Ég vill
Ein sú „málvilla“ sem oftast er amast við er þegar fólk segir ég vill í stað hins hefðbundna ég vil. Þessi málbreyting virðist ekki vera ýkja gömul – einstöku dæmi má finna um hana í ritum frá fyrsta hluta 20. aldar og eldri en þau gætu verið rit- eða prentvillur. Elsta dæmið á tímarit.is er úr Framblaðinu 1933: „Þó vill ég engan þeirra.“ Í auglýsingu frá Lofti Guðmundssyni ljósmyndara í Kirkjuritinu 1936 segir: „15 Foto myndatakan er sú EINA sem ég vill mæla með — en hún fæst hjá mér.“ Í Íslendingi 1937 segir: „Ennfremur vill ég taka það fram, að svo að segja öll störf í verksmiðju minni eru unnin í ákvæðisvinnu.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1943 segir: „Ég vill fá bílstjóra, sem er aðgætinn og varkár og á aldrei neitt á hættunni.“
Dæmi um ég vill á tímarit.is eru mjög fá framan af, en fer fjölgandi upp úr 1960. Þau verða þó aldrei mörg, enda má búast við að prófarkalesarar hafi yfirleitt leiðrétt þau fyrir prentun. Elsta dæmi sem ég finn um að amast sé við þessari beygingu er í móðurmálsþætti Vísis (eftir Eirík Hrein Finnbogason) 1956 þar sem segir: „Margir kunna eigi með sögnina að vilja að fara, segja ég vill í staðinn fyrir ég vil, sem er hið rétta. Þetta, ég vill, lætur í eyrum þeirra, sem með sögnina kunna að fara, eins og sagt væri ég syngur í staðinn fyrir ég syng, ég talar í staðinn fyrir ég tala.“ Í kveri Helga Hálfdanarsonar frá 1984, Gætum tungunnar, segir: „Rétt er að segja: Ég vil, þú vilt, hann vill, hún vill, barnið vill. (Ath.: ég vill er rangt; ég vil er rétt.)“
Haraldur Bernharðsson skrifaði ítarlega grein um þessa breytingu í Íslenskt mál 2005. Hann bendir á að langflestar sagnir málsins hafa aðeins tvær mismunandi myndir í framsöguhætti eintölu nútíðar, þótt persónurnar séu þrjár. Annaðhvort eru fyrsta og þriðja persóna eins, en önnur persóna frábrugðin (ég les – þú lest – hann/hún/hán les, ég fer – þú ferð – hann/hún/hán fer) eða önnur og þriðja persóna eru eins, en fyrsta persóna frábrugðin (ég tala – þú talar – hann/hún/hán talar, ég horfi – þú horfir – hann/hún/hán horfir). Sögnin vilja hefur aftur á móti þrjár mismunandi myndir – engar tvær persónur eru eins: ég vil – þú vilt – hann/hún/hán vill. Það má líta á ég vill sem tilhneigingu til að fella sögnina að fyrrnefnda mynstrinu. Einnig eru dæmi um að þriðja persónan verði hann/hún/hán vil í stað vill – þar er verið að fella sögnina að hinu mynstrinu.
En kannski hangir meira á spýtunni. Gísli Jónsson skrifaði í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1981: „Þegar krakkar, og jafnvel fullorðið fólk, segir ég vill, hélt ég um sinn að málið væri svo einfalt að um hreina áhrifsbreytingu væri að ræða frá þriðju persónu: hann, hún eða það vill. En þetta reyndist ekki svo. Sannorðar, málnæmar mæður, sem vandlega hafa gaumgæft orð barna sinna, hafa tjáð mér að málið sé miklu flóknara. Hér skiptir afstaða máli, eða það sem kalla mætti horf. Barn segir ég vill, í jákvæðri merkingu og til áherslu, þetta er kröfutónn og frekjutónn: ég vill fá þetta, en sama barn segir: ég vil ekki. Ég vil ekki borða hafragraut. Og það sem meira er: Þetta fer þannig inn í þriðju persónu, að börn segja líka: Hann vill fá þetta, en hann vil þetta ekki.“
Og fleira kemur til. Í áðurnefndri grein hefur Haraldur Bernharðsson það eftir Stefáni Karlssyni handritafræðingi „að hann hafi í kringum 1950 unnið með manni sem jafnan sagði ég vill; sá mun hafa verið Eyfirðingur, fæddur um 1930. Þegar fundið var að þessum talshætti svaraði maðurinn því til að sér fyndist eðlilegt að konur segðu ég vil en karlar ég vill“. Ég hef líka heyrt fleiri dæmi um þetta. Trúlegt er að þarna séu einhvers konar áhrif frá kynbeygingu lýsingarorða eins og sæll, þar sem sagt er komdu/vertu sæll við karlmenn og komdu/vertu sæl við konur. Hins vegar beygjast íslenskar sagnir vitaskuld ekki í kynjum þannig að það er ekki trúlegt að þetta eigi eftir að breiðast út.
Það er ljóst að fjölmargar hliðstæðar breytingar hafa orðið á undanförnum öldum án þess að þær trufli okkur hið minnsta og án þess að þær hafi spillt beygingarkerfinu eða veikt það. Í raun má færa rök að því að þessi breyting styrki kerfið með því að færa sögnina undir reglulegt beygingarmynstur. En ég veit að mjög mörgum er mikið í nöp við ég vill og finnst það hræðilega ljótt, og ég vil ekki verða þess valdandi að fólki svelgist á morgunkaffinu með því að mæla þessari breytingu sérstaklega bót.