Posted on Færðu inn athugasemd

Kynjahlutföll nafnorða í íslensku að fornu og nýju

Fyrir tæpum fjórum árum svaraði ég eftirfarandi spurningu á Vísindavefnum: „Hver eru kynjahlutföll orða í íslensku? Þ.e.a.s. hversu hátt hlutfall orða er í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni? […] Hefur þetta breyst í gegnum tíðina? […]“ Að gefnu tilefni birti ég hér hluta af svari mínu, nokkuð aukinn og breyttan. En í upphafi er rétt að leggja áherslu á að spurningu um kynjahlutföll má skilja á tvo vegu. Annars vegar getur verið átt við fjölda mismunandi orða í hverju kyni sem til eru í málinu (flettiorð), en hins vegar getur verið átt við hlutfall dæma um orð af hverju kyni í texta (lesmálsorð). Tölur um hið fyrrnefnda liggja ekki fyrir en trúlegt er að kynjahlutföllin séu svipuð þar og í flettiorðunum þótt það þyrfti að kanna nánar.

Spurningu um hlutfall dæma af hverju kyni í texta má svara með vísun til Risamálheildarinnar sem er textasafn úr íslensku nútímamáli og hefur að geyma u.þ.b. 2,7 milljarða lesmálsorða. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð tæp 34% af heildinni, dæmi um kvenkynsorð tæp 32%, og dæmi um hvorugkynsorð rúm 34%. Í Íslenskri orðtíðnibók frá 1991 eru hlutföllin svipuð – karlkyn tæp 35%, kvenkyn tæp 33%, hvorugkyn rúm 32%.  Þessar tölur miðast við samnöfn en sérnöfnum er sleppt. Séu þau tekin með hækkar hlutfall karlkynsorða í Risamálheildinni upp í tæp 37%, einkum á kostnað hvorugkynsorða. Þetta sýnir vel hvað karlmannsnöfn eru áberandi í textunum og það gerir þá karllæga – ekki fjöldi eða hlutfall karlkynsorða út af fyrir sig.

Í fornu máli eru hlutföllin talsvert ólík. Í safni sem hefur að geyma Íslendingasögur, Sturlungu, Heimskringlu og Landnámabók eru tæplega 1700 þúsund orð. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð rúm 60%, dæmi um kvenkynsorð eru tæp 19%, og dæmi um hvorugkynsorð rúm 21%. Þessir fornu textar eru frásagnartextar sem segja fyrst og fremst frá karlmönnum, athöfnum þeirra og afrekum. Sérnöfn eru því miklu hærra hlutfall textans en í nútímatextunum, og flest þeirra eru karlmannsnöfn – rétt tæpur helmingur allra karlkynsnafnorða í þeim eru sérnöfn en aðeins tæpur fjórðungur kvenkynsnafnorðanna og innan við 10% hvorugkynsnafnorða. Ef sérnöfnin eru dregin frá lækkar hlutfall karlkynsorða niður í rúm 47%.

Eftir standa samt ýmiss konar „starfsheiti“ karlmannanna, s.s. konungur, jarl, bóndi, og ýmis frændsemisorð sem mun oftar vísa til karlmanna – sonur, bróðir, frændi o.fl. Ekki er hægt að átta sig á fjölda slíkra orða í fljótu bragði, en ef þau væru dregin frá er ég ekki viss um að hlutfall dæma um karlkynsorð væri miklu hærra í fornum textum en í nútímamáli. En hvað sem því líður sýna þessar tölur tvennt. Annars vegar að ótrúlega mikið jafnræði ríkir í málinu milli málfræðikynjanna þriggja – hlutfall hvers um sig er u.þ.b. þriðjungur af heildinni. Það er mikilvægt fyrir stöðugleik málsins. Hins vegar sýnir þetta að meint karllægni málsins kemur ekki fram í því að karlkyns samnöfn séu yfirgnæfandi, þótt öðru máli gegni um karlmannsnöfn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Í hverju felst karllægni íslenskunnar?

Hér var áðan sett inn skemmtilegt kvæði eftir Þórarin Eldjárn með þeim ummælum að það væri „ágætt innlegg í umræðuna um kynjuð orð og kynjaorð, sem töluvert hefur farið fyrir á þessu spjalli“. En reyndar kemur þetta kvæði sem ég hef séð víða á Facebook í dag þeirri umræðu nákvæmlega ekkert við. Í því er hrúgað saman kvenkynsorðum, væntanlega í þeim tilgangi að vekja athygli á að því fari fjarri að íslenska sé jafn karllæg og stundum er haldið fram. Þar birtist sá útbreiddi og lífseigi misskilningur að barátta gegn karllægni málsins beinist eitthvað gegn karlkynsorðum almennt. En svo er ekki. Málið snýst ekkert um önnur orð en þau sem notuð eru í vísun til fólks og undir það falla aðeins tvö kvenkynsorðanna í kvæðinu – hetja og kempa.

