Merking orðasambanda
Þegar farið er að raða orðum saman í setningar er meginreglan sú að merkingin er leidd beint af merkingu orðanna og venslum þeirra. Við lærum merkingu einstakra orða en setningar eru margfalt kvikari en einstök orð og þess vegna lærum við yfirleitt ekki merkingu þeirra í heild, heldur ráðum hana af merkingu eininganna sem mynda þær – orðanna. Frá þessu eru þó fjölmargar og vel þekktar undantekningar. Málshættir og orðtök eru t.d. þess eðlis að heildin hefur ákveðna merkingu, en einstök orð eru ekki skilin bókstaflega. Ef merking allra setninga og orðasambanda ákvarðaðist af merkingu orðanna í setningunni eða orðasambandinu þyrfti vitanlega ekki að semja heilu bækurnar til að skýra málshætti og orðtök. En sama máli gegnir um ýmis önnur föst orðasambönd. Við þurfum t.d. ekkert að vita hvað takteinn merkir, eða hvort það merkir eitthvað yfirleitt, til að skilja sambandið hafa á takteinum – við lærum merkingu sambandsins sem heildar.
Þetta er líka áberandi með fjölda sagnasambanda, eins og sést á því að mörg slík sambönd eru skýrð sérstaklega í orðabókum. Þetta á einkum við sambönd með sögnum almennrar merkingar eins og hafa, taka, gera o.fl. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru t.d. talin 15 sambönd gera með forsetningum og atviksorðum (ögnum), og þessi 15 sambönd hafa 28 mismunandi merkingar. Þar má nefna samböndin gera við og gera upp sem geta komið fyrir í svipuðu samhengi en merkja ekki það sama – ég gerði við bílinn er annað en ég gerði upp bílinn/gerði bílinn upp. Orðin gera, við og upp hafa öll ákveðna grunnmerkingu, hvert fyrir sig, en það er útilokað að segja að við í sambandinu gera við hafi sömu merkingu og forsetningin við – eða upp í sambandinu gera upp hafi sömu merkingu og atviksorðið upp. Samböndin gera við og gera upp hafa hvort sína merkingu, en það er sambandið sem heild sem hefur hana – ekki einstakar einingar þess.
Þess vegna er ekkert „órökrétt“ eða „rangt“ við að ekki ósjaldan merki það sama og ósjaldan – eða óhjákvæmilegt annað en merki það sama og óhjákvæmilegt. Í báðum tilvikum er um að ræða orðasambönd þar sem hefð hefur skapast fyrir ákveðinni merkingu sem vissulega er í andstöðu við þá merkingu sem fæst út ef merking einstakra hluta sambandsins er lögð saman. En það skiptir bara engu máli. Orð og orðasambönd hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim. Í þessum tilvikum er enginn vafi á því hver hún er.