Kjarabarátta er málrækt

Í kjaraumræðu þessa dagana er mikið gert úr því að í tiltekinni starfsgrein séu heildarlaun að meðaltali rúmlega 890 þúsund krónur á mánuði sem sé býsna gott og vel yfir meðallagi. En í fréttum hefur einnig komið fram að föst laun eftir fimm ára starf á þessu sviði eru ekki nema rúmlega 390 þúsund krónur á mánuði. Yfirvinnulaun eru um fjögur þúsund krónur á tímann þannig að til að ná rúmlega 890 þúsund króna heildarlaunum þarf u.þ.b. 125 yfirvinnutíma. Það eru rúmir fjórir tímar á dag að meðaltali alla daga mánaðarins, jafnt virka daga sem frídaga – eða tæpir sex tímar á dag ef þessu er dreift á virka daga eingöngu. Það er því ljóst að það segir ekki nema hálfa söguna að tala eingöngu um heildarlaun.

Í fljótu bragði mætti kannski ætla að þetta væri eingöngu kjaramál sem ætti ekki erindi inn í þennan hóp, en það er misskilningur. Í bókinni Alls konar íslenska sem ég gaf út í fyrra segir: „Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltöku­skeiði. Það er ekkert jafnmikilvægt og samtal við full­orðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka mál­kennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikil­vægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frí­tíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og sam­tals með börnum sín­um. Þannig stuðlum við að því að börn­in okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.“

Það segir sig sjálft að fólk sem vinnur 12-14 tíma á dag á ekki mikinn tíma aflögu til samvista með börnum sínum – og er ekki endilega í stuði til mikilla samræðna þegar það kemur dauðþreytt heim að loknum vinnudegi. Því er hætt við að börn þessa fólks, og annars láglaunafólks sem verður að vinna mikla yfirvinnu til að ná endum saman, fari að verulegu leyti á mis við einn mikilvægasta þátt máluppeldisins – samtal við foreldra sína um hvaðeina. Í staðinn fyrir að vera að byggja upp málkerfi sitt sem virkir þátttakendur í samtali er hætta á að þessi börn leiti í afþreyingu sem er meira og minna á ensku þar sem þau eru aðallega óvirkir viðtakendur, svo sem sjónvarpsáhorf, snjalltækjanotkun og tölvuleikjaspilun.

Íslenskan á undir högg að sækja um þessar mundir vegna margvíslegra þjóðfélags- og tæknibreytinga. Það er hvorki æskilegt né raunhæft að berjast gegn þessum breytingum en við þurfum að berjast gegn þeim áhrifum sem þær gætu haft á íslenskuna. Það gerum við ekki síst með því að búa börnunum betra málumhverfi á máltökuskeiði, einkum með samtali og lestri. Ef við getum ekki sinnt því er voðinn vís. Þess vegna eru lág laun og sá langi vinnutími sem af þeim leiðir mesta hættan sem steðjar að íslenskunni. Við þessu er sem betur fer hægt að bregðast. En ef það verður ekki gert er alveg ljóst að við stefnum hraðbyri inn í samfélag með mikilli málfarslegri stéttaskiptingu. Það má ekki gerast.

Rótfesta í stað aðlögunar

Á undanförnum árum hefur mikið verið talað um nauðsyn aðlögunar innflytjenda að íslensku samfélagi og gerðar hafa verið sérstakar aðlögunaráætlanir á því sviði. En orðið aðlögun er ekki endilega heppilegt. Úr því má lesa það viðhorf að innflytjendur skuli laga sig í einu og öllu að íslensku samfélagi og íslenskum siðum. En fólk á ekki að þurfa að fórna öllum sínum venjum og gildum við það að setjast að í íslensku samfélagi. Það er ekki til þess fallið að auðvelda fólki að setjast hér að eða gera fólk ánægt með búsetu hér. Innflytjendur og siðir þeirra geta – og hafa – auðgað íslenskt samfélag á margan hátt. Það sem skiptir máli er að ná samkomulagi þannig að fólk með ólíkan bakgrunn, siði og venjur búi hér í sátt og samlyndi.

