Posted on Færðu inn athugasemd

Allareiðu

Ég var að lesa vísu frá seinustu áratugum 19. aldar þar sem orðið allareiðu kom fyrir. Það var augljóst að þetta væri af danska orðinu allerede sem merkir ‚nú þegar‘ og ég hef svo sem séð þetta áður í íslenskum textum en aldrei heyrt það notað svo að ég muni. En ég fór að forvitnast um orðið og komst að því að þetta er gamalt tökuorð – kemur fyrir í fyrstu bók sem prentuð var á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar þar sem segir: „Því að sú vonska hreyfir sér allareiðu heimuglega utan það alleinasta sá sem því nú inniheldur, hlýtur burt tekinn að verða.“ Í nýjustu þýðingu Biblíunnar er þetta: „Því að leyndardómur lögleysisins er þegar farinn að starfa en fyrst verður að ryðja þeim burt sem stendur í vegi.“

Allmörg dæmi eru svo um allareiðu úr ýmsum textum frá 17.-19. aldar. Orðið er í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 en merkt með spurningarmerki. Það er hins vegar gefið athugasemdalaust í Íslenskri orðabók, en ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Risamálheildinni eru aðeins sex dæmi um það, öll úr gömlum textum, þannig að það virðist vera horfið úr nútímamáli. En ég varð mjög hissa þegar ég sá að um 900 dæmi um orðið er að finna á tímarit.is – sérlega mörg frá því kringum 1900, en orðið virtist þó hafa verið algengt fram á áttunda áratug síðustu aldar þegar tíðnin datt skyndilega niður. Mér fannst því undarlegt að ég skyldi ekki þekkja orðið betur eða hafa heyrt það notað.

Skýringin kom þó þegar ég fór að skoða betur hvaðan dæmin kæmu. Þá kom í ljós að meginhluti dæmanna – yfir 700 af um 900 – var úr vesturíslensku blöðunum. Þar virðist orðið hafa verið sprelllifandi fram til 1980 – yngsta dæmið úr Lögbergi-Heimskringlu er frá því ári. Öll yngri dæmi í íslenskum blöðum eru úr gömlum textum. Yngstu samtímadæmi sem ég hef fundið eru í grein eftir Sigurð Magnússon, blaðafulltrúa Loftleiða, í Morgunblaðinu 1973. Þar segir að „Spánn […] sé allareiðu orðinn ægilega útbíaður af Íslendingum og öðrum, sem gist hafa það sólarland að undanförnu“ og þar yrðu Íslendingar í framtíðinni „í hópi 800 milljón túrista í allareiðu útsvínuðu landi“.

Málhreinsunarstefnan sem ríkti á Íslandi mestalla 20. öldina náði lítið til Vesturheims og það er oft til þess vitnað hvernig málfarseinkenni sem vesturfarar báru með sér og þóttu óæskileg hafi blómstrað í vesturíslensku þótt þeim hafi verið útrýmt úr málinu hér heima – „flámælið“ svokallaða er oft tekið sem dæmi um það. Mér finnst allareiðu skemmtilegt dæmi um það hvernig dönskusletta sem hafði lifað í málinu í fjögur hundruð ár en er nú alveg horfin átti sér framhaldslíf í vesturíslensku þar sem hliðstæðan already kann einnig að hafa hjálpað til. Örugglega er hægt að finna ýmis fleiri dæmi um slíkt ef betur er að gáð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Please use other door

Fyrir nokkrum dögum tók ég eftir handskrifuðum miða sem á stendur „PLEASE USE THE OTHER DOOR“ á útihurð vinsæls kaffihúss í Reykjavík. Auðvitað geta verið gildar ástæður fyrir því að miði sem er eingöngu á ensku var settur þarna í upphafi. Sumt starfsfólk kaffihússins er ekki íslenskumælandi og kannski bráðlá einhvern tíma á að setja miðann upp þegar enginn Íslendingur var þar að störfum – kannski var hríðarbylur sem stóð upp á dyrnar þannig að það þurfti að læsa í skyndi og vísa fólki á aðrar dyr. Vitanlega hlýtur samt einhver íslenskumælandi að hafa verið á vakt einhvern tíma eftir að miðinn var settur upp, og auðvitað hljóta eigendur kaffihússins að hafa komið þangað síðan og hefðu því getað breytt þessu.

