Posted on Færðu inn athugasemd

Málspjall þriggja ára

Fyrir fjórum árum, í byrjun ágúst 2019, byrjaði ég að skrifa pistla um málfræðileg efni í Málvöndunarþáttinn og skrifaði alls um 120 pistla þar næsta árið. Á endanum gafst ég hins vegar upp á þeim hópi vegna þess neikvæða anda sem þar ríkti – og ríkir enn – og stofnaði þennan hóp sem á þriggja ára afmæli í dag. Markmiðið var að efla jákvæða umræðu um íslenskt mál – birta fræðandi pistla um mál og málnotkun, svara spurningum, og skapa umræðuvettvang. En markmiðið hefur einnig verið að efla íslenskuna og auka notkun hennar, m.a. með því benda á óþarfa enskunotkun og berjast gegn henni og með því að tala fyrir því að öllum leyfist og sé auðveldað að nota íslenskuna á sinn hátt, þ. á m. kynsegin fólki og fólki af erlendum uppruna.

Á fyrstu vikum hópsins gengu um tvö þúsund manns í hann og síðan hefur fjölgað jafnt og þétt í honum, kringum tvö þúsund manns á ári – félagar eru nú rúm átta þúsund. Samtals hef ég birt hér tæplega 700 pistla, deilt ófáum fréttum og greinum og svarað aragrúa spurninga, auk þess sem aðrir hópverjar hafa vitanlega skrifað ótalmörg innlegg, tekið þátt í umræðum og svarað spurningum. Innlegg undanfarna tvo mánuði eru að meðaltali rúmlega fimm á dag, og athugasemdir rúmlega 100. Það er því óhætt að halda því fram að hópurinn sé mjög virkur og hann hefur líka haft áhrif – fjölmiðlar hafa iðulega vitnað í hann og athugasemdir sem hér hafa verið gerðar hafa nokkrum sinnum stuðlað að því að fyrirtæki hafa látið af óþarfri enskunotkun.

Ég er enn sannfærðari en áður um að jákvæð umræða, umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess er frekar til þess fallin að efla íslenskuna en hneykslun, umvandanir og leiðréttingar. Það þýðir ekki að við eigum að láta það afskiptalaust ef við heyrum eða sjáum í fjölmiðlum málfar sem gengur í berhögg við málhefð. Ég hef nokkrum sinnum, m.a. tvisvar í síðustu viku, sent fréttafólki Ríkisútvarpsins tölvupóst og bent á óhefðbundið orðalag í fréttum. Undantekningarlaust er brugðist vel við – ég fæ þakkarpóst og viðkomandi frétt er breytt. Ég er ekki í vafa um að slíkar ábendingar eru líklegri til að skila árangri og skapa jákvætt viðhorf til málvöndunar en opinberar leiðréttingar þar sem talað er með lítilsvirðingu um „fréttabörn“.

Haldið endilega áfram að skrifa innlegg og athugasemdir, spyrja spurninga og svara, og taka þátt í umræðum. Munið bara að athugasemdir við málfar einstaklinga eða hópa eru ekki leyfðar og verður eytt. Innlegg sem virðast hafa þann eina tilgang að vekja athygli á einhverju sem höfundi finnst mega betur fara eru ekki heldur leyfð, og sama gildir um innlegg sem ekki verður séð að komi íslensku máli neitt við. Allar skoðanir á máli og málfari eru leyfðar, að því tilskildu að þær séu settar fram á málefnalegan hátt og ekki með óviðurkvæmilegu orðalagi. Ég vonast til að hópurinn haldi áfram að vaxa og umræður verði áfram líflegar. Það skiptir máli fyrir íslenskuna að við ræðum hana, fræðumst um hana, og skiptumst á skoðunum um hana.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skoðanalöggur

Í viðtali í Morgunblaðinu um helgina sagði Kristrún Heimisdóttir: „Svo verður ekki horft fram hjá því að það er stórhættulegt hvernig skoðanalöggur halda umræðunni í heljargreipum. Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli.“ Elsta dæmi sem ég hef fundið um orðið skoðanalögga er í Alþýðublaðinu 1992, þar sem rætt er um ágreining innan Kvennalistans um EES-aðild og talað um „skoðanalöggur Kvennalistans“ og sagt „þingsysturnar brugðu sér í gervi stalínískrar skoðanalöggu“. Í Degi-Tímanum 1997 er fjallað um brottrekstur pistlahöfunda frá Ríkisútvarpinu og sagt: „Markús Örn segir enga skoðanalöggu í útvarpinu.“ Markús notaði þó ekki orðið skoðanalögga.

