Íslendingar sem birt hafa rit um sögu raunvísinda - Drög

Athugið að skráin er ekki tæmandi - Færsluhöfundur þiggur með þökkum allar athugasemdir sem og ábendingar um viðbætur.

Með tíð og tíma er skránni ætlað að ná yfir sem flesta Íslendinga, sem birt hafa ritsmíðar um sögu raunvísinda (þar á meðal stærðfræði), án tillits til þess hvort þær eru frumsamdar, þýddar eða endursagðar. Ekki verður heldur gerður greinarmunur á því, hvort ritin fjalla sérstaklega um sögu raunvísinda á Íslandi eða um vísindasögu almennt.

Mér er fullljóst, að talsverð slagsíða er á skránni. Hallinn er í átt að áhugasviðum mínum, sem eru einkum stjörnufræði, eðlisfræði og stærðfræði. Eflaust vantar því í skrána ýmsa höfunda, sem fjallað hafa um sögu annarra eðlisvísinda sem og lífvísinda. Ég vona, að lesendur hjálpi mér að fylla í eyðurnar með því að senda mér gagnlegar upplýsingar.

Í samantekt sem þessari er útilokað að birta fullnægjandi ritaskrá fyrir allan hópinn, enda eru slíkar skrár yfirleitt ekki auðfundnar (í skránni er þó í sumum tilvikum hægt að nálgast ritaskrár með því að smella á viðeigandi nöfn eða aðra tengla). Hér hef ég því tekið þann kost að nefna aðeins nokkrar helstu vísindasöguritsmíðar viðkomandi höfunda, stundum þó aðeins eina, og í vissum tilvikum enga.

Athugið að skráin er í tveimur hlutum:

      1. Látnir höfundar í aldursröð.
      2. Lifandi höfundar í stafrófsröð.

I


17. og 18. öld

Gísli Einarsson skólameistari í Skálholti og síðar prestur á Helgafelli (1621-1688).

Hann reiknaði árlegt almanak fyrir Kaupmannahöfn árið 1650 og undirbjó prentun þess: Almanach Paa det Aar [...] M.DC.L. Síðasti kaflinn, Continuatio historia om Astromomiæ Begyndelse oc Fremgang, fjallar á frekar einfaldan hátt um sögu stjörnufræðinnar frá tímum Ptólemaíosar fram á daga Týchós Brahe. Kaflinn var sá síðasti af þremur um söguna. Hinir tveir höfðu áður birst í almanökunum 1648 og 1649, sem aðrir en Gísli gáfu út. Mér er því ekki ljóst, hvort kaflinn er skrifaður af Gísla sjálfum, eða einhverjum öðrum. Ekki veit ég heldur við hvaða heimild(ir) höfundurinn studdist, en nefna má, að á 16. og 17. öld var fyrst og fremst fjallað um sögu stjörnufræðinnar í inngangi rita um stjörnufræði og í prentuðum fyrirlestrum lærdómsmanna.


Þorleifur Halldórsson skólameistari á Hólum (1683-1713).

Í latneskri dispútatíu hans frá 1706, De inventione astronomiæ apud Chaldæos (Um uppruna stjörnufræðinnar meðal Kaldea) er tekin fyrir deilan um það, hvort stjörnufræðin sé upprunin meðal Kaldea (Babylóníumanna), Hebrea eða Egifta. Hinn forni spekingur Jósephus (1. öld e.Kr.) hélt því fram, að Seth sonur Adams hefði uppgötvað stjörnufræðina og  þekking hans á stjörnuhimninum hefði verðið skráð á tvær súlur, sem stóðust syndaflóðið.  Samkvæmt Jósepheusi voru það Nói og synir hans, einkum Sem, sem varðveittu þessa þekkingu og hún barst áfram til Kaldea, niðja Sems. Að lokum var það svo Abraham, sem færði Egiftum stjörnufræðina og þaðan barst hún til Forn-Grikkja.

Hugmyndir Jósephusar lifðu enn góðu lífi á endurreisnartímanum. Sem dæmi má nefna, að Týchó Brahe fjallaði um þær í opinberum fyrirlestri, sem hann hélt við Hafnarháskóla árið 1574 (sjá Translation of Tycho Brahe's De disciplinis mathematicis, bls. 315-16).

Umfjöllunin í dispútatíu Þorleifs byggir fyrst og fremst á tilvitnunum í átorítet eins og  Jósephus sjálfan, Lúkretíus (1. öld f.Kr.), Diodoros (1. öld f.Kr.), Ciceró (106-43 f.Kr), Polydore Vergil (1470-1555), Golíus (1596-1667), Horníus (1620-1670) og A. Le Grand (1629-1699), sem og Biblíuna. Niðurstaða hans er sú, að Kaldear hafi fyrstir mótað stjörnufræðina, en hvorki Hebrear né Egiftar. Sjá í þessu sambandi:


Stefán Björnsson reiknimeistari (1721-1798).

Gaf m.a. út Rímbeglu á íslensku og latínu ásamt skýringum árið 1780.


19. öld

Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld (1807-1845).

Í greininni Um eðli og uppruna jarðarinnar (1835) kemur hann inná sögu hugmynda um uppruna og þróun jarðarinnar og sólkerfisins. Hann kynnti einnig sögu stjörnufræðinnar fyrir Íslendingum, því síðasti kaflinn í Stjörnufræði Ursins (bls. 204-218) fjallar um hana.


Benedikt Gröndal fornfræðingur, náttúrufræðingur og skáld (1826-1907).

Síðasti kaflinn í Efnafræði hans (1886) fjallar um sögu greinarinnar (bls. 67-76).


Janus Jónsson prestur (1851-1922).

Skrifaði m.a. greinar um Brúnó (1913) og Kóperníkus (1915).


Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur (1855-1921).

Stórvirki hans Landsfræðissaga Íslands: Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og siðar IIIIII og IV kom út á árunum 1892 til 1904. Ritið er ein mikilvægasta prentaða heimildin um sögu raunvísinda á Íslandi.

