Posted on

Sigursælni

Fyrirsögnin „Forsetinn segir nýtt heiti varnarmálaráðuneytisins senda skilaboð um sigursælni“ á vef Ríkisútvarpsins í gær vakti athygli mína – ekki af efnislegum ástæðum heldur vegna nafnorðsins sigursælni sem einnig kom fyrir inni í fréttinni sjálfri. Þetta orð er vissulega auðskilið og hljómar ekki framandi en er þó ekki að finna í neinum orðabókum. Það er augljóslega leitt af lýsingarorðinu sigursæll sem er vel þekkt og skýrt 'sem á oft sigri að fagna' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Venjulega nafnorðið af því er sigursæld sem ekki er í Íslenskri nútímamálsorðabók en er gefið í Íslenskri orðabók – ásamt kvenkynsorðinu sigursæla og karlkynsorðinu sigursæli í sömu merkingu. Öll þrjú koma fyrir í fornu máli, en ekki sigursælni.

Það orð er þó ekki alveg nýtt – á tímarit.is eru tvö gömul dæmi um orðið, bæði úr Vísi 1943: „Þrátt fyrir sigursælni sína mun Montgomery ekki koma til hugar að leggja tafarlaust til atlögu við varnir Rommels“ og „Þjóðverjar hafa sjálfir undirbúið jarðveginn fyrir hrun með sigursælni sinni“. Í Risamálheildinni eru sex dæmi um orðið frá þessari öld, öll nema eitt úr íþróttafréttum mbl.is – raunar öll úr kappakstursfréttum og því ekki ólíklegt að þau séu skrifuð af sama manni – þar á meðal „Vettel virðist óstöðvandi því auk sigursælni hefur hann unnið alla fjóra ráspóla ársins“ frá 2011. Auk þess er eitt dæmi af fótbolti.is 2018: „Það má rekja til að mestu sigursælni þýska landsliðsins í kringum heimsmeistaratitilinn þeirra 2014.“

Orðið sælni eitt og sér kemur fyrir í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 og er skýrt 'positiv tropisme'. Það er einnig að finna í „Orðasafni úr uppeldis- og sálarfræði“ í Íðorðabankanum sem samheiti við aðhvarf og er skýrt 'umhvarf í átt til áreitingar'. Það er leitt af lýsingarorðinu sælinn sem einnig er í áðurnefndum Viðbæti og er komið úr Nýyrðum I frá 1953 þar sem það er gefið sem samheiti við leitni. Orðin sælinn og sælni eru aldrei notuð ein og sér en koma fyrir í nokkrum samsetningum, svo sem ásælinn ásælni, hitasælinn hitasælni, valdasælinn valdasælni o.fl. Í þessum orðum má líta svo á að nafnorðin séu leidd af lýsingarorðum enda er það uppruni viðskeytisins -ni: -sæk-in > -sæk-in+i > -sæk-ni.

En svo hefur -ni orðið að sjálfstæðu viðskeyti sem hægt er að nota það á önnur orð en þau sem enda á -inn. Sum nafnorð sem hafa -sælni að seinni lið virðast því ekki vera leidd af lýsingarorðum með -sælinn heldur af orðum sem enda á -sæll, svo sem jarðsælni af jarðsæll og sólsælni af sólsæll – allt eru þetta reyndar mjög sjaldgæf orð. Orðmyndunin sigursælni af sigursæll á sér því skýrar fyrirmyndir og engin ástæða til að hafa neitt á móti þessu orði þótt sjaldgæft sé. Vissulega má halda því fram að það sé óþarft vegna þess að fyrir séu þrjú orð sömu merkingar – sigursæld, sigursæla og sigursæli – en það eru auðvitað engin rök gegn orðinu. Aukin fjölbreytni í orðavali auðgar málið en skaðar það ekki.

Posted on

Þöggun

Orðið þöggun er skýrt 'það að þagga (e-ð) niður' og 'það að þaggað sé niður í e-m' í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi um það er í Skírni 1832: „í raun réttri varð uppreistinn þar eigi almennt framkvæmd. Þó tafði þöggun hennar mjög fyrir Rússum.“ Þarna vísar orðið ekki til tungumálsins, heldur merkir 'það að kveða niður'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið tilfært í þeirri merkingu, 'Neddysning', með vísun til þessa dæmis. Önnur dæmi eru ekki um orðið á tímarit.is fram til 1990 fyrir utan þrjú dæmi í krossgátum í Vikunni frá fimmta áratugnum þar sem það er notað sem skýring á uss. Auk þess eru örfá dæmi um samsetninguna niðurþöggun, það elsta í merkingunni 'kveða niður' en önnur í merkingunni 'þagga niður í'.

