Alls konar -skælingar

Í innleggi í Málvöndunarþættinum í dag voru nefnd orðin leikskælingar, grunnskælingar og háskælingar og sagt að þetta væru „nýjustu orðin“. Ég veit ekki alveg hvað átt er við með því – þótt öllum þessum orðum hafi vissulega brugðið fyrir hefur ekkert þeirra hefur komist í notkun sem heitið geti. Örfá dæmi eru þó um grunnskælingar – í skólaslitaræðu árið 1977 þegar fyrstu nemendurnir útskrifuðust með grunnskólapróf sagði skólastjóri Laugalækjarskóla: „Eftir áratug eða svo verðið þið stolt af því að vera í hópi seinustu gagnfræðinga á Íslandi, eða fyrstu „grunnskælinga“. En á tímarit.is eru ekki nema fimm dæmi eða svo um orðið, og sjö dæmi af samfélagsmiðlum í Risamálheildinni. Öðru máli gegnir um orðið menntskælingur.

Í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1956 segir: „Mér finnst tími til kominn, að gerð sé athugasemd við orðskrípi eitt, sem virðist á góðri leið með að festast í íslenzku máli. Það er orðið „menntskælingur“ – sama og menntaskólanemi. Fyrst í stað mun orðið hafa verið notað meðal skólafólksins aðeins – í nokkurs konar glensi, en nú er gengið svo langt, að við sjáum það og heyrum í dagblöðum og útvarpi. […] Það er anzi hart, að ein æðsta menntastofnun landsins skuli ganga á undan í að vanskapa móðurmálið – eða hvernig fyndist ykkur, ef hinir kæmu á eftir: háskælingar, iðnskælingar o.s.frv.? […] [O]rðið á bókstaflega engan rétt á sér. […] „[M]enntskælingur“ er ekki annað en leiðinleg „skæling“, sem ætti að hverfa með öllu.“

En orðið menntskælingur var ekki nýtt þegar þetta var skrifað. Elsta dæmi um orðið á prenti er í Speglinum 1928 og fáein dæmi eru um það á tímarit.is frá næstu tveimur áratugum, en árið 1948 var stofnað skólablað undir heitinu Menntskælingur í Menntaskólanum á Akureyri, og upp úr því verður orðið algengt og er enn. Í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 er það merkt „pop.“, þ.e. óformlegt (tal)mál, en er væntanlega löngu komið inn í formlegt mál. Orðið er myndað af menntaskóli með viðskeytinu -ing(ur) sem hefur sömu áhrif á grunnorðið og venjulega – styttir það í tvö atkvæði með brottfalli innan úr því (menntaskól- > menntskól-) og breytir stofnsérhljóði ef það getur tekið i-hljóðvarpi (menntskól- > menntskæl-).

Það hefði e.t.v. mátt búast við því að önnur orð yrðu mynduð á sama hátt og menntskælingur en ekki hefur farið mikið fyrir því. Orðin sem nefnd voru í Morgunblaðinu 1956, háskælingur og iðnskælingur, eru bæði lipur en hafa ekki farið á flug – háskælingur væntanlega vegna augljósra hugrenningatengsla við sögnina háskæla, og iðnskælingur líklega vegna þess að fyrir var í málinu styttra og liprara orð sömu merkingar, iðnnemi. Ekki er heldur að sjá að notuð hafi verið orð mynduð á þennan hátt af heitum skólategunda sem áður voru algeng, barnaskóli og gagnfræðaskóli. Í seinna tilvikinu gæti það skipt máli að ekki er augljóst hvernig ætti að stytta gagnfræðaskól- niður í tvö atkvæði – *gagnskælingur er hæpið en gagnfræðingur merkti annað.

Þó má nefna að auk menntskælinga koma orðin Háskælingar, iðnskælingar og barnskælingar koma fyrir í Speglinum 1928, og einnig Kvenskælingar, Samskælingar, Verslskælingar, lýðskælingar, vélskælingar og kennaraskælingar. En Spegillinn var gamanblað og þessi orð eru þarna notuð í spaugi en ekkert sem bendir til þess að nokkurt þeirra nema menntskælingar hafi komist í notkun. Kven(n)skælingar kom þó til löngu síðar, en á seinni árum hefur verið eitthvað um að orð af þessu tagi væru mynduð af sérnöfnum – heitum einstakra skóla (reyndar má líta svo á að orðið menntskælingur hafi í upphafi verið leitt af heiti Menntaskólans (í Reykjavík og á Akureyri). Ekki er þó að sjá að neitt þeirra hafi náð útbreiðslu nema helst Hagskælingar.

Ástæðan fyrir því að menntskælingur hefur orðið algengt, öfugt við önnur (hugsanleg) orð mynduð á sama hátt, er e.t.v. að einhverju leyti sú að það er tveimur atkvæðum styttra en hitt orðið sem helst kæmi til greina í sömu merkingu, menntaskólanemi (sem er eldra og mun algengara) og þremur atkvæðum styttra en menntaskólanemandi (sem er enn eldra). Svipað er að segja um Kven(n)skælingur, en aftur á móti er grunnskælingur aðeins einu atkvæði styttra en grunnskólanemi, og leikskælingur einu atkvæði styttra en leikskólanemi – og jafnlangt og leikskólabarn. Til að stytta Verslunarskólanemi er hins vegar stundum farin önnur leið – skóla sleppt og sagt Verslingur (væntanlega að einhverju leyti fyrir áhrif frá nafnorðinu veslingur).

