Þannig mönnum er ekki treystandi
Á landsprófi í íslensku 1971 var spurt: „Hvers vegna er rangt mál að segja: Þannig mönnum er ekki treystandi?“ Þessari spurningu gat ég ekki svarað og hafði raunar ekki hugmynd um það á þessum tíma að þannig mönnum er ekki treystandi væri talið rangt mál, hvað þá að ég gæti útskýrt hvers vegna. En síðar, væntanlega þegar ég var kominn í menntaskóla, fékk ég útskýringu á því. Orðið þannig er nefnilega atviksorð, og atviksorð standa ekki með nafnorðum á þennan hátt – það er hlutverk lýsingarorða og fornafna. Það má sem sé segja vafasömum mönnum er ekki treystandi, og slíkum mönnum er ekki treystandi – en ekki þannig mönnum, og ekki heldur svona mönnum eða svoleiðis mönnum, því að svona og svoleiðis eru líka atviksorð. En er þetta örugglega svona?
Það er auðvitað rétt að dæmigerð atviksorð standa ekki með nafnorðum – við segjum ekki *mjög mönnum, *vel mönnum, *ákaflega mönnum, en hins vegar mjög vafasömum mönnum, vel gerðum mönnum, ákaflega stórum mönnum, o.s.frv., þar sem atviksorðið stendur með lýsingarorðinu og ákvarðar það. En orðin þannig, svona og svoleiðis hafa samt staðið með nafnorðum um langan aldur – elstu dæmi sem ég fann eru frá síðasta fjórðungi 19. aldar. Í Suðra 1884 segir t.d.: „þó „ofviti“ í sumum héröðum landsins sé einnig haft um svona menn, þó þeir ekki yrki“; í Lögbergi 1895 segir: „Þeir eru ekki svoleiðis menn, að þeir nenni að lesa pólitík eða neitt nýtilegt“; og í Lögbergi 1896 segir: „Hann er skynsamur og hygginn, vel að sjer í öllu tilliti og þannig maður, sem allir mundu óska að hafa fyrir starfsmann“.
Við stöndum því frammi fyrir þremur kostum. Einn er sá að halda okkur við þá afstöðu sem kom fram í landsprófinu 1971, sem sé að þannig – og svona og svoleiðis – séu atviksorð, og atviksorð eigi ekki að standa með nafnorðum, og þar með sé þannig mönnum rangt. Annar möguleiki er að segja að þótt meginreglan sé sú að atviksorð standi ekki með nafnorðum séu undantekningar frá henni, einkum atviksorðin þannig, svona og svoleiðis. Þriðji möguleikinn er að segja að þannig, svona og svoleiðis séu alls ekki alltaf atviksorð, heldur geti líka verið lýsingarorð (eða fornöfn) og þar með staðið með nafnorðum eins og önnur orð af þeim flokkum. Samkvæmt bæði öðrum og þriðja kosti væri þannig mönnum er ekki treystandi í lagi, en á ólíkum forsendum.
Ég gef mér að fyrsti kosturinn sé úr sögunni – með hliðsjón af aldri og tíðni finnst mér fráleitt að halda sig við að þannig mönnum sé rangt mál, enda hef ég ekki séð því haldið fram nýlega. Valið milli annars og þriðja kosts fer þá eftir því hvernig við lítum á orðflokkagreiningu. Er hlutverk orðflokkagreiningar það að hengja á orðin merkimiða sem þau halda síðan hvar sem þau koma fyrir, óháð því hvernig þau eru notuð – eða er hlutverkið þess í stað að skoða hvernig orðin eru notuð, hvar í setningu þau standa, og ákvarða orðflokkinn út frá því? Samkvæmt fyrri skilgreiningunni væru þannig, svona og svoleiðis alltaf atviksorð, þótt þau stæðu stundum með nafnorði; samkvæmt þeirri seinni væru þau lýsingarorð (eða hugsanlega fornöfn) ef þau stæðu í dæmigerðri stöðu lýsingarorðs (eða fornafns) í setningu.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að seinni kosturinn er vænlegri, og ég tek eftir því að hann hefur orðið fyrir valinu í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar eru þannig, svona og svoleiðis skráð sem lýsingarorð (og vitanlega atviksorð líka). Einhverjum gæti dottið í hug að hafa það á móti þeirri greiningu að orðin stigbreytast ekki – en þótt stigbreyting sé vissulega eitt megineinkenni lýsingarorða fer því fjarri að öll lýsingaorð stigbreytist (sbr. hugsi, þurfi, andvaka, samferða og fjöldi annarra sem enda á -a). Það kæmi líka til greina að líta á orðin sem fornöfn, enda standa þau að merkingu og notkun mjög nálægt orðinu slíkur sem stundum er kallað „óákveðið ábendingarfornafn“ en greint sem lýsingarorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. En þau eru ekki atviksorð í þessari notkun.