Category: Málrækt

Áfram íslenska!

25. Íslensk málrækt felst í því að hlusta á íslensku, tala íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest, á allan hátt.

Á undanförnum öldum hefur íslenskunni margoft verið spáð dauða, ýmist hægum eða bráðum. Og engin furða – það er hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að samfélags- og tæknibreytingar síðustu 10-15 ára valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum.

Þótt það sé grundvallaratriði að gera fólki kleift að nota íslensku innan tölvutækninnar, í ferðaþjónustunni og á öðrum sviðum þar sem hún á í vök að verjast kemur það fyrir lítið ef fólk hefur ekki áhuga á að nota hana í raun, heldur kýs fremur að nota ensku á ákveðnum sviðum. Iðulega slettir fólk líka ensku að þarflausu, þótt til séu íslensk orð. Þetta er einkum óheppilegt í tali og skrifum í fjölmiðlum, þar sem búast má við að einhverjir áheyrenda eða lesenda skilji ekki orðin.

Það er nauðsynlegt að efla vitund fólks um mikilvægi þess að nota íslensku þar sem þess er kostur. Við sem búum í íslensku málsamfélagi notum málið vissulega yfirleitt á hverjum degi – heyrum það talað og tölum það sjálf. Með tilkomu samfélagsmiðla eru líka fleiri en áður sem lesa og ekki síst skrifa íslensku daglega, og það er mjög jákvætt. En íslenskan er miklu fjölskrúðugri en kemur fram í hversdagslegum samtölum eða skrifum á samfélagsmiðlum þar sem orðaforði er tiltölulega takmarkaður og setningagerð einföld.

Til að viðhalda íslensku sem menningarmáli og burðarási samfélagsins þurfum við að vera dugleg að nota hana á allan hátt – kynnast margvíslegum málsniðum og beita þeim. Við þurfum að tala um hugsanir okkar og hugðarefni, við þurfum að hlusta á íslensku í útvarpi, sjónvarpi, hlaðvarpi og öðrum miðlum, við þurfum að lesa bækur og blöð um margvísleg efni á íslensku, og við þurfum að þjálfa okkur í að móta hugsun okkar í orð, í flóknari texta en við skrifum dags daglega á samfélagsmiðlum. Við megum fyrir alla muni ekki hræðast að nota málið á þann hátt sem okkur er eðlilegur, þótt það falli ekki alltaf að því sem okkur kann að hafa verið kennt.

Það er haft eftir Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara að það hafi verið mesta gleði hans í lífinu að rekast hvergi á Þjóðsögur sínar öðruvísi en rifnar og skítugar, því að það sýndi hve mikið þær höfðu verið lesnar. Sama gildir um íslenskuna. Hún á ekkert að vera slétt og felld, laus við hrukkur og bletti. Við eigum að gleðjast yfir því að það sjáist á henni að hún sé notuð til allra þarfa – en öfugt við þjóðsögurnar verður notkunin ekki til að slíta henni upp til agna.

Þvert á móti – það er notkunin sem heldur í henni lífinu og kemur í veg fyrir að hún verði að dauðum safngrip. Íslenskan endurnýjar sig sjálf, ef við leyfum henni að gera það og sköpum henni skilyrði til þess. Áfram íslenska!

Íslenska á öllum sviðum

24. Íslensk málrækt felst í því að krefjast þess og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota íslensku á öllum sviðum, til allra þarfa.

Umræða um ensk áhrif á íslensku hófst með bresku og síðar bandarísku hernámi á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hún hefur verið viðvarandi síðan og stundum blossað upp af krafti, t.d. á tímum Kanasjónvarpsins upp úr 1960, og snerist lengst af um hugsanleg áhrif á form málsins – einkum orðaforða og setningagerð. Þótt sú umræða sé vissulega enn í gangi hafa áhyggjur fólks á seinustu árum fremur beinst að þeim möguleika að enskan yfirtaki heil svið og íslenskan hörfi.