Í stað þess að tala um aðlögun innflytjenda er því mun vænlegra að tala um rótfestu og rótfestingu þeirra, og í staðinn fyrir aðlögunaráætlun má þá tala um rótfestuáætlun. Við viljum ekki endilega að innflytjendur lagi sig að íslensku samfélagi á allan hátt, en við viljum að þeir festi rætur í því og auðgi það, á sama hátt og ýmsar jurtir af erlendum uppruna hafa fest rætur í íslenskri mold og auðgað íslenskt gróðurfar. Eins og jurtirnar verða þá að þola íslenskan jarðveg og íslenskt veðurfar verða innflytjendur að vera sáttir við íslenskt samfélag án þess endilega að laga sig að því í einu og öllu. Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir lögfræðingur hefur stungið upp á þessu orðalagi og mér finnst það fara mjög vel.

Að rutta/rútta til/út

Nýlega var spurt hér um uppruna sambandsins rútta til sem einnig er þekkt í myndinni rutta til. Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að sögnin rutta í merkingunni 'ryðja, hreinsa til' sé tökuorð, komin af dönsku sögninni rydde sem merkir 'ryðja'. Í Íslenskri orðabók er myndin rútta flettiorð en vísar á rutta sem er merkt „óforml.“ og fjögur sambönd með henni sýnd; rutta af, rutta frá, rutta til og rutta út. Tvö fyrrnefndu samböndin eru skýrð 'ljúka e-u (verki) í snatri' en rutta til er skýrt 'taka (lauslega) til' og rutta út er skýrt 'ryðja e-u út, rusla út'. Myndin rutta er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og merkt „pop.“ Samböndin rutta af/frá eru skýrð á sama hátt og í Íslenskri orðabók, og rutta til er skýrt 'ordne i en Fart'.

Engin ástæða er til að efast um að skýring Íslenskrar orðsifjabókar á uppruna rutta sé rétt – merkingin er svipuð og í rydde og hljóðafar einnig. Eðlilegt er að í stað dansks y komi íslenskt u en hins vegar má velta fyrir sér hvers vegna íslenska sögnin hafi fengið -tt- og þar með aðblástur frekar en verða rudda sem myndi endurspegla danska ritháttinn eða ruða sem myndi endurspegla danska framburðinn. Óljóst er hvernig myndin rútta kom til en sögnin rútta var einnig til í málinu í merkingunni 'rússa, þjóra og slarka' – úr dönsku rutte með sömu merkingu. Hugsanlegt er að þessum sögnum hafi með einhverju móti slegið saman – framburðarmunur u og ú er ekki alltaf mikill og rutta studdist ekki við neina ættingja í málinu.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um rutta er í Lögbergi 1897: „Það syrgir það ef gömlum blöðum er ruttað til og þau tekin úr vegi.“ Annars kemur orðið ekki fyrir fyrr en á fjórða áratugnum og fram um aldamót eru nokkur dæmi um það, en nær engin á þessari öld. Elsta dæmið um rútta er í Íslandi 1935: „Öllu er þar „rúttað“ til frá því sem áður var.“ Dæmum um rútta fer fjölgandi eftir 1970 þótt aldrei verði þau ýkja mörg, en um 50 dæmi eru þó í Risamálheildinni sem hefur aðallega að geyma texta frá þessari öld. Um helmingur dæmanna er af samfélagsmiðlum þannig að myndin rútta virðist vera lifandi í óformlegu máli. Myndin rutta virðist hins vera vera að hverfa – í Risamálheildinni eru aðeins þrjú dæmi um hana.

Sögnin kemur oftast fyrir í sambandinu rutta/rútta til sem merkir oft ekki beinlínis 'taka til' heldur fremur 'endurskipuleggja, færa til'. Þannig segir í Fálkanum 1961: „Þá notaði ég tækifærið og rúttaði dálítið til í geymslunni og henti út ónýtum pappakössum og öðru drasli.“ Og í Vikunni 1963 segir: „Nei, hún lætur hendur standa fram úr ermum og byrjar að rútta öllu til, þangað til allt húsið okkar er ein argasta ringulreið.“ Oft kemur fram að verið er að færa til húsgögn eða annað í þeim tilgangi að skapa rými. Þannig segir í Degi 1992: „Ruttað var til og dansinn stiginn til morguns í baðstofunni.“ Í Fréttablaðinu 2004 segir: „Læknishúsið rúmar 17 manns í kojum og stundum rútta menn til í stofunum tveimur og þétta raðirnar.“

