Til Selfossar
Ég hef iðulega séð gerðar athugasemdir við að talað sé um að fara til Selfossar eins og stundum heyrist. Það er engin furða – orðið foss hefur fram undir þetta verið endingarlaust í eignarfalli, (til) foss, og sama gildir um samsetningar af því, þar á meðal (til) Selfoss. Okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt að orð beygist á þann hátt sem við höfum vanist, og kippumst því við þegar við heyrum brugðið út af hefðbundinni beygingu. Það er vissulega æskilegt að viðhalda málhefð um beygingu orða en þó er rétt að hafa í huga að þessi breyting er fjarri því að vera einsdæmi.
Beyging fjölmargra orða hefur breyst frá fornu máli til nútímans, án þess að það hafi raskað málkerfinu eða valdið alvarlegu rofi á málhefð. Aðalatriðið er að orðin hætti ekki að beygjast, þótt þau færist milli beygingaflokka. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki – -ar er dæmigerð eignarfallsending sterkra karlkynsorða þótt -s sé enn algengari. En þessi breyting er reyndar áhugaverðari en margar aðrar. Orðið foss er nefnilega nokkuð sérstakt vegna þess að það er endingarlaust í eignarfalli eins og áður segir. Þetta er vissulega ekki einsdæmi en meginreglan er þó að nafnorð hafi sérstaka eignarfallsendingu.
Í karlkynsorðum eru það bara orð sem enda á löngu (tvöföldu) ss eins og foss, sess, rass o.fl., svo og orð sem enda á samhljóði + s eins og dans, háls, þurs, snafs o.fl. sem eru án endingar í eignarfalli eintölu. Þetta endingarleysi á sér langa sögu og má skýra með ævagamalli hljóðþróun. En það getur leitt til þess að sumum málnotendum finnist vanta þarna einhverja endingu – fái það á tilfinninguna að orðin séu ekki beygð, og hyllist þess vegna til þess að bæta eignarfallsendingu við þau, þótt ekki sé hefð fyrir henni.
Þetta er það sem gerist þegar fólk segir til Selfossar í stað til Selfoss – og svipuðu máli gildir um önnur staðanöfn sem enda á -s, t.d. Ölfus og Akranes. Þau bæta vissulega við sig -s í eignarfalli í rituðu máli, Ölfuss og Akraness. En í framburði er sjaldnast lengdarmunur á einföldu og tvöföldu samhljóði í áherslulausu atkvæði eins og þarna. Ölfuss er því venjulega borið fram nákvæmlega eins og Ölfus, og Akraness er venjulega borið fram nákvæmlega eins og Akranes. Þess vegna finnst málnotendum – sumum hverjum a.m.k. – vanta eignarfallsendingu á þessi orð líka, og myndirnar til Akranesar og til Ölfusar heyrast oft.
Það er vissulega hægt að hafna þessari beygingu á þeirri forsendu að engin hefð sé fyrir henni. En það er líka hægt að taka henni fagnandi vegna þess að hún sýnir að málnotendur hafa sterka tilfinningu fyrir því að eignarfall eigi að fá endingu, og setja þess vegna endingu þar sem þeim finnst hana vanta. Breyting af þessu tagi sýnir því styrk beygingarkerfisins – meðan breytingar af þessu tagi koma upp er kerfinu óhætt, og það er meginatriðið. Ef eignarfall umræddra orða hefði verið Selfossar, Akranesar og Ölfusar en væri að breytast í Selfoss, Akranes(s) og Ölfus(s) væri hins vegar fremur ástæða til að hafa áhyggjur af kerfinu.
Ef ég ætti barn á máltökuskeiði sem segði til Selfossar / Akranesar /Ölfusar myndi ég leiðrétta það (sem sennilega kæmi fyrir lítið). Ef ég væri prófarkalesari og rækist á þessar myndir myndi ég breyta þeim í Selfoss / Akraness / Ölfuss í samræmi við hefð. Ef ég væri kennari myndi ég gera athugasemdir við þessar myndir í ritgerðum nemenda og reyna að skýra þær út eins og gert er hér að framan, en ég myndi aldrei gefa rangt fyrir þær á prófi – og dytti raunar aldrei í hug að prófa í þeim. En ef ég væri almennur málnotandi sem hefði vanist á að segja til Selfossar / Akranesar / Ölfusar myndi ég líklega bara halda því áfram.