Fréttin um Kvennalistann fjallar um það þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti annarri skoðun á EES-aðild en meirihluti þingflokksins sem brást hart við og hótaði m.a. að taka hana úr utanríkismálanefnd. Í fréttinni um pistlahöfundana var sagt frá því að þeir Illugi Jökulsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefðu verið endurráðnir sem pistlahöfundar við Ríkisútvarpið eftir að hafa verið sagt upp þremur árum áður. Um uppsögnina sagði þáverandi útvarpsstjóri: „Það var reyndar Illugi sem var látinn fara fyrst vegna þess að hann þótti hafa brotið af sér“ – með því að tjá ákveðnar skoðanir. Í báðum tilvikum er orðið skoðanalögga því notað í merkingunni 'fólk sem notar boðvald sitt til að (reyna að) stjórna umræðunni' eða eitthvað slíkt.

En notkun orðins skoðanalögga hefur breyst. Í „Staksteinum“ Mogunblaðsins 2014 er rætt um mótmæli gegn ummælum þáverandi forsætisráðherra um loftslagsbreytingar og sagt: „Að mati tiltekins hóps fólks er það að verða svo að ákveðnir menn mega helst ekki tjá sig og ákveðnar skoðanir mega helst ekki heyrast. Og ef þær heyrast, þá fara þessar skoðanalöggur af stað og reyna að ráðast af nægilegri heift á viðkomandi til að hann láti sér það að kenningu verða og lúti eftirleiðis vilja hópsins.“ Á Eyjunni 2014 segir: „fólk var sakað um föðurlandssvik og þeir sem vildu að mannréttindi og stjórnarskrá yrðu virt voru kallaðir „rétttrúnaðarsinnar“ og „skoðanalöggur“.“ Þarna er ekki verið að tala um fólk sem hefur eitthvert boðvald yfir öðrum.

Þannig virðist það eitt að lýsa andstöðu við tiltekna skoðun nægja til að fá á sig stimpilinn skoðanalögga sem er vitanlega mjög gildishlaðið og neikvætt orð. Vissulega er sumt fólk í betri aðstöðu en annað til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á skoðanir annarra, í krafti þjóðfélagsstöðu sinnar, valda, frægðar, þekkingar, valds á tungumálinu o.fl. Þetta fólk mætti t.d. kalla umræðustjóra eða jafnvel áhrifavalda, en svo framarlega sem það hefur ekki boðvald yfir öðrum er fráleitt að tala um það sem skoðanalöggur. Það er ekki til annars fallið en að gera málflutning fólks tortryggilegan og kæfa umræðuna – og er einmitt notað til þess. Þau sem nota orðið skoðanalögga um annað fólk hitta þess vegna fyrst og fremst sjálf sig fyrir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Uppáhelling(ur)

Í gær var hér spurt hvaða orð væri haft um það þegar korgur væri nýttur til kaffilögunar. Þetta var stundum gert áður fyrr til að reyna að nýta kaffið betur, t.d. með því að hella upp á tóman korg eða með því að setja korg út í vatn áður en það var soðið og hella upp á með smávegis nýju kaffi í trektinni. Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Sumir helltu jafnvel upp á sama kaffið tvisvar. Það var kallað uppáhellingur og þótti ekki sérstaklega fínt.“ Bæði kvenkynsorðið uppáhelling og karlkynsorðið uppáhellingur eru skýrð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem 'kaffe som laves på allerede brugte bønner, påfyldning'. Í Íslenskri orðabók er aðeins karlkynsmyndin gefin og skýrð 'kaffi sem hellt hefur verið á kaffikorg'.

Uppáhelling(ur) þótti oftast hálfgert hallæriskaffi eins og fram kemur í Hamri 1957: „Svo mikla lukku gjörði þetta, að allt seldist upp, meira að segja helltum við á korginn fyrir rest og því er ekki að leyna, að sú uppáhelling var hálfgert glundur.“ Í Heimilisblaðinu 1956 segir: „En það var eilífur uppáhellingur, sem ég varð að krydda með sírópi til þess að finna nokkurt bragð!“ Oft var gerður munur á uppáhellingi og alvöru kaffi eins og dæmi í Skólablaðinu 1915 sýnir: „Sumir hafa einhvern grun um það, að börnum sé kaffi óholt, og gefa þeim því ekki almennilegt kaffi, en „uppáhelling“ halda þeir að óhætt sé að gefa þeim.“ Í Vísi 1967 segir: „Hún bauð blaðamanninum að ganga í bæinn og þiggja kaffisopa, eða í það minnsta uppáhelling.“

En í seinni tíð hefur orðið uppáhelling(ur) töluvert aðra merkingu. Báðar myndirnar eru gefnar í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrðar 'kaffi sem hellt er upp á (kaffið sett í filter sem heitt vatn rennur í gegn)'. Þessi merking kemur skýrt fram í Fréttablaðinu 2010: „Algengasta aðferðin við að hella upp á kaffi á íslenskum heimilum hefur löngum verið svokallaður uppáhellingur. Þá er kaffið sett í kaffifilter í trekt og sjóðandi vatni hellt í gegnum það jafnt og þétt.“ Þarna er ekki lengur verið að tala um sérstakt hallæriskaffi þótt því sé ekki að neita að kaffi lagað á þennan hátt þyki kannski ekki eins fínt og kaffi sem lagað er með ýmsum tilfæringum og vélum og ber alls konar erlend heiti sem óþekkt voru á Íslandi til skamms tíma.

