Category: Málfar

Hátíðardagur og hátíðisdagur

Í Málvöndunarþættinum var spurt út í tvímyndirnar hátíðardagur og hátíðisdagur – hvort báðar séu réttar, og hvernig skýra megi þá síðari í ljósi þess að hátíð er kvenkynsorð sem er hátíðar í eignarfalli eintölu. Því er til að svara að báðar myndirnar koma fyrir í fornu máli og eru álíka algengar, á fjórða tug dæma um hvora um sig. Í nútímamáli er myndin hátíðisdagur mun algengari – um hana eru rúm 13 þúsund dæmi á tímarit.is en rúm fjögur þúsund um hátíðardagur. Í Risamálheildinni eru hlutföllin svipuð – rúm 4.250 dæmi um hátíðisdagur en tæp 1.400 dæmi um hátíðardagur. Það er því ljóst að báðar myndirnar hljóta að teljast rétt mál, enda segir Málfarsbankinn: „Bæði .kemur til greina að segja hátíðisdagur og hátíðardagur.“

Í Íslenskri orðsifjabók er orðið hátíð sagt líklega vera tökuorð eða þýðingarlán úr miðlágþýska orðinu hochtît (hochzeit í nútímaþýsku). Þegar tökuorð eru aðlöguð málinu getur oltið á ýmsu hvernig það er gert, t.d. hvaða kyn nafnorð fá. Það er ekki útilokað að myndin hátíði hafi eitthvað verið notuð þótt hátíð hafi vissulega alltaf verið aðalmyndin – a.m.k. eru nokkur orð í fornmáli með fyrri liðinn hátíðis- sem væri eðlilegt eignarfall af hvorugkynsorðinu hátíði. Orðið hátíði kemur þó aldrei fyrir sjálfstætt svo að öruggt sé – að vísu er hátíðis dagur oft skrifað í tvennu lagi í handritum en á því er ekki hægt að byggja því að samsett orð voru mjög oft skrifuð þannig áður fyrr – sama gildir t.d. um hátíðar dagur.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar kemur fram að eitt dæmi sé um hvorugkynsorðið hátíði ­– í Ljóðmælum Jóns Árnasonar á Víðimýri frá 1879. Örfá dæmi eru um hátíði á tímarit.is en þau gætu verið villur – sum þeirra koma fyrir í textum þar sem hátíð í kvenkyni kemur einnig fyrir. Nokkur önnur orð með fyrri liðinn hátíðis- koma einnig fyrir í nútímamáli. Í ljósi þess að kvenkynsorðið hátíð er mjög algengt en hvorugkynsorðið hátíði kemur nánast ekki fyrir (og svo sem ekki öruggt að það hafi nokkurn tíma verið til sem sjálfstætt orð) má virðast sérkennilegt að myndin hátíðisdagur skuli hafa orðið aðalmynd orðsins en ekki hátíðardagur. Það er þó ekkert einsdæmi að orð hagi sér öðruvísi í samsetningum en þegar þau standa ein sér.

Hryðjuverk

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá því að maður vopnaður sverði hefði ráðist á fólk í London í morgun – drepið ungling og sært fjögur önnur. Á eftir atvikalýsingu var sagt: „Lögregla telur hættuna liðna hjá og árásin sé ekki hryðjuverk.“ Þótt ég hafi vissulega heyrt og séð svipað orðalag margoft áður kippist ég alltaf svolítið við, vegna þess að í því máli sem ég ólst upp við hefði slík árás einmitt fallið undir hryðjuverk. Það samræmist líka skýringu orðsins í Íslenskri orðabók: 'ódæðisverk, manndráp, limlesting.' Elstu dæmi um orðið eru frá 17. öld. Fyrri hluti þess er leiddur af nafnorðinu hroði ­og hryðjuverk er því eiginlega 'hroðalegt verk'. Áður fyrr var orðið notað um hvers kyns ódæði sem ekki yrðu öll kölluð hryðjuverk nú.