Landfræðissagan var gefin út aftur á árunum 2003-2009, nú fallega myndskreytt. Jafnframt fylgdi sérstök lykilbók  (5. bindi) með fróðlegum söguritgerðum eftir Freystein Sigurðsson jarðfræðing, Pál Imsland jarðfræðing, Guðrúnu Ólafsdóttur landfræðing, Leif Á. Símonarson steingervingafræðing, Karl Skírnisson líffræðing, Gunnar Jónsson dýrafræðing og Eyþór Einarsson grasafræðing.


20. og 21. öld

Á fyrri hluta 20. aldar jókst mjög áhugi manna á sögu raunvísinda á Íslandi á miðöldum. Skrár yfir ýmis rit um það efni má finna, ásamt tenglum, á vefsíðunni Stjörnufræði á Íslandi á miðöldum. Sjá einnig í þessu sambandi ritin A World in Fragments: Studies on the Encyclopedic Manuscript GKS 1812 4to (aðalritstj. Gunnar Harðarson; 2021) og Íslensk þjóððmenning VII: Alþýðuvísindi (ritstj. Frosti F. Jóhannsson; 1990).


Ágúst H. Bjarnason heimspekingur (1875-1952).

Skrifaði talsvert um raunvísindi og sögu þeirra, m.a. í ritunum Yfirlit yfir sögu mannsandans I-V (1905 - 1915), Saga mannsandans I-V (1949-1954), Himingeimurinn (1926) og Heimsmynd vísindanna (1931). Meðal þýðinga hans er bókin Kjarnorka á komandi tímum (1947) eftir D. Dietz, þar sem m.a. er fjallað um sögu atómkenningarinnar.


Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur (1876-1961).

Skrifaði m.a. um raunvísindi á miðöldum, þ.á.m. greinarnar Stjörnu-Oddi (1926), Misseristalið og tildrög þess (1928) og Ari fróði og sumaraukareglan (1932). Sjá einnig greinina Frumefnin og frumpartar þeirra (1922).


Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur (1891-1961).

Skrifaði m.a. greinina Frumeindakenning nútímans (1924).


Jón Eyþórsson veðurfræðingur (1895-1968).

Fjallaði talsvert um sögu vísindanna í ýmsum verkum sínum. Þar á meðal eru tvær merkar greinar um Rasmus Lievog stjörnumeistara.


Niels Dungal læknir (1897-1965).

Hann gaf út umdeilda bók, Blekking og þekking, árið 1948. Umfjöllunarefnið var barátta vísinda og kirkju og efnið að hluta byggt á hugmyndafræði sagnfræðingsins A. D. Whites í verkinu A History of the Warfare of Science with Theology in Christendom frá 1896.


Kristín Ólafsdóttir læknir (1889-1971).

Þýddi bókina Frú Curie (1939) eftir Ève Curie.


Steindór Steindórsson náttúrufræðingur (1902-1997).

Skrifaði ýmislegt um sögu náttúruvísinda, m.a. bókina Íslenskir náttúrufræðingar 1600-1900 (1981).


Björn Franzson kennari og blaðamaður (1906-1974).

Meginrit hans er Efnisheimurinn frá 1938. Þar er fjallað um eðlisvísindi og sögu þeirra.


Trausti Einarsson stjörnufræðingur og jarðeðlisfræðingur (1907-1984).

Fjallaði m.a. um sögu heimsmyndarinnar í formála að bókinni Uppruni og eðli alheimsins eftir Fred Hoyle (1951; þýð.: Hjörtur Halldórsson) og í greininni Hugmyndir manna um alheiminn fyrr og nú (1958). Fjallaði einnig um raunvísindi á miðöldum í greinunum Nokkur orð um sumaraukagreinina í Íslendingabók (1961) og Hvernig fann Þorsteinn surtur lengd ársins? (1968) og Nokkur atriði varðandi fund Íslands, siglingar og landnám (1970).


Hjörtur Halldórsson kennari, rithöfundur og áhugamaður um raunvísindi (1908-1977).

Þýddi eða endursagði ýmis rit um raunvísindi, sem mörg hver voru með sögulegu ívafi, t.d. Þættir úr ævisögu jarðar (1954) og Vísindamaðurinn (1966).


Haraldur Sigurðsson bókavörður (1908-1995).

Þekktasta verk hans er Kortasaga Íslands (tvö  bindi, 1971 og 1978).


Guðmundur Arnlaugsson stærðfræðingur (1913-1996).

Eftir hann liggur ýmislegt sagnfræðilegs eðlis um stærðfræði og stærðfræðimenntun. Einnig söguleg grein um þyngdina. Bókin Stærðfræðingurinn Ólafur Dan Daníelsson: Saga brautryðjanda (1996) er eftir hann og Sigurð Helgason stærðfræðing.


Ólafur Björnsson læknir (1915-1968).

Þýddi bókina Á morgni atómaldar (1947) eftir sænska eðlisfræðinginn Helge Tyrén og skrifaði inngang.


Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur (1917-1988).

Skrifaði nokkrar greinar um sögu eðlisfræðinnar.

Í ritinu Í hlutarins eðli - Afmælisrit til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor (ritstj. Þorsteinn I. Sigfússon, 1987) eru margar fróðlegar greinar um sögu rannsókna í nútíma eðlisvísindum, m.a. eftir Pál Theodórsson, Magnús Magnússon, Þorstein Vilhjálmsson,  Örn Helgason, Leó Kristjánsson, Braga Árnason, Guðmund Pálmason, Pál Einarsson, Sveinbjörn Björnsson, Helga Björnsson, Guðmund E. Sigvaldason, Einar Júlíusson, Guðna Sigurðsson og Jakob Yngvason.


Jón Jónsson fiskifræðingur (1919-2010)

Meðal rita hans er Hafrannsóknir við Ísland I og II (1988, 1990).


Unnsteinn Stefánsson haffræðingur (1922-2004)

Skrifaði m.a. um sögu hafrannsókna. Sjá t.d. bókina Hafið (1999; bls. 368-372).


Páll Theodórsson eðlisfræðingur (1928-2018).

Skrifaði heilmikið um sögu vísinda, ekki síst um sögu rannsókna við Eðlisfræðistofnun Háskólans og eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar (sjá ritaskrá Páls).


Þorleifur Einarsson jarðfræðingur (1931-1999).

Sjá m.a. ingang um sögu jarðfræðirannsókna í bók hans, Jarðfræði, frá 1968.


