Geggjað fjör

Ég hef séð á netinu nokkra umræðu um orðið geggjað eftir útvarpsfrétt í gær þar sem fram kom að það væri mikið tískuorð um þessar mundir. Sumum finnst ótækt að nota það sem hrós eða upphrópun vegna tengsla þess við orðið geðveikur. En þessi tvö orð eru orðsifjafræðilega óskyld, og þótt geggjaður geti vissulega haft merkinguna 'sturlaður, geðveikur' er það hvorki eina merking orðsins né hin upprunalega eins og Jón G. Friðjónsson hefur rakið. Elsta dæmi um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá 1760 og þar hefur það merkinguna 'brenglaður, úr lagi genginn'. Það samræmist elstu dæmum um sögnina geggjast, t.d. úr kvæðinu „Þorkell þunni“ eftir Jónas Hallgrímsson, í Fjölni 1845: „Geggjast allur guðsorðalestur, / á grátunum tvístígur prestur.“

Þessa merkingu hefur orðið yfirleitt í dæmum frá 19. öld. Í Hirði 1858 segir: „Hverjum skynsömum manni má því varla vera grunlaust um, að þar sje eitthvað geggjað, þar sem menn telja læknandi dýrasjúkdóm, hver svo sem hann er, með landplágum.“ Í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1858 segir: „árið 1770 telja þeir ekki nema 112,809, en segja þarámót, að árið 1760 hafi fjártalan verið 491,934; en eitthvað er geggjað í þessu.“ Í Þjóðólfi 1860 segir: „Hugsunartól höfundarins mætti vel vera geggjað frá því sem guð hefir skapað þau.“ Í Heimdalli 1884 segir: „því hvort sem það er satt eða ekki, þá er það eitthvað geggjað, þegar aðrar eins sögur eru sagðar um mann.“ Í Lögbergi 1890 segir: „En jeg er hálfhræddur um að fjelagshugmyndin sje nokkuð geggjuð hjá mörgum Íslendingum.“

Í elstu dæmum þar sem merkingin er 'sturlaður, geðveikur' fylgir eitthvert orð til skýringar á geggjuninni. Í Landsyfirréttardómum 1852 segir: „sum systkini hans annað hvort séu frávita eða geggjuð á sönsum.“ Í Skírni 1883 segir: „maðurinn væri svo geggjaður á vitinu, að hann yrði að flytja til vitfirringaspítala.“ Í Leifi 1884 segir: „En Sage ljet ekki neitt á þessu bera, heldur lofaði lækninum að álíta sig geggjaðan á sönsunum.“ Í Þjóðviljanum 1887 segir: „Sé bóndinn fjarverandi, geggjaður á geðsmununum eða fatlaður á einhvern hátt.“ Einnig eru dæmi um geggjaður á skynseminni / á vitsmunum / á geði / í höfðinu / í kollinum o.fl. En vegna þess að orðið geggjaður var svo oft notað í þessu samhengi yfirtók það fljótlega merkingu fylgiorðsins eins og nú er t.d. að gerast með sögnina byrla.

Elsta dæmi sem ég finn um merkinguna 'sturlaður, geðveikur' án þess að skýring fylgi er í Lögbergi 1891: „Menn höfðu áður verið hræddir um, að hann mundi vera eitthvað geggjaður, en höfðu ekki nógu sterkar gætur á honum.“ Á 20. öld verður þetta aðalmerking orðsins en dæmi um merkinguna 'brenglaður, úr lagi færður' finnast samt á fyrstu áratugum aldarinnar. Þannig segir í Ísafold 1918: „Eitthvað meira en lítið geggjað hlýtur ástandið í Búlgaríu að vera orðið, úr því svo slunginn maður og Ferdinand keisari hefir eigi treyst sér að sitja.“ Í Jafnaðarmanninum 1927 segir: „Íhaldið í landinu […] virðist hafa orðið hálf geggjað yfir þessum 2370 krónum.“ Í Iðunni 1930 segir: „Það er eitthvað geggjað þarna uppi – eitthvað, sem guð hefir misskilið.“

Ein einhvern tíma eftir miðja 20. öld gengur orðið í endurnýjun lífdaga, og þá einkum hvorugkynið geggjað. Í Fálkanum 1964 segir: „Þá verður oft alveg geggjað fjör.“ Í Tímanum 1966 segir: „Fólkið leitar stöðugt meiri skemmtana og orðin „geggjað fjör“ virðast yfirskrift óska þess og viðleitni.“ Fólk sem var ungt á sjöunda og áttunda áratugnum minnist þess að orðið hafi verið mikið notað í svipuðu samhengi þótt sú notkun komi ekki mikið fram á prenti. Í Áramótaskaupi Sjónvarpsins 1969 söng Flosi Ólafsson lagið „Það er svo geggjað“ sem var gefið út á plötu sumarið eftir, og hefur væntanlega gefið orðinu byr undir báða vængi. Í bréfi frá „Gamalli konu“ í Dagblaðinu 1977 segir: „Sum orð, eins og til dæmis æðislegt, ofsalegt, geggjað o.fl., gengu eins og rauður þráður í gegnum allt samtalið.“

Árið 1987 var heiti kvikmyndarinnar „One Crazy Summer“ þýtt sem Geggjað sumar og upp úr því virðist orðið verða hin venjulega samsvörun við enska lýsingarorðið crazy og notkun þess á prenti stóreykst, í margvíslegu samhengi. Þá verður allt mögulegt geggjaðstuð, rokk, þjóðfélag, verð, ljóð, partí, næturlíf, ástand, ráðhús, leikrit, andrúmsloft, ímyndunarafl, grín o.m.fl. Árið 1992 gerði Árbæjarsafn hippatímabilinu 1968-1972 skil í sýningu sem nefndist „Það er svo geggjað“. Ég sé ekki betur en á þessum árum sé orðið notað á sama hátt og nú, nema hvað það er orðið miklu algengara. Á þessum tíma er líka farið að nota orðið sem atviksorð, láta það standa með lýsingarorði – „Er með geggjað gott eintak af nýlegum Yamaha 5 strengja bassa til sölu“ segir í DV 1988.