Aðvara, aðvörun, vara við, viðvörun – og viðvara

Í Málfarsbankanum segir: „Síður skyldi segja „aðvara“ en vara við. Á sama hátt ætti frekar að nota nafnorðið viðvörun en „aðvörun“.“ Á þessu hefur verið hamrað lengi. Í Íslenzkri stafsetningarorðabók frá árinu 1900 eru aðvara og aðvörun flokkuð sem „mállýti“. Í Syrpu 1947 segir Bjarni Vilhjálmsson: „Að aðvara og aðvörun er algengt í ritmáli nú, en verður að teljast dönskusletta. Að vara (e-n) við (e-u) og viðvörun er íslenzka.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Þeir hafa birt aðvaranir. RÉTT VÆRI: Þeir hafa birt viðvaranir.“ Í skýringu segir: „Dönsku orðin at advare eru á íslensku að vara við, en ekki að vara að, og advarsel er því á íslensku viðvörun.“ Ýmis fleiri dæmi í sama dúr mætti nefna.

Sögnin aðvara er vissulega komin af advare í dönsku en hún er gömul í íslensku – elstu dæmin um hana eru frá því snemma á 18. öld. Sambandið vara við kemur fyrir í fornu máli og virðist ævinlega hafa verið mun algengara en sögnin aðvara – ekki er hægt að átta sig á nákvæmri tíðni á tímarit.is en í Risamálheildinni er vara við nærri fimmtíu sinnum algengara en aðvara. Hér er rétt að hafa í huga að sambandið vara við er setningafræðilega fjölhæfara en sögnin aðvara, ef svo má segja. Það er hægt að segja ég varaði hana við þessu, ég varaði hana við og ég varaði við þessu en hins vegar aðeins ég aðvaraði hana – það sem varað er við getur ekki fylgt með. Þess vegna nýtist vara við í mun fleiri aðstæðum en aðvara og eðlilegt að hún sé mun algengari.

Aftur á móti er enginn slíkur munur á setningafræðilegum eiginleikum nafnorðanna viðvörun sem kemur fyrir þegar í fornu máli og aðvörun sem dæmi eru um frá því í byrjun 18. aldar. Danska nafnorðið advarsel sem svarar til advare hefði getað orðið *aðvarsla í íslensku en um það eru engin dæmi heldur var búið til nafnorðið aðvörun sem er því strangt tekið ekki danskt tökuorð heldur íslensk nýsmíð. Frá því um miðja 19. öld var aðvörun talsvert algengara orð en viðvörun ef marka má tímarit.is en bæði hafa lengi verið mjög algeng – á þriðja tug þúsunda dæma um hvort þeirra á tímarit.is. Hlutfallið snerist við um 1980 og á þessari öld er viðvörun hátt í fjórum sinnum algengara en aðvörun bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni.

En samsetta sögnin viðvara er líka til og gömul í málinu þótt hún sé ekki algeng. Í bréfi frá 1547 segir: „Þar fyrir áminni ég og viðvara kristið fólk.“ Í Eyrarannál frá seinni hluta 17. aldar segir: „Sendi kongl. Majest. sína galíótu hingað til Bessastaða, að viðvara alla Íslands kaupmenn við tyrkneskum sjóreyfurum.“ Í Vikunni 1970 segir: „Ef einhver reyndi að að brjótast inn, myndi kerfið undireins viðvara næstu lögreglustöð.“ Í DV 2011 segir: „Hver sér um að viðvara lögregluna erlendis frá?“ Milli tíu og tuttugu dæmi af samfélagsmiðlum eru um viðvara í Risamálheildinni, t.d. „Kominn tími til að fólk sé viðvarað“ á Bland.is 2013. En á Bland.is 2008 er líka „Vinaleg ábending, held maður segi alveg örugglega aðvara, ekki viðvara.“

Í Málfregnum 1992 segir Baldur Jónsson: „Tökuorðið aðvara hefir hreiðrað býsna vel um sig í íslensku, einnig nafnorðið aðvörun sem af því er myndað.“ En þrátt fyrir að hafa „hreiðrað býsna vel um sig“ virðast bæði aðvara og aðvörun á hraðri niðurleið eins og fram kom hér á undan, hvort sem rekja má undanhald þeirra að einhverju leyti til málhreinsunar eða ekki. Það er auðvitað enginn vafi á því að þrátt fyrir danskan uppruna er sögnin aðvara gott og gilt íslenskt orð, enda hefur hún verið í málinu í þrjú hundruð ár – og aðvörun ekki síður, enda íslensk smíð. Stundum er haft á orði að mál sé til komið að friða þær „dönskuslettur“ sem enn lifi í íslensku og þótt það sé líklega oftast í gamni sagt finnst mér rétt að láta aðvara og aðvörun í friði.

Orðræðugreining er mikilvæg

Á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir helgi sagði borgarstjóri: „Mér finnst einhvern veginn öll statistík til dæmis bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar.“ Það er erfitt að skilja þetta öðruvísi en sem dylgjur í garð kennara um vinnufælni og jafnvel vinnusvik, enda hafa margir kennarar mótmælt þessum orðum harðlega. Borgarstjóri reyndi að bregðast við óánægju þeirra með greininni „Kæru kennarar“ á Vísi í gær, en mér sýnist að sú grein hafi frekar hellt olíu á eldinn en lægja öldurnar. Sem von er.

