Enskt tal í útvarpsfrétt

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá alvarlegu umhverfisslysi í Bandaríkjunum. Í fréttinni var rúmlega 20 sekúndna innslag á ensku þar sem ónafngreindur fulltrúi umhverfisstofnunar Bandaríkjanna lýsti þeim kröfum sem stofnunin gerði á hendur fyrirtækinu sem ber ábyrgð á slysinu. Þetta var hvorki þýtt né endursagt á íslensku og í þessu innslagi kom ýmislegt fram sem ekki var nefnt í íslenskum texta fréttarinnar – hlustendum var því greinlega ætlað að skilja enskuna.

Þetta er ekki einsdæmi – mér finnst það færast í vöxt að enskt tal heyrist í fréttum og fréttaskýringum í útvarpi. Það getur átt rétt á sér að vissu marki, t.d. til að leyfa hlustendum að heyra raddir þekkts fólks eða hlusta á einhverjar meiriháttar yfirlýsingar. Hvorugu var til að dreifa í þessu tilviki, en þótt svo hefði verið hefði samt átt að þýða innslagið. E.t.v. hefur það verið ætlað fyrir sjónvarpsfréttir þar sem hægt er að láta texta fylgja, en í útvarpi hefði átt að sleppa innslaginu og endursegja efni þess.

Mér finnst þetta óboðlegt, einkum og sér í lagi í Ríkisútvarpinu. Það á ekki og má ekki gera ráð fyrir því að allir útvarpshlustendur skilji ensku. Vissulega má segja að í þessu tilviki hafi ekki verið um að ræða frétt sem eigi brýnt erindi til almennings og þess vegna komi ekki að sök þótt hluti hennar hafi eingöngu verið á ensku. En það skiptir bara engu máli – þetta er grundvallaratriði sem ekki á að víkja frá. Ég vonast til þess að Ríkisútvarpið – og aðrar útvarpsstöðvar – geri þetta ekki að vana.

Á að útrýma „óæskilegum“ orðum úr bókum?

Síðustu daga hefur talsvert verið rætt í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um breytingar sem gerðar hafa verið í nýjum (enskum) útgáfum á bókum norsk/enska barnabókahöfundarins Roald Dahl, í þeim tilgangi „að fjarlægja móðgandi orðalag og gera sögurnar aðgengilegri nútímalesendum“. Eins og við var að búast hefur þessum breytingum verið misjafnlega tekið – sumum finnst þær eðlilegar en að mati annarra eru þær stórhættulegar. Svipuð dæmi hafa svo sem komið upp áður – ekki er langt síðan íslenskum titli Tinnabókarinnar Svaðilför í Surtsey var breytt vegna þess að hugsanlega mátti lesa rasisma úr titlinum og Tinni í Kongó hefur verið mjög umdeildur af sömu ástæðum og sums staðar hefur verið reynt að banna bókina.

Þótt endurritun af þessu tagi sé yfirleitt gerð af góðum hug er hún mjög varasöm af ýmsum ástæðum. Hún getur auðvitað verið brot á sæmdarrétti höfundar sem felur m.a. í sér að „[ó]heimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni“. Þá gildir einu þótt eigandi höfundaréttar hafi samþykkt breytingarnar, eins og virðist vera í tilviki Roald Dahl. Það er líka síbreytilegt hvaða viðhorf, orðalag eða framsetning þykir óviðeigandi á einhvern hátt. Ef hlaupið er eftir samfélagsstraumum hvað þetta varðar getur þurft að gera breytingar aftur eftir nokkur ár. Svo er auðvitað alltaf hætta á að breytingar séu ekki endilega eða eingöngu gerðar af góðum hug.

Vissulega er algengt að í bókum komi fram viðhorf eða orðalag sem nú þykir óviðurkvæmilegt og bera vott um fordóma enda þótt það hafi tíðkast og þótt eðlilegt á ritunartíma bókanna. Þegar um barnabækur er að ræða er eðlilegt að fólk vilji ekki að börn verði fyrir áhrifum frá slíku. En aðferðin til að koma í veg fyrir það er að halda slíku efni frá börnunum frekar en að breyta textanum og fjarlægja hið óæskilega úr honum. Oft er þó um að ræða efni sem er gott að öðru leyti og við viljum að börnin fái að njóta, og önnur leið er þá að lesa það með þeim – vekja athygli þeirra á því að tiltekin orð eða viðhorf eigi ekki lengur við og önnur séu komin í staðinn, og útskýra hvers vegna. Þá gefst líka gott tækifæri til að ræða við börnin um margvísleg efni.