Þótt ég gangi þarna fram hjá oft í viku gæti miðinn hafa verið þarna lengi án þess að ég tæki eftir honum fyrr en nýlega – ég er nefnilega orðinn ansi ónæmur fyrir ensku í almannarými eins og við erum líklega flest. Allavega hefur miðinn fengið að standa þarna óáreittur um tíma án þess að starfsfólk eða eigendur brygðust við og settu annan miða með íslensku samhliða enskunni. Væntanlega hafa gestir kaffihússins ekki heldur gert nokkra athugasemd – ég treysti því að þessu hefði verið breytt umsvifalaust ef bent hefði verið á það. Mér dettur ekki í hug að halda eða gefa í skyn að það sé af einhverju ræktarleysi eða virðingarleysi við íslenskuna sem þessi miði er eingöngu á ensku – þetta sýnir bara hugsunarleysi og ónæmi gagnvart enskunni.

Ég þykist vita að mörgum finnist þetta lítilfjörlegt atriði sem engin ástæða sé til að gera veður út af. Og það er rétt, út af fyrir sig – einn handskrifaður miði með fimm orðum á ensku skiptir auðvitað engu máli. En á sama tíma er þetta risastórt mál vegna þess að það sýnir í hnotskurn hvernig enskan laumast inn í umhverfi okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Hvernig má það vera að miði á ensku hangi uppi á fjölförnum stað tímum saman án þess að nokkrar athugasemdir séu gerðar við það? Annaðhvort er það vegna þess að við tökum ekki eftir því að hann er eingöngu á ensku eða vegna þess að okkur er alveg sama og finnst það bara eðlilegt. Hvort sem heldur er sýnir að viðnám okkar gegn enskunni er að fjara út.

Gestir veitingastaða skilja iðulega ekki íslensku og því er eðlilegt og sjálfsagt að auglýsingar og tilkynningar séu á ensku samhliða íslenskunni – en ekki í stað hennar eins og í þessu tilviki. Ég legg samt áherslu á að ég skrifa þetta ekki til að gagnrýna kaffihúsið sem um er að ræða enda fer því fjarri að það sé verra að þessu leyti en önnur fyrirtæki í þessum geira. Ég skrifa þetta til að minna okkur á að við berum öll ábyrgð á því að íslenska sé notuð alls staðar þar sem það er hægt. Ef við tökum eftir því að auglýsingar eða tilkynningar eru eingöngu á ensku eigum við að gera athugasemd við það. Ég trúi ekki öðru en slíku verði vel tekið. Ef við látum þetta yfir okkur ganga, eða ef brugðist er illa við athugasemdum, er íslenskan í hættu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fjórður á lista

Fyrirsögnin „Ómar fjórður á lista yfir bestu handboltamenn heims“ var um stund á vef RÚV – en var mjög fljótlega breytt í „fjórði á lista“ eins og við er að búast í hefðbundnu máli. En í fréttinni sjálfri í línunni fyrir neðan stóð alltaf „fjórði besti handboltamaður heims“. Þessi munur er í sjálfu sér eðlilegur – í fyrirsögninni var töluorðið fjórði upphaflega beygt eins og lýsingarorð og notuð sterk beyging vegna þess að orðið er sérstætt. Við segjum t.d. Ómar efstur á lista, ekki *Ómar efsti á lista. En þótt beyging töluorða sé að mörgu leyti hliðstæð lýsingarorðabeygingu hafa töluorðin, önnur en fyrstur og annar, ekki sterka beygingu í hefðbundnu máli. Í sambandinu „fjórði besti handboltamaður heims“ er töluorðið hins vegar hliðstætt með nafnorði og í þeirri stöðu hafa lýsingarorð veika beygingu, og því er engin tilhneiging til að setja fjórður þar.

Í fyrra skrifaði ég pistil út frá setningu í frásögn vefmiðils af söngvakeppni Sjónvarpsins: „Reykjavíkurdætur voru þriðjar á svið í kvöld með lagið Tökum af stað.“ Dæmið þriðjar á svið er alveg sams konar og fjórður á lista. Í pistlinum í fyrra sagði ég þetta „sýna að ákveðinnar tilhneigingar gætir til að fella raðtölurnar að beygingu lýsingarorða – gefa þeim sterka beygingu þegar þau eru notuð í setningarstöðu þar sem lýsingarorð (og fyrstur og annar) myndu hafa sterka beygingu. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt og raunar jákvætt að því leyti að það sýnir tilfinningu málnotenda fyrir kerfinu – sýnir að þeir átta sig á því að þarna „ætti“ ekki að vera veik beyging og leitast við að bæta úr því.