Í fyrsta lagi er þar reynt að drepa málinu á dreif – tala um eitthvað allt annað en það sem olli óánægjunni („Aðgerðir undanfarinna ára“, „Breyttur veruleiki skólakerfisins“, Einhversstaðar verður umræðan að byrja“, „Mannanna verk“). Í öðru lagi er nefnt að ummælin hafi verið óundirbúin og gefið í skyn að þau hafi verið slitin úr samhengi („Í óundirbúinni ræðu minni“, „Á myndbandið vantaði byrjunina á ræðu minni“). Í þriðja lagi er sagt eða látið að því liggja að ummælin hafi verið misskilin eða rangtúlkuð („sjónarmið mín hafa ekki komist nægilega vel á framfæri“). Í fjórða lagi er beðist afsökunar á þeim viðbrögðum sem ummælin ollu en ekki á ummælunum sjálfum („mér þykir leitt að þið hafið túlkað orð mín þannig“).

Það er því miður ákaflega sjaldgæft að fólk í áhrifastöðum biðjist einlæglega afsökunar á mistökum sínum og viðurkenni þau – það er eins og fólk hræðist það og telji það vera álitshnekk fyrir sig. En ástæðan fyrir því að ég skrifa um þetta hér er sú að grein borgarstjóra er frábært kennsluefni um mikilvægi orðræðugreiningar – hún er skólabókardæmi um viðbrögð þeirra sem vita sig hafa gert mistök og eru að reyna að klóra í bakkann en sökkva í staðinn dýpra í forina. Á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu, með kosningar í nánd, er mjög mikilvægt fyrir okkur, almenna málnotendur, að skoða orðræðu stjórnmálafólks með gagnrýnu hugarfari og átta okkur á því hvernig reynt er að nota tungumálið til að slá ryki í augun á okkur og afvegaleiða okkur.

Afturbeygt fornafn eða persónufornafn?

Í ályktun sem samþykkt var á fundi kennara í Reykjavík í gær segir: „Kennurum í Reykjavík finnst borgarstjóri hafa vegið að starfsheiðri sínum.“ Sumum finnst að þarna hefði frekar átt að nota persónufornafnið þeirra en afturbeygða (eignar)fornafnið sínum og segja starfsheiðri þeirra vegna þess að sínum geti vísað til borgarstjórans sjálfs – sem er formlega séð rétt. Í þessu tilviki er um að ræða vísun úr nafnháttarsetningu í frumlag aðalsetningar, kennurumkennurum finnst [borgarstjóri hafa vegið að starfsheiðri sínum]. Slík vísun er að jafnaði möguleg úr nafnháttarsetningum og úr skýringarsetningum (-setningum) og spurnarsetningum með viðtengingarhætti – kennurum finnst [að borgarstjóri hafi vegið að starfsheiðri sínum].

Ef framsöguháttur er í aukasetningunni getur afturbeyging í henni hins vegar ekki vísað til frumlags aðalsetningar – ef sagt er kennurum er ljóst [að borgarstjóri hefur vegið að starfsheiðri sínum] er ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo að átt sé við starfsheiður borgarstjóra. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2005 setti Jón G. Friðjónsson fram „tvær þumalputtareglur“ um vísun úr fallsetningu (- eða hv-setningu) í aðalsetningu: „Ef viðtengingarháttur er í fallsetningu er notuð afturbeyging“ og „Ef framsöguháttur er í fallsetningu er notað persónufornafn“. Jón segir að dæmi um persónufornafn í fallsetningu með viðtengingarhætti „samræmist ekki málvenju“ og fleiri dæmi eru um að því sé haldið fram.

Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 eru tvö dæmi sem þetta varða: „Sagt var: Geir sagði að afstaða hans kæmi í ljós síðar. RÉTT VÆRI: Geir sagði að afstaða sín kæmi í ljós síðar“ og „Sagt var: Foringinn neitaði að hermenn undir hans stjórn hefðu verið að verki. RÉTT VÆRI: … að hermenn undir sinni stjórn …“ Þótt ekki sé sagt berum orðum að notkun persónufornafnsins hans í aukasetningunum – sem báðar eru í viðtengingarhætti – sé „röng“ er ekki hægt að túlka áhersluna á að afturbeyging sé „rétt“ á annan hátt. Þarna virðist sem sé litið svo á, eins og Jón G. Friðjónsson gerir, að viðtengingarhátturinn krefjist afturbeygingar og leyfi ekki persónufornafn en framsöguhátturinn krefjist persónufornafns og leyfi ekki afturbeygingu.

Í umræðu um sambærilega setningu í Gætum tungunnar („Bílstjórinn sagði að sér/honum hefði tekist að aka þessa leið“) sagði höfundur kversins, Helgi Hálfdanarson: „Í þessu sambandi er afturbeygða fornafnið nákvæmara en hitt; þar tæki það af öll tvímæli, en persónufornafnið ekki. Það hlýtur að teljast æskilegt, að málnotkun sé sem skýrust, sé sem mest án tvímæla, en óæskilegt að hún sé loðin og ómarkvís. […] Og það sem í því tilliti er æskilegt, hika ég ekki við að kalla rétt.“ Það er samt löng hefð fyrir notkun persónufornafns í setningum eins og „sagt var“-dæmunum – í  Íslenzkri setningafræði Jakobs Jóh. Smára frá 1920 segir: „Í fornmálinu var oftast notað persónuforn. í aukasetningum, þegar vísa átti til frumlags aðalsetningar […].“

