungu“. Ég stóð því í þeirri meiningu að henni væri ætlað að starfa áfram og fylgja eftir þessari tillögu sem vonandi verður samþykkt fyrir þinglok í vor. Ekki veitir af, því að aðgerðir í áætluninni eru lítið fjármagnaðar og mikilvægt að einstök ráðuneyti og ráðherrar vinni að fjármögnun þeirra.

Í dag birtist hins vegar fréttatilkynning á vef Stjórnarráðsins þar sem segir: „Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um skipan ráðherranefnda. […] Ekki verða starfandi sérstakar ráðherranefndir um íslenska tungu, jafnréttismál og málefni innflytjenda og flóttafólks heldur verður áfram fjallað um þessi málefni í ráðherranefnd um samræmingu mála.“ Þetta er dapurlegur vitnisburður um áhugaleysi og getuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum íslenskunnar – málefnum sem eru brýnni en nokkru sinni fyrr – og bætist ofan á það áhugaleysi og getuleysi sem birtist með skýrum hætti í fjármálaáætlun næstu fimm ára eins og hér var rakið nýlega.