Gerum kröfur – og þökkum fyrir okkur

Í gær var hér bent á að efnisútdáttur japanskrar kvikmyndar sem Smárabíó er að taka til sýninga væri á ensku á Facebook-síðu bíósins, og sama reyndist gilda um heimasíðu þess. Ég skrifaði bíóinu póst sem ég birti líka í athugasemd við umrædda ábendingu. Þar sagði m.a.:

„Þessi texti er ekki nema 34 orð og það ætti ekki að vera mikið vandamál að snara honum á íslensku. Mér finnst algerlega ótækt að hafa þennan texta eingöngu á ensku. Íslenskan á undir högg að sækja og það sem helst ógnar henni eru einmitt dæmi á við þetta – óþörf enskunotkun sem stuðlar að því að við verðum ónæm fyrir enskunni og hættum að taka eftir því að hún er notuð á ýmsum sviðum þar sem íslenska hefur verið notuð til þessa. Með þessu er dregið úr viðnámsþrótti íslenskunnar og stuðlað að hnignun hennar. Ég skora á ykkur að þýða þennan texta og hafa efnislýsingar á íslensku framvegis.“

Ég fékk fljótlega svar frá bíóinu:

„Þakka kærlega fyrir þessa ábendingu. Við höfum nú þegar fært þennan texta yfir á íslensku og munum reyna að bæta okkur í framtíðinni að hafa þessa texta eins og allt annað hjá okkur á íslensku.“

Ég svaraði aftur og sagði:

„Ég sé að nú er íslenski textinn kominn á vefsíðu bíósins. Ég þakka kærlega fyrir góð viðbrögð og treysti því að þið hafið þetta í huga í framtíðinni.“

Reyndar er textinn í Facebook-færslunni enn á ensku en það er þriggja daga gömul færsla sem kannski tekur því ekki að ergja sig út af lengur.

Þetta sýnir að það skilar árangri að gera athugasemdir. Óþörf enskunotkun stafar sjaldnast af „einbeittum brotavilja“, vilja til að sniðganga íslensku, heldur oftast af hugsunarleysi og kannski stundum svolitlu metnaðarleysi og tilhneigingu til vinnusparnaðar. Þess vegna er venjulega (en vissulega ekki alltaf) brugðist vel við þegar athugasemdir eru gerðar – það er fyrirtækum í hag að hafa viðskiptavini ánægða.

Hikið því ekki við að gera athugasemdir við óþarfa enskunotkun ef ykkur finnst ástæða til, en viðhafið auðvitað fyllstu kurteisi. En það er líka mikilvægt að þakka fyrir þegar brugðist er vel við ábendingum.

Knattspyrnumaðurinn Sara Björk – eða hvað?

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið knattspyrnumaður skýrt 'maður sem æfir og keppir í fótbolta, fótboltamaður'. Vandinn er sá að ekki kemur fram til hvaða merkingar orðsins maður er verið að vísa, en tvær koma til greina: 'karl eða kona, manneskja' og 'karlmaður'. Í ljósi þess að orðið knattspyrnukona er einnig flettiorð í orðabókinni og skýrt 'kona sem æfir og keppir í knattspyrnu, fótboltakona' mætti e.t.v. búast við að merkingin 'karlmaður' ætti þarna frekar við. Orðin fótboltamaður og fótboltakona eru einnig í orðabókinni og skýrð á hliðstæðan hátt. En hvaða merkingu leggja málnotendur í orðin knattspyrnumaður og fótboltamaður? Eru þau notuð jafnt um karla og konur? Hvað segir notkun þeirra í textum um merkinguna í huga fólks?

Til að átta mig á notkun orðanna skoðaði ég dæmi í Risamálheildinni þar sem lýsingarorð sem vísar til þjóðernis stendur á undan orðinu knattspyrnumaðurinn (í öllum föllum og báðum tölum) og þar á eftir kemur sérnafn – dæmi eins og íslenski knattspyrnumaðurinn Eiður. Leit samkvæmt þessu mynstri skilar 4.921 dæmi og eftir því sem ég fæ best séð vísa þau öll til karla. Dæmin um fótboltamaður í þessu mynstri eru margfalt færri, aðeins 240, og vísa einnig öll til karla. Um knattspyrnukona eru 306 dæmi í þessu mynstri og 30 um fótboltakona. Það er því aðeins vísað til kvenna í rúmlega 6% af heildarfjölda dæma um þessi orð í umræddu mynstri, sem sýnir kynjahallann í knattspyrnuumfjöllun íslenskra fjölmiðla undanfarin 20 ár.