Eins og hér hefur margsinnis verið rakið, m.a. í nokkrum pistlum í síðustu viku, birtist karllægni íslenskra nafnorða einkum á tvennan hátt. Annað er tvíeðli orðsins maður sem er notað í almennri vísun, bæði sem tegundarheiti og um óskilgreindan hóp, en einnig sem eins konar óákveðið fornafn. En þar fyrir utan er það vitanlega mjög oft notað sem andstæða við kona, þ.e. í merkingunni ʻkarlmaðurʼ. Þrátt fyrir hina almennu merkingu hefur orðið maður alla tíð tengst karlmönnum mjög nánum böndum og þess vegna tengja ýmsar konur og kynsegin fólk sig ekki við það eða samsetningar af því, finnst það ekki eiga við sig. Eins og ég hef sýnt fram á byggist þessi staðhæfing ekki á tilfinningu, heldur birtist greinilega í málnotkun í textum.

Hitt er að meginhluti starfsheita, hlutverksheita, íbúaheita o.fl. er karlkyns, og þegar vísað er til þeirra með fornafni er því notað karlkynsfornafn. Mörg þeirra hafa ‑maður sem seinni lið, svo sem vísindamaður, námsmaður, stýrimaður,  formaður, Norðmaður og fjölmörg fleiri, en ýmis önnur karlkynsorð eru líka seinni liður í mörgum starfsheitum, svo sem ‑stjóri í forstjóri og bílstjóri; ‑herra í ráðherra og skipherra; ‑þjónn í lögregluþjónn og barþjónn; o.m.fl. Mörg starfsheiti eru einnig mynduð með karlkynsviðskeytum eins og -ari og -ingurljósmyndari. kennari; tölvunarfræðingur, heimspekingur. Þótt þessi starfsheiti séu málfræðilega karlkyns eru þeim ætlað að vera kynhlutlaus, í þeirri merkingu að þau eru eða hafa verið notuð um öll kyn.

Fólk getur haft mismunandi skoðanir á því hvort tal um karllægni íslenskunnar eigi rétt á sér, en sé um einhverja karllægni að ræða felst hún a.m.k. ekki í tilvist eða notkun karlkynsorða almennt – orða eins og stóll, lampi, bíll, vagn, heili, fótur, vindur, bylur, vetur, dagur, vegur, stígur, skuggi, litur, pallur, stallur, gluggi, veggur, hugur, harmur o.s.frv. Þótt þessi orð séu öll karlkyns dettur engum í hug að halda því fram að þau stuðli á einhvern hátt að karllægni málsins. Þess vegna kemur það málinu ekkert við þótt auðvelt sé að yrkja heilt kvæði með eintómum kvenkynsnafnorðum. Að halda því fram eða gefa í skyn að karllægnin felist í fjölda karlkynsorða almennt er að misskilja málið hrapallega eða afvegaleiða umræðuna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Breyting á eignarfalli kvenkyns -un-orða

Í dag var nefnt hér að algengt væri orðið að forsetningin vegna stýrði öðru falli en eignarfalli, einkum á kvenkynsorðum sem enda á -un – sagt væri vegna hlýnun, vegna lokun, vegna skoðun o.s.frv. Þetta er svo sem ekki nýtt. Helgi Skúli Kjartansson vakti fyrstur máls á þessu í grein sem heitir „Eignarfallsflótti“ í Íslensku máli 1979. Hann fjallar þar um ýmis dæmi þess að önnur föll en hefðbundið er séu notuð í stað eignarfalls og tekur m.a. dæmi eins og „Vegna […] röskun áætlunar“. Í slíkum dæmum getur tvennt komið til: Annars vegar breytt fallstjórn, t.d. að vegna fari að stjórna þolfalli í stað eignarfalls, en hins vegar breyting á einstökum fallmyndum ákveðinna beygingarflokka, t.d. að kvenkynsorð sem enda á -un missi eignarfallsendinguna.

Annað dæmi sem nefnt var í sömu andrá var eignarfall kvenkynsorða sem enda á -ingvegna byggingu hússins. Um slík dæmi skrifaði ég einu sinni pistil og taldi að þar væri ekki um breytta fallstjórn að ræða, heldur hefðu slík orð tilhneigingu til að fá -u-endingu í eignarfalli fyrir áhrif frá þolfalli og þágufalli. Vissulega má ímynda sér sömu skýringu á dæmum eins og vegna hlýnun – þar yrði eignarfallið endingarlaust fyrir áhrif frá öðrum föllum orðsins. En á þessu tvennu er þó sá grundvallarmunur að endingarlaust eignarfall á sér engin fordæmi í kvenkynsorðum, nema í litlum hópi orða sem enda á -i (gleði, reiði o.fl.). Eignarfallsendingin -u er aftur á móti ending hins geysistóra hóps veikra kvenkynsorða og því mjög algeng.

