Í innleggi í „Málspjalli“ í gær sagðist hópverji hafa fengið póst frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu með ávarpinu „Hæ <nafn>“ og fannst það athyglisvert þar sem löngum hefði verið amast við ávarpinu hæ og fólki bent á aðra möguleika til að ávarpa fólk. Í umræðum kom fram að ýmsar opinberar stofnanir og fyrirtæki, svo sem Orka náttúrunnar, Arion banki, VÍS og fleiri, væru farin að nota þetta ávarp í tölvupóstsendingum sínum og sjálfur hef ég fengið slíka pósta. En einnig kom fram að ein líkleg ástæða fyrir aukinni notkun þessa ávarps væri sú að það er kynhlutlaust og því hentugt til nota þegar sendur er fjöldapóstur eða kyn viðtakanda er ekki þekkt – með því má komast hjá klúðurslegum lausnum eins og t.d. Sæl/l/t.
Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hæ sagt vera „óhátíðleg kveðja“ og í Íslenskri orðabók „(óformleg) kveðja þegar menn hittast“. Jón G. Friðjónsson segir í pistli í Málfarsbankanum: „Smáorðið hæ er kunnugt sem upphrópun í fornu máli og fram í nútímann en notkun þess sem kveðju í merkingunni 'halló' er naumast eldri en frá síðasta þriðjungi 20. aldar […]. Hér gætir áhrifa frá ensku.“ En í grein á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran: „Hæ virðist hafa þekkst sem kveðja þegar á 17. öld en Stefáni Ólafssyni er eignað vísuorðið „Hott, hott og hæ, hér sé Guð í bæ.“ Það kemur einnig fyrir í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá svipuðum tíma. Hæ virðist hafa þekkst vel sem upphrópun lengi og er þá stutt í kveðjuna.“
Það er alveg rétt að þarna er oft skammt á milli. Í Málkrókum frá 1991 greinir Mörður Árnason hæ í þrjá flokka – það sem hann kallar „tilvistarlegt hæ, hugsanlega í ætt við hlátur“ eins og í „Hæ hæ og hó hó“ í þjóðsögunni um Gilitrutt, „athyglishæ, sem sjá má á því að hæ er tilbrigði við hó þegar hóað er, – en það hæ getur nálgast það að heilsa öðrum, t.d. í bæjarlífi þegar einn þarf að vekja athygli annars á sér yfir götu eða í fjölmenni. Og þá er orðið til þriðja hæ-tegundin, ávarpshæ“. Í flestum elstu dæmunum um hæ er eðlilegt að líta á það sem „tilvistarlegt hæ“ eða „athyglishæ“ en þó má finna dæmi frá nítjándu öld þar sem mætti líta á hæ sem ávarp: „Það birtir yfir þeim öllum, þegar hún kemur. „Hæ, hæ, Kitta!““ segir í Ísafold 1890.
Mörður segir einnig í Málkrókum: „Að ávarpað sé með hæi hefur ekki fundist í riti fyrren á fjórða áratugnum, þá reyndar hjá sjálfum Steini Steinarr.“ Í kvæðinu „Blóm“ í Ljóðum frá 1937 segir: „Og annarleg hönd / snart mig / og hvíslaði: / Hæ! / þú skalt deyja.“ Mörður heldur áfram: „Miðaldra fólk og roskið sem spurt hefur verið um þetta á förnum vegi kannast ekki við almennt hæ-ávarp fyrren eftir stríð, og er sá siður undir skýrum áhrifum frá amerísku kveðjunni hæ […].“ Í „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1950 er ávarpsorðum unglingsstúlkna lýst: „Venjulegast segja þær „halló“ eða „hæ“, þegar þær hittast, en „bæ“, þegar þær kveðjast og forðast á allan hátt „ástkæra, ylhýra málið“. Ungu piltarnir nota þessi ávörp miklu minna.“
Mörður heldur áfram og segir: „Það er svo næstum því smekksmál hvort menn vilja telja þetta hæ tvö orð, annað erlent og annað innlent, eða líta svo á að upphrópunin sé ein og söm og íslensk […]. Bæði vegna almennrar notkunar og óskýrrar ættbókar er varla ráðlegt að vígbúast sérstaklega gegn þessu ávarpi.“ Undir það má taka, en vissulega er það rétt að hæ hefur til skamms tíma þótt fremur óformlegt og talmálslegt ávarp. En með rafrænum samskiptum hafa mörk málsniða talmáls og ritmáls dofnað töluvert og þar að auki breytist tilfinning okkar fyrir einstökum orðum oft með tímanum, þannig að orð sem áður þóttu óformleg verða gjaldgeng í formlegra málsniði – og öfugt. Ávarpið Hæ Eiríkur truflar mig a.m.k. ekki.