Það svið sem helst hefur verið nefnt í þeirri umræðu er hinn sístækkandi stafræni heimur. Árið 1997 flutti ég erindi um upplýsingatækni og lítil málsamfélög, „Informationsteknologien og små sprogsamfund“, á norrænu málnefndaþingi í Þórshöfn í Færeyjum. Þar var ég að velta fyrir mér hugsanlegum áhrifum þess á smáþjóðamál eins og íslensku ef málið yrði ekki nothæft innan tölvu- og upplýsingatækninnar og sagði í íslenskri frumgerð erindisins:

„Þarna er orðið mikilvægur þáttur í daglegu lífi venjulegs fólks, þar sem móðurmálið er ónothæft. Takið eftir að þarna er þrennt sem spilar saman, og það skapar hættuna. Um er að ræða mikilvægan þátt, en ekki eitthvert aukaatriði; þessi þáttur snertir daglegt líf, en kemur ekki bara fram einstöku sinnum, við einhverjar sérstakar aðstæður; og þetta á við venjulegt fólk, allan almenning, en ekki eingöngu sérfræðinga á einhverju þröngu sviði. Ég held að málið gæti varist samspili tveggja þessara þátta, en þegar allir þrír koma saman kann að vera hætta á ferðum. [...]

Það er alþekkt að dauðastríð tungumála hefst einmitt þegar aðstæður af þessu tagi koma upp; þegar mál er ekki lengur nothæft við allar aðstæður í hversdagslegu lífi almennings. Móðurmálið verður þá víkjandi, það er aðeins hæft til heimabrúks en ekki til neinna alvarlegra hluta. Við slíkar aðstæður hrekkur jafnvel ríkulegur bókmenntaarfur og öflugt nýyrðastarf skammt; málið á sér ekki viðreisnar von, og hlýtur að hverfa á tiltölulega stuttum tíma. Unga kynslóðin sér ekki lengur tilgang í að læra málið, heldur leggur alla áherslu á að tileinka sér erlent mál, enskuna væntanlega, sem best.“

Allt síðan þetta var hef ég verið þess fullviss að uppbygging íslenskrar máltækni væri ein helsta forsendan fyrir því að íslenskan gæti lifað til langframa. Nú er loks hafið stórátak á því sviði með framkvæmd máltækniáætlunar, en í millitíðinni hafa ýmsar aðrar ógnanir komið til. Fyrir hrun var enska vinnumál hjá ýmsum íslenskum útrásarfyrirtækjum. Með sprengingu í komu erlendra ferðamanna hefur enskunotkun í ferðaþjónustu aukist gífurlega og hvers kyns auglýsingum og merkingum á ensku fjölgað, auk þess sem fyrirtækjanöfn á ensku blómstra sem aldrei fyrr. Háskólakennsla á ensku fer einnig smátt og smátt vaxandi.

Það er forgangsmál að vinna að því meginmarkmiði íslenskrar málstefnu að íslenska verði áfram nothæf – og notuð – á öllum sviðum samfélagsins, eins og kemur fram í þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var vorið 2019. Við berum öll ábyrgð á því að framfylgja þessari stefnu.

Veitum ungu fólki hlutdeild í málinu

23. Íslensk málrækt felst í því að veita ungu kynslóðinni hlutdeild í málinu – láta hana finna að hún hafi eitthvað um íslenskuna að segja.

Í meira en þúsund ár var íslenskt þjóðfélag tiltölulega stöðugt. Þetta var bændasamfélag þar sem kynslóðirnar bjuggu undir sama þaki og fengust í sameiningu við þau verk sem þurfti að sinna. Það var fátt um nýjungar í atvinnuháttum og hugmyndum og ef um eitthvað slíkt var að ræða náði það til allra aldurshópa. Reynsluheimur flestra var svipaður öldum saman og það þýddi vitanlega að sáralítill munur var á tungutaki og orðaforða ungs fólks og gamals – það komu engin ný umræðuefni til.

Nú hefur þetta gerbreyst eins og alkunna er og ekki þarf að útlista. Reynsluheimur ungs fólks er að verulegu leyti annar en þeirra sem eldri eru, og þá um leið málfar og orðaforði. Það leiðir til þess að fullorðna fólkið – sem ávallt er hinn sjálfskipaði dómari og ákveður viðmiðið – telur að málinu sé alltaf að hraka, orðaforði skreppi saman og beygingar brenglist. Það hneykslast á því að unglingarnir kunni ekki ýmis orð og orðtök sem tengjast úreltum atvinnuháttum í land­bún­aði og sjávarútvegi en áttar sig ekki á – eða telur lítilsvert – að unglingarnir kunna í staðinn ótal orð og orðasambönd sem tengjast þeirra reynsluheimi.