Ottó J. Björnsson stærðfræðingur (1934-2016).

Skrifaði ýmislegt um sögu stærðfræðinnar og gaf m.a. út tvo bæklinga um spekinginn Björn Gunnlaugsson og verk hans (1990 og 1997). Einnig bæklingana Úr sögu stærðfræðinnar (1983) og Um reglu Herons (1991).


Svend-Aage Malmberg haffræðingur (1935-2014)

Skrifaði m.a. greinina Haffræði og upphaf hafrannsókna við Ísland (2003).


Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðingur (1943-2020).

Skrifaði heilmikið um sögu raunvísinda, einkum jarðvísinda og eðlisfræði. Sjá heimasíðu á Vefsafn.is. Bókin Silfurberg kom út að honum látnum, árið 2020.


II


Andri S. Björnsson sálfræðingur.

Höfundur bókarinnar Vísindabyltingin (2004).


Einar H. Guðmundsson stjarneðlisfræðingur.

Hefur m.a. fengist við sögu raunvísinda á Íslandi. Sjá skrána Saga stjörnufræði og eðlisfræði á Íslandi frá miðöldum fram á tuttugustu og fyrstu öld - Nokkur rit eftir Einar H. Guðmundsson.


Guðmundur Eggertsson líffræðingur.

Höfundur bókanna Rök lífsins (2018), Ráðgáta lífsins (2014), Leitin að uppruna lífs: Líf á jörð, líf í alheimi (2008) og Líf af lífi: gen, erfðir og erfðatækni (2005).


Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur.

Meðal verka hans eru Melting the Earth: The History of Ideas on Volcanic Eruptions (1999) og The Encyclopedia of Volcanoes (ritstj., 2. útg. 2015).


Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur.

Meðal verka hans er bókin Jöklar á Íslandi (2009). Þar er að finna áhugavert yfirlit um sögu rannsókna á jöklum á Íslandi.


Helgi Hallgrímsson líffræðingur.
Ritaði m.a. greinina Johan Gerhard König og upphaf íslenskrar grasafræði (2018).


Helgi Sigvaldason vélaverkfræðingur og tölfræðingur.

Hefur skrifað talsvert um þróun tölvunarfræðinnar.


Hilmar Garðarsson sagnfræðingur.

Höfundur bókarinnar Saga Veðurstofu Íslands (1999).


Jón Ragnar Stefánsson stærðfræðingur.

Skrifaði m.a. um Leif Ásgreirsson stærðfræðing í bókinni Leifur Ásgeirsson – Minningarrit (1998).


Jón Þorvarðarson kennari.

Höfundur bókarinnar Og ég skal hreyfa jörðina (2. útg., 2012).


Júlíus Sólnes verkfræðingur.

Var m.a. aðalritstjóri verksins Náttúruvá á Íslandi og skrifaði í það kaflana Úr sögu jarðvísindanna (bls. 21-43) og Úr sögu jarðskjálfafræðinnar (bls. 471-491).


Karl Emil Gunnarsson.

Þýddi m.a. bækurnar Alheimurinn (2010) og  Vísindin (2011), sem báðar fjalla um fræðin og sögu þeirra.


Kristín Bjarnadóttir stærðfræðingur.

Hefur skrifað heilmikið um sögu stærðfræði og stærðfræðimenntunar á Íslandi.


Kristín Halla Jónsdóttir stærðfræðingur.

Þýddi bókina Síðasta setning Fermats eftir S. Singh með inngangi eftir Sigurð Helgason stærðfræðing.


Kristján Guðmundur Arngrímsson heimspekingur.

Þýddi verkið Vísindabyltingar eftir T.S. Kuhn með inngangi eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.


Magnús Magnússon eðlisfræðingur.

Hefur m.a. skrifað um Einstein og kenningar hans, sögu Kjarnfræðanefndar Íslands, aðdragandinn að stofnun Raunvísindastofnunar Háskólans og Reiknistofnun HÍ.


Sigrún Helgadóttir líf- og umhverfisfræðingur.

Skrifaði ævisöguna Sigurður Þórarinsson – Mynd af manni I-II (2021).


Sigurður Helgason stærðfræðingur.

Hefur skrifað ýmislegt sagnfræðilegs eðlis um stærðfræði og stærðfræðinga, m.a. greinina Ólafur Dan Daníelsson og bókina Stærðfræðingurinn Ólafur Dan Daníelsson: Saga brautryðjanda (1996; í samvinnu við Guðmund Arnlaugsson stærðfræðing).


Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur.

Sjá Researchgate.net. Hefur m.a. skrifað talsvert um sögu raunvísinda, einkum jarðvísinda. Þýddi, ásamt Jóhönnu Jóhannesdóttur, bókina Vísindafyrirlestar handa almenningi (2021) eftir H. Helmholtz og skrifaði inngang.


Skúli Sigurðsson vísindasagnfræðingur.

Fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í vísindasagnfræði (Harvard 1991). Einnig með BA-próf í eðlisfræði og stjörnufræði frá Brandeis háskóla í Bandaríkjunum.


Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur.

Annar Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í vísindasagnfræði (Manchester 2005). Einnig með BS-próf í líffræði frá Háskóla Íslands.


Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Hefur skrifað talsvert um sögu veðurfræðinnar. Sjá bloggsíðu og Researchgate.net.


Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur.

Hefur m.a. skrifað um Kóperníkus (1973) og Lavoisier (1968). Einnig greinina Drög að heimsmynd nútímans (1966).


Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og vísindasagnfræðingur.

Sumar greinar hans eru aðgengilegar á Academia.net. Hefur skrifað mikið um sögu og heimspeki vísindanna, þ.á.m. um raunvísindi á miðöldum. Hann var og stofnandi Vísindavefsins, þar sem finna má marga vísindasögupistla eftir ýmsa höfunda. Þekktasta verk hans er Heimsmynd á hverfanda hveli (tvö bindi, 1986-87). Þorsteinn var ritstjóri og aðalhöfundur bókarinnar Einstein. Eindir og afstæði (2015), en þar má jafnframt finna fróðlegar greinar eftir eðlisfræðingana Jakob Yngvason og Þorstein J. Halldórsson.


