Íslenska og útlendingar

Í gær sagði Ríkisútvarpið frá athyglisverðum úrskurði kærunefndar jafnréttismála um að „sendibílastöð megi gera kröfu um að bílstjórar sem aki fyrir hluthafa stöðvarinnar geti gert sig skiljanlega á íslensku og skilji tungumálið“. Það „orkar ekki tvímælis að mati kærunefndarinnar að kröfur um tungumálakunnáttu geta í ýmsum tilvikum talist lögmætar, enda þótt þær komi að einhverju marki niður á einstaklingum sem eru af erlendum þjóðernisuppruna og búa þar með hugsanlega ekki yfir íslenskukunnáttu“. En þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið mál.

Það er lífsnauðsyn fyrir íslenskuna að hún sé notuð á Íslandi þar sem mögulegt er. En við verðum að hafa í huga að þjóðfélagið er orðið fjölmenningarlegt og á Íslandi býr fjöldi fólks sem ekki skilur íslensku, að ekki sé talað um alla ferðamennina sem hingað koma. Auðvitað er óhjákvæmilegt, eðlilegt og sjálfsagt að koma til móts við þetta fólk með notkun ensku (og annarra erlendra tungumála) þar sem við á – enskan á fullan rétt á sér á Íslandi, samhliða íslenskunni á mörgum sviðum. En hún má ekki koma í stað íslensku eða ryðja henni burt.

Ég veit um fólk sem hefur búið hér í 10-15 ár og talar enn ekki íslensku þótt það skilji hana kannski þokkalega. Þetta er fólk sem er hér af ýmsum ástæðum en er langflest komið til að vinna, vegna þess að getum ekki mannað öll nauðsynleg störf eða viljum ekki vinna þau. Því hefur verið spáð að þörf sé á verulegum innflutningi vinnuafls á næstu árum, og vonandi sjáum við sóma okkar í því að taka við fleiri flóttamönnum og hælisleitendum – enda erum við alltof fá.

En ef innflytjendur verða 15-20% landsmanna innan fárra ára eins og búast má við segir það sig sjálft að það hefur áhrif á stöðu íslenskunnar sem til skamms tíma var einráð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þessi breytta staða skapar spennu milli íslensku og ensku. Því er oft haldið fram að allir Íslendingar kunni ensku og þótt það sé sannarlega ofmælt er samt enginn vandi að búa í íslensku þjóðfélagi árum og jafnvel áratugum saman án þess að kunna íslensku því að enskan er alls staðar.

Það er auðvitað gott fyrir þá sem hingað koma, en ber í sér hættu fyrir íslenskuna. Það þýðir að þrýstingurinn á að læra málið er ekki alltaf mjög mikill, a.m.k. ekki fyrir fólk í fullri vinnu sem það hefur nóg með að sinna. Við höfum ekki heldur staðið okkur nógu vel í að auðvelda fólki að læra málið. Við þurfum einhvern veginn að finna leið sem tekur tillit til útlendinga og gerir þeim kleift að bjarga sér í samfélaginu, án þess að íslenskan verði ævinlega víkjandi. Þetta er ekki einfalt, en þetta þarf að ræða – sem er sjaldan gert.

En þótt fólk geti búið í þjóðfélaginu til langframa án íslenskukunnáttu felur það ekki í sér fulla þátttöku. Þetta fólk tekur yfirleitt lítinn þátt í félags- og stjórnmálum, það sækir sér sjaldan langskólamenntun, og þótt sumt af því komi hámenntað til landsins á það erfitt með að fá menntun sína viðurkennda. Ef fólk úr þessum hópi ætlar sér að taka fullan þátt í þjóðfélaginu fær það iðulega á sig gagnrýni vegna ófullkominnar íslenskukunnáttu eins og t.d. Nichole Leigh Mosty fékk að finna.

Sú hætta er fyrir hendi að íslenskan verði notuð, meðvitað eða ómeðvitað, til að búa til lagskipt þjóðfélag – annars vegar menntað fólk sem talar íslensku samkvæmt viðurkenndum málstaðli og ræður öllu í þjóðfélaginu, meðal annars í krafti málfarslegra yfirburða, og hins vegar fólk af erlendum uppruna, jafnvel aðra og þriðju kynslóð innflytjenda, sem hefur ekki gott vald á íslensku og kemst hvergi áfram en situr eftir í láglaunastörfum, áhrifalaust um umhverfi sitt og framtíð. Það er alveg hugsanlegt að til séu atvinnurekendur sem kæra sig ekkert um að erlent starfsfólk þeirra læri íslensku því að þá gæti það farið að gera meiri kröfur, áttað sig betur á réttindum sínum o.s.frv.

Ég legg áherslu á að ég er alls ekki að amast við fjölgun útlendinga – öðru nær. Við þurfum á þeim að halda til fullrar þátttöku í þjóðfélaginu – til að halda uppi því  vestræna velferðar- og menningarþjóðfélagi sem við viljum búa í – og við megum ekki nota tungumálið til að halda þeim niðri. En barátta fyrir íslenskunni má aldrei snúast upp í þjóðrembing og hana má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því.

Við þurfum að átta okkur á hættunni á því að við séum að búa til tvær þjóðir í landinu – „okkur“, sem tölum góða íslensku og sitjum að bestu bitunum hvað varðar völd, áhrif, menntun, tekjur o.s.frv. – og svo „hina“, þá sem tala ófullkomna eða enga íslensku og sitja fastir í láglaunastörfunum, áhrifalausir á öllum sviðum þjóðfélagsins. Fyrir utan þann skaða sem þetta veldur fólkinu sem í því lendir er þetta stórhættulegt fyrir lýðræðið og býr til jarðveg fyrir lýðskrum og öfgastefnur.

Þetta er ekki einfalt mál – að halda íslenskunni á lofti, halda því til streitu að hún sé nothæf og notuð á öllum sviðum, en jafnframt gæta þess að íslenskukunnátta og -færni sé aldrei notuð til að mismuna fólki. Það er brýnt að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu og móti stefnu í þessum málum, eins og mennta- og menningarmálaráðherra hefur talað fyrir. En það er líka brýnt að við, fólkið í landinu, áttum okkur á vandanum og veltum fyrir okkur hvernig eigi að taka á málinu. Þess vegna þurfum við að ræða þetta – „taka umræðuna“ eins og nú er sagt.

