Category: „Málvillur“

Hvor annan

Í Málvöndunarþættinum á Facebook var eitt sinn vakin athygli á frétt í Morgunblaðinu þar sem stóð í fyrirsögn „Njóta fullkomins skilnings hvort annars“, og í fréttinni sjálfri „hvort þau hafi eitthvað náð að fylgjast með árangri hvort annars um helgina“. Það hefur verið kennt að í þessu sambandi eigi hvor að standa í sama falli (nefnifalli í þessu tilviki) og frumlag setningarinnar (þau, sem reyndar er sleppt í fyrra dæminu eins og algengt er í fyrirsögnum) en annar í eignarfalli þegar það stýrist af nafn­orði eins og í báðum þessum tilvikum (skilnings í fyrra dæminu, árangri í því seinna).

Samkvæmt þessu er sambandið rétt notað í báðum dæmunum, en höfundur innleggsins taldi það ranglega notað – og var sannarlega vorkunn, því að annars konar notkun þess er mjög útbreidd. Iðulega er hvor látið sam­beygjast annar í stað þess að sambeygjast frumlaginu – dæmin hér að ofan eru þá skilnings hvors annars og árangri hvors annars. Sama gildir um önnur afbrigði þessa sambands – oft er sagt t.d. þeim líkar vel við hvort ann­ í stað hvoru við annað, þeir hata hvorn annan í stað hvor annan, þeim er hlýtt til hvors annars í stað hvoru til annars, o.s.frv.

Þetta er engin nýjung. Dæmi er um „ranga“ notkun þessa sambands í Eintali sálarinnar sem Arngrímur Jónsson lærði þýddi í lok 16. aldar – „heldur veit oss að vér elskum hvörn annan svo vér blífum í þér og þín elska sé fullkomin í oss“. Um og eftir miðja 19. öld fara að sjást dæmi á stangli en fer mjög fjölgandi þegar kemur fram á 20. öld, einkum eftir miðja öldina, samkvæmt rannsókn sem Dagbjört Guðmunds­dóttir málfræðingur gerði í BA-ritgerð sinni. Á tímarit.is fann hún hátt á áttunda þúsund dæmi frá 20. öld um „ranga“ notkun þessa sambands – þrátt fyrir að blöð og tímarit hafi yfir­leitt verið prófarkalesin á þeim tíma.

Breytingar á þessu sambandi eru í sjálfu sér mjög skiljan­legar vegna þess að hvor / hver rýfur venjuleg tengsl orða. Í samböndum eins og tala um og líka við mynda sögn og forsetning merkingarlega heild sem hv-orðið rýfur þegar sagt er tala hvor / hver um annan og líka hvorum / hverjum við annan. Til að koma í veg fyrir það rof og halda þessari heild er hv-orðið fært aftur fyrir forsetninguna. En þar með eru tengsl for­setn­ingarinnar og andlags hennar rofin og því er eðlilegt að málnotendur fari að skynja hv-orðið sem andlag og láti það sambeygjast raunverulega andlag­inu — tala um hvorn / hvern annan og líka við hvorn / hvern annan. Sama gerist þar sem annar er andlag sagnar, eins og í aðstoða hvor / hver annan og hjálpa hvor / hver öðrum — þar rýfur hv-orðið tengsl sagnar og andlags sem leiðir til þess að það er túlkað sem hluti andlagsins, aðstoða hvorn / hvern annan og hjálpa hvorum / hverjum öðrum.

Af nærri 40 ára kennslu­reynslu tel ég mig geta fullyrt að verulegur hluti fólks notar þetta samband ekki í samræmi við það sem kennt hefur verið. Þetta staðfestist í viðamikilli rannsókn á stöðu ís­lensk­unnar sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stóðum fyrir. Þar var fólk á öllum aldri beðið að leggja mat á ýmsar setningar, þar á meðal þeim líkar vel hvorum við annan sem hefur verið talið rétt og þeim líkar vel við hvorn annan sem hefur verið talið rangt. Verulegur hluti fólks í öllum aldurshópum, frá 13 ára og upp úr, taldi að fyrri setningin, sú „rétta“, væri annaðhvort „mjög óeðli­leg“ eða „frekar óeðlileg“. Fólk sem taldi að hún væri „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“ var í minnihluta í flestum aldurshópum.

Aftur á móti taldi yfirgnæfandi meirihluti fólks í öllum ald­urs­hópum að seinni setningin, sú „ranga“, væri annað­hvort „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“, en mjög fáum fannst hún „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðli­leg“.Vegna þess hve munur aldurshópa er lítill er ekki hægt að kenna ungu kynslóðinni um þessa málbreytingu – og ekki er heldur hægt að skella skuldinni á hrakandi íslensku­kennslu. Þetta er einfaldlega málbreyting sem á sér gaml­ar rætur og er orðin svo útbreidd að óhætt er að fullyrða að mikill meirihluti landsmanna sé alinn upp við „ranga“ notkun sambandsins og hafi tileinkað sér hana á mál­töku­skeiði.