Þegar um er að ræða stálpuð börn, unglinga og fullorðið fólk er vitanlega hvorki hægt að lesa bækur með þeim né halda bókunum alveg frá þeim. Þá er líka tilgangslaust að gefa út dauðhreinsaðar útgáfur eldri texta vegna þess að upphaflegu útgáfurnar eru til og fólk getur nálgast þær. En þá skiptir höfuðmáli eins og ég hef oft lagt áherslu á að beita orðræðugreiningu. Við þurfum að þjálfa börnin okkar og okkur sjálf í því að greina texta – átta okkur á merkingu orða og þeim tilfinningum sem þau geta vakið hjá málnotendum. En jafnframt þurfum við að skilja texta út frá þeim tíma og því umhverfi sem þeir eru sprottnir úr – átta okkur á því hvaða orð og viðhorf eru úrelt en forðast um leið að dæma textana út frá viðhorfum samtíma okkar.

Brúðkaup, kynvilla, örvhendi – og eldhús

Svissneski málfræðingurinn Ferdinand de Saussure lagði áherslu á að tengslin milli tákna málsins – orðanna – og þess sem þau vísa til væru tilviljanakennd og ættu sér engar röklegar forsendur. Það er ekkert í hljóða- eða bókstafaröðunum h-e-s-t-u-r og h-ú-s sem segir að þær hljóti að merkja það sem þær gera í íslensku – við bara lærum merkingu þessara hljóðaraða þegar við tileinkum okkur málið, hvort sem það er á máltökuskeiði eða síðar. Þetta er augljóst og óumdeilt hvað varðar grunnorð málsins, orð sem aðeins hafa að geyma eina rót. En málið vandast þegar við skoðum samsett orð, eins og t.d. h-e-s-t-h-ú-s. Þar getum við brotið orðið upp í tvo hluta, hest- og -hús, og tengt þá við sjálfstæð orð sem við þekkjum, hestur og hús.

Þarna eru tengsl hljóðaraðar og merkingar ekki lengur fullkomlega tilviljanakennd þótt þau séu það í grunnorðunum – við getum haldið því fram að merking orðsins hesthús sé rökrétt og óhjákvæmileg afleiðing af merkingu orðanna hestur og hús. Þetta er hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar sem hún hefur fram yfir ýmis grannmál þar sem samsett orð hafa iðulega að geyma gríska eða latneska stofna sem hafa enga merkingu fyrir fólki. Það er samt rétt að benda á að þótt við þekkjum hluta samsetts orðs úr öðrum orðum og getum tengt það við þau dugir það okkur ekki endilega til að átta okkur fullkomlega á merkingu samsetta orðsins. Hún er nefnilega alls ekki alltaf – og kannski sjaldnast – summa eða fall af merkingu orðhlutanna.

Þótt við þekkjum báða hluta orðsins útihús úr atviksorðinu úti og nafnorðinu hús þurfum við samt að læra sérstaklega að orðið merkir 'önnur hús en íbúðarhús á sveitabæ, t.d. fjós og fjárhús' – ekkert í orðinu sjálfu gefur vísbendingu um þá merkingu. Stundum gefur það m.a.s. kolranga niðurstöðu að tengja orð við upprunann. Í orðinu eldhús felast t.d. bæði eldur og hús, en nú á tímum er sjaldnast eldað yfir opnum eldi, og eldhúsið er ekki sérstakt hús eins og eitt sinn var, heldur herbergi eða svæði í húsi. Orðið hefur haldist þótt eðli fyrirbærisins hafi gerbreyst. Þetta truflar okkur ekkert – við lærum orðið sem heiti á þessu tiltekna herbergi eða svæði og erum venjulega ekkert að tengja það við orðhlutana enda er það oftast borið fram án heldús.

Ég nefni þetta vegna þess að nýlega var hér til umræðu hvort orðið brúðkaup væri nothæft eða viðeigandi í samtímanum. Orðið brúður merkir 'kona sem er að ganga í hjónaband' og brúðkaup merkir upphaflega „hjúskaparsamning eða það að brúður var mundi keypt“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Nú finnst okkur vitanlega fjarri lagi að karlar kaupi sér konur, og einnig var því velt upp hvort orðið gæti átt við þegar tveir karlmenn gengju í hjónaband – þar er engin brúður í framangreindri merkingu. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'athöfn og veisla í tilefni þess að tveir einstaklingar eru gefnir saman í hjónaband' – þar er það sem sé ekki tengt á nokkurn hátt við orðhlutana brúð­- og ­-kaup. Í þessu tilviki eigum við tvo kosti.