En um 1990 fór Helga Kress bókmenntafræðingur og síðar prófessor að nota orðið þöggun, og í upphafi líka stundum niðurþöggun, í sértækri merkingu eins og hún skýrir í bókinni Máttugar meyjar frá 1993:  „Hugtakið þöggun felur ekki í sér að hinn þaggaði hópur þegi, heldur að það sé eingöngu ríkjandi talsháttur sem heyrist, eða öllu heldur er hlustað á. Þessa þöggun þaggaða hópsins er því hægt að skilgreina sem ákveðið heyrnarleysi hjá ríkjandi hópnum, á sama hátt og líta má á ósýnileika þaggaða hópsins sem ákveðna blindu hjá ríkjandi hópnum. Ef þaggaði hópurinn vill gera sig skiljanlegan verður hann að gera það á því tungumáli sem ríkjandi hópurinn heyrir, í stað þess tungumáls sem hann hefði getað myndað og þróað sjálfstætt.“

Þessi notkun orðsins hefur orðið ofan á sem endurspeglast í því að í stað bókstaflegrar skýringar Íslenskrar orðabókar sem vitnað var til í upphafi er þöggun skýrð 'kerfisbundin aðferð til að koma í veg fyrir að fólk tjái skoðanir sínar' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í þeirri merkingu hefur notkun orðsins aukist gífurlega í hvers kyns pólitískri umræðu á undanförnum tveimur áratugum – frá því að vera rúm tuttugu dæmi á tímarit.is á síðasta áratug tuttugustu aldar upp í rúm þrettán hundruð dæmi á öðrum áratug þessarar aldar. Í Risamálheildinni eru meira en átta þúsund dæmi um orðið, öll frá þessari öld. Þetta er sannkallað tískuorð og má alveg halda því fram að það sé stundum notað af litlu tilefni og jafnvel orðið merkingarlítið vegna ofnotkunar.

Posted on

„Back to School ball“

Mér var send auglýsing um viðburð sem er ætlaður unglingum í nokkrum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og nefnist „Back to School ball“. Á auglýsingunni stendur m.a.: „Line-up kemur seinna!“ Það er ekki eins og þessi ensku orð eigi sér ekki íslenskar samsvaranir, en sjálfsagt er hugmyndin á bak við þetta sú að enskan höfði betur til unglinganna – og kannski er það rétt. Það hefur komið í ljós í rannsóknum að unglingar tengja námsgreinina íslensku oft við skyldu, utanbókarlærdóm og leiðréttingar, en ensku tengja þau við afþreyingu, ferðalög og skemmtun. Þessar tengingar hafa vitanlega áhrif á viðhorf þeirra til tungumálanna – en eigum við að hlaupa eftir því þótt unglingunum finnist kannski enskan eiga betur við þarna?

Íslenskan á undir högg að sækja gagnvart enskunni og það skiptir miklu máli að hún sé notuð sem víðast. Rannsóknir benda til að viðhorf ungu kynslóðarinnar sé eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir lífvænleik tungumála – ef ungt fólk hefur ekki jákvætt viðhorf til móðurmáls síns er málið í alvarlegum vanda. Með því að nota ensku á þennan hátt til að auglýsa skemmtanir er í raun – örugglega ómeðvitað – verið að senda þau skilaboð að íslenskan henti ekki, dugi ekki eða eigi ekki við á þessu sviði og þar með verið að vinna skemmdarverk á viðhorfum unglinga til hennar. Það hlýtur að vera hlutverk skólanna að halda íslenskunni að nemendum í stað þess að láta berast með straumnum og nota ensku þótt nemendum kunni að þykja hún eiga betur við.

Posted on

Bara si svona – eða sisona, eða . . .

Í pistli í gær notaði ég orðið eða orðasambandið si svona sem er mér tamt í tali, en eftir á fór ég að hugsa að ég hefði líklega aldrei notað það í rituðu máli og vissi ekki hvernig ætti að skrifa það – eða hvort einhverjar reglur væru um það. Ég fór líka að velta fyrir mér hvað þetta si væri. Í Íslenskri orðsifjabók er þetta sagt frá 17. öld, haft í einu orði og gefnar myndirnar sisona og sisvona (og reyndar einnig sem-svona sem talið er vafasamt að sé upprunalegt) og sagtsi- sé „e.t.v. [...] einsk[onar] bendiorð, sbr. -si í þessi“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þetta haft í einu orði, sisona, og skýrt 'án sérstakrar ástæðu' en í Íslenskri orðsifjabók er skýringin 'einmitt, þannig'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru báðar þessar skýringar tilfærðar.