Baráttan gegn þessari breytingu er augljóslega löngu töp­uð og mér finnst ekkert vit í að halda henni áfram. Það tákn­ar auðvitað ekki að dæmin úr frétt Morgunblaðsins sem nefnd voru í upphafi eigi að hætta að teljast rétt, en verði röng í staðinn. Þetta eiga einfaldlega að vera tvö jafn­gild og jafnrétthá afbrigði. Það er ekkert að því. Tungu­málið þarf ekki alltaf að vera annaðhvort – eða; það má líka stundum vera bæði – og.

Að byggja veg

Sögnin byggja er iðulega notuð þar sem ýmsum finnst að aðrar sagnir ættu betur við. Í Málfarsbankanum segir: „Talað er um að byggja hús og ýmislegt fleira en hins vegar að smíða skip, leggja vegi og gangstéttir.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 eru tekin dæmin „Þarna var byggður vegur í fyrra“ og „Þar var byggður flugvöllur í fyrra“ og sagt að rétt væri lagður eða gerður vegur og gerður flugvöllur. Í nútímamáli er sögnin yfirleitt tengd einhvers konar byggingum, yfirleitt húsum, en í fornu máli merkti hún 'nema, taka sér bólfestu' – „Það sumar fór Eiríkur að byggja land það, er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland“ segir í Landnámabók.

Þá sjaldan talað er um að byggja hús í forntextum merkir það 'dveljast í húsi' – „Þessa skemmu byggði jarlsdóttir og hennar þjónustukonur“ segir í Víglundar sögu. Síðan hliðrast merkingin þannig að byggja hús fer að merkja 'reisa hús' eins og t.d. í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar 1540 – „sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi“. Í margar aldir voru einhvers konar hús nánast einu mannvirkin sem gerð voru á Íslandi, og því eðlilegt að merking byggja væri tengd við hús. En þetta fór að breytast á 19. öld og þá var farið að nota sögnina um margvísleg önnur mannvirki og manngerða hluti hérlendis og erlendis.

Í Skírni 1827 segir: „Egyptalands stjórnari hefur látid mörg og stór herskip byggja“ og í Skírni 1843 segir: „Í ágústmánaði í firra sumar var birjað á að biggja tvær fjarskamiklar járnbrautir í Austurríkji“. Á 20. öld bætast svo við fjölmörg orð – „á nú að byggja til viðbótar 326 flugvélar og 10 stór loftskip“ segir í Morgunblaðinu 1914, og elsta dæmi um byggja flugvöll er úr Sovétvininum 1934: „Einnig ruddu þeir ísinn á stórum svæðum og byggðu »flugvelli«.“

Elsta dæmi sem ég hef fundið um byggja veg er í Víkverja 1874 þar sem segir: „hvergi á Suðurlandinu er neinum örðugleikum bundið að byggja vegi sem aka má vögnum á“. Um þær mundir var skipuleg vegagerð að hefjast á Íslandi og þetta orðalag virðist stafa af þeirri tilfinningu málnotenda að um einhvers konar „byggingu“ sé að ræða og orðið þá haft í merkingunni 'mannvirki' eða eitthvað slíkt. Þetta sést þegar orðin vegur og stígur eru borin saman. Á tímarit.is má finna a.m.k. tvö hundruð dæmi um sambandið leggja stíg, en aðeins fjögur um byggja stíg, öll frá seinustu árum.

Í þeim dæmum er um að ræða raunveruleg mannvirki, eins og sést á frásögn í Fréttablaðinu 2013 um framkvæmdir á Þingvöllum: „Verja eigi allt að 60 milljónum króna til að byggja stíga, palla og girðingar.“ Margir nýlegir stígar á Þingvöllum eru einmitt timburmannvirki. Svipað má segja um orðið slóð – allmörg dæmi eru um leggja slóð en engin um byggja slóð. Þetta er varla tilviljun heldur hlýtur að sýna að í máltilfinningu fólks eru hvorki stígar né slóðir neins konar byggingar, þótt vegir séu það samkvæmt máltilfinningu margra. Það er því ekki hægt að kenna fákunnáttu málnotenda um orðalagið byggja veg, heldur veitir það okkur innsýn í tilfinningu þeirra fyrir merkingu orða.

Á tímarit.is má finna þúsundir dæma frá síðustu tveimur öldum um að sögnin byggja sé notuð um ýmislegt sem ekki eru „byggingar“ í hefðbundnum skilningi. Það virðist ljóst að í máli mjög margra hefur sögnin víðari merkingu en kennt hefur verið og er notuð um margvísleg mannvirki og manngerða hluti. En sá greinarmunur sem málnotendur gera á vegum annars vegar og stígum og slóðum hins vegar er gott dæmi um að tilbrigði í máli eiga oft rætur í máltilfinningu sem ekki er endilega ástæða til að berja niður. Það er engin ástæða til að amast við því að tala um að byggja vegi eða byggja flugvelli.