Posted on Færðu inn athugasemd

Hvers konar frávik er vegna ofbeldi?

Ég rakst á fyrirsögnina „Óttast að missa barnið frá sér vegna ofbeldi fyrrverandi“ á mbl.is í dag. Nú stjórnar forsetningin vegna eignarfalli og ofbeldi er hvorugkynsorð sem ætti að fá endinguna -s í eignarfalli eins og önnur nafnorð í því kyni (önnur en þau sem enda á -a) – þarna ætti sem sé að standa vegna ofbeldis ef málhefð væri fylgt. Auðvitað gæti þetta verið einhvers konar frágangs- eða fljótfærnisvilla og þá er svo sem ekki meira um það að segja, en einnig gæti þetta verið vitnisburður um byrjandi málbreytingu. Undanfarin rúm 40 ár hefur því oft verið haldið fram að eignarfall stæði höllum fæti í málinu og stundum verið talað um „eignarfallsflótta“ í því sambandi, allt frá því að Helgi Skúli Kjartansson skrifaði grein með því heiti 1979.

Slík breyting gæti verið af mismunandi toga. Einn möguleiki er sá að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast – hún taki ekki lengur alltaf með sér eignarfall heldur geti stundum tekið þolfall eða þágufall. Í sumar skrifaði ég um dæmi eins og vegna hlýnun sem eru nokkuð algeng og taldi að þau væru „frekar til marks um að kvenkyns -un-orð séu farin að missa eignarfallsendinguna en að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast“ en bætti við: „Þetta þarf þó að kanna miklu nánar, og vel má vera að einhver merki séu líka um breytta fallstjórn.“ Það væri óheppilegt ef fallstjórn vegna væri að breytast – fyrir utan til er hún aðalforsetningin sem stjórnar eignarfalli og breytt fallstjórn hennar myndi því veikja stöðu þess.

Annar möguleiki er að beyging orðsins ofbeldi sé að breytast – það fái ekki lengur endilega -s-endingu í eignarfalli heldur geti verið endingarlaust. Það væri eiginlega mun alvarlegra en breytt fallstjórn vegna – sterk hvorugkynsorð eru mjög stór flokkur orða og breyting á beygingu þeirra, sem kæmi þannig út að þau hvorugkynsorð sem enda á -i hættu að beygjast vegna þess að öll föll þeirra í eintölu yrðu þá eins, væri því veruleg breyting á kerfinu og í raun veiking þess. En þriðji möguleikinn er sá að þetta snúist hvorki um fallstjórn né beygingarmynd, heldur um kyn – orðið ofbeldi sé sem sagt notað þarna í kvenkyni í stað hvorugkyns. Kvenkynsorð sem enda á -i geta nefnilega verið endingarlaus í eignarfalli, svo sem gleði, reiði, athygli, illgirni o.m.fl.

Það eru dæmi um að orð af þessari gerð fari milli kynja. Orðið athygli sem nú er alltaf haft í kvenkyni var t.d. ekki síður hvorugkynsorð áður fyrr og -s- í lýsingarorðinu athyglisverður er því alveg eðlilegt. Þótt ofbeldi sé nær alltaf hvorugkynsorð má finna einstöku dæmi á netinu um að það sé haft í kvenkyni. Á Bland.is 2005 segir: „ég varð fyrir mikilli líkamlegri og andlegri ofbeldi af barnsföður mínum.“ Á Blog.is 2009 segir: „Á mótmælafundinum í dag var engin ofbeldi.“ Í DV 2018 segir: „Mikil ofbeldi hefur átt sér stað undanfarna daga í borginni Ghazipur í Uttar Pradesh héraðinu í Indlandi.“ Í Vísi 2021 segir: „Það er alveg jafn mikil ofbeldi.“ Dæmi af þessu tagi eru þó vissulega mjög fá og ekki hægt að draga miklar ályktanir af þeim.