Við getum litið á orðabókarskýringuna og sagt: „Þetta er það sem orðið merkir í samtímanum. Orðhlutarnir benda vissulega til annars en það skiptir ekki máli – við lítum bara á orðið í heild en lítum fram hjá merkingu einstakra hluta þess, rétt eins og við gerum með eldhús og ótalmörg önnur orð.“ En svo getum við líka sagt: „Það er augljóst hverjir hlutar þessa orðs eru, brúður og kaup, og það liggur beint við að tengja orðið við þau orð. Þess vegna er brúðkaup ótækt orð – það gefur til kynna að konur séu keyptar í einhverjum skilningi, og það útilokar hjónaband tveggja karlmanna.“ Það er ekki hægt að segja að annað þessara sjónarmiða sé ótvírætt rétt en hitt rangt, eða annað eigi alltaf við en hitt aldrei. Það fer eftir því um hvers konar orð er að ræða.

Ef bókstafleg eða upprunaleg merking orðanna felur í sér einhvers konar viðhorf eða gildismat getur verið heppilegt eða nauðsynlegt að skipta þeim út. Það hefði mátt halda því fram að orðið kynvilla merkti einfaldlega 'samkynhneigð' og þótt villa merki 'eitthvað rangt' sé ástæðulaust að skilja það bókstaflegum skilningi í þessari samsetningu, nú þegar viðhorf hafi breyst. En það hefði aldrei gengið. Til þess er tengingin við orðið villa of sterk í huga málnotenda, og orðið of tengt fordómum og gildismati. Svipað má segja um orð eins og vanskapaður, fóstureyðing og mörg fleiri. Öðru máli gegnir um orð eins og eldhús. Það felur ekki í sér neins konar gildismat eða viðhorf og því fylgja engir fordómar og þess vegna truflar það okkur ekki.

En þarna geta verið ýmis markatilvik og fólk er misjafnlega viðkvæmt. Hér hefur t.d. verið skrifað áður um andstæðuna örvhentrétthent. Við erum alin upp við að það sem ekki er rétt hljóti að vera rangt, og þess vegna sé í einhverjum skilningi rangt að vera örvhentur – og þannig var vissulega litið á þetta áður fyrr og reynt að venja börn við að nota frekar hægri höndina. En truflar þetta fólk eitthvað núorðið? Ég veit það ekki, en endurtek að „aðalatriðið er eins og jafnan, að sýna tillitssemi og umburðarlyndi – að fólk skilji afstöðu annarra og sýni henni virðingu í stað þess að gera lítið úr henni og kalla hana ofurviðkvæmni, íhaldssemi, pólitíska rétthugsun og öðrum slíkum nöfnum sem sjást of oft í málfarslegri umræðu.“

Samstundis, réttstundis – og svipstundis

Í gær rakst ég á orðið svipstundis í frétt á mbl.is – „Rýma þurfti sjöundu hæð svipstundis þegar mygla fannst þar.“ Þótt ég þekkti ekki orðið var það auðskilið út frá samhengi og einnig út frá orðinu samstundis og sambandinu á svipstundu, en vegna þess að það er ekki að finna í neinum orðabókum lét ég mér detta í hug að þessu tvennu hefði slegið saman í huga blaðamanns. Við nánari athugun kom þó í ljós að svo er ekki – a.m.k. hefur þá sams konar samsláttur átt sér stað hjá fleirum. Á tímarit.is er að finna 37 dæmi um orðið, það elsta í Skírni 1864: „hvorugum þeirra klæja svo lófarnir, að þeir svipstundis þrífi til vopnanna.“ Næsta dæmi kemur ekki fyrr en 1919, og svo eru örfá (2-8) dæmi frá hverjum áratug. Í Risamálheildinni eru níu dæmi.

Þótt atviksorðið svipstundis sé sárasjaldgæft og komi ekki til fyrr en á 19. öld gegnir öðru máli um nafnorðið svipstund sem kemur fyrir þegar í fornu máli – „en það var svipstund ein, áður stofan brann, svo að hún féll ofan“ segir t.d. í Egils sögu. Bæði að fornu og nýju kemur orðið þó aðallega fyrir í atvikslega sambandinu á (einni) svipstund(u) sem hefur lengi verið mjög algengt. Orðið svipstund merkir 'stutt stund, örskotsstund, andartak, augnablik' segir Íslensk orðabók og sambandið á svipstundu er skýrt 'mjög fljótt' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Sama merking er í svipstundis sem er rétt myndað og eðlilegt orð, en fjöldi íslenskra atviksorða er myndaður með viðskeytinu -is sem á rætur í eignarfalli svonefndra ija-stofna.

