Keyptu þetta
Flestum hefur væntanlega verið kennt að boðháttur sagnarinnar kaupa sé kauptu, ekki keyptu. Á þessu hefur verið hnykkt í ótal málfarsþáttum áratugum saman – elsta dæmi sem ég hef séð um það er frá 1940 í ritdómi um þýdda bók, þar sem segir „Óviðfelldið er þó að sjá boðhátt sagharinnar að kaupa „keyptu“ [...] fyrir kauptu“. Í Málfarsbankanum segir: „Bh. et. kauptu (ekki „keyptu“).“ Þetta er líka í fullu samræmi við það að boðháttur er venjulega myndaður af nafnhætti – far-ðu, kom-du, les-tu, kalla-ðu o.s.frv., og nafnháttur sagnarinnar er kaupa, ekki *keypa. Þarf þá frekari vitnanna við? Er málið ekki útrætt?
Ekki alveg. Sá mikli málvöndunarmaður Gísli Jónsson taldi að kauptu og keyptu væri jafnrétt. Það byggði hann á þeirri skoðun annars ekki síðri málvöndunarmanns, Halldórs Halldórssonar prófessors, að til hefðu verið tvær sagnir sömu eða svipaðrar merkingar, kaupa, þátíð kaupaði, og keypa, þátíð keypti. Þær hefðu síðan runnið saman og eftir stæði nútíðin af kaupa en þátíðin af keypa – og boðháttur beggja. Það mælir reyndar gegn þessari skýringu að myndin keyptu virðist ekki koma fyrir á tímarit.is fyrr en um 1900 en kauptu er algeng á 19. öld. Því hefði keyptu orðið að varðveitast lengi í málinu, jafnvel öldum saman, án þess að komast á prent. Það er ekki útilokað, en ekki mjög líklegt.
Þótt elstu dæmi sem ég fann um boðháttinn keyptu á tímarit.is séu frá upphafi 20. aldar er elsta þekkta dæmi um hann frá seinni hluta 17. aldar. Í Heimskringlu 1901 segir „Komdu og keyptu blóm handa henni“ og í Kvennablaðinu sama ár segir „Ó, keyptu eitt handa mér“. Örfá dæmi sjást á prenti næstu áratugina en upp úr 1940 fara að birtast í blöðum athugasemdir við myndina keyptu sem benda til þess að hún sé þá orðin nokkuð útbreidd. Í Þjóðviljanum 1960 segir Árni Böðvarsson: „Algengasta boðháttarmyndin sunnanlands - og sjálfsagt víðar – er „keyptu þetta eða hitt“.“ Í textum frá 2001-2020 á tímarit.is og í Risamálheildinni er hlutfall keyptu þér á móti kauptu þér u.þ.b. 2:3. Þar er aðallega um að ræða prófarkalesna texta þannig að hlutfallið í talmáli er væntanlega talsvert hærra.
Sé ekki gert ráð fyrir að til hafi verið sögnin keypa er líklegast að boðhátturinn keyptu sé leiddur af þátíð sagnarinnar. Það eru til fleiri dæmi um að boðháttur virðist leiddur af þátíð fremur en nafnhætti – dæmi finnast um ork-tu í stað yrk-tu af yrkja, sót-tu í stað sæk-tu af sækja, stud-du í stað styd-du af styðja, o.fl. En þótt boðhátturinn sé vissulega yfirleitt leiddur af nafnhætti er það alls ekki svo að sú myndun sé alltaf regluleg. Boðháttur af ganga er t.d. gakk-tu, ekki *gang-du eða *gang-tu, boðháttur af standa er stat-tu, ekki *stan(d)-tu, o.s.frv. Það er því ekki hægt að halda því fram að vegna þess að nafnhátturinn er kaupa komi ekki annar boðháttur til greina en kauptu – venslin milli nafnháttar og boðháttar eru flóknari en svo.
Boðhátturinn keyptu er meira en 300 ára gamall og mjög útbreiddur á seinni árum, jafnvel álíka útbreiddur og kauptu. Meira en 80 ára barátta gegn honum hefur engu skilað – hann verður sífellt algengari. Hér er rétt að minna á viðurkennda skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ sem var sett fram í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum 1986 – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Það er enginn vafi á því að boðhátturinn keyptu er málvenja stórs hóps málnotenda, jafnvel helmings þeirra. Því er algerlega fráleitt að kalla hann „rangt mál“ – eins og Gísli Jónsson sagði fyrir 36 árum er kauptu og keyptu jafnrétt.