Nýr beygingarflokkur: líðan – líðan – líðan – líðunar

Áðan var hér spurt hvort tala ætti um líðun eða líðan og segja t.d. óska þér betri líðunar. Báðar myndirnar eru vissulega til, þótt í Íslenskri orðabók sé sú fyrrnefnda merkt „fornt/úrelt“ og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls standi við hana „Orðið er úrelt“. Þegar ég fór að hugsa um þetta áttaði ég mig á því að þótt ég myndi örugglega tala um góða líðan finnst mér eðlilegt að óska góðrar líðunar – sem sé, hafa -un(ar) í eignarfalli en -an annars. Þetta samræmist ekki þeirri beygingu sem er gefin upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls – þar er gert ráð fyrir að sama sérhljóðið haldist í viðskeytinu í allri eintölunni og beygingin því líðan – líðan – líðan – líðanar og líðun – líðun – líðun – líðunar. Sama segja beygingafræðibækur.

Þegar ég fór að skoða tíðni beygingarmynda nokkurra orða sem hafa tvímyndir af þessu tagi á tímarit.is og í Risamálheildinni kom í ljós að ég er ekki einn um áðurnefnda tilfinningu. Út frá tíðni mismunandi mynda er nefnilega ekki hægt að álykta annað en að í máli flestra séu orðið líðun / líðan og samsetningar af þeim, vellíðun / vellíðan, vanlíðun / vanlíðan og samlíðun / samlíðan, með -an í nefnifalli, þolfalli og þágufalli, en breyti því í -un(ar) í eignarfalli – beygingin er þá líðan – líðan – líðan – líðunar. Sama virðist gilda um ýmis önnur orð sem hafa tvímyndir af þessu tagi þar sem -an-myndin er notuð eitthvað að ráði, svo sem áeggjun/-an, eftirgrennslun/-an, skipun/-an o.fl., þótt hlutföllin séu dálítið mismunandi milli orða.

Hér má taka dæmi af vellíðun/-an og vanlíðun/-an. Sé lagður saman fjöldi dæma um myndirnar vellíðun og vellíðan er hlutfall þeirrar fyrri aðeins 1,4% á tímarit.is og 0,7% í Risamálheildinni, en af samanlögðum dæmafjölda um eignarfallsmyndirnar vellíðunar og vellíðanar er hlutfall þeirrar fyrrnefndu 86,2% á tímarit.is og 87,4% í Risamálheildinni. Ef við leggjum saman fjölda dæma um myndirnar vanlíðun og vanlíðan er hlutfall þeirrar fyrri 0,6% á tímarit.is og 0,3% í Risamálheildinni, en af samanlögum dæmafjölda um eignarfallsmyndirnar vanlíðunar og vanlíðanar er hlutfall þeirrar fyrrnefndu 78% á tímarit.is og 77,9% í Risamálheildinni. Þarna er ótrúlega gott samræmi milli textasafnanna tveggja þótt samsetning þeira sé mjög ólík.

Í fornu máli höfðu kvenkynsorð með viðskeytinu -un yfirleitt endinguna -an(ar) í eignarfalli eintölu – beygingin var því skipun – skipun – skipun – skipanar. Mörg þessara orða gátu fengið -an í nefnifalli, þolfalli og þágufalli eintölu vegna áhrifsbreytinga. Þannig urðu til tvímyndir og í sumum tilvikum varð -an-myndin aðalmynd orðsins, um tíma a.m.k., en margar -an-myndir eru nú að mestu horfnar úr málinu. Í Íslenzkri málmyndalýsingu frá 1861 segir Halldór Kr. Friðriksson: „Í flestum þeim kvennkynsnöfnum, sem áður höfðu afleiðsluendinguna an, hefur a breyzt í u í gjör., þol. og þiggj. eint. […] og í sumum þeirra helzt þetta u einnig í eig. eint., t.a.m. skipun (áður skipan), skipunar; […] viðvörun (áður viðvaran), viðvörunar […].“

Orðalagið „í sumum þeirra“ bendir til þess að eignarfallið -an(ar) hafi í einhverjum tilvikum haldist í orðum sem höfðu -un í öðrum föllum eintölu – beygingin hefur þá verið eins og í fornu máli, með -un í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en -an í eignarfalli. Það er mjög athyglisvert vegna þess að nú virðist þetta alveg hafa snúist við – -an-orðin fá langoftast -un(ar) í eignarfalli. En e.t.v. hefur þetta lengi verið eins og tölurnar að framan sýna – höfundar eldri málfræðibóka höfðu ekki tíðnikannanir til að styðjast við og hafa fremur hugsað þetta út frá kerfinu og talið eðlilegt að sama sérhljóðið héldist í allri eintölunni. Mér sýnist hins vegar ljóst að eðlilegt sé að búa til nýjan beygingarflokk fyrir -an-orðin, þar sem þau fá -un(ar) í eignarfalli við hlið -an(ar).