Sambandið rutta/rútta út í merkingunni 'ryðja út, hreinsa út' er einnig algengt. Í Degi árið 2000 segir: „Tendraðu friðarljós og taktu til í hjartanu um leið og þú ruttar ruslinu út úr bílskúrnum.“ Í DV 2008 segir: „Við rúttuðum öllu út og bjuggum til þetta flotta svið.“ Dæmi eru einnig um rutta/rútta með í merkingunni 'ráðskast með'. Í Speglinum 1946 segir: „Nokkurn þátt mun það eiga í hressilegheitum stjórnarinnar, að nú hefur hún fengið Keflavíkurflugvöllinn til að rutta með.“ Í Vísi 1943 segir: „hún gerði það bara til þess að […] monta af, hvað hún væri efnuð og hefði ráð á að rútta með peningana.“ Sögnin kemur líka fyrir án fylgiorðs: „Verzlunarskjölum ruttað suður á Bessastaðakirkjuloft“ segir í Sögu 1982.

Ég hef hins vegar ekki rekist á nein dæmi um samböndin rutta af og rutta frá sem nefnd eru í orðabókum eins og áður segir og sögð merkja 'ljúka í snatri'. Aftur á móti er sambandið rubba af vel þekkt í þessari merkingu, og rubba frá kemur einnig fyrir þótt rubba upp sé langalgengasta sambandið með þessari sögn. Það er líka eina sambandið með sögninni sem nefnt er í Íslensk-danskri orðabók. Ef til vill hefur rutta af eitthvað verið notað áður en breyst í rubba af vegna merkingarlíkinda við rubba í sambandinu rubba upp. Elsta dæmið um rubba af er frá 1921, einmitt um þær mundir sem Íslensk-dönsk orðabók var að koma út. Íslensk orðabók hefur svo margt eftir þeirri íslensk-dönsku að hún er ekki sjálfstæð heimild.

Hvað merkir ráðgast við?

Í tengslum við miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er nú uppi áhugaverður ágreiningur um textatúlkun. Í Ályktun miðstjórnar ASÍ um miðlunartillögu Ríkissáttasemjara frá því í gær segir: „ASÍ telur heimild sáttasemjara jafnframt bundna við að átt hafi sér stað náið samráð við aðila um efni hennar og að hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila. Hvorugt þessara skilyrða sé uppfyllt.“ Þar er vísað til 27. greinar Laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 þar sem segir: „Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.“ Málið snýst um það hvernig eigi að skilja orðalagið ráðgast við.

Í Morgunblaðinu er haft eftir Sindra M. Stephensen dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík: „Í lögunum segir að ríkissáttasemjari eigi að ráðgast við samninganefndir aðila um tillöguna áður en hún er lögð fram en þar er ekki kveðið á um hve langt það á að ganga. Ekki verður ráðið að gerð sé sérstaklega ströng krafa um inntak samráðsins eða samtalsins, en ætla má að kynna þurfi efni miðlunartillögunnar sannanlega fyrir báðum aðilum áður en lengra er haldið og óska eftir afstöðu þeirra til hennar.“ Sindri telur sem sé að orðalagið ráðgast við „gefi ekki til kynna að báðir aðilar vinnudeilu þurfi að hafa veitt efni miðlunartillögu þegjandi samþykki sitt“. En á hverju byggist sú túlkun – og er hún hafin yfir efa?

Í Íslenskri orðabók er sögnin ráðgast skýrð 'bera e-ð undir e-n, leita ráða hjá e-m' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'leita ráða hjá'. Meðal samheita sagnarinnar sem talin eru í Íslenskri samheitaorðabók eru 'bera saman bækur sínar, bera saman ráð sín' gera ráð sín, hafa samráð við‘. Sambandið ráðgast við kemur fyrir þegar í fornu máli og af dæmum um það í eldri og yngri textum er alveg skýrt að það felur í sér samtal þar sem skipst er á skoðunum. Það þýðir ekki endilega að aðilar séu allir samþykkir niðurstöðunni úr því samtali, en sætta sig a.m.k. við hana. Það væri mjög óeðlilegt að segjast hafa komið með tillögu eftir að hafa ráðgast við einhvern ef viðmælandinn hefði lagst eindregið gegn tillögunni.

