Margir misskilningar

Í athugasemd í „Málspjalli“ við fyrirspurn um fleirtöluna þjónustur var nefnt að á Rás 1 hefði í gær verið talað um marga misskilninga. Vissulega er orðið misskilningur venjulega aðeins haft í eintölu og engin fleirtölubeyging gefin upp fyrir það í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það má samt finna fáein dæmi frá ýmsum tímum um fleirtöluna. Í Fjallkonunni 1892 segir: „Þannig hefir þetta boðorð orðið tilefni til hraparlegustu misskilninga.“ Í Norðurljósinu 1927 segir: „misskilningar, hleypidómar, ósanngirni og reiði endast ekki æfinlega.“ Í Vísi 1937 segir: „Allir misskilningar eru horfnir.“ Í Vísi 1940 segir: „Svo jókst þetta koll af kolli gegnum misskilninga og tilviljanir.“ Í DV 2005 segir: „7 algengir misskilningar um frjósemi.“

Alls eru rúm fimmtíu dæmi um fleirtölumyndir orðsins á tímarit.is en hátt á annað hundrað í Risamálheildinni – meginhlutinn af samfélagsmiðlum þannig að fleirtalan virðist aðallega notuð í óformlegu máli. En eintalan kemur þó oft fyrir í samböndum sem virðast gera fleirtöluna eðlilega. Í Búnaðarriti 1902 segir: „Þessi misskilningur mun nú horfinn.“ Í Norðurlandi 1903 segir: „Sá misskilningur er mjög skiljanlegur.“ Í Morgunblaðinu 1998 segir: „Hinn misskilningurinn er enn hlálegri.“ Ef hægt er að tala um þennan misskilning og þann misskilning hlýtur að felast í því að einhver annar misskilningur sé til líka – og hinn misskilningurinn segir beinlínis að um annan misskilning sé að ræða. Eru það þá ekki tveir misskilningar?

Töluorð eru líka oft notuð með orðinu misskilningur. Í Ísafold 1892 segir: „Einn misskilningurinn er það, hvað hann er lengi að dunda við að búa sig til að skríða inn um gluggann.“ Í Alþýðublaðinu 1972 segir: „Enn einn misskilningurinn.“ Í Nýrri dagsbrún 1904 segir: „Það halda sumir að þetta eyðileggi trúna, en það er bara annar misskilningur í viðbót.“ Í Tímanum 1943 segir: „Þriðji misskilningurinn er sá, að sambandsslitin baki okkur andúð Norðurlanda.“ Í Morgunblaðinu 1977 segir: „Fjórði misskilningurinn er beinlínis raunalegur.“ Í grein í Tímanum 1956 er fjallað um margs konar misskilning um fæðu barna, og þar er nefndur „Fyrsti misskilningur“, „Annar misskilningur“ o.s.frv. – að lokum „Níundi misskilningur.“

Um mörg þessara sambanda er til fjöldi dæma þótt þeim fari eðlilega fækkandi eftir því sem talan hækkar. En ef til er annar, þriðji og allt upp í níundi misskilningur eru sem sé til margir misskilningar og þess vegna væri rökrétt að nota orðið misskilningur í fleirtölu. Nú hef ég margsinnis bent á að tungumálið er ekki alltaf rökrétt – og á ekki að vera það – og þótt fleirtalan sé fullkomlega rökrétt þarna og um hana séu ýmis dæmi verður varla sagt að hún sé orðin að málvenju. Hún getur því ekki talist „rétt mál“ enn sem komið er a.m.k. og ég ætla heldur ekkert að mæla með henni – bendi bara á að það er mjög eðlilegt að hún komi upp. Auðvitað getur hún eins og aðrar nýjungar truflað fólk sem ekki er vant henni en hún er engin málspjöll.

Að þýfga

Í dag var spurt í „Málspjalli“ hvað orðið þýfgaður merkti. Ég svaraði með vísun í Íslenska nútímamálsorðabók þar sem sögnin þýfga er skýrð 'spyrja (e-n) (að e-u)' með dæminu hann þýfgaði hana um nánari upplýsingar. Þetta er sú merking sem ég hef alltaf lagt í sögnina, nema hvað mér finnst hún sterkari eða ágengari en spyrja og í Íslenskri orðabók er þetta orðað 'þráspyrja, spyrja í þaula'. En í umræðum var spurt hvort þetta merkti ekki 'þjófkenna' og það gerði það vissulega áður fyrr – fyrsta skýring orðsins í Íslenskri orðabók er ‚'bera þjófnað á, þjófkenna' og sama máli gegnir um Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri orðsifjabók er merkingin sögð 'þráspyrja' og 'þjófkenna' en sú síðarnefnda merkt sem úrelt.