En ekki á forsendum útlendingaandúðar og -hræðslu, heldur á jákvæðum nótum. Eins og segir í áðurnefndum úrskurði getur verið nauðsynlegt gera kröfur um íslenskukunnáttu „til að tryggja skilvirk samskipti við viðskiptavini, þar á meðal í störfum í þjónustugeiranum“, en við þurfum að auðvelda útlendingum að læra íslensku og nota hana á öllum sviðum, og við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslenskunotkun, þótt framburður sé ekki fullkominn, beygingar vanti stundum og setningagerðin sé óhefðbundin. Íslenska er alls konar.

Gæfa – eða gjörvuleiki

Í umræðum á Facebook í gær minntist Guðmundur Andri Thorsson á breytingu á notkun orðasambandsins bera gæfu til. Hann sagði: „Við tölum um að við berum (vonandi) gæfu til þessa eða hins, en í seinni tíð er æ algengara að fólk tali um að „okkur beri gæfa“ til þessa eða hins, eins og gæfan sé nokkurs konar mannréttindi ...“. Þetta er samband sem forvitnilegt er að skoða nánar.

Ýmis dæmi um bera gæfu til koma fyrir í fornmáli og þá alltaf með nefnifalli – „þótti mönnum Þorgils mikla gæfu hafa til borið, að stilla slíka ofstopamenn“ segir í Grettis sögu eftir að Þorgils á Reykhólum hafði hýst þá fóstbræður Þormóð Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson ásamt Gretti sterka heilan vetur. „Þótti honum hinn mesti skaði eftir Sighvat bróður sinn, sem var, þó að þeir bæru ekki gæfu til samþykkis stundum sín á milli“ segir í Sturlungu um viðbrögð Snorra Sturlusonar við fréttum af Örlygsstaðabardaga.

Elsta dæmi um aukafall með bera gæfu til sem ég hef rekist á er í Stormi 1929: „ef þinginu ber gæfa til þess að samþykkja það“. Annað dæmi má taka úr Vísi 1939: „þeir sem valdir eru að þessum ófarnaði halda áfram í sinni forherðingu þar til þjóðina ber gæfu til að stöðva þá að fullu“. Fáein dæmi eru um aukafall með þessu sambandi á tímarit.is framan af, einkum eftir 1940, en eftir 1980 fer þeim ört fjölgandi. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá allra síðustu árum eru allmörg dæmi um aukafall með þessu sambandi.

Í dæminu úr Vísi 1939 er notað þolfall sem kemur ekki alveg á óvart – þegar aukafall kemur í stað nefnifalls á frumlagi sagna er það fyrst þolfall ekki síður en þágufall. Mig hlakkar og mig kvíðir var eitt sinn algengara en mér hlakkar og mér kvíðir. Í Málfarsbankanum er líka notað þolfall þar sem varað er við ópersónulegri notkun orðasambandsins: „Orðasambandið bera gæfu til er notað persónulega, ekki ópersónulega. Hún bar ekki gæfu til að sjá þennan fræga stað. Ekki: „Hana bar gæfu til að sjá þennan fræga stað“.“

En ef aukafall er notað með þessu sambandi á annað borð virðist það þó langoftast vera þágufall. Að vísu er oft ekki hægt að skera úr um fallið, því að sambandið virðist af einhverjum ástæðum vera langalgengast í fyrstu persónu fleirtölu og þar eru þolfall og þágufall persónufornafnsins eins – í okkur ber gæfa til er ómögulegt að segja hvort um þolfall eða þágufall er að ræða nema nafnorð fylgi með, eins og í „okkur bekkjarfélögunum bar gæfu til“.

Það er merkilegt við sambandið að það er ekki bara frumlagsfallið sem breytist úr nefnifalli í þágufall – fall andlagsins breytist iðulega líka, úr þolfalli í nefnifall. Í stað ég bar gæfu til kemur mér bar gæfa til eins og sést í dæminu úr Stormi. Þetta er að vísu ekki algilt því að stundum heldur andlagið þolfallinu, en hitt virðist þó mun algengara. Þetta er ekki einsdæmi. Sambandið bresta kjark tók áður með sér frumlag í þolfalli, mig brast kjark, en tekur nú iðulega þágufall. En þá ber svo við að andlagið fær oftast nefnifall – mér brast kjarkur. Hér er ekki vettvangur til að ræða skýringar á þessu.

En hvers vegna kemur upp tilhneiging til að nota aukafall með þessu sambandi? Væntanlega er það vegna þess að frumlag sagnarinnar er ekki gerandi – hefur ekkert vald á því sem sögnin segir. Málnotendur hafa tilhneigingu til að tengja nefnifall við geranda en þágufall við þann sem verður fyrir einhverju, skynjar eitthvað eða upplifir eitthvað sem hann hefur ekki vald á. Þannig er þetta með þær sagnir sem eru dæmigerðar fyrir „þágufallssýkina“ svokölluðu, s.s. langa, vanta, hlakka til, kvíða, dreyma o.fl. Sambandið bera gæfu til er af sama sauðahúsi.

Einnig er mjög trúlegt að áhrif frá annarri ópersónulegri notkun sagnarinnar bera komi til, s.s. mér ber þetta, mér ber að gera þettamér ber skylda til að gera þetta, þeim ber saman um þetta o.fl. þar sem alltaf hefur verið notað þágufall. Í sambandinu bera skylda til bregður fyrir sams konar fallavíxlum og nefnd voru með bera gæfu til – í stað nefnifallsins á andlaginu kemur stöku sinnum aukafall, og þá verður þágufallið í frumlagssæti stundum að nefnifalli: „Ríkistjórnin ber skyldu til aðstoðar við uppbyggingu Iandsbyggðar“ segir t.d. í Degi 1999. Víxlin eru hliðstæð en munurinn er sá að með bera gæfu til er nefnifall–þágufall upprunalega mynstrið, en með bera skylda til er það þágufall–nefnifall.

