Category: Málrækt

Skýrt orðalag og vönduð framsetning

5. Íslensk málrækt felst í því að leitast við að orða hugsun sína skýrt og skipulega og vanda framsetningu bæði talaðs máls og ritaðs.

Meginhlutverk tungumálsins er að vera samskiptatæki. En þessu tæki er hægt að beita á mismunandi hátt eins og öðrum tækjum, og eins og með önnur tæki má gera ráð fyrir því að bestur árangur náist ef því er beitt af þekkingu, á markvissan og hnitmiðaðan hátt. Við náum betur til áheyrenda eða lesenda ef við vöndum uppbyggingu setninga, veljum viðeigandi orð og tölum skýrt en ef setningagerðin er ruglingsleg, orðanotkun ómarkviss og framburður óáheyrilegur.

Frágangur bæði ritaðs og talaðs máls skiptir líka máli. Ritaður texti sem er fullur af hvers kyns frávikum – óvenjulegri beygingu, ritvillum, ósamræmi, óhefðbundinni notkun orðasambanda o.s.frv. er ekki traustvekjandi. Sama gildir um talað mál þar sem framburður er mjög óskýr eða kæruleysis­legur, erlendar slettur notaðar í óhófi, o.s.frv. Mál af þessu tagi truflar margt fólk og veldur því að boðskapurinn kemst ekki til skila, vegna þess að áheyrendur eða lesendur festast í forminu og láta það leiða athyglina frá merkingunni.

Þess vegna er mikilvægt að lesa ritaðan texta sem maður sendir frá sér vandlega yfir – huga vel að beygingu, fallstjórn, beygingarsamræmi, orðavali, stafsetningu, setningagerð og greinar­merkj­um. Einnig þarf að huga að samræmi í leturgerð, leturstærð, línubili o.þ.h. Þetta á auðvitað sérstaklega við um texta sem fólk birtir opinberlega á einhvern hátt, á prenti eða á netinu, rit­gerðir sem nemendur skila, o.fl. Reyndar er það þannig eftir tilkomu samfélagsmiðla að fólk skrifar miklu oftar en áður texta sem kemur fyrir augu margra.

Við þennan yfirlestur er um að gera að nýta sér hvers kyns hjálpargögn, bæði á bók og rafræn. Úrval slíkra hjálpargagna hefur stóraukist á síðustu árum og aðgengi að þeim batnað. Þar má ekki síst nefna vef Árnastofnunar, Málið.is. Þar er flett upp í sjö gagnasöfnum í einu; Beygingar­lýsingu íslensks nútímamáls, Íslenskri nútímamálsorðabók, Íðorðabankanum, Málfarsbankan­um, Íslensku orðaneti, Stafsetningarorðabók og Íslenskri orðsifjabók. Beinir hlekkir eru á öll þessi gagnasöfn nema það síðasttalda.

Risamálheildin er safn sem hefur að geyma 1,5 milljarð orða úr fjölbreyttum textum, einkum frá síðustu árum. Hægt er að leita í textunum á margvíslegan hátt, svo sem eftir málfræðilegri greiningu. Sama leitarviðmót er á safni íslenskra forntexta. Að auki má nefna Ritmálssafn Orða­bókar Háskólans með dæmum úr textum allt frá 1540, ÍSLEX – íslensk-norrænar orðabækur, Hugtakasafn Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, Nýyrðavef Árnastofnunar, íslenskar ritreglur, og íslenska fornmálsorðabók með dönskum og enskum skýring­um. Öll framantalin gögn eru opin og ókeypis á netinu.

Auk þessa er Snara sem greiða þarf áskriftargjald fyrir. Þar er m.a. Íslensk orðabók, Íslensk samheitaorðabókMergur málsins og orðabækur milli íslensku og ýmissa erlendra mála – dönsku, ensku, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku og pólsku. Til viðbótar má vísa á kver Ólafs Oddssonar, Gott málPistla Jóns G. Friðjónssonar; og Ritgerðasmíð eftir Eirík Rögnvaldsson. Það er mikilvægt að vita um þessi hjálpargögn, læra að nota þau, og nýta sér þau reglulega. Kæruleysisleg umgengni við íslenskuna, hvort heldur er í ræðu eða riti, er engum til sóma.

Viðhorf til íslenskunnar

4. Íslensk málrækt felst í því að rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og skilning á gildi þess fyrir okkur sjálf og málsamfélagið.