Í Íslensk-danskri orðabók er „= til svona“ sett á eftir uppflettimyndinni sisona, og undir sisona er í Íslenskri orðsifjabók vísað á ti-sona sem sagt er frá 19. öld, með víxlmyndinni til-sona, „sbr. víxlan -ti og -til í helsti, helst til“. Undir helsti kemur svo fram að tengingin við forsetninguna til sé ekki upphafleg heldur síðari alda þróun í íslensku – málnotendur hafa ekki skilið ti og tengt það við til. Orðið tisona er gefið í Íslensk-danskri orðabók í merkingunni 'netop paa denne Maade' og merkt „Skaft.“. Engin dæmi finnast um tisona en ti sona kemur fyrir í bréfi frá Jónasi Hallgrímssyni til Konráðs Gíslasonar 1841: „En mosatekjan mín [...] fór ti sona.“ Annað dæmi er úr ljóðabréfi Jónasar til Fjölnisfélaga sinna: „það kom ti sona yfir mig.“

Einhver nítjándu aldar dæmi má finna um bæði til sona og til svona – sem er vitanlega sama sambandið, aðeins með mismunandi stafsetningu. Í Norðlingi 1877 segir: „það var til sona fyrir mér, að eg kunni ekki að vita það fyrir.“ Í Þjóðólfi 1856 segir: Það er nú til svona með flest sem hann segir.“ Í kvæði eftir Grím Thomsen segir: „hefir huldukona / heillað mig til svona.“ Einstöku yngri dæmi má finna. Í Alþýðublaðinu 1952 segir: „Já, það fór nú til svona; og ekkert við því að gera.“ Í minningum Steinþórs Þórðarsonar á Hala frá 1970, Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð, segir: „Því læturðu til svona.“ Sennilega er sambandið alveg horfið úr málinu en erfitt er að leita af sér allan grun í textasöfnum – til og svona standa oft saman í öðru samhengi.

En aftur að si svona – eða sisvona, eða si sona, eða sisona. Vitanlega er sona bara framburðarstafsetning af svona og kannski eðlilegast að halda sig við að skrifa v – nema við viljum líta svo á að þetta orð – eða orðasamband – hafi slitið sig alveg frá upprunanum. Spurningin er þá hvort eigi að líta á þetta sem eitt orð eða tvö – sis(v)ona eða si s(v)ona. Ég held að áherslan á seinni hlutanum sé yfirleitt a.m.k. jafnsterk og á þeim fyrri, eða sterkari, sem bendir til þess að málnotendur skynji þetta sem tvö orð. Svo má benda á dæmi um að si komi ekki næst á undan svona, í kvæðinu „Ég labbaði inn á Laugaveg“ eftir Ingimund (Kristján Linnet): „Ég heilsaði henni rétt si svo sem svona“ (eða si sosum, eða sisosum).

Fjöldi dæma er um alla fjóra rithættina, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Á fyrrnefnda staðnum er si svona langalgengast, en sisona og si sona rúmlega hálfdrættingar á við það í tíðni – sisvona heldur sjaldgæfara. Elstu dæmin um þrjú tilbrigðanna eru frá því um miðja nítjándu öld en sisona heldur yngra, frá 1887. Í Risamálheildinni er sisvona algengast en si svona næst á eftir – myndin sisona sem er uppflettimynd í Íslenskri nútímamálsorðabók eins og áður segir er langt undan. Bæði sisona og sisvona er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls en orðið – eða sambandið – er ekki gefið í Íslenskri stafsetningarorðabók. En svo er líka fjöldi dæma um í í stað i – í öllum fjórum afbrigðunum. Þann rithátt er ekki að finna í neinum orðabókum.

Ritháttur með í er greinilega yngri – elsta dæmið er frá 1915. Ástæðan fyrir uppkomu hans er hugsanlega sú að málnotendur tengi þetta við atviksorðið , sbr. sí og æ, en si er ekki hægt að tengja við neitt. Á tímarit.is eru dæmi með i meira en þrisvar sinnum fleiri en dæmi með í, en í Risamálheildinni er hlutfall dæma um í á móti i um það bil fimm á móti sex. Það er því greinilegt að ritháttur með í sækir á, og sí svona er algengasti rithátturinn í Risamálheildinni – algengari en allir rithættir með i. Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir að sisona sé myndin sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók, hallast ég að því að skrifa þetta eins og ég gerði upphaflega, si svona – með i í si og v í svona með vísan til uppruna, og í tveimur orðum vegna áherslu.

