afþíða

Sögnin afþíða (afþýða) er einkum notuð um ísskápa og merkir sama og affrysta, þ.e. slökkva á frystingunni til að losa klaka og hrím í skápnum; og svo um frosin matvæli, í merkingunni 'láta þiðna'. Elstu dæmi sem ég finn um sögnina eru frá 1965. Það liggur beint við að álykta að hún hafi orðið til við samslátt sagnanna þíða og affrysta – sú síðarnefnda virðist vera um áratug eldri og hafði því ekki fest sig mjög í sessi þegar afþíða kom til.

Stundum hefur verið amast við þessari sögn í málfarspistlum og hún kölluð „ómynd“. Sumum finnst sögnin órökrétt, því að hún „ætti að“ merkja andstæðuna við þíða í stað þess að vera sömu merkingar. Vissulega eru dæmi um að af virki þannig – afferma er andstæða við ferma. Þess eru þó dæmi að orð hafi sömu merkingu með og án af, eins og læsa og aflæsa. En eins og margoft hefur verið lögð áhersla á er málið ekki alltaf „rökrétt“.

Á tímarit.is er að finna um 350 dæmi um afþíða (eða afþýða). Í öllum nema fimm hefur sögnin merkinguna 'affrysta, láta þiðna' – og þessi fimm eru úr málfarsþáttum þar sem verið er að amast við sögninni. Það er því augljóst að sögnin afþíða merkir 'affrysta, láta þiðna' og hefur aldrei merkt neitt annað hvað sem einhverjum kann að þykja „rökrétt“. Það væri fráleitt að nota þessa sögn í þveröfugri merkingu.

En það er athyglisvert að dæmin um afþýða á tímarit.is eru álíka mörg og um afþíða. Nú er vissulega algengt að sögnunum þíða og þýða sé ruglað saman í riti, en ég er samt nokkuð viss um að hlutfall afþýða á móti afþíða er margfalt hærra en hlufall þýða á móti þíða í merkingunni 'láta þiðna'. Það gæti bent til þess að málnotendur tengi afþíða/afþýða ekki sérstaklega við þíða, heldur skynji hana sem sérstaka sögn sem sé þá ekki bundin af þíða um það hvort hún sé rituð með í eða ý.