Að dingla bjöllu
Í kverinu Gætum tungunnar sem var gefið út 1984 segir: „Að dingla merkir EKKI að hringja. Að dingla merkir að sveiflast eða vingsa. Bendum börnunum á það!“ Elstu dæmi sem ég finn á tímarit.is um að sögnin dingla sé notuð í merkingunni 'hringja bjöllu' eru frá 1979, og í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar sem kom út 1983 er ein merking dingla merkt tákni fyrir sjaldgæft mál og sögð vera 'hringja (dyra-)bjöllu' og vera „barnamál“. Það er sem sé ljóst að þessi merking hefur verið orðin nokkuð útbreidd um og upp úr 1980. Í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er þessi merking merkt „óforml.“ og sögð „einkum barnamál“.
En það lítur samt út fyrir að þessi notkun sé upprunnin töluvert fyrr en ritaðar heimildir benda til, og ekki endilega í barnamáli. Í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1979 birti Gísli Jónsson bréf þar sem bréfritari segir að fyrir 57 árum, þ.e. 1922, hafi hann heyrt bónda í Seyðisfirði segja „Dinglaðu fyrir mig inn í Kaupfélag“, og að loknu símtalinu sagði bóndinn „Dinglaðu af, dinglaðu af““. Samkvæmt þessu er þessi notkun dingla orðin hundrað ára gömul.
Líklegast er að dingla hafi fengið þessa merkingu vegna hljóðlíkingar við sögnina hringja og ekki síður við hljóð í dyrabjöllu sem oft er táknað ding dong. Það er líka gamalt að tala um hringingu kirkjuklukkna sem dinglumdangl. Í kvæðinu „Siguróp landvætta við fráfall Maura-Jóns“ eftir Bólu-Hjálmar, sem væntanlega er ort skömmu fyrir miðja 19. öld, segir: „Náklukkan æpti: Dinglum dangl, drepinn er Maura-Jón!“, og í fyrirlestri um hnignun íslensks skáldskapar árið 1888 talaði Hannes Hafstein um „náklukkunnar dinglum-dangl yfir dauðum og útslitnum hugmyndum“.
En e.t.v. kemur annað einnig til. Í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1996 segir: „Það er bæði rökrétt og réttur siður að dingla bjöllu, þegar þess er þörf. Málsiðurinn er kominn frá þeim tíma, sem rafmagn var ekki notað til að hringja bjöllum, heldur sló fólk á þráð, þegar það vildi að bjallan hringdi. Þráðurinn var þá tengdur við bjölluna, þannig að þegar stríkkaði á honum, slóst bjallan við kólfinn og tilganginum var náð. Þá dinglar fólk bjöllu og lítið við því að segja, en best að svara hringingunni.“ Í þessu sambandi má benda á að enn er talað um að slá á þráðinn þótt tæknin hafi breyst, og þykir ekki athugavert.
Undanfarna áratugi hafa iðulega verið gerðar athugasemdir við þessa notkun sagnarinnar dingla í ýmsum málfarsþáttum, og oft hefur hún verið kölluð barnamál. Það er reyndar óvíst eins og hér hefur komið fram, en hvað sem því líður eru börnin sem byrjuðu á þessu löngu orðin fullorðin og nota sögnina svona enn, mörg hver að minnsta kosti, og þetta sést oftar og oftar á prenti. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er merkingin 'hringja bjöllu, einkum dyrabjöllu' gefin án athugasemda um málsnið og án þess að minnst sé á barnamál.
Enda sjálfsagt mál. Merking orða ákvarðast ekki af uppruna, af því hvað þau merktu áður fyrr, eða af því hvað einhverjir sjálfskipaðir máleigendur segja okkur að þau merki, heldur af því hvernig málsamfélag samtímans notar þau.