Annað sjaldgæft atviksorð myndað með viðskeytinu -is af nafnorðinu stund er réttstundis sem er skýrt 'á réttum tíma, stundvíslega' í Íslenskri orðabók. Þetta orð kemur ekki fyrir í fornu máli og virðist ekki vera gamalt – elsta dæmi á tímarit.is er úr Ísafold 1908: „Næsta sinn er þau skyldu hittast, kom Nanna réttstundis, en Baldur of seint, því hann var úr-laus.“ Orðið komst líka inn í Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924. Um það eru rúm 800 dæmi á tímarit.is og það var mjög algengt á bilinu 1930-1960, en hefur síðan verið á hraðri niðurleið og frá áratugnum 2010-2019 er aðeins eitt dæmi um það á tímarit.is. Það virðist því af einhverjum óskýrðum ástæðum hafa horfið úr málinu og er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók.

En þótt svipstundis eigi hliðstæðu í nafnorðinu svipstund eru engin dæmi um nafnorðið *réttstund – og ekki heldur um *samstund, en þriðja orðið sem hefur seinni hlutann -stundis er samstundis. Það kemur líka fyrir í fornu máli en ólíkt hinum tveimur er það mjög algengt í nútímamáli og hefur lengi verið. Guðrún Kvaran hefur bent á að búast hefði mátt við i-hljóðvarpi í orðinu (og þá líka réttstundis og svipstundis) eins og verður í öðrum -is-atviksorðum ef skilyrði eru fyrir hendi. Þá hefði orðið verið samstyndis og sú mynd kemur fyrir í bréfi frá 1499 „sem sýnir ef til vill að samstundis hefur þótt framandleg orðmynd“ segir Guðrún. En bæði svipstundis og réttstundis eru lipur orð sem eru vannýtt og mætti nota meira.

Tungumál í íslenskri ferðaþjónustu

Nýlega hafa verið gefnar út tvær merkar skýrslur um tungumál í íslenskri ferðaþjónustu, unnar í samvinnu Háskólans á Hólum og Árnastofnunar – höfundar eru Anna Vilborg Einarsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Önnur skýrslan heitir Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli?, og hin Nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu. Óhætt er að segja að skýrslurnar dragi upp dökka mynd af stöðu íslensku innan ferðaþjónustunnar og viðhorfum til íslensku innan greinarinnar. Hér fylgja nokkrar tilvitnanir í skýrslurnar:

„Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að andvaraleysi gagnvart stöðu íslensku sé ríkjandi hvort sem það er hjá opinberum aðilum eða stoðkerfi ferðaþjónustunnar.“

„Í viðræðum okkar við aðila, bæði innan og utan ferðaþjónustunnar, hafa komið fram meiningar um að hagstæðast væri að leyfa enskunni að taka við af íslenskunni.“

„[Þ]rátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt fram þá kröfu til sveitarfélaganna að þau móti sína eigin málstefnu hafa þau yfirleitt ekki gert það og skipuleggjendur ferðaþjónustu og umsjónaraðilar hennar hafa ekki brugðist við ruðningsáhrifum ensku á íslensku í auglýsingum. Dæmi um þetta er stefnurammi Samtaka ferðaþjónustunnar til ársins 2030 undir fororðunum: Leiðandi í sjálfbærri þróun, þar sem ekkert er fjallað um tungumál.“

„Verði íslenska ekki gjaldgeng í ferðaþjónustu á Íslandi og enska verður tekin fram yfir hana mun hljómur og ásýnd landsins breytast. Þar með glatast mikilvæg sérstaða og um leið verðmæti. Það á auðvitað að kynna íslensku fyrir erlendum gestum landsins alveg jafnt og aðra íslenska menningu og það á að vera réttur íslenskumælandi fólks að geta fengið upplýsingar á sínu eigin tungumáli á ferð um landið. Íslenskan á að vera jafn fyrirferðarmikil í íslenskri ferðaþjónustu og enska eða hvaða annað tungumál sem er.“

Ég treysti því að Lilja Dögg Alfreðsdóttir sem er bæði ferðamálaráðherra og ráðherra íslenskunnar taki þetta mál föstum tökum.

Öll fólkin eru farin

Í Málfarsbankanum segir: „Orðið fólk vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Allt fólkið, sem ég talaði við, ætlaði út að skemmta sér, svo sagði það a.m.k. (ekki: „allt fólkið, sem ég talaði við, ætluðu út að skemmta sér, svo sögðu þau a.m.k.“).“ En vegna þess hversu afbrigðileg hegðun orðsins er má búast við að hún hafi tilhneigingu til að breytast á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi gæti verið vísað til orðsins með fornafni í fleirtölu eins og í dæminu úr Málfarsbankanum. Í öðru lagi gæti orðið fengið fleirtölubeygingu og stýrt fleirtölu á sögn og sagnfyllingu – fólkin eru góð. Í þriðja lagi gæti orðið fengið eintölumerkingu – eitt fólk. Dæmi um þetta allt má finna nú þegar.