Íslendingar hafa yfirleitt haft mjög jákvætt viðhorf til móðurmálsins og oft er lögð áhersla á að það geri okkur að þjóð – sé réttlæting okkar fyrir sjálfstæði og grundvallarþáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Í bókinni Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk hefur Guðmundur Hálfdanarson haldið því fram að „náttúran sé að taka við af tungumálinu og menningunni sem helsta viðmið íslenskrar þjóðernisstefnu – eða mikilvægasta tákn þess sem gerir okkur að Íslendingum og greinir okkur frá öðrum þjóðum“.

Ekki eru þó allir sannfærðir um þetta, en hvað sem því líður virðist unga kynslóðin ekki líta á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfs­mynd sinni og þau sem eldri eru, og ýmsar vísbendingar eru um að hún hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Á þessu eru eflaust margar skýringar. Ein er sú að málfræðikennsla í grunn- og framhaldsskólum er ekki sérlega vel til þess fallin að auka áhuga á íslenskunni. Sama máli gegnir um áherslu samræmdra prófa á rétt mál og rangt, málfræðilega greiningu o.þ.h.

Önnur ástæða er alþjóðavæðingin. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kyn­slóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.

Í íslenskuhluta aðalnámskrár framhaldsskóla frá 1999 segir: „Með íslenskukennslu í framhaldsskólum skal stuðlað að því að nemendur öðlist jákvætt viðhorf til íslensku og kynnist áhrifamætti og margbreytileika málsins.“ Þetta er mikilvægt, því að í erlendum rannsóknum hefur verið sýnt fram á að viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst við­horf ungu kynslóðarinnar, ræður miklu um framtíðarhorfur málsins. Skeytingarleysi í garð íslenskunnar virðist því miður vera of útbreitt.

Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt hún sé höfð á eftir ensku á skiltum í Leifsstöð. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt auglýsingar í búðargluggum séu eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt einhver fyrirtæki sendi starfsmönnum tölvupóst sem er eingöngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt fjöldi verslana auglýsi „Black Friday“, „Cyber Monday“ og „Singles Day“. En það sýnir, meðvitað eða ómeðvitað, ákveðið viðhorf til íslenskunnar – viðhorf sem smitar út frá sér og gerir meiri skaða en við áttum okkur á í fljótu bragði.

Gildi íslenskunnar fyrir okkur sjálf og íslenskt málsamfélag er ómetanlegt eins og hér hefur áður verið lýst. Ef unga kynslóðin missir trú á málinu og hættir að vera annt um það er það dauðadæmt. En dauðastríð íslenskunnar yrði langt og sársaukafullt, bæði fyrir málsamfélagið og okkur sem eigum hana að móðurmáli. Þess vegna þurfum við að leggja megináherslu á að skapa jákvætt viðhorf til íslenskunnar – sjá til þess að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum. Það er á ábyrgð okkar allra.

Gildi íslenskunnar fyrir okkur

3. Íslensk málrækt felst í því að skilja að íslenska er ekki merkilegri eða dýrmætari en önnur tungumál – nema fyrir notendur hennar

Stundum er sagt að íslenska sé dýrmætasta eign þjóðarinnar og jafnvel heyrist sú skoðun að hún sé öðrum málum fremri á einhvern hátt. Árið 1926 flutti Sigurður Nordal prófessor erindi sem nefndist „Málfrelsi“ og birtist síðar í Lesbók Morgunblaðsins. Fyrsti hluti þess nefnist „Hverjir eru sjerstakir yfirburðir íslenskunnar“ og þar segir:

„Því má halda fram með rökum, að íslenskunni sje margt stórvel gefið. Hún er gagnorð og þróttmikil, ljós og skýr, svo að hún fellur vel að rökfastri hugsun. Málfræðin er torveld, og mikil tamning að læra hana. Orðaforðinn er geysimikill á sumum sviðum. Þá er hún og skemmra komin frá frumlindum sínum en flestar aðrar tungur. Orðin eru ekki jafnslitið gangsilfur og annars gerist, auðveldara að nema hugsun þá, er hefir mótað þau í öndverðu, og hún er oft furðu spakleg. Þetta og annað fleira, hljóðvörp, viðskeyti og samsetningar, veldur grósku í málinu. Á íslensku er kostur meiri ritsnildar en á flestum öðrum tungum, ný orð spretta upp af sjálfum sjer til þess að láta í ljós nýjar hugsanir, og virðast þó vera gömul. Þau hlaupa í skörðin, sem af einhverri tilviljun hafa staðið opin handa þeim.“

Íslenskan er líka beintenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Við njótum þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auð­veld­lega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan tekur róttækum breytingum, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Hávamál og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kalda­ljós, og meira að segja Arnald og Yrsu. Þar með væri hið margrómaða samhengi í ís­lensk­um bókmenntum og menningu fokið út í veður og vind.

