Afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir?
Árið 2011 fluttu Siv Friðleifsdóttir og átta aðrir þingmenn úr þremur flokkum svohljóðandi tillögu til þingsályktunar „um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu“: „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).“ Þessi tillaga kom ekki til umræðu á þinginu og var endurflutt á tveimur næstu þingum án þess að fá nokkurn tíma afgreiðslu, en forvirkar rannsóknarheimildir hafa þó verið ræddar meira og minna á hverju einasta þingi síðan (að undanskildu hinu örstutta 147. þingi 2017).
Áðurnefnd þingsályktunartillaga gengur hins vegar aftur í frumvarpi sem dómsmálaráðherra flutti fyrir jól og heitir fullu nafni „Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (afbrotavarnir, vopnaburður og eftirlit með lögreglu)“. Þar er kafli sem heitir „Aðgerðir í þágu afbrotavarna“ þar sem segir: „Lögreglu er heimilt, í því skyni að stemma stigu við afbrotum, að nýta, svo sem til greiningar, allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna […].“ Í þessu frumvarpi eru forvirkar rannsóknarheimildir þó hvergi nefndar, en aftur á móti kemur orðið afbrotavarnir 64 sinnum fyrir í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því.
Þýðing þessarar orðalagsbreytingar kom skýrt fram í viðtali við Maríu Rún Bjarnadóttur, verkefnastjóra hjá Ríkislögreglustjóra, í Speglinum í Ríkisútvarpinu 9. janúar. Þar sagði hún að ákvæði í frumvarpinu myndu gefa lögreglunni betri tæki til að koma í veg fyrir stafræn brot, og það væri því mjög mikilvægt fyrir aukið öryggi á netinu að þessi lög yrðu samþykkt. Spurningu fréttamanns um hvort hún ætti þá ekki við forvirkar rannsóknarheimildir svaraði hún: „Já, ég held reyndar að það heiti afbrotavarnir, hérna en en í sjálfu sér er það að hluta til forvirkar rannsóknarheimildir, já. En það er kannski ekki – þú veist þetta auðvitað líka hefur auðvitað áhrif á hvernig maður hugsar um þetta, hvaða orð maður notar.“
Það var lóðið – það skiptir máli hvaða orð eru notuð, og þarna er orðanotkun meðvitað breytt í pólitískum tilgangi. Stjórnvöld vita að það er líklegt að almenningur hafi jákvæðara viðhorf til afbrotavarna en til forvirkra rannsóknarheimilda – rétt eins og þau telja að rafvarnarvopn veki jákvæðari hughrif en rafbyssur. Látum þau ekki komast upp með að slá ryki í augun á okkur á þennan hátt.