Lærð og virk orðmyndun
Oft er gerður munur á því sem kallað er lærð og virk orðmyndun. Með lærðri orðmyndun er átt við það þegar einhver – einstaklingur eða hópur – tekur sig til og ákveður að búa til íslenskt orð yfir tiltekið hugtak, eða íslenska samsvörun ákveðins erlends orðs. Stundum er þar aðeins um eitt orð að ræða (í einu), en meginhluti slíkrar orðasmíði fer fram í orðanefndum sem fást við að semja íslensk fagorð (íðorð) í tiltekinni grein, s.s. iðngrein eða vísindagrein. Í slíkum orðanefndum sitja yfirleitt sérfræðingar í viðkomandi grein, en fá oft ráðgjöf frá málfræðingum.
Þess vegna er það algengt í þessari tegund orðmyndunar að notuð séu forskeyti eða viðskeyti sem eru gömul í málinu, en hafa nú glatað merkingu sinni að einhverju eða öllu leyti. Þetta táknar að nýyrðin sem mynduð eru með þeim verða oft ekki gagnsæ; þ.e., oft er ekki hægt að skilja þau svo að ótvírætt sé út frá merkingu einstakra hluta þeirra. Viðskeytið -ald hefur t.d. verið dálítið notað í lærðri orðmyndun, í orðum eins og mótald, pakkald, rafald o.fl., en það hefur enga fasta merkingu sem geri fólki kleift að átta sig á merkingu orðanna.
Í lærðri orðmyndun eru líka stundum tekin upp gömul íslensk orð, sem fallin hafa verið úr notkun, og þeim gefin ný merking; stundum eitthvað breyttum. Þekktasta dæmi um þetta er orðið sími, sem til var í fornmáli, stundum sem hvorugkynsorðið síma, og merkti ‘band, þráður’, en var svo endurvakið og gefin núverandi merking um aldamótin 1900. Einnig má nefna orðið bur, sem í fornmáli merkir ‘sonur’ en lagt hefur verið til að verði notað í hvorugkyni sem kynhlutlaust orð í merkingunni ‘barn, afkvæmi’ til hliðar við sonur/dóttir, ekki síst í kenninöfnum.
Virk orðmyndun er það aftur á móti kallað þegar orð sprettur upp vegna þess að þess er þörf á ákveðnum stað og tíma, án þess að það sé endilega skráð á blað, og oft án þess að hægt sé að benda á nokkurn sérstakan höfund. Vegna þess að við búum oft til orð um leið og við þurfum á þeim að halda verða þau að vera gagnsæ; viðmælandinn verður að átta sig á því umsvifalaust hvað við eigum við. Ef það gerist ekki, og við þurfum að fara að útskýra orðið, er auðvitað til lítils barist; þá er eins gott að byrja á útskýringunni.
Af þessu leiðir að í virkri orðmyndun eru aðallega notaðar samsetningar, og svo tiltölulega fá forskeyti og viðskeyti sem hafa nokkuð fasta og afmarkaða merkingu, svo sem ó‑, ‑legur, ‑ari og ‑un. Þótt tengsl þeirra við grunnorðið séu að vísu ekki alltaf þau sömu (t.d. í ónæði og ólykt, eða ellilegur og asnalegur), þá skýra orð sem með þeim eru mynduð sig oftast sjálf. Í virkri orðmyndun er líka mikið um það að tekin séu erlend orð og löguð meira og minna að íslensku – sett á þau íslenskar beygingarendingar eða íslensk aðskeyti (töffari), breytt um orðflokk (sína) o.fl.
Annars má ekki skilja þetta svo að alltaf sé skýr munur á lærðri og virkri orðmyndun. Svo er ekki; miklu fremur má segja að þetta séu tveir andstæðir pólar, en milli þeirra sé samfella þar sem ómögulegt er að draga ákveðin skil. En með því að skoða Íðorðabankann annars vegar og Nýyrðavef Árnastofnunar hins vegar má fá ágæta hugmynd um muninn á orðum sem verða til við lærða og virka orðmyndun.