Í stað knattspyrnumaður og fótboltamaður er hægt að grípa til samsvarandi orða sem enda á -kona, knattspyrnukona og fótboltakona – þau orð eiga sér hálfrar aldar hefð í málinu. En hvað á að gera þegar ekki er neitt val – þegar ekki er hefð fyrir orði sem endar á -kona í stað orðs sem endar á -maður? Á þetta reynir t.d. í orðum sem vísa til stöðu eða hlutverks á vellinum eins og varnarmaður, miðjumaður og sóknarmaður því að orðin varnarkona, miðjukona og sóknarkona eru sárasjaldgæf (í þessari merkingu). Ekkert þeirra er að finna í orðabókum, og á tímarit.is eru aðeins fjögur dæmi um varnarkona, ekkert um miðjukona og þrjú um sóknarkona. Í Risamálheildinni eru 12 dæmi um varnarkona, 14 um miðjukona og 47 um sóknarkona.

Þegar leitað er eftir sama mynstri og áður kemur í ljós að dæmi um sóknarkona, eins og danska sóknarkonan Pernille, eru fjögur, en 15 dæmi (af 4.996) eru um að sóknarmaður vísi til konu, eins og franski sóknarmaðurinn Marie. Dæmi um miðjukona eru tvö, en 24 dæmi (af 8.304) eru um að miðjumaður vísi til konu. Eitt dæmi er um varnarkona í þessu mynstri, en 29 dæmi (af 6.050) eru um að varnarmaður vísi til konu. Þótt þarna komi vissulega fram að orðin sóknarmaður, miðjumaður og varnarmaður geta vísað til kvenna er það ákaflega sjaldgæft. Samanlagður dæmafjöldi um vísun til konu með sóknarmaður og sóknarkona er aðeins 0,4% af heildarfjölda dæma um þessi tvö orð. Fyrir hin orðin eru tölurnar 0,3% og 0,5%.

Þetta eru ákaflega athyglisverðar niðurstöður. Að óreyndu hefði mátt búast við að hlutfall dæma þar sem vísað er til kvenna út frá stöðu og hlutverki á vellinum með orðunum sóknarmaður/-kona, miðjumaður/-kona og varnarmaður/-kona væri svipað og hlutfall dæma þar sem orðin knattspyrnumaður/-kona og fótboltamaður/-kona eru notuð til að vísa til kvenna sem spila fótbolta, þ.e. rúm 6% eins og fram kemur hér að ofan. En þessar tölur sýna að því fer fjarri – hlutfall dæma þar sem vísað er til kvenna með síðarnefndu orðunum er tíu til tuttugu sinnum hærra en hlutfall dæma þar sem vísað er til þeirra með þeim fyrrnefndu. Hvernig stendur á því að margfalt sjaldgæfara er að nota stöðu eða hlutverk á vellinum í vísun til kvenna en karla?

Mér sýnist eina eðlilega skýringin vera sú að ekki séu til nein orð sem málnotendur eru sáttir við að nota í þessum tilgangi. Lítil hefð er fyrir orðunum sóknarkona, miðjukona og varnarkona og (margir) málnotendur forðast (væntanlega óafvitandi) að nota orð sem enda á -maður í vísun til kvenna þótt það sé einstöku sinnum gert í þessum tilvikum vegna þess að skárri kostur er ekki fyrir hendi. Niðurstaðan er sem sé sú að vegna tregðu málnotenda til að vísa til kvenna með -maður er miklu sjaldnar vísað til stöðu þeirra og hlutverks á vellinum en gert er hjá körlum. Þetta er mjög áhugavert dæmi um það hvernig margræðni orðsins maður flækist oft fyrir okkur og takmarkar í vissum skilningi tjáningu okkar.

Stjörnurnar bekkjaðar

Í dag sá ég spurt á Facebook hvort orðið bekkjaðar í fyrirsögn á Vísi í gær, „Telja að Barcelona-stjörnur Noregs verði bekkjaðar gegn Sviss“, væri nýyrði. Ég svaraði því til að orðið væri vissulega nýlegt en þó a.m.k. tíu ára gamalt og mjög algengt í íþróttamáli. Sögnin bekkja merkir þarna 'láta sitja á varamannabekk' og er notuð þegar leikmenn fá ekki sæti í (byrjunar)liði af ýmsum ástæðum, t.d. vegna lélegrar frammistöðu undanfarið, agabrots eða af öðrum ástæðum. Í umræddri frétt segir: „Eftir óvænt tap gegn Nýja-Sjálandi í fyrstu umferð HM kvenna í knattspyrnu virðist Hege Riise, þjálfari norska landsliðsins, ætla að sýna hver ræður og bekkja tvær af helstu stjörnum Noregs.“ Þarna er verið að láta stjörnurnar gjalda lélegrar frammistöðu.