Við erum alltaf að segja unglingunum að nota íslensku, að þau beri ábyrgð á að vernda hana og varðveita – en við gefum þeim enga hlutdeild í henni. Þau eiga að nota íslenskuna eins og við viljum hafa hana, ekki eins og þeim er eiginlegt. Þau eiga að tileinka sér reglur sem samrýmast ekki málkennd þeirra. Þau eiga að tala eins og við en ekki eins og þau sjálf. En við þurfum að átta okkur á því og viðurkenna að við eigum íslenskuna öll saman – unga fólkið líka. Þess vegna má ungt fólk nota íslenskuna á sinn hátt.

Það kemur ekki í veg fyrir að við brýnum það fyrir því að fara vel með hana. En ef við látum alltaf eins og unga fólkið sé að skemma íslenskuna fyrir okkur hinum er ekki von til þess að það fái jákvætt viðhorf til hennar og rækti með sér áhuga á að skila henni áfram til sinna barna. Forsenda þess að íslenskan lifi áfram er auðvitað sú að nýjar og nýjar kynslóðir vilji nota hana. En þá þarf hún að þjóna þörfum þeirra – gera þeim kleift að tala um viðfangsefni sín og hugðar­efni á þann hátt sem þeim er eiginlegt, með þeim orðum og því málfari sem þær kjósa.

Það gerir hún ekki ef við leggjum áherslu á þekkingu á orðum og orðasamböndum frá fyrri tíð og reglur sem eru í ósamræmi við málkennd fólks, t.d. um beygingar og fallstjórn. Þess í stað þarf að þjálfa nemendur á öllum skólastigum í að leika sér með málið, átta sig á fjölbreytileik þess, og reyna á sköpunarmátt þess. Ég efast ekki um að margir kennarar geri einmitt þetta. En hendur þeirra eru ansi bundnar meðan enn er verið að prófa í „réttu“ máli og „röngu“. Hættum því – og ræktum málið þess í stað með því að leyfa því að leika lausum hala. Það margborgar sig.

Íslenskan og börnin

22. Íslensk málrækt felst í því að tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd.

Fyrstu árin í lífi okkar eru máltökuskeið. Þá erum við að soga í okkur málið í umhverfi okkar, greina það – ósjálfrátt og ómeðvitað – finna kerfi og reglur í því, beita þessum reglum, og athuga – líka ósjálfrátt og ómeðvitað – viðbrögð umhverfisins við því sem við segjum. Iðulega reynast reglurnar sem við þóttumst finna ónákvæmar – of þröngar, of víðar eða gallaðar á annan hátt – en við endurskoðum þær þá út frá viðbrögðum umhverfisins.

En til að við náum góðu valdi á þessu mikilvæga og stórkostlega tæki, tungumálinu, þurfum við að heyra það sem mest í umhverfinu (eða sjá, ef um táknmál er að ræða). Mikilvægasta máláreitið fá börn í samtölum. Það er grundvallaratriði að tala við barnið, gefa því færi á að svara, bregðast við svarinu, og skapa þannig gagnvirkni. Á máltökuskeiðinu þurfa börnin að hafa góðar málfyrirmyndir – foreldra, leikskólakennara og aðra í umhverfinu – sem sinna þeim, sýna þeim áhuga, og efla málþroska þeirra.

Um sex ára aldur erum við flest komin með vald á meginþáttum málkerfisins en það táknar þó ekki að máltökunni sé lokið. Við eigum enn eftir að ná valdi á ýmsum flóknum atriðum og undantekningum, og við höldum vitanlega áfram að auka orðaforða okkar og tileinka okkur ýmis fíngerð blæbrigði í málnotkun langt fram eftir aldri – jafnvel ævina á enda. Lestur fyrir börn og með þeim er mjög mikilvægur til að auka orðaforða barnanna og styrkja málkerfi þeirra.

Þegar börn verða eldri og eru farin að lesa sjálf er mikilvægt að halda að þeim fjölbreyttu lesefni til að þau læri annars konar orðaforða en fæst með venjulegum yndislestri, og nái valdi á fjölskrúðugri og flóknari setningagerðum en notaðar eru í samtölum og afþreyingarefni. Þetta þarf að kenna sérstaklega, með því að láta börn og unglinga lesa viðeigandi texta. Það þarf líka að stórauka framboð á fjölbreyttu fræðslu- og afþreyingarefni á íslensku.