Breyting á notkun sambandsins bera gæfu til er sem sé skiljanleg og ekki óvænt, og á sér ýmis fordæmi. Hvort fólk vill láta hana yfir sig ganga eða berjast gegn henni er annað mál. Mér finnst hún satt að segja frekar meinlaus.

Spáið í þessu

Í Málvöndunarþættinum á Facebook hefur margoft verið rætt um fallnotkun með sambandinu spá í. Fólk hneykslast á því að þágufall sé notað með þessu sambandi og sagt spá í því og spá í þessu. Iðulega er vitnað í Megas því til staðfestingar að þarna eigi að vera þolfall og bent á að hann söng „Spáðu í mig“ en ekki „Spáðu í mér“. Það er auðvitað rétt, en reyndar svolítið skondið að uppreisnarmaður eins og Megas skuli borinn fyrir því hvað sé „rétt mál“.

Þótt sögnin spá stjórni þágufalli ein og sér er ævinlega notað þolfall í sambandinu spá í þegar sögnin hefur grunnmerkingu sína – spá í spil, spá í bolla, spá í korg, spá í garnir o.s.frv. Áður fyrr var oft talað um að spá í eyðurnar þar sem nú er frekar sagt geta í eyðurnar. Ég held líka að spá í taki oftast þolfall þegar það er notað í merkingunni 'hafa áhuga á' eins og það hefur væntanlega hjá Megasi – sagt er Ég er að spá í hann/hana frekar en Ég er að spá í honum/henni.

En þegar sagt er „Ég er að spá í því hvort líf leynist á öðrum hnöttum“ eða  „Við fórum að spá í hvaða ólykt þetta nú væri“ (svo að tekin séu dæmi af netinu) felst ekki í því neinn spádómur, heldur merkir spá í þarna 'velta fyrir sér, hugsa um'. Ég sé ekki betur en sú merking sé tiltölulega nýleg – varla meira en fárra áratuga gömul. Erfitt er að negla nákvæmlega niður hvenær hún kemur upp en eins og títt er með málbreytingar má líklega rekja nýju merkinguna til dæma sem hægt er að túlka á tvo vegu.

Í blaði frá 1963 er sagt að það sé „ekki furða þótt menn séu farnir að spá í hugsanlega íslenzka þátttöku í Tokíó“ sem gæti merkt bæði 'spá hvaða Íslendingar gætu tekið þátt (í Ólympíuleikunum)' og 'velta fyrir sér íslenskri þátttöku'. Í blaði frá 1964 er talað um nýjan atvinnuveg og minnst á athafnamann sem sé „þegar farinn að „spá“ í atvinnugreinina“ sem gæti merkt bæði 'spá fyrir um framtíð atvinnugreinarinnar' og eins 'velta fyrir sér að hasla sér völl í atvinnugreininni'. Ýmis hliðstæð dæmi má finna frá næstu árum eftir þetta en upp úr 1980 virðast ótvíræð dæmi um nýju merkinguna verða mjög algeng.

Það er athyglisvert að enginn hefur – svo að ég viti – amast við því að sambandið spá í hafi fengið merkingu sem það hafði ekki áður. Það er eingöngu fallið sem fólk hnýtir í. En hvers vegna fær sambandið oft þágufall í þessari nýju merkingu? Það er mjög trúlegt eins og oft er bent á að þágufallið sé tilkomið fyrir áhrif frá pæla í sem hefur sömu merkingu og tekur alltaf með sér þágufall. Bæði samböndin virðast koma upp á svipuðum tíma í þessari merkingu – tíðni pæla í eykst líka mjög upp úr 1980.

Það er þó mjög algengt að sagnir og forsetningar stjórni mismunandi föllum eftir merkingu. Við segjum bæði Ég fór með hana í bæinn og Ég fór með henni í bæinn en merkingin er ekki sú sama. Eins segjum við Hann klóraði mig á bakinu og Hann klóraði mér á bakinu í mismunandi merkingu. Þegar samband eins og spá í fær nýja merkingu dugir því ekki að vísa til þess að það hafi alltaf tekið með sér þolfall, því að það er ekkert sjálfgefið að sama fall sé notað þegar merkingin er önnur.

Forsetningin í stjórnar ýmist þolfalli eða þágufalli. Í sumum tilvikum fylgir notkunin ákveðnu kerfi – þegar um hreyfingu er að ræða stjórnar í þolfalli, en þágufalli þegar um kyrrstöðu er að ræða: Ég fór í bæinn en Ég var í bænum. Iðulega er hins vegar hvorki hægt að tengja forsetninguna við hreyfingu né kyrrstöðu og þá virðist oft tilviljun háð hvort fallið hún tekur með sér. Ég hef aldrei séð því haldið fram að það sé andstætt merkingu forsetningarinnar að nota þágufall með pæla í, og þá ættu ekki heldur að vera neinar merkingarlegar ástæður gegn þágufalli með spá í.

Þegar sambandið spá í merkir ‚'velta fyrir sér, hugsa um' er sem sé ekkert athugavert við að nota þágufall með því. En það er ekki heldur neitt að því að nota þolfall eins og í öðrum merkingum sambandsins. Það er ekkert einsdæmi að mismunandi fallnotkun með sömu sögn eða sama orðasambandi sé viðurkennd, sbr. það sem segir í Málfarsbankanum um sögnina þora: „Sögnin þora stýrði upprunalega þolfalli en er nú líka farin að stýra þágufalli. Bæði kemur því til greina að segja ég þori það ekki og ég þori því ekki.“ Tungumálið þolir alveg tilbrigði.

Fornafn eða lýsingarorð?

