Leikurinn var frestaður
Um daginn sá ég á Facebook-síðunni „Sportið á Vísi“ setninguna „Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var afar ósáttur út í vinnubrögð HSÍ og afstöðu Hauka yfir því að leikur kvöldsins gegn Haukum var ekki frestaður.“ Í frétt Vísis sem hlekkjað var á stóð hins vegar „ÍBV óskaði ítrekað eftir því að leiknum yrði frestað.“ Í báðum setningum er notuð þolmynd en í þeirri fyrri er frumlagið í nefnifalli og lýsingarhátturinn sambeygist því, leikurinn var frestaður, en í þeirri seinni er frumlagið í þágufalli og lýsingarhátturinn í hvorugkyni eintölu, leiknum yrði frestað. Sögnin fresta stjórnar þágufalli á andlagi sínu, fresta leiknum, og þágufallsandlag í germynd heldur falli sínu þótt það sé gert að frumlagi í þolmynd og lýsingarhátturinn er þá í hvorugkyni.
Við myndum því búast við leiknum var frestað en ekki leikurinn var frestaður, rétt eins og við segjum leiknum var flýtt en ekki *leikurinn var flýttur vegna þess að flýta stjórnar líka þágufalli – flýta leiknum. Samt sem áður má finna fjölda dæma um sambandið frestaður leikur. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1952: „Oft er þó frestuðum leikjum komið fyrir á þeim laugardögum, þegar bikarkeppnin fer fram.“ Í Þjóðviljanum 1958 segir: „hver veit svo hvaða áhrif allur ruglingurinn útaf frestuðum leik getur haft“. Í Morgunblaðinu 1963 segir: „Á þriðjudag átti að leika 10 „frestaða“ leiki, en aðeins 1 gat farið fram.“ Örfá dæmi eru svo um þetta samband frá næstu árum, fram undir 1980, og stundum gæsalappir um „frestaður“.
Ástæðan fyrir því að hægt er að tala um frestaðan leik er sú að í þessum dæmum er ekki þolmynd, heldur er frestaður lýsingarorð sem sambeygist orðinu sem það á við. Það er algengt að myndir sem upphaflega eru lýsingarháttur þátíðar fái setningarhlutverk lýsingarorðs – ég hef áður skrifað um ýmis slík tilvik eins og lagða bíla, ósvaraðar spurningar o.fl. Það er samt ekki þannig að allir lýsingarhættir geri þetta – við getum ekki sagt *bjargaður maður í merkingunni 'maður sem var bjargað' eða eitthvað slíkt. En það lítur út fyrir að lýsingarhátturinn frestaður hafi verið að bæta við sig hlutverki lýsingarorðs á árunum fyrir 1980. Það sýna gæsalappirnar sem eru oft notaðar um orðið fyrir þann tíma, og skyndileg fjölgun dæma um það kringum 1980.
Munurinn á notkun sömu orðmyndar sem lýsingarháttar í þolmynd og sem lýsingarorðs í germynd felst í því að í þolmyndinni er sagt frá athöfn, í germyndinni er lýst (kyrr)stöðu. Stundum líta setningar með frestaður leikur út eins og þolmynd, t.d. á fótbolti.net 2010: „5. umferð Pepsi deildar karla lauk í gær er KR vann Fram en leikurinn var frestaður.“ Þarna sýnir samhengið að ekki er um þolmynd að ræða – ekki er verið að lýsa athöfn, heldur kyrrstöðu. Öðru máli gegnir ef staðið hefði KR átti að leika við Fram en leiknum var frestað – þá er verið að segja frá athöfn. En þá hefði sem sé verið sagt var frestað, ekki *KR átti að leika við Fram en leikurinn var frestaður. Setningin sem vitnað var til í upphafi er ekki í samræmi við málhefð.