Íslensk málstefna
Fyrstu 20 dagana í febrúar birti ég daglega á heimasíðu minni pistla um íslenskt mál og málrækt, hvern á bilinu 400-500 orð – útfærslu, útskýringu eða útleggingu á jafnmörgum heilræðum sem ég tók saman og öll hefjast á „Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að …“. Hluti af efni pistlanna hefur birst áður, aðallega á netinu en sumt á prenti, en u.þ.b. 2/3 af textanum er nýtt efni.
Ég legg áherslu á að í þessum pistlum birtast skoðanir mínar sem ég einn ber ábyrgð á – þetta eru ekki fræðigreinar. Ég lagði kapp á að málflutningur minn væri heiðarlegur, hófsamur og rökfastur, og hvergi er vísvitandi farið rangt með, en vissulega hefði ég stundum þurft að færa sterkari rök fyrir máli mínu og tilgreina fleiri og traustari heimildir ef um fræðitexta væri að ræða.
Í pistlunum er að finna fjölmarga hlekki á efni á netinu. Stundum er þar að finna heimildir fyrir beinum eða óbeinum tilvitnunum eða tilteknum fullyrðingum, en oftast eru þessir hlekkir þó ekki beinar heimildavísanir heldur benda á efni þar sem fjallað er nánar eða á annan hátt um það sem ég er að skrifa um. Ég notaði nær eingöngu heimildir sem eru aðgengilegar á netinu vegna þess að ég vildi að lesendur gætu sannreynt staðhæfingar mínar þegar í stað.
Hægt er að komast í hvern pistil fyrir sig með því að smella á viðkomandi heilræði, en einnig er hægt að skoða pistlana alla hér. Enn fremur er hægt að skoða og sækja pdf-gerð af pistlunum. Öllum er heimilt að nýta pistlana eða efni úr þeim til allra góðra verka, að því tilskildu að uppruna sé getið.
Samkvæmt þingsályktun frá því í vor um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi á að endurskoða íslenska málstefnu á þessu ári. Ef ég ætti að semja íslenska málstefnu yrði hún svona.