Fatafellur og stripparar

Í Málvöndunarþættinum var vísað í frétt um kaup starfskvenna Lögreglustjóraembættisins í Reykjavík á „karlkyns fatafellu“ og spurt: „Karlkyns fatafella – er hann ekki bara fatafellir.“ Þarna koma skýrt fram þau tengsl sem mörgum finnst vera milli málfræðilegra kynja starfsheita og kyns þeirra sem störfunum gegna. Það er alkunna að meginhluti hvers kyns starfs- og hlutverksheita í íslensku er karlkyns og mörgum þykir fullkomlega eðlilegt að þau séu ekki bara notuð um karla, heldur líka um konur og kvár og bregðast ókvæða við ef reynt er að breyta því. Öðru máli gegnir hins vegar þegar karlar sinna störfum sem konur hafa einkum gegnt og hafa kvenkyns starfsheiti – þá þykir oft sjálfsagt eða nauðsynlegt að búa til karlkynsorð.

Elstu dæmi um orðið fatafella á tímarit.is eru frá 1967 – í Tímanum það ár segir að „fatafellan Zicki Wang“ hafi nýlega haldið „af landi brott eftir að hafa skemmt í Lídó um nokkurra vikna skeið“. Þessi tegund „skemmtunar“ virðist þá hafa verið ný á Íslandi en blómstraði á áttunda áratugnum, ekki síst með hinni dönsku Susan sem baðaði sig á dansgólfinu við mikinn fögnuð margra. Vinsældir slíkra „skemmtana“ má marka af tíðni orðsins fatafella sem dalaði nokkuð á níunda áratugnum en rauk upp aftur á þeim tíunda með tilkomu ýmissa nektardansstaða. Framan af voru það nær eingöngu konur sem fækkuðu fötum, og skýring orðsins fatafella í Íslenskri nútímamálsorðabók er í samræmi við það: 'kona sem sýnir nektardans á skemmtistað'.

Á tíunda áratugnum fór þó að bera á karlmönnum sem stunduðu sambærilega iðju. Þeir fengu hins vegar sjaldnast starfsheitið fatafella, nema þá að karlkyns fylgdi með. Þess í stað var tekið upp karlkynsorðið strippari. Það sést fyrst í Mánudagsblaðinu 1971 og vísar þá til kvenna, en sést næst í blöðum 1990 – í auglýsingu um „Kvennahátíð“ í Morgunblaðinu það ár segir: „Einnig ætla velvaxnir „STRIPPARAR“ að sýna listir sínar.“ Þetta orð verður svo algengt á tíunda áratugnum og það sem af er þessari öld eru orðin fatafella og strippari álíka algeng á tímarit.is. Sama gildir um Risamálheildina að undanskildum samfélagsmiðlahlutanum þar sem strippari er mun algengara enda þykir það væntanlega óformlegra orð vegna ensks uppruna.

En þrátt fyrir enskan uppruna er strippari ekkert óíslenskulegt orð og auðvitað skylt sögninni striplast sem á sér langa sögu í málinu. Í óformlegu máli virðist algengara en annars staðar að strippari vísi til kvenna en það kann að stafa af áhrifum frá ensku þar sem stripper er notað bæði um karla og konur. Þrátt fyrir það er verkaskipting orðanna fatafella og strippari, sem skýrt er 'nektardansari eða nektardansmær' í Íslenskri nútímamálsorðabók, nokkuð skýr –langoftast er karlkynsorðið notað um karla, kvenkynsorðið um konur. Þótt vissulega séu ýmis dæmi um að strippari vísi til kvenna er mun sjaldgæfara að fatafella vísi til karla. Þetta er því skýrt dæmi um að í málvitund margra eiga kvenkyns starfsheiti ekki við um karla.