En jafnframt er þetta vissulega neikvætt að því leyti að þarna er gengið gegn málhefð – ekki bara búnar til orðmyndir sem ekki eru fyrir í beygingunni, heldur beinlínis búin til nýja málfræðilega formdeild í raðtölunum, sterk beyging. Ég get ekki neitað því að sem málfræðingi finnst mér þessi dæmi bæði merkileg og skemmtileg – og þau hljóma ekki sérlega óeðlilega í mínum eyrum. En þótt þau eigi sér eðlilegar og auðfundnar skýringar eru þau vissulega ekki í samræmi við málvenju og geta þess vegna ekki talist rétt mál.“ En ég legg áherslu á að ég er ekki að setja vekja athygli á þessari fyrirsögn til að hneykslast á henni, eða til að gefa öðrum tækifæri til að hneykslast. Þvert á móti – ég er að nefna hana til að skýra hvernig tilbrigði í máli geta komið upp.

Posted on Færðu inn athugasemd

Afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir?

Árið 2011 fluttu Siv Friðleifsdóttir og átta aðrir þingmenn úr þremur flokkum svohljóðandi tillögu til þingsályktunar „um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu“: „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).“ Þessi tillaga kom ekki til umræðu á þinginu og var endurflutt á tveimur næstu þingum án þess að fá nokkurn tíma afgreiðslu, en forvirkar rannsóknarheimildir hafa þó verið ræddar meira og minna á hverju einasta þingi síðan (að undanskildu hinu örstutta 147. þingi 2017).

Áðurnefnd þingsályktunartillaga gengur hins vegar aftur í frumvarpi sem dómsmálaráðherra flutti fyrir jól og heitir fullu nafni „Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (afbrotavarnir, vopnaburður og eftirlit með lögreglu)“. Þar er kafli sem heitir „Aðgerðir í þágu afbrotavarna“ þar sem segir: „Lögreglu er heimilt, í því skyni að stemma stigu við afbrotum, að nýta, svo sem til greiningar, allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna […].“ Í þessu frumvarpi eru forvirkar rannsóknarheimildir þó hvergi nefndar, en aftur á móti kemur orðið afbrotavarnir 64 sinnum fyrir í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því.

Þýðing þessarar orðalagsbreytingar kom skýrt fram í viðtali við Maríu Rún Bjarnadóttur, verkefnastjóra hjá Ríkislögreglustjóra, í Speglinum í Ríkisútvarpinu 9. janúar. Þar sagði hún að ákvæði í frumvarpinu myndu gefa lögreglunni betri tæki til að koma í veg fyrir stafræn brot, og það væri því mjög mikilvægt fyrir aukið öryggi á netinu að þessi lög yrðu samþykkt. Spurningu fréttamanns um hvort hún ætti þá ekki við forvirkar rannsóknarheimildir svaraði hún: „Já, ég held reyndar að það heiti afbrotavarnir, hérna en en í sjálfu sér er það að hluta til forvirkar rannsóknarheimildir, já. En það er kannski ekki – þú veist þetta auðvitað líka hefur auðvitað áhrif á hvernig maður hugsar um þetta, hvaða orð maður notar.“

Það var lóðið – það skiptir máli hvaða orð eru notuð, og þarna er orðanotkun meðvitað breytt í pólitískum tilgangi. Stjórnvöld vita að það er líklegt að almenningur hafi jákvæðara viðhorf til afbrotavarna en til forvirkra rannsóknarheimilda – rétt eins og þau teljarafvarnarvopn veki jákvæðari hughrif en rafbyssur. Látum þau ekki komast upp með að slá ryki í augun á okkur á þennan hátt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Engu var til sparað

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að segja það var ekkert til sparað.“ Þetta er oft áréttað í málfarspistlum, t.d. hjá Gísla Jónssyni í Morgunblaðinu árið 2000 og Jóni G. Friðjónssyni í Morgunblaðinu bæði 2005 og 2007, og einnig í pistli Jóns sem birtur er í Málfarsbankanum. Þar segir að sambandið komi fyrir þegar í fornu máli, en afbrigðið spara engu til sé kunnugt frá seinni hluta 19. aldar. Elsta dæmi um það er í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1881: „þá var þar 1852 fyrst í öllum löndum stofnað reglulegt fiskiklak í Huningen á kostnað stjórnarinnar og engu til sparað.“ Annað dæmi er úr Reykvíkingi 1891: „allt sem hér er stofnað, byrjar með ákaflegu fjöri og áhuga, engu tilsparað og allt er í uppnámi.“