Ég geri ráð fyrir að allir lesendur hafi lært það á sínum tíma að orðið ýmis sé óákveðið fornafn – um það ber öllum nýrri orðabókum og kennslubókum saman. Hegðun orðsins bendir þó ekki ótvírætt til þess og í Málfarsbankanum þykir ástæða til að vara við fjöllyndi orðsins: „Orðið ýmis er að uppruna fornafn og því er ekki talið æskilegt að segja „hinir ýmsu menn“ eða „hinir ýmsustu aðilar“ enda er ýmis þá sett í stöðu lýsingarorðs.“ Það er rétt að sé laus greinir stendur venjulega aðeins með lýsingarorðum en ekki fornöfnum – við segjum hinir góðu menn, hinir sterku menn o.s.frv., en önnur óákveðin fornöfn en ýmis geta ekki staðið í þessari stöðu – ekki er hægt að segja *hinir öllu menn, *hinir sumu menn, *hinir nokkru menn o.s.frv.

Þetta er þó fjarri því að vera nýjung. Elsta dæmi um lausan greini með ýmis sem finnst á tímarit.is er frá 1853, og alla tíð síðan hefur þetta samband verið mjög algengt – dæmin um það á tímarit.is skipta tugum þúsunda. Mér finnst fráleitt að amast við þessu. Ástæðan fyrir því að ýmis er sett í stöðu lýsingarorðs á þennan átt er sennilega tilfinning fólks fyrir merkingarlegum skyldleika orðsins við lýsingarorð – vandséðar eru t.d. merkingarlegar ástæður fyrir því að greina ýmis öðruvísi en margur sem alltaf er talið lýsingarorð. Ekki er ólíklegt að ástæðan fyrir mismunandi greiningu þessara orða sé sú að margur er venjulega talið stigbreytast, þótt óreglulega sé, en ýmis stigbreytist ekki – eða hvað?

Í tilvitnuninni í Málfarsbankann hér að framan var mælt gegn dæmum eins og hinir ýmsustu aðilar þar sem ekki verður betur séð en ýmis stigbreytist. Elsta dæmi um „efsta stigið“ ýmsustu á tímarit.is er frá 1959. Það dæmi er að vísu úr gamanritinu Speglinum og ekki ólíklegt að „upphaflega hafi þetta verið svo sem til gamans gert“ eins og Gísli Jónsson giskaði á í umfjöllun um þessa stigbreytingu. Það fellur vel að elstu minningum mínum um efsta stigið sem ég heyrði fyrst í Menntaskólanum á Akureyri upp úr 1970. Svo skemmtilega vill til að tvö elstu dæmin um ýmsustu, fyrir utan dæmið úr Speglinum, eru einmitt úr blaði skólans, Munin, frá menntaskólaárum mínum – 1971 og 1973.

„Stigbreytingin“ er samt mjög ófullkomin og kemur eiginlega bara fram í tveimur myndum – ýmsustu og ýmsasta. Karlkynsmyndin ýmsasti sem búast mætti við kemur varla fyrir, ekki heldur sterk beyging (*ýmsastur – *ýmsust – *ýmsast), og ekki miðstig (*ýmsari). Það er eiginlega ekki ástæða til að líta á þetta sem beygingarmyndir – stigbreytingu – af ýmis, heldur sem sérstaka orðmyndun. Þótt ekki sé ósennilegt að sú orðmyndun hafi upphaflega verið sett fram í gamni er engin sérstök ástæða til að amast við henni, a.m.k. í óformlegu málsniði.

En þótt „stigbreytingin“ – sem líklega er engin stigbreyting – sé ófullkomin og ekki gömul er hæpið að hafa það á móti henni að ýmis sé „að uppruna fornafn“ eins og sagt er í Málfarsbankanum. Orðið er nefnilega greint sem lýsingarorð í flestum uppflettiritum um fornmálið, t.d. orðabók Fritzners, málfræði Iversens, fornmálsorðabókinni í Kaupmannahöfn o.v. Sigfús Blöndal greinir orðið líka þannig í orðabók sinni. Í ljósi þessa, og vegna þess hve algengt er að nota ýmis með lausum greini, er spurningin því hvort ekki sé rétt að skipta aftur um merkimiða á ýmis og kalla orðið lýsingarorð.

Getur kjöt verið nýslátrað?

Í upphafi sláturtíðar má nánast bóka að umræða um nýslátrað kjöt fari af stað, og það brást ekki að þessu sinni. Ég hef nýlega séð bæði í Málvöndunarþættinum og víðar á Facebook athugasemdir við auglýsinguna „Nýslátrað lambakjöt komið í verslanir Nettó!“. Athugasemdirnar lúta að því að þetta sé órökrétt – og þar með rangt – vegna þess að kjötinu sé ekki slátrað, heldur dýrinu sem kjötið er af. Þess vegna eigi fremur að segja kjöt af nýslátruðu.

Eins og margt annað í málfari sem fólk hnýtir í á það sér langa sögu að tala um nýslátrað kjöt. Elstu dæmi á tímarit.is og í Ritmálssafni Árnastofnunar eru frá 1861, og þetta hefur alla tíð síðan verið algengt – mun algengara en að tala um kjöt af nýslátruðu nema á seinustu áratugum. Þessi langa hefð ætti að duga til að réttlæta fullkomlega að tala um nýslátrað kjöt – jafnvel þótt það teldist ekki „rökrétt“.

En reyndar þarfnast orðalagið engrar slíkrar réttlætingar. Grunnmerking sagnarinnar slátra er nefnilega ekki eingöngu að 'drepa' eins og margir virðast halda, heldur að 'lóga dýri til matar og tilreiða kjöt og innmat í því skyni'. Í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð svo: „lóga, aflífa (og stykkja sundur til matar)“. Í Íslenskri orðsifjabók er nafnorðið slátur skýrt sem „innmatur, haus og fætur af sauðfé; blóðmör og lifrarpylsa; (nýtt) kjöt“, en sögnin slátra er leidd af nafnorðinu. Í orðabók Blöndals er slátra þýdd sem 'slagte', en sú sögn merkir „dræbe (og derefter partere og udskære) et dyr med henblik på at spise eller sælge kødet“.

Sé þetta haft í huga verður ljóst að það er fullkomlega rökrétt og eðlilegt að tala um nýslátrað kjöt. Til að rökstyðja þetta enn frekar má benda á að í fornu handriti Maríu sögu segir: „Svo gerir hann í stað, sækir kúna, drepur og slátrar.“ Þarna kemur greinilega fram að það er ekki sami verknaðurinn að drepa og slátra – í slátra felst að brytja skrokkinn niður og ganga frá kjöti og innyflum þannig að kýrin nýtist til matar enda var markmið eigandans að „skipta henni í sundur fyrir fátæka menn guðs móður til lofs“.

Hafi fólk áhyggjur af „órökréttri“ málnotkun væri nær að huga að dæmum eins og „Í pottinum var verið að sjóða nýveiddan sel“ og „Nýskotinn fugl þótti veislumatur“ sem finna má á tímarit.is. Auðvitað er ekki verið að sjóða selinn eins og hann leggur sig, heldur kjötið af honum; og það er ekki fuglinn í heild sem þykir veislumatur, heldur kjötið af honum. Það má þess vegna halda því fram að þessi málnotkun sé ekki rökrétt – það ætti að segja Í pottinum var verið að sjóða kjöt af nýveiddum sel og Kjöt af nýskotnum fugli þótti veislumatur.

Það hvarflar samt auðvitað ekki að mér að gera athugasemdir við að tala um sel og fugl í staðinn fyrir selkjöt og fuglakjöt, enda væri það fullkominn orðhengilsháttur. Ég nefni þetta bara til að vekja athygli á því hvað krafa um að málnotkun sé fullkomlega „rökrétt“ getur leitt mann út í miklar ógöngur – fyrir utan það að hefta nýsköpun og frumleika og gelda málið.

Rangur misskilningur

Í innleggi í Málvöndunarþættinum á Facebook í gær var tilfærð setningin „ég tala reiðbrennandi ensku“ og spurt „Er reiðbrennandi orð? Hef aldrei heyrt þetta í staðinn fyrir reiprennandi“. Þetta er vissulega sjaldgæft en ekki alveg óþekkt – örfá dæmi um reiðbrennandi má finna á netinu, og á Leiðbeiningavef um ritun á háskólastigi sem ritver Háskóla Íslands standa að er reiðbrennandi í stað reiprennandi eitt þeirra dæma sem nefnd eru um misskilning „um merkingu eða form orða og orðasambanda“. Og það er svo sem ekkert einsdæmi að málnotendur misskilji orð – eða reyni að fá eitthvert vit í orð sem þeir skilja ekki.

Hugtakið alþýðuskýring er oft notað um þetta og þekkt íslenskt dæmi er þegar þröskuldur verður þrepskjöldur. Orðið þröskuldur er skylt sögninni þreskja og merkir sennilega upphaflega „‘þreskitré, þreskifjöl eða gangfjöl’“ segir í Íslenskri orðsifjabók. En þegar tengslin við þreskingu rofna verður þröskuldur óskiljanlegt orð og til að reyna að fá eitthvert vit í það tengja málnotendur það við þrepþröskuldur er auðvitað eins konar þrep í dyrum – og skjöldþröskuldurinn er einhvers konar hlíf.

En hliðstæðar breytingar (eða afbakanir, ef fólk vill kalla það svo) stafa ekki endilega af því að málnotendur séu að reyna að setja eitthvað skiljanlegt í staðinn fyrir eitthvað sem það skilur ekki, heldur af því að þeir greina orðin eða einstaka orðhluta ranglega og tengja við annað en til var ætlast þannig að þeir telja sig heyra aðra orðmynd en sögð var – en hljóðfræðilega mjög líka. Þetta gerist helst í orðum sem eru ekki gagnsæ, og einkum í löngum orðum eða orðum sem bera venjulega litla áherslu í setningu.

Myndin reiðbrennandi í stað reiprennandi er gott dæmi um þetta. Í eðlilegu tali er mjög lítill framburðarmunur á þessum myndum. Enginn munur er á b og p í þessari stöðu, og ð fellur oft að mestu eða öllu leyti brott í framburði samhljóðaklasa eins og þarna. Málnotendur þekkja orðið reið betur en reip(i), átta sig ekki á líkingunni, og greina orðið rangt. Það þýðir ekki endilega að reiðbrennandi sé eitthvað skiljanlegri mynd fyrir þá sem nota hana en reiprennandi.

Ýmsan annan hliðstæðan misskilning mætti nefna. Á netinu má finna nokkur dæmi um afbrigði(s)samur og afbrigði(s)semi í staðinn fyrir afbrýðisamur og afbrýðisemi. Þar gegnir sama máli – framburðarmunur í eðlilegu tali er mjög lítill. Önghljóðið g veiklast oft eða hverfur í framburði í þessari stöðu, og hljóðfræðilegur munur i og í (ý) er lítill. Það er því ekkert óeðlilegt að sumir greini orðið ranglega – og skrifi það í samræmi við þessa röngu greiningu.

Eitt þekktasta dæmi af þessu tagi er þegar víst að kemur í stað samtengingarinnar fyrst () – Ég fer víst að hann ætlar ekki að koma í stað Ég fer fyrst að hann ætlar ekki að koma. Reyndar er fyrst ein þeirra samtenginga sem oft er kennt að ekki eigi að taka með sér , en það er þó mjög algengt a.m.k. í talmáli. Framburðarmunur á víst og fyrst er mjög lítill, a.m.k. í áhersluleysi eins og þarna er oftast um að ræða – bæði v og f eru tannvaramælt önghljóð, hljóðfræðilegur munur i og í er lítill eins og áður segir, og r fellur oft brott að miklu eða öllu leyti í klasanum rst.

Eins og áður segir kemur misskilningurinn upp vegna þess að framburðarmunur er mjög lítill. Þess vegna er alveg hægt að hugsa sér tvo menn sem tala oft saman og annar segir alltaf reiprennandi en hinn alltaf reiðbrennandi og hvorugur tekur eftir því að hinn er með aðra mynd orðsins – bæði vegna þess hve framburðarmunurinn er lítill, og eins vegna þess að við höfum tilhneigingu til að heyra það sem við eigum von á að heyra. Munurinn kemur hins vegar í ljós þegar farið er að skrifa orðin.

Og þá kemur að því sem ég hef nefnt áður: Eitt af því sem hefur breyst í íslensku málumhverfi á undanförnum áratugum er að nú sjáum við texta frá miklu stærri og fjölbreyttari hópi málnotenda en áður. Til skamms tíma sá venjulegt fólk sjaldnast texta frá öðru venjulegu fólki, nema helst í sendibréfum, en nú skrifar hver sem er fyrir allan heiminn. Þess vegna kemur misskilningur af þessu tagi oftar í ljós nú en áður, án þess að dæmum um hann hafi endilega fjölgað.

Það er þess vegna vel hugsanlegt að myndir eins og reiðbrennandi, afbrigðissamur/-semi, víst að og ýmsar fleiri hafi komið upp fyrir löngu án þess að nokkur hafi tekið eftir þeim, af því að við verðum varla vör við þær nema í rituðu máli og þeir sem áður skrifuðu texta sem kom fyrir almenningssjónir höfðu lært hvernig þessi orð ættu að vera.

Máltækniáætlun hafin

Í ársbyrjun birtist á mbl.is viðtal við upplýsingafulltrúa Símans sem kynntur var sem „áhugamaður um tækni og nýjungar“. Hann taldi að 2019 yrði „árið sem fjarstýringin deyr og að raddstýringin taki alveg yfir“, árið „þar sem venjuleg heimili byrja að horfa til tækninnar“. Hann hélt áfram: „Það sem stendur uppbyggingunni helst fyrir þrifum byrjar og endar á raddstýringu og við þurfum alltaf að tala ensku. Ég er með lása, perur og fjarstýringar hjá mér og þarf alltaf að tala ensku“ segir upplýsingafulltrúinn sem „játar að það geti verið þreytandi“.

Viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst við­horf ungu kynslóðarinnar, ræður miklu um framtíðarhorfur málsins. Það eru ýmsar vísbendingar um að ungir Íslendingar líti ekki á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfs­mynd sinni og þau sem eldri eru og hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kyn­slóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.

Eitt það mikilvægasta og gagn­legasta sem við getum gert til að styrkja stöðu íslenskunnar er því að gera átak á sviði íslenskrar máltækni.  Máltækni gerir okkur kleift að hafa sam­skipti við tölvurnar, og nýta þær á ýmsan hátt til að liðsinna okkur við tungumálið. Í gær urðu þau tímamót að skrifað var undir samning milli sjálfseignarstofnunarinnar Almannaróms, sem falin hefur verið framkvæmd máltækniáætlunar ríkisstjórnarinnar, og SÍM, samstarfshóps um íslenska máltækni. Aðild að hópnum eiga Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Blindrafélagið, Ríkisútvarpið, og fjögur fyrirtæki: Creditinfo-Fjölmiðlavaktin ehf, Grammatek ehf, Miðeind ehf og Tiro ehf.

Samkvæmt samningnum, sem er til eins árs með möguleika á framlengingu í eitt ár í senn allt að fjórum sinnum, tekur SÍM að sér rannsóknar- og þróunarvinnu vegna máltækniáætlunarinnar í samræmi við verkáætlunina Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 sem lögð var fram árið 2017. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er ákvæði um að þessari áætlun skuli hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. Samstarfshópurinn mun vinna að fimm kjarnaverkefnum sem skilgreind eru í verkáætluninni. Þetta eru:

  • Talgreining — hugbúnaður til vélrænnar greiningar á töluðu íslensku máli
  • Talgerving — hugbúnaður  til að gera fullkomna íslenska talgervla
  • Vélþýðingar — hugbúnaður til þýðinga milli íslensku og annarra mála
  • Málrýni — hugbúnaður til að lesa yfir og lagfæra ritaðan íslenskan texta
  • Málföng — uppbygging mállegra gagnasafna af ýmsu tagi, s.s. orðasafna, textasafna, hljóðsafna

Þessi kjarnaverkefni eru forsenda þess að til verði margvíslegur notendahugbúnaður sem geri íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi. Í íslenskri málstefnu sem  samþykkt var á Alþingi vorið 2009 er í kafla um íslensku í tölvuheiminum (sem ég samdi reyndar) sett það markmið

  • Að íslensk tunga verði nothæf — og notuð — á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings.

„Þetta merkir í fyrsta lagi að viðmót algengs hugbúnaðar (valmyndir, hjálpartextar o.s.frv.) þarf að vera íslenskt; í öðru lagi að til þarf að vera ýmiss konar hugbúnaður sem liðsinnir og leiðbeinir notendum við notkun íslensks máls (leiðréttingarforrit, þýðingarforrit, hjálparforrit fyrir fatlaða); og í þriðja lagi að unnt á að vera að nota íslensku sem samskiptamál við ýmiss konar tölvu- og tæknibúnað (upplýsingakerfi, þjónustuver, tölvustýrð tæki af ýmsu tagi).“

Ég fagna þessum samningi sérstaklega. Allt frá 1997, þegar ég hélt erindi um Informationsteknologien og små sprogsamfund á norrænum málnefndaþingi í Þórshöfn í Færeyjum (birt í Sprog i Norden 1998), hef ég talað fyrir því að við gerðum átak á sviði máltækni (sem þá var reyndar nefnd tungutækni) til að íslenska drægist ekki aftur úr öðrum tungumálum á þessu sviði. Ég hef tekið þátt í að skrifa ýmsar skýrslur um efnið og oft vonast til að eitthvað færi að gerast í málinu en þær vonir hafa ekki ræst — fyrr en nú. Með samningnum sem undirritaður var í gær er stigið stórt skref til að uppfylla markmið málstefnunnar á þessu sviði og tryggja að við getum notað íslensku í samskiptum okkar við tölvur og hvers kyns tölvustýrð tæki í þeim stafræna heimi gervigreindar sem við erum á hraðri leið inn í.

Endurskoðun málstaðals

Fyrir helgi hitti ég gamlan nemanda minn og fésbókarvin, framhaldsskólakennara í íslensku. Hann hefur fylgst með pistlum mínum um íslenskt mál og sagðist vera sammála mér að miklu leyti. Hins vegar lenti hann í vanda með hvað hann ætti að segja nemendunum. Ég hef boðað að það sé ekkert athugavert við ýmislegt sem hingað til hefur verið talið „málvillur“ og kennarar hafa reynt að venja nemendur af. Á nú að snúa við blaðinu allt í einu og segja nemendum að nú megi þeir bara segja og skrifa það sem þeir vilja – allt sé jafnrétt?

Nei – ég ekki þeirrar skoðunar að allt sé jafngott eða jafngilt, þótt sumir hafi kannski skilið orð mín svo. Vitanlega á að leggja áherslu á að nemendur vandi sig og það er eðlilegt og sjálfsagt að mæla gegn ýmsum nýjungum sem eru að koma upp, hvort sem það eru enskuslettur, ensk áhrif á setningagerð og orðafar, eða sjálfsprottnar nýjungar sem koma upp án þess að þær verði raktar til utanaðkomandi áhrifa. Það er líka sjálfsagt og eðlilegt að hvetja til skýrleika í máli og framsetningu en vinna gegn hvers kyns ósamræmi og hroðvirkni. En hvað með „málvillurnar“ – ýmsar málbreytingar sem eru og hafa verið í gangi? Á að láta þær óáreittar?

Já og nei. Mér finnst mikilvægt að nemendum sé ekki innrætt að það mál sem þeir hafa alist upp við, margir hverjir, sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að þeim sé sagt hvað hefur verið talið rétt og hvað rangt, og gerð skýr grein fyrir því að í sumum tilvikum geti það komið sér illa fyrir fólk að hafa ekki vald á þeim tilbrigðum sem hafa verið talin „rétt“ og samræmast málstaðlinum. Nemendur hafa þá val um hvort þeir leggja það á sig að tileinka sér tilbrigði sem kunna að vera í ósamræmi við þeirra eigið mál. En það á ekki undir nokkrum kringumstæðum að prófa í „réttu“ máli.

En eins og ég hef sagt tel ég nauðsynlegt að breyta þeim staðli sem hefur gilt undanfarna öld og færa hann í átt til þess máls sem almenningur talar og skrifar. Þetta þarf að gerast án þess að fórnað sé hinu órofa samhengi í ís­lensku ritmáli sem svo oft er vegsamað – með réttu. Vandinn er hins vegar sá að okkur skortir bæði tæki og vettvang til slíkra breytinga. Það hefur enginn lengur þá stöðu sem Björn Guðfinnsson, Halldór Halldórsson, Árni Böðvarsson, Gísli Jónsson og Baldur Jónsson (allt karlmenn, auðvitað) höfðu á síðustu öld. Ég held að það vilji heldur enginn hafa þá stöðu – eða vilji að einhver hafi þá stöðu yfirleitt.

Ef einhver ætti að beita sér fyrir endurskoðun staðalsins væri það kannski helst Íslensk málnefnd sem hefur m.a. það hlutverk „að veita stjórn­völdum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli“. Samkvæmt þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi í vor á að endurskoða íslenska málstefnu fyrir lok næsta árs (reyndar virðist það vera villa í ályktuninni – á sennilega að vera 2021). Vissulega er núgildandi málstefna almennt orðuð, án þess að tekið sé á einstökum málfarsatriðum, en kannski væri samt hægt að nýta væntanlega endurskoðun til að efna til víðtækrar umræðu um málstaðalinn og leggja grunn að endurskoðun hans.

Ristavél

Um fátt í tungumálinu skapast hatrammari deilur en um orðin brauðrist og ristavél. Síðast þegar þau orð bar á góma í Málvöndunarþættinum á Facebook voru skrifaðar hvorki fleiri né færri en 265 athugasemdir við færsluna, og hægt er að finna fjölmarga umræðuþræði um þetta mál á netinu. Mörgum sem nota brauðrist finnst ristavél ljótt og kjánalegt orð, sem tilheyri barnamáli en eigi ekkert erindi inn í tal fullorðinna, hvað þá í formlegt mál. Þeim sem nota ristavél finnst það orð aftur á móti fullkomlega eðlilegt.

Oft er það notað sem rök gegn ristavél að í tækinu sé engin vél í merkingunni 'tæki, oft samsett úr mörgum hlutum, olíu- eða rafknúið, til að vinna ákveðið verk' (mótor). En vitanlega innihalda heiti á fjölmörgum tækjum þennan orðhluta án þess að í þeim sé nokkur vél í þessari merkingu. Sem dæmi má nefna eldavél, myndavél, ritvél, rakvél, kaffivél, múgavél; leitarvél, bókunarvél, þýðingarvél; o.s.frv. Vissulega eru oft einhvers konar „vélar“ í sumum þessara tækja núorðið, s.s. rakvélum og ritvélum, en þannig var það ekki þegar orðin voru búin til.

Orðið ristavél er hliðstætt eldavél, myndavél, saumavél og fleiri orðum þar sem líta má svo á að fyrri hlutinn sé nafnháttur sagnar. Vissulega kemur oft einnig til greina að fyrri liðurinn sé eignarfall fleirtölu, en sá möguleiki er ekki alltaf fyrir hendi, t.d. í hakkavél. Eðlilegt er að líta svo á að þessi orð séu mynduð á sama hátt – hakkavél er 'tæki (vél) til að hakka með', ristavél er 'tæki til að rista með'. Það getur vel verið að orðið sé upprunnið í máli barna en börn eru býsna glúrin í orðmyndun og það er varla hægt að nota orðmyndunarleg rök til að hafna ristavél.

En hvaða orð eigum við þá að nota um þetta fyrirbæri? Við getum litið bæði til aldurs og uppruna. Elsta dæmi um brauðrist á tímarit.is er frá 1915. Þetta er tökuorð úr dönsku – þar heitir fyrirbærið brødrist eða brødrister, þótt enska tökuorðið toaster sé reyndar oft notað í staðinn. Aftur á móti er elsta dæmið um ristavél á tímarit.is frá 1984, og ekkert bendir til annars en orðið sé íslensk smíð. Aldurinn mælir því með brauðrist, en ef við viljum taka íslenskar nýmyndanir fram yfir tökuorð ættum við frekar að velja ristavél.

Mér dettur samt ekki í hug að leggja til að brauðrist sé hafnað – orðið hefur auðvitað fyrir löngu unnið sér hefð í málinu og ég nota það alltaf sjálfur. Ef ristavél væri að koma upp núna myndi ég sennilega leggjast gegn orðinu með þeim rökum að fyrirbærið sem það ætti að tákna hefði þegar íslenskt heiti. En í ljósi þess að orðið kom upp fyrir meira en aldarþriðjungi, er útbreitt, er íslensk nýmyndun og brýtur engar orðmyndunarreglur er engin ástæða til að hafna því – það er ekkert að því að sama fyrirbærið eigi sér fleiri en eitt heiti.

Hafnaður, náður og lagður

Í Málvöndunarþættinum á Facebook vakti Steinunn Rut Friðriksdóttir nýlega athygli á setningunni „Mín hræðsla við höfnun hvarf fyrir yfir 9 árum þegar ég var hafnaður af stelpu.“ Steinunn sagði: „Þetta finnst mér ég sjá sífellt oftar, þ.e. að fólk forðast þágufallsmyndina (mér var hafnað) og notar í stað þess nefnifall (ég var hafnaður).“

Þetta minnti mig á þýðingu á heiti kvikmyndarinnar Gotcha! sem var sýnd í Reykjavík fyrir hálfum fjórða áratug. Íslenski titillinn var Náður og hljómaði undarlega í mínum eyrum og greinilega margra fleiri. Þjóðviljinn sagði í umfjöllun um þessa mynd 1985: „þessi lýsingarháttur er allajafna ekki til af sögninni að ná, en vesturbæingur á blaðinu upplýsir að þetta hafi verið notað í „fallinni spýtu" og svipuðum leikjum þar í sveit að fornu“.

Þessi lýsingarháttur var samt ekki nýr á þessum tíma. Í Þjóðviljanum 1902 segir: „Sökudólgur var ónáður, er síðast fréttist“, og í blaðinu Reykjavík 1909 segir „Þjófurinn sem stal konungskrönzunum úr Hróarskeldu dómkirkju náður“. Athyglisvert dæmi er í Tímanum 1936: „allir vinir þeirra óska þess, að næsti áfanginn að gullbrúðkaupinu megi verða þeim svo farsæll og giftudrjúgur eins og sá, sem nú er náður“.

En lýsingarhátturinn náður hefur líklega verið algengastur í leikjum eins og áður er vikið að. Í lýsingu á fangaleik í Lögbergi 1916 segir: „Ekki þarf annað en geta snert þann sem maður eltir og sagt „náður“, þá verður hann að stöðvast“. Þetta er tekið fyrir í málvöndunargrein í Vísi 1936: „Eg bæti hér við, út götumáli barnanna: „Þú ert náður.“ Slíkt orðskrípi hefi eg aldrei heyrt til sveita, hvorki fyrr né síðar. Þar er sagt: Það er búið að ná þér (þér hefir verið náð o. s. frv.).“

Ég nefndi hér í gær að í dæmum eins og Ég var boðinn í mat, Dyrnar voru lokaðar o.s.frv. væri ekki um þolmynd að ræða – setningarnar lýstu ástandi, ekki verknaði, öfugt við Mér var boðið í mat, Dyrunum var lokað. Ég held að það megi líta eins á nefnifallið með náður. Þú ert náður er ekki þolmynd, vísar ekki til verknaðarins að ná einhverjum, heldur til þess að nú er hann kominn í tiltekið ástand – er náður. Fólk getur auðvitað haft mismunandi skoðanir á þessum dæmum en þau eiga sér skýrar fyrirmyndir í notkun annarra sagna.

Þetta minnti mig líka á umdeilda fyrirsögn á frétt á RÚV í fyrra: „Illa lagðir bílar töfðu slökkvilið í útkalli.“ Margir bentu á að sögnin leggja stjórnar þágufalli í þessari merkingu og því gengi nefnifall ekki. En það er útilokað að segja Illa lögðum bílum töfðu slökkvilið í útkalli. Við leit á netinu finnast nokkur hliðstæð dæmi frá síðustu árum, og til er hópur á Facebook sem heitir Illa lagðir bílar. Kannski er sögnin leggja að bætast í hóp áðurnefndra sagna þannig að illa lagðir bílar vísi til ástands eða stöðu bílanna en sé ekki þolmynd.

En hvað þá með dæmið sem nefnt var í upphafi – er hafna líka að bætast í þennan hóp? Það má a.m.k. finna nokkur dæmi á netinu sem benda til þess. Mér fannst einna athyglisverðust skrá á vef Samgöngustofu um höfnuð einkamerki. En það sem er sérkennilegast við áðurnefnt dæmi er að því fylgir af-liður sem er einkennismerki þolmyndar; hafnaður af stelpu. Hér er því um þolmynd að ræða og setningin lýsir verknaði, ekki ástandi. Annað svipað dæmi fann ég í Morgunblaðinu 2014: „Og svo var indæl stúlka að tala um afturgöngur á dögunum og tók sem dæmi Miklabæjar-Sólveigu sem var höfnuð af presti“ skrifar hneykslaður lesandi.

Í slíkum setningum er nefnifallið nýjung að því er ég best fæ séð, og á sér ekki fordæmi hjá öðrum sögnum. En hvað er að gerast þarna? „Er þetta hluti af nýju þolmyndinni? Eða afleiðingar ofvöndunar í ljósi eilífðarbaráttu gegn þágufallshneigð?“ spurði Steinunn. Ég held að þetta sé hvorugt þótt mig gruni að á bak við þetta geti e.t.v. leynst einhver skyldleiki við „nýju þolmyndina“. En það er of snúið til að fara út í á þessum vettvangi.