Það fyrstnefnda er nokkuð algengt. Þannig segir í Morgunblaðinu 2009: „Það var frábært að fá þetta fólk til landsins, þau höfðu öll á orði hvað það væri mikill kraftur í fólkinu hérna og gert mikið úr litlu.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2017 segir: „Fólk var hrætt, eðlilega, en þau voru þurr og nokkuð vel haldin.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Þetta er öruggur staður þar sem fólk getur komið saman, hvort sem þau eru þolendur, aðstandendur eða einhver sem er á móti ofbeldi.“ Í DV 2018 segir: „Númer eitt, tvö og þrjú er að fólk brosi, ef þau gera það er markmiði mínu náð.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „þau spurðu, meðal annars, af hverju fólk gerðist grænkerar, af hverju þau væru það enn og hvað þeim þætti erfiðast og best við að vera grænkerar.“

Þessi dæmi eru öll tekin úr fjölmiðlum sem sýnir að slíkrar vísunar gætir nokkuð í formlegu máli. Þetta er þó miklu algengara, og raunar mjög algengt, í óformlegu máli eins og það birtist á samfélagsmiðlum. En það er ekki víst að þau vísi alltaf í orðið fólk þótt svo virðist í fljótu bragði. Persónufornöfn hafa oft málfræðilega vísun, vísa til orða fyrr í textanum, eins og í ég mætti skáldinu og það var í góðu skapi, þar sem það vísar til hvorugkynsorðsins skáld. En þau geta líka vísað út fyrir málið, til einhvers í raunheiminum, eins og í ég mætti skáldinu og hún var í góðu skapi – þar væri notað kvenkyn vegna þess að skáldið sem um væri rætt væri kona. Í mörgum tilvikum þar sem þau er notað í vísun til fólks gæti verið um slíka vísun að ræða.

Í Risamálheildinni má finna mikinn fjölda dæma af samfélagsmiðlum um að fólk taki með sér fleirtölumyndir sagna. Þar má nefna „Fólk eru að tala vel um hann þessa stundina“ af fótbolti.net 2006; „Fólk eru hrædd um börnin sín“ af Bland.is 2004; „Fólk eru öryrkjar vegna margra ástæðna“ af Bland.is 2009; „fólk eru ennþá hrædd við töluna 13“ af Twitter 2014, „Fólk eru að fókusa alltof mikið á lagavalið“ af Twitter 2016; „Fólk eru ekki að ásaka upp á djókið“ af Twitter 2021. Einnig ber við að orðið taki fleirtöluendingar: „hin fólkin voru svo sein að koma“ af Hugi.is 2005; „Einu fólkin sem geta passað fyrir mig er mamma og pabbi“ af Bland.is 2006; „þyrlur þurftu að gera bið á því að bjarga fólkum af húsþökum heimila sinna“ í Vísi 2007.

Í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 2002 sagði, í framhaldi af umræðu um fleirtölu ýmissa safnheita: „Hins vegar dettur engum í hug að segja „mörg fólk“ – enn sem komið er.“ Fyrir tveimur og hálfu ári var þó nefnt hér að ungt fólk væri farið að tala um eitt fólk og mörg fólk. Þá hafði ég aðeins óljósar spurnir af þessu en í Risamálheildinni er nú hægt að finna fáein dæmi um þetta. „Síðan eru líka mörg fólk sem að taka poka án þess að borga fyrir þá“ af Hugi.is 2004; „Ég veit um nokkra sem eru að fara þangað og eitt fólk sem er þar núna“ af Bland.is 2005; „þó er eitt fólk sem ég þekki vel hérna“ af Hugi.is 2006; „Það er afleitt að sum fólk geta ekki skemmt sér án vímuefna“ af Hugi.is 2009; „Ég var ekki að meina öll fólk með börn“ af Twitter 2020.

Dæmi af þessu tagi eru vissulega fá, en hins vegar má finna dæmi um það á samfélagsmiðlum að amast sé við þeim, t.d. „Svo þoli ég ekki heldur þegar fólk talar um mörg fólk“ á Bland.is 2010. Það bendir til þess að tíðni þessarar notkunar í talmáli gæti verið meiri en dæmafjöldinn bendir til. Dæmin um óhefðbundnar beygingarmyndir af fólk, s.s. fólkin og fólkum, eru líka mjög fá. Þar er þó þess að gæta að öll hvorugkynsorð önnur en þau sem hafa a í stofni eru eins í nefnifalli og þolfalli eintölu og fleirtölu, og því hugsanlegt að fyrir sumum sem segja fólk eru … sé fólk í raun í fleirtölu þar. En fleirtölumyndir sagna með fólk eru orðnar fastar í sessi, sem og vísun til fólk með þau, þótt þar gæti stundum verið um að ræða vísun út fyrir málið.