Þetta þýðir samt ekki að íslenskan sé eitthvað betri eða merkilegri en önnur tungumál. „Íslenskan er eins og við öll vitum, móðurmálið okkar og það ber okkur að varðveita hverja stund. En við eigum líka að bera virðingu fyrir öllum erlendum tungumálum og skilja að þau eru jafn dýrmæt og íslenskan er okkur“ er haft eftir  Vigdísi Finnbogadóttur, og í framhaldi af því sem Sigurður Nordal skrifaði um kosti íslenskunnar og vitnað er til hér að framan sagði hann: „En svo er um móðurmálið sem sumt annað, sem nákomnast er manni, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Ef aðrar þjóðir færi að telja fram kosti sinna tungna, mætti íslenskan vara sig.“

Þetta er grundvallaratriði. Íslenskan er dýrmætasta mál í heimi fyrir okkur sem eigum hana að móðurmáli. Hún er hluti af okkur sjálfum, útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móður­mál okkar, er einkaeign okkar jafnframt því að vera sam­eign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Við berum ábyrgð á velferð þess – gagnvart málsamfélaginu og öllu mannkyni, en fyrst og fremst gagnvart okkur sjálfum.

Íslenska, þjóðrækni og þjóðremba

2. Íslensk málrækt felst í því að gæta þess að umhyggja fyrir íslenskunni snúist ekki upp í þjóðrembu og andstöðu við önnur tungumál

Það er alkunna að tungumálið lék eitt aðalhlutverkið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Allt frá upphafi baráttunnar snemma á 19. öld var áhersla lögð á íslenskuna og mikilvægi hennar fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund, og iðulega var sett samasemmerki milli hnignunar tungumálsins og dvínandi þjóðerniskenndar. En þótt áhersla væri lögð á endurreisn tungunnar og hreinsun af dönskum áhrifum í tengslum við eflingu þjóðerniskenndar og baráttu fyrir auknum réttindum Íslendinga á 19. öld var bar­áttan einkum háð innanlands en ekki við dönsk stjórnvöld.

Á seinni hluta 19. aldar var verið að draga skarpari landamæri en áður víða um Evrópu og þjóð­ríki í nútímaskilningi voru að verða til. Víða lentu þá innan sama ríkis hópar og þjóðarbrot sem töluðu mismunandi tungumál. Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld iðu­lega áherslu á eitt ríkismál, og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála innan ríkisins. En dönsk stjórnvöld virðast aldrei hafa gert miklar tilraunir til að þröngva dönsku upp á Íslendinga.

Þvert á móti – allt frá 17. öld voru gefnar út ýmsar tilskipanir og konungsbréf sem ýmist heimiluðu eða mæltu fyrir um notkun íslensku á ýmsum sviðum stjórnsýslunnar. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar því ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Tungumálið var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslend­inga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notað til að leiða Íslendingum sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungumálið vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var það vopnið.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að vilja veg íslenskunnar sem mestan. En stundum hefur umræða um hana borið keim af öfgafullri þjóðernisstefnu og hreinleiki málsins jafnvel verið tengdur hreinleika kynstofnsins. Á þessu örlaði á uppgangstíma nasismans á fjórða áratug síðustu aldar og svipaðar raddir hafa stöku sinnum heyrst á síðustu árum, einkum hjá forvígismönnum Íslensku þjóðfylkingarinnar.

En það er líka stutt frá áherslu á íslenska þjóðmenningu yfir í hugmyndir um yfirburði íslenskunnar yfir önnur tungumál. Slíkt má ekki viðgangast. Umhyggja fyrir íslenskunni er heilbrigð þjóðrækni sem við megum ekki láta víkja fyrir þjóðrembu, því að eins og Guðni Th. Jóhannesson hefur sagt „er þjóðrækni til fyrirmyndar en þjóðremba alls ekki. Hún felur í sér gorgeir og þótta í garð annarra, dramb og yfirlæti. Þjóðremba elur á óvild, þjóðrækni snýst um umburðarlyndi, víðsýni og náungakærleik“.

