Hvað er vinnuafl?
Ágæt kona sem ég þekki hringdi í mig til að ræða (mis)notkun orðsins vinnuafl. Í Íslenskri orðabók er þetta orð sagt hafa tvær merkingar, vissulega náskyldar; annars vegar 'sá þáttur framleiðslu sem felst í starfskröftum vinnandi fólks' og hins vegar 'fólk til að vinna, starfslið'. Fyrri merkinguna er t.d. að finna í setningunni „sumir álíta, að Torfi gjöri sjer mest far um að nota vinnuafl piltanna, en lítið um framfarir þeirra“ í Ísafold 1883, en þá síðari í setningunni „Í þeirra hópi eru fyrstu kynslóðar innflytjendur, erlent vinnuafl, ferðamenn, kvótaflóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd“ í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2020.
Elsta dæmi um orðið er frá 1859 og í eldri dæmum virðist fyrri merkingin vera algengari þótt oft sé útilokað að greina á milli. Viðmælandi minn taldi hins vegar að seinni merkingin væri yfirgnæfandi í seinni tíð og lausleg athugun á tímarit.is virðist staðfesta það, sem og Íslensk nútímamálsorðabók – þar er aðeins gefin merkingin 'fólk sem vinnur, starfslið, starfsfólk‘'. Hún sagðist ekki kunna vel við þessa notkun – með því að nota vinnuafl sem samheiti við fólk og tala t.d. um erlent vinnuafl í stað erlends starfsfólks væri fólkið smættað í hlutverk sitt sem (oft ódýr) vinnukraftur – talað um það sem andlitslausan massa en ekki einstaklinga.
Með þessu er auðvitað ekki verið að segja að þau sem nota orðið vinnuafl á þennan hátt – eins og ég hef sjálfur iðulega gert – séu að nota það á meðvitaðan hátt til að smætta fólk eða gera lítið úr því á einhvern hátt. Því fer fjarri. Málnotkun okkar og orðaval mótast af hefðum og umhverfi og stundum bera orðin með sér úreltar hugmyndir sem endurspegla ekki viðhorf samtímans án þess að við veitum því athygli. Það er löng hefð á að nota vinnuafl í þessari merkingu, við grípum það upp og notum það án þess að hugsa út í mögulegar aukamerkingar þess eða hvernig annað fólk geti hugsanlega túlkað það.
Í slíkum tilvikum er alltaf spurning hvað eigi að gera – hvort við eigum að hafna orðunum vegna þessarar arfleifðar þeirra, eða halda áfram að nota þau og segja að arfleifðin skipti engu máli – þau hafi einfaldlega aðra merkingu í samtímanum. Gott dæmi um þessa klípu eru orðin örvhent og rétthent sem ég skrifaði einu sinni um. En ég er alls ekki að fordæma umrædda notkun orðsins vinnuafl eða hvetja fólk til að forðast hana. Þetta er hins vegar almenn ábending um það að við þurfum að vera meðvituð um það hvaða skilaboð við sendum með orðfæri okkar, og stundum skilst það öðruvísi en það er meint.