Hissa, hissari, hissastur

Í innleggi hér í dag sagðist hópverji hafa rekist á miðstigið hissari í þýddum reyfara, og fundið nokkur dæmi um það í Ritmálssafni Árnastofnunar, m.a. frá Halldóri Laxness. Lýsingarorðið hissa á það annars venjulega sameiginlegt með öðrum lýsingarorðum sem enda á -a að koma aðeins fyrir í einni mynd í stað þess að stigbreytast og beygjast í kynjum, tölum og föllum eins og lýsingarorð gera annars. Þetta eru nær eingöngu samsett orð eins og sammála, gjaldþrota, einhliða, einnota, samferða, viðlíka, hágæða, fullvalda, andvaka, vélarvana og fjölmörg önnur. Merking margra þessara orða er þess eðlis að það er ekki við því að búast að þau stigbreytist – það er ekki hægt að vera *meira gjaldþrota, *meira einnota, *mest samferða o.s.frv.

En hissa sker sig úr hópnum á tvennan hátt – annars vegar með því að vera ósamsett, og hins vegar með því að vera merkingarlega eðlilegt að stigbreytast. Það er enginn vandi að vera meira hissa og mest hissa og um það eru ótal dæmi. „Enginn var meira hissa eða reiðari en ég þegar við fundum ekki vopnin“ segir í Morgunblaðinu 2010, og „Ég er mest hissa á því hvað allt er dýrt“ segir í Feyki 2020. Þess vegna er kannski engin furða að orðið sé stundum stigbreytt á venjulegan hátt, með hefðbundnum endingum miðstigs og efsta stigs -ari og -astur. Elsta dæmi um þetta, undir fyrirsögninni „Málblóm“, er í Lesbók Morgunblaðsins 1932: „Þeir urðu altaf hissari og hissari, og ekki mátti á milli sjá hver hissastur varð.“

Fyrirsögnin sýnir að verið er að hneykslast á þessari stigbreytingu, og flest af þeim rúmlega 70 dæmum sem eru um miðstigið og efsta stigið á tímarit.is eru greinilega notuð í gamni og oft innan gæsalappa. Stundum er beinlínis vísað í þetta sem barnamál, eins og í Morgunblaðinu 2016: „Ég varð „alltaf hissari og hissari“, eins og krakkarnir segja.“ Þó eru til dæmi sem ekki bera það sérstaklega með sér að vera notuð í gamni, t.d. „Maður var bara hissari því fleira sem sagt var“ í leikdómi eftir Ólaf Jónsson bókmenntafræðing í DV 1979. Ólafur mun reyndar hafa þýtt reyfarann sem vitnað var til í upphafi sem bendir til þess að honum hafi verið þessi stigbreyting eðlileg, hvort sem hann hefur tekið hana meðvitað upp eða ekki.

Eins og áður var nefnt kemur miðstigið hissari fyrir hjá Halldóri Laxness – raunar í þremur skáldsögum hans, Atómstöðinni, Brekkukotsannál og Kristnihaldi undir Jökli. Halldór leyfði sér auðvitað ýmislegt óhefðbundið og hafði gaman af að ögra lesendum með málnotkun sinni. En stigbreytingin virðist ekki hafa breiðst mikið út – í meginhluta þeirra u.þ.b. sextíu dæma sem eru um hana í Risamálheildinni er hún notuð í gamni, eða verið að gera grín að henni. Það gildir ekki síður um texta úr óformlegu máli samfélagsmiðla og sýnir að stigbreytingin fellur yfirleitt ekki að málkennd málnotenda. Mér finnst því engin ástæða til að ýta undir hana eða mæla með henni þótt vissulega kæmi sér oft vel að geta stigbreytt hissa.

Að eiga skæs og vera skæslegur

Í umræðu um lýsingarorðið smækó hér fyrr í dag bar lýsingarorðið skæslegur á góma. Í Slangurorðabókinni frá 1982 er það skýrt 'skemmtilegur, æðislegur, girnilegur, skvæslegur' – undir skvæslegur er hins vegar bara vísað á skæslegur.  Þetta orð er að mestu bundið við óformlegt mál en hefur þó komist í Íslenska orðabók þar sem það er merkt „slangur“ og skýrt 'skemmtilegur, æðislegur', og þar er einnig að finna lýsingarorðið skæs sem sagt er merkja 'skæslegur'. En í Íslenskri orðabók og Slangurorðabókinni er einnig samhljóða nafnorð sem sagt er merkja 'peningar' eða 'gaman, fjör'. Í Íslenskri orðsifjabók er nafnorðið (í merkingunni 'peningar') sagt komið úr skejs í dönsku, en það orð aftur af Scheiß í þýsku sem merkir 'skítur'.

Í elstu dæmum um orðið skæs á tímarit.is er það nafnorð og merkir 'peningar' eins og í dönsku. Í Skólablaðinu 1951 segir: „Áttu skæs?“ Í gamankvæði í Mánudagsblaðinu 1954 segir: „hann var ekki að spyrja um splæs / en spændi í hana plenty skæs.“ Í skýringum við kvæðið segir: „Skæs, að oss er tjáð, þýðir peningar.“ Í sama kvæði kemur fyrir sambandið „tékka spíru“ sem sagt er merkja „að slá 10-kall“ og hliðstæð merking kemur væntanlega fram í Þjóðviljanum 1954: „Hann […] getur kennt manni ýms ráð til að tékka skæs, ef maður er brók.“ Í Speglinum 1958 segir: „Djúdí litla fékk ekki nokkurn skæs fyrr en aurarnir fóru að berast frá útlandinu.“ Í Tímariti Máls og menningar 1958 segir: „Plentí skæs og rólegheit.“