Í Ingólfi 1855 segir t.d. frá mönnum sem voru ákærðir fyrir að hafa „yfirfallið næturvörð bæjarins með höggum og slögum; við hver áflog nöglin rifnaði svo upp á þumalfingri næturvarðarins, að hún að eins lafði á lítilli taug“. Í dómsúrskurði sagði: „Um Guðmund varð að vísu ekki sannað með vissu, að hann persónulega hefði misþyrmt næturverðinum, og heldur voru líkur að því, að hann hefði otað Vigfúsi fram til hryðjuverkanna.“ Í Fjallkonunni 1889 er sagt frá kvennamorðum Jack the Ripper: „er helst haldið að einhver úr lögreglunni sjálfri sé valdr að þessum hryðjuverkum.“ Undir fyrirsögninni „Slysfarir og hryðjuverk“ í Ísafold 1892 segir m.a.: „Maður beit því nær nef af kvennmanni á Fagranesi á Reykjaströnd.“

Mjög oft eru hryðjuverk þó ekki einangruð ódæðisverk sem einstaklingar fremja heldur þáttur í stríðsátökum og framin af stærri hópi, oft óskilgreindum, eða jafnvel heilum þjóðum. Í Þjóðólfi 1863 segir: „Í Pólen hjarir uppreistnin enn, og hafa verið smábardagar, manndráp og hryðjuverk.“ Í Baldri 1869 segir: „Nú var farið að tala um hryðjuverk þau, sem unnin voru í borgarastyrjöldinni, og ránskap Karlunga.“ Í Norðanfara 1879 segir: „Níhílistar hefna sín með verstu hryðjuverkum og leggja eld í bæji, þar sem þeir koma því við.“ Fjallkonunni 1891 segir: „Borgarastríðið stendr enn þá, og eru ógurleg hryðjuverk framin daglega.“ Í Lögbergi 1895 segir: „Ennþá halda hryðjuverk Tyrkja og ofsóknir við kristna menn áfram í Armeníu.“

Á síðustu árum hefur merking orðsins hins vegar orðið sérhæfðari eins og skýring þess í Íslenskri nútímamálsorðabók sýnir: 'ódæðisverk sem framið er til að skapa ótta meðal fólks, eða til fá einhverjum pólitískum eða trúarlegum kröfum fullnægt.' Þessi sérhæfing orðsins er a.m.k. síðan um síðustu aldamót. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Alþjóðasambandið undirstrikar að dráp á einungis einni manneskju er ofbeldisverk sem skoða má sem hryðjuverk.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Líta yfirvöld á sprengjutilræðin sem hryðjuverk.“ Í DV 2002 segir: „Þar sem enn er deilt um hvernig skilgreina skuli hugtakið „terroristi“ eða „hryðjuverkamaður“ er mikil hætta á að friðsamlegar aðgerðir fólks verði skilgreindar sem „hryðjuverk“.“

Orðið hryðjuverk hefur því í raun verið gert að eins konar íðorði og notað sem þýðing á (act of) terrorism í ensku. Skilgreining þess fer því ekki eingöngu eftir eðli verknaðarins heldur einnig ástæðu hans og það þýðir að tiltekið ódæðisverk getur ýmist talist hryðjuverk eða ekki, eftir því hvað liggur að baki. Vegna þess að ódæðið sem sagt var frá í upphafi virðist hafa verið einangraður tilfallandi atburður en ekki á vegum einhverra pólitískra samtaka eða í pólitískum tilgangi er það ekki talið hryðjuverk. Það er í sjálfu sér gagnlegt að hafa sérstakt orð yfir ódæði af þessu tagi og ekki illa til fundið að nýta orðið hryðjuverk í þeim tilgangi, þótt það geti stundum verið svolítið ruglandi fyrir þau sem ólust upp við almennari merkingu orðsins.

Neðan úr loftinu

Í dag var hér bent á að stundum væri sagt ljósakrónan hangir neðan úr loftinu sem væri undarlegt þar sem neðan þýddi 'upp', sbr. koma neðan úr kjallara. Fyrirspyrjandi taldi sig sjá þetta og heyra æ oftar og velti fyrir sér hvernig stæði á þessum misskilningi. Það er rétt að í fljótu bragði virðist þetta ekki samræmast venjulegri merkingu forsetningarinnar/atviksorðsins neðan eins og henni er lýst í orðabókum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er neðan skýrt 'fyrir neðan eitthvað, neðan við eitthvað' og í Íslenskri orðabók '(um hreyfingu frá lægri stað til hærri) upp', (koma að neðan) 'um það sem er lægra eða undir e-u' (neðan bæjarins) og '(í sambandi við ao. eða fs.) á lægri stað en e-ð annað' (neðan undir klettinum, fyrir neðan bæinn).