Það eru því engar forsendur fyrir því að kalla notkun persónufornafns frekar en afturbeygingar í setningum með nafnhætti eða viðtengingarhætti ranga – þarna eiga málnotendur einfaldlega val og það er engin nýjung. Þetta val getur vissulega leitt til tvíræðni – Jakob Jóh. Smári segir: „Í aukasetningum vísar afturb. forn. oftast til frumlags aukasetningarinnar […] en þar eð það getur og vísað til frumlags aðalsetningarinnar, verður málsgreinin stundum tvíræð (t.d. Árni spurði Bjarna, hvort hann hefði komið heim til sín) […].“ Oftast er samt vísunin ljós af samhenginu. Í dæminu sem vitnað var til í upphafi væri ansi langsótt túlkun sem jaðraði við útúrsnúning að halda því fram að kennarar telji borgarstjóra hafa vegið að eigin starfsheiðri.

Hvað merkir ekki ennþá?

Í innleggi hér í gær var nefnt að setningar eins og þetta er ekki svona ennþá væru núorðið stundum hafðar í merkingunni 'þetta er ekki svona lengur' í staðinn fyrir 'þetta er ekki enn orðið svona' sem væri hefðbundin merking. Þetta er eins og setningin ríkisstjórnin er ekki ennþá í vanda væri notuð í merkingunni 'ríkisstjórnin var í vanda en því ástandi er lokið' í staðinn fyrir 'ríkisstjórnin siglir lygnan sjó þótt hún kunni að lenda í vanda síðar'. Út frá þessu fór ég að velta fyrir mér merkingu atviksorðsins ennþá (sem oftast er haft í einu orði þótt það eigi að vera enn þá í tveimur orðum samkvæmt ritreglum). Það kom í ljós að skýringar orðabóka á ennþá eru á margan hátt ófullnægjandi vegna þess að þær nefna ekki samspil ennþá við neitun.

Í Íslenskri orðabók er ennþá skýrt 'á nýjan leik, einu sinni enn' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'nú sem fyrr, núna eins og hingað til' með dæmunum ertu ennþá reiður út í mig? og það eru ennþá til nokkrir miðar á tónleikana. Þetta er rétt svo langt sem það nær, en það sem vantar er að benda á að þegar ennþá er notað með neitun vísar það til tímapunkts en ekki til viðvarandi ástands. Þannig merkir ég er ennþá svangur að ég hafi verið svangur um tíma og það ástand vari enn, en ég er ekki ennþá (orðinn) svangur merkir að sá tímapunktur að ég verði svangur sé ekki kominn. Í ensku er orðið still notað í fyrrnefndu merkingunni en yet í þeirri síðarnefndu (og þess vegna mætti e.t.v. segja að enska sé nákvæmari þarna en íslenska).

Þegar þetta er ekki svona ennþá er notað í merkingunni 'þetta er ekki svona lengur', eða 'þessu ástandi er lokið', eins og nefnt var í upphafi er atviksorðið ekki látið neita ástandsmerkingunni í staðinn fyrir að búa til tímapunktsmerkingu eins og hefð er fyrir að neitunin geri. Það er í sjálfu sér mjög rökrétt – en það er ekki í samræmi við málhefð. Það rímar hins vegar við það sem hér hefur margoft verið sagt – málið er ekki alltaf „rökrétt“ og þarf ekki að vera það. En reyndar eru til aðstæður þar sem ekki neitar ástandsmerkingunni, t.d. í halaspurningum eins og þetta er ekki svona ennþá, er það? eða þú ert ekki ennþá að vinna, er það? Þar er merkingin 'þessu ástandi er lokið' alveg eðlileg en merkingin 'þessi tímapunktur er ókominn' útilokuð.

Sú breyting á merkingu setninga með ekki ennþá sem nefnd var í upphafi er því mjög skiljanleg. Höfundur innleggsins sem vísað var til taldi hana bundna við yngra fólk og það er hugsanlegt, en þótt ég viti ekki hversu gömul eða útbreidd hún er finnst mér líklegra að henni hafi brugðið fyrir lengi – vegna þess að hún er rökrétt – en að um sé að ræða nýjung sem sé að breiðast út. Vissulega er það almennt séð rétt að tvíræðni getur verið óheppileg en í þessu tilviki held ég að litlar líkur séu á misskilningi – dæmi eins og þetta er ekki svona ennþá þar sem setningagerðin leyfir báðar túlkanir eru tiltölulega fá og í þeim tilvikum myndu setningarlegt umhverfi og ytri aðstæður yfirleitt sýna ótvírætt hvaða merkingu ætti að leggja í sambandið.

Aðför að inngildingu

Einu sinni skrifaði ég hér pistil um orðið inngilding sem þá var frekar nýlegt í umræðunni. Í lok pistilsins sagði ég: „Það getur vel verið að það megi finna ýmislegt að orðinu inngilding – ég var ekkert sérlega hrifinn af því þegar ég sá það fyrst. En mér skilst að það sé komið í talsverða notkun og þess vegna væri ábyrgðarhluti að hafna því, nema fram kæmi eitthvert orð sem almenn sátt yrði um þegar í stað.“ Nú er liðið hálft fjórða ár og umræða um inngildingu hefur margfaldast án þess að nokkurt orð kæmi í staðinn. Orðið hefur m.a. verið notað margoft í þingskjölum og umræðum á Alþingi, en þrátt fyrir þetta ber enn nokkuð á því að fólk, jafnvel alþingismenn, misskilji orðið eins og sást á Vísi í gær – nema það sé rangtúlkað viljandi.