En ég fór að skoða dæmi um vegna X-un í Risamálheildinni, þ.e. dæmi þar sem kvenkyns -un-orð eru endingarlaus í eignarfalli á eftir vegna, og fann margfalt meira en ég átti von á – hátt í þúsund dæmi. Fyrir utan fjöldann kom það mér líka á óvart að meginhluti dæmanna var úr tiltölulega formlegum textum – einkum fréttum prentmiðla og vefmiðla, en einnig alþingisræðum, dómum o.fl. Það er samt rétt að leggja áherslu á að þótt dæmin séu þetta mörg er hlutfallið ekki hátt – dæmi um X-unar, þ.e. þar sem vegna tekur með sér -un-orð með endingunni -ar, eru rúm 90 þúsund. En þúsund dæmi eru samt of mörg til að hægt sé að afskrifa þau sem villur af einhverju tagi, heldur hljóta þau að vitna um að einhver breyting sé í gangi.

En er þetta breyting á fallstjórn eða beygingarmynd? Til samanburðar má nefna að 23 dæmi eru um endingarlausu myndina grun í sambandinu vegna grun um. Það eru ekki fleiri dæmi en svo að vel gæti verið um innsláttarvillur að ræða, í ljósi þess að dæmin um vegna gruns um eru tæp 20 þúsund. Þetta gæti bent til þess að breytingin væri einkum bundin við kvenkynsorð sem enda á -un og því um breytingu á beygingarmynd að ræða. Þessi breyting virðist nefnilega ekki bundin við forsetninguna vegna – það er líka töluvert af dæmum um endingarlaus -un-orð á eftir forsetningunni til sem stjórnar eignarfalli eins og vegna. Þetta eru dæmi eins og „Aukin upptaka af koltvísýringi í hafinu hefur leitt til súrnun þess“ í Fréttablaðinu 2021.

Lausleg athugun bendir því til þess að dæmi eins og vegna hlýnun séu frekar til marks um að kvenkyns -un-orð séu farin að missa eignarfallsendinguna en að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast. Þetta þarf þó að kanna miklu nánar, og vel má vera að einhver merki séu líka um breytta fallstjórn. Ég hef yfirleitt engar áhyggjur af breytingum á endingum einstakra orða – það skiptir engu máli fyrir málkerfið hvort við segjum hurðir eða hurðar, tugs eða tugar, vegna byggingu eða vegna byggingar, o.s.frv. En öðru máli gegnir um það þegar ending fellur alveg brott án þess að nokkuð komi í staðinn. Það veikir eignarfallið sem er sjaldgæfast fallanna og stendur veikt fyrir. Þess vegna finnst mér ástæða til að reyna að sporna við þessari breytingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kynjaðir textar

Undanfarið hef ég skrifað hér allnokkra pistla um kynjamál, ekki síst merkingu og notkun orðsins -maður og samsetninga af því. Ég veit að sumum þykir nóg um og í vikunni var sett hér inn nafnlaus færsla þar sem spurt var hvort þetta væri orðinn einhver femínistahópur – eins og það væri eitthvað hræðilegt. Tilgangurinn með þessum pistlum er samt ekki sá að reka áróður fyrir málbreytingum í átt til kynhlutleysis þótt ég geri mér grein fyrir því að svo kunni að líta út. En mér finnst kynjamál og karllægni tungumálsins vera efni sem mikilvægt er að ræða og tilgangurinn er að skjóta fræðilegum stoðum undir þá umræðu með því að skoða raunverulega málnotkun. Ef ykkur finnst nóg komið af svo góðu sleppið þið því auðvitað bara að lesa þetta.

Umræðan um merkingu einstakra orða hefur að mestu leyti byggst á orðabókarskilgreiningum annars vegar og hins vegar á máltilfinningu þeirra sem tala eða skrifa hverju sinni. En orðabókarskilgreiningar eru í eðli sínu frekar íhaldssamar og normatífar og lýsa auk þess fyrst og fremst grunnmerkingu orða en ekki ýmsum aukamerkingum sem ráða má af notkun orðanna (og koma stundum fram í notkunardæmum). Máltilfinning okkar er einmitt það – máltilfinning okkar, og annað fólk hefur oft aðra máltilfinningu. Þar að auki endurspeglast sú máltilfinning sem við höldum að við höfum – eða höldum fram að við höfum – ekki alltaf í málnotkun okkar. Staðreyndin er sú að við gerum okkur oft litla grein fyrir því hvernig við tölum sjálf.

Við getum lagt áherslu á það ef við viljum að konur séu menn, að fólk af öllum kynjum geti sagt ég er maður um sig sjálft, að Bandaríkjamaður merki 'mannvera frá Bandaríkjunum, óháð kyni', að karlmaður og kvenmaður séu tvö hliðstæð og jafngild orð, og að Olsen er Dani geti vísað til fólks af hvaða kyni sem er. Þetta er allt hárrétt, út af fyrir sig – út frá orðabókarskilgreiningum og þeirri máltilfinningu sem margt fólk telur sig hafa. En það segir ekki alla söguna, og að endurtaka þetta aftur og aftur skilar okkur ekki langt í umræðunni. Þess vegna er mikilvægt að leita annarra sjónarhorna – skoða hvað málnotkun fólks segir um þessi atriði, og hvort það rímar við orðabókarskilgreiningarnar og máltilfinningu fólks.