Nokkur orðaraðartilbrigði koma fyrir af þessu sambandi – ekkert/engu til spara, ekkert/engu spara til og spara ekkert/engu til. Dæmi um þágufallið engu í þessum samböndum á tímarit.is eru á níunda hundrað og spanna allt tímabilið frá 1881 en hefur smátt og smátt farið fjölgandi, einkum á síðustu áratugum. Dæmin um þolfallið ekkert í sömu samböndum eru þó meira en átta sinnum fleiri. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru hins vegar álíka mörg dæmi um þolfall og þágufall í þessum samböndum – 93 á móti 87. Þar sem málfar samfélagsmiðla endurspeglar þær hræringar sem eru í gangi í málinu er ljóst að þágufallið er í sókn. Orðin fátt/fáu og lítið/litlu koma einnig fyrir í þessum samböndum og þar er tilhneigingin sú sama.

Jón G. Friðjónsson segir að í notkun þágufalls í þessum samböndum muni „gæta áhrifa frá orðasambandinu kosta e-u/öllu/miklu til (e-s)“ sem „merkir 'reiða e-ð/allt fram sem greiðslu (fyrir e-ð), leggja e-ð/allt í kostnað; vilja e-ð/allt til vinna; leggja sig allan fram'“ og er a.m.k. síðan á 16. öld. Í þessu sambandi stýrir sögnin kosta sem sé þágufalli þótt hún taki annars með sér þolfall hvort sem hún merkir 'seljast á tilteknu verði' (kosta mikla peninga) eða 'greiða kostnað af (e-u), standa straum af (e-u)' (kosta nýja óperuhúsið). En sama gildir um sögnina spara. Þótt hún taki nú oft með sér þágufall í afbrigðum af spara engu til hefur það ekki áhrif á fallstjórn hennar að öðru leyti – aldrei er sagt *spara peningum eða *spara kostnaði.

Það verður því ekki betur séð en samböndin kosta einhverju til og spara engu til séu alveg hliðstæð – sögn sem annars stýrir þolfalli tekur með sér þágufall í sambandi við forsetninguna til. Eini munurinn er sá að þágufallið er nokkrum öldum eldra með kosta en með spara. „Þessi málnotkun er ekki í samræmi við málvenju“ segir Jón G. Friðjónsson um spara engu til í pistli frá 2017. En í ljósi þess að þágufallið á sér 140 ára óslitna sögu í þessu sambandi og tíðni þess í ritmáli hefur aukist mjög á síðustu árum, og virðist jafnvel slaga upp í tíðni þolfallsins í óformlegu máli, finnst mér ekkert annað koma til greina en viðurkenna þágufallið sem málvenju í nútímamáli – og þar með sem rétt mál samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu.

Það sem er forvitnilegast í þessu máli er þó ekki hvað eigi að teljast „rétt mál“, heldur ástæður þessar breytingar – hvers vegna þágufallið sæki á í þessum tilteknu samböndum á kostnað þolfalls. Fleiri hliðstæð sambönd með þágufalli eru til, svo sem tjalda öllu til, verja fjármunum til o.fl. Einnig er sterk tilhneiging til þess að hafa þágufall með sögninni veita í samböndum eins og veita fjármunum til þótt Málfarsbankinn mæli með þolfalli – veita fjármuni til. „Í dæmum sem þessum er notkun þf. eldri og upprunalegri“ segir Jón G. Friðjónsson og segir þessa breytingu mega rekja til þess að í málinu voru fyrir dæmi eins og veita vatni“ og einnig kunni „að gæta áhrifa frá sögninni verja (verja e-u í e-ð/til e-s)“.

En í stað þess að líta svo á að þágufall komi inn í einstök sambönd fyrir áhrif frá öðrum tilteknum samböndum – spara engu til komi til við áhrif frá kosta einhverju til, veita fjármunum til komi til við áhrif frá verja fjármunum til – er kannski rétt að líta á þetta í víðara samhengi. Það er vel hugsanlegt að málnotendur greini – auðvitað ómeðvitað – ýmis sambönd af þessu tagi og tengi ákveðna merkingu við þágufallið í þeim. Þeir rekist síðan á önnur sambönd sem þeim finnst hliðstæð og yfirfæri þá þágufallið á þau. Þá er sem sé ekki um að ræða áhrif frá einu sambandi á annað, heldur alhæfingu á fallnotkun í samböndum af ákveðnu tagi. En fyrir venjulega málnotendur skiptir svo sem engu hvor skýringin er réttari.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað merkir sendiráð?