En í Skólablaðinu 1959 segir: „Hún er líka eins og ómenntaðir tuffar mundu segja – svaka skæs“. Þar er merkingin greinilega 'skæsleg' en elsta dæmi um það orð er í Alþýðublaðinu 1960: „María hlýtur að vera fautalega skæslegur kvenmaður.“ Í Heima er bezt 1962 er dæmið „skæslegt sveitaball“ úr textanum „Sveitaball“ eftir Ómar Ragnarsson. Í Alþýðublaðinu 1962 segir: „Hin fagra Judith, sem var hin skæslegasta skvísa á sinni tíð.“ Í Vísi 1966 segir: „Uppi á pallinum lék skæslegt bítlaband fyrir iðandi kösinni á gólfinu.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þeir […] áttu líka sinn stæl – kannski ekki alveg eins „skæslegan“.“ Í Þjóðviljanum 1966 segir: „skæslegar skvísur og smart gæjar.“ Í Vísi 1970 segir: „þær bifreiðir sem „skæslegastar“ þóttu.“

Það er greinilegt að merkingin 'peningar' er elsta merking orðsins skæs í íslensku, en hvort og þá hvernig merkingin í skæslegur er komin af henni er ekki ljóst – auðvitað má samt segja að það sem er skæslegt sé verðmætt í einhverjum skilningi og tengist þannig peningum. Eins er spurning hvort skæs sé stytting á skæslegur eða hvort því sé öfugt farið – skæslegur myndað með því að bæta viðskeytinu -legur við skæs. Elsta dæmi um skæs í merkingunni 'skæslegur' er eldra en elsta dæmi um skæslegur en þar munar þó aðeins ári sem er ómarktækur munur. Hins vegar hef ég ekki fundið erlendar fyrirmyndir að skæslegur – a.m.k. virðist *skejslig ekki vera til í dönsku. Því er trúlegra að skæslegur sé íslensk nýmyndun en skæs sé stytting á því.

Orðið skæs í merkingunni 'peningar' virðist vera horfið úr málinu og í merkingunni 'skæslegur' er það líka að hverfa. Á Bland.is 2004 segir: „að vera skæs = að vera lekker eða hvað svo sem er notað núna.“ Á Málefnin.com 2006 segir: „mér skilst að amma mín og afi hafi notað orðið skæs yfir töffara á fyrri hluta síðustu aldar.“ Heldur meira líf er í skæslegur sem má að einhverju leyti rekja til Stuðmannatextans „Herra Reykjavík“ frá 1976 þar sem fyrir kemur línan „skæsleg læri, loðin bringa“. Á tímarit.is eru um hundrað dæmi um orðið en það er þó á niðurleið og hefur verið lengi – í umræðu um unglingamál í Morgunblaðinu 2018 sagði kona fædd 1970: „Kennari minn í grunnskóla sagði að ég væri skæsleg. Það fannst mér rosalega hallærislegt.“

Ég var skilríkjaður

Í innleggi hér í morgun var nefnt að sögnin skilríkja hefði verið notuð í útvarpsþætti í merkingunni 'spyrja um skilríki', t.d. „þegar maður er ekki lengur skilríkjaður í ÁTVR“ og „Skilríkjaðu mig bara“. Ég hafði aldrei heyrt þetta eða séð en við athugun kom í ljós að þessi sögn er nokkuð notuð í óformlegu máli eins og marka má af því að um sextíu dæmi eru um hana í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar. Sögnin er ekki alveg ný – elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er tuttugu ára gamalt, á Bland.is 2004: „svo hef ég lent í því að vera skilríkjuð inn á 18 ára ball“. Á Bland.is 2005 segir: „fannst ógó asnalegt að vera 25 kasólétt og skilríkjuð inn á 18 ára ball.“ En þetta eru einu dæmin eldri en tíu ára sem ég hef fundið.

En árið 2015 fara að sjást dæmi um sögnina skilríkja á twitter – öll dæmin hér á eftir eru þaðan. „Dyravörðurinn á Dunkin Donuts skilríkjaði mig“ (2015), „Síðan hvenær var breytt reglunum að nú þarf skilríkja alla sem eru með þér þegar þú ferð að versla?“ (2015), „Þið hefðuð átt að skilríkja hana OG segja nei“ (2016), „Síðasta skipti sem ég var skilríkjaður í sígókaupum var gleðistund“ (2016), „Ég er alltaf skilríkjaður og ég vil þakka lýtalækninum mínum sérstaklega fyrir það“ (2017), „Aldrei verið jafn móðguð yfir því að vera skilríkjuð“ (2018), „Ég var skilríkjuð í Danmörku þegar ég keypti bjór“ (2018), „Hef ekki verið skilríkjaður síðan grímuskylda hófst í ríkinu“ (2020), „Ég var skilríkjuð í sundi um daginn“ (2021).

