Eiga von á
Stundum verður þess vart að fólki finnst undarlegt eða beinlínis rangt að tala um að eiga von á einhverju þegar það sem um er rætt er óæskilegt á einhvern hátt. Á bak við þetta liggur þá að fólk telur að von hafi þarna sömu merkingu og í sögninni vona. Það er í sjálfu sér skiljanleg tilfinning en hún styðst ekki við málhefð – sambandið er „yfirleitt notað í svipaðri merkingu og orðasambandið búast við, þ.e. úr tengslum við merkingu orðanna von og vona“ segir í Málfarsbankanum. Svo lengi sem rakið verður hefur það verið notað um óæskilega hluti ekki síður en æskilega. Þannig segir í Fjölni 1835: „Það er von á halastjörnu í haust.“ Í Skírni 1845 segir: „vissu þeir að þeir fyrir þá sök áttu von á þúngbærri hegníngu.“ Í Þjóðólfi 1850 segir: „af því þú lifir og hrærist í auðvirðilegasta hjegóma, þá áttu von á auðvirðilegustu æfilokum.“ Ekkert af þessu getur talist æskilegt.
Í Málfarsbankanum segir: „Orðið von hefur skýra merkingu í málinu og þ.a.l. getur verið óheppilegt að nota orðasambandið eiga von á einhverju þegar um eitthvað slæmt er að ræða.“ En raunar er það í fleiri tilvikum sem von getur vísað til einhvers sem alls ekki er vonast eftir, t.d. í samböndunum eiga ekki von á góðu og eiga sér einskis ills von. Í sambandinu það er von að … er ekki heldur vísað sérstaklega til einhvers æskilegs. Öðru máli gegnir hins vegar um sögnina vona og samböndin vonast eftir og vonast til. Þau vísa held ég alltaf til einhvers sem er æskilegt. Þótt það sé vissulega algengast að nafnorð og samstofna sögn hafi hliðstæða merkingu er það alls ekkert sjálfgefið.
Í fornu máli má líka finna fjölda dæma þar sem von er síður en svo jákvætt orð – það nægir að nefna hér tvö. Í frásögn Gísla sögu af vígi Vésteins segir: „Hún fer heim og segir Gísla að Þorgrímur sat með hjálm og sverð og öllum herbúnaði en Þorgrímur nef hafði bolöxi í hendi en Þorkell hafði sverð og brugðið af handfang „allir menn voru þar upp risnir, sumir með vopnum.“ „Slíks var að von,“ segir Gísli.“ Í frásögn Sturlungu af Flugumýrarbrennu segir: „Og er Gissur kom fram úr hvílunni þá var Sámur rekkjufélagi hans högginn banahögg. Gissur heyrði er Sámur mælti þetta er hann fékk höggið: „Slíks var von,“ segir hann.“ Þarna er augljóst að slíks var (að) von merkir ekki 'ég vonaðist eftir þessu', heldur 'þetta var viðbúið'.
Hitt má til sanns vegar færa að í einstöku tilvikum getur þessi notkun verið óheppileg eins og bent er á í Málfarsbankanum: „Þetta getur verið neyðarlegt og jafnvel meiðandi, t.d. í setningum á borð við: hann á jafnvel von á að að fleiri hafi farist í jarðskjálftanum.“ Í slíkum tilvikum geta hugrenningatengsl við vona og vonast til/eftir vissulega truflað fólk og sjálfsagt að taka tillit til þess og forðast að nota eiga von á við slíkar aðstæður. En það breytir því ekki að sambandið eiga von á er og hefur alltaf verið hlutlaust – felur ekki í sér að sérstaklega sé vonast til þess sem um er rætt.