Viðbrögð við PISA-niðurstöðum

Það er mjög mikilvægt að viðbrögðin við slakri útkomu íslenskra nemenda í PISA-prófinu snúist ekki um það að finna einhvern sökudólg. Í umræðu hér í gær var sagt að útkoman væri „gríðarlegur áfellisdómur fyrir íslenskt menntakerfi“. Auðvitað ber skólinn sinn hluta af ábyrgðinni en ég held samt að ef útkoman er áfellisdómur á annað borð þá sé það yfir íslensku samfélagi eins og það leggur sig en ekki menntakerfinu einu og sér. Það er nefnilega meginatriði að ekki sé litið á útkomuna í PISA sem sjálfstætt vandamál sem hægt sé að bregðast við með einhverjum töfralausnum eins og læsisátaki sem farið var í fyrir nokkrum árum og ekki virðist hafa skilað miklu – fremur en önnur slík átök eins og kemur fram í PISA-skýrslunni.

Mér finnst allt benda til þess að versnandi frammistöðu íslenskra unglinga í PISA-prófinu megi a.m.k. að verulegu leyti rekja til breyttrar stöðu íslenskunnar. Það er ljóst að góður lesskilningur er forsenda góðrar útkomu í öllum hlutum prófsins – ekki bara í lesskilningshluta þess, heldur líka í læsi á náttúruvísindi og stærðfræði. Tvær meginforsendur lesskilnings eru þekking á þeim  orðaforða sem notaður er í þeim textum sem um er að ræða og skilningur á þeim setningagerðum sem koma fyrir. Alkunna er að oft er talað um að orðaforði íslenskra unglinga fari stöðugt minnkandi en minna er talað um skilning á flóknari setningagerðum og færni í beitingu þeirra þótt oft sé minnst á óvissu í notkun viðtengingarháttar svo að dæmi sé tekið.

Hvorki orðaforða né setningagerðir er hægt að kenna í einangrun. Hvorugt lærist almennilega nema með því að nota það í mállegu samhengi – með því að hlusta, lesa, tala og skrifa. Vitaskuld getur verið gagn í því að ganga skipulega á orðaforða á tilteknum sviðum og þjálfa hann, og eins getur verið gagnlegt að kenna eðli og notkun tiltekinna setningagerða. En meginatriði er að þetta sé gert í samhengi við texta og notað sem stuðningur við skilning á honum en ekki kennt sem sjálfstæð íþrótt. Það er hlutverk skólanna að halda fjölbreyttum íslenskum textum að nemendum og þjálfa þau í lestri þeirra og skilningi – og einnig að þjálfa nemendur í virkri beitingu bæði talaðs og ekki síður ritaðs máls með hvers kyns skapandi skrifum.

En þetta er ekki eingöngu á ábyrgð skólanna. Grundvöllurinn að málþroska er lagður á fyrstu árunum og ábyrgðin þar liggur hjá foreldrum og heimilum. Það þarf að sjá til þess að börn fái nægilega málörvun – halda íslenskunni að þeim, tala við þau og lesa fyrir þau. En vitanlega hafa foreldrar misgóðar aðstæður til að sinna þessu. Margir foreldrar vinna mikið og tími þeirra til að sinna börnunum er takmarkaður, og þá er freistandi að setja börnin fyrir framan sjónvarp eða rétta þeim snjallsíma þar sem þau finna einhverja afþreyingu sem ekki er endilega á íslensku. Ég hef áður sagt að lág laun og sá langi vinnutími sem af þeim leiðir sé mesta hættan sem steðjar að íslenskunni og stytting vinnutímans sé mjög mikilvæg til að styrkja málið.

Fyrst og fremst er ábyrgðin þó hjá stjórnvöldum og samfélaginu sem heild. Stjórnvöld þurfa að stuðla að því að foreldrar geti varið meiri tíma með börnum sínum – með lengingu fæðingarorlofs, með styttingu vinnutíma, með því að gefa innflytjendum kost á að læra íslensku á vinnutíma o.fl. Einnig þarf að leggja mun meiri áherslu á íslensku og lesskilning í öllum þáttum menntunar – í kennaramenntun og í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Þetta hefur legið fyrir lengi en því miður hefur lítið verið gert í málinu. En samfélagið þarf líka að breyta viðhorfi sínu til íslenskunnar – setja hana í forgang, halda henni á lofti á öllum sviðum og sýna börnum og unglingum fram á mikilvægi hennar. Á jákvæðum nótum.