Merkingarbreyting orðsins virðist verða kringum 1970. Í í Þjóðviljanum 1971 er auglýst „sjálfvirk uppáhelling“. Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Eða þegar kaffipakkinn dugar varla í tvær uppáhellingar?“ Í þessum dæmum merkir orðið reyndar ekki afurðina, kaffið, heldur verknaðinn, þ.e. 'það að laga kaffi', en augljóslega er ekki verið að tala um að nýta korg til kaffilögunar. Skömmu síðar fara þó að sjást dæmi þar sem orðið á við afurðina, kaffið sjálft, t.d. í Dagblaðinu 1977: „Það lætur nærri, að venjulegur uppáhellingur kosti eitthvað um hundrað krónur fyrir utan vatn og hita.“ Í Tímanum 1979 segir: „Ég óska langlífis og góðrar sjónar og bið að heilsa […] konu hans og þakka mikinn uppáhelling og ágætt viðmót.“

Sagnirnar umhella og trekkja voru einnig notaðar í svipaðri merkingu, um mismunandi aðferðir til að nýta kaffið sem best, sem ekki var eingöngu gert í sparnaðarskyni heldur til að fá betra kaffi. Í Dagblaðinu 1981 segir: „Hin rétta aðferð væri sú að hella upp á venjulegan hátt en umhella síðan ¾ hlutum kaffisins.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Þegar búið var að hella upp á könnuna var – og er ennþá – algengt að hella fyrstu bununni í bollann og síðan aftur á pokann. Þetta var kallað að „umhella“ eða að „trekkja“ kaffið.“ Undir sögninni trekkja í Íslenskri orðabók er gefin merkingin 'hella upp á kaffi (einnig um það sérstaklega að hella nýlöguðu kaffi aftur í gegnum síupokann til að ná sem mestum styrk úr því)'.

Þótt uppáhelling(ur) hafi áður fyrr verið notað um lélegt kaffi gegnir öðru máli um sambandið hella upp á. Það hefur verið notað síðan á 19. öld, langoftast í sambandinu hella upp á könnuna – elsta dæmi sem ég finn um hella upp á kaffi er frá 1944. Þetta samband virðist aldrei hafa tengst notkun korgs við kaffilögun sérstaklega, og sama gildir um sambandið uppáhelt kaffi en elsta dæmi um það er í Nýjum vikutíðindum 1966: „Kaffið er ávallt ný-uppáhellt úr litlum cory-glerkönnum.“ En uppáhelling(ur) er skemmtilegt dæmi um orð sem hefur breytt um merkingu. Forsenda þeirrar breytingar var að þörfin fyrir orðið í eldri merkingu var úr sögunni með bættum efnahag fólks. Á svipuðum tíma kynntust Íslendingar fjölbreyttari aðferðum til kaffilögunar og þá var orðið á lausu og hægt að grípa það til að nota um kaffi lagað á hefðbundinn hátt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að urlast

Í Málvöndunarþættinum var í dag spurst fyrir um sögnina urlast sem kom fyrir í frétt á Vísi í dag – „Við urðum vitni að því þegar fuglarnir urluðust í fyrra“ segir þar. Orðið er ekki að finna í hefðbundnum orðabókum og fyrirspyrjandi sagðist hvorki hafa heyrt það né séð fyrr en hafði fundið það á Nýyrðavef Árnastofnunar þar sem það er skýrt 'Að sturlast, eða truflast, t.d. úr hlátri eða reiði'. Sú sem sendi orðið á Nýyrðavefinn bætir við: „Of langt síðan til að hægt sé að muna hvar ég heyrði þetta fyrst, a.m.k. 2 áratugir“ – en orðið var sent inn árið 2022. Í umræðu í Málvöndunarþættinum var sagt að orðið ætti uppruna sinn á tíunda áratugnum og hefði þá verið notað sem slangur tengt sögninni sturlast. En sennilega er orðið talsvert eldra en það.

Árið 2000 skrifaði Gísli Jónsson í þættinum „Íslenskt mál“ í Mogunblaðinu: „Umsjónarmaður er að safna fróðleik um sögnina að urlast og orðasambandið að ver(ð)a urlaður. Þetta heyrist um þessar mundir á Akureyri, einkum meðal yngra fólks og er haft í merkingunni að geggjast, ver(ð)a geggjaður. Ég hef komist að því að þetta er ekki mjög ungt, nema það hafi fallið niður og verið lífgað við seinna.“ Gísli vitnar í systur úr Aðaldal sem segjast kannast mjög vel við þetta sem „slanguryrði unglinga“ frá því 40-50 árum fyrr og hafi „á táningsaldri notað það í merkingunni (létt)geggjaðar; það hafi alltaf verið neikvætt en tiltölulega meinlaust“. Þetta þýðir að orðið hefur verið komið í notkun upp úr miðri síðustu öld, fyrir 60-70 árum.

