Þessi nokkru skipti
Í „Málspjalli“ var í gær spurt hvort fólk kannaðist við að orðið nokkur væri beygt veikt, t.d. þau nokkru skipti. Venja er að telja nokkur til óákveðinna fornafna en beyging þeirra skiptist ekki í sterka og veika beygingu heldur er ævinlega sterk, þ.e. samsvarar sterkri beygingu lýsingarorða eins og t.d. kemur fram í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Mér fannst samt þau nokkru skipti ekki hljóma sérlega framandi og við nánari athugun kom í ljós að veikar myndir orðsins eru fjarri því að vera nýjung, og notkun þeirra virðist hafa aukist verulega á síðustu árum. Elsta dæmið sem ég fann er frá nítjándu öld, í Þjóðólfi 1858: „Hirðir skýrir eigi frá, hverir hinir af þessum „nokkru mönnum“ hafi verið.“ Þetta er þó alger undantekning.
Það er ekki fyrr en undir miðja tuttugustu öld sem stöku dæmi af þessu tagi fara að sjást. Í Morgunblaðinu 1944 segir: „Jeg þykist vita, að ekki þurfti nema að minna þetta blessað fólk á, að ganga hljóðlega þessi nokkru skref framhjá spítalanum.“ Í Siglfirðingi 1946 segir: „Kannske, að maðurinn, sem kallar sjálfan sig „hinn fátæka sjómansson“ hafi átt að borga þessar „nokkru krónur“.“ Í Morgunblaðinu 1948 segir: „Hvernig ætli það væri að nota tillöguna hans Jónasar og taka nokkrar kvikmyndir af þessum nokkru drukknu mönnum?“ Í Þjóðviljanum 1950 segir: „Og hann bætti því við að þessar nokkru tylftir óháðra fyrirtækja yrðu tengdar saman í hópa vegna ónógra afkasta.“ Örfá dæmi eru svo frá næstu áratugum á tímarit.is.
Undir 1990 fer dæmum svo fjölgandi og sú þróun virðist hafa haldið áfram allt til þessa. Mikill fjöldi dæma um veiku myndirnar er í Risamálheildinni, meginhluti þeirra vissulega af samfélagsmiðlum en töluvert er einnig úr formlegra málsniði – „Ég ætla ekki að taka hinar nokkru sekúndur sem eftir eru í þær“ segir t.d. í ræðu á Alþingi 2005; „Ekki er hægt að loka veginum þessa nokkru daga meðan á viðgerð stendur“ segir í Tímanum 1990. Það er eingöngu fleirtölumyndin nokkru sem kemur fyrir – engin dæmi virðast vera um eintölumyndirnar sem ættu að vera *(sá) nokkri og *(sú) nokkra. Það er í sjálfu sér ekki skrítið – það er erfitt að hugsa upp aðstæður þar sem slíkar myndir væru merkingarlega eðlilegar.
Það er ekki einsdæmi að orð sem venja er að flokka sem óákveðin fornöfn fái veika beygingu. Þar er helst að nefna ýmis sem reyndar er oft flokkað sem lýsingarorð, enda dæmi eins og hinir / hinar / hin ýmsu mjög algeng. Orðið fáeinir er oft talið óákveðið fornafn en hefur iðulega veikar myndir, svo sem þessi fáeinu dæmi, og er flokkað sem lýsingarorð í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls – eins og ýmis. En einstöku dæmi má líka finna um veikar myndir einhverra annarra orða úr þessum flokki. Í tillögu til þingsályktunar frá 2012 segir: „skulu hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld og yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti með þessum öðru félögum hafa með sér náið samstarf.“ Á Hugi.is 2002 segir: „þessar sumu myndir vilja bara ekki koma.“
Þetta eru þó algerar undantekningar sem ástæðulaust er að draga nokkrar ályktanir af. Veik beyging orðsins nokkur er hins vegar svo algeng að útilokað er að líta fram hjá henni. Við höfum í raun tvo kosti. Annars vegar getum við sagt að veika beygingin sýni að nokkur hafi breytt um orðflokk og rétt sé að flokka það framvegis sem lýsingarorð – eins og ýmis. Vissulega stigbreytist nokkur ekki eins og flest lýsingarorð gera, en auðvelt er að rökstyðja að fyrir því séu merkingarlegar ástæður. Hins vegar getum við sagt að beyging óákveðinna fornafna sé að breytast – þau geti nú haft bæði sterka og veika beygingu. Þessi kostur væri eðlilegri ef flest óákveðnu fornöfnin væru farin að beygjast veikt – en svo er ekki, enn sem komið er a.m.k.
En orðflokkur er hvort eð er bara merkimiði sem við hengjum á orð til að glöggva okkur betur á hegðun þeirra og skýra hana, og fjölmörg orð falla ekki ótvírætt í einhvern ákveðinn flokk heldur bera einkenni tveggja flokka. Aðalatriðið í þessu máli er að það er ástæða til að fagna þessari nýjung vegna þess að hún sýnir styrk beygingakerfisins í huga málnotenda – þeir búa til beygingu sem þeim finnst vanta. Fleiri svipuð dæmi má finna eins og ég hef skrifað um áður, svo sem sterkar myndir af raðtölunum þriðji og fjórði og veika mynd af fjórir. Veik beyging nokkur er áratuga gömul í málinu og orðin talsvert útbreidd og það er engin ástæða til að amast við henni. Þvert á móti er full ástæða til að fagna henni sem gagnlegri viðbót við málkerfið.