Íslenska á öllum sviðum

24. Íslensk málrækt felst í því að krefjast þess og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota íslensku á öllum sviðum, til allra þarfa.

Umræða um ensk áhrif á íslensku hófst með bresku og síðar bandarísku hernámi á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hún hefur verið viðvarandi síðan og stundum blossað upp af krafti, t.d. á tímum Kanasjónvarpsins upp úr 1960, og snerist lengst af um hugsanleg áhrif á form málsins – einkum orðaforða og setningagerð. Þótt sú umræða sé vissulega enn í gangi hafa áhyggjur fólks á seinustu árum fremur beinst að þeim möguleika að enskan yfirtaki heil svið og íslenskan hörfi.

Það svið sem helst hefur verið nefnt í þeirri umræðu er hinn sístækkandi stafræni heimur. Árið 1997 flutti ég erindi um upplýsingatækni og lítil málsamfélög, „Informationsteknologien og små sprogsamfund“, á norrænu málnefndaþingi í Þórshöfn í Færeyjum. Þar var ég að velta fyrir mér hugsanlegum áhrifum þess á smáþjóðamál eins og íslensku ef málið yrði ekki nothæft innan tölvu- og upplýsingatækninnar og sagði í íslenskri frumgerð erindisins:

„Þarna er orðið mikilvægur þáttur í daglegu lífi venjulegs fólks, þar sem móðurmálið er ónothæft. Takið eftir að þarna er þrennt sem spilar saman, og það skapar hættuna. Um er að ræða mikilvægan þátt, en ekki eitthvert aukaatriði; þessi þáttur snertir daglegt líf, en kemur ekki bara fram einstöku sinnum, við einhverjar sérstakar aðstæður; og þetta á við venjulegt fólk, allan almenning, en ekki eingöngu sérfræðinga á einhverju þröngu sviði. Ég held að málið gæti varist samspili tveggja þessara þátta, en þegar allir þrír koma saman kann að vera hætta á ferðum. [...]

Það er alþekkt að dauðastríð tungumála hefst einmitt þegar aðstæður af þessu tagi koma upp; þegar mál er ekki lengur nothæft við allar aðstæður í hversdagslegu lífi almennings. Móðurmálið verður þá víkjandi, það er aðeins hæft til heimabrúks en ekki til neinna alvarlegra hluta. Við slíkar aðstæður hrekkur jafnvel ríkulegur bókmenntaarfur og öflugt nýyrðastarf skammt; málið á sér ekki viðreisnar von, og hlýtur að hverfa á tiltölulega stuttum tíma. Unga kynslóðin sér ekki lengur tilgang í að læra málið, heldur leggur alla áherslu á að tileinka sér erlent mál, enskuna væntanlega, sem best.“

Allt síðan þetta var hef ég verið þess fullviss að uppbygging íslenskrar máltækni væri ein helsta forsendan fyrir því að íslenskan gæti lifað til langframa. Nú er loks hafið stórátak á því sviði með framkvæmd máltækniáætlunar, en í millitíðinni hafa ýmsar aðrar ógnanir komið til. Fyrir hrun var enska vinnumál hjá ýmsum íslenskum útrásarfyrirtækjum. Með sprengingu í komu erlendra ferðamanna hefur enskunotkun í ferðaþjónustu aukist gífurlega og hvers kyns auglýsingum og merkingum á ensku fjölgað, auk þess sem fyrirtækjanöfn á ensku blómstra sem aldrei fyrr. Háskólakennsla á ensku fer einnig smátt og smátt vaxandi.

Það er forgangsmál að vinna að því meginmarkmiði íslenskrar málstefnu að íslenska verði áfram nothæf – og notuð – á öllum sviðum samfélagsins, eins og kemur fram í þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var vorið 2019. Við berum öll ábyrgð á því að framfylgja þessari stefnu.