Posted on

Hvað er umburðarlyndi?

Í pistli sem ég birti á Facebook-síðu minni í morgun skrifaði ég: „Mér finnst að þetta tvennt hafi breytt mér – gert mig víðsýnni og umburðarlyndari gagnvart hvers kyns fjölbreytileika mannlífsins.“ Ég fékk fleiri en eina athugasemd um að umburðarlyndur væri ekki rétta orðið þarna því að það merkti eiginlega 'láta sig hafa eitthvað sem er bagalegt og ekki alveg boðlegt' eins og það var orðað í einni athugasemdinni, með vísun til þess að í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'sem tekur vægt á yfirsjónum eða andstöðu annarra'. Þetta kom flatt upp á mig vegna þess að þetta var sannarlega ekki sú merking sem ég lagði í orðið í umræddum pistli. Mér finnst umburðarlyndi ekki þurfa að hafa neitt með yfirsjónir að gera.

Í Íslenskri orðabók er lýsingarorðið umburðarlyndur skýrt 'sem sýnir umburðarlyndi' og fyrsta skýring þess orðs rímar við skýringuna á umburðarlyndur í Íslenskri nútímamálsorðabók – 'það að taka vægt á yfirsjónum eða andstöðu annarra, mildi'. En orðið er einnig skýrt 'það að virða skoðanir eða atferli annarra' og 'þolgæði, rósemi, jafnaðargeð'. Síðarnefndu skýringarnar eiga miklu betur við þá merkingu sem ég lagði í orðið í pistli mínum – og geri raunar yfirleitt. Þess vegna kom mér á óvart að aðeins fyrsta merkingin skyldi vera í Íslenskri nútímamálsorðabók, en skýringin er kannski að hún endurspeglar yngri málnotkun en Íslensk orðabók – sú síðarnefnda stendur nær málstigi þess tíma þegar ég var að alast upp og tileinka mér málið.

Athugasemdirnar og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók gætu bent til þess að sú merking sem fólk leggur venjulega í umburðarlyndi hafi breyst á undanförnum árum. Í bókinni Gæfuspor. Gildin í lífinu eftir Gunnar Hersvein sem kom út 2005 segir þó í sérstökum kafla um umburðarlyndi: „Umburðarlyndi felst í skilningi á viðhorfum og framkomu sem er andstæð eða ólík eigin lífsstíl og sýn. Umburðarlyndi birtist einnig í mildi gagnvart yfirsjónum og mótmælum. [...] Umburðarlyndi krefst líka hleypidómaleysis. Umburðarlyndi er að þola öðrum mönnum að hafa skoðanir, halda í heiðri hefðir, vera af ólíkum litarhætti og iðka trú af ólíkum toga.“ Þetta rímar ágætlega við þá merkingu sem ég legg í umburðarlyndi og umburðarlyndur.

Sama má segja um eina skilgreiningu af þremur sem birtar eru í Eimreiðinni 1927 og eru svör sem bandarísku tímariti bárust frá lesendum við spurningunni „Hvað er umburðarlyndi?“: „Umburðarlyndi hefur þrjár hliðar. Það birtist í tilfinningum, vitsmunum og siðferði. Í tilfinningunum kemur það fram sem mannúð, í vitsmununum sem skilningur á orsökum og ástæðum fyrir breytni annara, og í siðferði sem föst og skýr siðgæðismeðvitund. Þetta þrent samanlagt gerir það að verkum, að vér umberum, metum réttilega og styðjum oft athafnir, sem eru í andstöðu við eigin eðli vort og skoðanir. Siðferðilega hliðin varnar því, að umburðarlyndið verði að læpuskap, og tryggir það, að umburðarlyndi verði uppspretta máttar en ekki veikleika.“

Posted on

Félag atvinnurekenda gegn íslenskunni

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú að finna drög að reglugerð um plastvörur sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hyggst setja til að innleiða tilteknar Evrópureglur. Í drögunum segir m.a.: „Merkingarnar skulu vera í samræmi við kröfur sem koma fram í framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2151 frá 17. desember 2020 [...].“ Í þriðju grein þessara reglna segir á ensku: „The information text of the marking shall be written in the official language or languages of the Member State(s) where the single-use plastic product is placed on the market“ – á íslensku „Upplýsingatextinn á merkingunni skal vera á opinberu tungumáli eða tungumálum þess aðildarríkis þar sem einnota plastvaran er sett á markað“.