Nauðsynlegt er að huga sérstaklega að börnum sem hafa annað heimilismál en íslensku. Til að eiga mögu­leika á að öðlast móðurmálsfærni í ís­lensku þurfa tví­tyngd börn að verja 50% af vöku­tíma sínum í íslensku mál­um­hverfi. Íslenski skóladagurinn nær ekki þessu hlutfalli og tíminn sem börnin hafa með foreldrum sínum þegar þau koma heim er varla nógu langur til að byggja upp móðurmálsfærni í heimilismálinu heldur, auk þess sem trúlegt er að þau eyði talsverðum hluta hans í enskum málheimi – sjónvarpi, tölvuleikjum o.s.frv. Það er hugsanlegt að við séum að ala upp börn sem ekki ná móðurmálsfærni í neinu máli. Það er mjög alvarlegt.

Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltökuskeiði. Það er ekkert jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.

Mismunun eftir íslenskukunnáttu

21. Íslensk málrækt felst í því að láta aldrei skort á íslenskukunnáttu bitna á fólki eða nota hann til að mismuna því á ómálefnalegan hátt.

Vorið 2020 kynnti mennta- og menningarmálaráðherra drög að frumvarpi um að bæta í stjórnarskrá ákvæðinu „Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda“, og samsvarandi ákvæði um íslenskt táknmál. Þótt engin ástæða sé til að amast við þessu er rétt að minna á að í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er svohljóðandi ákvæði: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna […] tungumáls […].“ Í skýringum við þetta segir: „Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni.“

Á seinustu árum hafa iðulega birst fréttir um að erlent afgreiðslufólk á hótelum, veitingastöðum og í verslunum verði fyrir aðkasti vegna skorts á íslenskukunnáttu. Það er vitanlega óviðunandi – barátta fyrir íslenskunni má aldrei snúast upp í þjóðrembu og hana má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því. Vissulega getur í sumum tilvikum verið málefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu „til að tryggja skilvirk samskipti við viðskiptavini, þar á meðal í störfum í þjónustugeiranum“, en þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið mál.

hætta er fyrir hendi að íslenskan verði notuð, meðvitað eða ómeðvitað, til að búa til lagskipt þjóðfélag þar sem annars vegar erum „við“, fólk sem ræður öllu í þjóðfélaginu, m.a. í krafti málfarslegra yfirburða, og situr að bestu bitunum hvað varðar menntun, tekjur o.s.frv. – og svo „hin“, fólk af erlendum uppruna, jafnvel önnur og þriðja kynslóð innflytjenda, sem hefur ekki gott vald á íslensku og kemst þess vegna hvergi áfram en situr eftir ómenntað í láglaunastörfum, áhrifalaust um umhverfi sitt og framtíð. Hugsanlega kæra sumir atvinnurekendur sig ekkert um að erlent starfsfólk þeirra læri íslensku því að þá gæti það farið að gera meiri kröfur og átta sig betur á réttindum sínum.

Ef fólk úr þessum hópi ætlar sér að taka virkan þátt í þjóðfélaginu, t.d. í stjórnmálum, fær það iðulega á sig  óvægna gagnrýni vegna ófullkominnar íslenskukunnáttu. Fyrir utan þann skaða sem þetta veldur fólkinu sem í því lendir er þetta stórhættulegt fyrir lýðræðið og býr til jarðveg fyrir lýðskrum og öfgastefnur. Innflytjendur eru nú orðnir rúm 15% landsmanna og það hefur vitaskuld áhrif á stöðu íslenskunnar sem til skamms tíma var einráð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þessi breytta staða skapar spennu milli íslensku og ensku – og hugsanlega einnig milli Íslendinga og innflytjenda.

Við þurfum að finna leið sem tekur tillit til útlendinga og gerir þeim kleift að bjarga sér í samfélaginu, án þess að íslenskan verði ævinlega víkjandi. Það er ekki einfalt mál að halda íslenskunni á lofti, halda því til streitu að hún sé nothæf og notuð á öllum sviðum, en jafnframt gæta þess að íslenskukunnátta og -færni sé aldrei notuð til að mismuna fólki. Það er brýnt að stjórnvöld móti stefnu í þessum málum. Fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli mun fara fjölgandi hér á landi á næstu árum og það er mikilvægt að það vilji læra íslensku – og eigi þess kost.