Orðið er skylt þýfi og þjófur og merkingin 'þjófkenna' liggur því beint við og kemur fram í fáeinum dæmum, t.d. í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862: „Einn vinnumaður séra Péturs var grunaður um kartöplu-tökuna; þó þóktu vanta nægar ástæður, til að þýfga hann um stuldinn.“ Í Þúsund og einni nótt frá 1864 segir: „Hvernig gátuð þið þýfgað hann svona ófyrirsynju og misþyrmt honum einsog þjóf?“ Í Svindlarasvipunni 1933 segir: „Ari lét Guðrúnu þýfga stúlkurnar um meiri dollara.“ Í Eyjablaðinu 1939 segir: „Það er ekki svoleiðis, að ég sé að þýfga þig, en það var svo napurt, að hann hvarf.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1958 segir: „Var hann svo þýfgaður nokkuð meira, en ekkert hafðist upp úr honum, svo honum var enn stungið inn.“

Ég finn aðeins örfá dæmi til viðbótar þessum um að þýfga merki 'þjófkenna' – merkingin er mjög oft 'þráspyrja, spyrja í þaula' en einnig 'krefja um svör eða upplýsingar' eins og í „Stjórnmálaflokkar þýfgaðir svara“ í Vísi 2021 og „Samtök verslunar og þjónustu hafa þýfgað ráðherra um viðbrögð“ í Fréttablaðinu 2011. Sögnin getur líka merkt 'krefja um einhvern hlut', eins og í 'Hún hljóp út þegar faðir hennar fór að þýfga Andrés um brennivínið' í Alþýðublaðinu 1957 og 'Bæjaryfirvöld á Austur-Héraði þýfga Kaupfélag Héraðsbúa um land til kaups' í Morgunblaðinu 2004. Hún virðist jafnvel geta merkt 'saka um' eins og í „Heldur ekki siðblindan, þótt hann hafi verið um það þýfgaður“ í Morgunblaðinu 2018.

Hvers kyns er Sturla?

Nafnið Sturla er gamalt í málinu, kemur fyrir þegar í Landnámu. Það beygist eins og veikt kvenkynsorð sem er einstakt meðal karlmannsnafna sem nú tíðkast í málinu. Áður fyrr var það einnig algengt í myndinni Sturli (og jafnvel Stulli) í nefnifalli og Sturla (Stulla) í aukaföllum. „Vel má túlka nýju myndina svo að málnotendur hafi lagað þetta nafn að beygingum karlkynsorða vegna þess að kvenkynsbeygingin rakst á við kynferði nafnberanna“ segir Margrét Jónsdóttir í Íslensku máli 2001. Þessu bregður jafnvel fyrir enn – í Morgunblaðinu 2002 segir Bergþóra Jónsdóttir: „Einstöku sinnum heyrir maður fólk eiga í vandræðum með þetta og segja Sturli, en ég held að engum dytti í hug að taka nafnið úr notkun fyrir þau glappaskot.“

Þrátt fyrir kvenkynsbeyginguna er Sturla yfirleitt flokkað sem karlkynsorð í orðabókum, t.d. Íslenskri orðabók, Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, Ritmálssafni Orðabókar Háskólans o.fl. – greiningin miðast sem sé við merkingu orðsins. Það er öfugt við það sem annars tíðkast í málfræðilegri greiningu þar sem kyn nafnorða miðast ævinlega við form en ekki merkingu, enda oft lögð áhersla á það að málfræðilegt kyn og merkingarlegt kyn sé tvennt ólíkt og þurfi ekki að fara saman. Orðið fljóð er t.d. alltaf greint sem hvorugkynsorð og svanni sem karlkynsorð þótt bæði merki 'kona', en það fyrrnefnda tekur hvorugkynsbeygingu (eins og t.d. ljóð og hljóð) og það síðarnefnda karlkynsbeygingu (eins og t.d. granni og glanni).

Vissulega er yfirleitt vísað til manna sem heita Sturla með karlkynsfornafninu hann þótt hún bregði fyrir, og eins eru venjulega notuð lýsingarorð í karlkyni sem sagnfylling með nafninu. Það þarf þó ekki að þýða að nafnið sé karlkynsorð – þarna er um að ræða merkingarlega vísun en ekki málfræðilega, þ.e. ekki er verið að vísa til nafnsins Sturla heldur til mannsins sem ber nafnið. Merkingarleg vísun hefur alltaf tíðkast að einhverju marki í málinu – vísun til foreldra og krakka sem eru karlkynsorð með hvorugkynsfornafninu þau er vel þekkt. Notkun slíkrar vísunar fer vaxandi – dæmi eins og ráðherra var viðstödd athöfnina þar sem vísað er til kvenkyns ráðherra með kvenkynsmynd lýsingarorðs þótt ráðherra sé karlkynsorð eru algeng.