Í umsögn Félags atvinnurekenda um reglugerðardrögin er þessu ákvæði mótmælt harðlega og sagt: „Krafan um að merking skuli vera á opinberu tungumáli viðkomandi ríkis kemur illa niður á örmarkaði eins og Íslandi.“ Félagið telur augljóst „að sú breyting, sem lögð er til með reglugerðardrögunum, er verulegt inngrip í atvinnufrelsi“ og segir „gengið er mun lengra en þörf krefur til að ná markmiðum löggjafarinnar sem um ræðir.“ Félagið telur að að á endanum muni neytendur „að sjálfsögðu“ greiða þann kostnað sem breytingin hafi í för með sér og reglugerðin muni „stuðla að því að umræddar vörur hækki í verði“. Það virðist ekki koma til greina hjá félaginu að innflytjendur varanna taki á sig neinn kostnað vegna merkinga á íslensku.

Félag atvinnurekenda bendir á að í Evrópureglugerð um merkingar á matvælum komi fram að merkingar skuli „birtar á tungumáli sem er auðskiljanlegt fyrir neytendur í þeim aðildarríkjum þar sem tiltekin matvæli eru markaðssett“ og í samræmi við það sé í íslenskum reglum kveðið á um að upplýsingar skuli vera á „íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku“ enda „skilur yfirgnæfandi hluti almennings ensku eða skandinavísku málin“. Félagið skilur því ekki hvers vegna væntanleg reglugerð á að ganga lengra. En þótt „yfirgnæfandi hluti almennings“ skilji ensku eða Norðurlandamálin er það ekki nóg – textinn þarf að vera skiljanlegur öllum. Því ber að fagna að Evrópusambandið er þarna að gera þjóðtungum hærra undir höfði en áður.

Í lok umsagnarinnar segir: „Félagið fer fram á að ráðherra leggi fram frumvarp á Alþingi um innleiðinguna, þannig að löggjafarsamkoman geti rætt málið í þaula og vegið saman þau markmið og hagsmuni sem halda þarf til haga; þ.e. sjónarmið varðandi umhverfisvernd, samkeppni, atvinnufrelsi, hag neytenda og verðlagsstöðugleika.“ Það er mjög sláandi að í þessa upptalningu á því sem „halda þarf til haga“ skuli vanta tvenns konar mikilvæga hagsmuni sem ekki virðist hvarfla að félaginu að Alþingi þurfi að halda til haga – hagsmuni íslenskunnar sem opinbers tungumáls í landinu, og hagsmuni málnotenda að hafa sem mest af upplýsingum á móðurmáli sínu. En félagið „fær ekki séð hvaða hagsmuni [krafa um íslensku] eigi að vernda.“

Það er dapurlegt metnaðarleysi fyrir hönd íslenskunnar og íslenskra málnotenda sem kemur fram í þessari umsögn. Því miður er það ekki einsdæmi – við sjáum alltaf fleiri og fleiri dæmi um að það sé talinn óþarfi að hafa tilteknar upplýsingar, auglýsingar eða viðburði á íslensku vegna þess að „það skilja allir ensku“. Í umsögninni segir t.d. „Í tilviki innflytjenda komast upplýsingar betur til skila á ensku en íslenzku“ – sem á ekki endilega við um alla innflytjendur og kemur málinu auk þess ekki við vegna þess að enskan er þarna hvort eð er. En það hefur alltaf legið fyrir að það fylgir því töluverður kostnaður að halda í íslenskuna. Ef við erum ekki frekar en Félag atvinnurekenda til í að borga þann kostnað lætur hún smátt og smátt undan síga.

 

Posted on

Orðskrípi

Eitt þeirra orða sem oftast bregður fyrir í íslenskri málfarsumræðu er orðskrípi. Um það eru hátt í fimmtán hundruð dæmi á tímarit.is og það var algengt alla tuttugustu öldina og fram undir þetta. Orð kemur fyrir þegar í fornu máli – í formála málfræðiritgerðanna í Ormsbók (Codex Wormianus) segir: „til þess að skáldin mætti þá mjúkara kveða eftir nýfundinni leturlist, en hafa eigi hvert orðsskrípi, það sem fornskáldin nýttu, en hálfu síður auka í enn verrum orðum en áður hafa fundin verið.“ Á nítjándu öld og lengi framan af þeirri tuttugustu virðist orðið oftast hafa verið haft um orð sem komin eru úr dönsku, mismikið aðlöguð íslensku. Það hefur hins vegar breyst og í seinni tíð virðist orðið helst notað um samsett orð mynduð úr íslensku hráefni.