Þar er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni: „Nú eru stjórnvöld farin að tala um inngildingu, sem er eitthvað nýyrði og andstaða aðlögunar. Af því að inngilding á að tákna það að við eigum að aðlaga okkur að öðrum.“ Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi leiðrétti þetta í grein á Vísi í gær og sagði: „Þessi fullyrðing formanns Miðflokksins er röng. Ef Sigmundur Davíð hefði til þess nennu og orku þá væri honum létt verk að skoða hvað þetta ógagnsæja og að mörgu leyti klúðurslega orð “inngilding” þýðir. Það er íslenskun á hugtakinu “inclusion”. Það er ekki verið að segja að Íslendingar eigi að aðlagast útlendingum. “Inclusion” er að hafa einhvern með, taka tillit til hver hann er og hvaðan viðkomandi kemur.“

Þetta er hárrétt, en áhersla Friðjóns á að orðið inngilding sé „ógagnsætt“ er misskilningur, held ég. Í pistlinum um árið sagði ég um það: „Áðurnefndur misskilningur er mjög skiljanlegur út frá þeim hugmyndum okkar að orð eigi að vera „gagnsæ“ – segja sjálf hvað þau merki, þannig að fólk átti sig á merkingu þeirra þótt það hafi ekki heyrt þau eða séð áður. Því hefur lengi verið haldið að okkur að íslensk orð séu einmitt svona. Það er vissulega sannleikskjarni í því – en bara kjarni. Þótt orð feli oft í sér einhverja vísbendingu um merkingu þurfum við samt oftast að læra nákvæma merkingu þeirra sérstaklega. Og um leið og orð er komið í almenna notkun öðlast það sjálfstætt líf og hættir að vera háð uppruna sínum – gagnsæið hættir að skipta máli.“

Ég bætti við: „Það er auðvelt að benda á tugi og hundruð íslenskra orða sem merkja ekki það sem þau líta út fyrir að merkja, út frá samsetningu sinni og uppruna. En við tökum venjulega ekkert eftir því, vegna þess að við erum vön orðunum og vitum hvað þau merkja án þess að hugsa út í upprunann. Eins og ég hef oft nefnt finnst okkur ný orð oftast skrítin, óheppileg og jafnvel alveg ómöguleg – það þarf að venjast þeim og það tekur tíma.“ En þessi misskilningur um merkingu orðsins inngilding og eðli gagnsæis er útbreiddur og lífseigur. Í gær fékk ég langan nafnlausan tölvupóst þar sem höfundur eyddi tveimur blaðsíðum í að gagnrýna orðið – og ekki síður í að gagnrýna mig fyrir að mæla með því orði. Í póstinum sagði meðal annars:

Inngilding ber hins vegar öll einkenni tilraunar til gagnsæis. Þetta inn- í fyrra helmingi þess er ekki merkingarlaust að fyrra bragði, sem þýðir að það verður ekki snurðulaust hluti af einfaldlega heiti á skilgreindu hugtaki. Gilding ennþá frekar. Gallinn verður síðan sá að inngilding kallar á leit að gagnsæi án þess að við skilgreiningu hugtaksins hafi fundist það sem leitað var að. Hvernig er hægt að herma inngildingu upp á hugtakið sem á ensku ber heitið inclusion? Þú afgreiðir þá óuppbornu spurningu nokkuð billega með því að segja að orðið muni einfaldlega taka merkingu sína af hugtakinu og til huggunar þeim sem finnst það skrípi upplýsir þú að nýyrði þyki alltaf skrýtin. Það er reyndar alrangt hjá þér.“

Það er ýmislegt rangt í þessum tölvupósti og mér gerð upp orð og skoðanir, en það sem mér finnst sérkennilegast og óviðfelldnast er að höfundur skuli ekki þora að koma fram undir nafni, ekki síst vegna þess að hann byrjar póstinn á að segja: „Ég fékk fyrir nokkru embættispóst vegna starfs míns á sviði menntunar barna þar sem fyrir kom þetta orð, inngilding“ – sem höfundurinn virtist ekki hafa þekkt. Það er óskemmtilegt að hugsa til þess að fólk sem starfar við menntun barna skuli ekki þekkja og ekki vilja skilja „þetta kansellíska orðskrípi sem inngilding sannarlega er“ – og noti nafnlausan tölvupóst í gagnrýni sinni. En það læðist að manni sá grunur að árásir á orðið séu aðeins yfirskin – í raun sé verið að ráðast á það sem orðið stendur fyrir.