Það eru sem sé fjórar hugsanlegar skýringar á því fráviki frá málhefð sem kemur fram í fyrirsögninni sem nefnd var í upphafi. Fyrir utan að vera frágangsvilla getur þetta sýnt breytta fallstjórn forsetningarinnar vegna, breytta fallbeygingu nafnorðsins ofbeldi, eða breytt kyn orðsins. Af hinum þremur hugsanlegu málfræðilegum skýringum er sú síðastnefnda „æskilegust“, ef svo má segja, frá sjónarhorni tungumálsins. Hinar tvær eru nefnilega röskun á kerfinu en breyting á kyni einstaks orðs, sem formsins vegna gæti verið af tveimur mismunadi kynjum, hefur engin víðtækari áhrif. Í stað þess að afgreiða frávik frá málhefð einfaldlega sem „villur“ er miklu gagnlegra að velta fyrir sér í hverju þau felast – og hvaða áhrif þau gætu haft.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fatafellur og stripparar

Í Málvöndunarþættinum var vísað í frétt um kaup starfskvenna Lögreglustjóraembættisins í Reykjavík á „karlkyns fatafellu“ og spurt: „Karlkyns fatafella – er hann ekki bara fatafellir.“ Þarna koma skýrt fram þau tengsl sem mörgum finnst vera milli málfræðilegra kynja starfsheita og kyns þeirra sem störfunum gegna. Það er alkunna að meginhluti hvers kyns starfs- og hlutverksheita í íslensku er karlkyns og mörgum þykir fullkomlega eðlilegt að þau séu ekki bara notuð um karla, heldur líka um konur og kvár og bregðast ókvæða við ef reynt er að breyta því. Öðru máli gegnir hins vegar þegar karlar sinna störfum sem konur hafa einkum gegnt og hafa kvenkyns starfsheiti – þá þykir oft sjálfsagt eða nauðsynlegt að búa til karlkynsorð.

Elstu dæmi um orðið fatafella á tímarit.is eru frá 1967 – í Tímanum það ár segir að „fatafellan Zicki Wang“ hafi nýlega haldið „af landi brott eftir að hafa skemmt í Lídó um nokkurra vikna skeið“. Þessi tegund „skemmtunar“ virðist þá hafa verið ný á Íslandi en blómstraði á áttunda áratugnum, ekki síst með hinni dönsku Susan sem baðaði sig á dansgólfinu við mikinn fögnuð margra. Vinsældir slíkra „skemmtana“ má marka af tíðni orðsins fatafella sem dalaði nokkuð á níunda áratugnum en rauk upp aftur á þeim tíunda með tilkomu ýmissa nektardansstaða. Framan af voru það nær eingöngu konur sem fækkuðu fötum, og skýring orðsins fatafella í Íslenskri nútímamálsorðabók er í samræmi við það: 'kona sem sýnir nektardans á skemmtistað'.

Á tíunda áratugnum fór þó að bera á karlmönnum sem stunduðu sambærilega iðju. Þeir fengu hins vegar sjaldnast starfsheitið fatafella, nema þá að karlkyns fylgdi með. Þess í stað var tekið upp karlkynsorðið strippari. Það sést fyrst í Mánudagsblaðinu 1971 og vísar þá til kvenna, en sést næst í blöðum 1990 – í auglýsingu um „Kvennahátíð“ í Morgunblaðinu það ár segir: „Einnig ætla velvaxnir „STRIPPARAR“ að sýna listir sínar.“ Þetta orð verður svo algengt á tíunda áratugnum og það sem af er þessari öld eru orðin fatafella og strippari álíka algeng á tímarit.is. Sama gildir um Risamálheildina að undanskildum samfélagsmiðlahlutanum þar sem strippari er mun algengara enda þykir það væntanlega óformlegra orð vegna ensks uppruna.

En þrátt fyrir enskan uppruna er strippari ekkert óíslenskulegt orð og auðvitað skylt sögninni striplast sem á sér langa sögu í málinu. Í óformlegu máli virðist algengara en annars staðar að strippari vísi til kvenna en það kann að stafa af áhrifum frá ensku þar sem stripper er notað bæði um karla og konur. Þrátt fyrir það er verkaskipting orðanna fatafella og strippari, sem skýrt er 'nektardansari eða nektardansmær' í Íslenskri nútímamálsorðabók, nokkuð skýr –langoftast er karlkynsorðið notað um karla, kvenkynsorðið um konur. Þótt vissulega séu ýmis dæmi um að strippari vísi til kvenna er mun sjaldgæfara að fatafella vísi til karla. Þetta er því skýrt dæmi um að í málvitund margra eiga kvenkyns starfsheiti ekki við um karla.