Í nafni guðs föðurs

Í gær lenti ég í umræðu á netinu um eignarfallið föðurs sem málshefjandi hafði séð í auglýsingu og hneykslaðist á. Það er engin furða – í Íslenzkri málfræði Björns Guðfinnssonar, sem við sem erum komin yfir miðjan aldur lærðum flest (og mörg yngri) segir: „Algengt er að menn beygi þessi orð skakkt. Orðin faðir og bróðir heita þá oft í ef.et. föðurs, bróðurs, með greini föðursins, bróðursins.“ Í Málfarsbankanum segir: „Orðið faðir er eitt fárra orða í sínum beygingarflokki. Það veldur því að fólki hættir frekar til að beygja það ranglega. Eignarfall eintölu er t.d. ekki „föðurs“, með greini „föðursins“, eins og halda mætti út frá algengustu beygingarflokkunum heldur föður, með greini föðurins. Í nafni föðurins, sonarins og heilags anda.

En eignarfallið föðurs hefur tíðkast lengi, og í safni norrænu fornmálsorðabókarinnar, Ordbog over det norrøne prosasprog, eru fjölmörg dæmi um það úr fornu máli. Í fyrstu bók sem prentuð var á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540, mun eignarfall eintölu „tíðast enda á -(u)rs“ að sögn Jóns Helgasonar. Í málfræði Jóns Magnússonar frá fyrri hluta 18. aldar er eignarfall eintölu sagt ýmist föður eða föðurs. Málvöndunarmaðurinn Halldór Kr. Friðriksson segir í Íslenzkri málmyndalýsingu 1861: „Þegar greinirinn er skeyttur aftan við faðir, verður eig.eint. föðursins“, og í Islandsk Grammatik Valtýs Guðmundssonar frá 1922 er myndin föðurs gefin en sagt að hún „bruges kun (og altid)“ þegar greini er bætt við, föðurs-ins.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 segir að eignarfall orðsins faðir sé „föður el. (pop.) föðurs“ – „pop.“ merkir 'alþýðumál'. Í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld eftir Björn K. Þórólfsson frá 1925 segir að eignarfallsmyndin föðurs „heyrist oft í nútíðar talmáli“. Það er því ljóst að eignarfallið föðurs hefur tíðkast í margar aldir og jafvel verið hin venjulega eignarfallsmynd vel fram á 20. öld. Það eru varla mikið meira en hundrað ár síðan farið var að hrekja hana skipulega úr málinu – sem tókst þó ekki. Eins og sjá má á tímarit.is hefur alltaf verið töluvert af dæmum um hana, þrátt fyrir að textar þar séu flestir prófarkalesnir. Þar eru um 1400 dæmi um föðurs en tæp tvö þúsund um föðursins (á móti átta þúsund um föðurins).

Í Risamálheildinni eru yfir 1300 dæmi um föðurs og hátt á áttunda hundrað um föðursins (á móti tæplega þrjú þúsund um föðurins). Mörg þessara dæma eru úr formlegu málsniði. Þetta sýnir að eignarfallsmyndir með -s lifa góðu lífi enn, þrátt fyrir að reynt hafi verið í meira en öld að kveða þær niður. Það er engin furða. Nær öll sterk karlkynsorð (þ.e., sem enda á samhljóði í nefnifalli eintölu) fá endingu í eignarfalli eintölu, oftast -s en stundum -ar. Undantekningar eru orð sem enda á tvöföldu s, eins og foss, og orð sem enda á samhljóði + s, eins og dans (þar er af hljóðfræðilegum ástæðum ekki hægt að bæta við auka s-i en sum slík orð hafa reyndar tilhneigingu til að fá -ar-endingu, eins og Selfoss) – og svo orðin faðir og bróðir.

Myndir eins og föðurs og bróðurs (og einnig Selfossar og Blönduósar og fleiri slíkar) eru því ekki einhverjar tilviljanakenndar og óskiljanlegar „villur“ sem beri vott um vankunnáttu þeirra sem nota þær. Þvert á móti sýna þær þekkingu málnotenda á kerfinu og tilfinningu fyrir því – sýna að málnotendum finnst eitthvað vanta ef engin ending er í eignarfalli. Við ættum vitanlega að fagna þessu í stað þess að kalla þessar myndir „rangar“ og leiðrétta þau sem nota þær. Kerfið er nefnilega miklu mikilvægara en einstaka undantekningar frá því. Þegar við bætist að myndin föðurs kemur fyrir þegar í fornu máli, var mikið notuð og sennilega aðalmynd orðsins í margar aldir og allt fram á 20. öld, og er ennþá mjög algeng, er algerlega fráleitt að kalla hana „ranga“.