Í öllum þessum merkingartilbrigðum er vísað til hreyfingar. En neðan getur líka vísað til kyrrstöðu, í merkingunni 'neðri hluti', 'neðra borð' – í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið að neðan sjálfstæð fletta og skýrt m.a. 'að neðanverðu' og í Íslenskri orðabók er neðan til, að neðan skýrt á sama hátt. Í Blöndu 1923 segir: „Hún var altaf í karlmannafötum, buxum að neðan auðvitað.“ Í Eimreiðinni 1937 segir: „Einn félaganna fór þó yfir hana á þann hátt, að hann fór úr fötum að neðan og óð.“ Í Iðunni 1860 segir: „Öll er pentskript þessi neðan á loptinu óskemmd enn í dag.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir  „Pönnukökupannan er hituð og kökurnar bakaðar við góðan hita þar til komnir eru svartir flekkir neðan á þær.“

Sambandið neðan úr loftinu er ekki óeðlilegt út frá þessu – það merkir í raun 'úr loftinu að neðan, úr neðra borði loftsins'. Sambandið hefur líka tíðkast lengi – elsta dæmið er í Þjóðólfi 1909: „bróðir hans kom skríðandi niður kaðalinn, er hékk neðan úr loptinu.“ Í Morgunblaðinu 1940 segir: „Þar rak jeg augun í eitthvað mjer alveg óþekt, sem hekk neðan úr loftinu.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Köngurlóavefir hjengu neðan úr loftinu, þykkt ryklag var á gólfinu.“ Alls eru hátt í hundrað dæmi um neðan úr loftinu á tímarit.is og um fjörutíu í Risamálheildinni. Þótt neðan vísi vissulega langoftast til hreyfingar er engin hætta á misskilningi í þessu tilviki – neðan úr loftinu gæti ekki merkt neitt annað en það gerir.

Há hálsbólga?

Nýlega birtist á vef Ríkisútvarpsins frétt með fyrirsögninni „Lægsta verðbólga á Íslandi í rúm tvö ár“. Í tilefni af því var spurt í Málvöndunarþættinum: „Getur hálsbólga líka lækkað og hækkað?“ Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlileg spurning – með orðinu bólga einu og sér, sem og samsetningum með það sem seinni lið svo sem hálsbólga, lungnabólga, heilahimnubólga, blöðrubólga, eyrnabólga, júgurbólga o.m.fl., standa yfirleitt önnur lýsingarorð en hár og lágur, og aðrar sagnir en hækka og lækka. Algengast er að tala um að bólga sé mikil og vaxi eða aukist eða versni, eða lítil og minnki eða batni – þegar um útvortis bólgu er að ræða er oft talað um að hún hjaðni. En verðbólga er vissulega annars eðlis og ekki undarlegt að hún hagi sér öðruvísi.

Eins og Jón Hilmar Jónsson hefur rakið í ágætri grein á Vísindavefnum er elsta dæmi um orðið verðbólga í ræðu Jónasar Jónssonar frá Hriflu á Alþingi árið 1927 þar sem hann eignar Jóni Þorlákssyni forsætisráðherra orðið. Það var þó ekki fyrr en undir 1940 að orðið varð algengt og þá fara að sjást með því ýmis lýsingarorð og sagnir. Elsta dæmi um mikil verðbólga er frá 1940, um lítil verðbólga frá 1946, um verðbólga vex frá 1941, um verðbólga hjaðnar frá 1940, um verðbólga eyst frá 1942, um verðbólga minnkar frá 1944. Það er því ljóst að framan af voru notuð sömu lýsingarorð og sagnir með orðinu verðbólga og með öðrum samsetningum af -bólga. Þetta virðist ekki hafa farið að breytast að ráði fyrr en á áttunda áratugnum.