Meðal þeirra fjöldamörgu orða sem hafa verið úthrópuð sem orðskrípi í blöðum og tímaritum á þessari öld eru eftirfarandi samsetningar: afglæpavæðing, alþjóðavæðing, atvinnutækifæri, áfengismenning, ákvarðanataka, barnaklám, birtumagn, framkvæmdastýra, frammistöðuvandi, gengisaðlögun, hágæða, hátæknisjúkrahús, hlustendavænn, kostunaraðili, kynskiptingur, könnunarviðræður, landsbyggð, launþegahreyfing, lágvöruverðsverslun, leiðtogi, listakona, matvælaöryggi, nýbúi, orsakavaldur, óásættanlegur, óhagnaðardrifinn, peningaþvætti, rannsóknarblaðamennska, reiðhjólamaður, ristavél, ritstífla, samkeppnisaðili, skjalastjórnun, snjóstormur, stýrivextir, sölumeðferð, teymi, tilfinningagreind, þúsöld.

Vissulega eru mörg þessi orð nokkuð löng og ekki sérlega lipur en þó hvorki lengri né stirðari en fjöldi annarra sem þykja góð og gild. Eins og sjá má eru hér engin orð úr dönsku enda danska löngu hætt að hafa áhrif á íslensku, en hér eru ekki heldur nein orð sem beri skýr merki um enskan uppruna þótt það helsta sem fólk hefur á móti orðum eins og snjóstormur og teymi sé að þau eigi sér enskar fyrirmyndir (snowstorm og team). Stundum hefur fólk það á móti orðunum að þau séu óþörf vegna þess að fyrir sé í málinu orð sömu merkingar (brauðrist ekki ristavél), og stundum finnst fólki þau „órökrétt“ (lágvöruverðsverslun, óhagnaðardrifinn). En mörg þessara orða eru nú komin í mikla notkun og orðin hversdagsleg og hafa verið tekin í sátt.

Oftast virðist ástæðan fyrir andstöðunni nefnilega einfaldlega vera sú að fólki finnst orðin ljót vegna þess að það er ekki vant þeim. Oft er vitnað í það sem Halldór Laxness skrifaði í Tímariti Máls og menningar 1941: „Það sem máli skiptir er þetta: í augum rithöfundar eru ekki til önnur orðskrípi en þau, sem fara illa í tilteknu sambandi – og það er yfirleitt ekki hægt að verða rithöfundur, fyrr en maður er vaxinn upp úr þeirri hugmynd, að til séu orðskrípi. Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.“ Og Halldór heldur áfram: „Sé byrjað á að skipta málinu í orð og orðskrípi, leggja á orð einhvers konar siðferðilega dóma, lenda menn fljótt í ófærum.“ Þetta er kjarni málsins. Sé eitthvert orð í málinu óþarft skrípi er það orðskrípi.

Posted on

Helling af berjum

Í gær var spurt í „Málspjalli“ um orðið hellingur í merkingunni 'mikið af einhverju' sem fyrirspyrjandi sagðist hafa í karlkyni en heyra oft í kvenkyni að því er virtist – „Það er alveg helling af berjum í Stífluhólum“. Jón G. Friðjónsson skrifaði um orðið í einum af þáttum sínum sem birtir eru í Málfarsbankanum og sagði að notkun þess væri „einkum bundin við talmál og mál líðandi stundar, og það væri „ekki gamalt í íslensku“ – elstu dæmi um það í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans væru frá miðri tuttugustu öld. Vísunin er augljós, sagði Jón enn fremur: „Hellingur merkir upphaflega 'það sem hellt er' en fær síðan merkinguna 'hellidemba' og sú merking virðist liggja til grundvallar merkingunni 'mikið magn; eitthvað mikið'.“

En undanfari karlkynsorðsins hellingur er kvenkynsorðið helling sem er gefið í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í þremur merkingum – 'úthelling', 'austur‘ og 'steypiregn'. Síðastnefnda merkingin er merkt „Vf.“, þ.e. talin bundin við Vestfirði. Karlkynsmyndin hellingur er ekki í bókinni en er hins vegar komin inn í Viðbæti hennar frá 1963, sem og í Íslenska orðabók þar sem hún er skýrð annars vegar 'hellidemba' sem sagt er „stb.“, þ.e. staðbundið, og hins vegar 'mikið magn, e-ð mikið'. Merkingin 'hellidemba' í karlkynsorðinu hellingur er því ættuð frá kvenkynsorðinu helling sem merkir upphaflega 'það að hella' eða 'það sem hellt er' – hins vegar er óvíst að karlkynsorðið hafi nokkurn tíma haft þá merkingu.