Nokkru síðar birti Gísli bréf sem honum hafði borist þar sem bréfritari sagðist þekkja sögnina úr máli sonar síns sem notaði hana í merkingunni 'að verða uppnæmur, æstur eða brjálast'. Sonurinn sagðist hafa lært sögnina af vini sínum úr Garðabæ sem er fæddur 1964, og vinurinn „taldi að hann hefði sjálfur búið það til og giskaði á að hann hefði breytt sögninni að sturlast í urlast“. En samkvæmt því sem að framan segir er orðið nokkru eldra, þótt ekki sé útilokað (en ólíklegt) að það hafi orðið til á tveimur stöðum. Elstu dæmi á prenti um sögnina urlast eru frá 1995 og elstu dæmi um lýsingarorðið urlaður frá 1996. Þetta eru nokkur dæmi, öll úr stjörnuspám í Tímanum sem eru mjög óformlegar og væntanlega sami höfundur að þeim öllum.

Í Risamálheildinni eru hátt í 400 dæmi um sögnina urlast og rúm 30 um lýsingarorðið urlaður – nær öll af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að þessi orð eru talsvert notuð, einkum sögnin, en að mestu bundin við óformlegt mál. Dæmin dreifast á tvo síðustu áratugi og fyrstu árin er oft verið að spyrja hvaða orð þetta séu og hvað þau merki, eða hafna þeim með öllu – „Þetta heitir að sturlast, ekki urlast“ segir t.d. á Bland.is 2006, og „Nei, að urlast eða vera urlaður er ekki til“ segir á Bland.is 2009. En slíkar athugasemdir sjást ekki á seinustu árum sem bendir til að þessi orð séu orðin nokkuð þekkt og viðurkennd – í óformlegu máli. Hvort fólk vill nota þau í formlegu málsniði er auðvitað smekksatriði, en líklegt er að svo verði með tímanum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Forréttindaglepja

Í gær var hér spurt hvort hópverjar kynnu eitthvert annað orð yfir það sem hefur verið kallað forréttindablinda og merkir 'Það þegar fólk tekur ekki eftir því að það nýtur efnahagslegra eða félagslegra forréttinda af einhverju tagi'. Orðið er a.m.k. rúmlega tíu ára gamalt en hvorki að finna í Íslenskri orðabókÍslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi sem ég finn um það er á Bland.is árið 2012: „En forréttindablinda er lúmsk og margskonar.“ Orðið hefur breiðst hratt út og í Risamálheildinni eru rúm 400 dæmi um það. Fleiri samsetningar af þessu tagi, þar sem fyrri hlutinn lýsir því hvað glepur fólki sýn eða á hvað fólk er blint (í óeiginlegri merkingu) eru til, sumar nýlegar svo sem kynjablinda en aðrar eldri svo sem flokksblinda og siðblinda.

Þótt þessi orð séu í sjálfu sér gagnsæ og orðhlutinn -blinda lipur í samsetningum hefur verið bent á að það geti hugsanlega verið særandi fyrir blint og sjónskert fólk þegar blinda er notuð á þennan hátt, í neikvæðum orðum sem vísa til fáfræði, hugsunarleysis, skeytingarleysis o.þ.h. Í staðinn væri e.t.v. hægt að nota orðið glepja, sbr. glepja sýn, og tala um forréttindaglepju, kynjaglepju, flokksglepju o.s.frv. Nafnorðið glepja er til samkvæmt Íslenskri orðabók og skýrt 'glypjulegt, gisið prjón' en sagt staðbundið. Þetta orð er svo sjaldgæft að óhætt ætti að vera að taka það traustataki og gefa því nýja merkingu, sem fellur algerlega að merkingu sagnarinnar glepja. Þetta er allavega möguleiki fyrir þau sem fella sig ekki við forréttindablinda og slík orð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Erlend áhrif koma ekki bara frá útlendingum sem hér búa

Í endursögn mbl.is á hlaðvarpsviðtali við Kára Stefánsson kemur fram sú skoðun hans að Heiðar Guðjónsson „meini ekkert illt“ í nýlegu viðtali sem ég taldi – og var ekki einn um það – að bæri vott um útlendingaandúð. Það var og er skoðun mín. Hún kann að vera röng, en það var ekki og getur ekki verið óheiðarlegt að setja hana fram. Það getur hafa verið ósmekklegt, óskynsamlegt, óþægilegt, óviðeigandi, ómálefnalegt, óviðurkvæmilegt, ómerkilegt og ó- allt mögulegt – en ekki óheiðarlegt. En nóg um það. Meginatriðið er að Kári hefur alveg rétt fyrir sér um það að Heiðari hafi sést yfir að sá þrýstingur sem nú er á íslenskuna stafar ekki nema að hluta til af fjölda útlendinga á Íslandi, heldur einnig og ekki síður af áhrifum stafrænna miðla og tækni.