Bæði form og merking sýna ljóslega að sögnin skilríkja er mynduð af samsetta nafnorðinu skilríki sem oftast er haft í fleirtölu í nútímamáli en að fornu var ekkert síður í eintölu eins og hér hefur verið skrifað um – reyndar er nokkuð farið að bera á eintölunni aftur. Nafnorðið er í sjálfu sér ekki gagnsætt, a.m.k. ekki fyrir nútíma málnotendur – við þurfum að læra hvað orðið merkir en getum ekki áttað okkur á því út frá merkingu samsetningarliðanna. Sögnin er hins vegar a.m.k. hálfgagnsæ út frá nafnorðinu – við sjáum strax að hún hlýtur að vera skyld því þótt við þurfum kannski að læra út frá notkun hvernig skyldleikanum er háttað. Það er raunar dæmigert fyrir svokallað „gagnsæi“ – það dugir sjaldnast til að greina merkingu nákvæmlega.

Það eru ýmis dæmi um það í málinu að samsett sögn sé ekki grunnmynduð sem slík heldur leidd af samsettu nafnorði – gott dæmi um það er sögnin hesthúsa sem augljóslega er leidd af nafnorðinu hesthús. Myndun sagnarinnar skilríkja á sér því skýr fordæmi og er í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur en auðvitað þarf að venjast henni. En því er oft haldið fram að íslenska sé „sagnamál“ fremur en „nafnorðamál“ og æskilegt sé að nota eina sögn þar sem þess er kostur fremur en samband sagnar og nafnorðs, t.d. kanna frekar en gera könnun. Hér höfum við einmitt eina sögn sem kemur í stað orðasambands með sögn og forsetningarlið, spyrja um skilríki (eða krefjast skilríkja). Því sé ég enga ástæðu til annars en fagna sögninni skilríkja.

Smækó

Nýlega var hér spurt um uppruna lýsingarorðsins smækó sem ekki er að finna í almennum orðabókum. Elsta dæmi sem ég þekki um það er í Sunnudagsblaði Tímans 1971, þar sem kennari birtir lista af slanguryrðum sem hann hafði safnað hjá nemendum sínum. Þar á meðal er orðið smækó sem er skýrt 'fallegt'. Í kvikmyndagagnrýni í Vísi 1978 segir: „Svo er landslagið líka smækó.“ Í lesendabréfi í Vísi viku síðar er vitnað í þessa grein og sagt: „Þar stóð á einum stað að landslagið væri SMÆKÓ. Hvað er eiginlega átt við með slíku orðafari?“ Höfundur greinarinnar svarar í sama blaði og segir: „Smækó hefur svipaða merkingu og algeng orð önnur, eins og „smart“, „kjút“, „næs“, „skæs“ og „svaka skæs“, „lekker“, „bjútí“ og jafnvel „töff“.“

Þetta samræmist skýringu orðsins í Orðabók um slangur slettur bannorð og annað utangarðsmál frá 1982: 'frábær, æðislegur, töff'. Í umræðu um áðurnefnda fyrirspurn kom fram að mörg þekktu orðið – ein sagðist muna eftir orðinu um 1960 og önnur sagði að það hefði verið töluvert notað um miðjan áttunda áratuginn. Það hefur hins vegar greinilega verið bundið við talmál því að aðeins tvö önnur dæmi er að finna á tímarit.is. Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Helgarfríið er handan við hornið og sumir eru farnir að láta sig dreyma; tveir fyrir einn á smart og smækó bar.“ Í Morgunblaðinu 2014 er vísað til sjöunda áratugarins og sagt: „á þeim tíma hefðu orðin „lekkert“ og jafnvel „smækó“ verið notuð um fagurlega fram bornar veitingarnar.“

Uppruninn er mjög óljós og hér er aðeins hægt að koma með getgátur. Í umræðunni komu fram hugmyndir um að þetta gæti verið komið af smuk í dönsku eða stytting á smekklegt, en í báðum tilvikum er óljóst hvers vegna sérhljóðið hefði breyst í æ. En einn þátttakandi nefndi að smækó hefði verið notað um kossaflens, með vísun til þess að þegar Andrésína Önd kyssti Andrés stóð iðulega smækkys við það. Þetta þekkti ég mætavel, og þótt þessi orðskýring rími ekki við venjulega notkun orðsins rifjaði hún upp fyrir mér að þegar ég var að lesa Andrés Önd löngu áður en ég lærði nokkuð í dönskum framburði bar ég æ í dönskum orðum fram eins og íslenskt æ, og hef örugglega ekki verið einn um það. Kannski liggur skýringin á smækó í þessu.

Í dönsku er til lýsingarorðið smækker sem merkir 'slank og smidig, ofte på en tiltalende måde – især om person eller legemsdel' eða 'grannur og liðugur, oft á aðlaðandi hátt – einkum um mannveru eða líkamshluta'. Þetta er ekki langt frá merkingunni í smækó og þótt framburðurinn sé annar (en þó ekki ýkja fjarri) finnst mér ekki óhugsandi að smækó sé komið af dönsku ritmyndinni smækker. Ég held mig a.m.k. við það þar til trúverðugri skýring kemur fram. En annars virðist orðið vera að hverfa – þótt fram komi í fyrirspurninni að orðið sé enn í dag notað í sömu merkingu og áðurnefndum dæmum virðist það vera sárasjaldgæft núorðið. Aðeins fimm dæmi eru um það af samfélagsmiðlum í Risamálheildinni og leit á netinu skilar ekki neinu.

Hvað má íslenskan kosta?

