Áfram íslenska!

25. Íslensk málrækt felst í því að hlusta á íslensku, tala íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest, á allan hátt.

Á undanförnum öldum hefur íslenskunni margoft verið spáð dauða, ýmist hægum eða bráðum. Og engin furða – það er hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að samfélags- og tæknibreytingar síðustu 10-15 ára valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum.

Þótt það sé grundvallaratriði að gera fólki kleift að nota íslensku innan tölvutækninnar, í ferðaþjónustunni og á öðrum sviðum þar sem hún á í vök að verjast kemur það fyrir lítið ef fólk hefur ekki áhuga á að nota hana í raun, heldur kýs fremur að nota ensku á ákveðnum sviðum. Iðulega slettir fólk líka ensku að þarflausu, þótt til séu íslensk orð. Þetta er einkum óheppilegt í tali og skrifum í fjölmiðlum, þar sem búast má við að einhverjir áheyrenda eða lesenda skilji ekki orðin.

Það er nauðsynlegt að efla vitund fólks um mikilvægi þess að nota íslensku þar sem þess er kostur. Við sem búum í íslensku málsamfélagi notum málið vissulega yfirleitt á hverjum degi – heyrum það talað og tölum það sjálf. Með tilkomu samfélagsmiðla eru líka fleiri en áður sem lesa og ekki síst skrifa íslensku daglega, og það er mjög jákvætt. En íslenskan er miklu fjölskrúðugri en kemur fram í hversdagslegum samtölum eða skrifum á samfélagsmiðlum þar sem orðaforði er tiltölulega takmarkaður og setningagerð einföld.

Til að viðhalda íslensku sem menningarmáli og burðarási samfélagsins þurfum við að vera dugleg að nota hana á allan hátt – kynnast margvíslegum málsniðum og beita þeim. Við þurfum að tala um hugsanir okkar og hugðarefni, við þurfum að hlusta á íslensku í útvarpi, sjónvarpi, hlaðvarpi og öðrum miðlum, við þurfum að lesa bækur og blöð um margvísleg efni á íslensku, og við þurfum að þjálfa okkur í að móta hugsun okkar í orð, í flóknari texta en við skrifum dags daglega á samfélagsmiðlum. Við megum fyrir alla muni ekki hræðast að nota málið á þann hátt sem okkur er eðlilegur, þótt það falli ekki alltaf að því sem okkur kann að hafa verið kennt.

Það er haft eftir Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara að það hafi verið mesta gleði hans í lífinu að rekast hvergi á Þjóðsögur sínar öðruvísi en rifnar og skítugar, því að það sýndi hve mikið þær höfðu verið lesnar. Sama gildir um íslenskuna. Hún á ekkert að vera slétt og felld, laus við hrukkur og bletti. Við eigum að gleðjast yfir því að það sjáist á henni að hún sé notuð til allra þarfa – en öfugt við þjóðsögurnar verður notkunin ekki til að slíta henni upp til agna.

Þvert á móti – það er notkunin sem heldur í henni lífinu og kemur í veg fyrir að hún verði að dauðum safngrip. Íslenskan endurnýjar sig sjálf, ef við leyfum henni að gera það og sköpum henni skilyrði til þess. Áfram íslenska!