Tölum íslensku við útlendinga

20. Íslensk málrækt felst í því að nota íslensku í stað þess að skipta yfir í ensku í samskiptum við fólk sem vill og reynir að tala málið.

Eitt sinn hafði blaðið Grapevine, sem gefið er út á ensku í Reykjavík, samband við mig og bað mig að svara spurningunni „Why is Icelandic such a difficult language to learn?“ eða „Hvers vegna er svona erfitt að læra íslensku?“. Þetta er goðsögn sem margir þekkja, að íslenska sé með erfiðustu málum. Vissulega er ýmislegt í íslensku sem getur verið snúið, en það fer þó að talsverðu leyti eftir móðurmáli málnemans og þeim tungumálum sem hann hefur haft kynni af.

Íslenska er t.d. talin tiltölulega erfið fyrir fólk með ensku að móðurmáli enda hefur hún ríkulegar beygingar miðað við ensku, en slíkt ætti ekki að koma t.d. fólki af slavneskum uppruna á óvart. Íslenska er líka talin erfið fyrir margt fólk frá Asíu, sérstakleg ef það kann ekkert vestrænt tungumál. Það eru ákveðin sérkenni í íslensku hljóðkerfi og setningagerð sem geta vafist fyrir útlendingum, en þegar á heildina er litið er varla hægt að segja að íslenska sé erfiðari en gengur og gerist um tungumál.

En hitt er vissulega rétt að mörgum útlendingum finnst erfitt að læra íslensku og hika við að tala hana við Íslendinga. Ein ástæðan fyrir því er örugglega sú að Íslendingar eru ekki – eða hafa ekki verið – sérlega umburðarlyndir gagnvart beygingarvillum, erlendum hreim, og öðrum merkjum um ófullkomna íslensku. Ísland var til skamms tíma eintyngt samfélag og við vorum þess vegna ekki vön því að heyra útlendinga reyna að tala málið og hætti til að gagnrýna tilraunir þeirra til þess harkalega.

Því er oft haldið fram að nær allir Íslendingar kunni ensku og þótt það sé sannarlega ofmælt er samt enginn vandi að búa í íslensku þjóðfélagi árum og jafnvel áratugum saman án þess að kunna íslensku því að enskan er alls staðar. Það getur auðvitað verið hentugt fyrir þá sem hingað koma, en ber í sér hættu fyrir íslenskuna. Það þýðir að þrýstingur á og hvati til að læra málið er ekki alltaf mjög mikill, a.m.k. ekki fyrir fólk í fullri vinnu sem það hefur nóg með að sinna.

Við höfum ekki heldur staðið okkur nógu vel í að auðvelda fólki að læra málið. Málfærni fæst ekki nema með æfingu, og til að ná valdi á tungumáli þurfum við að fá tækifæri til að nota það við mismunandi aðstæður. Útlendingar kvarta oft yfir því að það sé erfitt að læra íslensku af Íslendingum því að þeir skipta iðulega yfir í ensku þegar þeir átta sig á því að viðmælandinn talar íslensku ekki reiprennandi. Þetta stafar ekki alltaf af óþolinmæði eða hugsunarleysi, heldur virðist það stundum gert á meðvitaðan hátt til að gera lítið úr fólki og gefa því til kynna að það eigi ekki heima hér.

Þetta þarf að breytast – við þurfum að auðvelda útlendingum að læra íslensku og nota hana á öllum sviðum, við þurfum að vera þolinmóðari og umburðarlyndari við fólk sem er að læra málið, og við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslenskunotkun, þótt framburður sé ekki fullkominn, beygingar vanti stundum og setningagerðin sé óhefðbundin. Íslenska er alls konar.

Flokkun fólks eftir málfari

19. Íslensk málrækt felst í því að líta ekki niður á fólk sem talar ekki „rétta“ íslensku og hreykja sér ekki af eigin málfari og málkunnáttu.

