Málvillur

Ég hef stundum fjallað um íslenskan málstaðal og frávik frá honum. Þessi frávik, þau tilbrigði sem samræmast ekki staðlinum, eru kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Hvaða vit er í því? Athugið að málstaðallinn sem notaður er til að skilgreina villurnar er mannanna verk, og það er á margan hátt tilviljanakennt hvað rataði inn í hann. Margar breytingar sem orðið hafa frá fornmáli komust inn í staðalinn og eru viðurkenndar og ekki taldar villur.

Þetta táknar ekki að rétt sé að viðurkenna öll afbrigði frá staðlinum, eða vísa hugtakinu málvilla út í hafsauga. Mér finnst alltaf best að nota skilgreiningu nefndar um „málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum“ frá 1986: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Í samræmi við þetta er alveg eðlilegt að kalla tilviljanakennd og einstaklingsbundin frávik frá staðlinum málvillur, en ef frávikin eru farin að ná til hóps af fólki og börn farin að tileinka sér þau á máltökuskeiði er eðlilegt að tala um málbreytingu en ekki villu. Það er að mínu mati mjög brýnt að breyta málstaðlinum sem hefur gilt undanfarna öld, viðurkenna staðreyndir og taka inn í staðalinn ýmsar breytingar sem hafa verið í gangi og verða ekki stöðvaðar.

Það má nefnilega ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist ís­lensk­an ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Þótt sumir tali svolítið öðruvísi íslensku en þá sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir 50-60 árum gefur það mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana. Íslenskan er nefnilega alls konar. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Og síðast en ekki síst: Íslenska með hreim og beygingarvillum er líka íslenska.