Í raun og veru má segja að grundvallarmerking geggjaður sé sú sama í öllum tilvikum, þ.e. 'víkur frá normi, óvenjulegur'. Það má bera þetta saman við lýsingarorðið frábær sem upphaflega merkti 'sem ber frá, óvenjulegur'. Bæði orðin hafa þróast á svipaðan hátt þannig að frávikið frá norminu sem gat verið hlutlaust eða neikvætt er nú yfirleitt jákvætt. Einnig má bera geggjaður saman við brjálaður sem er upphaflega lýsingarháttur af sögninni brjála sem nú er ekki lengur notuð en merkir 'færa úr lagi'. Lýsingarorðið brjálaður getur merkt 'sturlaður, vitfirrtur' og í elstu dæmum er oft bætt við á geðsmunum eða á geði. En rétt eins og með geggjaður getur merking þeirra sambanda færst yfir á lýsingarorðið, þótt það sé líka notað á margvíslegan annan hátt – eins og geggjaður.

Málspjall tveggja ára

Eins og oft hefur komið fram er tilgangur Facebook-hópsins Málspjall að skapa vettvang fyrir jákvæða umræðu og fræðslu um íslenskt mál og tilbrigði í því og notkun þess. Það er bjargföst skoðun mín að forsenda fyrir því að íslenska lifi áfram sé sú að henni sé gefið svigrúm – að það sé viðurkennt að hún eigi sér ýmis tilbrigði og henni megi beita á margvíslegan hátt, og fólk sé ekki á nokkurn hátt niðurlægt eða jaðarsett vegna málfars síns. Einstrengingsleg „málvöndun“ sem viðurkennir engin tilbrigði í framburði, beygingum, orðfæri, setningagerð, merkingu, málbeitingu eða öðru sem málið varðar er engin málvöndun, heldur málspjöll – tilræði við íslenskuna og vísasti vegurinn til að hrekja málnotendur frá henni, jafnvel í faðm enskunnar.

Við erum flest alin upp við að eitt tilbrigði málsins sé rétt en önnur röng, og það er erfitt og jafnvel sársaukafullt þegar barnalærdómur okkar er dreginn í efa eða honum hafnað. Ég veit að mörgum finnst ég rífa niður það sem fólk lærði að væri rétt, og finnst það jafnvel árás á foreldra sína eða kennara sem brýndu fyrir þeim að vanda mál sitt og tala ekki rangt mál. En tilgangur minn er alls ekki að ráðast gegn málvöndun eða ýta undir málbreytingar þótt það kunni stundum að líta þannig út, og ég skil vel að ýmsum skuli stundum sárna eða blöskra málflutningur minn. Tilgangur minn er sá einn að fá fólk til að hugsa um íslenskuna og beitingu hennar á gagnrýninn hátt og vekja athygli á því að þótt eitt sé rétt þarf annað ekki að vera rangt.

Það þýðir ekki að ekki megi leiðbeina fólki og fræða það um málhefð. Þvert á móti – það er eðlilegt og bráðnauðsynlegt. En það má ekki gera af yfirlæti, hneykslun, hroka og vanþekkingu, með dylgjum eða brigslum um fáfræði, heimsku, málfátækt og hroðvirkni, heldur verður að setja leiðbeiningar og fræðslu fram af þekkingu, skilningi, umburðarlyndi og virðingu. Ég er sannfærður um að málfarsumræða á þeim nótum er til þess fallin að glæða áhuga málnotenda á tungumálinu og hvetja þau til þess að huga að því hvernig þau umgangast það. Það er margfalt vænlegra til að stuðla að viðgangi íslenskunnar en órökstuddir sleggjudómar um „rétt“ mál og „rangt“ sem þar að auki eru oft byggðir á vafasömum forsendum.

Hinsegin

Orðið hinsegin er gamalt í málinu og talið vera einhvers konar sambræðingur úr hins vegar og (á) hinn veginn. Í Flateyjarbók frá lokum 14. aldar segir (með nútímastafsetningu): „Konungur leit til hans og mælti: „Hinn veg munum við nú breyta Brandur““ en í öðru handriti sama texta frá 15. öld stendur hinnsegin í stað hinn veg. Orðið var áður skilgreint sem atviksorð í orðabókum en hefur þó lengi einnig verið notað sem (óbeygjanlegt) lýsingarorð, þ.e. látið standa með nafnorði, eins og t.d. orðin þannig, svona og svoleiðis sem sömuleiðis voru lengst af eingöngu flokkuð sem atviksorð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það þó tvær flettur, annars vegar atviksorð og hins vegar lýsingarorð.