Tungumálið er áhrifamikið valdatæki og hægt að misbeita því á margvíslegan hátt til að gera lítið úr fólki. Það er vel þekkt að málfar fólks sem talar ekki samkvæmt málstaðlinum hefur verið notað á þennan hátt eins og Kristján Árnason lýsir: „Það verða til um það dómar í samfélaginu hvað telst fagurt eða ljótt. Og einstaklingarnir eru vegnir og metnir eftir málfari sínu. Sá sem notar vont mál er ófínni, heimskari, eða jafnvel verri maður en sá sem notar gott mál. Sá sem er „ósýktur“ af þágufallssýki getur leyft sér að líta niður á þann sem er „þágufallssjúkur“.“

Sjálft orðið, „þágufallssýki“, er vitanlega mjög gildishlaðið og í blöðum frá undanförnum áratugum má finna fjölmörg dæmi um ótrúlega fordóma gagnvart fólki sem er haldið þessari „sýki“. Í blaði frá 1954 er t.d. hneykslast á málfari og flutningi útvarpsþáttar og klykkt út með því að segja: „Fyrir utan allt annað þjáðist flutningsmaður af magnaðri þágufallssýki. Svona manni ætti ríkisútvarpið ekki að hleypa að, það er blátt áfram skaðlegt máli og mennt.“ Svipuðu máli gegndi um þá málbreytingu sem ýmist var kölluð „flámæli“ eða „hljóðvilla“ – sem eru vitanlega gildishlaðin orð ekki síður en „þágufallssýki“.

Íslensk málfarsumræðu hefur löngum verið þessu marki brennd – full fordæmingar á málfari fólks, með gildishlöðnum orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamálgötumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámæltgormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“ eða „þágufallssjúkir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík.

Orðbragðið sem var notað um fólk sem tók þátt í málfarslegri umræðu var engu betra. Fólk sem aðhylltist meira frelsi í málfarsefnum var kallað reiðareksmenn, lausungarsinnar og jafnvel fimmta herdeild; en það var ekki heldur saklaust af því að tala um andstæðinga sína sem málfarsfasista, málfarslöggurmálfarsperra, málvendi og máleigendur, og segja þá stunda málveirufræði. Sem betur fer er þessi orðræða að mestu horfin úr dagblöðum en hefur nú færst á netið og veður uppi á Facebook og í athugasemdadálkum vefmiðla.

Orðræða af þessu tagi er ólíðandi og þeim sem viðhafa hana til minnkunar. Hún er móðgandi og særandi – í raun árás á það mál sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði, árás á sjálfsmynd þess. Og hún er sannarlega ekki til þess fallin að efla íslenskuna því að hún gerir fólk óöruggt og fælir það frá að nota málið – ýtir undir málótta. Iðulega virðist tilgangurinn fremur vera að hreykja sér af eigin kunnáttu en leiðbeina öðrum. En það er aldrei vænlegt til árangurs að tala niður til fólks. Íslenska er nefnilega alls konar eins og áður hefur verið lögð áhersla á – og á að vera það.

Mismunun á grundvelli málstaðals

18. Íslensk málrækt felst í því að forðast að fordæma tilbrigði í máli sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði og eru hluti af málkerfi þess.

Tilbrigði í máli sem samræmast ekki hinum óopinbera íslenska málstaðli eru iðulega fordæmd og kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem á sér áratuga sögu í málinu og hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Auðvitað er ekki glóra í því.

Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiðimóðurmál okkar – hefur algera sérstöðu. Það er hluti af okkur sjálfum, mikilvægur þáttur í sjálfsmynd okkar. Þess vegna er ótækt að innræta fólki, í skólum eða á öðrum vettvangi, að það mál sem það hefur alist upp við sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Það er í raun og veru árás á okkur sjálf og fjölskyldu okkar ef okkur er sagt að mikilvægt sé „að lyfta þeim, sem ekki hafa átt nógu góðan „pabba og mömmu“ yfir málstig foreldranna“. Flokkun fólks eftir slíkum málfarsatriðum, t.d. á prófum, er engu betri en mismunun eftir kynferði, skoðunum, trú, kynhneigð o.s.frv. sem er bönnuð í 65. grein Stjórnarskrár.

Það er mjög brýnt að breyta málstaðlinum sem hefur gilt undanfarna öld, viðurkenna staðreyndir og gera ýmsar breytingar sem hafa verið í gangi, og verða ekki stöðvaðar, valkvæðar í staðlinum. Það gengur ekki endalaust að halda dauðahaldi í málfar sem er framandi fyrir stóra hópa fólks sem á íslensku að móðurmáli, og kalla málfar þess rangt. Jafnvel hörðustu málvöndunarmenn viðurkenna þetta: „Breytingin er orðin svo algeng, að viðurkenna verður hana sem rétt mál, hvað sem allri rökhyggju líður“ sagði Halldór Halldórsson prófessor um tiltekna málbreytingu.