Þór Jakobsson veðurfræðingur
Hefur m.a. skrifað um Jóhannes Kepler og Gíordanó Brúnó.


Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur.

Meðal verka henar er Flóra Íslands (2018; meðhöfundar: Hörður Kristinsson grasafræðingur og Jón Baldur Hlíðberg myndlistamaður; söguyfirlit er á bls. 55-58).

 

Tengdar færslur

Birt í Óflokkað

Nokkur gagnleg rit um vísindasögu

Eins og í færslunum Raunvísindamenn og vísindasagan og Íslendingar sem birt hafa rit um sögu raunvísinda mótast eftirfarandi skrár talsvert af áhugasviðum færsluhöfundar (stjörnufræði, eðlisfræði og stærðfræði). Ábendingar, sem bæta úr þessu, eru því vel þegnar. Ritin í listunum geyma yfirleitt góðar heimildaskrár, sem nota má til að kafa dýpra í viðkomandi efni.

Hvers vegna ættu vísindamenn að kynna sér vísindasögu?

Ýmislegt um vísindasagnfræði og sögu hennar

Dæmi um nútíma vísindasögurit

Wikipedugreinar um sögu raunvísinda

Saga stjarnvísinda

Saga eðlisfræðinnar

Saga efnafræðinnar

Saga stærðfræðinnar

Tilbrigði við nútíma vísindasöguritun

Hugleiðingar um raunvísindi á jaðarsvæðum og sögu þeirra

Tímarit

 

Tengdar færslur

Birt í Óflokkað

Tvö hundruð og fimmtíu ár frá stofnun embættis konunglegs stjörnumeistara á Íslandi

Vorið 1772 skipaði Kristján konungur sjöundi Borgfirðinginn Eyjólf Jónsson (1735-1775) stjörnumeistara á Íslandi (Observator paa Vort Land Island). Eyjólfur hafði áður verið aðstoðarmaður Christians Horrebow við stjörnuathuganir í Sívalaturni, og síðan framkvæmt ýmsar mælingar hér á landi, samhliða því að vera ritari landsnefndarinnar, sem hér starfaði á áunum 1770-71.

Í erindisbréfi Eyjólfs frá 1772 eru taldar upp þær athuganir, sem honum var ætlað að stunda, og jafnframt tekið fram að reisa skuli fyrir hann viðunandi athugunarstöð. Stiftamtmaður fékk og sérstök fyrirmæli um stuðning við við hinn nýja stjörnumeistara.

Eyjólfur mun hafa þjáðst af tæringu og háði sjúkdómurinn honum svo mjög, að honum varð minna úr verki en annars hefði orðið. Hann kom sér þó upp aðstöðu til stjörnuathugana á Arnarhóli í Reykjavík, þar sem hann stundaði meðal annars athuganir á sólinni. Sjálfur bjó hann í tugthúsinu (nú Stjórnarráðshúsinu). Því miður hefur ekkert varðveist af mæliniðurstöðum hans frá Íslandsárunum, hvernig sem á því stendur.

Eyjólfur lést fertugur að aldri, sumarið 1775, nokkrum dögum eftir að byrjað var að grafa fyrir stjörnuathugunarstöðinni í landi Bessastaða. Við lát hans var hætt við verkið.

Teikning Eyjólfs Jónssonar frá 1773 af stjörnu-athugunarstöðinni, sem aldrei var reist. Stjörnumeistarinn átti að búa á neðri hæðinni, en mælingarnar að fara fram á þeirri efri.

Erfiðlega gekk að finna eftirmann Eyjólfs og það var ekki fyrr en vorið 1779, sem Norðmaðurinn Rasmus Lievog (1738-1811) var  skipaður nýr stjörnumeistari á Íslandi. Áður hafði hann starfað í Sívalaturni, fyrst sem aðstoðarmaður Christians Horrebow 1775-76 og síðan hjá Thomas Bugge, sem tók við sem prófessor í stjörnufræði að Horrebow látnum árið 1777.

Fljólega eftir komuna til landsins hóf Lievog stjörnuathuganir, fyrst á lofti Bessastaðastofu, þá á heimili sínu, Lambhúsum (árin 1780-83), og loks í sérbyggðum stjörnuturni, sem tilbúinn var í árslok 1783.

Grunnleikning Lievogs af athugunarstöðinni í Lambhúsum frá 1785-86.

Óhætt er að fullyrða, að Lievog hafi starfað hér við erfiðar aðstæður, bæði  hvað varðar veðurfar og skilningsleysi, jafnt Íslendinga sem danskra embættismanna. Að auki var tækjakostur hans rýr og úr sér genginn og kvartaði hann oft yfir því við Bugge í bréfum sínum. Þrátt fyrir þetta voru mælingar hans vandaðar og stóðust fyllilega samjöfnuð við mælingar samtímamanna annars staðar. Í því sambandi ber sérstaklega að geta athugana hans á myrkvum Júpíterstungla, en niðurstöður þeirra mælinga eru enn nýttar.

Hin þekkta mynd Johns Baine af stjörnuathugunarstöð Lievogs sumarið 1789. Við hliðina á turninum er heimili stjörnumeistaranns (bærinn Lambhús) og lengra í burtu er bústaður stiftamtmanns.

Þess ber að geta, að auk margvíslegra stjörnuathugana sá Lievog um daglegar veðurathuganir, fylgdist með sjávarföllum og norðurljósum sem og misvísun áttavita. Meðal Íslendinga er hann þó sennilega þekktastur fyrir Reykjavíkurkortið, sem hann lauk við 1787 (sjá einnig hér). Þessi fjölbreytta starfsemi gerir það að verkum að líta má á stjörnuturninn í Lambhúsum sem fyrstu raunvísindastofnunina á Íslandi.

Lista yfir mæliniðurstöður Lievogs stjörnumeistara, bæði útgefnar og í handritum, má finna hér.

Lievog starfaði á Íslandi í rúman aldarfjórðung, eða til ársins 1805, þegar hann fluttist alfarinn til Kaupmannahafnar. Lögðust stjarnmælingar þá af í Lambhúsum. Tengdist það meðal annars upphafi strandmælinganna síðari árið 1801.