The Ladies' School

Í sjónvarpsfrétt um endurgerð Nasa / Gamla Kvennaskólans í gær sást að á skiltum þar er enska höfð á undan íslensku. Þannig sást skilti þar sem stendur Independence Hall og fyrir neðan Sjálfstæðissalurinn, og annað þar sem stendur The Ladies' School en Kvennaskólinn þar fyrir neðan Fyrir nú utan það að The Ladies' School er fráleit þýðing á Kvennaskólinn er óskiljanlegt hvers vegna enskunni er þarna gert hærra undir höfði en íslensku. Ekki verður séð að sú starfsemi sem áformuð er í húsinu sé eingöngu ætluð útlendingum, en þó svo væri dugir það ekki sem ástæða fyrir þessu.

Íslenskan á nú undir högg að sækja vegna mikils þrýstings frá ensku sem er yfir og allt um kring í málumhverfi okkar. Ef við viljum raunverulega halda íslensku sem aðalsamskiptamáli í landinu, eins og ég held að við viljum flest, verðum við öll að leggja hönd á plóg. Mesta hættan sem steðjar að íslenskunni er andvaraleysi okkar gagnvart enskunni og skortur á metnaði fyrir hönd íslenskunnar. Að hafa ensku á undan íslensku á skiltum er gott dæmi um hvort tveggja. Sjálfsagt er að hafa enskuna með á skiltum, en hún á skilyrðislaust að koma á eftir íslenskunni.

Árið 1848 lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp svohljóðandi tilkynningu á almannafæri, að gefnu tilefni: „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi.“ Þótt síðan séu liðin 175 ár á þetta enn við, og er mikilvægara en nokkru sinni. Þess vegna vonast ég til að settar verði upp nýjar merkingar þar sem íslenska sé höfð á undan ensku á skiltum. Að öðrum kosti eru eigendur hússins að leggja sitt af mörkum til þess að gera íslenskuna að annars flokks tungumáli á Íslandi sem mun óhjákvæmilega leiða til hnignunar hennar meðan við fljótum sofandi að feigðarósi.

Merkingarleg sambeyging

Í íslensku stjórnar frumlag í nefnifalli (yfirleitt nafnorð eða fornafn) venjulega persónu og tölu sagnar, sem og kyni og tölu sagnfyllingar (einkum með sögnunum vera og verða). Við segjum ég þetta, þú sérð þetta, hún sér þetta; við sjáum þetta, þið sjáið þetta, þau sjá þetta. Þarna breytir sögnin sjá um form eftir persónu og tölu frumlagsins. Við segjum líka hann er ungur, hún er ung, hán er ungt; þeir eru ungir, þær eru ungar, þau eru ung. Þar breytir sagnfyllingin ungur um form eftir kyni og tölu frumlagsins. Frá þessum reglum er þó sú undantekning að ef frumlagið er í aukafalli stendur sögnin alltaf í þriðju persónu eintölu og sagnfylling í hvorugkyni eintölu – okkur ber skylda til, ekki *berum; þeim er kalt, ekki *eru kaldir.

En það er líka vel þekkt að stundum getur merkingin tekið völdin af forminu í sambeygingu. Þótt orðið foreldrar vísi oftast til karls og konu er það karlkynsorð – það sjáum við á beygingunni og einnig á því að lýsingarorð og fornöfn sem standa með því eru í karlkyni. Við segjum góðir foreldrar, foreldrar mínir, en ekki *góð foreldrar, *foreldrar mín. En þegar orðið er frumlag og tekur með sér sagnfyllingu er hún iðulega í hvorugkyni – foreldrar mínir eru skilin, síður foreldrar mínir eru skildir. Einnig er eðlilegt að segja foreldrar mínir hötuðu hvort annað en miklu síður foreldrar mínir hötuðu hvor annan eins og þó mætti búast við af karlkynsorði. Í þessum dæmum er hvorugkynið eðlilegt út frá merkingu orðsins foreldrar.

Annars konar merkingarleg sambeyging frumlags og sagnfyllingar kemur fram í dæmum eins og ráðherra var viðstödd umræðuna, kennarinn varð ekki ánægð, forstjórinn er hætt störfum o.s.frv. Þarna er sagnfyllingin í kvenkyni þótt að frumlög setninganna, ráðherra, kennari og forstjóri, séu karlkyns og ekkert í orðunum sjálfum feli í sér kvenkynsmerkingu. Ástæðunnar fyrir því að sagnfyllingin er höfð í kvenkyni er því að leita utan málsins – kvenkynið byggist á þeirri vitneskju mælandans að kona gegni þeim störfum sem um er að ræða. Skoðanir málnotenda á þessari tegund merkingarlegrar sambeygingar eru mjög skiptar – mikil umræða varð t.d. um fyrirsögnina „Kennari leidd út í járnum“ á vef Ríkisútvarpsins fyrir nokkrum árum.