Nú veit ég auðvitað ekkert hvernig samtal ríkissáttasemjara við samningsaðila var. En hafi samninganefnd Eflingar lýst eindreginni andstöðu við framlagningu miðlunartillögu getur ríkissáttasemjari ekki sagst hafa ráðgast við samninganefndina um tillöguna. Þá er einfaldlega um tilkynningu að ræða og ef hugsun löggjafans var sú hefði væntanlega staðið „ber að tilkynna samninganefndum“ en ekki „ber að ráðgast við samninganefndir“ eins og raunin er. Ef lögfræðingar telja að það sé hægt að ráðgast við einhvern um tiltekið mál en gera síðan eitthvað sem gengur í berhögg við það sem viðmælandinn segir þurfa þeir að sýna fram á að sú túlkun samræmist venjulegri notkun orðasambandsins í íslensku máli.

Allareiðu

Ég var að lesa vísu frá seinustu áratugum 19. aldar þar sem orðið allareiðu kom fyrir. Það var augljóst að þetta væri af danska orðinu allerede sem merkir ‚nú þegar‘ og ég hef svo sem séð þetta áður í íslenskum textum en aldrei heyrt það notað svo að ég muni. En ég fór að forvitnast um orðið og komst að því að þetta er gamalt tökuorð – kemur fyrir í fyrstu bók sem prentuð var á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar þar sem segir: „Því að sú vonska hreyfir sér allareiðu heimuglega utan það alleinasta sá sem því nú inniheldur, hlýtur burt tekinn að verða.“ Í nýjustu þýðingu Biblíunnar er þetta: „Því að leyndardómur lögleysisins er þegar farinn að starfa en fyrst verður að ryðja þeim burt sem stendur í vegi.“

Allmörg dæmi eru svo um allareiðu úr ýmsum textum frá 17.-19. aldar. Orðið er í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 en merkt með spurningarmerki. Það er hins vegar gefið athugasemdalaust í Íslenskri orðabók, en ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Risamálheildinni eru aðeins sex dæmi um það, öll úr gömlum textum, þannig að það virðist vera horfið úr nútímamáli. En ég varð mjög hissa þegar ég sá að um 900 dæmi um orðið er að finna á tímarit.is – sérlega mörg frá því kringum 1900, en orðið virtist þó hafa verið algengt fram á áttunda áratug síðustu aldar þegar tíðnin datt skyndilega niður. Mér fannst því undarlegt að ég skyldi ekki þekkja orðið betur eða hafa heyrt það notað.

Skýringin kom þó þegar ég fór að skoða betur hvaðan dæmin kæmu. Þá kom í ljós að meginhluti dæmanna – yfir 700 af um 900 – var úr vesturíslensku blöðunum. Þar virðist orðið hafa verið sprelllifandi fram til 1980 – yngsta dæmið úr Lögbergi-Heimskringlu er frá því ári. Öll yngri dæmi í íslenskum blöðum eru úr gömlum textum. Yngstu samtímadæmi sem ég hef fundið eru í grein eftir Sigurð Magnússon, blaðafulltrúa Loftleiða, í Morgunblaðinu 1973. Þar segir að „Spánn […] sé allareiðu orðinn ægilega útbíaður af Íslendingum og öðrum, sem gist hafa það sólarland að undanförnu“ og þar yrðu Íslendingar í framtíðinni „í hópi 800 milljón túrista í allareiðu útsvínuðu landi“.

Málhreinsunarstefnan sem ríkti á Íslandi mestalla 20. öldina náði lítið til Vesturheims og það er oft til þess vitnað hvernig málfarseinkenni sem vesturfarar báru með sér og þóttu óæskileg hafi blómstrað í vesturíslensku þótt þeim hafi verið útrýmt úr málinu hér heima – „flámælið“ svokallaða er oft tekið sem dæmi um það. Mér finnst allareiðu skemmtilegt dæmi um það hvernig dönskusletta sem hafði lifað í málinu í fjögur hundruð ár en er nú alveg horfin átti sér framhaldslíf í vesturíslensku þar sem hliðstæðan already kann einnig að hafa hjálpað til. Örugglega er hægt að finna ýmis fleiri dæmi um slíkt ef betur er að gáð.

Please use other door

Fyrir nokkrum dögum tók ég eftir handskrifuðum miða sem á stendur „PLEASE USE THE OTHER DOOR“ á útihurð vinsæls kaffihúss í Reykjavík. Auðvitað geta verið gildar ástæður fyrir því að miði sem er eingöngu á ensku var settur þarna í upphafi. Sumt starfsfólk kaffihússins er ekki íslenskumælandi og kannski bráðlá einhvern tíma á að setja miðann upp þegar enginn Íslendingur var þar að störfum – kannski var hríðarbylur sem stóð upp á dyrnar þannig að það þurfti að læsa í skyndi og vísa fólki á aðrar dyr. Vitanlega hlýtur samt einhver íslenskumælandi að hafa verið á vakt einhvern tíma eftir að miðinn var settur upp, og auðvitað hljóta eigendur kaffihússins að hafa komið þangað síðan og hefðu því getað breytt þessu.