Hér að framan hefur verið stiklað mjög á stóru, en frekari smáatriði í þessari annars flóknu sögu er að finna í eftirfarandi heimildum:

Aðrar gagnlegar heimildir:

 

Viðauki

Ekki er vitað hvenær stjörnuturninn í Lambhúsum var rifinn, en hann var allavega horfinn árið 1836, eins og sjá má á eftirfarandi mynd A. Mayers frá því ári. Myndin birtist fyrst í ferðabók Gaimards 1838.

„Lambhús á Álftanesi með leifum athugunarstöðvar Lievogs.“ Mynd úr bókinni Íslandsmyndir Mayers 1836.

Bærinn Lambhús var síðar rifinn. Þannig voru til dæmis engin merki sjáanleg um bústað stjörnumeistarans, þegar ég fór þarna um í fyrsta sinn á sjöunda áratugi tuttugustu aldar.

Árið 2018 grófu fornleifafræðingar í túni Lambhúsa og fundu margvíslegar og forvitnilegar minjar. Þar á meðal var húsgrunnur af timburhúsi, sem talið er að kunni að vera leifar af stjörnuturni Lievogs.

Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og samstarfsmenn við rannsóknir í túni Lambhúsa í september 2018. Ljósmynd: Mbl.

Nánar má fræðast um þessar áhugaverðu rannsóknir í eftirfarandi heimildum:

Birt í Átjánda öldin, Eðlisfræði, Stjörnufræði

Ýmsar niðurstöður úr athugunum Rasmusar Lievog hér á landi

Athugið að listinn er ekki tæmandi

Sjá einnig færsluna Tvö hundruð og fimmtíu ár frá stofnun embættis konunglegs stjörnumeistara á Íslandi.

Birt í Átjánda öldin, Eðlisfræði, Stjörnufræði

NORDITA: Saga Norrænu stofnunarinnar í kennilegri eðlisfræði fyrstu 50 árin

Út er komin bókin Nordita - The Copenhagen Years: A Scrapbook, í ritstjón þeirra Helle Kiilerich, Christophers Pethick, Bens Mottelson og Einars Guðmundssonar. Bókin er 330 síður í stærðinni A4.

Auk ítarlegra inngangsgreina um aðdragandann að stofnun Nordita árið 1957 og þróun stofnunarinnar næstu 50 árin, inniheldur verkið ýmsar skrár og um hundrað stuttar ritgerðir um starfsemina á Kaupmannahafnarárunum. Þar halda á penna ýmsir starfsmenn og gestir, styrkþegar og hollvinir Nordita. Meðal höfunda eru Íslendingarnir Magnús Magnússon, Einar Guðmundsson, Þórður Jónsson, Gunnlaugur Björnsson, Ragnheiður Guðmundsdóttir og Vésteinn Þórsson. Fjöldi mynda prýðir bókina, meðal annars þessar tvær:

Þátttakendur á einum mikilvægasta undirbúningsfundinum að stofnun Nordita. Myndin var tekin í febrúar 1956 við Calsberg heiðurssbústaðinn í Kaupmannahöfn, þar sem Bohr-fjölskyldan bjó þá. – Fyrir framan tröppurnar eru frá vinstri: C. Møller og H. Wergeland. Á neðsta þrepinu: E. Laurila, S. Rozental, O. Klein, C. Thomsen, og G. Funke. Á næsta þrepi: E. Kinnunen, Niels Bohr, og S. Rosseland. Á efsta þrepinu og þar fyrir aftan: M. Jakobsson, I. WallerP. Jauho, Þorbjörn Sigurgeirsson, Aage Bohr, og E. Hylleraas (aftan við Niels Bohr). Á myndina vantar T. Gustafson. Ljósmynd: J. Woldbye.

Stjórn Nordita í Kaupmannahöfn vorið 2003, fjórum árum fyrir flutninginn til Stokkhólms. Sitjandi frá vinstri: G. Einevoll, P. Minnhagen, A. Andersen, og M. Manninen. Standandi frá vinstri: H. Scheibel (lögfræðilegur ráðgjafi stjórnarinnar), M. Larsson, K. Langanke, J. Hertz, Lárus Thorlacius, C. Jarlskog, P. H. Damgaard, C. Lütken og Gunnlaugur Björnsson.

Bókin um Nordita er mikilvægt framlag til sögu kennilegrar eðlisfræði á Norðurlöndum á árunum frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar til upphafs tuttugustu og fyrstu aldar.

Allir, sem lagt hafa til efni í bókina, fá sent eintak. Jafnframt er stefnt að því að birta verkið fljótlega á vef Nordita í Stokkhólmi. Á meðan á biðinni stendur, getur áhugafólk svalað fróðleiksþorstanum með því að kanna eftirfarandi heimildir:

 


 

Birt í Eðlisfræði, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin

Tímamót í þróun stærðfræðilegra lærdómslista á Íslandi: Björn Gunnlaugsson hefur kennslu við Bessastaðaskóla árið 1822

Björn Gunnlaugsson lauk öðru lærdómsprófi við Kaupmannahafnarháskóla árið 1818, eftir að hafa meðal annars lært stærðfræði hjá C.F. Degen, stjörnufræði hjá H.C. Schumacher og eðlisfræði hjá H.C. Ørsted. Hann hélt síðan áfram að kynna sér stærðfræðilegar lærdómslistir við skólann, að mestu á eigin spýtur, en hefur þó sennilega notið góðrar aðstoðar Degens. Björn stefndi þó ekki að lokaprófi í raunvísindum, enda var slíkt ekki í boði í Kaupmannahöfn á þeim tíma. Landmælingar lærði hann hjá Schumacher og vann undir hans stjórn við þríhyrningamælingar á Holtsetalandi á árunum 1820 og 1821.