Í umræðum í Málvöndunarþættinum benti Einar Ólafsson á lykilatriði málsins: „Ef hálsbólgan væri mæld og gefin upp í tölum eins og verðbólga“ væri eðlilegt að nota um hana lýsingarorðin hár og lágur, og sagnirnar hækka og lækka. Elsta dæmi um sambandið há verðbólga er frá 1974, um lág verðbólga frá 1970. Fáein dæmi eru um lækka og hækka með verðbólga frá því á fimmta áratugnum en þessi sambönd fara ekki að sjást að ráði fyrr en eftir 1970. Það er einmitt um svipað leyti sem farið er að tala um verðbólgumælingar. Elsta dæmi um það á tímarit.is er að vísu frá 1959, en annars sjást ekki dæmi fyrr en á áttunda áratugnum – verðbólga mæld 1972, verðbólga mælist 1974, verðbólgumæling 1974, mæla verðbólgu 1979, o.s.frv.

Það er því ekki vafi á að þetta hangir saman – mælingar valda breyttri notkun lýsingarorða og sagna. Það þýðir samt ekki að hætt sé að nota önnur lýsingarorð og sagnir með orðinu verðbólga. Þvert á móti – í Risamálheildinni eru almennu lýsingarorðin og sagnirnar, þau sem notuð eru með öðrum -bólgu-orðum, yfirleitt talsvert algengari en þau „sérhæfðu“, hár og lágur, hækka og lækka – eina undantekningin er sú að lág verðbólga er talsvert algengara en lítil verðbólga. En þetta dæmi sýnir annars vegar að þótt orð hafi sama seinni lið þýðir það ekki endilega að þau taki með sér sömu sagnir og lýsingarorð, og hins vegar að þótt merking orðins verðbólga hafi ekki breyst hafa breytingar á notkun þess áhrif á orðin sem það tekur með sér.

Breytum viðhorfi og framkomu

Í Vísi í dag er mjög fróðlegt viðtal við Randi Stebbins, konu frá Bandaríkjunum sem býr á Íslandi og margt í því sem við þurfum að taka eftir – og taka til okkar. Hún er lögfræðingur en hefur ekki leyfi til að starfa sem slík á Íslandi, þrátt fyrir að vera sérfræðingur á sviði þar sem okkur vantar sárlega fólk – málefni innflytjenda. Hún segir: „Ég er bara alls ekki sammála því að allar konur af erlendu bergi brotnu þurfi að byrja á því að vinna á leikskóla. Því okkur er endalaust sagt að það sé svo gott fyrir okkur að læra íslenskuna þar. […] Það er bara alls ekki rétt. Ég lærði íslenskuna í Háskóla Íslands. Það er bara alls ekki réttlátt að því sé endalaust haldið að konum sem flytja til Íslands, að þær þurfi að vinna á leikskóla.“

Þetta er athyglisvert. Ég hef oft heyrt því haldið fram að leikskóli sé góður staður til að læra íslensku en ég hef aldrei heyrt áður að því sé beinlínis haldið að fólki að það þurfi að vinna á leikskóla til að læra málið. Sjálfsagt er það sagt af góðum hug, og vissulega getur fólk lært talsvert í málinu af samskiptum við börn og skiljanlegt að innflytjendur séu ráðnir á leikskóla í því starfsfólkshallæri sem ríkir. En þótt þeir geti vitanlega verið frábært starfsfólk verður ekki litið fram hjá því að notkun leikskóla til íslenskukennslu fer ekki vel saman við það mikilvæga hlutverk leikskólans að efla málþroska barnanna, eins og hér hefur oft verið bent á. Hátt hlutfall starfsfólks sem talar litla íslensku dregur úr íslensku í málumhverfi barnanna.

En Randi var ekki bara nemandi í Háskóla Íslands, heldur starfaði þar líka í átta ár, m.a. sem forstöðumaður Ritvers Háskólans og það reyndi oft á: „Starfið þar var erfitt því til viðbótar við það að sinna því sem starfsmaður, fór jafn mikill tími í að vera að sanna mig. Því gagnrýnin var svo oft á að ég væri ekki að skilja fræðiskrif á íslensku, væri ekki að skrifa nógu góða íslensku sjálf og svo framvegis. […] Þarna þurfa Íslendingar aðeins að fara að hugsa sinn gang. Samfélagið er að breytast og ef ætlunin er að nýta mannauð fólks sem kemur erlendis frá, getum við ekki verið föst í að hér geti enginn gert neitt eða kunnað 100% nema hann eða hún eigi ömmu sem fæddist á Íslandi. Það er bara alls ekki þannig.“