Þótt ég gangi þarna fram hjá oft í viku gæti miðinn hafa verið þarna lengi án þess að ég tæki eftir honum fyrr en nýlega – ég er nefnilega orðinn ansi ónæmur fyrir ensku í almannarými eins og við erum líklega flest. Allavega hefur miðinn fengið að standa þarna óáreittur um tíma án þess að starfsfólk eða eigendur brygðust við og settu annan miða með íslensku samhliða enskunni. Væntanlega hafa gestir kaffihússins ekki heldur gert nokkra athugasemd – ég treysti því að þessu hefði verið breytt umsvifalaust ef bent hefði verið á það. Mér dettur ekki í hug að halda eða gefa í skyn að það sé af einhverju ræktarleysi eða virðingarleysi við íslenskuna sem þessi miði er eingöngu á ensku – þetta sýnir bara hugsunarleysi og ónæmi gagnvart enskunni.

Ég þykist vita að mörgum finnist þetta lítilfjörlegt atriði sem engin ástæða sé til að gera veður út af. Og það er rétt, út af fyrir sig – einn handskrifaður miði með fimm orðum á ensku skiptir auðvitað engu máli. En á sama tíma er þetta risastórt mál vegna þess að það sýnir í hnotskurn hvernig enskan laumast inn í umhverfi okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Hvernig má það vera að miði á ensku hangi uppi á fjölförnum stað tímum saman án þess að nokkrar athugasemdir séu gerðar við það? Annaðhvort er það vegna þess að við tökum ekki eftir því að hann er eingöngu á ensku eða vegna þess að okkur er alveg sama og finnst það bara eðlilegt. Hvort sem heldur er sýnir að viðnám okkar gegn enskunni er að fjara út.

Gestir veitingastaða skilja iðulega ekki íslensku og því er eðlilegt og sjálfsagt að auglýsingar og tilkynningar séu á ensku samhliða íslenskunni – en ekki í stað hennar eins og í þessu tilviki. Ég legg samt áherslu á að ég skrifa þetta ekki til að gagnrýna kaffihúsið sem um er að ræða enda fer því fjarri að það sé verra að þessu leyti en önnur fyrirtæki í þessum geira. Ég skrifa þetta til að minna okkur á að við berum öll ábyrgð á því að íslenska sé notuð alls staðar þar sem það er hægt. Ef við tökum eftir því að auglýsingar eða tilkynningar eru eingöngu á ensku eigum við að gera athugasemd við það. Ég trúi ekki öðru en slíku verði vel tekið. Ef við látum þetta yfir okkur ganga, eða ef brugðist er illa við athugasemdum, er íslenskan í hættu.

Fjórður á lista

Fyrirsögnin „Ómar fjórður á lista yfir bestu handboltamenn heims“ var um stund á vef RÚV – en var mjög fljótlega breytt í „fjórði á lista“ eins og við er að búast í hefðbundnu máli. En í fréttinni sjálfri í línunni fyrir neðan stóð alltaf „fjórði besti handboltamaður heims“. Þessi munur er í sjálfu sér eðlilegur – í fyrirsögninni var töluorðið fjórði upphaflega beygt eins og lýsingarorð og notuð sterk beyging vegna þess að orðið er sérstætt. Við segjum t.d. Ómar efstur á lista, ekki *Ómar efsti á lista. En þótt beyging töluorða sé að mörgu leyti hliðstæð lýsingarorðabeygingu hafa töluorðin, önnur en fyrstur og annar, ekki sterka beygingu í hefðbundnu máli. Í sambandinu „fjórði besti handboltamaður heims“ er töluorðið hins vegar hliðstætt með nafnorði og í þeirri stöðu hafa lýsingarorð veika beygingu, og því er engin tilhneiging til að setja fjórður þar.