Kári segir: „Við lifum að mjög stórum hluta til í netheimum þar sem menn tala að mestu leyti á ensku og við einangrum okkur ekkert uppi á Íslandi. Við verðum á Íslandi fyrir gífurlegum áhrifum og líklega meiri áhrifum af útlendingum í gegnum netið heldur en þeim fáu sem búa á Íslandi.“ Þetta er grundvallaratriði – nauðsynlegt er að átta sig á að erlend áhrif á íslensku eru af tvennum toga. Ég hef margoft skrifað um að bæði þjóðfélagsbreytingar og tæknibreytingar setji íslenskuna í vanda, og ensk áhrif gegnum stafræna miðla voru meginástæðan fyrir því að við Sigríður Sigurjónsdóttir og fleiri stóðum fyrir viðamiklu rannsóknarverkefni undir heitinu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ á árunum 2016-2019.

Þess vegna losnum við ekkert við erlend áhrif þótt við takmörkum fjölda útlendinga – væntanlega dettur engum í hug að loka netinu. Það má deila um hvort netið eða fjöldi fólks sem ekki talar íslensku sé meiri uppspretta erlendra áhrifa, en óumdeilanlegt er að stafrænir miðlar– netið, snjalltæki, efnis- og streymisveitur, tölvuleikir o.fl. – hafa gífurleg áhrif og eru að því leyti varhugaverðari að þeir ná mun meira til barna á máltökuskeiði, þegar málkerfi þeirra er í mótun og mjög viðkvæmt. Ég held að takmörkun á notkun barna á stafrænum miðlum og tækni yrði áhrifaríkari verndaraðgerð fyrir íslenskuna en takmörkun á fjölda útlendinga í landinu. En það er auðvitað vænlegra til árangurs í pólitík að beina áherslunni að útlendingunum.

Kári segir líka: „En ég er hins vegar mjög opinn fyrir því að við látum okkar daglega líf vera tvítyngt. Það er að segja, við notum íslensku þar sem það á við og notum ensku, nútímaesperantó, þar sem hún á við.“ Þannig er staðan auðvitað nú þegar, hvort sem okkur líkar betur eða verr – og engar líkur til annars en hún verði þannig áfram. En Kári bætir við: „En maður verður samt að draga einhvers staðar víglínu. Mér finnst sjálfsagt að draga víglínu.“ Þetta er hárrétt og ég hef oft skrifað um þetta – kallað eftir því að staða ensku í íslensku málsamfélagi sé viðurkennd og tekin til alvarlegrar umræðu, einmitt með það í huga að marka enskunni bás, draga þessa víglínu. Það er gífurlega mikilvægt að stjórnvöld móti stefnu í þessu máli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að ná á

Fyrr í dag var hér spurt: „Hvaðan kemur orðalagið að ná á <einhverjum> í merkingunni að ná í viðkomandi (t.d. í síma)? Hver er hugsunin? Er blæbrigðamunur m.v. það síðarnefnda eða er merkingin nákvæmlega sú sama?“ Í svörum hefur komið fram að sumum finnst eðlilegra að nota þolfall, ná á einhvern, nefnt hefur verið að þetta gæti verið landshlutabundið, og svolítið mismunandi skoðanir um merkingarmun hafa komið fram. Mér fannst því ómaksins vert að skoða þetta nánar og komst að því að þetta orðalag virðist ekki vera gamalt í málinu. Í elsta dæminu sem ég finn um það, í Morgunblaðinu 1955, er notað þolfall: „Heyrðum við síðan ekki frá honum í hart nær 30 tíma, þrátt fyrir tilraunir okkar um að ná á hann.“

Tvö næstu dæmin eru úr Nýjum vikutíðindum, það fyrra frá 1967: „Loksins sagði hann: „Ég vil líka gjarnan ná á hana, og ég veit engu meira en þið, hvar hún er niður komin.““ Hitt dæmið er frá 1971: „Við getum aðeins lofað forsjónina fyrir að við skyldum ná á honum áður en hann kom henni í framkvæmd.“ Í Degi 1987 segir: „Það getur reynst erfitt að ná á honum og Dagur hefur fundið fyrir því eins og aðrir.“ En annars fer þetta orðalag ekki að sjást fyrr en eftir aldamót. Í Víkurfréttum 2001 segir: „Helga Hrönn Þórhallsdóttir, húðsjúkdómalæknir hefur verið með stofu þar síðustu ár en hægt er að ná á hana á fimmtudögum.“ Fjölda dæma má svo finna um þetta samband frá síðustu tveimur áratugum, á tímarit.is og í Risamálheildinni.