Í framhaldi af hugmynd minni um að í stað orðsins ráðherra yrði notað orðið forráð, í stíl við titla eins og leyndarráð, kammerráð og konferensráð, fór ég að velta fyrir mér öðrum starfsheitum sem enda á –herra, einkum sendiherra. Það lægi auðvitað beint við að fara svipaða leið og nota orðið hvorugkynsorðið sendiráð í stað sendiherra, en það er því miður upptekið eins og alkunna er – merkir 'skrifstofa sendiherra og starfsmanna hans', þ.e. stofnun, og getur einnig merkt 'bygging sem hýsir starfsemi sendiráðs'. Þegar að er gáð er það auðvitað dálítið ankannalegt að orð sem endar á -ráð skuli vísa til stofnunar eða byggingar – ekkert í merkingu orðsins ráð út af fyrir sig skýrir það. Enda hefur þetta ekki alltaf verið svo.

Elsta dæmi um orðið sendiráð er frá 1914, og í Íslenzk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'Gesandtskab, Legation' en þau orð vísa einkum til starfsliðs. Í flestum elstu dæmunum virðist sendiráð geta vísað til starfsfólks, ráðs – „Jón Krabbe, formaður sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn“ segir í Heimskringlu 1926 – þótt vissulega sé oft einnig hægt að skilja þau svo að vísað sé til stofnunar. En þegar vísað er til ákveðinnar byggingar eru fremur notaðar samsetningar: „Kínversku kommúnistarnir, er réðust inn í sendiráðsskrifstofuna, gerðir landrækir“ segir í Íslendingi 1925, og í Ísafold 1926 segir: „Þegar þeim þótti fokið í öll skjól og þeir gáfust upp við atvinnuleitina, komu þeir á sendiráðsskrifstofuna.“

Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig merking orða getur breyst – í þessu tilviki frá því að vísa til starfsliðsins, hins eiginlega ráðs (formaður íslenska sendiráðsins) yfir í að vísa til stofnunarinnar sem starfsliðið vinnur við (starfslið sendiráðsins er fámennt) og svo bygginguna þar sem starfsemin fer fram (sendiráðið stendur við Túngötu). Þetta er skiljanleg og eðlileg þróun, þótt auðvitað megi segja að útkoman sé fullkomlega „órökrétt“. En svipað hefur gerst með Stjórnarráðið – það orð vísar ýmist til æðstu stjórnar landsins, þ.e. ríkisstjórnar og ráðuneyta, eða til gamla tugthússins við Lækjartorg sem opinberlega heitir Stjórnarráðshúsið. Stundum hefur reyndar verið amast við því að þessu sé blandað saman.

En svo að aftur sé komið að upphafinu kom reyndar í ljós við athugun mína að orðið sendiráð var stöku sinnum notað í merkingunni 'sendifulltrúi'. Þannig segir í Alþýðublaðinu 1937: „Wanberg sendiráð hefir afhent forseta Frakklands og forsætisráðherra Frakklands sitt eintakið hvorum af einu hinna íslenzku fornrita.“ Í Fálkanum 1938 segir: „Elsta dóttir Musolini, sem heitir Edda, er nýlega trúlofuð Ciano nokkrum greifa, sem er sendiráð Ítala við páfahirðina.“ Einhver munur virðist hafa verið á sendiráði og sendiherra: „Síðustu árin hefir hann verið í Berlín, fyrst sem sendiráð og síðan sem sendiherra“ segir í Fálkanum 1938. Flest dæmin um þessa notkun orðsins eru úr Fálkanum og gætu verið einkum orðfæri eins manns.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nýtt orð í stað ráðherra: Forráð

Haustið 1998 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar þar sem sagði: „Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lög­um til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið.“ Í greinargerð sagði: „Það særir ekki málkennd manna þótt konur séu forsetar, kennarar eða forstjórar en öðru máli gegnir um orðið „herra“. Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. Orðið herra merkir […] annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann og ljóst er að síðarnefnda merkingin er frá þeim tíma þegar aðeins karlar gegndu slíkum stöðum.“