Vakavörun

Í umræðu í Kastljósi í gær var notað orðasambandið trigger warning sem ég hef svo sem oft heyrt og séð áður enda hefur það verið notað í íslenskri umræðu í rúman áratug og merkir „viðvörun sem skeytt er framan við texta, eða annað efni, ef þar kemur eitthvað fyrir sem gæti mögulega komið fólki í uppnám“ eins og segir í grein í Morgunblaðinu 2015. Nú hef ég almennt séð ekkert á móti tökuorðum sem laga sig að málinu – eða hægt er að laga að því – en trigger warning fellur tæpast í þann hóp. Þess vegna fór ég að velta því fyrir mér hvort ekki hefði verið reynt – eða væri hægt – að íslenska það. Kannski er þetta samt, þrátt fyrir framandleik sinn, orðið of fast í málinu til að hægt sé að hrófla við því, en það skaðar ekki að reyna.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um trigger warning í íslenskri umræðu er í greininni „Varúð – hætta á váhrifum“ eftir Guðnýju Elísu Guðgeirsdóttur á vefritinu Knúz árið 2013 þar sem segir: „Kveikjumerkingar (e. trigger warning) eru leið til að gera opinbera umræðu þolendavænni.“ Í athugasemd frá ritstjórn segir: „Hugtakið „trigger warning“ hefur enn ekki fengið íslenska þýðingu, enda nýkomið inn í umræðuna og enn mörgum framandi. Greinarhöfundur notar hér orðin „kveikiviðvörun“ og „að kveikjast“ til að lýsa merkingu hugtaksins og það væri gaman ef lesendur vilja velta því orðalagi fyrir sér og jafnvel koma með fleiri tillögur.“ Í umræðu um greinina var stungið upp á orðinu stuðvörun, sem væri byggt á „að texti innihaldi stuðandi efni.“

Það orð sem oftast hefur verið notað yfir trigger warning í fjölmiðlum er váhrif – t.d. í viðtali í Fréttatímanum 2014, frétt í Vísi 2019, grein á Hugrás 2020, pistli í Fréttablaðinu 2022, og sjálfsagt víðar. Það er mjög óheppilegt að nota váhrif í þessari merkingu (notkun þess hefur e.t.v. komið til fyrir misskilning á heiti greinarinnar á Knúz) því að höfundur þess, Halldór Halldórsson prófessor, ætlaði því að merkja 'áfallastreita' og þannig er það oftast notað. En í athugasemdum við áðurnefnda grein á Knúz stakk Jón Thoroddsen upp á orðinu vávörun sem hann sagði byggt á nýyrðinu váhrif. Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur líka notað þetta orð í grein á vefnum Kynvillta bókmenntahornið og Drífa Snædal notaði váviðvörun í Kastljósi í gær.

Mér finnst vávörun ágætt orð en e.t.v. finnst einhverjum vanta í orðið merkinguna 'kveikja' eða 'vekja' sem felst í trigger. Þá má hugsa sér að nýta orðið vaki sem er notað í ýmsum samsetningum í merkingunni 'sem vekur', svo sem gleðivaki og hræðsluvaki, og búa til orðið trámavaki en tráma er komið inn í Íslenska nútímamálsorðabók og skilgreint 'erfið upplifun sem hefur skaðleg áhrif á einstakling lengi eftir atburðinn, andlegt áfall'. Út frá þessu mætti svo búa til orðið trámavakavörun sem felur þá í sér að varað er við því að eitthvað gæti vakið upp tráma. Ef þetta þykir of langt orð (þó styttra en áfallastreituröskun) má láta vakavörun nægja – þar er varað við að eitthvað kunni að vekjast upp en ekki tilgreint hvað, frekar en í trigger.

Nýr beygingarflokkur: líðan – líðan – líðan – líðunar

Áðan var hér spurt hvort tala ætti um líðun eða líðan og segja t.d. óska þér betri líðunar. Báðar myndirnar eru vissulega til, þótt í Íslenskri orðabók sé sú fyrrnefnda merkt „fornt/úrelt“ og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls standi við hana „Orðið er úrelt“. Þegar ég fór að hugsa um þetta áttaði ég mig á því að þótt ég myndi örugglega tala um góða líðan finnst mér eðlilegt að óska góðrar líðunar – sem sé, hafa -un(ar) í eignarfalli en -an annars. Þetta samræmist ekki þeirri beygingu sem er gefin upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls – þar er gert ráð fyrir að sama sérhljóðið haldist í viðskeytinu í allri eintölunni og beygingin því líðan – líðan – líðan – líðanar og líðun – líðun – líðun – líðunar. Sama segja beygingafræðibækur.

Þegar ég fór að skoða tíðni beygingarmynda nokkurra orða sem hafa tvímyndir af þessu tagi á tímarit.is og í Risamálheildinni kom í ljós að ég er ekki einn um áðurnefnda tilfinningu. Út frá tíðni mismunandi mynda er nefnilega ekki hægt að álykta annað en að í máli flestra séu orðið líðun / líðan og samsetningar af þeim, vellíðun / vellíðan, vanlíðun / vanlíðan og samlíðun / samlíðan, með -an í nefnifalli, þolfalli og þágufalli, en breyti því í -un(ar) í eignarfalli – beygingin er þá líðan – líðan – líðan – líðunar. Sama virðist gilda um ýmis önnur orð sem hafa tvímyndir af þessu tagi þar sem -an-myndin er notuð eitthvað að ráði, svo sem áeggjun/-an, eftirgrennslun/-an, skipun/-an o.fl., þótt hlutföllin séu dálítið mismunandi milli orða.

Hér má taka dæmi af vellíðun/-an og vanlíðun/-an. Sé lagður saman fjöldi dæma um myndirnar vellíðun og vellíðan er hlutfall þeirrar fyrri aðeins 1,4% á tímarit.is og 0,7% í Risamálheildinni, en af samanlögðum dæmafjölda um eignarfallsmyndirnar vellíðunar og vellíðanar er hlutfall þeirrar fyrrnefndu 86,2% á tímarit.is og 87,4% í Risamálheildinni. Ef við leggjum saman fjölda dæma um myndirnar vanlíðun og vanlíðan er hlutfall þeirrar fyrri 0,6% á tímarit.is og 0,3% í Risamálheildinni, en af samanlögum dæmafjölda um eignarfallsmyndirnar vanlíðunar og vanlíðanar er hlutfall þeirrar fyrrnefndu 78% á tímarit.is og 77,9% í Risamálheildinni. Þarna er ótrúlega gott samræmi milli textasafnanna tveggja þótt samsetning þeira sé mjög ólík.

