Posted on Færðu inn athugasemd

Merkingarleg sambeyging

Í íslensku stjórnar frumlag í nefnifalli (yfirleitt nafnorð eða fornafn) venjulega persónu og tölu sagnar, sem og kyni og tölu sagnfyllingar (einkum með sögnunum vera og verða). Við segjum ég þetta, þú sérð þetta, hún sér þetta; við sjáum þetta, þið sjáið þetta, þau sjá þetta. Þarna breytir sögnin sjá um form eftir persónu og tölu frumlagsins. Við segjum líka hann er ungur, hún er ung, hán er ungt; þeir eru ungir, þær eru ungar, þau eru ung. Þar breytir sagnfyllingin ungur um form eftir kyni og tölu frumlagsins. Frá þessum reglum er þó sú undantekning að ef frumlagið er í aukafalli stendur sögnin alltaf í þriðju persónu eintölu og sagnfylling í hvorugkyni eintölu – okkur ber skylda til, ekki *berum; þeim er kalt, ekki *eru kaldir.

En það er líka vel þekkt að stundum getur merkingin tekið völdin af forminu í sambeygingu. Þótt orðið foreldrar vísi oftast til karls og konu er það karlkynsorð – það sjáum við á beygingunni og einnig á því að lýsingarorð og fornöfn sem standa með því eru í karlkyni. Við segjum góðir foreldrar, foreldrar mínir, en ekki *góð foreldrar, *foreldrar mín. En þegar orðið er frumlag og tekur með sér sagnfyllingu er hún iðulega í hvorugkyni – foreldrar mínir eru skilin, síður foreldrar mínir eru skildir. Einnig er eðlilegt að segja foreldrar mínir hötuðu hvort annað en miklu síður foreldrar mínir hötuðu hvor annan eins og þó mætti búast við af karlkynsorði. Í þessum dæmum er hvorugkynið eðlilegt út frá merkingu orðsins foreldrar.

Annars konar merkingarleg sambeyging frumlags og sagnfyllingar kemur fram í dæmum eins og ráðherra var viðstödd umræðuna, kennarinn varð ekki ánægð, forstjórinn er hætt störfum o.s.frv. Þarna er sagnfyllingin í kvenkyni þótt að frumlög setninganna, ráðherra, kennari og forstjóri, séu karlkyns og ekkert í orðunum sjálfum feli í sér kvenkynsmerkingu. Ástæðunnar fyrir því að sagnfyllingin er höfð í kvenkyni er því að leita utan málsins – kvenkynið byggist á þeirri vitneskju mælandans að kona gegni þeim störfum sem um er að ræða. Skoðanir málnotenda á þessari tegund merkingarlegrar sambeygingar eru mjög skiptar – mikil umræða varð t.d. um fyrirsögnina „Kennari leidd út í járnum“ á vef Ríkisútvarpsins fyrir nokkrum árum.

Merkingarleg sambeyging kemur einnig oft fram með orðum sem eru eintöluorð að forminu en fleirtöluorð að merkingu – orðum eins og fjöldi og fólk. Varað er sérstaklega við þessu í Málfarsbankanum: „Orðið fjöldi vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Fjöldi skipa fékk góðan afla (ekki: „fjöldi skipa fengu góðan afla“).“ En merkingarleg sambeyging með fjöldi kemur þó fyrir þegar í fornu máli og hefur tíðkast alla tíð síðan. Í Ólafs sögu helga frá 13. öld segir t.d.: „Þá stukku enn fyrir honum fjöldi manna úr landi“ og í Tómass sögu erkibyskups frá því um 1300 segir: „Því að mikill fjöldi fátækra manna og sjúkra renna kallandi móti honum.“

„Sambeyging í íslensku er jafnan málfræðileg, tala og/eða kyn frumlags ræður ferðinni en ekki merking þess“ segir Jón G. Friðjónsson. Þetta er vissulega það sem hefur verið kennt og þannig er málstaðallinn, en það er þó ljóst að margs konar merkingarleg sambeyging er engin nýjung. Guðrún Þórhallsdóttir hefur bent á að merkingarleg sambeyging er algeng í einkabréfum frá seinni hluta 19. aldar og upphafi þeirrar 20., og ekki sé ólíklegt að tilurð og þróun íslensks málstaðals á þeim tíma hafi stuðlað að því að styrkja formlegt samræmi í sessi á kostnað merkingarlegs samræmis. Ljóst er að margs konar merkingarleg sambeyging er algeng í nútímamáli og engin ástæða til að amast sérstaklega við henni – hún á sér langa hefð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mörg okkar tölum svona