Þetta er grundvallaratriði – við þurfum að breyta viðhorfi okkar til „ófullkominnar“ íslensku og framkomu okkar við fólk sem hefur ekki náð fullkomnu valdi á málinu. Randi hefur gert sitt til að stuðla að því og stofnað „ÓS Pressuna, sem ætlað er sem vettvangur fyrir fólk erlendis frá til skapandi skrifa. […] ÓS gengur út á skapandi skrif og það er mjög mikilvægt fyrir fólk sem talar annað tungumál að móðurmáli að hafa vettvang til skapandi skrifa.“ Þetta er hárrétt og skáldverk innflytjenda hafa sannarlega auðgað íslenskuna að undanförnu. Íslenskan þarf nefnilega að endurspegla það samfélag sem býr í landinu og það gerir hún ekki nema við veitum fólki sem á hana ekki að móðurmáli fullan aðgang að íslensku málsamfélagi.

Að hafast og hefjast

Í Málvöndunarþættinum sá ég bent á að í sjónvarpsfréttum í gær hefði sambandið „Þetta hófst“ verið notað í merkingunni 'þetta kláraðist, þetta tókst' eins og um væri að ræða sögnina hafast. Hefðbundin beyging þeirrar sagnar en hins vegar veik, þannig að þarna hefði mátt búast við myndinni hafðisthófst er hins vegar hefðbundin þátíð sagnarinnar hefjast sem merkir 'fara í gang, byrja'. Þarna var þessum tveim sögnum því slegið saman sem er ekkert einsdæmi. Skýringin er væntanlega sú að beyging þeirra fellur saman að hluta – (ég) hef, (þú) hefur, (hann/hún/hán) hefur er framsöguháttur nútíðar í eintölu af báðum sögnunum. Í umræddu tilviki var þetta samfall yfirfært á þátíðina og hófst notað sem þátíð af hafast.

Slæðing af hliðstæðum dæmum má finna frá síðasta aldarfjórðungi en vel má vera að eldri dæmi séu til. Í DV 2000 segir: „Ég fékk eiginlega of stóran skammt en þetta hófst allt saman á endanum.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þetta hófst allt að lokum og rúmlega það.“ Í blaðinu 2007 segir: „Það tók mig svolítinn tíma að sannfæra hann um að taka þátt í þessu, en það hófst á endanum.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var erfið fæðing hjá okkur en þetta hófst að lokum.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Það hófst að lokum og þá lá leiðin upp í brú.“ En þetta eru ekki einu dæmin um að beyging sagnanna hefjast og hafast blandist saman eins og Jón G. Friðjónsson benti á í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2005.

Jón segir að beyging sagnanna sé „mjög ólík og merking þeirra reyndar einnig“ en heldur áfram: „Samt er það svo að þessum sögnum (einkum vh.þt.) er stundum ruglað saman“ og nefnir dæmi um notkun hefðust í stað hæfust en segir síðan: „Hér er vafalaust um að ræða klaufaskap eða mismæli fremur en tilhneigingu til málbreytingar (þótt ruglingur sagnanna hefja og hafa í viðtengingarhætti þátíðar sé reyndar allgamall).“ Mér finnst hins vegar mun líklegra að um tilhneigingu til málbreytingar sé að ræða. Nútíð viðtengingarháttar af hefjast er (þótt ég) hefjist og ekki furða að málnotendum finnist eðlilegt að þátíð viðtengingarháttarins sé (þótt ég) hefðist frekar en (þótt ég) hæfist – það er hliðstætt t.d. (þótt ég) krefjist – (þótt ég) krefðist.

Dæmi eru allt frá 19. öld um hefðist í stað hæfist. Í Heimskringlu 1895 segir: „hjá því gat ekki farið að almenningur, svívirtur og þrælkaður, hefðist handa að lokum.“ Í Verkamanninum 1919 segir: „Reyndar væri eðlilegast að læknarnir hefðust handa í þessu máli.“ Í Alþýðublaðinu 1930 segir: „Setti þá Alþýðuflokkurinn á stefnuskrá sína, að þegar hvalveiðar hefðust á ný, þá ætti landið sjálft að reka þær veiðar.“ Í Landnemanum 1943 segir: „Honum var bersýnilega umhugað um, að umræðurnar hefðust aftur.“ Í Degi 1988 segir: „ekki bjóst hann við að viðræður hefðust á ný á næstunni.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Varaði fundurinn við hræðsluáróðri öfgasamtaka og hvatti til þess að hvalveiðar hefðust strax á nýju ári.“