Í fyrra skrifaði ég pistil út frá setningu í frásögn vefmiðils af söngvakeppni Sjónvarpsins: „Reykjavíkurdætur voru þriðjar á svið í kvöld með lagið Tökum af stað.“ Dæmið þriðjar á svið er alveg sams konar og fjórður á lista. Í pistlinum í fyrra sagði ég þetta „sýna að ákveðinnar tilhneigingar gætir til að fella raðtölurnar að beygingu lýsingarorða – gefa þeim sterka beygingu þegar þau eru notuð í setningarstöðu þar sem lýsingarorð (og fyrstur og annar) myndu hafa sterka beygingu. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt og raunar jákvætt að því leyti að það sýnir tilfinningu málnotenda fyrir kerfinu – sýnir að þeir átta sig á því að þarna „ætti“ ekki að vera veik beyging og leitast við að bæta úr því.

En jafnframt er þetta vissulega neikvætt að því leyti að þarna er gengið gegn málhefð – ekki bara búnar til orðmyndir sem ekki eru fyrir í beygingunni, heldur beinlínis búin til nýja málfræðilega formdeild í raðtölunum, sterk beyging. Ég get ekki neitað því að sem málfræðingi finnst mér þessi dæmi bæði merkileg og skemmtileg – og þau hljóma ekki sérlega óeðlilega í mínum eyrum. En þótt þau eigi sér eðlilegar og auðfundnar skýringar eru þau vissulega ekki í samræmi við málvenju og geta þess vegna ekki talist rétt mál.“ En ég legg áherslu á að ég er ekki að setja vekja athygli á þessari fyrirsögn til að hneykslast á henni, eða til að gefa öðrum tækifæri til að hneykslast. Þvert á móti – ég er að nefna hana til að skýra hvernig tilbrigði í máli geta komið upp.

Afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir?

Árið 2011 fluttu Siv Friðleifsdóttir og átta aðrir þingmenn úr þremur flokkum svohljóðandi tillögu til þingsályktunar „um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu“: „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).“ Þessi tillaga kom ekki til umræðu á þinginu og var endurflutt á tveimur næstu þingum án þess að fá nokkurn tíma afgreiðslu, en forvirkar rannsóknarheimildir hafa þó verið ræddar meira og minna á hverju einasta þingi síðan (að undanskildu hinu örstutta 147. þingi 2017).

Áðurnefnd þingsályktunartillaga gengur hins vegar aftur í frumvarpi sem dómsmálaráðherra flutti fyrir jól og heitir fullu nafni „Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (afbrotavarnir, vopnaburður og eftirlit með lögreglu)“. Þar er kafli sem heitir „Aðgerðir í þágu afbrotavarna“ þar sem segir: „Lögreglu er heimilt, í því skyni að stemma stigu við afbrotum, að nýta, svo sem til greiningar, allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna […].“ Í þessu frumvarpi eru forvirkar rannsóknarheimildir þó hvergi nefndar, en aftur á móti kemur orðið afbrotavarnir 64 sinnum fyrir í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því.

Þýðing þessarar orðalagsbreytingar kom skýrt fram í viðtali við Maríu Rún Bjarnadóttur, verkefnastjóra hjá Ríkislögreglustjóra, í Speglinum í Ríkisútvarpinu 9. janúar. Þar sagði hún að ákvæði í frumvarpinu myndu gefa lögreglunni betri tæki til að koma í veg fyrir stafræn brot, og það væri því mjög mikilvægt fyrir aukið öryggi á netinu að þessi lög yrðu samþykkt. Spurningu fréttamanns um hvort hún ætti þá ekki við forvirkar rannsóknarheimildir svaraði hún: „Já, ég held reyndar að það heiti afbrotavarnir, hérna en en í sjálfu sér er það að hluta til forvirkar rannsóknarheimildir, já. En það er kannski ekki – þú veist þetta auðvitað líka hefur auðvitað áhrif á hvernig maður hugsar um þetta, hvaða orð maður notar.“

Það var lóðið – það skiptir máli hvaða orð eru notuð, og þarna er orðanotkun meðvitað breytt í pólitískum tilgangi. Stjórnvöld vita að það er líklegt að almenningur hafi jákvæðara viðhorf til afbrotavarna en til forvirkra rannsóknarheimilda – rétt eins og þau teljarafvarnarvopn veki jákvæðari hughrif en rafbyssur. Látum þau ekki komast upp með að slá ryki í augun á okkur á þennan hátt.