Aðalmerking orðsins var áður 'á hinn veginn, öðruvísi' og það var oft notað sem andstæða við svona. Í Heimilisritinu 1956 segir: „Sjaldan hef ég heyrt mann grípa fram í frásögn konu sinnar með þessari athugasemd: „Það skeði ekki svona – heldur hinsegin.““ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Það verður væntanlega enginn hörgull á fólki, sem á eftir að benda á, að tiltekið atvik hafi nú ekki verið svona heldur hinsegin.“ En orðið gat líka merkt 'skrýtinn, undarlegur' eða jafnvel 'galinn'. Í Eimreiðinni 1939 segir: „Ertu eitthvað hinsegin, Dísa mín? Hvað heldurðu að hexið segi?“ Í Alþýðublaðinu 1975 segir: „Mér datt fyrst í hug, að nú væri einhver í einhverju ráðuneytinu orðinn eitthvað hinsegin.“

Orðið var mjög oft notað í sambandinu svona hinsegin sem merkir 'af því bara, út í loftið, í tilgangsleysi, af tilviljun, óvart‘ eða eitthvað slíkt. Í Nýjum kvöldvökum 1913 segir: „Þegar eg kom heim í gestahúsið, rak eg augun í blað og leit í það svona hinseginn.“ Í Alþýðublaðinu 1950 segir: „Í rauninni kærðum við okkur ekki um að eignast barn, það kom svona hinsegin.“ Í Tímanum 1955 segir: „Læknirinn hafði fengið mikinn áhuga fyrir trjáprófinu og bað sjúkling sinn að teikna tré svona hinsegin.“ Í Vikunni 1960 segir: „frú Gunnhildur segir, að hún hafi aldrei verið gift, bara átti barnið svona hinsegin, líklega með einhverjum útlendingi.“ Í Magna 1961 segir: „Ég var ekki hjónabandsbarn. Heldur varð ég til svona hinsegin.“

En merkingarnar voru fleiri. Í Íslenskri orðabók kemur fram að orðið geti merkt 'þunguð, ófrísk' og þá merkingu hefur það t.d. í Iðunni 1933: „Sérðu ekki á mér hinsegin?“ Í Samtíðinni 1951 segir: „Sigga greyið var hinsegin og átti bara mánuð eftir.“ Í Vísi 1957 segir: „„Það á að staurhýða þessa „legáta“, sem hlaupa eftir hverju pilsi og gera sumar kannske hinsegin.“ Það virðist líka hafa getað merkt 'á túr', t.d. í Þjóðviljanum 1953 þar sem segir: „Hún er ein af þeim, sem verður að liggja í þrjá eða fjóra daga, þegar hún er hinsegin.“ Þessi dæmi sýna að hinsegin hefur verið notað sem skrauthvörf yfir feimnismál sem ekki mátti nefna, og þannig var það líka í upphafi með notkun þess um samkynhneigða.

Elsta dæmi sem ég finn á prenti um vísun orðsins í samkynhneigð er í Alþýðuhelginni 1949 þar sem segir: „Hvað, er hann nokkuð hinsegin? – Nei, það held ég ekki – en sveitamaður.“ Þarna er vissulega ekki öruggt að vísað sé til samkynhneigðar en samhengið bendir þó til þess. Enginn vafi er á merkingu orðsins í Speglinum 1960 þar sem segir: „En svo illa tókst til, að foringjarnir, sem þær hittu hafa líklega verið hinsegin, svo að ekki varð úr viðskiptum.“ Sama gildir um dæmi í Andvara 1960: „Þú ert þó ekki hinsegin? Jú, fari bölvað sem hún er ekki hinsegin!“ Í Samvinnunni 1969 segir: „margir þeir karlmenn sem skarað hafa frammúr á andlegu sviði hafa verið hinsegin, með öðrum orðum nokkurskonar kona.“

Notkun orðsins hinsegin um samkynhneigð virðist hafa aukist smátt og smátt á sjöunda og áttunda áratugnum og Guðbergur Bergsson gaf t.d. út Hinsegin sögur 1984. Framan af var þetta þó niðurlægjandi orð sem samkynhneigt fólk vildi ekki nota um sjálft sig. Böðvar Björnsson, þekktur baráttumaður samkynhneigðra, fjallar um orðfæri um samkynhneigð í Þjóðviljanum 1981 og nefnir m.a. „tvö velþekkt orð, argur (argskapur) og blauður, og að lokum tvö nýlegri orð sem stundum heyrast, öfuguggi og hinsegin. Öll eru þessi orð þannig innréttuð að réttast er að fela þau þögninni til notkunar“. En þetta átti eftir að breytast og samkynhneigt fólk tók orðið hinsegin smátt og smátt upp á sína arma.

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta fór að breytast en þegar kom fram á tíunda áratuginn var samkynhneigt fólk a.m.k. farið að nota orðið um sjálft sig – árið 1995 stóðu Samtökin 78 fyrir „Hinsegin bíódögum“. Árið 1998 var umræðuþáttur í Ríkisútvarpinu undir heitinu „Af því við erum hinsegin“ og fjallaði um samkynhneigða Íslendinga í Kaupmannahöfn. Árið 1999 stóð jafnréttisnefnd Stúdentaráðs fyrir „hinsegin dögum“, og árið 2000 voru í fyrsta sinn haldnir „Hinsegin dagar“ á vegum fimm félagasamtaka samkynhneigðra. Nú er þetta fullkomlega viðurkennt og eðlilegt, eiginlega „regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk“.