En er þá ekkert rétt og rangt í máli? Jú – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“ segir í áliti nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum frá 1986. Í samræmi við þetta er alveg eðlilegt að gera athugasemdir við tilviljanakennd og einstaklingsbundin frávik frá staðlinum og kalla þau málvillur, en ef frávikin eru farin að ná til hóps af fólki og börn farin að tileinka sér þau á máltökuskeiði er eðlilegt að tala um málbreytingu eða tilbrigði í máli en ekki villu.

Á hinn bóginn er eðlilegt og gagnlegt að nemendur séu fræddir um það í skóla hvað hefur verið talið rétt og hvað rangt, og gerð skýr grein fyrir því að í sumum tilvikum geti það komið sér illa fyrir fólk að hafa ekki vald á þeim tilbrigðum sem hafa verið talin „rétt“ og samræmast málstaðlinum. Nemendur hafa þá val um hvort þeir leggja það á sig að tileinka sér tilbrigði sem kunna að vera í ósamræmi við þeirra eigið mál. Aðalatriðið er, eins og Guðmundur Andri Thorsson hefur sagt, að „íslenska er handa okkur […]. Hún er ekki útlenska. Hún er innlenska“.

Órökstudd fordæming tilbrigða

17. Íslensk málrækt felst í því að hafna órökstuddum fordæmingum ýmissa tilbrigða, jafnvel þótt lengi hafi verið barist gegn þeim í skólum.

Þótt engin lög séu til um form íslenskrar tungu er til óopinber málstaðall um rétt mál og rangt, gott og vont. Þessi málstaðall er hvergi skráður en heildstæðasta mynd af honum er hægt að fá með því að skoða Málfarsbankann. Samkvæmt staðlinum á ekki að skrifa mér langar heldur mig langar, ekki við hvorn annan heldur hvor við annan, ekki eins og mamma sín heldur eins og mamma hennar, ekki ég er ekki að skilja þetta heldur ég skil þetta ekki, ekki báðir tónleikarnir heldur – ja, hvað? Hvorir tveggja tónleikarnirHvorirtveggju tónleikarnir? Hver segir það eiginlega?

Það er enginn vafi á því að fyrra („ranga“) afbrigðið í hverri tvennd er málvenja margra – í sumum tilvikum örugglega meirihluta þjóðarinnar. En þrátt fyrir að um sé að ræða útbreiddar málbreytingar, flestar áratuga eða jafnvel alda gamlar, njóta þær ekki viðurkenningar sem vönduð íslenska. Til að hafna þeim er beitt ýmsum missterkum og missannfærandi rökum sem sum hver standast alls ekki. Ég hef þó grun um að ein röksemd sem ég hef hvergi séð orðaða beint sé mjög oft undirliggjandi hjá þeim sem amast við tilbrigðum. Hana mætti orða svona: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.

Vitanlega réttlætir það ekki vitleysu að hún hafi lengi verið höfð fyrir satt. En það má vel halda því fram að mikilvægt sé að festa ríki í málsamfélaginu og ekki sé hringlað með viðmið. Ef búið er að kenna áratugum saman að eitthvað sé rangt – þrátt fyrir að það sé eðlilegt málfar fjölda málnotenda – geti skapast óreiða og lausung í málinu ef það er allt í einu viðurkennt sem rétt mál. Þetta valdi vandræðum í kennslu og ýti undir þá hugmynd að það sé alveg sama hvernig fólk tali og skrifi. Þetta er sjónarmið margra og ástæða til að taka það alvarlega og bera virðingu fyrir því. En ég held að það sé rangt.

Ég held þvert á móti að einstrengingslegt bann við tilbrigðum sem veru­legur hluti – jafnvel meirihluti – málnotenda elst upp við og notar í daglegu lífi sé miklu frekar til þess fallið að skapa óvissu og óreiðu í málnotkun en viðurkenning þessara tilbrigða. Það er hins vegar annað sem þarf að hafa í huga ef viðmiðum er breytt og farið að viðurkenna eitthvað sem áður hefur verið talið rangt. Við erum nefnilega föst í því, mörg hver, að dæma fólk eftir málfari – eftir því hversu vel það fylgir þeim viðmiðum sem hafa verið notuð um rétt og rangt. Þótt þeim viðmiðum væri breytt leiðir það ekki sjálfkrafa og umsvifalaust til breyt­ingar á viðhorfi okkar til tilbrigðanna – og fólksins sem notar þau.