Sagnir í íslensku hafa þrjár persónur eins og alkunna er, og persóna sagnar ræðst af frumlaginu. Það er þó aðeins fornafnið ég og fleirtala þess við sem tekur með sér fyrstu persónu sagna, og aðeins fornafnið þú og fleirtalan þið sem tekur með sér aðra persónu. Öll önnur frumlög – fornöfn, nafnorð og annað – taka með sér þriðju persónu sagna. Við segjum þið eruð sum búin með þetta þar sem sögn er í annarri persónu fleirtölu, eruð, og stjórnast af frumlaginu þið. Aftur á móti segjum við sum ykkar eru búin með þetta með sögnina í þriðju persónu fleirtölu, eru, vegna þess að þar er frumlagið óákveðna fornafnið sum. En þótt frumlagið sé formlega í þriðju persónu er það merkingarlega í annarri persónu – sum ykkar merkir u.þ.b. það sama og þið sum.

Það kemur þó fyrir að eignarfallsfornafn í fyrstu eða annarri persónu, okkar eða ykkar, ráði persónu sagnarinnar en ekki nefnifallsorðið, eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á. Þar má segja að merking ráði fremur en form. Þetta er ekki nýtt – dæmi má finna a.m.k. allt frá upphafi 20. aldar. Fáein dæmi: Í Ísafold 1909 segir: „flestir okkar höfum alist upp við önnur lífskjör en skrif og skraf.“ Í Tímanum 1920 segir: „Margir ykkar eruð með í samtökum þeim sem standa að þessu blaði.“ Í Tímanum 1987 segir: „Mörg okkar höfum séð um uppeldi á börnum okkar.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Sum ykkar hafið kannski ekki heyrt um þann stað.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Mörg okkar eigum svo fallegar minningar frá þessum stöðum.“

Þetta er síður en svo sjaldgæft. Í Risamálheildinni eru alls 775 dæmi um að samböndin mörg / nokkur / sum okkar taki með sér sögn í fyrstu persónu fleirtölu, og 431 dæmi um að samböndin mörg / nokkur / sum ykkar taki með sér sögn í annarri persónu fleirtölu. Dæmi þar sem þessi sambönd taka með sér sögn í þriðju persónu eru þó hátt í sex sinnum fleiri, en persónusamræmi við eignarfallsorðið er samt of algengt til að það verði flokkað sem villa. Hlutfall dæma um fyrstu og aðra persónu er miklu hærra í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar en öðrum hlutum hennar sem sýnir að þessi setningagerð er miklu algengari í óformlegu máli en formlegu, og gæti bent til þess að hún væri í sókn þótt ekki sé hægt að fullyrða það.

Það er samt rétt að athuga að persónusamræmi við eignarfallsfornafnið kemur ekki alltaf til greina. Það er hægt að segja mörg okkar urðu hrædd og mörg okkar urðum hrædd en aðeins mörgum okkar varð bilt við, ekki *mörgum okkar urðum bilt við. Þótt eignarfallsfornafnið geti tekið völdin af frumlaginu í stjórn á persónu sagnarinnar er það eftir sem áður háð falli frumlagsins – ef frumlagið er ekki í nefnifalli verður sögnin í þriðju persónu eintölu, hvað sem eignarfallsfornafnið segir. Það kemur kannski ekki á óvart því að sögn samræmist aldrei aukafallsfrumlagi í persónu og tölu hvort eð er, en þó er athyglisvert að eignarfallsfornafnið skuli þannig geta náð valdi á sögninni að hluta til en verið eftir sem áður háð falli frumlagsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fyrrverandi

Lýsingarorðið fyrrverandi er eitt af þessum algengu hversdagslegu orðum sem við teljum okkur vita nákvæmlega hvað merki og hvernig sé notað, en leynir samt á sér. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'sem áður var (oftast þangað til nýlega)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'sem var e-ð áður en er það ekki lengur'. Ég hugsa að við getum flest tekið undir þetta en ég varð samt hugsi þegar ég heyrði talað um Vilmund heitinn Gylfason sem „fyrrverandi alþingismann“ í útvarpsfréttunum áðan. Vissulega virðast orðabókarskýringarnar eiga við því að Vilmundur var áður alþingismaður en er það ekki lengur – hann lést fyrir tæpum 40 árum.