hæstlaunaðastur

Í umræðum um efsta stigið háttsettastur var myndin hæstlaunaðastur nefnd. Hún er gefin sem efsta stig af hæstlaunaður í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en svofelld athugasemd fylgir: „Stigbreytingin er óþörf enda er fyrri hluti orðsins í efsta stigi.“ Það er vissulega rétt að útilokað er að vera hærra launaður en sá hæstlaunaði þannig að stigbreytingin bætir engu við. En þótt stigbreytingin sé óþörf þýðir það ekki endilega að hún sé óeðlileg eða ótæk eða eigi sér enga skynsamlega skýringu. Eins og fram kom í umræðu um háttsettastur er meginreglan sú að stigbreyting kemur fram á síðari eða síðasta lið lýsingarorða og það er hugsanlegt að málnotendur, sumir hverjir a.m.k., túlki ekki annað sem stigbreytingu en það sem kemur fram á síðasta lið.

Það þýðir að hæstlaunaður er skilið á sama hátt og háttlaunaður, þ.e. fyrri liðurinn er skilinn sem afbrigði af lýsingarorðinu hár en ekki sem efsta stig þess sérstaklega. Það kann að hljóma undarlega að myndin hæst- sé ekki endilega túlkuð sem efsta stig en þegar að er gáð er það alls ekkert óvenjulegt að beygðar myndir hafi ekki þá merkingu í fyrri lið samsettra orða sem þær hafa sjálfstæðar. Skýrasta dæmið er tala í eignarfallssamsetningum. Það er vel þekkt að tala fyrri liðar er iðulega „órökrétt“ – í orðum eins og stjörnuskoðun, vöruskortur, perutré og rækjusamloka er fyrri liðurinn í eintölu þótt fleirtala væri „rökrétt“, en í nautalund, lambalæri, myndarammi og nýrnagjafi er fyrri liður í fleirtölu þótt eintala væri „rökrétt“.

Það er því ljóst að í sumum tilvikum a.m.k. skynja málnotendur eingöngu rótarmerkingu fyrri liðar í samsettum orðum en líta fram hjá merkingu beygingarendingar liðarins, enda fer hún oft í bága við merkingu samsetta orðsins í heild. Þess vegna þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það að bæta efstastigsendingu við hæstlaunaður, og á annað hundrað dæmi um það má finna á tímarit.is, hið elsta frá 1917. Hið sama getur reyndar líka gerst með háttsettur – finna má dæmi um myndina hæstsettasti þótt þau séu örfá. En ég tek fram að þótt ég telji myndir eins og hæstlaunaðastur skiljanlegar og eðlilegar er ég ekki að mæla sérstaklega með þeim. Ég er bara að reyna að skýra hvernig og hvers vegna þær koma til.

háttsettastur

Í gær var efsta stigið af háttsettur (eða hátt settur) hér til umræðu. Um það hefur iðulega verið fjallað í málfarsþáttum, t.d. í þætti Gísla Jónssonar sem sagði í Morgunblaðinu 1992: „Til er það ástand að vera hátt settur. Í því sambandi er settur lýsingarháttur þátíðar af sögninni að setja. Nú eru engin skörp skil á milli lýsingarhátta af sögnum og eiginlegra lýsingarorða. Orðasambandið hátt settur tekur slíkri stigbreytingu, að miðstig verður hærra settur og efsta stig hæst settur. En sagt var um rússneskan mann að hann væri „háttsettastur“ þeirra sem fallið hefðu í Grosní. Ekki var það gott.“ Á tímarit.is má þó finna um 50 dæmi um efsta stigið háttsettastur, það elsta frá 1965, og yfir 200 dæmi um miðstigið háttsettari, það elsta frá 1910.

Málið snýst hér um það hvernig eigi að líta á sambandið sem um er rætt – er það samsett orð myndað af atviksorði og lýsingarorði, háttsettur, eða er það samband tveggja sjálfstæðra orða, atviksorðs og lýsingarorðs, hátt settur? Hvort tveggja fellur ágætlega að reglum málsins. Við höfum sambönd atviksorðs og lýsingarorðs sem ótvírætt eru samsett orð, svo sem velviljaður, en líka dæmi þar sem ótvírætt er að um tvö sjálfstæð orð er að ræða, svo sem vel haldinn. Hvorum hópnum tilheyrir háttsettur / hátt settur? Vandinn er sá að orðaskil koma ekki endilega fram í framburði, þótt oft megi draga ályktanir af áherslunni – er áhersla á báðum liðum, eins og í vel haldinn, eða eingöngu á fyrri lið, eins og í velviljaður?

Ég hef ekki rannsakað þetta og get því ekkert fullyrt um það, en tilfinning mín er sú að áherslan sé eða geti verið misjöfn eftir setningarstöðu sambandsins. Þar sem sambandið stendur með nafnorði í dæmum eins og háttsettur embættismaður held ég að áherslan sé yfirleitt bara ein sem bendir til eins orðs, en ef það stendur sem sagnfylling eins og í hann er (mjög) hátt settur eru frekar tvær áherslur sem bendir til tveggja orða. En það er ljóst að flestar eða allar orðabækur líta á háttsettur sem eitt orð. Þetta á við t.d. um Íslenska orðabók, Íslenska samheitaorðabók, Íslenska nútímamálsorðabók, Stafsetningarorðabókina og Stóru orðabókina um íslenska málnotkun. Sama gildir um Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Íslenskt orðanet o.fl.