Engu var til sparað

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að segja það var ekkert til sparað.“ Þetta er oft áréttað í málfarspistlum, t.d. hjá Gísla Jónssyni í Morgunblaðinu árið 2000 og Jóni G. Friðjónssyni í Morgunblaðinu bæði 2005 og 2007, og einnig í pistli Jóns sem birtur er í Málfarsbankanum. Þar segir að sambandið komi fyrir þegar í fornu máli, en afbrigðið spara engu til sé kunnugt frá seinni hluta 19. aldar. Elsta dæmi um það er í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1881: „þá var þar 1852 fyrst í öllum löndum stofnað reglulegt fiskiklak í Huningen á kostnað stjórnarinnar og engu til sparað.“ Annað dæmi er úr Reykvíkingi 1891: „allt sem hér er stofnað, byrjar með ákaflegu fjöri og áhuga, engu tilsparað og allt er í uppnámi.“

Nokkur orðaraðartilbrigði koma fyrir af þessu sambandi – ekkert/engu til spara, ekkert/engu spara til og spara ekkert/engu til. Dæmi um þágufallið engu í þessum samböndum á tímarit.is eru á níunda hundrað og spanna allt tímabilið frá 1881 en hefur smátt og smátt farið fjölgandi, einkum á síðustu áratugum. Dæmin um þolfallið ekkert í sömu samböndum eru þó meira en átta sinnum fleiri. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru hins vegar álíka mörg dæmi um þolfall og þágufall í þessum samböndum – 93 á móti 87. Þar sem málfar samfélagsmiðla endurspeglar þær hræringar sem eru í gangi í málinu er ljóst að þágufallið er í sókn. Orðin fátt/fáu og lítið/litlu koma einnig fyrir í þessum samböndum og þar er tilhneigingin sú sama.

Jón G. Friðjónsson segir að í notkun þágufalls í þessum samböndum muni „gæta áhrifa frá orðasambandinu kosta e-u/öllu/miklu til (e-s)“ sem „merkir 'reiða e-ð/allt fram sem greiðslu (fyrir e-ð), leggja e-ð/allt í kostnað; vilja e-ð/allt til vinna; leggja sig allan fram'“ og er a.m.k. síðan á 16. öld. Í þessu sambandi stýrir sögnin kosta sem sé þágufalli þótt hún taki annars með sér þolfall hvort sem hún merkir 'seljast á tilteknu verði' (kosta mikla peninga) eða 'greiða kostnað af (e-u), standa straum af (e-u)' (kosta nýja óperuhúsið). En sama gildir um sögnina spara. Þótt hún taki nú oft með sér þágufall í afbrigðum af spara engu til hefur það ekki áhrif á fallstjórn hennar að öðru leyti – aldrei er sagt *spara peningum eða *spara kostnaði.

Það verður því ekki betur séð en samböndin kosta einhverju til og spara engu til séu alveg hliðstæð – sögn sem annars stýrir þolfalli tekur með sér þágufall í sambandi við forsetninguna til. Eini munurinn er sá að þágufallið er nokkrum öldum eldra með kosta en með spara. „Þessi málnotkun er ekki í samræmi við málvenju“ segir Jón G. Friðjónsson um spara engu til í pistli frá 2017. En í ljósi þess að þágufallið á sér 140 ára óslitna sögu í þessu sambandi og tíðni þess í ritmáli hefur aukist mjög á síðustu árum, og virðist jafnvel slaga upp í tíðni þolfallsins í óformlegu máli, finnst mér ekkert annað koma til greina en viðurkenna þágufallið sem málvenju í nútímamáli – og þar með sem rétt mál samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu.

Það sem er forvitnilegast í þessu máli er þó ekki hvað eigi að teljast „rétt mál“, heldur ástæður þessar breytingar – hvers vegna þágufallið sæki á í þessum tilteknu samböndum á kostnað þolfalls. Fleiri hliðstæð sambönd með þágufalli eru til, svo sem tjalda öllu til, verja fjármunum til o.fl. Einnig er sterk tilhneiging til þess að hafa þágufall með sögninni veita í samböndum eins og veita fjármunum til þótt Málfarsbankinn mæli með þolfalli – veita fjármuni til. „Í dæmum sem þessum er notkun þf. eldri og upprunalegri“ segir Jón G. Friðjónsson og segir þessa breytingu mega rekja til þess að í málinu voru fyrir dæmi eins og veita vatni“ og einnig kunni „að gæta áhrifa frá sögninni verja (verja e-u í e-ð/til e-s)“.