Elsta dæmi um helling er í latnesk-íslensku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason frá 1738: „Helling úr einn í annað“ sem er skýring á transfusio. Í Ísafold 1889 segir: „alt af hjelzt sama hellingin úr loptinu.“ En dæmi um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru fá og má rekja flest til Vestfjarða sem rímar við það sem segir í Íslensk-danskri orðabók – eitt þeirra er úr Konunginum á Kálfskinni eftir Guðmund G. Hagalín frá 1945: „Þetta er nú soddan helling úr loftinu.“ Aftur á móti eru samsetningarnar úthelling (t.d. tára) og blóðsúthelling (sem oftast er í fleirtölu, blóðsúthellingar) algengar allt frá sextándu öld. Yngri eru svo samsetningar eins og áhelling, niðurhelling, umhelling, uppáhelling, yfirhelling og fleiri.

En karlkynsmyndin hellingur, í venjulegri nútímamerkingu, gæti verið talsvert eldri en Jón G. Friðjónsson taldi. Í Almanaki fyrir árið 1903 segir: „Brezka stjórnin gjörði fréttaþræði að þjóðareign og lækkaði verð á hraðskeytum um helling.“ Að vísu er þetta ekki öruggt dæmi vegna þess að þótt kvenkynsorð sem enda á -ing fái núna endinguna -u í þolfalli voru þau áður endingarlaus og því er hugsanlegt að þarna sé um kvenkynsorðið helling að ræða. En um 1940 verður karlkynið algengt. Í Vísi 1939 segir: „með skipinu er hellingur af prestum, nunnum og munkum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1944 segir: „Svo kom hellingur af tvíræðum bröndurum.“ Í Úrvali 1945 segir: „Segið þeim að senda heilan helling.“ Fjöldi dæma er svo frá næstu árum.

Eignarfallsmyndin hellings, sem hlýtur að vera karlkynsmynd, er þó mun eldri í samsetningum í eldri merkingu. Í Reykvíkingi 1893 segir: „til að taka á móti köldum hellings-regnskúrum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1932 segir: „hann ætlaði að gera hellings skúr úr einhverri átt.“ Þarna er merkingin augljóslega 'úrhelli', en svo fara málnotendur að skynja þetta sem áhersluorð og tengingin við rigningu hverfur. Það má t.d. sjá í Sjómannablaðinu Víkingi 1950: „ef þeir fengju reglulega törn í hellings fiskiríi vestur á Hala.“ Í Vísi 1956 segir: „Hellings síldveiði í nótt.“ Orðið er þarna skrifað sérstakt en er einnig oft haft áfast eftirfarandi orði – „Sumir fengu hellingsafla“ segir í Vísi 1963. En hlutverk þess er það sama hvort sem heldur er.

Kvenkynsmyndin helling í nútímamáli gæti vissulega verið leifar af eldri notkun kvenkynsins en það virðist þó ekki trúlegt vegna þess að nær engin dæmi eru um kvenkynið undanfarin 80-100 ár. Það er hins vegar auðvelt að sjá hvernig kvenkynið gæti hafa orðið til úr karlkyninu. Ef sagt er t.d. ég fann helling af berjum í Stífluhólum virðist í fljótu bragði augljóst að helling sé þolfall karlkyns vegna þess að kvenkynsorð myndi enda á -u í þolfalli – vera hellingu. En vegna þess að langoftast kemur af á eftir myndi -u venjulega falla brott í framburði – hellingaf. Þótt framangreint dæmi sé einrætt í riti er það því tvírætt í tali og vel hugsanlegt að málnotendur skilji það sem kvenkyn, enda miklu fleiri kvenkynsorð en karlkynsorð með -ing-.

Posted on

Enska í kynningarmyndbandi borgarinnar

Athygli mín var vakin á myndböndum sem birt eru á vef Reykjavíkurborgar og gerð hafa verið „vegna kynningar á vinnslutillögu rammahluta aðalskipulags Keldna og nágrennis“ og eru ætluð til þess „að auðvelda fólki að kynna sér málið“. Þetta er auðvitað gott og blessað, en athygli vekur að þótt talið í myndbandinu „Skipulag Keldnalands“ og neðanmálstexti með því sé vissulega á íslensku er titill myndbandsins á ensku, „Crafting Keldur“, enn fremur millifyrirsögnin „A Creative and Vibrant District close to Nature“ og svo kemur „Welcome to Keldur“ í lokin. En ekki nóg með það – nær allar þær fimm mínútur sem tekur að spila myndbandið eru myndir af skipulaginu á skjánum og allir skýringartextar þar eru á ensku.