Í fornu máli höfðu kvenkynsorð með viðskeytinu -un yfirleitt endinguna -an(ar) í eignarfalli eintölu – beygingin var því skipun – skipun – skipun – skipanar. Mörg þessara orða gátu fengið -an í nefnifalli, þolfalli og þágufalli eintölu vegna áhrifsbreytinga. Þannig urðu til tvímyndir og í sumum tilvikum varð -an-myndin aðalmynd orðsins, um tíma a.m.k., en margar -an-myndir eru nú að mestu horfnar úr málinu. Í Íslenzkri málmyndalýsingu frá 1861 segir Halldór Kr. Friðriksson: „Í flestum þeim kvennkynsnöfnum, sem áður höfðu afleiðsluendinguna an, hefur a breyzt í u í gjör., þol. og þiggj. eint. […] og í sumum þeirra helzt þetta u einnig í eig. eint., t.a.m. skipun (áður skipan), skipunar; […] viðvörun (áður viðvaran), viðvörunar […].“

Orðalagið „í sumum þeirra“ bendir til þess að eignarfallið -an(ar) hafi í einhverjum tilvikum haldist í orðum sem höfðu -un í öðrum föllum eintölu – beygingin hefur þá verið eins og í fornu máli, með -un í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en -an í eignarfalli. Það er mjög athyglisvert vegna þess að nú virðist þetta alveg hafa snúist við – -an-orðin fá langoftast -un(ar) í eignarfalli. En e.t.v. hefur þetta lengi verið eins og tölurnar að framan sýna – höfundar eldri málfræðibóka höfðu ekki tíðnikannanir til að styðjast við og hafa fremur hugsað þetta út frá kerfinu og talið eðlilegt að sama sérhljóðið héldist í allri eintölunni. Mér sýnist hins vegar ljóst að eðlilegt sé að búa til nýjan beygingarflokk fyrir -an-orðin, þar sem þau fá -un(ar) í eignarfalli við hlið -an(ar).

Hissa, hissari, hissastur

Í innleggi hér í dag sagðist hópverji hafa rekist á miðstigið hissari í þýddum reyfara, og fundið nokkur dæmi um það í Ritmálssafni Árnastofnunar, m.a. frá Halldóri Laxness. Lýsingarorðið hissa á það annars venjulega sameiginlegt með öðrum lýsingarorðum sem enda á -a að koma aðeins fyrir í einni mynd í stað þess að stigbreytast og beygjast í kynjum, tölum og föllum eins og lýsingarorð gera annars. Þetta eru nær eingöngu samsett orð eins og sammála, gjaldþrota, einhliða, einnota, samferða, viðlíka, hágæða, fullvalda, andvaka, vélarvana og fjölmörg önnur. Merking margra þessara orða er þess eðlis að það er ekki við því að búast að þau stigbreytist – það er ekki hægt að vera *meira gjaldþrota, *meira einnota, *mest samferða o.s.frv.

En hissa sker sig úr hópnum á tvennan hátt – annars vegar með því að vera ósamsett, og hins vegar með því að vera merkingarlega eðlilegt að stigbreytast. Það er enginn vandi að vera meira hissa og mest hissa og um það eru ótal dæmi. „Enginn var meira hissa eða reiðari en ég þegar við fundum ekki vopnin“ segir í Morgunblaðinu 2010, og „Ég er mest hissa á því hvað allt er dýrt“ segir í Feyki 2020. Þess vegna er kannski engin furða að orðið sé stundum stigbreytt á venjulegan hátt, með hefðbundnum endingum miðstigs og efsta stigs -ari og -astur. Elsta dæmi um þetta, undir fyrirsögninni „Málblóm“, er í Lesbók Morgunblaðsins 1932: „Þeir urðu altaf hissari og hissari, og ekki mátti á milli sjá hver hissastur varð.“

Fyrirsögnin sýnir að verið er að hneykslast á þessari stigbreytingu, og flest af þeim rúmlega 70 dæmum sem eru um miðstigið og efsta stigið á tímarit.is eru greinilega notuð í gamni og oft innan gæsalappa. Stundum er beinlínis vísað í þetta sem barnamál, eins og í Morgunblaðinu 2016: „Ég varð „alltaf hissari og hissari“, eins og krakkarnir segja.“ Þó eru til dæmi sem ekki bera það sérstaklega með sér að vera notuð í gamni, t.d. „Maður var bara hissari því fleira sem sagt var“ í leikdómi eftir Ólaf Jónsson bókmenntafræðing í DV 1979. Ólafur mun reyndar hafa þýtt reyfarann sem vitnað var til í upphafi sem bendir til þess að honum hafi verið þessi stigbreyting eðlileg, hvort sem hann hefur tekið hana meðvitað upp eða ekki.