En í stað þess að líta svo á að þágufall komi inn í einstök sambönd fyrir áhrif frá öðrum tilteknum samböndum – spara engu til komi til við áhrif frá kosta einhverju til, veita fjármunum til komi til við áhrif frá verja fjármunum til – er kannski rétt að líta á þetta í víðara samhengi. Það er vel hugsanlegt að málnotendur greini – auðvitað ómeðvitað – ýmis sambönd af þessu tagi og tengi ákveðna merkingu við þágufallið í þeim. Þeir rekist síðan á önnur sambönd sem þeim finnst hliðstæð og yfirfæri þá þágufallið á þau. Þá er sem sé ekki um að ræða áhrif frá einu sambandi á annað, heldur alhæfingu á fallnotkun í samböndum af ákveðnu tagi. En fyrir venjulega málnotendur skiptir svo sem engu hvor skýringin er réttari.

Hvað merkir sendiráð?

Í framhaldi af hugmynd minni um að í stað orðsins ráðherra yrði notað orðið forráð, í stíl við titla eins og leyndarráð, kammerráð og konferensráð, fór ég að velta fyrir mér öðrum starfsheitum sem enda á –herra, einkum sendiherra. Það lægi auðvitað beint við að fara svipaða leið og nota orðið hvorugkynsorðið sendiráð í stað sendiherra, en það er því miður upptekið eins og alkunna er – merkir 'skrifstofa sendiherra og starfsmanna hans', þ.e. stofnun, og getur einnig merkt 'bygging sem hýsir starfsemi sendiráðs'. Þegar að er gáð er það auðvitað dálítið ankannalegt að orð sem endar á -ráð skuli vísa til stofnunar eða byggingar – ekkert í merkingu orðsins ráð út af fyrir sig skýrir það. Enda hefur þetta ekki alltaf verið svo.

Elsta dæmi um orðið sendiráð er frá 1914, og í Íslenzk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'Gesandtskab, Legation' en þau orð vísa einkum til starfsliðs. Í flestum elstu dæmunum virðist sendiráð geta vísað til starfsfólks, ráðs – „Jón Krabbe, formaður sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn“ segir í Heimskringlu 1926 – þótt vissulega sé oft einnig hægt að skilja þau svo að vísað sé til stofnunar. En þegar vísað er til ákveðinnar byggingar eru fremur notaðar samsetningar: „Kínversku kommúnistarnir, er réðust inn í sendiráðsskrifstofuna, gerðir landrækir“ segir í Íslendingi 1925, og í Ísafold 1926 segir: „Þegar þeim þótti fokið í öll skjól og þeir gáfust upp við atvinnuleitina, komu þeir á sendiráðsskrifstofuna.“

Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig merking orða getur breyst – í þessu tilviki frá því að vísa til starfsliðsins, hins eiginlega ráðs (formaður íslenska sendiráðsins) yfir í að vísa til stofnunarinnar sem starfsliðið vinnur við (starfslið sendiráðsins er fámennt) og svo bygginguna þar sem starfsemin fer fram (sendiráðið stendur við Túngötu). Þetta er skiljanleg og eðlileg þróun, þótt auðvitað megi segja að útkoman sé fullkomlega „órökrétt“. En svipað hefur gerst með Stjórnarráðið – það orð vísar ýmist til æðstu stjórnar landsins, þ.e. ríkisstjórnar og ráðuneyta, eða til gamla tugthússins við Lækjartorg sem opinberlega heitir Stjórnarráðshúsið. Stundum hefur reyndar verið amast við því að þessu sé blandað saman.

En svo að aftur sé komið að upphafinu kom reyndar í ljós við athugun mína að orðið sendiráð var stöku sinnum notað í merkingunni 'sendifulltrúi'. Þannig segir í Alþýðublaðinu 1937: „Wanberg sendiráð hefir afhent forseta Frakklands og forsætisráðherra Frakklands sitt eintakið hvorum af einu hinna íslenzku fornrita.“ Í Fálkanum 1938 segir: „Elsta dóttir Musolini, sem heitir Edda, er nýlega trúlofuð Ciano nokkrum greifa, sem er sendiráð Ítala við páfahirðina.“ Einhver munur virðist hafa verið á sendiráði og sendiherra: „Síðustu árin hefir hann verið í Berlín, fyrst sem sendiráð og síðan sem sendiherra“ segir í Fálkanum 1938. Flest dæmin um þessa notkun orðsins eru úr Fálkanum og gætu verið einkum orðfæri eins manns.