Samtengdir tvíburar

Í Fréttablaðinu var fyrr í sumar sagt frá því að „elstu samtengdu tvíburar heims“ væru látnir. Ýmsum fannst þetta óeðlilegt og bentu á að á íslensku væri venja að tala um samvaxna tvíbura frekar en samtengda. Á tímarit.is er aðeins eitt dæmi um samtengda tvíbura, frá 2001. Aftur á móti eru yfir 250 dæmi um orðalagið samvaxnir tvíburar, það elsta frá lokum 19. aldar. Það er sem sé löng og rík hefð fyrir því orðalagi (þótt síamstvíburar sé reyndar langalgengasta orðið, með yfir 600 dæmi), og sjálfsagt hefur mörgum virst sem einfaldlega væri hér á ferð hrá þýðing á enska heitinu sem um er að ræða, conjoined twins. En þetta er ekki alveg svo einfalt.

Í Íðorðabankanum er enska heitið conjoined twins nefnilega þýtt sem samtengdir tvíburar. Sú þýðing er komin úr Íðorðasafni lækna og varla hægt að telja hana ranga, þótt orðalagið samvaxnir tvíburar sé í betra samræmi við íslenska málhefð. Ástæða þess að það orðalag er ekki notað í Íðorðasafni lækna er væntanlega sú að það hefur ekki þótt nógu nákvæmt frá fræðilegu sjónarmiði. Samtengdir tvíburar eru nefnilega strangt tekið ekki samvaxnir. Ástæðan fyrir því að þeir eru samtengdir er sú að okfruma (frjóvgað egg) hefur ekki skipt sér fullkomlega. Það er því ekki um það að ræða að tvíburarnir hafi „vaxið saman“ eins og orðið samvaxnir gefur í skyn og þess vegna hefur þótt eðlilegra að nota orðið samtengdir sem er hlutlausara.

Fagmál og íðorð lúta öðrum lögmálum en almennt mál. Íðorð þurfa að hafa nákvæma merkingu og mega ekki vera villandi. Öðru máli gegnir um almennt mál – það er oft „órökrétt“ á ýmsan hátt og uppfullt af orðum sem halda má fram að standist ekki fræðilega. En það er allt í lagi – orð í almennu máli merkja það sem málsamfélagið lætur þau merkja, ekki það sem íðorðanefndir ákveða að þau merki. Þeirra lögsaga nær aðeins til íðorðanna. Á hinn bóginn eru til ýmis orð sem eru bæði notuð í almennu máli og einnig sem íðorð og það getur vissulega stöku sinnum skapað vanda – sérstaklega ef fólk færir skilgreiningu íðorðsins yfir á notkun þess í almennu máli þar sem hún á ekki við.

Hér höfum við áhugavert dæmi um ósamræmi milli almenns máls og fagmáls. Í almennu máli er hefð fyrir því að tala um samvaxna tvíbura, en í fagmálinu er talað um samtengda tvíbura. Hvort tveggja er „rétt“ í einhverjum skilningi, en það má velta því fyrir sér hvorn kostinn sé eðlilegra að velja í blaðafrétt. Hvort er mikilvægara að fylgja hefð almenns máls eða nota orð úr fagmáli sem er fræðilega „réttara“? Blaðamaðurinn þarf að meta þetta hverju sinni – og huga þá bæði að hagsmunum lesenda og íslenskunnar. Er hugsanlega hægt að túlka almenna orðið þannig að það feli í sér einhverja fordóma? Er íðorðið svo framandi að það sé líklegt til að torvelda skilning á fréttinni? O.s.frv. Þarna er ekkert einhlítt svar til, en mikilvægt að hafa þetta í huga.