Það sem olli því hins vegar að ég fór að hugsa um þetta var að Vilmundur var alþingismaður þegar hann dó. Í lifanda lífi var hann aldrei fyrrverandi alþingismaður. Skiptir það máli? Getum við haldið áfram að tala um fólk með þeim titli eða starfsheiti sem það hafði við dauða sinn, eða er eðlilegt að bæta fyrrverandi framan við? Þarna bætist líka við að mörk milli starfsheitis og menntunar eru oft óljós. Það er hægt að vera fyrrverandi héraðslæknir og fyrrverandi menntaskólakennari vegna þess að þar er augljóslega vísað til starfa, en er hægt að vera fyrrverandi læknir eða fyrrverandi kennari? Það er hægt að skilja svo að vísað sé til menntunar og réttinda en ekki tiltekins starfs.

Vitanlega er fyrrverandi aldrei notað með skyldleikaorðum – fólk verður ekki fyrrverandi foreldrar barna sinna við dauða sinn. En tengdir fólks eru sérlega snúnar í þessu samhengi. Ef við hjónin skiljum og móðir konunnar minnar er á lífi verður hún fyrrverandi tengdamóðir mín, en ef við erum enn gift tala ég um móður konunnar minnar sem tengdamóður en ekki fyrrverandi tengdamóður þótt hún sé látin enda hætti hún aldrei að vera tengdamóðir mín. En ef við höfum verið gift þegar hún lést, en skiljum síðar, hvað þá? Ef hún væri enn á lífi yrði hún fyrrverandi tengdamóðir mín við skilnaðinn – en held ég áfram að miða við þau vensl sem voru milli okkar við dauða hennar?

Svo getur þetta verið misjafnt eftir afstöðu mælandans til þess sem um er rætt. Það getur t.d. verið eðlilegt að segja ég hitti Sigurð fyrrverandi nágranna minn í gær, en aftur á móti við Sigurður nágranni minn fórum stundum saman í veiði. Í seinna tilvikinu er verið að segja frá því sem við gerðum saman þegar við vorum nágrannar, og þá er mun minni ástæða til að bæta fyrrverandi framan við – þótt það sé vissulega hægt. Einnig má velta fyrir sér hvaða tímamörk séu á notkun fyrrverandi – hvað merkir „nýlega“ í áðurnefndri skýringu Íslenskrar orðabókar? Við myndum varla tala um Hannes Hafstein fyrrverandi ráðherra eða Magnús Stephensen fyrrverandi landshöfðingja, er það?

Við þetta bætist svo notkun fyrrverandi sem nafnorðs, einkum í samböndunum minn/mín fyrrverandi í merkingunni 'fyrrverandi maki'. Allt þetta sýnir að jafnvel hversdagslegustu orð geta sýnt ýmis tilbrigði þegar að er gáð. Það er ein af ástæðunum fyrir því hvað tungumálið er merkilegt og skemmtilegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kjarabarátta er málrækt

Í kjaraumræðu þessa dagana er mikið gert úr því að í tiltekinni starfsgrein séu heildarlaun að meðaltali rúmlega 890 þúsund krónur á mánuði sem sé býsna gott og vel yfir meðallagi. En í fréttum hefur einnig komið fram að föst laun eftir fimm ára starf á þessu sviði eru ekki nema rúmlega 390 þúsund krónur á mánuði. Yfirvinnulaun eru um fjögur þúsund krónur á tímann þannig að til að ná rúmlega 890 þúsund króna heildarlaunum þarf u.þ.b. 125 yfirvinnutíma. Það eru rúmir fjórir tímar á dag að meðaltali alla daga mánaðarins, jafnt virka daga sem frídaga – eða tæpir sex tímar á dag ef þessu er dreift á virka daga eingöngu. Það er því ljóst að það segir ekki nema hálfa söguna að tala eingöngu um heildarlaun.

