Að gúmma

Samfélags- og tæknibreytingar hafa mismunandi áhrif á orð og orðasambönd sem notuð eru um það sem breytist. Oft haldast orðin þótt eðli þess sem þau vísa til gerbreytist, en missa þá iðulega það gagnsæi sem þau höfðu upphaflega – dæmi um það eru orðin eldhús og myndband. Í öðrum tilvikum lifa orðin eða orðasamböndin áfram í breyttri merkingu, oft sem líking – dæmi um það eru samböndin strauja kortið og spóla til baka. En stundum hverfa orðin – eða tiltekin merking þeirra – alveg með því sem þau vísuðu til. Dæmi um það er orðið ávísun en algengasta merking þess var til skamms tíma 'sérprentað blað, ígildi peninga, sem eigandi bankareiknings fyllir út og undirritar, og er upphæðin síðan dregin frá innistæðu hans við framvísun í banka, tékki'.

Vissulega hefur orðið fleiri merkingar en þessi er nær alveg horfin – sem og samheitið, tökuorðið tékki sem nefnt er í skýringunni, sem er úr Íslenskri nútímamálsorðabók. Á síðasta þriðjungi tuttugustu aldar voru ávísanir eða tékkar helsti gjaldmiðill í viðskiptum, ásamt seðlum, en viku fyrir debet- og kreditkortum og hurfu að mestu kringum aldamótin. Þessi orð leiddu af sér ýmsar samsetningar sem einnig eru horfnar – ávísanahefti, ávísanareikningur, ávísanafölsun, ferðaávísun, tékkhefti, tékkareikningur, ferðatékki o.fl. Merking allra þessara samsetninga er væntanlega nokkuð augljós, en hugsanlega þarf að skýra samsetninguna gúmmítékki sem var töluvert notuð í óformlegu máli og merkti 'innstæðulaus ávísun'.

Orðið gúmmítékki er væntanlega komið af rubber check/cheque sem er notað í óformlegri ensku í sömu merkingu – einnig er notað bounced check. Vegna þess að þetta er óformlegt orð er varasamt að nota prentuð blöð sem heimildir um aldur þess, en elsta dæmið sem ég finn er í Vikunni 1963: „Gúmmítékkar hafa lengi verið þekkt fyrirbrigði á voru landi, og ekki þótt neitt skemmtilegur gjaldmiðill.“ Þetta sýnir að orðið var vel þekkt á þessum tíma og það var algengt fram yfir aldamót, seinustu árin oft sem líking, en er nú nær horfið. En þótt orðin tékki og ávísun væru notuð jöfnum höndum kemur *gúmmíávísun ekki fyrir og það er mjög eðlilegt – ávísun er formlegt orð og ekki við því að búast að það væri notað í óformlegri samsetningu.

En gúmmítékki leiddi af sér skemmtilega sögn – gúmma, sem merkti ‚skrifa innstæðulausa ávísun, gúmmítékka‘. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Alþýðublaðinu 1975 þar sem fólk er spurt hvort það noti ávísanahefti og einn svarenda segir: „Ég „gúmmaði“ mikið í fyrra, það var þannig fyrirkomulag á kaupgreiðslunum.“ Þetta var fyrir daga rafrænna bankaviðskipta – á þessum tíma þurfti að senda allar ávísanir til þess bankaútibús þar sem ávísanareikningurinn var. Þetta gat tekið nokkra daga og þess vegna féll fólk stundum í þá freistingu að gúmma t.d. á djamminu um helgar. „Það var svo auðvelt að gúmma og redda þessu á mánudegi“ – þ.e. áður en ávísunin bærist bankanum – segir í upprifjuninni „Allt varð þetta úrelt“ í DV 2005.

Vegna þess að sögnin er óformleg gæti hún vitaskuld verið talsvert eldri en prentheimildir sýna, en alls eru um 50 dæmi um hana á tímarit.is, flest frá níunda og tíunda áratugnum. Stundum er hún notuð í líkingum – „Hugmyndabankinn virðist bara hafa verið orðinn tómur um miðja mynd og gúmmað eftir það“ segir t.d. í kvikmyndagagnrýni í DV 1991. Í Risamálheildinni eru um 20 dæmi um sögnina, flest af samfélagsmiðlum frá fyrstu árum aldarinnar, en nú er hún líklega horfin. Það er eftirsjá að henni, því að þótt gúmmítékki sé bein yfirfærsla úr ensku er sögnin gúmma væntanlega alíslensk orðmyndun og mjög áhugaverð og skemmtileg sem slík – aðeins leidd af fyrri hluta nafnorðsins en tengslin við tékka koma ekki fram í henni.