Björn Gunnlaugsson (1788-1876) árið 1859, þá 71 árs gamall. Hann var ekki aðeins fremsti stærðfræðingur, stjörnufræðingur og eðlisfræðingur Íslendinga um sína daga, heldur áhrifamikill náttúruguðfræðingur. Teikningin er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Vorið 1822 virðist Birni hafa þótt tímabært að snúa aftur heim til föðurlandsins og hinn 2. apríl 1822 sendi hann eftirfarandi bréf til skólayfirvalda í Danaveldi (Den Kongelige Direction for  Universitetet og de lærde Skoler). Bréfið er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands (Skólastjórnarráð 1928-012 | SK/3 Örk: 27):

Det er en saavel af ældre som yngere almindelig erkendt Sandhed, at blandt de Kundskaber, der í særdeleshed vekke Tænkningen øve Dømmekraften og derved aabne Vejen til Forstandens Dannelse, indtage de mathematiske en særdeles høj, om ikke den øverste Plads. Det er derfor almindelig vedtaget, at Mathematiken udgiør en væsentlig Deel af Undervisningen, ikke alene i de lærde, men endog i de for Almuen indrettede Undervisnings Anstalter. Islands eneste saa kaldte lærde Skole, er maaske den eneste, der gandske mangler dette Gode; en Mangel som for Island er saa meget meere føleligt, som der ikke gives nogen Maade, hvorved den kan erstattes, thi der haves i Landets Sprog ingen egenlig mathematiske Skrifter, og endnu vanskeligere at forstaa, for dem der ikke have nogen mundtlig Veiledning. Disse Vanskeligheder have hidtil saaledes forhindret det mathematiske Studium Opkomst og Fremgang i Island, at uagtet der gives mange Islændere, der af Naturen synes fødte til deslige Beskiæftigelser, og som derved meget kunde gavne deres Fædreland, saa gives der dog i Island, næsted ingen som kan give den lærebegiærlige Yngling, den fornødne Veiledning i dette Henseende. Denne Mangel af mathematiske Kundskaber bliver da isærdeeleshed følelig for dem, hvis Evner tillade dem, efter fuldendte Skolestudier at reise hertil Universitetet, for videre at forsætte disse, og som derfor í deres første Aar maa anvende uforholdsmæssig Tid paa at giøre sig bekiændt med de for dem gandske fremmede mathematiske Videnskaber.

Den Overbevisning at det derfor vilde være særdeles nyttigt for Island, om der ved den værende lærde Skole, oprettedes en Lærerplads for Mathematik, giver mig Dristighed til underdanigst at tilbyde den Højkongelige Direction for Universitetet, og de lærde Skoler, - ifaldt Højsamme kunde finde fornøden Adgang til at oprette en mathematisk Lærerplads ved bemeldte Skole – min Tieneste i denne Henseende, hvor til jeg troer mig at besidde den fornødne Duelighed, da jeg næsten udelukkende har anvendt mit 4 Ars Ophold her ved Universitetet til deels theoretisk deels practisk paa Reiser med Hr. Professor Schumacher at udvide mine mathematiske Kundskaber, hvilket til nærmere Bekræftelse jeg underdanigst torde beraabe mig paa at have vundet den academiske Pris for 2 mathematiske Prisopgaver.

København den 2 April 1822, underdanigst, B. Gunløgsen

Skólayfirvöld vissu mæta vel, að lýsing Björns á ástandinu á sviði stærðfræðilegra lærdómlista á Íslandi var sannleikanum samkvæm, og að kennsla í stærðfræðigreinum í skólum landsins hafði til þessa öll verið meira og minna í skötulíki. Þeim var jafnframt kunnugt um mikla hæfileika Björns á þessu sviði og tóku því boði hans fegins hendi. Með bréfi dagsettu 18. maí 1822 var hann skipaður fjórði kennarinn við Bessastaðaskóla (Lovsamling for Island, 8. bindi (1819-1825), bls. 334-335). Hinir þrír lærimeistararnir voru þá þeir Jón Jónsson „lektor“ (1777-1860), Hallgrímur Scheving (1781-1861) og Sveinbjörn Egilsson (1791-1852).

Bessastaðaskóli og Bessastaðakirkja árið 1834. Myndin er úr ferðabók Johns Barrow frá 1835 (bls. 249).

Fullyrða má, að með ráðningu Björns Gunnlaugssonar í kennarastöðu við Bessastaðaskóla, árið 1822, hafi í fyrsta sinn verið lagður grunnur að formlegri raunvísindakennslu í íslenskum skólum.

Björn hóf kennaraferil sinn með miklum glæsibrag. Við skólasetninguna í október 1822 hélt hann magnaða ræðu um nytsemi stærðfræðilegra lærdómslista (sjá bls. 54-66) og sagði meðal annars:

Til þess að geta lifað, og lifað þægilegu lífi, verðum vér að nota þau gæði sem guð hefur oss í náttúrunni fyrirbúið, til að nota náttúrunnar gæði verðum vér að þekkja hennar gang; til að geta þekkt hennar gang verðum vér eða að minnsta kosti nokkrir af oss að rannsaka hann; til að rannsaka hann verðum vér að reikna hann út oft og tíðum með mathesi applicata; til að reikna með mathesi applicata verðum vér að þekkja mathesin puram og það til hlítar; og til þess að þekkja hana að gagni verðum vér að kynna oss öll veltingabrögð hennar að svo miklu leyti sem oss er mögulegt; og höfum vér ekki allir tækifæri og tómstundir til þess, þá verðum vér að senda nokkra njósnarmenn út sem gjöri það fyrir oss. Sérhvör þjóð ætti því að hafa sína mathematicos til að senda þá út í náttúruna sem njósnarmenn á undan sér til að rannsaka hennar leyndardóma og sem vísi síðan þjóðinni á eftir hvört hún leita skuli til að finna þau gæði sem í henni eru fólgin.

Á þeim tæpa aldarfjórðungi, sem Björn kenndi mælifræði (þ.e. stærðfræði) við Bessastaðaskóla notaði hann eingöngu danskar kennslubækur, meðal annars í talnareikningi og algebru eftir  H.O. Bjørn (1777-1843) og  G.F. Ursin (1797-1849) og í rúmfræði eftir Ursin og C. Svenningsen (1801-1853). Kennslubækur þessar komu í fleiri en einni útgáfu og færsluhöfundur hefur litlar sem engar upplýsingar um það, hvaða útgáfur rötuðu til Bessastaðaskóla frá skólayfirvöldum í Kaupmannahöfn. Hins vegar má ætla, að eftirfarandi kennslubók gefi allgóða hugmynd um framsetningu og dýpt námsefnisins, alla vega fyrstu árin:

Björn þurfti, auk stærðfræðinnar, að kenna greinar eins og dönsku og landafræði, en hvorki stjörnufræði né eðlisfræði voru kennd með formlegum hætti við Bessastaðaskóla. Það var ekki fyrr en lærði skólinn var fluttur til Reykjavíkur árið 1846, sem síðastnefndu greinarnar urðu hluti af námsefninu. Það var að sjálfsögðu Björn Gunnlaugsson, sem sá um kennslu þeirra, auk stærðfræðinnar, allt þar til hann lét af störfum við Reykjavíkurskóla, 74 ára gamall, árið 1862. Þess má og geta, að samhliða þessum greinum þurfti hann um tíma að kenna skólapiltum náttúrusögu.