Þótt eingöngu karlmenn beri nafnið Sturla eftir því sem best er vitað er því fullkomlega eðlilegt og raunar óhjákvæmilegt að greina orðið sem kvenkynsorð eins og Kristján Rúnarsson gerir í BA-ritgerð sinni. Það er í samræmi við form þess og beygingu, og þótt vísað sé til nafnbera þess með karlkynsfornafni og það taki með sér lýsingarorð í karlkyni er það í fullu samræmi við merkingarlega vísun sem víða er notuð í málinu. Hér má einnig benda á að í raun eru ekki lengur til sérstök karla- og kvennanöfn eftir að Lögum um mannanöfn var breytt í kjölfar setningar Laga um kynrænt sjálfræði árið 2019. Nú hefur karlmaður fengið leyfi til að bera nafnið Sigríður en engum hefur dottið í hug að það leiði til breytinga á kyngreiningu orðsins.

Að loftræs(t)a

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin loftræsta skýrð 'veita fersku lofti um lokað rými, t.d. byggingu'. Af henni er leitt nafnorðið loftræsting sem getur merkt bæði 'streymi fersks lofts um lokað rými, t.d. byggingu' og 'búnaður til að veita fersku lofti um lokað rými, t.d. byggingu'. Í Málfarsbankanum segir: „Skv. Íslenskri orðabók eru bæði til sagnirnar loftræsa og loftræsta og nafnorðin loftræsing og loftræsting.“ Í „Málið“ í Morgunblaðinu 2018 segir: „Að ræsta er að hreinsa, gera hreint. Að ræsa þýðir að opna (vatns)rás, sbr. að ræsa fram mýri – veita vatni úr henni. Í deilum um orðin loftræsing og loftræsting hefur verið bent á að í loftræs(t)ingu væri lofti bæði veitt eftir rás (stokk) og það hreinsað og því ættu bæði orð sinn rétt til lífs.“

Tvennum sögum fer af aldri og uppruna þessara sagna og nafnorðanna sem af þeim eru leidd. Í Verktækni 1988 segir Einar B. Pálsson að sögnin loftræsa hafi orðið til í Orðanefnd Verkfræðingafélagsins upp úr 1920 og sennilega sé Sigurður Nordal höfundur hennar. Sögnin loftræsta sé hins vegar orðin til fyrir misskilning – sögnunum ræsa og ræsta hafi verið ruglað saman. Aftur á móti benti Halldór Halldórsson prófessor á það í DV 1994 að loftræsting væri eldra orð en loftræsing – dæmi væri um það fyrrnefnda í Skírni 1905 en það síðarnefnda virtist „hafa orðið til um og upp úr 1920“. Halldór telur líklegt „að Nordal hafi breytt orðinu loftræsting í loftræsing vegna þess að honum hafi „þótt loftræsing ná hugtakinu betur“.

Bæði orðin eru þó eldri en Halldór taldi. Í elsta dæmi um orð af þessu tagi er reyndar notað karlkynsorðið loftræsir – „Sje ekki hægt að gera það með loftræsum, er ætíð sjeu opnir, þá verður við og við að ofna dyr eða glugga“ segir í Hauk 1902. Í Heilbrigðisskýrslum 1904 segir: „Rúmgóð herbergi, loftræsing ágæt.“ Í Hlín 1904 segir: „húsakinnin eru viðunanlega rúmgóð fyrir vinnufólkið, loftræsting í sæmilegu lagi og öll umgengni príðis þrifaleg.“ Elstu dæmi um loftræsing og loftræsting eru sem sé jafngömul og útilokað að fullyrða að annað sé komið af hinu. Sum elstu dæmin um sagnmyndir gætu líka verið hvort heldur af ræsa eða ræsta – „Húsakynni eru víða köld, rakasöm og illa loftræst“ segir í Heilbrigðisskýrslum 1904.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er aðeins gefin sögnin loftræsa, ekki loftræsta, en aftur á móti bæði loftræsing og loftræsting. Orðmyndir með t hafa þó alla tíð verið margfalt algengari en hinar, og eru þær einu sem eru gefnar í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þrátt fyrir það virðist það hafa verið skoðun margra að t-lausu myndirnar séu „réttari“. Um það vitna orð Einars B. Pálssonar hér að framan, og það kemur einnig fram hjá Halldóri Halldórssyni að hann tekur þær myndir fram yfir hinar. Það hafa líka stundum verið gerðar athugasemdir við t-myndirnar í „Málspjalli“, „Málvöndunarþættinum“ og víðar. Eins og hér hefur komið fram er engin ástæða til að telja aðrar myndirnar réttari en hinar en mér finnst eðlilegt að halda sig við þær algengari.

Getur vanta tekið nefnifallsfrumlag?