Um þessar mundir er mikið rætt um aukna enskunotkun á Íslandi og hugsanleg ensk áhrif á íslenskuna. Þessi umræða eru eðlileg og nauðsynleg en mikilvægt er að hún snúist ekki upp í andstöðu við ensku eða erlend mál yfirleitt. Enskan er ekki óvinurinn þótt því sé stundum haldið fram. Enskan er alþjóðamál sem er mikilvægt að hafa á valdi sínu og það er gott að börn og unglingar læri hana sem best. En hún má hins vegar ekki valta yfir íslenskuna. Það er á okkar ábyrgð að svo verði ekki.

Íslenskan sem menningarverðmæti

1. Íslensk málrækt felst í því að hafa í huga að í hverju tungumáli felast menningarverðmæti og við berum ábyrgð á framtíð íslenskunnar.

Talið er að um sjö þúsund tungumál séu nú töluð í heiminum. Rúm 40% þeirra, tæp þrjú þúsund, eru talin í útrýmingarhættu og tvö þúsund af þeim eru töluð af færri en þúsund manns. UNESCO áætlar að meira en helmingur þeirra tungumála sem nú eru töluð muni deyja út fyrir lok þessarar aldar og hefur sett fram áætlun um tungumál í hættu (Endangered Language Programme) til að stuðla að varðveislu sem flestra mála vegna þess að í öllum þessum tungumálum felast ómetanleg menningarverðmæti.

Sérhvert tungumál er einstakt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi er frábrugðið öllum öðrum tungumálum, merkingar­blæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er (og slík gögn eru forgengileg eins og sannaðist átakanlega í bruna þjóðminjasafns Brasilíu haustið 2018), verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.

Samkvæmt mælikvarða UNESCO um lífvænleik tungumála er íslenska í fimmta og efsta styrkleikaflokki og er örugg (safe). Kvarði UNESCO byggist á nokkrum mælistikum og hingað til hefur verið talið ótvírætt að íslenska sé í efsta þrepi á þeim öllum. Til að komast í efsta þrepið þarf málið að vera notað af öllum aldurshópum, frá börnum og upp úr; vera notað af öllum íbúum málsvæðisins; vera notað á öllum sviðum og til allra þarfa; aðlagast nýjum notkunarsviðum; og eiga sér ritmál, rithefð, mállýsingar, orðabækur, bókmenntir og fjölmiðla, og ritmálið þarf að vera notað í stjórnsýslu og menntun.

En ef til vill er ekki lengur alveg ljóst að íslenska nái efsta þrepi samkvæmt öllum viðmiðum. Utanaðkomandi áreiti á tungumálið hefur stóraukist á síðasta áratug, bæði af völdum þjóð­félags­breytinga og tæknibreytinga. Þeim íbúum landsins sem ekki tala íslensku fer t.d. ört fjölg­andi, og enskunotkun fer vaxandi á ýmsum sviðum, t.d. í ferðaþjónustu, háskólakennslu, viðskiptalífinu og víðar. Jafnframt hafa komið fram vangaveltur um hugsanlega truflun á máltöku vegna ónógrar íslensku í málumhverfinu. Þá gæti alþjóðavæðingin haft áhrif á viðhorf málnotenda til íslenskunnar og valdið þannig auknum þrýstingi á hana.

Þar að auki er ekki víst að þessi viðmið dugi lengur til að mæla lífvænleik tungumála í því stafræna þjóðfélagi sem við búum nú í. Áhrif tungumála hvers á annað berast nú ekki eingöngu gegnum sambýli í raunheiminum, heldur ekki síður gegnum stafrænt málsambýli – net- og snjalltækjanotkun, áhorf á efni á erlendum efnis- og streymisveitum eins og YouTube og Netflix, spilun tölvuleikja á ensku o.fl., og langtímaáhrif þessara þátta eru óljós. Eitt er þó alveg ljóst: Það er okkar að sjá til þess að íslenskan lifi. Ef málnotendur hafa ekki áhuga á því að halda í málið og þar með þau menningarverðmæti sem það geymir er það dauðadæmt. Ábyrgðin er okkar.

Íslensk málrækt

Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að