Reykjavíkurskóli og umhverfi hans um 1850. Dómkirkjan blasir við og lengst til hægri glittir í Tjörnina. Efst á holtinu fyrir ofan má sjá skólavörðuna bera við himin. Málverk: Jón Helgason.

Í þessari stuttu færslu verður ekki fjallað nánar um ævi Björns Gunnlaugssonar, né heldur um störf hans sem kennara, vísindamanns, heimspekings og rithöfundar. Í staðinn er fróðleiksfúsum lesendum vísað á ritaskrá Björns og verk, sem talin eru upp í sérstakri heimildaskrá. Þó er rétt að minnast hér á hið merka ljóð Björns, Njólu, sem var ein víðlesnasta bók á Íslandi á seinni hluta nítjándu aldar. Verkið kom fyrst út 1842, sama árið og Jónas Hallgrímsson sendi frá sér þýðingu sína á Stjörnufræði eftir áðurnefndan G.F. Ursin og tileinkaði Birni með orðunum „Þessa tilraun dirfist jeg að tileinka kjennara mínum, herra Birni Gunnlaugssini, stjörnuspekingi, í virðingar og þakklætis skini.“

Ég tel, að það yrði íslenskum raunvísindamönnum og raungreinakennurum til mikil sóma, ef þeir notuðu nú tækifærið til að halda veglega upp á tveggja alda afmæli opinberrar og formlegrar stærðfræðikennslu í íslenskum skólum. Sennilega væri skynsamlegast, að fagfélög eins og Íslenska stærðfræðafélagið, Eðlisfræðifélag Íslands, Stjarnvísindafélag Íslands, Félag raungreinakennara, Flötur - Samtök stærðfræðikennara, Stjörnuskoðunar-félag Seltjarnarness og fleiri slík félög tækju sig saman um að halda upp á afmælið haustið 2022.

Meðal þess, sem komið gæti til greina, er að bjóða upp á erindi, halda sýningu, skrifa stutta pistla fyrir fjölmiðla og/eða samfélagsmiðla, halda málþing, gefa út afmælisrit og fleira í þeim dúr. Ef átak sem þetta reynist hópnum ofviða, gefst fljótlega annað tækifæri, því árið 2026 verða nefnilega liðin 150 ár frá því Björn Gunnlaugsson lést.

Sýningarkassa með landmælingaverkfærum Björns Gunnlaugssonar má finna nálægt suðurdyrunum á gangi fyrstu hæðar í VRII, byggingu Háskóla Íslands við Hjarðarhaga. Kannski væri gangurinn kjörinn fyrir veggspjaldakynningu á Birni og verkum hans, og kannski mætti finna þar stofu fyrir erindi og fleira? – Þess má einnig geta, að á Þjóðminjasafninu er varðveitt falleg sjónpípa á þrífæti og ýmsir aðrir gripir úr eigu Björns. Útgefin rit hans og handrit er að finna á Landsbókasafni-Háskólabókasafni.

Að lokum þetta: Björn Gunnlaugsson er grafinn í Hólavallagarði (gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu). Á sínum tíma þurfti ég að hafa talsvert fyrir því að finna leiðið, þar sem legsteinninn reyndist bæði látlaus og mosavaxinn. Að auki hvílir Björn í fjölskyldugrafreit. Kannski væri við hæfi, að núlifandi raunvísindamenn íslenskir ættu frumkvæði að því að snyrta steininn og lagfæra, og þá í samvinnu við afkomendur Björns?

Legsteinninn á leiði Björns Gunnlaugssonar í Hólavallagarði árið 2003 (reitur: L-512C).

 

Til frekari fróðleiks:

 


 

Birt í Eðlisfræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði

Gagnlegar heimildir um Björn Gunnlaugsson (1788-1876)

 


 

Birt í Eðlisfræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði

Prentuð verk Björns Gunnlaugssonar (1788-1876)

 

 

Frá Bessastaðaárunum:

Frá Reykjavíkurárunum:

Sjá einnig:

 


 

Birt í Eðlisfræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði

Um merkisafmæli Stefáns Björnssonar og Gísla Einarssonar á árinu 2021. Ásamt inngangi um yfirborðsbylgjur

Í nóvemberhefti tímaritsins Physics Today er mjög fróðleg grein um yfirborðsbylgjur, sem ég hafði loks tíma til að lesa í gær:

Strax og ég sá titilinn, rifjaðist það upp fyrir mér, að fyrir rúmum 225 árum sendi Stefán Björnsson inn ritgerð(ir) um nákvæmlega þessa spurningu í verðlaunasamkeppni danska Vísindafélagsins. Sú saga er rakin í lok færslu minnar frá 2017: Aflfræði í verkum Stefáns Björnssonar.

Myndir úr handskrifaðri ritgerð Stefáns, sem hann sendi Hinu konunglega danska vísindafélagi á latínu sumarið 1795. Á íslensku hljóðar titillinn svo: Ritgerð, þar sem útskýrt er og sýnt, hvernig ölduhæð og öldubreidd veltur á víddum vatna, sem vindur hrærir.

Þeim sem vilja sökkva sér dýpra í þetta krefjandi viðfangsefni og sögu þess, má benda á eftirfarandi heimildir:

 

Stefán Björnsson (1721-1798)

Þótt eðlisfræðin, sem kemur við sögu hér að framan, sé bæði skemmtileg og mikilvæg, er tilgangur þessarar færslu ekki sá að fjalla frekar um hana sem slíka, heldur að minna menn á, að á þessu ári eru liðnar þrjár aldir frá fæðingu Stefáns Björnssonar reiknimeistara.