Eins og dæmin hér að framan sýna er ýmist notað þolfall eða þágufall með ná á. Þolfallið er þó miklu algengara og í raun alveg yfirgnæfandi nema í elstu dæmunum. Hugsanlega er þó einhver fótur fyrir því að landshlutamunur sé á fallnotkun í þessu sambandi – a.m.k. eru flest nýleg dæmi um þágufallið úr blaðinu Norðurslóð sem er gefið út á Dalvík. Það er ljóst að merkingin getur verið bæði 'ná sambandi við' (í síma eða tölvupósti) og 'hitta' (í raunheimum). Merkingarmunurinn á ná á og ná í er óljós og ekki mikill, en mér finnst þó ná á oft vísa til þess að það sé erfitt eða tilviljun að komast í tæri við fólk, og jafnvel að það hafi reynt að koma sér undan því að láta ná sambandi við sig. En þetta er alls ekki algilt.

Ég get hins vegar ekki svarað því hvernig þetta er tilkomið. Ef eingöngu væri notað þágufall mætti ímynda sér að þetta væri stytting úr ná tökum á eða eitthvað slíkt, en það gæti ekki skýrt þolfallið. Hugsanlega skiptir líka máli að ná í er miklu margræðara samband – það merkir ekki bara 'ná sambandi við', heldur líka 'sækja'. Þannig getur ég náði í Hönnu í gær bæði merkt 'ég náði sambandi við Hönnu' og 'ég sótti Hönnu'. Þetta getur líka merkt 'koma höndum yfir, hreppa' – ég náði í síðasta jakkann á útsölunni. Aftur á móti getur ná á varla merkt annað en 'ná sambandi við', annaðhvort rafrænt eða í raunheimum, og er í þeim skilningi „skýrara“ en ná í. Þetta er samt bara tilgáta, en hitt er ljóst að ná á er fremur nýtilkomið og færist í vöxt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ábyrgð á enskunotkun í ferðaþjónustu

Hér hafa undanfarið verið miklar umræður um enskunotkun í íslenskri ferðaþjónustu. Í því sambandi er rétt að rifja upp að á undanförnum árum hafa komið út þrjár merkar skýrslur um tungumál í ferðaþjónustunni, unnar í samvinnu Háskólans á Hólum og Árnastofnunar – höfundar eru Anna Vilborg Einarsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Skýrslurnar heita Ráðandi tungumál í íslenskri ferðaþjónustuStaða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli? og Nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu.

Óhætt er að segja að skýrslurnar dragi upp dökka mynd af stöðu íslensku innan ferðaþjónustunnar og viðhorfum til íslensku innan greinarinnar. Hér fylgja nokkrar tilvitnanir í skýrslurnar:

  • „Niðurstöður gefa vísbendingar um að ferðaþjónustuaðilar telji að enska verði að vera ráðandi tungumál í ferðaþjónustu, sérstaklega í markaðssetningu og færri en fleiri sjá ástæðu til þess að nota íslensku meðfram ensku. Ferðaþjónustuaðilum virðist ekki auðvelt að halda íslenskri tungu á lofti eða nota hana í sinni þjónustu en brýnt er að þeir átti sig á vandanum og velti fyrir sér hvernig best er að taka á málinu.“ (Ráðandi tungumál, bls. 2)
  • „Margir (36%) sögðu að starfsfólk hefði áhuga á að læra íslensku og sæktu slík námskeið ef þau væru í boðið. Starfsfólk sem veldi það gerði það yfirleitt á eigin kostnað. Svörin sýna að meirihluti starfsfólks hefur áhuga á að læra íslensku. Þeir sem sögðu starfsfólk ekki hafa áhuga á því sögðu skýringuna oftast þá að fólk stoppaði svo stutt við.“ (Ráðandi tungumál, bls. 19)
  • „Þannig svöruðu 42% þátttakenda því til að íslenskunám væri ekki í boði í nágrenninu eða að ekkert framboð væri á hagnýtu íslenskunámi sem kæmi að notum í vinnunni. Eða að spurningin ætti ekki við þar sem enginn erlendur starfsmaður væri hjá fyrirtækinu. 49% svarenda sögðu að starfsfólkið hefði ekki áhuga á íslenskunámi, að námið væri á óheppilegum tíma, eða að þau tilgreindu eitthvað annað, s.s. að engir erlendir starfsmenn væru í fyrirtækinu o.fl. Fæstir eða 9% svarenda sögðu starfsfólkið stoppa of stutt við á vinnustaðnum til að það tæki því fyrir það að læra íslensku, námið væri of dýrt fyrir starfsfólkið eða að vinnustaðurinn hefði ekki áhuga á að styrkja íslenskunám starfsfólksins. Þá kom fram að vetrarnámskeið gögnuðust sumarstarfsfólki lítið.“ (Ráðandi tungumál, bls. 28)
  • „Við höfum ekki staðið okkur vel í að auðvelda fólki að læra málið. Þrýstingur á að læra það er lítill og sjálf grípum við allt of fljótt til enskunnar. Þetta kemur vel fram í viðtölunum. Enginn sagðist hafa hvatt erlent starfsfólk til að læra íslensku. Þeir sem vilja læra íslensku hafa sjálfir haft frumkvæðið að því og flestir greiddu fyrir það sjálfir.“ (Ráðandi tungumál, bls. 47-48)
  • „Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að andvaraleysi gagnvart stöðu íslensku sé ríkjandi hvort sem það er hjá opinberum aðilum eða stoðkerfi ferðaþjónustunnar.“ (Staða íslensku, bls. 23)
  • „Við má bæta að kominn er tími til spyrja erlenda ferðamenn um áhuga þeirra á að sjá og heyra íslensku á ferð um landið til þess að fá þær niðurstöður á hreint og vinna út frá þeim. Í viðræðum okkar við aðila, bæði innan og utan ferðaþjónustunnar, hafa komið fram meiningar um að hagstæðast væri að leyfa enskunni að taka við af íslenskunni.“ (Staða íslensku, bls. 24)
  • „Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt fram þá kröfu til sveitarfélaganna að þau móti sína eigin málstefnu hafa þau yfirleitt ekki gert það og skipuleggjendur ferðaþjónustu og umsjónaraðilar hennar hafa ekki brugðist við ruðningsáhrifum ensku á íslensku í auglýsingum. Dæmi um þetta er stefnurammi Samtaka ferðaþjónustunnar til ársins 2030 undir fororðunum: Leiðandi í sjálfbærri þróun, þar sem ekkert er fjallað um tungumál […] Er ekki kominn tími til að spyrja um sjálfbærniáform ferðamálayfirvalda gagnvart íslenskri tungu?“ (Staða íslensku, bls. 24)
  • „Verði íslenska ekki gjaldgeng í ferðaþjónustu á Íslandi og enska verður tekin fram yfir hana mun hljómur og ásýnd landsins breytast. Þar með glatast mikilvæg sérstaða og um leið verðmæti.“ (Nöfn fyrirtækja, bls. 31)

