Viðhorf til íslenskunnar

4. Íslensk málrækt felst í því að rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og skilning á gildi þess fyrir okkur sjálf og málsamfélagið.

Íslendingar hafa yfirleitt haft mjög jákvætt viðhorf til móðurmálsins og oft er lögð áhersla á að það geri okkur að þjóð – sé réttlæting okkar fyrir sjálfstæði og grundvallarþáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Í bókinni Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk hefur Guðmundur Hálfdanarson haldið því fram að „náttúran sé að taka við af tungumálinu og menningunni sem helsta viðmið íslenskrar þjóðernisstefnu – eða mikilvægasta tákn þess sem gerir okkur að Íslendingum og greinir okkur frá öðrum þjóðum“.

Ekki eru þó allir sannfærðir um þetta, en hvað sem því líður virðist unga kynslóðin ekki líta á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfs­mynd sinni og þau sem eldri eru, og ýmsar vísbendingar eru um að hún hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Á þessu eru eflaust margar skýringar. Ein er sú að málfræðikennsla í grunn- og framhaldsskólum er ekki sérlega vel til þess fallin að auka áhuga á íslenskunni. Sama máli gegnir um áherslu samræmdra prófa á rétt mál og rangt, málfræðilega greiningu o.þ.h.

Önnur ástæða er alþjóðavæðingin. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kyn­slóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.

Í íslenskuhluta aðalnámskrár framhaldsskóla frá 1999 segir: „Með íslenskukennslu í framhaldsskólum skal stuðlað að því að nemendur öðlist jákvætt viðhorf til íslensku og kynnist áhrifamætti og margbreytileika málsins.“ Þetta er mikilvægt, því að í erlendum rannsóknum hefur verið sýnt fram á að viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst við­horf ungu kynslóðarinnar, ræður miklu um framtíðarhorfur málsins. Skeytingarleysi í garð íslenskunnar virðist því miður vera of útbreitt.

Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt hún sé höfð á eftir ensku á skiltum í Leifsstöð. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt auglýsingar í búðargluggum séu eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt einhver fyrirtæki sendi starfsmönnum tölvupóst sem er eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt fjöldi verslana auglýsi „Black Friday“, „Cyber Monday“ og „Singles Day“. En það sýnir, meðvitað eða ómeðvitað, ákveðið viðhorf til íslenskunnar – viðhorf sem smitar út frá sér og gerir meiri skaða en við áttum okkur á í fljótu bragði.

Gildi íslenskunnar fyrir okkur sjálf og íslenskt málsamfélag er ómetanlegt eins og hér hefur áður verið lýst. Ef unga kynslóðin missir trú á málinu og hættir að vera annt um það er það dauðadæmt. En dauðastríð íslenskunnar yrði langt og sársaukafullt, bæði fyrir málsamfélagið og okkur sem eigum hana að móðurmáli. Þess vegna þurfum við að leggja megináherslu á að skapa jákvætt viðhorf til íslenskunnar – sjá til þess að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum. Það er á ábyrgð okkar allra.