Stefán var sá maður íslenskur sem best var að sér í stærðfræðilegum lærdómslistum á átjándu öld. Um hann og verk hans má m.a. lesa hér:

 

Gísli Einarsson (1621-1688)

En það eru fleiri en Stefán, sem eiga merkisafmæli. Það á til dæmis við um Gísla Einarsson skólameistara í Skálholti og síðar prest á Helgafelli, en á þessu ári eru liðnar fjórar aldir frá fæðingu hans. Gísli mun hafa verið eini Íslendingurinn, sem lagði sérstaka stund á stærðfræðilegar lærdómslistir á sautjándu öld, og í framhaldi af því varð hann fyrsti konungsskipaði kennarinn í reikningi, rúmfræði og stjörnufræði  hér á landi.

Frekari upplýsingar um Gísla Einarsson má finna hér:

 


 

Birt í Óflokkað

Látnir samferðamenn

Hér eru taldir upp íslenskir raunvísindamenn (einkum eðlisfræðingar, efnafræðingar, stærðfræðingar og stjörnufræðingar), sem ég hef kynnst í gegnum tíðina, en eru nú horfnir yfir móðuna miklu. Skráin er fyrst og fremst ætluð mér sjálfum til að varðveita minningar um burtkallaða vini og kunningja, samstarfsmenn, kennara, nemendur og aðra raunvísindamenn, sem ég átti samleið með um tíma. Eðli málsins samkvæmt mun skráin smám saman lengjast, allt þar til færsluhöfundur kveður sjálfur.


Sigurður Helgason stærðfræðingur (1927-2023)

 


Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur (1935-2023)

 


Sigmundur Guðbjarnason efnafræðingur (1931-2023)

 


Halldór Halldórsson stærðfræðingur (1948-2023)

 


Axel Björnsson jarðeðlisfræðingur (1942-2023)

Andlátsfrétt í Mbl, 31. maí 2023

 


Þorvaldur Búason eðlisfræðingur (1937-2022)

 


Hörður Lárusson stærðfræðikennari (1935-2022)

 


Þórir Ólafsson eðlisfræðingur (1936-2022)

 


Stefán Briem eðlisfræðingur (1938-2022)

 


Ásmundur Jakobsson eðlisfræðingur (1946-2021)

 


Steingrímur Baldursson efnaeðlisfræðingur (1930-2020)

 


Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðingur (1943-2020)

 


Örn Helgason eðlisfræðingur (1938-2019)

 


Þorsteinn Ingi Sigfússon eðlisfræðingur (1954-2019)

 


Halldór Elíasson stærðfræðingur (1939-2019)

 


Pálmi Ingólfsson rafmagnstæknifræðingur (1948-2018)

 


Páll Theodórsson eðlisfræðingur (1928-2018)

 


Jón Hafsteinn Jónsson stærðfræðingur (1928-2018)

 


Bragi Árnason efnafræðingur (1935-2017)

 


Ottó J. Björnsson stærðfræðingur (1934-2016)

 


Þorvaldur Ólafsson eðlisfræðingur (1944-2016)

 


Axel W. Carlquist eðlisfræðingur (1939-2016)

  • Jón Baldvin Hannibalsson 24. feb. 2016: Minning
  • Viðtal, 30. ágúst 1984

 


Sigþór Pétursson efnafræðingur (1943-2015)

 


Már Ársælsson stærðfræðikennari (1929-2013)

 


Sigfús J. Johnsen jarðeðlisfræðingur (1940-2013)

 


Halldór Guðjónsson stærðfræðingur (1939-2013)

 


Gunnlaugur Elísson efnafræðingur (1928-2012)

Minningargreinar í Mbl, 17. sept. 2012

 


Rúnar Bjarnason efnaverkfræðingur (1931- 2012)

 


Jón Pétursson rafmagnsverkfræðingur (1946-2011)

 


Jón Bragi Bjarnason lífefnafræðingur (1948-2011)

 


Óskar Maríusson efnaverkfræðingur (1934-2011)

 


Oddur Benediktsson stærðfræðingur (1937-2010)

 


Egill Egilsson eðlisfræðingur (1942-2009)

 


Marteinn Sverrisson rafmagnsverkfræðingur (1947-2008)

 


Jón Sveinsson rafmagnstæknifræðingur (1944-2007)

 


Sveinn Þórðarson eðlisfræðingur (1913-2007)

 


Ingvar Ásmundsson stærðfræðikennari (1934-2007)

 


Kjartan G. Magnússon stærðfræðingur (1952-2006)

 


Unnsteinn Stefánsson haffræðingur (1922-2004)

 


Guðmundur G. Bjarnason háloftafræðingur (1954-2003)

 


Ásgeir Bjarnason efnafræðingur (1958-2001)

 


Björn Bjarnason stærðfræðingur (1919-1999)

 


Hallgrímur Björnsson efnaverkfræðingur (1912-1997)

 


Guðmundur Arnlaugsson stærðfræðingur (1913-1996)

 


Eggert V. Briem áhugaeðlisfræðingur (1895-1996)

  • Minningargreinar í Mbl, 24. maí 1996
  • Leó Kristjánsson, Helgi Björnsson og Bryndís Brandsdóttir, 2000: Minning

 


Eiríkur Hamall Þorsteinsson eðlisfræðingur (1964-1996)

 


Sigurkarl Stefánsson stærðfræðingur (1902-1995)

 


Þórarinn Guðmundsson eðlisfræðingur (1936-1991)

 


Leifur Ásgeirsson stærðfræðingur (1903-1990)

 


Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur (1917-1988)

 


Þóroddur Oddsson stærðfræðikennari (1914-1986)

 


Þessi persónulega skrá mín nær ekki lengra aftur í tímann, af þeirri einföldu ástæðu að ég kynntist ekki raunvísindamenntuðum einstaklingum fyrr en ég hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík haustið 1963. Hins vegar hef ég tekið saman aðra skrá, Íslenskir stærðfræðingar, eðlisfræðingar og stjörnufræðingar til 1960: Skrá með inngangi og eftirmála, þar sem litið er yfir sviðið frá mun víðara sjónarhorni.


 

Birt í Eðlisfræði, Efnafræði, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin