Mismunun á grundvelli málstaðals

18. Íslensk málrækt felst í því að forðast að fordæma tilbrigði í máli sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði og eru hluti af málkerfi þess.

Tilbrigði í máli sem samræmast ekki hinum óopinbera íslenska málstaðli eru iðulega fordæmd og kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem á sér áratuga sögu í málinu og hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Auðvitað er ekki glóra í því.

Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiðimóðurmál okkar – hefur algera sérstöðu. Það er hluti af okkur sjálfum, mikilvægur þáttur í sjálfsmynd okkar. Þess vegna er ótækt að innræta fólki, í skólum eða á öðrum vettvangi, að það mál sem það hefur alist upp við sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Það er í raun og veru árás á okkur sjálf og fjölskyldu okkar ef okkur er sagt að mikilvægt sé „að lyfta þeim, sem ekki hafa átt nógu góðan „pabba og mömmu“ yfir málstig foreldranna“. Flokkun fólks eftir slíkum málfarsatriðum, t.d. á prófum, er engu betri en mismunun eftir kynferði, skoðunum, trú, kynhneigð o.s.frv. sem er bönnuð í 65. grein Stjórnarskrár.

Það er mjög brýnt að breyta málstaðlinum sem hefur gilt undanfarna öld, viðurkenna staðreyndir og gera ýmsar breytingar sem hafa verið í gangi, og verða ekki stöðvaðar, valkvæðar í staðlinum. Það gengur ekki endalaust að halda dauðahaldi í málfar sem er framandi fyrir stóra hópa fólks sem á íslensku að móðurmáli, og kalla málfar þess rangt. Jafnvel hörðustu málvöndunarmenn viðurkenna þetta: „Breytingin er orðin svo algeng, að viðurkenna verður hana sem rétt mál, hvað sem allri rökhyggju líður“ sagði Halldór Halldórsson prófessor um tiltekna málbreytingu.

En er þá ekkert rétt og rangt í máli? Jú – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“ segir í áliti nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum frá 1986. Í samræmi við þetta er alveg eðlilegt að gera athugasemdir við tilviljanakennd og einstaklingsbundin frávik frá staðlinum og kalla þau málvillur, en ef frávikin eru farin að ná til hóps af fólki og börn farin að tileinka sér þau á máltökuskeiði er eðlilegt að tala um málbreytingu eða tilbrigði í máli en ekki villu.

Á hinn bóginn er eðlilegt og gagnlegt að nemendur séu fræddir um það í skóla hvað hefur verið talið rétt og hvað rangt, og gerð skýr grein fyrir því að í sumum tilvikum geti það komið sér illa fyrir fólk að hafa ekki vald á þeim tilbrigðum sem hafa verið talin „rétt“ og samræmast málstaðlinum. Nemendur hafa þá val um hvort þeir leggja það á sig að tileinka sér tilbrigði sem kunna að vera í ósamræmi við þeirra eigið mál. Aðalatriðið er, eins og Guðmundur Andri Thorsson hefur sagt, að „íslenska er handa okkur […]. Hún er ekki útlenska. Hún er innlenska“.