Í Kastljósi í kvöld var forsætisráðherra spurð hverju það sætti að framlög til kennslu íslensku sem annars máls væru skorin niður þrátt fyrir að OECD hefði bent á að færri innflytjendur næðu tökum á þjóðtungunni hér en í öðrum OECD-löndum. Þessu svaraði ráðherrann svo: „Mest af þeim framlögum sem eru að minnka ef svo má segja í málaflokki útlendingamála er vegna þess að umfang þeirra sem eru að koma til landsins er að minnka. Það kom auðvitað stórkostlegur kúfur hér á sínum tíma, það var stór hópur sem kom frá Úkraínu, það var hópur sem kom frá Venesúela og það hafa orðið breytingar í þeim málaflokki. Lykilatriðið í þessu er að við erum að nálgast þetta með heildrænum hætti“ – sem mér er ekki alveg ljóst hvað þýðir.
Annaðhvort er forsætisráðherra meðvitað að afvegaleiða umræðuna með þessu svari eða hún áttar sig ekki á því um hvað málið snýst. Það sem hún segir um fækkun þeirra sem eru að koma að utan á augljóslega eingöngu við um hælisleitendur, enda vísar hún sérstaklega til fólks frá Úkraínu og Venesúela. En innflytjendum yfirleitt hefur alls ekki fækkað frá því í fyrra heldur fjölgað, þótt vissulega hafi hægt á fjölguninni. Þær tímabundnu fjárveitingar sem ég hef bent á að eru felldar niður í fjárlagafrumvarpinu, 250 milljónir til eflingar íslenskukennslu fyrir útlendinga og 150 milljónir vegna aðgerðaáætlunar um inngildingu innflytjenda og flóttafólks, áttu að gagnast öllum innflytjendum en alls ekki bara hælisleitendum.
En jafnvel þótt dregið hafi úr fjölgun innflytjenda síðasta ári þýðir það ekki að útlendingum sem hér búa hafi fækkað – nú eru rúmlega áttatíu þúsund erlendir ríkisborgarar á Íslandi og hefur fjölgað um þrjátíu þúsund á fimm árum og um fimmtán þúsund síðustu tvö og hálft ár. Þess vegna eru rök forsætisráðherra fyrir lækkun framlaga til íslenskukennslu og inngildingar fullkomlega haldlaus – íslenskukennsla og inngilding þessa fjölda er ekkert áhlaupaverk sem hægt er að afgreiða með tímabundinni fjárveitingu til eins árs eins og öllum sem hafa snefil af þekkingu og skilningi á tungumálanámi hlýtur að vera ljóst. Að læra nýtt tungumál er langtímaverkefni, ekki síst fyrir fólk sem er í fullri vinnu eins og þorri innflytjenda er.
Íslenskukennsla innflytjenda er verkefni sem við höfum lengi vanrækt. Að sumu leyti er það skiljanlegt – fjölgun innflytjenda hefur verið svo ör að kerfið var gersamlega óviðbúið og vanbúið til að takast á við hana, bæði á þessu sviði og öðrum. En því lengur sem við bíðum með að takast á við verkefnið af alvöru þeim mun óviðráðanlegra verður það – og því alvarlegri verða afleiðingarnar, bæði fyrir fólkið sjálft, íslenskt samfélag, og íslenska tungu. Þess vegna er dapurleg skammsýni hjá stjórnvöldum að stórlækka framlög til íslenskukennslu og inngildingar og furðulegt skilningsleysi að halda að tímabundin framlög til eins árs hafi leyst vandann. Ég treysti því að í meðförum Alþingis verði þessi aðför að íslenskukennslu stöðvuð.