Eins og kom hér fram í gær hefur litháíska þingið samþykkt lög sem skylda fyrirtæki og fólk í þjónustugreinum til að nota litháísku í samskiptum við viðskiptavini frá og með ársbyrjun 2026, þ.e. eftir rúmlega ár. Þetta er forvitnilegt fyrir okkur vegna þess að iðulega er kallað eftir því að fólk í þjónustustörfum tali íslensku, og í áformum stjórnvalda um breytingar á lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt, er því velt upp hvort ástæða sé að víkka út gildissvið laganna þannig að þau nái líka til einkaaðila. Í greinargerð með litháísku lögunum segir að litháískir ríkisborgarar eigi rétt á að fá þjónustu á opinberu máli landsins, og vitanlega er óboðlegt að víða á Íslandi sé ekki hægt að fá þjónustu á þjóðtungunni.

Úr því að þörf þykir á að setja lög af þessu tagi í Litháen þar sem um 7% íbúanna eru af erlendum uppruna mætti ætla að þörfin væri mun meiri á Íslandi þar sem hlutfallið er næstum þrefalt hærra – nálgast 20%. En þessi fjöldi veldur því vitanlega að sambærileg lagasetning yrði margfalt erfiðari og afdrifaríkari hér en þar vegna þess mikla fjölda fólks sem hún tæki til og þeirra gífurlegu áhrifa sem hún hefði í þjónustugreinum. Vandinn er líka dálítið annars eðlis hér en þar – í greinargerð með litháísku lögunum segir að notkun rússnesku í þjónustugreinum fari vaxandi í landinu sem sé vandamál því að 40% þjóðarinnar skilji ekki rússnesku. Á Íslandi er notkun ensku í þjónustugreinum mjög mikil en hins vegar skilja langflestir Íslendingar ensku.

Þótt lögin hafi verið samþykkt mótatkvæðalaust á litháíska þinginu hafa ýmsar efasemdaraddir einnig heyrst. Dómsmálaráðherra landsins benti á að lögin gætu bitnað á þeim sem stæðu höllustum fæti á vinnumarkaði, og fulltrúi neytendasamtaka taldi kröfur um litháískukunnáttu óþarfar enda bærust ekki margar kvartanir vegna misskilnings. Sumir atvinnurekendur segja að lögin muni hafa neikvæð áhrif á efnahag landsins, samkeppnishæfi og viðskiptaumhverfi, og geti leitt til skorts á vinnuafli í ákveðnum atvinnugreinum. Reyndar var við endanlega afgreiðslu laganna ákveðið að þau tækju ekki til fólks sem vinnur ekki reglulega við þjónustustörf, t.d. selur vörur á samkomum eða útihátíðum, en þarna virðast vera ýmis túlkunaratriði.

Það hlýtur að vera hlutverk og skylda íslenskra stjórnvalda að bregðast við mikilli enskunotkun í þjónustugreinum. Það er hins vegar álitamál hvort lagasetning er rétta leiðin en ef sú leið yrði farin þyrfti að gera margvíslegar ráðstafanir til að lögin yrðu framkvæmanleg. Í fyrsta lagi þyrfti mun lengri aðlögunartíma en í Litháen – að öðrum kosti myndi þjóðfélagið stöðvast. Í öðru lagi þyrfti að stórauka framboð á íslenskunámskeiðum og gera fólki kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma. Ýmislegt fleira væri hægt að gera, en þrátt fyrir að allt yrði gert til að auðvelda fólki íslenskunám er ljóst að slíkt nám krefst alltaf umtalsverðs tíma og andlegrar orku sem ekki er líklegt að fólk sem kemur hingað til að vinna í stuttan tíma sé tilbúið að leggja af mörkum.

Ég efast því um að lagasetning af þessu tagi væri raunhæf, en önnur möguleg leið væri sú að í stað þess að gera kröfu um íslenskukunnáttu einstaks starfsfólks væri gerð krafa um að alltaf og alls staðar sé hægt að fá afgreiðslu á íslensku. Með þessu móti væri ábyrgðin ekki lögð á starfsfólkið heldur atvinnurekendur og vinnustaði sem yrðu að sjá til þess að alltaf væri einhver íslenskumælandi við störf. Þetta gæti leitt til þess að starfsfólk sem byggi yfir íslenskukunnáttu yrði eftirsótt – og gæti þá væntanlega gert launakröfur í samræmi við það. Vitanlega yki þetta kostnað fyrirtækja sem sjálfsagt yrði velt út í verðlagið og almenningur yrði á endanum að borga. En þá kemur stóra spurningin sem við þurfum öll að svara: Hvað má íslenskan kosta?

Hvað merkir einbýlishús?

Í gær var hér spurt: „Hvað þýðir einbýlishús?“ Tilefnið var fasteignaauglýsing þar sem í lýsingu sagði „Um er að ræða 263,8 fm einbýlishús“ og í framhaldinu „Í húsinu eru fjórar íbúðir“. Augljóst var að innleggshöfundi og ýmsum sem tóku þátt í umræðunni fannst þetta ekki ganga upp þar sem einbýlishús hlyti að vísa til þess að um einbýli væri að ræða, þ.e. aðeins eina íbúð. Það styðst vissulega við skilgreiningar orðabóka – í Íslenskri orðabók er einbýlishús skilgreint 'stakt hús með einni íbúð (þar sem ein fjölskylda býr)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'húsnæði sem reist er til íbúðar fyrir eina fjölskyldu'. Samkvæmt þessu getur húsið í umræddri auglýsingu vitanlega ekki kallast einbýlishús – eða hvað?