Þá kemur í ljós að engin framangreindra fullyrðinga lýsir því hvernig þessi orð og orðasambönd eru notuð í raunverulegum textum af ýmsu tagi – þar kemur verulegur kynjamunur fram í öllum þessum atriðum eins og ég hef gert grein fyrir í þeim pistlum sem ég hef skrifað undanfarið. Þótt vissulega sé hægt að deila um túlkun fjölmargra dæma er þessi munur miklu meiri en svo að hann geti verið tilviljun. Svo má vitanlega velta því fyrir sér – og deila um – hvort eigi að túlka þennan mun þannig að konur (og kynsegin fólk) standi höllum fæti gagnvart körlum í tungumálinu, og hvort það endurspegli þá – eða jafnvel stuðli að – veikari stöðu þeirra í samfélaginu. En það er annarra að svara því – ég er bara að sýna hvernig þetta er í textum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Um karlmenn og kvenmenn

Það er stundum nefnt sem rök fyrir notkun orðsins maður í kynhlutlausri merkingu að af því séu til hliðstæðar og jafngildar samsetningar – karlmaður og kvenmaður. Þetta er auðvitað rétt svo langt sem það nær, eins og fram kemur í lýsingum orðanna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Um karlmaður segir þar: „ORÐHLUTAR: karl-maður“ og skýring 'karlkyns mannvera' og um kvenmaður segir: „ORÐHLUTAR: kven-maður“ og skýring 'kvenkyns mannvera'. Þetta er vissulega hliðstætt, en dæmin sem eru tekin um orðin segja aðra sögu. Dæmi um kvenmaður er „hann mætti á árshátíðina með nýjan kvenmann upp á arminn“ en um karlmaður eru tekin dæmin „það þurfti fjóra fíleflda karlmenn til að lyfta skápnum“ og „vera sannur karlmaður“.

Augljóslega er gerólíkur blær á þessum dæmum, en ég er ekki að gagnrýna orðabókina fyrir að mismuna kynjunum. Þvert á móti – ég fæ ekki betur séð en þarna komi dæmigerð notkun orðanna einmitt vel fram. Orðið karlmaður tengist oft jákvæðum eiginleikum eins og styrk, afli, hreysti o.þ.h., sbr. líka orðin karlmenni og karlmennska, en orðið kvenmaður tengist oft einhverju sem talið er neikvætt, svo sem í útliti, skapgerð eða hegðun. Ég legg áherslu á að þetta er fjarri því að vera algilt, og vitanlega eru orðin oft notuð sem hliðstæður hlutlausrar merkingar, án einhverra aukamerkinga af því tagi sem hér voru nefndar. En það þarf ekki annað en skoða dæmi um samböndin þessi karlmaður og þessi kvenmaður á tímarit.is til að sjá muninn.

Um sambandið þessi kvenmaður eru 712 dæmi – hér eru nokkur gömul. Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Þessi kvenmaður þarna eða bæjarfulltrúi (Bríet) ætti ekki að hlæja að þessu.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1932 segir: „Eða átti hann að láta alla kunningja sína, allan bæinn sjá hvernig þessi kvenmaður hafði farið með hann?“ Í Alþýðublaðinu 1941 segir: „Þessi kvenmaður hefir gert svo mikið hneyksli hér.“ Í Vikunni 1942 segir: „Þér ættuð að gæta orða yðar, því að þessi kvenmaður hefir illt í hyggju.“ Í Samtíðinni 1942 segir: „Mér fannst vægast sagt, að þessi kvenmaður væri þrátt fvrir allt hæglæti sitt óþægilega gustmikill.“ Í Vikunni 1945 segir: „Aldrei hefir mér fundizt nokkur manneskja tala eins mikið og þessi kvenmaður.“

Einnig má taka dæmi frá þessari öld. Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Heyrðu, hvern mann hefur þessi kvenmaður að geyma? Er þetta ekki skass?“ Í Fréttablaðinu 2003 segir: „Þessi kvenmaður er með HORMOTTU!“ Í DV 2009 segir: „„Það er ekki vitað hvað þessum kvenmanni gengur til með þessu en líklegt er talið að hún sé veik á geði.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Ég mætti þessum kvenmanni nokkrum mínútum síðar – þá í fötum – í röð á skemmtistað. Hún var reykjandi, einsömul og í stuttbuxum og hlýrabol.“ Í DV 2013 segir: „Að sögn bróður Lennie var ekki óvanalegt að Lennie sæist ekki í tvo daga eða svo sem hann eyddi hjá þessum kvenmanni eða hinum.“ Meirihluti nýlegra dæma um sambandið virðist vera í þessum dúr.