Einhverjum gæti dottið í hug sú mótbára gegn myndinni háttsettastur að málið snúist ekki um hver sé „settastur“ heldur hver sé hæst settur og þess vegna hljóti stigbreytingin að eiga að koma á fyrri liðinn. En það er misskilningur. Keppnin um „rauðhærðasta Íslendinginn“ snýst ekki um hver sé hærðastur, heldur hver sé með rauðasta hárið. Það er einfaldlega meginregla í íslensku að stigbreyting lýsingarorðs komi fram á síðasta lið orðsins, jafnvel þótt hún eigi merkingarlega fremur við fyrri liðinn. Ef litið er á háttsettur sem samsett lýsingarorð, eins og orðabækur gera, hlýtur það því að vera háttsettari í miðstigi og háttsettastur í efsta stigi, enda er sú beyging gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Þetta á sér skýra hliðstæðu í beygingu orðsins velviljaður sem er velviljaðri í miðstigi og velviljaðastur í efsta stigi – ekki *beturviljaður og *bestviljaður. Miðstig af sambandinu vel haldinn er hins vegar betur haldinn, ekki *vel haldnari, og efsta stigið best haldinn, ekki *vel haldnastur. Ástæðan fyrir þessum mun er sú að velviljaður er runnið saman í eina heild, eitt orð, í huga málnotenda, en vel haldinn ekki. Sambandið hátt settur / háttsettur er þarna einhvers staðar á milli – runnið saman í huga sumra málnotenda en ekki annarra, og e.t.v. misjafnt eftir setningarstöðu. Það er mjög eðlilegt og ekkert við það að athuga. Efsta stig sambandsins hátt settur er vitanlega hæst settur, en efsta stig lýsingarorðsins háttsettur er háttsettastur.

Sló rafmagnið út eða sló rafmagninu út?

Í fyrirsögn á mbl.is í dag stóð „Rafmagninu sló út í Grindavík“ og á Vísi stóð „Rafmagni sló út í álverinu í Straumsvík eftir jarðskjálftahrinuna í nótt“. Þarna er notað þágufallsfrumlag með sambandinu slá út en nefnifall er einnig algengt – „Lægðagangurinn hafi reynst erfiður en hratt sé ráðist í viðgerðir um leið og rafmagn slær út“ var sagt í Vísi í mars, og „Margir kunna að spyrja sig hvort kanínur séu raunverulega svo kulsæknar að ráðast þurfi í sérstakar aðgerðir til þess að hlýja þeim þegar rafmagn slær út“ var sagt í sama miðli í apríl. Jón G. Friðjónsson fjallaði um þetta samband í Morgunblaðinu 2003 og taldi þágufallið rétt – rafmagn slær út væri breyting úr rafmagni slær út en sú breyting hefði ekki öðlast hefð.

Í elstu dæmum sem ég hef fundið um slá út í þessari merkingu er sambandið yfirleitt haft um virkjanir og notað nefnifall með því. Í Mjölni 1963 segir: „Stafaði það af því að Skeiðfossstöðin „sló út“ við fyrsta kippinn.“ Hér eru gæsalappir um slá út sem sýnir að orðasambandið hefur ekki verið búið að festa sig í sessi. Í Morgunblaðinu 1972 segir „stöðin [Búrfellsstöð] sló út á nokkru svæði“. Í Alþýðublaðinu sama ár segir: „Búrfellsvirkjun og allar Sogsvirkjanirnar slógu út“ og í sama blaði, sama ár segir „Búrfellsstöðin og allar Sogsstöðvarnar slógu út vegna þessara truflana“. Í Þjóðviljanum 1973 segir: „Ástæðan fyrir því, að gasaflstöðin sló út og einnig spennatengingin við Írafoss, var yfirálag.“

Elsta dæmi um rafmagn í þessu sambandi er í Tímanum 1973: „Seltan sezt í einangrara á háspennuvirkjum og veldur því að rafmagni slær út.“ Í Vísi 1974 segir: „5 skepnur drápust áður en rafmagninu sló út.“ Í Vísi 1975 segir: „Um leið og pilturinn snerti spenninn í rafstöðinni sló út öllu rafmagni af Stokkseyri og Eyrarbakka.“ Í Dagblaðinu 1976 segir „sló út öllu rafmagni þar um tíma.“ Í þessum dæmum er notað þágufall, en nefnifall sést fyrst með rafmagn árið 1976 og er notað í nokkrum dæmum frá því ári. Í Morgunblaðinu segir: „Rafmagnið sló út“, í Tímariti Hjúkrunarfélags Íslands segir „Rafmagnið sló út smá tíma“, í Vísi segir „enda var álagið það mikið að rafmagnið sló út þegar kveikt var á öllum ljósunum.“

En sambandið slá út í þessari merkingu getur líka haft geranda og rafmagn sem andlag, ýmist í þolfalli eða þágufalli. Í Morgunblaðinu 1988 var fyrirsögnin „Kötturinn sló út rafmagnið“. Í Morgunblaðinu 2012 segir: „orkufyrirtækið ConEd sló út rafmagnið á hluta neðri Manhattan“. Í Fréttatímanum 2015 segir: „einhver sló út rafmagnið í miðju lagi hjá okkur.“Í Fréttum 1994 segir: „Ég fór aftur út úr herberginu og sló út rafmagninu af því ég sá engan eld.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Ég drap strax á vélinni, skreið út og sló út rafmagninu á höfuðrofa.“ Í DV 2008 segir: „óprúttinn maður komst inn í húsið og sló út rafmagninu fyrir fáeinum árum.“