Beyging sagnanna hafast og hefjast blandast því saman á tvennan hátt – annars vegar kemur framsöguháttur þátíðar af sterku sögninni hefjast í stað samsvarandi myndar af veiku sögninni hafast, þ.e. hófst í stað hafðist. Það er athyglisvert vegna þess að stefnan í málbreytingum er venjulega öfug, frá sterkum myndum í veikar. Þarna spilar e.t.v. inn í að hófst er styttri og einfaldari mynd en hafðist. Í hinu tilvikinu er stefnan öfug – þar kemur viðtengingarháttur þátíðar af veiku sögninni hafast í stað samsvarandi myndar af sterku sögninni hefjast. Þar er skýringin væntanlega einföldun eins og áður segir – hefðust liggur beinna við en hæfust. En þótt þessar breytingar séu eðlilegar væri æskilegt að halda sögnunum áfram aðgreindum.

Við þurfum að ræða viðmið og kröfur

Umræðan um íslenskukennsku og mikilvægi íslenskukunnáttu heldur áfram. Í ágætu viðtali í Ríkissjónvarpinu í gær spurði Jasmina Vajzović Crnac: „Hver eru viðmiðin? Hve mörg orð þarf ég að kunna? Þarf ég að kunna málfræði? Hversu mikla kunnáttu þarf ég að vera með til að starfa í ferðaþjónustunni, hótelinu eða við að þrífa? Eða eins og ég, í stjórnunarstarfi? Hversu miklar kröfur eigum við að gera til þess? Og við þurfum að setja kröfur. Það er bara eðlilegt og almennt þurfum við að setja kröfur á allt í samfélaginu.“ Þetta rímar alveg við það sem ég skrifaði fyrir þremur árum um ensku á Íslandi og nauðsyn þess „að hefja öfluga og markvissa umræðu um það hvaða hlutverk og stöðu við ætlum henni í málsamfélaginu“:

„Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig eflum við íslenskuna þannig að hún verði nothæf á öllum sviðum þjóðlífsins? Hvernig gerum við íslenskuna áhugaverðari og eftirsóknarverðara að nota hana? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?“ Ég bætti við: „Þetta eru nokkur dæmi um það sem þarf að ræða á næstunni – og byrja strax.“ Því miður hefur skipuleg umræða um þetta enn ekki hafist – en verður sífellt brýnni.

Sótsvartur almúginn

Hér var nefnt í gær að í þætti í Ríkisútvarpinu hefði verið talað um „sótsvartan almúgann“ þótt venja væri að tala um sauðsvartan almúgann – í þættinum var spurt: „Hvað þurfum við, sótsvartur almúginn að borga stóran hluta af mánaðarlaununum okkar fyrir eina nótt á fimm stjörnu hóteli á Íslandi?“ Það er auðvitað rétt að venjuleg gerð orðasambandsins er sauðsvartan almúgann – það er t.d. gefið í Íslenskri orðabók og skýrt 'ómenntað fólk, alþýða manna, almenningur'. Elsta dæmi um sambandið á tímarit.is er í Gesti Vestfirðingi 1850: „Gestur er heldur ekki upp á marga fiska, og ekki fyrir sauðsvarta almúgann töfluverkið í honum.“ Á tímarit.is eru tæp 1200 dæmi um sambandið, og í Risamálheildinni eru dæmin tæplega 650.

En það er ekki nýtt að tala um sótsvartan almúgann – elsta dæmið á tímarit.is er í Speglinum 1943: „en trúboðið gengi illa meðal sótsvarts almúgans.“ Spegillinn var reyndar skopblað, „samvizkubit þjóðarinnar“, þannig að þetta gæti verið skrifað í gríni. Næsta dæmi er úr Alþýðublaðinu 1961: „meðan sótsvartur almúginn dansi á götum úti.“ Í Alþýðublaðinu 1985 segir: „Mismunurinn er því 6.6 milljónir króna og munar um minna – að minnsta kosti fyrir sótsvartan almúgann!“ Þrjú dæmi í viðbót eru fram að aldamótum en um 2005 fer þeim að fjölga og eru hátt í 30 frá þessari öld. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í 150, þar af um 110 af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að þetta afbrigði orðasambandsins er í sókn.