Merkingarleg sambeyging kemur einnig oft fram með orðum sem eru eintöluorð að forminu en fleirtöluorð að merkingu – orðum eins og fjöldi og fólk. Varað er sérstaklega við þessu í Málfarsbankanum: „Orðið fjöldi vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Fjöldi skipa fékk góðan afla (ekki: „fjöldi skipa fengu góðan afla“).“ En merkingarleg sambeyging með fjöldi kemur þó fyrir þegar í fornu máli og hefur tíðkast alla tíð síðan. Í Ólafs sögu helga frá 13. öld segir t.d.: „Þá stukku enn fyrir honum fjöldi manna úr landi“ og í Tómass sögu erkibyskups frá því um 1300 segir: „Því að mikill fjöldi fátækra manna og sjúkra renna kallandi móti honum.“

„Sambeyging í íslensku er jafnan málfræðileg, tala og/eða kyn frumlags ræður ferðinni en ekki merking þess“ segir Jón G. Friðjónsson. Þetta er vissulega það sem hefur verið kennt og þannig er málstaðallinn, en það er þó ljóst að margs konar merkingarleg sambeyging er engin nýjung. Guðrún Þórhallsdóttir hefur bent á að merkingarleg sambeyging er algeng í einkabréfum frá seinni hluta 19. aldar og upphafi þeirrar 20., og ekki sé ólíklegt að tilurð og þróun íslensks málstaðals á þeim tíma hafi stuðlað að því að styrkja formlegt samræmi í sessi á kostnað merkingarlegs samræmis. Ljóst er að margs konar merkingarleg sambeyging er algeng í nútímamáli og engin ástæða til að amast sérstaklega við henni – hún á sér langa hefð.

Mörg okkar tölum svona

Sagnir í íslensku hafa þrjár persónur eins og alkunna er, og persóna sagnar ræðst af frumlaginu. Það er þó aðeins fornafnið ég og fleirtala þess við sem tekur með sér fyrstu persónu sagna, og aðeins fornafnið þú og fleirtalan þið sem tekur með sér aðra persónu. Öll önnur frumlög – fornöfn, nafnorð og annað – taka með sér þriðju persónu sagna. Við segjum þið eruð sum búin með þetta þar sem sögn er í annarri persónu fleirtölu, eruð, og stjórnast af frumlaginu þið. Aftur á móti segjum við sum ykkar eru búin með þetta með sögnina í þriðju persónu fleirtölu, eru, vegna þess að þar er frumlagið óákveðna fornafnið sum. En þótt frumlagið sé formlega í þriðju persónu er það merkingarlega í annarri persónu – sum ykkar merkir u.þ.b. það sama og þið sum.

Það kemur þó fyrir að eignarfallsfornafn í fyrstu eða annarri persónu, okkar eða ykkar, ráði persónu sagnarinnar en ekki nefnifallsorðið, eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á. Þar má segja að merking ráði fremur en form. Þetta er ekki nýtt – dæmi má finna a.m.k. allt frá upphafi 20. aldar. Fáein dæmi: Í Ísafold 1909 segir: „flestir okkar höfum alist upp við önnur lífskjör en skrif og skraf.“ Í Tímanum 1920 segir: „Margir ykkar eruð með í samtökum þeim sem standa að þessu blaði.“ Í Tímanum 1987 segir: „Mörg okkar höfum séð um uppeldi á börnum okkar.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Sum ykkar hafið kannski ekki heyrt um þann stað.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Mörg okkar eigum svo fallegar minningar frá þessum stöðum.“

Þetta er síður en svo sjaldgæft. Í Risamálheildinni eru alls 775 dæmi um að samböndin mörg / nokkur / sum okkar taki með sér sögn í fyrstu persónu fleirtölu, og 431 dæmi um að samböndin mörg / nokkur / sum ykkar taki með sér sögn í annarri persónu fleirtölu. Dæmi þar sem þessi sambönd taka með sér sögn í þriðju persónu eru þó hátt í sex sinnum fleiri, en persónusamræmi við eignarfallsorðið er samt of algengt til að það verði flokkað sem villa. Hlutfall dæma um fyrstu og aðra persónu er miklu hærra í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar en öðrum hlutum hennar sem sýnir að þessi setningagerð er miklu algengari í óformlegu máli en formlegu, og gæti bent til þess að hún væri í sókn þótt ekki sé hægt að fullyrða það.