Vissulega getur oft verið matsatriði hvort samhengið sé neikvætt og eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á einstökum dæmum, en það er þó enginn vafi að gífurlegur munur er á samböndunum þessi kvenmaður og þessi karlmaður. Um það síðarnefnda eru aðeins 83 dæmi eða rétt rúm 10% af samanlögðum dæmafjölda um samböndin tvö. Vissulega eru þar einstöku dæmi sem hægt er að túlka neikvætt, eins og „Jeg vil ekki hafa að þessi karlmaður kyssi þig svona, sagði faðirinn, þegar dóttirin kom upp“ í Morgunblaðinu 1949, en það er samt augljóst að slík dæmi eru ekki nema örfá miðað við dæmin um neikvæða merkingu í þessi kvenmaður. Það er í raun himinn og haf milli dæmigerðrar notkunar orðanna karlmaður og kvenmaður.

Posted on Færðu inn athugasemd

Útlendingaandúð undir formerkjum málverndar

Það er dapurlegt þegar alið er á útlendingaandúð undir formerkjum umhyggju fyrir íslenskunni og íslenskri menningu. „Þannig að ef við ætlum að leyfa þessari fólksfjölgun að eiga sér stað á þessum forsendum, að íslenska og íslensk menning sé ekki samnefnari heldur bara að þetta sé einhvern veginn alls konar, þá er útséð með íslenska þjóð. Ég er ekki að tala um Ísland fyrir Íslendinga, en bara þennan menningarheim sem við höfum búið í hérna í 1200 ár.“ En þessi menningarheimur hefur sannarlega ekki verið sá sami í þessi 1200 ár. Hann hefur tekið stórkostlegum breytingum, fyrst og fremst vegna erlendra áhrifa – kristninnar um árið 1000, siðaskiptanna á 16. öld, danskrar stjórnar, bandarískrar hersetu, sjónvarps, nets o.s.frv.

Sama er um íslenskuna – hún hefur líka orðið fyrir erlendum áhrifum á öllum tímum og ekki síst á 21. öldinni. En það er ekki bara, og ekki aðallega, vegna innflytjenda. Það er einnig og ekki síður vegna margvíslegra tækni- og samfélagsbreytinga síðustu árin. Hitt er vissulega rétt að miklir fólksflutningar til Íslands, sem og gífurleg fjölgun ferðafólks, gætu að óbreyttu sett stöðu íslenskunnar sem aðalsamskiptamáls í landinu í uppnám á næstu árum og þau mál er mikilvægt að ræða. „Þannig að stór mál sem skipta okkur máli, eins og íslensk tunga og menning og hvernig þetta fjölmenningarsamfélag mun hafa áhrif á okkar samfélag og breyta því varanlega og hugsanlega óafturkræft. Hvaða skoðun höfum við á því?“ segir í viðtalinu.

En þetta þýðir ekki að við eigum að loka landinu eða amast við fjölgun innflytjenda. Við þurfum á þessu fólki að halda vegna þess að fæðingartíðni hefur lækkað og við getum ekki mannað öll störf sem þarf að vinna. Það sem við þurfum að gera er að efla íslenskuna með stóraukinni kennslu í íslensku sem öðru máli og auka umburðarlyndi, bæði gagnvart „ófullkominni“ íslensku og gagnvart öðrum tungumálum. Enskan er komin til að vera, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við þurfum hins vegar að sjá til þess að hún ýti ekki íslenskunni burt af ýmsum sviðum eins og hún er á góðri leið með. En þar er ekki við innflytjendur að sakast heldur íslenska atvinnurekendur sem hafa ekki metnað til að auglýsa á íslensku eða kenna starfsfólki sínu málið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eru konur kannski menn?

Á tuttugustu öld tóku konur upp á því að krefjast þess að vera menn. Sú krafa varð fyrst hávær með Rauðsokkunum upp úr 1970, þótt elsta dæmi sem ég hafi fundið á prenti um það að kona segist vera maður sé úr Atómstöðinni sem kom út 1948. Þar segir Ugla: „Ég vil kaupa mér kápu fyrir þá penínga sem ég hef unnið mér inn af því ég er maður.“ En langþekktasta dæmið um þetta er úr sjónvarpsumræðum forsetaframbjóðenda vorið 1980. Þar var Vigdís Finnbogadóttir spurð: „Má þá ekki orða það sem svo að það eigi að kjósa þig af því að þú ert kona?“ En Vigdís svaraði að bragði: „Nei. Það á ekki að kjósa mig af því að ég er kona. Það á að kjósa mig af því að ég er maður. Og innan orðsins maður er bæði karl og kona.“ Enn er oft til þessa vitnað.