Þessa tillögu fluttu Guðný Guðbjörnsdóttir og Kristín Halldórsdóttir þingkonur Kvennalistans og Svavar Gestsson þingmaður Alþýðubandalagsins. Mælt var fyrir tillögunni og henni vísað til nefndar þar sem hún sofnaði. Haustið 2007 endurflutti Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar þessa tillögu óbreytta en hún fékk sömu örlög og fyrr. Fyrir ári fluttu svo átta þingmenn úr þremur flokkum undir forystu Guðmundar Andra Thorssonar þingmanns Samfylkingarinnar tillögu með örlítið breyttu orðalagi: „Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd um nýtt starfsheiti ráðherra sem endurspegli betur veruleika og hugsunarhátt dagsins í dag.“ Þessi tillaga komst ekki einu sinni á dagskrá þingsins.

Karllægara starfsheiti en ráðherra er vandfundið og því eðlilegt að þessar tillögur hafi komið upp, löngu áður en almenn umræða um kynhlutlaust mál fór af stað. Það hefur hins vegar gengið illa að koma með góðar tillögur um annað starfsheiti. Æskilegt væri að nota hvorugkynsorð til að öll kyn geti samsamað sig starfsheitinu, og einnig væri gott að halda orðhlutanum ráð- til að hafa samfellu milli starfsheita. En í stað þess að ráð- sé fyrri hluti samsetningar gæti það verið seinni hlutinn. Það eru til fordæmi fyrir starfsheitum eða titlum þar sem -ráð er seinni hluti samsetts hvorugkynsorðs, svo sem leyndarráð, kammerráð, konferensráð og fleiri. Titlarnir eru vissulega erlendir, en orðin eiga sér samt hefð í íslensku.

Ég legg til að nýta orðhlutann for-, eins og í formaður, forstjóri, forseti, forysta o.fl., þannig að nýtt starfsheiti ráðherra verði forráð. Það orð er vissulega til, ekki síst í samsetningum eins og forráðamaður og mannaforráð og í orðasambandinu kunna (ekki) fótum sínum forráð, en það ætti ekki að valda vandkvæðum. Orðið forráð er einu atkvæði og tveimur bókstöfum (og hljóðum) styttra en ráðherra og lipurt í samsetningum – forsætisforráð, fjármálaforráð, innviðaforráð, utanríkisforráð o.s.frv. Þá gæti ráðherranefnd heitið forráðanefnd, ráðherrabíll væri forráðsbíll, ráðherrastóll væri forráðsstól, ráðherraábyrgð væri forráðsábyrgð o.s.frv. Eðlilegt væri samt að Ráðherrabústaðurinn héldi nafni sínu.

Auðvitað má koma með ýmsar mótbárur gegn þessu orði. Vissulega eru til fjölmörg önnur orð sem enda á -ráð og vísa flest til einhvers konar stjórna eða nefnda, svo sem bankaráð, manneldisráð, skólaráð o.s.frv., en orðhlutinn (myndanið)  -for- á undan -ráð ætti að tryggja að ljóst sé að verið er að vísa til ríkisstjórnar. Það mætti líka hafa það á móti orðinu forsætisforráð að þar kemur orðhlutinn for- tvisvar fyrir. En slíkt er ekkert einsdæmi – við höfum orð eins og bílaleigubíll, örnefni eins og Vatnshlíðarvatn og Dalsdalur, o.fl. Örugglega mætti tína ýmislegt fleira til, en meginatriðið er að það er alveg sama hvaða orð yrði fyrir valinu – við þyrftum tíma til að venjast því, eins og öðrum nýjum orðum. En það væri alveg hægt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kynhlutlaust mál og jafnrétti

Umræðu um kynhlutlaust mál hættir til að vera nokkuð stóryrt og ekki alltaf í takt við veruleikann. Sagt hefur verið að breytingar í þá átt hafi „ekkert með frjálslyndi eða kvenréttindi að gera“ og snúist „ekki um jafnréttisbaráttu heldur ýmist um ofstæki, sýndarmennsku eða ótta við álit þrýstihópa“, enda sé „hrein fásinna að líta á þessa afbökun tungumálsins sem mikilvægt vopn í baráttunni fyrir jafnrétti“.