Spurningin er hversu bókstaflega við viljum skilja orðið einbýlishús. Hugsum okkur fólk sem hefur búið í húsi með einni íbúð en innréttar aukaíbúð í kjallaranum fyrir börnin – hættir húsið þá að vera einbýlishús? Við getum kannski vísað til skilgreininga orðabókanna og sagt að eftir sem áður sé húsið fyrir fjölskylduna og geti því áfram kallast einbýlishús. En ef börnin flytja út og foreldrarnir leigja óskyldu fólki kjallaraíbúðina – er það á þeim tímapunkti sem húsið hættir að vera einbýlishús af því að það er ekki lengur ein fjölskylda sem býr í því? Eða getum við vísað til skilgreiningarinnar 'sem reist er til íbúðar fyrir eina fjölskyldu' og sagt að húsið sé áfram einbýlishús vegna þess að þannig var því ætlað að vera í upphafi?

Það er líka rétt að hafa í huga að þegar við metum hvort við eigum að kalla tiltekið hús einbýlishús þekkjum við oft ekki til innan dyra, og hús bera það ekki alltaf utan á sér hvort í þeim er ein íbúð eða fleiri – og í sumum tilvikum geta opinberar upplýsingar jafnvel verið rangar, t.d. ef um óleyfisframkvæmd er að ræða. Þess vegna skiptir máli hvort okkur finnst húsið líta út eins og dæmigert einbýlishús utan frá séð, og vitanlega getum við haft mismunandi hugmyndir um slík hús. Mér finnst t.d. hús með risi og kvisti vera dæmigert einbýlishús þótt það sé sambyggt öðrum húsum en ekki ‚stakt hús‘ – þótt raðhús skýrt 'sambyggð einbýlishús í röð' finnst mér ekki hægt að nota það orð nema húsin séu öll eins og byggð sem heild í upphafi.

Samkvæmt mynd hefur húsið í auglýsingunni sem nefnd var í upphafi einmitt þessi dæmigerðu einkenni einbýlishúss að mínu mati – það er með ris og kvist, og þótt það sé vissulega sambyggt öðrum húsum til beggja handa hefur það annan lit og byggingarlag og getur því ekki kallast raðhús, finnst mér. Ekki er ólíklegt að orðið einbýlishús í auglýsingunni vísi til þess að húsið er eitt númer í fasteignaskrá, eins og nefnt var í umræðunni. Auðvitað má kalla þessar vangaveltur um réttmæti þess að kalla húsið einbýlishús orðhengilshátt, en tilgangurinn er bara að benda á hversu snúið getur verið að orða skilgreiningar, jafnvel orða sem okkur finnst hafa augljósa merkingu, og hversu varasamt það getur verið að skilja orð bókstaflega.

Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri – eða á sér?

Í Málvöndunarþættinum spannst í kvöld áhugaverð umræða af innleggi um að í barnaþætti í Ríkisútvarpinu hefði verið sagt „Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri“ sem innleggshöfundur taldi að ætti vitanlega að vera setti upp á sér stýri, sperrti stýrið (rófuna) upp í loft – setti upp stýrið á sér. Það virðist rökrétt, og vissulega eru prentuð dæmi um þágufallið sér miklu eldri en dæmi um þolfallið sigsetti upp á sér stýri kemur t.d. fyrir í Íslenskum þjóðsögum og æfintýrum Jóns Árnasonar frá 1862. Elsta dæmi sem ég hef fundið á prenti um setti upp á sig stýri er nærri hundrað árum yngra, frá 1955. Bæði út frá aldri dæma og því hvað er „rökrétt“ virðist því enginn vafi á að setti upp á sig stýri er seinni tíma breyting – sumum gæti fundist það vera afbökun.

En prentuð dæmi segja ekki alla söguna, sérstaklega ekki í tilvikum eins og þessu sem eru dæmigerð fyrir munnlega geymd. Á vefnum Ísmús er hægt að hlusta á upptökur úr þjóðfræðasafni Árnastofnunar af viðtölum við fólk sem sumt var fætt á seinustu áratugum nítjándu aldar og svo nokkuð fram á þá tuttugustu. Í mörgum af þessum upptökum er fólk beðið um að fara með þjóðsögur, kveðlinga og þulur sem það þekki, og romsan köttur úti í mýri kemur fyrir í hátt í fimmtíu upptökum. Í fáeinum þeirra er aðeins haft köttur úti í mýri, setti upp stýri – hvorki á sér á sig. En setti upp á sér stýri er mjög sjaldgæft, kemur aðeins fyrir í tveimur upptökum, sýndist mér – í öllum hinum, hátt á fjórða tug, er setti upp á sig stýri.