En þótt germyndin bekkja hafi til skamms tíma verið mjög sjaldséð gegnir öðru máli um miðmyndina bekkjast. Hún kemur fyrir þegar í fornu máli í merkingunni 'beita þrýstingi' eða eitthvað slíkt – „Þorsteinn kvaðst eigi mundu bekkjast til þess ef henni væri eigi ljúft“ segir í Svarfdæla sögu. Hún er þekkt í málinu í merkingunni 'sækjast eftir, deila við e-n, stríða e-m, áreita, hrekkja e-n' eins og segir í Íslenskri orðsifjabók þar sem hún er talin tengjast nafnorðinu bekkur og sagt: „Merking so. að bekkjast hefði þá æxlast af 'að ryðja sér til rúms á bekk' e.þ.h.“ Oftast er miðmyndin notuð í sambandinu bekkjast (til) við. Í Íslendingi 1861 segir t.d.: „Af þessu hafa menn dregið, að hann muni eigi bekkjast til við Austurríki að svo komnu.“

Germyndin bekkja er þó ekki með öllu óþekkt. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hún gefin í merkingunni 'láta setjast á bekk', og í Íslenskri orðabók er hún einnig gefin í sömu merkingu með dæminu „bekkja e-n“. Lýsingarhátturinn bekkjaður kemur fyrir í óeiginlegri merkingu í Iðunni 1927: „Stuart Mill og nytsemikenning hans: sem mest hamingja fyrir sem flesta, varð að þoka úr sessi og boðberi ofurmenskunnar – Nietzsche – var bekkjaður í öndvegi.“ Merkingin er hins vegar bókstafleg í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1947: „í herforingjaveislunum voru örgustu mellur bæjarins, bekkjaðar með dætrum hinna fínustu borgara.“ En þetta eru nánast einu dæmin sem ég finn um germyndina fram til þessarar aldar.

Á síðustu árum hefur sögnin bekkja, einkum lýsingarhátturinn bekkjaður/bekkjuð, náð mikilli útbreiðslu í íþróttamáli í þeirri merkingu sem nefnd var hér að framan. Elstu dæmi sem ég finn um það eru frá 2010 en dæmunum hefur fjölgað mjög hratt og eru alls hátt á sjöunda hundrað í Risamálheildinni. Á tímarit.is finn ég hins vegar bara eitt dæmi, frá 2020, sem sýnir glöggt að þessi notkun er, enn sem komið er, að mestu bundin við óformlegt málsnið. En engin ástæða er til að svo verði áfram. Þetta er gömul og rétt mynduð sögn og merkingin er í fullu samræmi við upprunann og þá merkingu sem gefin er í orðabókum. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt dæmi um hvernig gamalt og nánast horfið orð vaknar til lífs á ný og uppfyllir nýja þörf.

Óheiðarleiki

Snorri Másson vænir mig um óheiðarleik í viðbrögðum mínum við viðtali sem hann og bróðir hans áttu við Heiðar Guðjónsson um daginn, þar sem ég sagði að málflutningur Heiðars væri „útlendingaandúð undir formerkjum málverndar“. Snorri segir: „Ég veit að Ei­rík­ur er mjög menntaður maður og mjög van­ur því að lesa texta. Þannig að ég hugsa bara: Er þetta heiðarlegt mat hans að það sé út­lend­inga­andúð í því að benda á þetta?“ Þarna er verið að gefa í skyn að ég tali gegn betri vitund, og Snorri svarar sér svo sjálfur með því að segja „Mér finnst þetta bara óheiðarlegt“. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig hann fær það út.

Reyndar er endursögn Snorra á viðtalinu við Heiðar býsna ónákvæm. „Hann er bara að velta þessu upp. Þetta eru breytingar sem eru að verða. Hvað finnst okkur um það, er hann að segja.“ Því fer auðvitað fjarri að Heiðar sé bara að velta því upp, svona alveg hlutlaust, hvað okkur finnist um þróunina. Það er alveg augljóst að hann er að tala mjög ákveðið gegn þeirri þróun sem um ræðir. Og Snorri segir líka: „Heiðar talar aldrei um útlendingana. Hann er ekkert að tala um þá, þeirra eiginleika eða þeirra menningu eða neitt þannig.“ Jú, hann talar t.d. um „hvernig þetta fjölmenningarsamfélag mun hafa áhrif á okkar samfélag og breyta því varanlega og hugsanlega óafturkræft“.

„Snorri sagði Ei­rík hafa bar­ist öt­ul­lega fyr­ir ís­lenskri tungu í gegn­um tíðina en að hann hafi til­tekn­ar hug­mynd­ir um það hvernig það skuli gert.“ Þetta er alveg rétt. Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvernig eigi að berjast fyrir íslenskunni. Þær felast í því að það skuli gert með jákvæðni, umburðarlyndi og virðingu fyrir fólki að leiðarljósi, en ekki með leiðréttingum, umvöndunum, yfirlæti og þjóðrembu. Og Snorri bætir við: „Hann er mikið að passa tón­inn hjá öðrum. Hann er kannski efn­is­lega sam­mála fólki en mikið að passa tón­inn.“ Það má ekki gerast að eðlileg umhyggja fyrir íslenskunni, og áhyggjur af stöðu hennar, snúist upp í andúð gegn útlendingum og ég hef iðulega lagt áherslu á það. Ef þetta er það sem átt er við þegar sagt er að ég sé „að passa tóninn“ skammast ég mín ekkert fyrir það.