Löngu síðar, 2015, sagði Vigdís svo í viðtali: „Konur eru menn, við erum kvenmenn. Ég var spurð að því í kosningabaráttunni hvort það ætti að kjósa mig af því ég er kona og ég sagði nei, það á að kjósa mig af því ég er maður! Sem þótti ansi gott svar. Og nú er búið að eyðileggja það svar!“ En var eitthvað að eyðileggja? Notkun orðsins á prenti bendir ekki til að konur hafi verið menn í málvitund þeirra sjálfra. Á tímarit.is eru alls 750 dæmi um sambandið ég er maður og nær öll um karla – í einstöku tilvikum dugir samhengið ekki til að átta sig á kyni mælandans. Í Risamálheildinni (2019) sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða, aðal­lega frá síðustu 20 árum, eru 89 dæmi um ég er maður – engin um konur nema nokkrar vísanir í áðurnefnd orð Vigdísar.

Á tímarit.is má finna 176 dæmi um samböndin konur eru menn og konur eru líka menn, flest frá því á Rauðsokkatímanum upp úr 1975. Eldri dæmi má þó finna – „Og konur eru líka menn“ er haft eftir Laufeyju Valdimarsdóttur, kvenréttindakonu og dóttur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Það er þó athyglisvert að sambandið konur eru líka menn er stundum sett sem viðbót, innan sviga eða afmarkað með þankastrikum, á eftir orðinu menn, t.d. „Jafnvel hér, norður undir heimskautsbaug, hitnar mönnum – konur eru líka menn – í hamsi.“ Þetta sýnir vitaskuld að textahöfundum hefur ekki þótt sjálfgefið að menn yrði skilið sem almenn vísun til karla og kvenna og bendir til þess að sú notkun hafi verið í ósamræmi við almenna máltilfinningu.

Kjörorðið „konur eru líka menn“ var mjög eðlilegt á sínum tíma – konur vildu minna á að þessir menn sem sífellt væri verið að tala um væru ekki bara karlar, og konur ættu að njóta jafnréttis við karla á öllum sviðum. Eftir á að hyggja er spurningin hins vegar hvort það hafi verið nauðsynlegt eða skynsamlegt að láta þessa kröfu ná til tungumálsins á þann hátt sem gert var – hvort það hafi e.t.v. leitt til þess að konur gengju inn í karlaheim tungumálsins á forsendum karlanna. Hefur einhvern tíma á seinni öldum verið eðlilegt að nota maður/menn um tiltekna konu eða konur? Eins og hér hefur verið rakið benda ritaðar heimildir a.m.k. til þess að konur noti sjaldan nota orðið maður um sjálfar sig og lýsi sér sjaldan með orðum sem enda á -maður.

Vissulega erum við öll af tegundinni maður. En það táknar ekki sjálfkrafa að öllum konum eða kynsegin fólki finnist eðlilegt að segja ég er maður, eða konur eru menn. Ástæðan er sú að orðið maður tengist karlmönnum miklu nánari böndum en konum og hefur gert það alveg síðan í fornu máli eins og ég rakti í fyrirlestri sem ég flutti í fyrrahaust, og því er oft erfitt fyrir konur og kynsegin fólk að samsama sig þessu orði. Vitanlega er sjálfsagt að konur sem vilja segja ég er maður geri það – þær hafa góð rök fyrir því. En að ætlast til þess að annað fólk geri eins – ætlast til þess að öllum þyki þetta eðlilegt orðalag – er tilhneiging til málstýringar, ekki síður en að setja fiskari í stað fiskimaður eða öll velkomin í stað allir velkomnir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Áhrif kyns á setningagerð

Í pistli sem ég skrifaði fyrir tveimur árum sagðist ég ómögulega geta sagt Bandaríkjamaðurinn Valerie Allman, þ.e. ég gæti ekki haft kvennafn með Bandaríkjamaðurinn, en aftur á móti gæti ég alveg sagt Valerie Allman er Bandaríkjamaður og bætti við: „Það skiptir sem sé máli fyrir mig hvort Bandaríkjamaður stendur hliðstætt nafninu – á undan því – eða sem sagnfylling með sögninni vera.“ Í umræðum hér undanfarna daga hefur komið fram að fleiri hafa þessa sömu tilfinningu – það virðist vera auðveldara í máli margra að nota karlkyns íbúaheiti til að skipa konum í hóp eða tegund (Valerie er Bandaríkjamaður) en til að lýsa þeim eða einkenna (Bandaríkjamaðurinn Valerie). En þegar að er gáð er samt líka kynjamunur á sagnfyllingum.

Ég skoðaði átta íbúaheiti – Dani, Norðmaður, Svíi, Finni, Englendingur, Þjóðverji, Frakki og Pólverji. Ég leitaði að dæmum um <sérnafn> er/var<íbúaheiti> og fékk dæmi eins og Olsen er Dani. Einnig skoðaði ég samsvarandi lýsingarorð – leitaði að dæmum eins og <sérnafn> er/var X-skur/X-sk, þ.e. leitaði bæði að lýsingarorðum í karlkyni og kvenkyni, og fékk dæmi eins og Jeppe er danskur og Janne er dönsk. Ég tók bara með þau dæmi þar sem hægt hefði verið að nota þjóðaheitið í staðinn fyrir lýsingarorðið, segja Jeppe er Dani og Janne er Dani, en sleppti dæmum þar sem lýsingarorðið stóð með nafnorði sem ákvarðaði kyn þess, eins og Rask var danskur málfræðingur og Harder er dönsk landsliðskona.