Af þessu er ljóst að setti upp á sig stýri hefur verið vel þekkt og útbreitt – miklu útbreiddara en setti upp á sér stýri – á fyrri hluta tuttugustu aldar. Það kemur mér svo sem ekki á óvart – ég lærði þetta þannig fyrir meira en sextíu árum og það hefur aldrei hvarflað að mér að eitthvað væri athugavert eða „órökrétt“ við þolfallið. Það er í sjálfu sér dæmigert fyrir hvers kyns orðasambönd, vísur og romsur sem við lærum í æsku. Við lærum þetta eins og páfagaukar en erum ekkert að greina það málfræðilega eða merkingarlega og uppgötvum svo kannski á fullorðinsaldri – eða ekki – að við höfðum misskilið þetta eða afbakað á einhvern hátt. Við þekkjum örugglega flest einhver dæmi um þetta frá okkur sjálfum eða öðrum.

En það er samt ekki endilega þar með sagt að eitthvað sé „órökrétt“ við setti upp á sig stýri eða það sé einhver „afbökun“. Það eru til sambönd í málinu sem eru ekki ósvipuð, eins og setja upp á sig hundshaus, setja upp á sig spekingssvip, setja upp á sig snúð o.fl. Merkingin í setja upp á sig stýri er hliðstæð – ég hef a.m.k. alltaf skilið þetta svo að það lýsti hroka eða yfirlæti kattarins, frekar en vera myndræn lýsing á því að hann sperri rófuna upp í loftið. Hvað sem því líður er ljóst að setti upp á sig stýri er aðalmyndin á seinni árum – þótt hún sé ekki nema 70 ára gömul á tímarit.is eru dæmin um hana álíka mörg og um setti upp á sér stýri, og í Risamálheildinni eru töluvert fleiri dæmi um þolfallið. Báðar gerðirnar hljóta augljóslega að teljast réttar.

Undanlátssemi, undanhald og uppgjöf

Nýlega var mér brugðið hér um „undanlátssemi“ vegna þess að ég lýsti þeirri skoðun minni að ekki væri rétt að stugga við tökuorði sem hefur verið notað í málinu áratugum saman og er væntanlega flestum kunnugt en innleiða þess í stað nýyrði – sem vissulega er til og í sjálfu sér ekki slæmt en hefur ekki slegið í gegn og er ekki líklegt til að ná fótfestu. Umrædd ásökun kom mér svo sem ekkert á óvart og fékk ekki á mig – ég veit ekki hversu oft ég hef verið sakaður um „undanlátssemi“, „undanhald“, „uppgjöf“ og annað slíkt og nýlega sá ég því haldið fram að ég vildi íslenskuna feiga. Yfirleitt er þetta vegna þess að ég hef talað fyrir því að við tökum ýmsar útbreiddar málbreytingar í sátt og veitum algengum tökuorðum þegnrétt í málinu.

Þessar ásakanir virðast byggjast á þeirri afstöðu að við eigum að „frysta“ málið í tiltekinni stöðu – væntanlega þeirri stöðu sem það var í á þriðja fjórðungi tuttugustu aldar, þegar flest þeirra sem bera þær fram voru að alast upp. Þetta var t.d. afstaða Helga Hálfdanarsonar sem taldi tvö boðorð skipta mestu máli í íslenskri málrækt: „Hið fyrra er íhaldsemi; og hið síðara er gífurleg íhaldsemi.“ En þessi afstaða er ávísun á stöðnun málsins, og stöðnun leiðir til hægfara dauða vegna þess að hún kemur í veg fyrir að málið geti þjónað þörfum notendanna. Málið verður að hafa svigrúm til að taka inn nýjungar og breytast í takt við þarfir málsamfélagsins svo framarlega sem breytingar rýra ekki hlutverk þess sem samskiptatækis og menningarmiðlara.

Vissulega má halda því fram að flestar málbreytingar séu „óþarfar“ og málið þjóni hlutverki sínu jafnvel án þeirra. „Ég er frekar á móti því að breyta málinu nema þörf sé á því. Það er engin þörf á að segja frekar „mér langar“ en „mig langar“. Breytingin er þess vegna óþörf“ sagði Halldór Halldórsson prófessor fyrir fjörutíu árum. Það er alveg rétt að ekkert bendir til þess að mér langar sé í einhverjum skilningi „betra“ eða „skýrara“ en mig langar. En þessi breyting er komin upp fyrir löngu, hefur breiðst út, og er meinlaus – spillir málinu ekki á nokkurn hátt og torveldar ekki skilning milli kynslóða eða á eldri textum. Það myndi hins vegar kosta mikinn tíma og orku að berja hana niður – og hefur svo sem verið reynt lengi, með litlum árangri.

Málsamfélagið – eða talsverður hluti þess – virðist því hafa komist að þeirri niðurstöðu að mér langar þjóni þörfum þess a.m.k. jafnvel og mig langar. Þeim tíma og orku sem fer í að berjast gegn þessari breytingu, og fjölmörgum öðrum sambærilegum, væri betur varið í annað – til dæmis í að vinna með texta, bæði í greiningu og ritun. Í erindi mennta- og barnamálaráðherra á Menntaþingi fyrr í vikunni kom fram að samkvæmt nýrri rannsókn á gæðum kennslu á Norðurlöndum væri vinna með texta mun fátíðari í íslenskum skólum en á hinum Norðurlöndunum. Ekki kom fram í hvað tímanum væri þá varið í staðinn, en mig grunar að þar sé oft um að ræða ófrjóa málfræðigreiningu, eyðufyllingar og leiðréttingar á „röngu“ máli.