Í nýrri grein kemur fram sá lífseigi misskilningur að verið sé að amast við karlkynsorðum almennt séð og þar er hvatt til þess „að hætta að afskræma tungu okkar með bjánalegum tilburðum til einhvers konar rétttrúnaðartilburða í orðfæri“. En við færslu þar sem umræddri grein var deilt rakst ég á athugasemd frá manni sem er sjóaður í rekstri sprotafyrirtækja. Hann sagði:

„Á sama tíma má sýna fram á það að ef fólk temur sér fjölbreyttara orðaval og sneiðir hjá að karlgera allan andskotann, alltaf, þá hefur það jákvæð áhrif. T.d. er það hvetjandi fyrir (ungar) konur að taka þátt í nýsköpun ef við hættum að segja „þeir hjá [tilteknu fyrirtæki]“ og segjum í staðinn „þau hjá [tilteknu fyrirtæki]“, svo dæmi sé tekið. Við höfum fengið fleiri umsóknir frá konum þegar starfslýsingin notar jöfnum höndum hann og hún – og tuðpósta frá körlum þegar við notum eingöngu kvenkyn. Þetta skiptir verulegu máli.“

Þetta er það sem málið snýst um. Þótt talað sé um karllægni íslenskunnar þýðir það ekki að verið sé að ætla fólki sem talar það mál sem það ólst upp við einhverja karlrembu eða vilja til að mismuna kynjunum. Þannig er það sjaldnast, og þess vegna verðum við að gæta okkar að fordæma það ekki þótt fólk tali hefðbundna íslensku – og vilji halda í hana.

En þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að með málnotkun okkar getum við verið að senda ákveðin skilaboð – algerlega ómeðvitað og án þess að ætla okkur það. Viðtakendur þessara skilaboða eru líka oft ómeðvitaðir um þau – en þau geta samt haft áhrif. Tungumálið hefur sannarlega með jafnrétti að gera.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ósmekkleg orðanotkun

Andstæðingar breytinga á tungumálinu í átt til kynhlutleysis leggja venjulega áherslu á að málfræðilegt kyn og kynferði fólks sé tvennt óskylt. Þess vegna sé það misskilningur að málfræðilegt karlkyn tengist körlum eitthvað sérstaklega og því sé engin ástæða til að amast við notkun þess í almennri vísun, í samböndum eins og allir velkomnir o.þ.h. Þar sé karlkynið aðeins ákveðið form, en hafi engin tengsl við karlmenn umfram önnur kyn. Það er auðvitað rétt að það er ekki hægt að setja samasemmerki milli málfræðilegs kyns og kynferðis fólks, þótt tæpast sé heldur hægt að neita því að málfræðilegt karlkyn skapi iðulega hugrenningatengsl við karlmenn, a.m.k. hjá sumum málnotendum. En látum það vera.

En í ljósi þessarar afneitunar á tengslum málfræðikyns og kynferðis fólks er það mjög sérkennilegt svo að ekki sé meira sagt að í baráttu gegn breytingum í átt til kynhlutleysis skuli gripið til orða eins og afkynjun, gelding og (mál)vönun. Það eru orð sem eiga við sviptingu líffræðilegra kyneinkenna eða kynhvatar og með notkun þeirra verður ekki betur séð en einmitt sé verið að viðurkenna tengsl málfræðilegs kyns og kynferðis. En að því slepptu er notkun þessara orða um málbreytingar í átt til kynhlutleysis óheppileg og óviðeigandi af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að hún gefur ranga mynd af því sem um er að ræða, og hins vegar vegna þeirra neikvæðu hughrifa sem þessi orð vekja hjá flestum.

Fólk sem er svipt ákveðnum kyneinkennum eða kynhvöt með áðurnefndum aðgerðum hvorki missir kyn sitt né breytir um kyn – karlar halda áfram að vera karlar og konur halda áfram að vera konur. Breytingar á máli í átt til kynhlutleysis felast hins vegar iðulega í því að eitt málfræðilegt kyn kemur í stað annars. Í staðinn fyrir karlkynið allir velkomnir kemur hvorugkynið öll velkomin og í staðinn fyrir karlkynsorðið maður kemur kvenkynsorðið manneskja eða hvorugkynsorðið man. Stundum helst karlkynið m.a.s., eins og þegar fiskari kemur í stað fiskimaður. En við notum málfræðilegt kyn eftir sem áður – kvenkyn og hvorugkyn eru ekkert minni kyn en karlkynið. Þetta er engin afkynjun, gelding eða vönun.