Þarna eru sem sé tvær mismunandi aðferðir til að tengja fólk við ákveðna þjóð – íbúaheiti sem eru notuð í 30% tilvika og lýsingarorð sem eru notuð í 70% tilvika. Fyrir fram mætti búast við að aðferðirnar væru notaðar álíka mikið hvort sem um karl eða konu væri að ræða – að bæði íbúaheitin og lýsingarorðin vísuðu til kvenna í u.þ.b. 30% tilvika, því að um það bil 30% þeirra sem fyrir koma í þeim dæmum sem ég skoðaði eru konur en 70% karlar. En því fer fjarri – íbúaheitin vísa til kvenna í innan við 5% tilvika, en aftur á móti vísa lýsingarorðin til kvenna í um 40% tilvika. Það er því greinilegt að þegar val er um að nota íbúaheiti eða samsvarandi lýsingarorð kjósa margir málnotendur fremur lýsingarorðið þegar vísað er til kvenna.

Á íbúaheitunum og lýsingarorðunum er auðvitað sá grundvallarmunur að íbúaheitin eru öll í karlkyni, en lýsingarorðin ýmist í karlkyni eða kvenkyni. Það er erfitt að sjá aðra ástæðu fyrir þessum kynjamun en að ósamræmi milli karlkyns íbúaheitanna og kvenkyns þeirra sem þau vísa til trufli marga málnotendur sem velji fremur að nota lýsingarorð þar sem hægt er að hafa samræmi. Þetta leiðir til þeirrar óvæntu en skemmtilegu niðurstöðu að kyn þeirra sem um er rætt hefur áhrif á setningagerð. Nafnorðin vísar langoftast til karlmanna (Daninn X, X er Dani) en þegar rætt er um konur eru nafnorðin frekar sjaldgæf en lýsingarorðin oftast notuð í staðinn (danska konan X, hin danska X, X er dönsk). Íslensk íbúaheiti eru sannarlega ekki kynhlutlaus.

Posted on Færðu inn athugasemd

Karllægni íslenskra íbúaheita

Í umræðum um kynhlutlaust mál er því oft haldið fram að málfræðilegt kyn sé allt annað en kyn mannfólksins og komi því lítið við. Það er vitanlega rétt að vissu marki – það kemur kyni fólks ekkert við að stóll skuli vera karlkyns, borð hvorugkyns en borðplata kvenkyns – eða að heili skuli vera karlkyns, hjarta hvorugkyns en lifur kvenkyns. En orð sem hafa það hlutverk að vísa til fólks hafa óneitanlega oft tengsl við kyn fólksins – ekki öll, og ekki alltaf, en miklu meira og oftar en látið er í veðri vaka og við áttum okkur á. Margt bendir til að kyn orðanna hafi áhrif á það hvernig við notum þau, og áhrif á hugmyndir okkar um fólkið sem þau eru höfð um. Í gær skrifaði ég um íbúaheiti sem enda á -maður og hvernig þau virðast mun síður notuð í vísun til kvenna en til karla.

En þetta kemur ekki bara fram í íbúaheitum sem enda á -maður þótt það sé mest áberandi í þeim. Sama tilhneiging virðist koma fram hjá öðrum íbúaheitum – sem eru öll karlkyns. Ég hef skoðað í Risamálheildinni orð sem eru mynduð á mismunandi hátt – Dani, Svíi, Finni, Englendingur, Breti, Þjóðverji, Frakki. Öll þessi orð eru margfalt oftar notuð um karla en konur en það er ekki að marka vegna þess að karlar eru yfirgnæfandi í textunum. Það sem kemur hins vegar fram er að í öllum tilvikum er nokkuð af dæmum um lýsingarorð sem vísar til þjóðernis og orðið konadanska konan X o.s.frv. – en nær engin dæmi um slík lýsingarorð með orðinu karl, maður eða karlmaður. Einkum er þó fjöldi dæma um lausan greini og lýsingarorð sem vísar til þjóðernis – hin danska X o.s.frv.

Vissulega eru einnig mörg sambærileg dæmi sem vísa til karla – hinn danski X o.s.frv. En þótt slík dæmi séu álíka mörg og þau sem vísa til kvenna er hlutfall dæma þar sem vísað er til kvenna á þennan hátt í stað þess að nota íbúaheitið margfalt hærra en þegar um vísun til karla er að ræða. Hér má taka dæmi af þekktu dönsku íþróttafólki, karli og konu. 110 dæmi eru um Daninn Mikkel Hansen en fimm um hinn danski Mikkel Hansen. Aftur á móti eru aðeins þrjú dæmi um Daninn Pernille Harder en 44 um hin danska Pernille Harder.  Þetta verður ekki túlkað á annan hátt en þann að margir málnotendur hafi tilhneigingu til að forðast – líklega oftast ómeðvitað – að láta karlkyns þjóðaheiti standa með kvennafni. Vitanlega er þetta ekki algilt, en tilhneigingin er augljós.