Fyrst og fremst þurfum við þó að verja tíma og orku í að koma íslenskunni til allra – gera öllum íbúum landsins kleift og eftirsóknarvert að nota hana á öllum sviðum. Við þurfum að leggja margfalt meiri áherslu á að kenna innflytjendum á öllum aldri íslensku og það felur líka í sér að við þurfum að breyta viðhorfum okkar til þess hvernig íslenska sé eða eigi að vera – viðurkenna að íslenska með hreim, ófullkomnum beygingum og óvenjulegri orðaröð sé líka íslenska. Við þurfum líka að taka þá íslensku sem unga fólkið talar í sátt, þótt ýmislegt í henni sé frábrugðið því sem við ólumst upp við á síðustu öld. Það þýðir ekki að við þessi eldri þurfum að breyta okkar máli. En athugasemdir sem gera lítið úr málfari ungs fólks eru ekki líklegar til árangurs.

Þeirri afstöðu að neita að viðurkenna nokkrar breytingar á málinu og halda að við getum „fryst“ það eins og það var um miðja síðustu öld hef ég stundum líkt við Maginot-línuna sem Frakkar komu upp á millistríðsárunum og átti að verja þá fyrir innrás Þjóðverja. En þýski herinn fór einfaldlega ýmist fyrir endann á línunni gegnum Belgíu, í gegnum hana þar sem hún var veikust, eða flaug yfir hana. Línan byggðist nefnilega á gamaldags heimsmynd og úreltri tækni. Þannig er það líka með þá hugmynd að hægt sé eða nauðsynlegt að halda íslenskunni óbreyttri, og það er engin „undanlátssemi“ eða „undanhald“, hvað þá „uppgjöf“ að hverfa frá og andmæla þeirri hugmynd. Þvert á móti er það raunsæ afstaða sem er nauðsynleg til að íslenskan lifi góðu lífi.

Á vetrin

Í dag var hér spurt hvort það væri staðbundið að segja á vetrin í stað á veturna. Þetta samband er nefnt í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og merkt talmál („pop.“) og myndin vetrin er gefin sem „staðbundin“ í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi sem ég hef fundið um sambandið er í vísitasíubók frá 1575: „[Tveggja] mánaða beit öllu sauðfé á vetrin í Sandfellshlíð.“ Elstu dæmin um sambandið (sem er alloft ritað á vetrinn) í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is eru frá því um miðja 19. öld, en skiptar skoðanir eru um uppruna þess. Í bókinni Hugur og tunga frá 1926 segir Alexander Jóhannesson: „Af samræmisástæðum […] er algengt í nútíðarmáli að segja: […] á vetrin í stað á veturna (til samræmis við á sumrin) […].“

Í ritdómi um bókina í Skírni sama ár segir Jakob Jóh. Smári að Alexander skilji „orðatiltækið á vetrin sem samræmismynd við á sumrin, og getur verið, að málvitund síðari alda manna hafi tekið það svo, en þar hygg ég, að upprunalega sé um að ræða rétt þolfall eintölu með ákv. greini (í fornmáli á vetrinn).“ Sambandið á vetrin(n) virðist reyndar ekki koma fyrir í fornu máli – þar má hins vegar finna dæmi um vetrin(n) með forsetningunum um og of en í þeim er vetrin(n) þolfall eintölu eins og kemur fram hjá Jakobi Smára. Í öllum dæmum úr síðari alda máli um á vetrin(n) er hins vegar um þolfall fleirtölu að ræða – eins og í á sumrin. Ég sé þess vegna ekki alveg hvernig þolfall eintölu gæti legið að baki sambandinu á vetrin.

Í umræðum kom fram að á vetrin væri vel þekkt á Suðurlandi og austur á fjörðum, og ýmsar heimildir tengja orðalagið við Suðurland. Í grein í Degi 1922 segir Jóhann Sveinsson frá Flögu: „Aftur hygg eg, að óvíða á landinu sé málið meir afskræmt en sumstaðar á Suðurlandi. […] Einnig segja menn þar: »á vetrin«, eins og vér segjum á »sumrin.«“ Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1989 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Það er vel þekkt um Suðurland a.m.k. að segja: á vetrin í stað hins upprunalega: á veturna. Dæmi eru samt víðar að.“ Í grein í Íslensku máli 2007 um orðasafn sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili safnaði í Rangárvallasýslu á árunum 1884-1885 segir Guðrún Kvaran: „Þá tók Jónas […] eftir að sagt væri á vetrin í stað á vetrum.“

Þrátt fyrir þetta segir Guðrún að ekki sé „hægt að sjá að notkunin á vetrin sé staðbundin. Dæmi finnast úr öllum landsfjórðungum“. Mér finnst samt allt benda til þess að sambandið hafi verið meira notað á Suðurlandi en annars staðar. En það var ekki bara notað á Íslandi – í bók Birnu Arnbjörnsdóttur, North American Icelandic: the life of a language frá 2006, kemur fram að sambandið á vetrin hafi verið algengt í vesturíslensku og fjöldi dæma um sambandið í vesturíslensku blöðunum á tímarit.is staðfestir það. En þetta samband var langalgengast á fyrstu áratugum tuttugustu aldar en hefur síðan verið á hægri niðurleið og virðist vera að hverfa úr málinu – sárafá dæmi frá þessari öld eru um það á tímarit.is og nær engin í Risamálheildinni.