Orðið sauðsvartur merkir 'sem hefur eðlilegan svartan sauðarlit'. Með breyttri þjóðfélagsgerð og lífsháttum er kannski ekkert óeðlilegt að tengsl við sauðkindur og sauðarlit dofni í huga fólks og leitað sé annað í líkingum. Vissulega má segja að sót sé ekki heldur áberandi í umhverfi okkar núorðið en hins vegar er sót- algengur áhersluforliður – notaður í orðum eins og sótillur, sótrauður, sótreiður, sótvondur, sótbölva, sótroðna o.fl. Orðið sótsvartur er ekki heldur tengt við sót í orðabókum, heldur skýrt 'dökkur, kolsvartur' í Íslenskri orðabók og 'mjög dökkur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þótt farið sé að tala um sótsvartan almúgann þótt mörgum finnist örugglega æskilegt að halda í eldri gerð sambandsins.

Evstur

Í gær var hér spurt hvort framburður með rödduðu hljóði, v, væri að verða algengari í lýsingarorðinu efstur – þ.e. evstur [ɛvstʏr̥]. Í venjulegum framburði er þarna óraddað f-hljóð en í miðstiginu efri er hins vegar raddað hljóð, v, þótt skrifað sé f. Inni í orðum er meginreglan sú að á undan sérhljóðum og rödduðum samhljóðum, t.d. r, kemur raddaða hljóðið v, í orðum eins og efi [ɛːvɪ] og efri [ɛvrɪ], en á undan órödduðum samhljóðum eins og s og t kemur óraddaða hljóðið f, í orðum eins og ofsi [ɔfsɪ] og aftur [aftʏr̥], og þess vegna mætti búast við órödduðu f í efstur [ɛfstʏr̥]. Framburðurinn evstur er hins vegar þekktur en lítið er hægt að byggja á rituðum textum um tíðni hans þar sem bókstafurinn f getur bæði staðið fyrir hljóðið f og v.

Lítill vafi er á að þennan framburð má rekja til áhrifa frá miðstiginu efri þar sem f stendur fyrir raddað hljóð, enda raddað r á eftir. Svipuð áhrif einnar beygingarmyndar á aðra eru vel þekkt – það er rík tilhneiging til að stofn orðs haldi alltaf sömu hljóðum, enda þótt það gangi gegn venjulegum hljóðreglum. Sem dæmi má nefna sögnina segja þar sem borið er fram tvíhljóðið ei þótt skrifað sé e enda er almenn regla að sérhljóð tvíhljóðist á undan gi og gj. En boðhátturinn segðu er líka borinn fram með ei þótt þar komi hvorki gi gj á eftir – það eru áhrif frá öðrum nútíðarmyndum orðsins. Aftur á móti er venjulega borið fram einhljóðið e í þriðju persónu viðtengingarháttar þátíðar sem er skrifuð eins, (þótt þau) segðu – áhrifin ná ekki til þátíðarinnar.

Þótt framburðarmyndin seigðu í boðhætti gangi gegn almennum hljóðreglum málsins er hún því bæði skiljanleg og eðlileg, enda dettur engum í hug að amast við henni. En öðru máli gegnir um evstur. Málfarsbankinn segir: „Orðið efstur er ekki borið fram „evstur“. Réttur framburður er „efstur“.  Baldur Jónsson segir í Málfregnum 1988: „Þó að sleppt sé öllum smekkleysum, klaufaskap og álitamálum verður því ekki neitað að í útvarpi og sjónvarpi er allt of mikið um ambögur sem varla verða kallaðar neitt annað en málvillur. Ég nefni t.d. framburðinn evstur fyrir efstur [...].“ Jónas Kristjánsson segir í DV 1989: „Og málhelti af ýmsu tagi er útbreitt, ekki síður meðal „evstu“ fréttaþula í sjónvarpi en annarra, sem þar koma minna fram.“

Vitanlega er miklu eldri og ríkari hefð fyrir framburðinum efstur með órödduðu f – en það er líka hefð fyrir því í málinu að viðurkenna ýmis gamalgróin tilbrigði í framburði eins og alkunna er. Erfitt er að fullyrða nokkuð um aldur framburðarins evstur – eins og áður segir er ekki hægt að byggja á rituðum textum um tíðni hans og sama gildir vitaskuld um aldurinn. Mér finnst ég þó hafa heyrt þessum framburði bregða fyrir í að minnsta kosti 40-50 ár og minnst er á hann í textum frá því fyrir 1990 eins og áður segir, og hann gæti verið mun eldri. Áhrifsbreyting af þessu tagi er fullkomlega eðlileg og það er komin svo löng hefð á framburðinn evstur að það er engin ástæðu til að amast við honum, hvað þá kalla hann rangan.