Sambandið slá út hagar sér því stundum eins og sagnirnar hækka og stækka sem geta tekið geranda í nefnifalli og andlag í þolfalli, bankinn hækkaði vextina, en líka sleppt gerandanum og þá verður andlagið að nefnifallsfrumlagi, vextirnir hækkuðu. Þetta er sambærilegt við ég sló út rafmagniðrafmagnið sló út. En sambandið getur líka stundum hagað sér eins og sagnirnar fækka og fjölga sem geta tekið geranda í nefnifalli og andlag í þágufalli, fyrirtækið fækkaði starfsmönnum, en líka sleppt gerandanum og þá verður andlagið að frumlagi en heldur þágufalli sínu, starfsmönnum fækkaði. Þetta er sambærilegt við ég sló út rafmagninurafmagninu sló út.

Spurningin er hvort einhver merkingarmunur sé á þessum tveimur tilbrigðum, nefnifalli/þolfalli annars vegar og þágufalli hins vegar. Í dálknum „Málið“ í Morgublaðinu 2014 segir: „Lagt hefur verið til upp á von og óvon að t.d. rofi eða vatn geti slegið rafmagnið út en rafmagninu sjálfu slái út líkt og eldingu slær niður.“ Ég sé ekki að þessi munur eigi sér stoð í þeim dæmum sem ég hef skoðað – það má finna fjölda dæma bæði um að eitthvað slái rafmagninu út og rafmagn slái út. Á tímarit.is eru álíka mörg dæmi um rafmagn í nefnifalli/þolfalli og þágufalli með slá út. Elstu dæmi um hvort tveggja eru álíka gömul, og bæði nefnifall og þágufall eiga sér því u.þ.b. 50 ára hefð í þessu sambandi.

Sambandið slá út er einnig notað í öðrum merkingum og þar eru ekki sömu tilbrigði. Þegar það merkir 'fella úr keppni' er alltaf notað þolfall – Frakkar slógu Íslendinga út, alls ekki *Frakkar slógu Íslendingum út. En þegar það merkir 'setja út spil' er alltaf notað þágufall – ég sló út tígli, alls ekki *ég sló út tígul. Í þessum merkingum er ekki hægt að sleppa gerandanum – *Íslendingar slógu út og *tígli sló út gengur ekki. En í þeirri merkingu sem hér er til umfjöllunar er engin ástæða til annars en telja föllin jafnrétthá – bæði rafmagnið sló út og rafmagninu sló út er góð og gild íslenska, sem og ég sló út rafmagnið og ég sló út rafmagninu.

Að eiga efni á

Oft eru gerðar athugasemdir við orðasambandið eiga efni á og sagt að það eigi að vera hafa efni á. Vissulega virðist eiga efni á vera nýlegt í málinu – elstu ritmálsdæmi sem ég finn eru tæpra 20 ára gömul. Í Fréttablaðinu 2003 segir: „Hversu margir aka um á bílum sem þeir eiga ekki efni á af því að nágranninn er á svo flottum bíl?“ Í sama blaði 2004 segir: „Ég er bara að bíða eftir því að eiga efni á því.“ Í Bæjarins besta sama ár segir: „Fólk sem vill mennta sig í dag hefði þurft að kosta sig til Reykjavíkur og kannski ekki átt efni á því.“ Upp úr þessu fór dæmum ört fjölgandi og þetta samband er nú mjög algengt.

Merking sagnanna hafa og eiga skarast verulega og oft eru þær notaðar í sömu orðasamböndum með sömu merkingu. Þannig er bæði hafa möguleika á og eiga möguleika á mjög algengt, og einnig er til bæði hafa kost á og eiga kost á, hafa tækifæri á og eiga tækifæri á, hafa rétt á og eiga rétt á, hafa völ á og eiga völ á, og fleira mætti nefna. Þess vegna er vel skiljanlegt að sambandið eiga efni á komi upp við hlið hafa efni á. Ég fæ ekki séð að hægt sé að halda því fram að það sé á einhvern hátt órökréttara að nota eiga en hafa þarna, eða það stríði gegn merkingu orðanna eiga og efni að nota þau saman á þennan hátt.

Því er nauðsynlegt að rifja upp viðurkennda skilgreiningu á réttu máli og röngu: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Vissulega getur verið álitamál hvenær einhver nýjung er orðin málvenja en ég hef notað eftirfarandi skilgreiningu: „Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum“ er hún orðin málvenja og þar með rétt mál.

Það er ljóst að sambandið eiga efni á fullnægir öllum þessum skilyrðum og verður því að teljast rétt mál. En vegna þess hversu nýtt sambandið er hefur verulegur hluti málnotenda ekki alist upp við það og það stríðir gegn málkennd þeirra. Við því er ekkert að segja – það er alveg eðlilegt. En það er hins vegar ekki eðlilegt að amast við öllu sem stríðir gegn málkennd manns sjálfs og líta svo á að það hljóti þar með að vera rangt mál – röng íslenska. Ungt fólk hefur alist upp við eiga efni á og fyrir því mörgu er þetta fullkomlega eðlilegt mál og ekki vitnisburður um fákunnáttu, hroðvirkni eða heimsku. Sýnum máli annarra umburðarlyndi!