Þótt tal og neðanmálstexti myndbandsins „Skipulag Keldnalands“ sé á íslensku eins og áður segir fer því fjarri að allar upplýsingar sem verið er að koma á framfæri með því séu í þeim texta. Mikið af upplýsingum kemur eingöngu fram í ensku skýringartextunum sem eru fjölmargir. Ég er ekki viss um að þetta samræmist málstefnu Reykjavíkurborgar frá 2018 þar sem lögð er áhersla á notkun íslensku og sagt: „Allt efni sem skylt er að upplýsa borgarbúa og hagsmunaaðila um samkvæmt lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum skal birta á vandaðri og auðskiljanlegri íslensku. Þetta á meðal annars við um skipulagsákvarðanir, grenndarkynningar, auglýsingar, tilkynningar, reglugerðir og aðrar samþykktir.“

Hugsanlega má halda því fram að kynningarmyndband af þessu tagi falli ekki undir þetta ákvæði, en það er samt ljóst að það er ekki í anda stefnunnar að hafa það á ensku, og ekki heldur í samræmi við Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 þar sem segir: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga“ og „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð“. En til að sanngirni sé gætt er rétt að taka fram að annað myndbandið, „Keldur og nágrenni“, sem er talsvert lengra eða tæpar fjórtán mínútur, er eingöngu á íslensku – tal, texti og skýringar. Það myndband er til fyrirmyndar – en það er engin afsökun fyrir enskunni í hinu.

Posted on

Lífshótandi sjúkdómar

Í „Málvöndunarþættinum“ var vakin athygli á orðinu lífshótandi sem málshefjandi hafði séð á skilti á heilsugæslustöð og spurði „hvað varð um hið alíslenska orð lífshættulegt?“. Það er auðvitað ljóst að lífshótandi er bein þýðing á life threatening í ensku en það eitt og sér er ekki nægileg ástæða til að amast við orðinu, ef það er þarft í málinu og eðlilega myndað. Þetta orð er ekki að finna í orðabókum en er þó ekki alveg nýtt – elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1990: „Þeim, sem verður fyrir þeirri ólukku að fá einhvern lífshótandi sjúkdóm.“ Alls eru 35 dæmi um orðið á tímarit.is, langflest úr Læknablaðinu og Læknanemanum. Í Risamálheildinni eru 86 dæmi, mörg úr Læknablaðinu en einnig úr héraðs- og landsréttardómum.

Ef að er gáð er orðið lífshótandi dálítið sérkennilega myndað og ekki í samræmi við venjulega notkun sagnarinnar hóta. Hún er skýrð 'setja ógnandi skilmála að e-u' í Íslenskri nútímamálsorðabók og getur tekið tvö þágufallsandlög, t.d. hóta henni brottrekstri, en einnig er hún oft notuð með bara öðru andlaginu sem vísar þá annaðhvort til þeirrar persónu sem er hótað (þau hótuðu henni) eða til þess verknaðar eða afleiðingar sem hótað er (þau hótuðu brottrekstri). En fyrri hluti samsetningarinnar, líf-, fellur vitanlega ekki að þessum hlutverkum andlaganna – það er ekki verið að hóta lífi, heldur miklu fremur hóta dauða. Samsetningin dauðahótandi væri vissulega ekki sérlega lipur en merkingarlega eðlilegri en lífshótandi.

Vissulega má segja – eins og ég hef oft gert – að merking samsettra orða sé ekki endilega summa eða fall af merkingu orðhlutanna og þurfi ekki að vera „rökrétt“ – orð hafi bara þá merkingu sem málnotendur kjósi að leggja í þau. En í þessu tilviki er til annað orð sem mér finnst mun heppilegra. Það er orðið lífsógnandi sem er bæði eldra og töluvert algengara – kemur fyrst fyrir í Morgunblaðinu 1974: „Mörg eysamfélög eiga nefnilega í baráttu við lífsógnandi brottflutning fólks.“ Alls eru 178 dæmi um þetta orð á tímarit.is og 343 í Risamálheildinni. Það má vissulega segja að lífsógnandi sjúkdómar ógni lífi þótt þeir hóti því ekki. En svo má auðvitað spyrja hvort einhver þörf sé á sérstöku orði – hvort lífshættulegir sjúkdómar segi ekki það sem segja þarf.