Vitanlega berum við öll ábyrgð á íslenskunni og eins og hér hefur oft verið lögð áhersla á er mikilvægt að Íslendingar breyti framkomu sinni og viðhorfum gagnvart erlendu starfsfólki – sýni því þolinmæði og ýti undir íslenskunotkun þess. En ábyrgð ferðamálayfirvalda og þeirra sem reka fyrirtæki í ferðaþjónustu er sérstaklega mikil og því miður verður ekki séð að þeim sé þessi ábyrgð nógu ljós.

Posted on Færðu inn athugasemd

Leitum lausna – í sátt og samlyndi

Íslenskan er í miklum vanda – við erum í vanda. Það hefur komið fram í umræðum undanfarið, bæði í þessum hópi og víðar á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, að mikið og vaxandi óþol ríkir gagnvart enskunotkun á Íslandi, ekki síst á kaffihúsum, veitingahúsum og í verslunum þar sem oft er ekki hægt að fá afgreiðslu á íslensku. Ég skil þetta óþol vel og hef fundið fyrir þessari tilfinningu sjálfur á ferðum um landið undanfarið. Íslenska er opinbert mál landsins og það er ekkert óeðlilegt að fólk geri ráð fyrir og ætlist til að geta notað íslensku við kaup á vörum og þjónustu. Sumt eldra fólk býr ekki heldur yfir nægilegri enskukunnáttu til að eiga auðvelt með að skilja matseðla sem eru eingöngu á ensku eða ræða á ensku við afgreiðslufólk.

Þess vegna er ástæðulaust að gera lítið úr þessu óþoli – það á sér skiljanlegar skýringar. Hins vegar mega eðlilegar kröfur fólks um að geta notað íslensku alls ekki bitna á því erlenda starfsfólki sem um ræðir og hefur verið ráðið til starfa án þess að krafa hafi verið gerð um íslenskukunnáttu. Það vinnur oft langan vinnudag og óraunhæft að gera ráð fyrir að það stundi íslenskunám með vinnunni. Til þess gefst ekki tími, auk þess sem framboð á heppilegri kennslu og kennsluefni er dapurlega lítið. Það versta er ef óþol fólks brýst út sem útlendingaandúð sem stundum örlar á. Það er ekki bara vont fyrir fólkið sem það bitnar á – það er líka vont fyrir íslenskuna vegna þess að hætta er á að það veki mótþróa gagnvart íslensku og íslenskunámi.

