Órökstudd fordæming tilbrigða

17. Íslensk málrækt felst í því að hafna órökstuddum fordæmingum ýmissa tilbrigða, jafnvel þótt lengi hafi verið barist gegn þeim í skólum.

Þótt engin lög séu til um form íslenskrar tungu er til óopinber málstaðall um rétt mál og rangt, gott og vont. Þessi málstaðall er hvergi skráður en heildstæðasta mynd af honum er hægt að fá með því að skoða Málfarsbankann. Samkvæmt staðlinum á ekki að skrifa mér langar heldur mig langar, ekki við hvorn annan heldur hvor við annan, ekki eins og mamma sín heldur eins og mamma hennar, ekki ég er ekki að skilja þetta heldur ég skil þetta ekki, ekki báðir tónleikarnir heldur – ja, hvað? Hvorir tveggja tónleikarnirHvorirtveggju tónleikarnir? Hver segir það eiginlega?

Það er enginn vafi á því að fyrra („ranga“) afbrigðið í hverri tvennd er málvenja margra – í sumum tilvikum örugglega meirihluta þjóðarinnar. En þrátt fyrir að um sé að ræða útbreiddar málbreytingar, flestar áratuga eða jafnvel alda gamlar, njóta þær ekki viðurkenningar sem vönduð íslenska. Til að hafna þeim er beitt ýmsum missterkum og missannfærandi rökum sem sum hver standast alls ekki. Ég hef þó grun um að ein röksemd sem ég hef hvergi séð orðaða beint sé mjög oft undirliggjandi hjá þeim sem amast við tilbrigðum. Hana mætti orða svona: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.

Vitanlega réttlætir það ekki vitleysu að hún hafi lengi verið höfð fyrir satt. En það má vel halda því fram að mikilvægt sé að festa ríki í málsamfélaginu og ekki sé hringlað með viðmið. Ef búið er að kenna áratugum saman að eitthvað sé rangt – þrátt fyrir að það sé eðlilegt málfar fjölda málnotenda – geti skapast óreiða og lausung í málinu ef það er allt í einu viðurkennt sem rétt mál. Þetta valdi vandræðum í kennslu og ýti undir þá hugmynd að það sé alveg sama hvernig fólk tali og skrifi. Þetta er sjónarmið margra og ástæða til að taka það alvarlega og bera virðingu fyrir því. En ég held að það sé rangt.

Ég held þvert á móti að einstrengingslegt bann við tilbrigðum sem veru­legur hluti – jafnvel meirihluti – málnotenda elst upp við og notar í daglegu lífi sé miklu frekar til þess fallið að skapa óvissu og óreiðu í málnotkun en viðurkenning þessara tilbrigða. Það er hins vegar annað sem þarf að hafa í huga ef viðmiðum er breytt og farið að viðurkenna eitthvað sem áður hefur verið talið rangt. Við erum nefnilega föst í því, mörg hver, að dæma fólk eftir málfari – eftir því hversu vel það fylgir þeim viðmiðum sem hafa verið notuð um rétt og rangt. Þótt þeim viðmiðum væri breytt leiðir það ekki sjálfkrafa og umsvifalaust til breyt­ingar á viðhorfi okkar til tilbrigðanna – og fólksins sem notar þau.

Við þurfum að þora að breyta stefnunni – viðurkenna tilbrigði sem eiga sér langa sögu og eru útbreidd í málinu. Það er engin uppgjöf. En við þurfum ekki síður að hætta að dæma fólk eftir málfari, hvað þá að tengja málfar við andlegt eða líkamlegt atgervi fólks. Mismunun eftir málfari á ekki að viðgangast frekar en mismunun eftir kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð o.s.frv.