Sögnin vanta tekur ýmist með sér frumlag í þolfalli eða þágufalli eins og kunnugt er – mig vantar eða mér vantar – og stendur því jafnan í þriðju persónu eintölu vegna þess að sagnir sambeygjast aldrei frumlagi í aukafalli.  Stöku sinnum, einkum á nítjándu öld og framan af þeirri tuttugustu, kemur sögnin þó fyrir í fleirtölu. Í Þjóðólfi 1855 segir: „ef þau vanta staðfestíngu löggjafans, þá eru það – engin lög.“ Í Þjóðólfi 1895 segir: „Þær vanta þennan lífgandi, vekjandi og skapandi krapt.“ Í Hauk 1899 segir: „Góð úrræði eru eins og skyrtuhnappar – þau vanta oft.“ Í Gamni og alvöru 1900 segir: „Stúlkurnar vanta biðla, og konurnar vanta oft sína eiginmenn.“ Í Þjóðinni 1914 segir: „Þær vanta ekki leikarahæfileikana.“

Þarna stendur sögnin ekki í þriðju persónu eintölu heldur í fleirtölu, eins og vissulega er merkingarlega eðlilegt. Frumlögin í þessum setningum gætu formsins vegna staðið í þolfalli en vegna fleirtölumynda sagnarinnar liggur beinast við að álykta að þau standi þarna í nefnifalli og sögnin sambeygist þeim eins og eðlilegt er um nefnifallsfrumlög. En það undarlega er að slík sambeyging kemur aðeins fyrir með orðum sem eru eins í nefnifalli og þolfalli – nafnorðum og fornöfnum í kvenkyni og hvorugkyni. Það eru sem sé engin dæmi um *þeir vanta, *mennirnir vanta eða neitt slíkt. Í ljósi þess að þá vantar er margfalt algengara en þær vantar getur varla verið tilviljun að engin dæmi eru um *þeir vanta en allnokkur um þær vanta.

Það er ekki trúlegt að vanta geti haft nefnifallsfrumlag í kvenkyni og hvorugkyni en aldrei í karlkyni – líklegra er að í dæmunum hér að framan sé í raun um þolfall að ræða en ekki nefnifall. En þá má spyrja hvernig standi á því að sögnin virðist geta samræmst þolfallsfrumlagi í tölu í kvenkyni og hvorugkyni en aldrei í karlkyni – dæmi eins og *þá vanta peninga eða *mennina vanta peninga eru ekki til. Það er líka tæpast tilviljun að persónubeygðar myndir vanta eru langalgengastar þar sem frumlag er ekki til staðar næst sögninni, svo sem í tilvísunarsetningum og þeirri seinni af tveim hliðskipuðum setningum þar sem frumlagi er sleppt vegna samsömunar við frumlag þeirrar fyrri, og þar kemur persónubeyging ekkert síður fyrir með karlkynsorðum.

Í Fróða 1882 segir: „Einnig geta þeir, sem vanta blöð af 3. árinu, fengið þau hjá þeim.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Þeir, sem vanta jarðýtu um lengri tíma, tali við mig í kvöld.“ Í Vísi 2021 segir: „Fyrir þá sem vanta hugmyndir hafa margir einstaklingar deilt sinni eigin dagskrá.“ Í Norðanfara 1873 segir: „þeir sem framvegis kynnu að hafa löngun til að flytja hingað og vanta fje til ferðakostnaðar geta sent mjer nöfn sín.“ Í Hæni 1925 segir: „Og eru það ekki þeir, sem engin hafa kúabúin og vanta viðbit og ost?“ Í Þjóðviljanum 1936 segir: „fjöldi barna í Reykjavík býr í heilsuspillandi íbúðum og vanta þá næringu, sem börn nauðsynlega þurfa.“ Á Bland.is 2006 segir: „Er annars að fara í frí eftir 2 vikur og vanta eitthvað að lesa.“

Niðurstaða mín er sú að öfugt við það sem virðist og ég hélt í fljótu bragði hafi vanta aldrei tekið nefnifallsfrumlag. Í máli sumra virðist hins vegar gilda sú regla að sögn standi í þeirri tölu sem er merkingarlega eðlileg, nema frumlagið sendi frá sér skýr skilaboð um að það standi í aukafalli. Vegna þess að sögn getur aldrei sambeygst aukafallsfrumlagi var sambeyging útilokuð í slíkum tilvikum en sögnin kom í hinni ómörkuðu mynd þriðju persónu eintölu. En engin slík skilaboð berast frá þolfallsfrumlögunum hér að framan vegna þess að þau gætu formsins vegna staðið í nefnifalli – og slík skilaboð berast ekki heldur í setningum sem hafa ekkert yfirborðsfrumlag. En umrædd regla virðist vera á undanhaldi í málinu.

Kindurnar (sem) vöntuðu

Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvort fólk kannaðist við setningar eins og kindurnar vöntuðu sem fyrirspyrjandi sagðist hafa séð mörg dæmi um í dagbók frá fyrri hluta síðustu aldar. Þarna er sögnin vanta höfð persónuleg – látin sambeygjast frumlaginu kindurnar og standa í þriðju persónu fleirtölu. Venjulega tekur sögnin aukafallsfrumlag og stendur í þriðju persónu eintölu þannig að búast hefði mátt við kindurnar vantaði. Myndin kindurnar getur að vísu verið hvort heldur er nefnifall eða þolfall en lítur út fyrir að vera nefnifall þarna vegna þess að það er alveg óbrigðul regla í íslensku að sagnir sambeygist ekki orði í aukafalli. Myndina vöntuðu sem hlýtur að vera fleirtala er hins vegar ekki að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Sögnin vanta er óvenjuleg að því leyti að hún tekur venjulega með sér tvo þolfallsliði – skólann vantar matráð. Fyrri nafnliðurinn, sem vísar til þess sem vantar eitthvað, stendur iðulega í þágufalli í stað þolfalls eins og alkunna er, þótt það sé ekki viðurkennt mál – skólanum vantar matráð. Það er líka hægt að sleppa fyrri nafnliðnum og þá stendur hinn liðurinn fremst, sá sem vísar til þess hlutar eða fyrirbæris sem vöntun er á – matráð vantar (í skólann). Sá liður stendur aldrei í þágufalli – aldrei er sagt *matráði vantar, en aftur á móti eru til dæmi um nefnifall, matráður vantar. Dæmin sem spurt var um eru einmitt af því tagi og voru býsna algeng áður fyrr – á tímarit.is er á þriðja hundrað dæma um vöntuðu frá miðri nítjándu öld til þessa dags.

Dæmunum fer þó ört fækkandi eftir 1970 og eru nú sárafá, en slæðing af dæmum má þó finna í Risamálheildinni, einkum úr samfélagsmiðlum. Á Bland.is 2004 segir t.d.: „ég sagði henni að það væru tvíbura hreindýrabörn sem vöntuðu snuddurnar.“ En vanta stóð ekki bara í fleirtölu í þátíð þriðju persónu, heldur einnig í nútíð  – í Norðlingi 1878 segir t.d.: „í þær vanta ýmsar nauðsynlegar ákvarðanir.“ Í Þjóðólfi 1892 segir: „Túngirðingar eru því hvervetna bráðnauðsynlegar og ættu menn að kosta kapps um, að fá þær gjörðar þar sem þær vanta, sem víða mun vera.“ Það er hins vegar erfitt að finna rafrænt dæmi um aðrar myndir en vöntuðu vegna þess að þær falla saman við venjulegar beygingarmyndir sagnarinnar.

Það er athyglisvert að talsverður hluti dæma um vöntuðu, ekki síst á samfélagsmiðlum, er í tilvísunarsetningum – sem vöntuðu. Merkilegt dæmi er í Norðanfara 1879: „Loksins var hann viðurkenndur sýkn, „af því sannanir vantaði“; það voru því einungis sannanir sem vöntuðu.“ Þarna er fyrst þriðja persóna eintölu, sannanir vantaði, en í tilvísunarsetningunni er notuð fleirtala, sannanir sem vöntuðu. Í slíkum dæmum stendur sögnin ekki næst frumlaginu, heldur kemur tilvísunartengingin – og oft eitthvað fleira – þar á milli. Hugsanlegt er að þetta valdi því að málfræðileg tengsl frumlags og sagnar rofni og merkingin taki yfir, og sögnin komi því í fleirtölu – sem er merkingarlega eðlileg – í stað eintölu sem aukafallsfrumlag myndi kalla á.

Með blæti fyrir málfræði

Í gær var spurt í hópnum „Málspjall“ um merkingu orðsins blæti í samböndum eins og hafa blæti fyrir einhverju. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'hlutur eða fyrirbæri sem veldur kynörvun hjá ákveðnum einstaklingum' en sú merking er ekki gömul. Þetta orð kemur fyrir í fornu (skálda)máli og merkir upphaflega 'hlutur eða vera sem e-r tilbiður og færir fórnir; skurðgoð, hjáguð' – skylt nafnorðinu blót. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið merkt úrelt og skýrt 'fórn' eða ‚'fórnardýr'. Í Íslenskri orðabók er það einnig skýrt 'fórnardýr' og 'hlutur sem er dýrkaður sem goðvera, skurðgoð' en í nýjustu útgáfu bókarinnar hefur merkingunni sem tilgreind er í Íslenskri nútímamálsorðabók verið bætt við.

Við þá merkingu stendur „sálfr.“ sem sýnir að í þessari merkingu er blæti eins konar íðorð, enda er það flettiorð í tveimur söfnum í Íðorðabankanum. Í íðorðasafni úr læknisfræði er orðið skilgreint 'Hlutlægt (áþreifanlegt, sýnilegt) eða á annan hátt skynjanlegt fyrirbæri, sem af vissri þráhyggju er eftirsótt eða dýrkað, s.s. til persónulegrar kynörvunar, eða vegna meintra yfirnáttúrulegra eiginleika' og í orðasafni úr uppeldis- og sálarfræði er það skilgreint 'e-r hlutur, sem með ólíkindum veldur kynörvun' og í nánari skýringu segir 'Einatt e-ð, sem konum heyrir til, þegar karlmenn eiga í hlut, t.d. nælonsokkar eða hanskar'. Í báðum tilvikum er orðið notað sem samsvörun við enska orðið fetish – sú notkun var tekin upp seint á síðustu öld.

Í Veru 1999 segir: „fer jafnvel út í áhuga á fetishisma, sem hefur verið þýtt munalosti eða blæti og felst í ofurást á hlutum, oft fötum svo sem skóm og undirfötum.“ Í Degi 2000 segir: „Blæti er eitt af þessum orðum sem einn snillingur smíðaði fyrir orðið fetish sem er notað í erlendum tungum um eitthvað sem veitir einhverjum kynferðislega örvun en samræmist ekki hefðbundnum skilningi samfélagsins á kynferðislegri örvun.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Alþjóðaorðið fyrir þesskonar hluti er „fetish“ en hefur verið kallað „blæti“ á íslensku.“ Í DV 2003 segir: „Enska orðið fetish þýðir í stuttu máli að eitthvað hafi kynörvandi áhrif á fólk. Íslenska orðið yfir þetta er blæti sem verður að teljast misheppnuð orðasmíð.“

Skýringin á fetish í ensku virðist í fljótu bragði falla vel að áðurnefndum skýringum orðabóka og íðorðasafna á blæti: 'a sexual interest in an object or a part of the body other than the sexual organs' eða 'kynferðislegur áhugi á hlut, eða á líkamshluta öðrum en kynfærum'. En á þessu er þó mikilvægur munur: Enska orðið vísar ekki til hlutar eða fyrirbæris heldur til óvenjulegs eða óeðlilegs áhuga á tilteknum hlut, fyrirbæri, líkamshluta eða athöfn, og sá áhugi þarf ekki að vera af kynferðislegum toga – fetish er líka skýrt 'an interest in an activity or object that makes someone spend an unreasonable amount of time doing it or thinking about it' eða 'áhugi á athöfn eða hlut sem veldur því að óeðlilega löngum tíma er varið í það eða hugsun um það'.

Svona hefur orðið blæti einmitt oftast verið notað undanfarið – ekki um hlut eða fyrirbæri, heldur um óvenjulegan eða óeðlilegan áhuga, ekki endilega kynferðislegan, mjög oft í sambandinu blæti fyrir. Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun er í Morgunblaðinu 2003: „Í þessum myrkraverkum finnst flugan í huganum sem hefur blæti fyrir að sitja í kjallara náungans.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég er með rosa blæti fyrir skóm og fötum og snyrtivörum.“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Merkilegt nokk virðist varaforsetaframbjóðandinn fyrrverandi Sarah Palin einnig hafa blæti fyrir sogrörum sem hægt er að beygja til og frá.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Hann hefur blæti fyrir góðri samsetningu á bindi og axlaböndum.“

Orðið blæti á sér því áhugaverða sögu. Þegar það var gert að íðorði var hinni gömlu merkingu, 'hlutur sem er dýrkaður sem goðvera, skurðgoð‘' eiginlega haldið en merkingunni 'til kynörvunar' bætt við. En seinna færðist aðalmerking orðsins frá hlutnum eða fyrirbærinu yfir í áhugann á þessu og þá kom til sambandið blæti fyrir – og jafnframt varð merkingin almennari þannig að kynferðisleg merking þarf ekki að vera til staðar. Væntanlega má rekja þessa breytingu til áhrifa frá enska orðinu fetish sem blæti var gert að samsvörun við. Það er því ljóst að skýringar orðsins í íslenskum orðabókum og íðorðasöfnum eru ófullnægjandi og villandi – ná ekki yfir langalgengustu notkun orðsins blæti á síðustu árum.

Þjóðarmorð

Fá orð eru meira áberandi í almennri umræðu þessa dagana en þjóðarmorð en stundum virðist gæta nokkurs misskilnings um merkingu þess og notkun. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'markviss útrýming þjóðar'. Á vef UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, segir: „Pólski lögfræðingurinn Raphäel Lemkin bjó til hugtakið “þjóðarmorð” (genocide) árið 1944. Lemkin reyndi með því að finna orð yfir Helförina. Einnig vildi hann lýsa þeim verknaði þegar heilum þjóðum, kynþáttum og trúarhópum hafði verið útrýmt. […] Þjóðarmorð var í fyrsta skipti skráð sem sérstakur glæpur samkvæmt alþjóðalögum í Sáttmálanum um þjóðarmorð árið 1948 en hann gekk í gildi árið 1951.“

Það sem þarna segir um uppruna hugtaksins og enska orðsins genocide er án efa rétt en það er mikilvægt að halda því til haga að íslenska orðið þjóðarmorð er ekki tilkomið sem þýðing á enska orðinu, heldur er hálfri öld eldra. Elsta dæmi um orðið er í Þjóðviljanum unga 1897, þar sem segir: „þjóðarmorðið á ekki, og má ekki, fremur en mannsmorðið haldast óhegnt.“ Þarna er orðið notað í óeiginlegri merkingu um það athæfi stjórnvalda „að smá-pína kjarkinn og lífsþrekið úr þjóð sinni með gjörræðisfullri misbrúkun stjórnar- og embættis-valdsins“, en í Ísafold 1919 er orðið notað í nútímamerkingu: „Er þar fyrst Armenía, þetta margkúgaða og hrjáða land, sem hefir staðið hinar mörgu þjóðarmorðstilraunir Tyrkja og ótrúlega grimd.“

Fáein dæmi eru um orðið fram til 1945, en elsta dæmi um að þjóðarmorð sé notað um skipulega útrýmingu Gyðinga í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni er í Þjóðviljanum 1955 þar sem fjallað er um athæfi Breta í Kenýa: „Þar er verið að framkvæma sams konar þjóðarmorð eins og stríðsglæpamenn nazista voru dæmdir fyrir í Nürnberg fyrir níu árum.“ Síðan hefur það verið notað um ýmis voðaverk sem sum hver yrðu þó varla kölluð þjóðarmorð nú – á sínum tíma töluðu íslensk blöð t.d. iðulega um „þjóðarmorð á Ungverjum“ í uppreisninni árið 1956 en þar er talið að 2500-3000 manns hafi fallið. Í seinni tíð er þjóðarmorðið í Rúanda árið 1994 þekktast en það var sannarlega þjóðarmorð samkvæmt öllum viðmiðum – meira en hálf milljón drepin.

Stundum er deilt um hvort réttlætanlegt sé að nota orðið þjóðarmorð um það sem er að gerast á Gaza – t.d. sagði utanríkisráðherra um áramótin: „Það er bara lagatæknileg skilgreining á alþjóðavísu sem þú þarft að falla undir. Ég veit bara ekki hvort það falli undir.“ En ráðherrann sagði jafnframt: „ef að þjóðarmorð er það til þess að lýsa yfir hryllilegum aðstæðum, gríðarlegu ofbeldi þá getur fólk talað um að það sé þjóðarmorð.“ Þetta er lykilatriði. Í íslenskum lögum er orðið þjóðarmorð ekki notað, heldur hópmorð. Um þau er fjallað í lögum nr. 2018, þar sem skilgreindir eru þeir verknaðir sem „teljast hópmorð þegar þeir eru framdir í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum“.

Orðið þjóðarmorð er íslenskt orð sem við getum notað ef okkur finnst það eiga við, óháð lagatæknilegri skilgreiningu – orðið kemur nefnilega ekki fyrir í alþjóðalögum þótt orðið genocide geri það, og þjóðarmorð er ekki sú samsvörun við genocide sem notuð er í íslenskum lögum. Þess vegna þurfum við ekkert að hika við að nota orðið þjóðarmorð uns Alþjóðadómstólinn úrskurðar um lagatæknilega skilgreiningu þess sem er að gerast á Gaza. Þetta er dæmi um að mikilvægt er að gera mun á íslenskum orðum og erlendum – átta sig á því að íslensku orðin eiga sér sjálfstætt líf og gefa sér ekki hugsunarlaust að tiltekið íslenskt orð lúti þeim takmörkunum sem kunna að vera á notkun erlends orðs sem vísar til sama hugtaks.

Byltni

Í þættinum „Stúkan“ á Stöð tvö sport var verið að ræða um orðið byltni sem er tillaga að íslensku nýyrði yfir það sem heitir á ensku possession og hefur venjulega verið kallað 'með boltann' á íslensku. Orðið byltni var sagt „dregið af orðunum bolti og leikni eða jafnvel bolti og nýtni.“ Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að mynda bylt- af bolt- – það er i-hljóðvarp eins og t.d. (Breið)hyltingur af (Breið)holt o.fl. Það er engin þörf á að tengja -ni við orð eins og leikni og nýtni – -ni er virkt viðskeyti sem hægt er að nota til að mynda nafnorð af lýsingarorðum. Upphaflega var því bætt við lýsingarhætti sem enda á -inn eins og fyndinn – fyndni, en nú er einnig hægt að nota það á önnur lýsingarorð, eins og virkur virkni, blindur blindni.

En þótt byltni sé í sjálfu sér ágætt orð er rétt að athuga að í þessu tilviki er verið að mynda -ni-orð af nafnorðinu bolti en ekki af lýsingarorði þannig að þetta virðist ekki vera í samræmi við venjulegar orðmyndunarreglur. Úr því mætti reyndar bæta með því að mynda lýsingarorðið byltinn sem merkti þá 'sem er mikið með boltann' (t.d. Vestri var mjög byltinn í þessum leik) og segja síðan að byltni væri leitt af byltinn en ekki beint af bolti. Eftir stendur samt það vandamál að nafnorð með viðskeytinu -ni tákna yfirleitt einhverja eiginleika – fyndni, glettni, hittni og mörg fleiri. En byltni táknar ekki eiginleika í sama skilningi og þess vegna er það ekki alls kostar heppilegt orð í þeirri merkingu sem hér er verið að gefa því.

Við þetta bætist að til er sögnin bylta og nafnorðin bylta og bylting sem eru óskyld orðinu bolti (sem er tökuorð úr dönsku, bold). Það liggur miklu beinna við að tengja byltni við þessi orð – og orðið hefur reyndar verið notað þannig. Í Læknanemanum 1996 segir: „Hin háa notkun svefn- og kvíðastillandi lyfja, val þeirra og skammtastærðir, vekja hins vegar upp spurningar með tilliti til aukaverkana, s.s. byltni.“ Þarna er byltni greinilega notað í merkingunni 'hætta á byltum' sem er eðlilegt, og lægi beint við að nota einnig lýsingarorðið byltinn í merkingunni 'byltugjarn'. Ég get því ekki mælt með byltni í stað 'með boltann' en auðvitað eru það á endanum málnotendur en ekki málfræðingar sem ráða örlögum orða. Þannig á það líka að vera.

Glæpir gegn mannúð – mannúðarkrísa

Enska orðið humanity getur ýmist merkt ‘fólk almennt’ (‘people in general’) eða ‘mannúð’ (‘understanding and kindness towards other people’). Í fyrri merkingunni er það ekki síst notað í sambandinu crime against humanity sem oftast var þýtt glæpur gegn mannkyni. Wikipedia skilgreinir þetta svo: „Glæpir gegn mannkyni eru ákveðnir alvarlegir glæpir sem eru framdir sem hluti af meiriháttar árás gegn almennum borgurum“ („Crimes against humanity are certain serious crimes committed as part of a large-scale attack against civilians“). Elsta dæmi sem ég finn um þetta orðalag er í Frjálsri þjóð 1961: „Rússar hafa hér framið glæp gegn mannkyni.“ Síðan hefur þetta verið langalgengasta orðalagið sem notað er í þessari merkingu – og er enn.

Annað orðalag er þó eldra um þetta – glæpur gegn mannúð. Það kemur t.d. fyrir í Rétti 1921: „Hvaða glæpir hafa verið framdir hér gegn mannúð eða alþjóðalögum?“ Í Alþýðublaðinu 1946 eru „Afbrot gegn mannúð“ talin upp sem einn þeirra flokka sem ákært var fyrir í Nürnberg-réttarhöldunum. Þetta orðalag var lítið notað lengi vel en hefur verið endurvakið á seinustu árum, einkum í lagamáli – t.d. í Lögum um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði nr. 144/2018 og í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum þar sem það er skilgreint „manndráp, pyndingar o.fl., framin sem hluti af víðtækri eða kerfisbundinni atlögu sem beint er gegn óbreyttum borgurum, vitandi vits um atlöguna“.

Annað enskt orð þessu skylt er humanitarian sem merkir ‘tekur þátt í eða tengist því að bæta líf fólks og draga úr þjáningum’ (‘involved in or connected with improving people's lives and reducing suffering’). Þetta orð er ekki síst notað í samböndum eins og humanitarian aid sem hefur verið þýtt mannúðaraðstoð og humanitarian crisis sem hefur verið þýtt mannúðarkrísa. Wikipedia skilgreinir þetta svo: „Mannúðarkrísa er atburður eða röð atburða sem ógna heilsu, öryggi og velferð samfélags eða stórs hóps fólks“ („A humanitarian crisis (or sometimes humanitarian disaster) is defined as a singular event or a series of events that are threatening in terms of health, safety or well-being of a community or large group of people“).

Orðið mannúðarkrísa sást fyrst í blöðum fyrir tæpum tuttugu árum og er augljóslega bein samsvörun við humanitarian crisis en er ekki sérlega heppilegt orð. Ég held að tökuorðið krísa sem er skýrt ‘ótryggt ástand, erfiðleikar’ og ‘sálræn vandamál, t.d. eftir áfall’ í Íslenskri nútímamálsorðabók sé talsvert vægara en enska orðið crisis sem er skýrt ‘tími mikils ósættis, ruglings eða þjáninga’ (‘a time of great disagreement, confusion, or suffering’) eða ‘einstaklega erfiður eða hættulegur tímapunktur í ákveðnum aðstæðum’ (‘an extremely difficult or dangerous point in a situation’). Við það bætist að eins og Wikipedia bendir á er einnig talað um humanitarian disaster í sömu merkingu en disaster er ‘voði, hörmungar’ eða eitthvað slíkt.

En þótt enska orðið humanity geti vissulega merkt ‘mannúð’ held ég að sú merking eigi tæpast við í crime against humanity og glæpur gegn mannúð sé því ekki heldur góð þýðing. Sama gildir um glæpur gegn mannkyni – mér finnst það ekki ná þeirri merkingu sem um er að ræða. Skásta þýðingin sem mér hefur dottið í hug er glæpur gegn mennskunni. Orðið mennska merkir ‘það ástand að vera maður, mannlegur’ – þarna er um að ræða glæpi gegn mannlegri reisn. Til samræmis við það mætti þá tala um mennskuvoða fyrir humanitarian crisis/disaster – eða halda sig við mannúð og tala um mannúðarvoða. En svo verður fólk að eiga það við sig hvort því finnist eitthvert þessara orða hæfilega sterkt orð til að lýsa ástandinu á Gaza um þessar mundir.