Leikbreytir

Nýlega var frétt í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni „MAX-vélarnar „leikbreytir“ fyrir Icelandair“. Í fréttinni kemur fram að þetta er tilvitnun í orð forstjóra fyrirtækisins á fjárfestafundi að vélarnar hefðu verið „leikbreytir (e. game changer) fyrir reksturinn“. Fundurinn fór fram á ensku þannig að þetta er þýðing á orðum forstjórans og gæsalappirnar um orðið leikbreytir í fyrirsögninni og enska samsvörunin á eftir því í textanum sýnir að ekki er gert ráð fyrir því að orðið komi lesendum kunnuglega fyrir sjónir, enda er það sjaldgæft þótt það sé ekki alveg nýtt. Í kynningu á nýjum bíl í Morgunblaðinu 2017 segir t.d. „það blasti engu að síður við að hér var kominn ákveðinn „leikbreytir“ á sínu sviði“.

Orðið leikbreytir er rétt myndað og gagnsætt orð og í sjálfu sér ekkert við það að athuga – nema það á sér enga sögu í íslensku. Í enskri orðabók eru gefnar tvær skýringar á game changer. Önnur er „something or someone that affects the result of a game very much“, þ.e. 'eitthvað eða einhver sem gerbreytir úrslitum leiks', en hin er „something such as a product or event that affects a situation or area of business very much“, þ.e. 'eitthvað, svo sem framleiðsluvara eða atburður, sem gerbreytir stöðu eða sviði í viðskiptum'. Það er augljóst að seinni merkingin er líking, byggð á hinni fyrri – viðskiptunum er líkt við leik. En leikbreytir á sér enga hefð í íslensku í fyrri merkingunni, eftir því sem ég fæ best séð.

Það er engin sérstök ástæða til að búa til nýjar íslenskar líkingar sem ekki eiga sér fyrirmynd í málinu til þess eins að elta enskt orðalag. Hægt hefði verið að orða þessa merkingu á ýmsan annan hátt án þess. Það hefði t.d. mátt segja MAX-vélarnar hafa skipt sköpum fyrir reksturinn, eða MAX-vélarnar hafa valdið straumhvörfum í rekstrinum, eða MAX-vélarnar hafa gerbreytt rekstrinum til hins betra. E.t.v hefur blaðamanni fundist nauðsynlegt að þýða orð forstjórans beint þar sem tilvitnunin var höfð innan gæsalappa. En í þýðingu eru hvort eð er óhjákvæmilega notuð önnur orð en í frumtexta, og þar að auki hefði verið einfalt að endursegja ummælin í óbeinni ræðu í stað þess að nota beina tilvitnun.

Stundum er sagt að ástæðulaust sé að búa til íslensk nafnorð til að samsvara enskum nafnorðum – oft sé heppilegra að orða hlutina á annan hátt á íslensku. Það er mikið til í þessu, en þegar um íðorð er að ræða getur þó verið æskilegt eða nauðsynlegt að hafa nákvæma samsvörun á milli málanna. Svo er ekki í þessu tilviki en auðvitað er leikbreytir íslenska þótt það eigi sér enska fyrirmynd og engin ástæða til að amast við notkun þess í umræddri frétt. En það er samt rétt að hafa í huga að „hollur er heimafenginn baggi“ – við eigum oft orð eða orðasambönd sem hefð er fyrir í málinu og henta betur til að orða tiltekna merkingu en nýyrði sem eiga sér enga hefð eða skírskotun í íslensku.

Að framlengja leiknum – eða stytta honum

Í morgun rakst ég á setninguna „Báðum hálfleikj­un­um var síðar stytt í 40 mín­út­ur“ á vefmiðli. Þetta orðalag hef ég ekki séð áður og við snögga leit á netinu fann ég aðeins eitt annað dæmi: „Bindissamningar höfðu verið tólf mánuðir í ADSL-þjónustu en þeim var stytt í sex mánuði“ í Fréttablaðinu 2007. Þetta á sér þó hliðstæðu í notkun sagnarinnar framlengja sem iðulega tekur með sér þágufall í setningum eins og leiknum var framlengt, „og er það nýleg villa, sem ber að varast“ segir í Móðurmálsþætti Vísis 1956. Gísli Jónsson tók nokkrum sinnum í sama streng í þáttum sínum í Morgunblaðinu og í Málfarsbankanum er tekið framframlengja stýri þolfalli.

Ég man hvenær ég heyrði fyrst notað þágufall með framlengja. Það var í knattspyrnulýsingu í útvarpinu um miðjan sjöunda áratuginn að lýsandinn sagði „Leiknum verður framlengt“. Þetta fannst mér í þá daga augljós villa – sem það var fyrir mér. En þetta er samt miklu eldra. Í Vesturlandi 1939 segir: „dansleiknum var framlengt til kl. að ganga 6 um morguninn“ og í Morgunblaðinu sama ár segir „Leiknum var framlengt um 10. mín. á hvort mark“. Í Tímanum 1941 er málfarspistill eftir Friðrik Hjartar þar sem segir: „Í útvarpsfréttum hefir m. a. verið sagt: Þessum samningum var öllum framlengt, (á að vera: þessir samningar voru allir framlengdir).“ Þágufall með framlengja virðist því hafa verið orðið útbreitt um 1940.

