Að há einvígi
Í gær sá ég fyrirsögnina „Sunak og Truss há einvígi um leiðtogasætið“ á vef RÚV, en þegar ég fór aftur inn á vefinn skömmu síðar var búið að breyta henni í „Sunak og Truss heyja einvígi um leiðtogasætið“, í samræmi við viðurkennda beygingu sagnarinnar sem um er að ræða. En sögnin heyja hefur mjög óvenjulega beygingu. Í eintölu nútíðar er hún í fyrstu persónu ýmist (ég) hey eða heyi, í annarri persónu (þú) heyrð eða heyir, og í þriðju persónu (hún/hann/hán) heyr eða heyir. Mesta óreglan kemur þó fram í þátíðinni sem er (ég) háði. Í raun er því ekkert sameiginlegt með nútíðarmyndum sagnarinnar og þátíðarmyndunum nema upphafshljóðið, h. Því er engin furða að beyging sagnarinnar hafi tilhneigingu til að breytast.
Stöku dæmi eru um að nútíðarmyndirnar hafi áhrif á þátíð sem fær þá myndir með hey-. Í Lögbergi 1913 segir: „heyði hann nú þunga baráttu við sjúkleik sinn.“ Í Morgunblaðinu 1940 segir: „Hugh Dalton, viðskiftastríðsmálaráðherra Breta, sagði í ræðu, sem hann flutti í gær, að hann heyði þögla styrjöld við Hitler.“ Í Morgunblaðinu 1971 segir: „heyði hún áratuga langa og oft tvísýna baráttu við þann sjúkdóm.“ Í Stéttabaráttunni 1978 segir: „væri sú barátta sem þessir heyðu fyrir frelsi þjóða sinna, hlutlægt séð byltingarbarátta.“ Í DV 1991 segir: „Stundum gleymist það í umræðunni um Evrópubandalagið að það var upprunalega stofnað til þess að Þjóðverjar og Frakkar heyðu ekki framar stríð.“ En þetta er sjaldgæft.
Hitt er miklu algengara að þátíðin hafi áhrif á nafnháttinn og nútíðina. Elsta dæmið er úr nýárskvæði eftir Matthías Jochumsson í Þjóðólfi 1878: „Heilaga ljós, sem háir stríð / við heljar-vetur um ár og síð!“ Í Norðlingi frá sama ári er elsta dæmi um há einvígi: „Illmenni! þorir þú að há einvígi við mig?“ Í Freyju 1929 segir: „Þú kemur með mér hér fram á ganginn, og við háum einvígi.“ Í DV 2008 segir: „Þú telur að það sé einhver sem hái baráttu um athygli elskhuga þíns.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Stefnan er að há stríð við veiru.“ Alls má finna tæp 130 dæmi um nútíðarmyndir með há- á undan orðunum einvígi, baráttu og stríð á tímarit.is, þar af langflest um há einvígi.
Jón Aðalsteinn Jónsson hafnaði nafnhættinum há í þætti sínum í Morgunblaðinu bæði 1998 og 2000 en Gísli Jónsson fjallaði um hann í þætti sínum í Morgunblaðinu árið 1985 og sagði: „Mönnum þykir munur kennimyndanna of mikill og búa til nafnháttinn að há í samræmi við háði, háð, en vafasöm verður sú sagnmynd að teljast. Mér þykir ekki rismikið málið, þegar sagt er að há stríð […].“ Árið 1995 var hann farinn að linast í andstöðunni við há og sagði: „þetta er náttúrlega svona humm-humm, en hefur viðgengist síðan á 17. öld að minnsta kosti. […] Umsjónarmanni finnst sýnu fallegra að heyja en há (=framkvæma, gera), en lætur hitt með semingi kyrrt liggja. Væri og fljótlegt að reka hann á stampinn, með þreyja og þrá.“
Myndin há er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en ekki skýrð sérstaklega heldur vísað á heyja. Í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983 er há einnig flettiorð án athugasemda og skýrt sérstaklega, þótt einnig sé vísað á heyja. Í þriðju útgáfu frá 2002 er orðið aftur á móti merkt !? sem táknar að það njóti ekki fullrar viðurkenningar. Orðið er ekki flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. En eins og fram kemur í tilvitnun í Gísla Jónsson hér á undan á þessi myndun nafnháttar af þátíðinni sér hugsanlega hliðstæðu í þrá, sem er vitanlega fullkomlega viðurkennd sögn – í Íslenskri orðsifjabók segir að hún „gæti verið að nokkru nýmyndun eftir þt.-myndinni þráði af þreyja“ – sem nú hefur þátíðina þreyði.
Það er ljóst að nafnhátturinn há á sér margra alda hefð í málinu og á sennilega hliðstæðu sem er fullkomlega viðurkennd, enda er hann mjög eðlileg og skiljanleg áhrifsmyndun. Hann hefur verið gefinn athugasemdalaust í orðabók og málvöndunarmaðurinn Gísli Jónsson afneitaði honum ekki. Í ljósi alls þessa finnst mér engin ástæða til annars en taka hann í sátt. Það var óþarfi hjá RÚV að breyta fyrirsögninni sem nefnd var í upphafi.