Eins og áður var nefnt kemur miðstigið hissari fyrir hjá Halldóri Laxness – raunar í þremur skáldsögum hans, Atómstöðinni, Brekkukotsannál og Kristnihaldi undir Jökli. Halldór leyfði sér auðvitað ýmislegt óhefðbundið og hafði gaman af að ögra lesendum með málnotkun sinni. En stigbreytingin virðist ekki hafa breiðst mikið út – í meginhluta þeirra u.þ.b. sextíu dæma sem eru um hana í Risamálheildinni er hún notuð í gamni, eða verið að gera grín að henni. Það gildir ekki síður um texta úr óformlegu máli samfélagsmiðla og sýnir að stigbreytingin fellur yfirleitt ekki að málkennd málnotenda. Mér finnst því engin ástæða til að ýta undir hana eða mæla með henni þótt vissulega kæmi sér oft vel að geta stigbreytt hissa.

Að eiga skæs og vera skæslegur

Í umræðu um lýsingarorðið smækó hér fyrr í dag bar lýsingarorðið skæslegur á góma. Í Slangurorðabókinni frá 1982 er það skýrt 'skemmtilegur, æðislegur, girnilegur, skvæslegur' – undir skvæslegur er hins vegar bara vísað á skæslegur.  Þetta orð er að mestu bundið við óformlegt mál en hefur þó komist í Íslenska orðabók þar sem það er merkt „slangur“ og skýrt 'skemmtilegur, æðislegur', og þar er einnig að finna lýsingarorðið skæs sem sagt er merkja 'skæslegur'. En í Íslenskri orðabók og Slangurorðabókinni er einnig samhljóða nafnorð sem sagt er merkja 'peningar' eða 'gaman, fjör'. Í Íslenskri orðsifjabók er nafnorðið (í merkingunni 'peningar') sagt komið úr skejs í dönsku, en það orð aftur af Scheiß í þýsku sem merkir 'skítur'.

Í elstu dæmum um orðið skæs á tímarit.is er það nafnorð og merkir 'peningar' eins og í dönsku. Í Skólablaðinu 1951 segir: „Áttu skæs?“ Í gamankvæði í Mánudagsblaðinu 1954 segir: „hann var ekki að spyrja um splæs / en spændi í hana plenty skæs.“ Í skýringum við kvæðið segir: „Skæs, að oss er tjáð, þýðir peningar.“ Í sama kvæði kemur fyrir sambandið „tékka spíru“ sem sagt er merkja „að slá 10-kall“ og hliðstæð merking kemur væntanlega fram í Þjóðviljanum 1954: „Hann […] getur kennt manni ýms ráð til að tékka skæs, ef maður er brók.“ Í Speglinum 1958 segir: „Djúdí litla fékk ekki nokkurn skæs fyrr en aurarnir fóru að berast frá útlandinu.“ Í Tímariti Máls og menningar 1958 segir: „Plentí skæs og rólegheit.“

En í Skólablaðinu 1959 segir: „Hún er líka eins og ómenntaðir tuffar mundu segja – svaka skæs“. Þar er merkingin greinilega 'skæsleg' en elsta dæmi um það orð er í Alþýðublaðinu 1960: „María hlýtur að vera fautalega skæslegur kvenmaður.“ Í Heima er bezt 1962 er dæmið „skæslegt sveitaball“ úr textanum „Sveitaball“ eftir Ómar Ragnarsson. Í Alþýðublaðinu 1962 segir: „Hin fagra Judith, sem var hin skæslegasta skvísa á sinni tíð.“ Í Vísi 1966 segir: „Uppi á pallinum lék skæslegt bítlaband fyrir iðandi kösinni á gólfinu.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þeir […] áttu líka sinn stæl – kannski ekki alveg eins „skæslegan“.“ Í Þjóðviljanum 1966 segir: „skæslegar skvísur og smart gæjar.“ Í Vísi 1970 segir: „þær bifreiðir sem „skæslegastar“ þóttu.“

Það er greinilegt að merkingin 'peningar' er elsta merking orðsins skæs í íslensku, en hvort og þá hvernig merkingin í skæslegur er komin af henni er ekki ljóst – auðvitað má samt segja að það sem er skæslegt sé verðmætt í einhverjum skilningi og tengist þannig peningum. Eins er spurning hvort skæs sé stytting á skæslegur eða hvort því sé öfugt farið – skæslegur myndað með því að bæta viðskeytinu -legur við skæs. Elsta dæmi um skæs í merkingunni 'skæslegur' er eldra en elsta dæmi um skæslegur en þar munar þó aðeins ári sem er ómarktækur munur. Hins vegar hef ég ekki fundið erlendar fyrirmyndir að skæslegur – a.m.k. virðist *skejslig ekki vera til í dönsku. Því er trúlegra að skæslegur sé íslensk nýmyndun en skæs sé stytting á því.

Orðið skæs í merkingunni 'peningar' virðist vera horfið úr málinu og í merkingunni 'skæslegur' er það líka að hverfa. Á Bland.is 2004 segir: „að vera skæs = að vera lekker eða hvað svo sem er notað núna.“ Á Málefnin.com 2006 segir: „mér skilst að amma mín og afi hafi notað orðið skæs yfir töffara á fyrri hluta síðustu aldar.“ Heldur meira líf er í skæslegur sem má að einhverju leyti rekja til Stuðmannatextans „Herra Reykjavík“ frá 1976 þar sem fyrir kemur línan „skæsleg læri, loðin bringa“. Á tímarit.is eru um hundrað dæmi um orðið en það er þó á niðurleið og hefur verið lengi – í umræðu um unglingamál í Morgunblaðinu 2018 sagði kona fædd 1970: „Kennari minn í grunnskóla sagði að ég væri skæsleg. Það fannst mér rosalega hallærislegt.“