Þetta þýðir í raun að þótt íslensk íbúaheiti – sem eru öll karlkyns eins og áður segir – séu að nafninu til kynhlutlaus, í þeim skilningi að þau eigi að vera hægt að nota um fólk óháð kyni, hafa þau í raun mikla karlaslagsíðu í huga málnotenda. Það þýðir jafnframt að engin raunverulega kynhlutlaus íbúaheiti eru til í málinu. Hvað það þýðir fyrir (ómeðvitaðar) hugmyndir okkar um stöðu kynjanna, og fyrir tungumálið, er svo annað mál. Þýðir það að sjálfgefin hugmynd okkar um íbúa tiltekins lands sé karlmaður? Þýðir það að við þurfum að leggja áherslu á að búa til raunverulega kynhlutlaus íbúaheiti? Það er ekki mitt að svara þessum spurningum og tilgangurinn með þeim er ekki að hvetja til einhverra aðgerða, heldur að vekja okkur til umhugsunar um það hvernig málið virkar í raun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Um meint kynhlutleysi samsetninga með -maður

Þegar ég heyrði orðið Bandaríkjakona notað í íþróttafréttum í fyrrakvöld rifjaðist upp fyrir mér pistill sem ég skrifaði fyrir tveimur árum, þar sem ég sagði að mér væri lífsins ómögulegt að segja Bandaríkjamaðurinn X ef vísað væri til konu, og það stafaði ekki af „einhverri kynjapólitískri rétthugsun“. Nú fór ég að skoða málið nánar og komst að því að ég er ekki einn um þessa tilfinningu. Í Risamálheildinni eru 10.695 dæmi um orðið Bandaríkjamaðurinn á undan sérnafni. Ég fór í gegnum þau öll og taldi aðeins 42 dæmi sem vísuðu til konu – 0,4%. Nú er ekki óhugsandi að mér hafi skotist yfir einhver dæmi en hlutfallið er þó örugglega ekki yfir 0,5%, sem sýnir auðvitað gífurlega kynjaslagsíðu í fréttum fjölmiðla því að flest dæmanna eru komin úr fréttatextum.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Þegar vísað er til konu er stundum notað sambandið Bandaríkjakonan X eins og í fréttinni sem ég nefndi í upphafi – um þetta er 141 dæmi í Risamálheildinni. En þar að auki er stundum notað nafnorðið kona og lýsingarorð sem vísar til þjóðernis eða laus greinir og lýsingarorð í stað eins nafnorðs. 133 dæmi eru um sambandið bandaríska konan X og 834 dæmi um hin bandaríska X – en ekkert dæmi er um bandaríski kvenmaðurinn X. Samtals eru því 1.210 dæmi um að Bandaríkjakonan X, bandaríska konan X og hin bandaríska X sé notað í staðinn fyrir Bandaríkjamaðurinn X í vísun til kvenna. Þegar 42 dæmum um Bandaríkjamaðurinn X í vísun til konu er bætt við kemst hlutfall kvenna upp í næstum 10%.

Þegar vísað er til konu með einhverri framangreindra aðferða er sambandið Bandaríkjamaðurinn X því aðeins notað í tæplega 3,5% tilvika. Þetta snýst hins vegar algerlega við þegar notkun sambærilegra sambanda um karla er skoðuð. Aðeins er eitt dæmi um bandaríski maðurinn X, eitt um banda­ríski karlmaðurinn X og ekkert um bandaríski karlinn X – en 408 um hinn bandaríski X. Ef vísað er til karls er sambandið Bandaríkjamaðurinn X því notað í 96% tilvika. Þetta er sláandi munur og sýnir glöggt að mörgum málnotendum finnst ekki eðlilegt að nota samsetningu með -maður í vísun til konu heldur leita annarra leiða – ýmist nota samsvarandi orð sem endar á -kona eða nota lýsingarorð sem er sjaldgæft í vísun til karla.

Þetta er ekki nýtt – ég fann m.a.s. dæmi um bandaríska konan X í grein eftir sjálfan mig frá 1980, löngu áður en nokkuð var farið að ræða kynjamál í þessu sambandi. Í þessu tilviki vill svo til að orðið Bandaríkjakona var til í málinu allt frá því um aldamótin 1900 og því auðvelt að grípa til þess. Slíku er ekki til að dreifa í öðru íbúaheiti sem endar á -maður Norðmaður. Þar er ekki hægt að grípa til orðsins *Norðkona því að það á sér enga hefð í málinu en að öðru leyti eru hliðstæð sambönd notuð þótt hlutföllin séu aðeins önnur – Norðmaðurinn X er notað í um 8% vísana til kvenna en í um 85% vísana til karla. Þessi dæmi sýna svo skýrt sem verða má að því fer fjarri að íbúaheiti sem enda á -maður séu kynhlutlaus í huga málnotenda.