Við þurfum að þora að breyta stefnunni – viðurkenna tilbrigði sem eiga sér langa sögu og eru útbreidd í málinu. Það er engin uppgjöf. En við þurfum ekki síður að hætta að dæma fólk eftir málfari, hvað þá að tengja málfar við andlegt eða líkamlegt atgervi fólks. Mismunun eftir málfari á ekki að viðgangast frekar en mismunun eftir kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð o.s.frv.

Förum varlega í leiðréttingar

16. Íslensk málrækt felst í því að hneykslast ekki á málnotkun annarra eða vera sífellt að leiðrétta fólk og gera athugasemdir við málfar þess.

Hnökrar á málfari náungans hafa lengi verið vinsælt umræðuefni Íslendinga. Leiðréttingar á algengum „málvillum“ hafa verið eitt helsta viðfangsefni málfarspistla í blöðum, haldið hefur verið úti bloggsíðum með það að megintilgangi að gagnrýna og leiðrétta málfar fólks, og á Facebook er hópur með meira en átta þúsund þátttakendum þar sem mörg innlegg snúast um hneykslun og leiðréttingu á málfari. Reyndar byggjast þær athugasemdir sem þar eru gerðar iðulega á fordómum, útúrsnúningum eða þekkingarskorti á málfræði og þekktum tilbrigðum í málinu.

Það er engin kurteisi að gera óumbeðnar athugasemdir við málfar annarra – slíkar athugasemdir eru iðulega til bölvunar og geta leitt til þess sem Stefán Karlsson kallaðimálótta“, þar sem málnotendur veigra sér við „að tjá sig í riti, þó ekki sé nema í  sendibréfi, eða að taka til máls á opinberum vettvangi, því að þeir óttast að brjóta þá bannhelgi orða og orðmynda, sem þeim hefur verið innrætt. Eftir því sem amazt er við fleiru, eftir því verður nemendum torveldara að muna hvað talið er óæskilegt, og þetta eykur á óöryggi málnotandans gagnvart því máli sem er þó hans eigið móðurmál og getur gert það fátæklegra eða annarlegra en vera þyrfti“.

Þetta á við um leiðréttingar sem gerðar eru í persónulegum samskiptum við fólk sem er komið af máltökuskeiði og á íslensku að móðurmáli. Öðru máli gegnir hins vegar um fólk sem kemur fram á opinberum vettvangi og hefur atvinnu af því að nota málið í ræðu eða riti. Við eigum kröfu á að það fólk vandi sig og beiti málinu af kunnáttu og þekkingu. Það er ekkert að því að benda á það sem betur má fara í máli þess, þótt auðvitað skipti máli hvernig þær ábendingar eru settar fram.

Alkunna er að á máltökuskeiði gera börn ýmsar villur í málnotkun, sé miðað við mál fullorðinna. Þekkt er t.d. að börn beygja sterkar sagnir veikt og segja hlaupaðibítti, látti í stað hljópbeit, lét o.s.frv. Það er ekkert óeðlilegt að foreldrar leitist við að leiðrétta börnin, þótt rannsóknir sýni reyndar að beinar leiðréttingar skili litlu. Árangursríkara er að hafa réttar myndir fyrir börnunum, en aðalatriðið er þó að sjá til þess að þau hafi næga íslensku í málumhverfi sínu – í samtali, lestri, hlustun og áhorfi. Þá koma réttu myndirnar oftast inn í mál þeirra fyrr en seinna, þótt vissulega geti stundum eitthvað breyst í máltökunni.

Fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli gerir vitanlega ýmiss konar villur þegar það er að læra málið. Vissulega má halda því fram að því sé greiði gerður með því að leiðrétta þessar villur – það flýti fyrir því að það nái fullu valdi á málinu en festist ekki í óeðlilegu eða röngu málfari. Þetta er samt vandmeðfarið og viðhorf þeirra sem eru að læra málið til slíkra leiðréttinga er misjafnt – sumir taka þeim fegins hendi en öðrum finnst þær stuðandi. Áður en farið er að leiðrétta málfar fólks er þess vegna er æskilegt að reyna að komast að því hvort það vilji láta leiðrétta sig – og virða óskir þess.