Með því að tala um „útlendingaandúð undir formerkjum málverndar“ var ég að lýsa þeirri tilfinningu sem ég fékk við lestur viðtalsins og byggði á ýmsum atriðum í orðalagi og framsetningu. Af viðbrögðum við færslu minni að dæma var ég ekki einn um þá tilfinningu, en vissulega kom líka fram að ýmsum fannst þetta ekki rétt. Ég geri enga athugasemd við það – það er ekkert óeðlilegt við að fólk túlki texta á mismunandi hátt og ég geri enga kröfu til þess að mín túlkun sé talin réttari en aðrar, og það má alveg reyna að sannfæra mig um að ég hafi rangt fyrir mér. Ég ætlast hins vegar til þess að því sé trúað að það sem ég segi sé einlæg tilfinning mín en ekki sett fram gegn betri vitund af einhverjum annarlegum hvötum. Það finnst mér óheiðarleg ásökun.

Það er auðvitað oft álitamál hvort – og þá hvernig og hvenær– eigi að segja skoðun sína á tilteknu umræðuefni. Það getur verið ósmekklegt, óskynsamlegt, óþægilegt, óviðeigandi, ómálefnalegt, óviðurkvæmilegt, ómerkilegt og ó- allt mögulegt. En það getur fjandakornið ekki verið óheiðarlegt.

Unnið að jarðgangnagreftri

Ég býst við að einhverjum þyki fyrirsögn þessa pistils stinga í stúf við það sem lengi hefur verið boðað í kennslu og málfarsþáttum. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Gröftur: þgf. grefti, ef. graftar. Í þágufalli væri síðri kostur „greftri“ og í eignarfalli „graftrar“.“ Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Á sama hátt ber að segja grefti í þágufalli, en ekki greftri. Og væri gaman ef rétta orðmyndin gæti sigrað í fljótheitum.“ Í Morgunblaðinu 2014 segir: „Þá er tvennt til: frá grefti og frá greftri, til graftar og til graftrar. Málfræðingar mæla með fyrri kostinum en sumum þykir hinn flottari.“ Báðar beygingarnar eru gefnar upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls en bent á að greftri og graftar séu mun algengari myndir en grefti og graftrar.

Einnig eru oft gerðar athugasemdir við eignarfallið (jarð)gangna. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Hafin er vinna vegna jarðgangna. Rétt væri: ... vegna jarðganga. (Eignarfall af göng er ganga, en gangna er eignarfall af göngur.)“ Gísli Jónsson sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Enn er ótrúlega algengt í fréttum, ég held ég megi segja ráðandi, að orðið göng sé ranglega beygt. Ég hef einkum tekið eftir þessu í samsetningunni jarðgöng. Eignarfallið er jarðganga, ekki jarðgangna. Aftur á móti er kvenkynsorðið ganga í eignarfalli fleirtölu gangna.“ Einnig er hnykkt á þessu í kverinu Gott mál eftir Ólaf Oddsson frá 2004 og klykkt út með því að segja: „Þetta ætti því að vera einfalt.“

En er þetta svo einfalt? Tvö elstu dæmi um myndina jarðgangna á tímarit.is eru frá 1888 og 1889, en elsta dæmið um n-lausu myndina jarðganga er nokkrum árum yngra, frá 1896. Öll þessi dæmi eru úr vesturíslensku blöðunum enda lítil umræða um jarðgöng á Íslandi á þessum tíma. Allt fram til 1980 er jarðgangna algengari mynd – samtals 141 dæmi um jarðganga en 149 um jarðgangna. En eftir 1980 siglir jarðganga hratt fram úr og fram til 2023 eru 3000 dæmi um jarðganga á tímarit.is en aðeins 375 um jarðgangna. Í Risamálheildinni er munurinn enn meiri – 2833 dæmi um jarðganga en aðeins 125 um jarðgangna. Ekki er ótrúlegt að hnignun myndarinnar jarðgangna stafi að einhverju leyti af kennslu og leiðréttingum.

Ekki er málið einfaldara í orðinu gröftur. Elsta dæmi um -r-lausu þágufallsmyndina grefti er frá 1784 en það elsta um greftri hundrað árum yngra, frá 1884. En allt frá aldamótunum 1900 er greftri algengari mynd – samtals 1969 dæmi en 718 um grefti. Í Risamálheildinni eru dæmin 618 á móti 107. Elstu dæmi um eignarfallsmyndirnar graftar og graftrar eru álíka gamlar, en -r-myndin þó aðeins eldri, frá 1790 – -r-lausa myndin frá 1797. Alla tíð hefur graftar þó verið mun algengari en graftrar – 537 dæmi á móti 164 en í Risamálheildinni eru dæmin 74 á móti 8. Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Margir nota orðið greftrun og greftra. Þetta mun vera rangt –segja ber greftun og grefta.“ En greftun er ekki í neinni orðabók, og sárafá dæmi til um það.

Vitanlega er það rétt að myndirnar ganga, jarðganga, grefti, graftar og greftun eru það sem við væri að búast út frá málkerfinu. Það eru bara veik kvenkynsorð (þau sem enda á -a í nefnifalli eintölu) sem „eiga að“ fá -n- í eignarfalli fleirtölu, og -r- er ekki stofnlægt í orðinu gröftur eins og sést á því að þolfallið er gröft, og þess vegna „ætti“ -r- ekki að koma fram í þágufalli og eignarfalli né heldur í afleidda orðinu greftrun. En það breytir því ekki að málnotendum finnst þessar „röngu“ myndir greinlega eðlilegar, og þær eru allar gamlar og algengar í málinu. Þess vegna er engin ástæða til að amast við þeim. Það er nefnilega misskilningur að tungumálið sé, eigi að vera eða þurfi að vera fullkomlega reglulegt. Óregluleg beyging er alveg eðlileg.

(Fyrsta) skóflustunga

Þegar meiriháttar verklegar framkvæmdir hefjast fer oft fram táknræn athöfn þar sem tekin er fyrsta skóflustunga að framkvæmdinni – skóflu er stungið í jörð og hnausi velt við. Í seinni tíð eru reyndar stundum notaðar stórvirkar vinnuvélar til að taka fyrstu skóflustunguna. Orðalagið að taka fyrstu skóflustunguna um upphaf framkvæmda er a.m.k. hundrað ára gamalt. Elsta dæmið í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1926: „Var fyrst byrjað á járnbrautarlagningu sumarið 1877 og fyrstu skóflustungunni varpað upp á brautarstæðið 13. júlí.“ Annað dæmi er úr Vísi 1927 þar sem sagt er frá upphafi að byggingu stúdentagarðs á Skólavörðuholti: „En við fyrstu skóflustungu, er byrjað var á verkinu, fann einn stúdentanna gamla og ryðbrunna skeifu.“

Í seinni tíð er fyrstu oft sleppt og aðeins talað um að taka skóflustungu. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1961: „Á árinu 1961 er sem sagt ekki farið að taka skóflustungu fyrir 410 þessara 800 íbúða, sem áttu að vera tilbúnar 1960.“ Þetta verður svo smátt og smátt algengara, einkum eftir 1980. Nýlegt dæmi eru úr Víkurfréttum 2022: „Samlegðin af þessum þremur verkefnum þótti þó nokkur og var tekin skóflustunga að Hljómahöllinni í janúar 2008.“ Þarna er orðið skóflustunga eiginlega orðið heiti á tiltekinni athöfn en ekki lýsing á henni eins og fyrsta skóflustungan er. Hugsanleg ástæða gæti verið sú að oftast er fyrsta skóflustungan sú eina, en svo haldið áfram með vinnuvélum – og sú fyrsta reyndar stundum líka tekin þannig.

En þrátt fyrir að það sé algengt að nota orðið skóflustunga eitt og sér um þessa athöfn er fyrsta skóflustungan samt margfalt algengari. Frá árinu 2000 eru dæmin um síðarnefnda orðalagið hátt í tíu sinnum fleiri á tímarit.is, og nærri sjö sinnum fleiri í Risamálheildinni. Þrátt fyrir það finnst mér ég næstum alltaf sjá talað um skóflustungu, án fyrstu, og mér finnst ég vera nýfarinn að sjá slík dæmi. En hvort tveggja reynist vera kolrangt – skóflustungan ein og sér er a.m.k. 60 ára gömul í málinu, og margfalt sjaldgæfari en fyrsta skóflustungan. Mér finnst þetta gott dæmi um hversu brigðul tilfinning okkar fyrir málinu í kringum okkur getur verið. Okkur finnst það sem við erum ekki alin upp við vera að útrýma því sem við erum vön þótt staðreyndin sé önnur.

Kreðs(a)

Hér sköpuðust í gær nokkrar umræður um orðið kreðs sem var þátttakendum í umræðunni misjafnlega tamt á tungu. Þetta er augljóslega tökuorð úr dönsku og Helgi J. Halldórsson nefnir það í upptalningu á dönskuslettum sem séu „með öllu óþarfar“ í grein í Skírni 1975. Orðið er gefið í Íslenskri orðabók í tveimur myndum, karlkynsmyndinni kreðs og kvenkynsmyndinni kreðsa, sagt óformlegt og merkja 'óformlegur hópur manna, klíka'. Elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar er frá 1895 en á tímarit.is eru þó ekki eldri dæmi en frá 1951. Trúlegt er að orðið hafi lengi verið eitthvað notað í málinu þótt það hafi ekki komist á prent á fyrri hluta 20. aldar, og það er raunar mjög sjaldgæft á prenti fram um 1980 en töluvert notað eftir það.

Af einhverjum ástæðum er orðið langmest notað í þágufalli fleirtölu, í samböndum eins og í þessum kreðsum – um tveir þriðju hlutar dæmanna eru um þá beygingarmynd, og hún getur verið hvort heldur af kreðs eða kreðsa. En af þeim myndum sem sýna kynið ótvírætt, s.s. kreðs og kreðsinn í karlkyni, kreðsu og kreðsur í kvenkyni, sýnist mér að aðeins u.þ.b. tíundi hluti sé karlkyns. Það er því ljóst að kvenkynsmyndin kreðsa er aðalmynd orðsins. Alls er um hálft sjöunda hundrað dæma um orðið eitt og sér á tímarit.is, en auk þess kemur það fram í ýmsum samsetningum, ekki síst orðum sem tengjast listum – orðum eins og bókmenntakreðsum, skáldakreðsum, listamannakreðsum o.fl.

Þetta kemur vel fram í elsta dæminu um orðið á tímarit.is, í grein um William Faulkner í Lífi og list 1951: „Hann hefur um nokkurt skeið notið mikilla vinsælda í Evrópu en verið lítt kunnur í heimalandi sínu nema meðal starfsbræðra sinna og í þröngum hópum andlega sinnaðra manna (í intellektúölum kreðsum).“ Orðið hefur greinilega unnið sér hefð í íslensku, en auðvitað má deila um hversu vel það falli að málinu. Í fljótu bragði finn ég ekki fleiri karlkynsnafnorð sem enda á -ðs nema lóðs, sem líka er tökuorð úr dönsku, og ég finn engin kvenkynsnafnorð sem enda á -ðsa. Hins vegar eru til sagnirnar lóðsa sem er vitanlega af lóðs, og gliðsa sem er mjög sjaldgæf. Hvað sem því líður finnst mér kreðs(a) saklaus sletta.

Kynjahlutföll nafnorða í íslensku að fornu og nýju

Fyrir tæpum fjórum árum svaraði ég eftirfarandi spurningu á Vísindavefnum: „Hver eru kynjahlutföll orða í íslensku? Þ.e.a.s. hversu hátt hlutfall orða er í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni? […] Hefur þetta breyst í gegnum tíðina? […]“ Að gefnu tilefni birti ég hér hluta af svari mínu, nokkuð aukinn og breyttan. En í upphafi er rétt að leggja áherslu á að spurningu um kynjahlutföll má skilja á tvo vegu. Annars vegar getur verið átt við fjölda mismunandi orða í hverju kyni sem til eru í málinu (flettiorð), en hins vegar getur verið átt við hlutfall dæma um orð af hverju kyni í texta (lesmálsorð). Tölur um hið fyrrnefnda liggja ekki fyrir en trúlegt er að kynjahlutföllin séu svipuð þar og í flettiorðunum þótt það þyrfti að kanna nánar.

Spurningu um hlutfall dæma af hverju kyni í texta má svara með vísun til Risamálheildarinnar sem er textasafn úr íslensku nútímamáli og hefur að geyma u.þ.b. 2,7 milljarða lesmálsorða. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð tæp 34% af heildinni, dæmi um kvenkynsorð tæp 32%, og dæmi um hvorugkynsorð rúm 34%. Í Íslenskri orðtíðnibók frá 1991 eru hlutföllin svipuð – karlkyn tæp 35%, kvenkyn tæp 33%, hvorugkyn rúm 32%.  Þessar tölur miðast við samnöfn en sérnöfnum er sleppt. Séu þau tekin með hækkar hlutfall karlkynsorða í Risamálheildinni upp í tæp 37%, einkum á kostnað hvorugkynsorða. Þetta sýnir vel hvað karlmannsnöfn eru áberandi í textunum og það gerir þá karllæga – ekki fjöldi eða hlutfall karlkynsorða út af fyrir sig.

Í fornu máli eru hlutföllin talsvert ólík. Í safni sem hefur að geyma Íslendingasögur, Sturlungu, Heimskringlu og Landnámabók eru tæplega 1700 þúsund orð. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð rúm 60%, dæmi um kvenkynsorð eru tæp 19%, og dæmi um hvorugkynsorð rúm 21%. Þessir fornu textar eru frásagnartextar sem segja fyrst og fremst frá karlmönnum, athöfnum þeirra og afrekum. Sérnöfn eru því miklu hærra hlutfall textans en í nútímatextunum, og flest þeirra eru karlmannsnöfn – rétt tæpur helmingur allra karlkynsnafnorða í þeim eru sérnöfn en aðeins tæpur fjórðungur kvenkynsnafnorðanna og innan við 10% hvorugkynsnafnorða. Ef sérnöfnin eru dregin frá lækkar hlutfall karlkynsorða niður í rúm 47%.

Eftir standa samt ýmiss konar „starfsheiti“ karlmannanna, s.s. konungur, jarl, bóndi, og ýmis frændsemisorð sem mun oftar vísa til karlmanna – sonur, bróðir, frændi o.fl. Ekki er hægt að átta sig á fjölda slíkra orða í fljótu bragði, en ef þau væru dregin frá er ég ekki viss um að hlutfall dæma um karlkynsorð væri miklu hærra í fornum textum en í nútímamáli. En hvað sem því líður sýna þessar tölur tvennt. Annars vegar að ótrúlega mikið jafnræði ríkir í málinu milli málfræðikynjanna þriggja – hlutfall hvers um sig er u.þ.b. þriðjungur af heildinni. Það er mikilvægt fyrir stöðugleik málsins. Hins vegar sýnir þetta að meint karllægni málsins kemur ekki fram í því að karlkyns samnöfn séu yfirgnæfandi, þótt öðru máli gegni um karlmannsnöfn.

Í hverju felst karllægni íslenskunnar?

Hér var áðan sett inn skemmtilegt kvæði eftir Þórarin Eldjárn með þeim ummælum að það væri „ágætt innlegg í umræðuna um kynjuð orð og kynjaorð, sem töluvert hefur farið fyrir á þessu spjalli“. En reyndar kemur þetta kvæði sem ég hef séð víða á Facebook í dag þeirri umræðu nákvæmlega ekkert við. Í því er hrúgað saman kvenkynsorðum, væntanlega í þeim tilgangi að vekja athygli á að því fari fjarri að íslenska sé jafn karllæg og stundum er haldið fram. Þar birtist sá útbreiddi og lífseigi misskilningur að barátta gegn karllægni málsins beinist eitthvað gegn karlkynsorðum almennt. En svo er ekki. Málið snýst ekkert um önnur orð en þau sem notuð eru í vísun til fólks og undir það falla aðeins tvö kvenkynsorðanna í kvæðinu – hetja og kempa.

Eins og hér hefur margsinnis verið rakið, m.a. í nokkrum pistlum í síðustu viku, birtist karllægni íslenskra nafnorða einkum á tvennan hátt. Annað er tvíeðli orðsins maður sem er notað í almennri vísun, bæði sem tegundarheiti og um óskilgreindan hóp, en einnig sem eins konar óákveðið fornafn. En þar fyrir utan er það vitanlega mjög oft notað sem andstæða við kona, þ.e. í merkingunni ʻkarlmaðurʼ. Þrátt fyrir hina almennu merkingu hefur orðið maður alla tíð tengst karlmönnum mjög nánum böndum og þess vegna tengja ýmsar konur og kynsegin fólk sig ekki við það eða samsetningar af því, finnst það ekki eiga við sig. Eins og ég hef sýnt fram á byggist þessi staðhæfing ekki á tilfinningu, heldur birtist greinilega í málnotkun í textum.

Hitt er að meginhluti starfsheita, hlutverksheita, íbúaheita o.fl. er karlkyns, og þegar vísað er til þeirra með fornafni er því notað karlkynsfornafn. Mörg þeirra hafa ‑maður sem seinni lið, svo sem vísindamaður, námsmaður, stýrimaður,  formaður, Norðmaður og fjölmörg fleiri, en ýmis önnur karlkynsorð eru líka seinni liður í mörgum starfsheitum, svo sem ‑stjóri í forstjóri og bílstjóri; ‑herra í ráðherra og skipherra; ‑þjónn í lögregluþjónn og barþjónn; o.m.fl. Mörg starfsheiti eru einnig mynduð með karlkynsviðskeytum eins og -ari og -ingurljósmyndari. kennari; tölvunarfræðingur, heimspekingur. Þótt þessi starfsheiti séu málfræðilega karlkyns eru þeim ætlað að vera kynhlutlaus, í þeirri merkingu að þau eru eða hafa verið notuð um öll kyn.

Fólk getur haft mismunandi skoðanir á því hvort tal um karllægni íslenskunnar eigi rétt á sér, en sé um einhverja karllægni að ræða felst hún a.m.k. ekki í tilvist eða notkun karlkynsorða almennt – orða eins og stóll, lampi, bíll, vagn, heili, fótur, vindur, bylur, vetur, dagur, vegur, stígur, skuggi, litur, pallur, stallur, gluggi, veggur, hugur, harmur o.s.frv. Þótt þessi orð séu öll karlkyns dettur engum í hug að halda því fram að þau stuðli á einhvern hátt að karllægni málsins. Þess vegna kemur það málinu ekkert við þótt auðvelt sé að yrkja heilt kvæði með eintómum kvenkynsnafnorðum. Að halda því fram eða gefa í skyn að karllægnin felist í fjölda karlkynsorða almennt er að misskilja málið hrapallega eða afvegaleiða umræðuna.

Breyting á eignarfalli kvenkyns -un-orða

Í dag var nefnt hér að algengt væri orðið að forsetningin vegna stýrði öðru falli en eignarfalli, einkum á kvenkynsorðum sem enda á -un – sagt væri vegna hlýnun, vegna lokun, vegna skoðun o.s.frv. Þetta er svo sem ekki nýtt. Helgi Skúli Kjartansson vakti fyrstur máls á þessu í grein sem heitir „Eignarfallsflótti“ í Íslensku máli 1979. Hann fjallar þar um ýmis dæmi þess að önnur föll en hefðbundið er séu notuð í stað eignarfalls og tekur m.a. dæmi eins og „Vegna […] röskun áætlunar“. Í slíkum dæmum getur tvennt komið til: Annars vegar breytt fallstjórn, t.d. að vegna fari að stjórna þolfalli í stað eignarfalls, en hins vegar breyting á einstökum fallmyndum ákveðinna beygingarflokka, t.d. að kvenkynsorð sem enda á -un missi eignarfallsendinguna.

Annað dæmi sem nefnt var í sömu andrá var eignarfall kvenkynsorða sem enda á -ingvegna byggingu hússins. Um slík dæmi skrifaði ég einu sinni pistil og taldi að þar væri ekki um breytta fallstjórn að ræða, heldur hefðu slík orð tilhneigingu til að fá -u-endingu í eignarfalli fyrir áhrif frá þolfalli og þágufalli. Vissulega má ímynda sér sömu skýringu á dæmum eins og vegna hlýnun – þar yrði eignarfallið endingarlaust fyrir áhrif frá öðrum föllum orðsins. En á þessu tvennu er þó sá grundvallarmunur að endingarlaust eignarfall á sér engin fordæmi í kvenkynsorðum, nema í litlum hópi orða sem enda á -i (gleði, reiði o.fl.). Eignarfallsendingin -u er aftur á móti ending hins geysistóra hóps veikra kvenkynsorða og því mjög algeng.

En ég fór að skoða dæmi um vegna X-un í Risamálheildinni, þ.e. dæmi þar sem kvenkyns -un-orð eru endingarlaus í eignarfalli á eftir vegna, og fann margfalt meira en ég átti von á – hátt í þúsund dæmi. Fyrir utan fjöldann kom það mér líka á óvart að meginhluti dæmanna var úr tiltölulega formlegum textum – einkum fréttum prentmiðla og vefmiðla, en einnig alþingisræðum, dómum o.fl. Það er samt rétt að leggja áherslu á að þótt dæmin séu þetta mörg er hlutfallið ekki hátt – dæmi um X-unar, þ.e. þar sem vegna tekur með sér -un-orð með endingunni -ar, eru rúm 90 þúsund. En þúsund dæmi eru samt of mörg til að hægt sé að afskrifa þau sem villur af einhverju tagi, heldur hljóta þau að vitna um að einhver breyting sé í gangi.

En er þetta breyting á fallstjórn eða beygingarmynd? Til samanburðar má nefna að 23 dæmi eru um endingarlausu myndina grun í sambandinu vegna grun um. Það eru ekki fleiri dæmi en svo að vel gæti verið um innsláttarvillur að ræða, í ljósi þess að dæmin um vegna gruns um eru tæp 20 þúsund. Þetta gæti bent til þess að breytingin væri einkum bundin við kvenkynsorð sem enda á -un og því um breytingu á beygingarmynd að ræða. Þessi breyting virðist nefnilega ekki bundin við forsetninguna vegna – það er líka töluvert af dæmum um endingarlaus -un-orð á eftir forsetningunni til sem stjórnar eignarfalli eins og vegna. Þetta eru dæmi eins og „Aukin upptaka af koltvísýringi í hafinu hefur leitt til súrnun þess“ í Fréttablaðinu 2021.

Lausleg athugun bendir því til þess að dæmi eins og vegna hlýnun séu frekar til marks um að kvenkyns -un-orð séu farin að missa eignarfallsendinguna en að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast. Þetta þarf þó að kanna miklu nánar, og vel má vera að einhver merki séu líka um breytta fallstjórn. Ég hef yfirleitt engar áhyggjur af breytingum á endingum einstakra orða – það skiptir engu máli fyrir málkerfið hvort við segjum hurðir eða hurðar, tugs eða tugar, vegna byggingu eða vegna byggingar, o.s.frv. En öðru máli gegnir um það þegar ending fellur alveg brott án þess að nokkuð komi í staðinn. Það veikir eignarfallið sem er sjaldgæfast fallanna og stendur veikt fyrir. Þess vegna finnst mér ástæða til að reyna að sporna við þessari breytingu.