Það er samt rétt að athuga að persónusamræmi við eignarfallsfornafnið kemur ekki alltaf til greina. Það er hægt að segja mörg okkar urðu hrædd og mörg okkar urðum hrædd en aðeins mörgum okkar varð bilt við, ekki *mörgum okkar urðum bilt við. Þótt eignarfallsfornafnið geti tekið völdin af frumlaginu í stjórn á persónu sagnarinnar er það eftir sem áður háð falli frumlagsins – ef frumlagið er ekki í nefnifalli verður sögnin í þriðju persónu eintölu, hvað sem eignarfallsfornafnið segir. Það kemur kannski ekki á óvart því að sögn samræmist aldrei aukafallsfrumlagi í persónu og tölu hvort eð er, en þó er athyglisvert að eignarfallsfornafnið skuli þannig geta náð valdi á sögninni að hluta til en verið eftir sem áður háð falli frumlagsins.

Fyrrverandi

Lýsingarorðið fyrrverandi er eitt af þessum algengu hversdagslegu orðum sem við teljum okkur vita nákvæmlega hvað merki og hvernig sé notað, en leynir samt á sér. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'sem áður var (oftast þangað til nýlega)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'sem var e-ð áður en er það ekki lengur'. Ég hugsa að við getum flest tekið undir þetta en ég varð samt hugsi þegar ég heyrði talað um Vilmund heitinn Gylfason sem „fyrrverandi alþingismann“ í útvarpsfréttunum áðan. Vissulega virðast orðabókarskýringarnar eiga við því að Vilmundur var áður alþingismaður en er það ekki lengur – hann lést fyrir tæpum 40 árum.

Það sem olli því hins vegar að ég fór að hugsa um þetta var að Vilmundur var alþingismaður þegar hann dó. Í lifanda lífi var hann aldrei fyrrverandi alþingismaður. Skiptir það máli? Getum við haldið áfram að tala um fólk með þeim titli eða starfsheiti sem það hafði við dauða sinn, eða er eðlilegt að bæta fyrrverandi framan við? Þarna bætist líka við að mörk milli starfsheitis og menntunar eru oft óljós. Það er hægt að vera fyrrverandi héraðslæknir og fyrrverandi menntaskólakennari vegna þess að þar er augljóslega vísað til starfa, en er hægt að vera fyrrverandi læknir eða fyrrverandi kennari? Það er hægt að skilja svo að vísað sé til menntunar og réttinda en ekki tiltekins starfs.

Vitanlega er fyrrverandi aldrei notað með skyldleikaorðum – fólk verður ekki fyrrverandi foreldrar barna sinna við dauða sinn. En tengdir fólks eru sérlega snúnar í þessu samhengi. Ef við hjónin skiljum og móðir konunnar minnar er á lífi verður hún fyrrverandi tengdamóðir mín, en ef við erum enn gift tala ég um móður konunnar minnar sem tengdamóður en ekki fyrrverandi tengdamóður þótt hún sé látin enda hætti hún aldrei að vera tengdamóðir mín. En ef við höfum verið gift þegar hún lést, en skiljum síðar, hvað þá? Ef hún væri enn á lífi yrði hún fyrrverandi tengdamóðir mín við skilnaðinn – en held ég áfram að miða við þau vensl sem voru milli okkar við dauða hennar?

Svo getur þetta verið misjafnt eftir afstöðu mælandans til þess sem um er rætt. Það getur t.d. verið eðlilegt að segja ég hitti Sigurð fyrrverandi nágranna minn í gær, en aftur á móti við Sigurður nágranni minn fórum stundum saman í veiði. Í seinna tilvikinu er verið að segja frá því sem við gerðum saman þegar við vorum nágrannar, og þá er mun minni ástæða til að bæta fyrrverandi framan við – þótt það sé vissulega hægt. Einnig má velta fyrir sér hvaða tímamörk séu á notkun fyrrverandi – hvað merkir „nýlega“ í áðurnefndri skýringu Íslenskrar orðabókar? Við myndum varla tala um Hannes Hafstein fyrrverandi ráðherra eða Magnús Stephensen fyrrverandi landshöfðingja, er það?

Við þetta bætist svo notkun fyrrverandi sem nafnorðs, einkum í samböndunum minn/mín fyrrverandi í merkingunni 'fyrrverandi maki'. Allt þetta sýnir að jafnvel hversdagslegustu orð geta sýnt ýmis tilbrigði þegar að er gáð. Það er ein af ástæðunum fyrir því hvað tungumálið er merkilegt og skemmtilegt.