Á þessu er engin einföld lausn til – allra síst sú að amast við útlendingum í afgreiðslustörfum. Við þurfum á þeim að halda til að halda hagkerfinu gangandi. Þeir vinna störf sem Íslendingar geta ekki mannað – eða vilja ekki vinna. Rekstraraðilar veitingahúsa segjast ekkert geta gert – þeir fái ekki Íslendinga til starfa, og það sé óraunhæft að gera ráð fyrir að erlent starfsfólk læri íslensku. Það er samt engin afsökun fyrir því að hafa matseðla eingöngu á ensku eins og ýmis dæmi eru um. Ég held líka að það væri hægt að gera mun meira – kenna erlendu starfsfólki grundvallarorðaforða starfsins sem um er að ræða. Það á alveg að vera hægt að kenna fólki að heilsa og þakka fyrir, kenna því íslensk heiti á helstu réttum sem staðurinn býður upp á, o.s.frv.

En þá verða Íslendingar líka að koma til móts við fólk sem reynir að tala íslensku. Ég vonast til að viðleitni erlends starfsfólks til að tala íslensku myndi gera viðskiptavini jákvæðari í garð fólksins, en sumum útlendingum finnst það jafnvel gera illt verra að reyna að tala íslensku í stað þess að halda sig við enskuna því að þá fái þau oft á sig óvægna gagnrýni fyrir lélegan framburð, rangar beygingar, vitlaus orð o.s.frv. Það er gífurlega mikilvægt að Íslendingar breyti viðhorfi sínu til „ófullkominnar“ íslensku, séu jákvæðir þegar fólk reynir að tala málið, sýni því þolinmæði og leitist við að liðsinna því og hvetja það áfram. Það er ekki vænlegt til árangurs að bregðast við ensku með því að strunsa út af staðnum. Það kemur íslenskunni ekki að gagni.

Við eigum nefnilega engan annan kost en finna raunhæfa lausn sem sættir ólík sjónarmið. Lausn sem tekur mið af því að enskan er komin til að vera í íslensku málsamfélagi og hér mun áfram verða fólk í afgreiðslustörfum sem ekki talar fullkomna íslensku – en jafnframt af því að íslenska er opinbert mál landsins sem mikilvægt er að unnt sé að nota á öllum sviðum, og það er eðlileg ósk fólks að geta notað málið í einföldum samskiptum við útlendinga. Lausnin hlýtur annars vegar að byggjast á því að erlent starfsfólk sé hvatt til að læra íslensku, og því auðveldað það á ýmsan hátt, og hins vegar á breyttu viðhorfi Íslendinga til útlendinga og „ófullkominnar“ íslensku. Lykilatriðin hljóta alltaf að vera umburðarlyndi, virðing og tillitssemi. Á báða bóga.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nýtt skilti á leiðinni

Mér var bent á að við inngang Norræna hússins er skilti sem er eingöngu á ensku. Af því tilefni skrifaði ég kynningar- og samskiptastjóra hússins póst þar sem sagði m.a.:

„Það vekur furðu að skiltið skuli eingöngu vera á ensku en ekki á íslensku og einhverju skandinavísku máli. Er það ný stefna í norrænu samstarfi að hafa eingöngu ensku á skiltum? Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög dapurlegt. Enskan er yfir og allt um kring, en ég hef skilið það svo að tilgangurinn með norrænu samstarfi sé m.a. að efla norræn tungumál og ýta undir notkun þeirra. Enskunotkun af þessu tagi vinnur beinlínis gegn því markmiði. Ég treysti því að þarna eigi eftir að bætast við annað skilti með sömu upplýsingum á íslensku og skandinavísku máli, en ef svo er ekki vonast ég til að þetta séu einhvers konar mistök eða hugsunarleysi sem verði leiðrétt.“

Nú hef ég fengið svar sem ég þakka kærlega fyrir og gefur fyrirheit um breytingar:

„Nei þetta er ekki gott og á ekki að vera svona.

Þetta skilti var sett upp ekki fyrir svo löngu en samt fyrir mína tíð (og núverandi stjórnanda). Þú ert ekki sá fyrsti til að nefna þetta blessaða skilti. En þetta er engin afsökun, við höfum leyft því að standa óþarflega lengi.

Við stöndum í framkvæmdum á húsinu núna, löngu tímabærum endurbótum og þetta skilti verður látið fara og við erum að láta útbúa nýtt í samráði við Alvar Aalto stofnunina og Minjastofnun – því þetta skilti er ekki aðeins á ensku það er einnig mjög ljótt og stenst ekki fegurðarstaðla hússins. Að auki benda örvarnar í allar áttir og engar réttar.

Skelfingar skiltið er það kallað.

En það gleður mig að fá frá þér tölvupóst. [...] Bestu þakkir fyrir að skrifa til mín, ég vona að nýja skiltið muni gleðja gesti okkar.“

Vonandi líður ekki á löngu uns nýja skiltið kemur upp. En þetta sýnir enn einu sinni að við eigum ekki að láta okkur nægja að ergja okkur hvert við annað og á samfélagsmiðlum – við eigum að spyrjast fyrir og gera athugasemdir. Venjulega er brugðist vel við, og oft skilar þetta árangri.