Nei, þetta er ekki málið

Í fréttatilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins fyrr í vikunni undir fyrirsögninni „Íslenskan er aðalmálið“ er kynnt vitundarvakning „til þess að vekja athygli á þeim breytingum sem eru að verða og hafa orðið á íslenskunni vegna enskra áhrifa. Við skoðum hvernig þær breytingar birtast í okkur vítt og breitt í samfélaginu, á samfélagsmiðlum og jafnvel í opinberri umræðu.“ Þessari vitundarvakningu „er ætlað að ýta við fólki, stjaka við því, hnippa í það og jafnvel gefa því olnbogaskot. Dæmin eru ekki valin út í bláinn heldur sýna þau tungutak sem hugsanlega endurspeglar nýjan veruleika íslenskrar tungu.“ Undanfarna daga hafa þessi dæmi svo verið að birtast smátt og smátt í auglýsingum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Dæmunum fylgir spurningin „Er þetta málið?“. Meðal þeirra setninga sem ég hef séð eru þessar: „Á að joina í happí á rooftoppinu?“, „Á íslensku má beisikklí alltaf finna svar“, „Ertu að expecta legendary jólagjöf?“, „Ég literally meika þetta ekki“, „Fannstu eitthvað fashionable að sjoppa“, „Hlíðin er slay“, „Sjitt hvað þetta er fokkings mikil snilld“, „Sorry með allar þessar slettur“, „Það verður kreisí veður all over the place“, „Þeim var ég the worst er ég unni the most“, „Þetta er ákaflega satisfying“, „Þetta er frekar convincing“, „Þetta er væbið sem við vorum going for“, „Þetta experience var svo humbling“, „Þetta dress var á kreisí góðum díl“ „Þú getur beisikklí bara skrollað áfram án þess að læka þetta“ – og ýmsar fleiri í sama dúr.

Þarna er m.a. að finna orð sem vissulega eru upprunnin í ensku en falla fullkomlega að íslensku og verða að teljast komin inn í málið, eins og nafnorðin díll og dress og sagnirnar læka, meika og skrolla. Svo eru orð sem lengi hafa verið algeng í málinu en falla ekki að því að öllu leyti, eins og beisikklí, fokkings, kreisí, sorry og væb. Flest dæmin eru þó um orð sem vissulega koma fyrir í íslensku samhengi en eru ekki algeng og notendur virðast oftast meðvitaðir um að þeir eru að sletta enda halda þau yfirleitt enskri stafsetningu – orð eins og convincing, experience, humbling, rooftoppinu, fashionable, literally og satisfying. Að lokum eru dæmi sem virðast eiga að vera brandarar, eins og Hlíðin er slay og Þeim var ég the worst er ég unni the most.

Ég átta mig satt að segja ekki á því hvernig þessi dæmi eiga að vera liður í „vitundarvakningu“. Þarna er ýmsu blandað saman og eins og áður segir eru sum þessara orða (orðin) góð og gild íslenska sem engin ástæða er til að amast við – þótt það sé vissulega oft gert. En þessar setningar eru fyrst og fremst til þess fallnar að fóðra hneykslunarumræðu og gefa þeim sem telja að unga kynslóðin sé að fara með íslenskuna í hundana eitthvað til að kjamsa á. Það er ekki vitundarvakning. Þau sem sletta ensku á þann hátt sem gert er í sumum þessara dæma (og ég tek fram að ég er ekki að mæla því bót) eru ekki líkleg til að hætta því vegna auglýsinga af þessu tagi. Þvert á móti – það er miklu líklegra að fólk bregðist öndvert við og forherðist.

Vitundarvakning er vissulega nauðsynleg eins og ég hef oft lagt áherslu á og markmiðið með þessari auglýsingaherferð er væntanlega að vekja athygli á óþarfri enskunotkun. Markmiðið er gott en aðferðin er röng. Vitundarvakning getur ekki falist í því að hneykslast. Vitundarvakning verður að vera jákvæð – annars er hætta á að hún hafi þveröfug áhrif við það sem að var stefnt. Það þarf að vekja athygli á því sem vel er gert, sýna dæmi um hvernig hægt er að nota íslenskuna á frjóan og skapandi hátt í ýmsu samhengi. Að því leyti eru auglýsingar verslunarinnar Blush í tilefni dags íslenskrar tungu margfalt betur heppnaðar – þar er verið að leika sér með tungumálið á mjög skemmtilegan hátt (af velsæmisástæðum veigra ég mér þó við að birta hér dæmi).

Íslenskunni stendur ekki sérstök ógn af einstökum enskuslettum í máli almennings þótt þeim mætti vissulega fækka. Íslenskunni stendur miklu fremur ógn af andvaraleysi, hugsunarleysi, metnaðarleysi og skilningsleysi fyrirtækja og opinberra aðila sem t.d. kemur fram í því að ráðuneyti kynnir verkefni undir ensku heiti; í því að umsækjendum um störf hjá opinberum aðilum var gert að skrifa undir skilmála á ensku; í því að ferðaþjónustan hefur enga málstefnu; í því að samtök í íslensku atvinnulífi skrifa íslenskum ráðherra bréf á ensku; í því að flest sveitarfélög hafa trassað að setja sér málstefnu; í því að auglýsingar verslana eru iðulega á ensku; í því að lagaákvæðum um íslenskt mál er iðulega ekki framfylgt; o.s.frv. Byrjum þar!