Enskumælandi ráð vinnur ekki gegn íslensku

Undanfarna daga hafa orðið heilmiklar umræður um enskumælandi íbúaráð sem starfandi er í Mýrdalshreppi. Ráðið var reyndar stofnað fyrir tveimur árum en stofnun þess virðist ekki hafa vakið sérstök viðbrögð á þeim tíma. Upphlaupið núna er því óhjákvæmilegt að setja í samband við umræður undanfarið um fjölgun útlendinga í samfélaginu og ýmis vandræði sem hún skapi. Ég get alveg tekið undir það að vitanlega hefði verið best að ekki hefði þurft að stofna þetta ráð. Vitanlega væri best ef innflytjendur töluðu íslensku reiprennandi og gætu tekið fullan þátt í lýðræðislegri umræðu í samfélaginu án þess að þurfa sífellt að sitja undir gagnrýni og jafnvel háðsglósum vegna ófullkominnar íslensku eins og mörg hafa lent í.

En það er bara ekki þannig og þar er ekki aðallega innflytjendunum sjálfum um að kenna. Meginábyrgðin liggur hjá okkur, innfæddum Íslendingum. Við ráðum fólk til starfa án þess að gera nokkrar kröfur um íslenskukunnáttu og án þess að gefa því tækifæri til að læra málið. Það er vont, og enn verra er ef við ætlum líka að útiloka fólkið frá þátttöku í lýðræðislegri umræðu. Ef enskumælandi ráð gefur fólki kost á þátttöku í samfélagsumræðu og stjórnmálum sem það hefði ekki haft annars er það vitanlega miklu betri kostur en að skortur á íslenskukunnáttu útiloki fólk frá slíkri þátttöku. Það er betri kostur fyrir samfélagið og lýðræðið, dregur úr skautun og hættunni á því að hér verði til tvískipt samfélag Íslendinga og innflytjenda.

Það sem meira er – þetta er líka miklu betri kostur fyrir íslenskuna vegna þess að það gerir innflytjendur ánægðari í íslensku samfélagi, fær þá til að upplifa sig sem hluta af samfélaginu, og eykur þannig líkurnar á því að þeir finni hjá sér hvöt og þörf til að læra íslensku. „Núna líður okkur ekki eins og við séum útskúfuð úr samfélaginu okkar“ segir formaður enskumælandi ráðsins í Vík, og eins og fundargerðir ráðsins sýna hefur þar mikið verið rætt um inngildingu og möguleika á aukinni og bættri íslenskukennslu. Í nýrri yfirlýsingu Samtaka kvenna af erlendum uppruna er líka bent á að ráð af þessu tagi auki bæði tækifæri og hvata innflytjenda til að bæta íslenskukunnáttu sína, auk þess að hvetja til virkrar samfélagsþátttöku.

Í umræðunni hefur verið bent á að fæstir innflytjenda eigi ensku að móðurmáli og því gefi enskumælandi ráð þeim ekkert frekar tækifæri til að tala móðurmál sitt en þátttaka í stjórnsýslu á íslensku myndi gera. Það er auðvitað alveg rétt, en það sem hér skiptir máli er að enskan er hlutlaus – þar stendur fólk jafnt að vígi og þarf ekki að búa við þann aðstöðumun sem verður á milli Íslendinga og innflytjenda þegar umræður fara fram á íslensku. En meginatriðið er að enskumælandi ráð er ekki markmið í sjálfu sér, heldur viðbrögð við vanda. Einangrun innflytjenda og tilkoma tveggja aðskilinna samfélaga í landinu er það versta sem getur komið fyrir íslenskuna og stofnun enskumælandi ráðs vinnur gegn slíku.