Rök fyrir því að nota þolfall með framlengja en ekki þágufall eru oft sótt til sagnarinnar lengja eins og í Móðurmálsþætti Vísis 1956: „Með réttu á að segja: Framlengja eitthvað á sama hátt og við segjum lengja eitthvað. Leikurinn var lengdur fram, leikurinn var framlengdur, sýningin var lengd fram, framlengd.“ Vissulega var áður hægt að nota sambandið lengja fram á þennan hátt, í sömu merkingu og framlengja, eins og sést á dæmi úr Þjóðólfi 1909: „Þessu hefði þingið þurft að breyta í vetur, en eigi hinum óþarfanum, að lengja fram fræðslusamþyktafrestinn.“ En ég held að þetta samband sé aldrei notað svona lengur – ég finn engin dæmi á við leikurinn var lengdur fram og finnst það hljóma mjög óeðlilega.

Þess vegna má halda því fram að sögnin framlengja hafi rofið tengsl sín við lengja (fram) og lifi nú sjálfstæðu lífi – og geti tekið það fall sem málnotendum finnst eðlilegt, óháð lengja. Þótt meginreglan sé vissulega að samsett sögn stýri sama falli og grunnsögnin er ekkert einsdæmi að fallstjórnin sé önnur, ekki síst ef orðasamband með samsetningarliðunum er ekki til. Þannig stýrir aðgæta þolfalli (aðgæta sjúklinginn) en gæta ein og sér stýrir eignarfalli (gæta barna) og sambandið gæta að tekur með sér þágufall (gæta að sér). Sögnin stigbreyta tekur þolfall (stigbreyta lýsingarorðin) þótt breyta ein og sér taki þágufall (breyta áætluninni). Fleiri dæmi mætti nefna.

Þágufall með framlengja á sér því a.m.k. 80 ára sögu og ég sé enga ástæðu til að kalla það rangt eða amast nokkuð við því. Í málinu eru ótal dæmi um breytta fallstjórn sagna og þær breytingar eru yfirleitt meinlausar – hvorki torvelda skilning né valda misskilningi, þótt það geti vissulega komið fyrir. En öðru máli gegnir um þágufall með stytta eins og nefnt var í upphafi. Ég geri ráð fyrir að það sé ekki mjög útbreitt þótt auðvitað geti það verið mun algengara í talmáli en ritmálsdæmi benda til. En vegna þess að það er tæpast orðið málvenja stórs hóps er eðlilegt að mæla gegn því að svo stöddu, í samræmi við venjulegt viðmið um rétt mál og rangt, þótt það væri enginn sérstakur skaði að það breiddist út.

Að á

Í gær skrifaði ég um sögnina heyja, en önnur sögn sem hagar sér ekki ósvipað er æja í merkingunni ‚stoppa og hvíla sig á ferðalagi‘. Þátíðin hennar er áði, þannig að þar er ekkert hljóð sameiginlegt nútíð og þátíð. Ég þekki ekki dæmi um að nútíðin hafi áhrif á þátíðina, sem þá félli saman við þátíð sagnarinnar æja í merkingunni ‚segja æ, kveinka sér, stynja, hljóða, veina‘. Hins vegar eru fjölmörg dæmi um að þátíðin hafi áhrif á nafnháttinn þannig að hann verði á. Í Tímanum 1951 segir: „Við verðum að á hér, sagði hann.“ Í Sunnudagsblaði Tímans 1971 segir: „Við urðum að á nokkru sinnum á leiðinni.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „við urðum að á oftar en áður á ferðum okkar um sanda og strendur og borgir Suður-Kaliforníu.“

Áhrifin ná einnig til nútíðarmynda eins og Gísla Jónsson grunaði: „Reyndar er mér ekki grunlaust um að einhver segi: ég ái í nútíð framsöguháttar, þá sjaldan þessi sögn er enn notuð.“ Í Þjóðviljanum 1959 segir: „Það verð ég og að játa, að öllu minna þykir mér til koma borgarinnar við sundið eftir því sem ég ái þar oftar.“ Í Eyjablaðinu 1950 segir: „þú áir og heilsar nú íslenzkri vör.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 segir: „Hann áir á vínveitingastað eftir vinnuna og kemur of seint í matinn.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Við áum tvívegis á leiðinni.“ Í Heimskringlu 1948 segir: „Þegar þið áið á kvöldin, þá skuluð þið setja vagnstöngina, svo að hún bendi á pólstjörnuna.“

Jón Aðalsteinn Jónsson lagði áherslu á að það ætti að segja „þú æir, hann æir hestunum (alls ekki áir)“, og bætti við: „Hitt þekkist í talmáli, þótt ekki sé rétt, að segja: ég ætla að á hestunum við ána, við ætlum að á þeim við ána o.s.frv. Þannig hliðra menn sér hjá hinni réttu beygingu so. að æja […].“ En myndin á er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrð sérstaklega þótt einnig sé vísað á æja. Í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1982 er hún merkt með spurningarmerki sem táknar „vont mál“ og í þriðju útgáfu merkt með !? sem táknar að hún njóti ekki fullrar viðurkenningar – ekki skýrð sérstaklega en vísað á æja. Nafnháttarmyndin á er hins vegar ekki gefin í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Nafnháttar- og nútíðarmyndir með á- eiga sér langa hefð – „áir hjer hestum bæði í engjum og úthögum“ segir t.d. í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá því snemma á 18. öld. Í ljósi hefðarinnar og þess að hér er um að ræða eðlilega og skiljanlega áhrifsmyndun sem á sér viðurkenndar hliðstæður í málinu finnst mér engin ástæða til annars en viðurkenna á sem fullgildan nafnhátt sagnarinnar og myndir með á- sem fullgildar nútíðarmyndir.