Í fljótu bragði mætti kannski ætla að þetta væri eingöngu kjaramál sem ætti ekki erindi inn í þennan hóp, en það er misskilningur. Í bókinni Alls konar íslenska sem ég gaf út í fyrra segir: „Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltöku­skeiði. Það er ekkert jafnmikilvægt og samtal við full­orðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka mál­kennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikil­vægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frí­tíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og sam­tals með börnum sín­um. Þannig stuðlum við að því að börn­in okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.“

Það segir sig sjálft að fólk sem vinnur 12-14 tíma á dag á ekki mikinn tíma aflögu til samvista með börnum sínum – og er ekki endilega í stuði til mikilla samræðna þegar það kemur dauðþreytt heim að loknum vinnudegi. Því er hætt við að börn þessa fólks, og annars láglaunafólks sem verður að vinna mikla yfirvinnu til að ná endum saman, fari að verulegu leyti á mis við einn mikilvægasta þátt máluppeldisins – samtal við foreldra sína um hvaðeina. Í staðinn fyrir að vera að byggja upp málkerfi sitt sem virkir þátttakendur í samtali er hætta á að þessi börn leiti í afþreyingu sem er meira og minna á ensku þar sem þau eru aðallega óvirkir viðtakendur, svo sem sjónvarpsáhorf, snjalltækjanotkun og tölvuleikjaspilun.

Íslenskan á undir högg að sækja um þessar mundir vegna margvíslegra þjóðfélags- og tæknibreytinga. Það er hvorki æskilegt né raunhæft að berjast gegn þessum breytingum en við þurfum að berjast gegn þeim áhrifum sem þær gætu haft á íslenskuna. Það gerum við ekki síst með því að búa börnunum betra málumhverfi á máltökuskeiði, einkum með samtali og lestri. Ef við getum ekki sinnt því er voðinn vís. Þess vegna eru lág laun og sá langi vinnutími sem af þeim leiðir mesta hættan sem steðjar að íslenskunni. Við þessu er sem betur fer hægt að bregðast. En ef það verður ekki gert er alveg ljóst að við stefnum hraðbyri inn í samfélag með mikilli málfarslegri stéttaskiptingu. Það má ekki gerast.

Posted on Færðu inn athugasemd

Rótfesta í stað aðlögunar

Á undanförnum árum hefur mikið verið talað um nauðsyn aðlögunar innflytjenda að íslensku samfélagi og gerðar hafa verið sérstakar aðlögunaráætlanir á því sviði. En orðið aðlögun er ekki endilega heppilegt. Úr því má lesa það viðhorf að innflytjendur skuli laga sig í einu og öllu að íslensku samfélagi og íslenskum siðum. En fólk á ekki að þurfa að fórna öllum sínum venjum og gildum við það að setjast að í íslensku samfélagi. Það er ekki til þess fallið að auðvelda fólki að setjast hér að eða gera fólk ánægt með búsetu hér. Innflytjendur og siðir þeirra geta – og hafa – auðgað íslenskt samfélag á margan hátt. Það sem skiptir máli er að ná samkomulagi þannig að fólk með ólíkan bakgrunn, siði og venjur búi hér í sátt og samlyndi.

Í stað þess að tala um aðlögun innflytjenda er því mun vænlegra að tala um rótfestu og rótfestingu þeirra, og í staðinn fyrir aðlögunaráætlun má þá tala um rótfestuáætlun. Við viljum ekki endilega að innflytjendur lagi sig að íslensku samfélagi á allan hátt, en við viljum að þeir festi rætur í því og auðgi það, á sama hátt og ýmsar jurtir af erlendum uppruna hafa fest rætur í íslenskri mold og auðgað íslenskt gróðurfar. Eins og jurtirnar verða þá að þola íslenskan jarðveg og íslenskt veðurfar verða innflytjendur að vera sáttir við íslenskt samfélag án þess endilega að laga sig að því í einu og öllu. Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir lögfræðingur hefur stungið upp á þessu orðalagi og mér finnst það fara mjög vel.