Aðgerðunum afkynjun, geldingu og vönun er oftast beitt sem sérlega ógeðfelldum og grimmilegum refsingum eða hefndaraðgerðum í þjóðfélögum þar sem mannréttindi eru ekki á háu stigi – þótt reyndar væri einnig heimilt að beita þeim sem fyrirbyggjandi aðgerðum á Íslandi á síðustu öld. En óhætt er að segja að í huga flestra nútímamálnotenda veki þessi orð hrylling og ógeð. Augljóslega er það ástæðan fyrir því að andstæðingar breytinga í átt til kynhlutlausrar málnotkunar nota þau – þeim er í mun að tengja þessar breytingar við eitthvað sem málnotendum býður við. Þeim er þetta auðvitað í sjálfsvald sett, en þessi orðanotkun er einkar ósmekkleg og ómálefnaleg og ég efast um að hún sé málstaðnum til framdráttar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Örlög orðanna

Orðið loftskeytamaður er gamalgróið í íslensku – elstu dæmi um það eru frá 1906, og á tímarit.is eru hátt í tíu þúsund dæmi um orðið. Þetta orð var lengi að finna í lögum um áhafnir skipa, síðast í Lögum um áhafnir íslenskra kaupskipa nr. 59/1995 en þau lög féllu úr gildi við gildistöku Laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001. Í þeim lögum kemur orðið loftskeytamaður ekki fyrir, en í greinargerð með frumvarpinu segir: „Nokkur ný hugtök eru skilgreind sem hafa ekki verið skilgreind eða notuð í íslenskri löggjöf áður, t.d. fjarskiptamaður […]“ sem er „lögmætur handhafi skírteinis sem er gefið út eða viðurkennt af Siglingastofnun Íslands samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar.“

Vissulega eru engir sérmenntaðir loftskeytamenn eftir lengur því að formlegt nám undir þeim hatti hefur ekki verið í boði frá 1980, en þegar lögin tóku gildi fyrir meira en 20 árum voru vitanlega margir menntaðir loftskeytamenn enn að störfum. En þótt menntunin væri önnur hefði verið hægt að halda starfsheitinu, enda ýmis dæmi þess að mismunandi menntun liggi á bak við sama starfsheiti – t.d. er starfsheitið hjúkrunarfræðingur notað bæði um þau sem útskrifuðust úr Hjúkrunarskóla Íslands og þau sem hafa háskólanám að baki. Það hefði mátt búast við háværum mótmælum við því að þetta gamalgróna starfsheiti væri fellt úr lögum, en ég finn engin dæmi um mótmæli frá þessum tíma, eða fjarskiptamaður sé kallað „orðskrípi“.

Þrátt fyrir að orðið fjarskiptamaður hafi þannig verið í lögum í meira en 20 ár verður ekki séð að það hafi komist inn í daglegt mál. Á tímarit.is eru innan við 20 dæmi um það frá þessum 20 árum, og í Risamálheildinni innan við 30 dæmi (að frátöldum dæmum úr þingskjölum). Aftur á móti eru yfir þúsund dæmi um orðið loftskeytamaður frá þessum sama tíma á tímarit.is og rúm 1600 í Risamálheildinni þannig að brottnám þess úr lögum hefur ekki drepið það. Það má líka nefna að hvorki hásetikokkur koma fyrir í nýjum Lögum um áhafnir skipa án þess að gerðar hafi verið athugasemdir við það – fyrrnefnda orðið var í fyrri lögum en féll út núna en það síðarnefnda hefur ekki verið í lögum en er sprelllifandi í málinu.

Af þessu má draga tvær ályktanir. Önnur er sú að það þurfi ekki að vera mikið samhengi milli þeirra orða sem notuð eru í lögum sem eins konar íðorð og þeirra sem notuð eru í daglegu máli. Það er engin ástæða til annars en ætla að fiskimaður lifi jafngóðu lífi og áður þótt fiskari sé komið inn í lög í þess stað – og tilvist síðarnefnda orðsins í lögum tryggir því ekki líf í daglegu máli. Hin ályktunin er sú að breytingar á einstökum orðum í lögum veki yfirleitt litla athygli almennings og mæti ekki almennri mótstöðu – það sé fyrst þegar breyting á orðalagi er gerð undir þeim formerkjum að draga úr karllægni málsins sem allt fer upp í loft. Það er mjög athyglisvert.