Posted on Færðu inn athugasemd

Hæ Málspjallarar

Í innleggi í „Málspjalli“ í gær sagðist hópverji hafa fengið póst frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu með ávarpinu „Hæ <nafn>“ og fannst það athyglisvert þar sem löngum hefði verið amast við ávarpinu hæ og fólki bent á aðra möguleika til að ávarpa fólk. Í umræðum kom fram að ýmsar opinberar stofnanir og fyrirtæki, svo sem Orka náttúrunnar, Arion banki, VÍS og fleiri, væru farin að nota þetta ávarp í tölvupóstsendingum sínum og sjálfur hef ég fengið slíka pósta. En einnig kom fram að ein líkleg ástæða fyrir aukinni notkun þessa ávarps væri sú að það er kynhlutlaust og því hentugt til nota þegar sendur er fjöldapóstur eða kyn viðtakanda er ekki þekkt – með því má komast hjá klúðurslegum lausnum eins og t.d. Sæl/l/t.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hæ sagt vera „óhátíðleg kveðja“ og í Íslenskri orðabók „(óformleg) kveðja þegar menn hittast“. Jón G. Friðjónsson segir í pistli í Málfarsbankanum: „Smáorðið er kunnugt sem upphrópun í fornu máli og fram í nútímann en notkun þess sem kveðju í merkingunni 'halló' er naumast eldri en frá síðasta þriðjungi 20. aldar […]. Hér gætir áhrifa frá ensku.“ En í grein á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran: „ virðist hafa þekkst sem kveðja þegar á 17. öld en Stefáni Ólafssyni er eignað vísuorðið „Hott, hott og hæ, hér sé Guð í bæ.“ Það kemur einnig fyrir í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá svipuðum tíma. virðist hafa þekkst vel sem upphrópun lengi og er þá stutt í kveðjuna.“

Það er alveg rétt að þarna er oft skammt á milli. Í Málkrókum frá 1991 greinir Mörður Árnason í þrjá flokka – það sem hann kallar „tilvistarlegt hæ, hugsanlega í ætt við hlátur“ eins og í „Hæ hæ og hó hó“ í þjóðsögunni um Gilitrutt, „athyglishæ, sem sjá má á því að er tilbrigði við þegar hóað er, – en það hæ getur nálgast það að heilsa öðrum, t.d. í bæjarlífi þegar einn þarf að vekja athygli annars á sér yfir götu eða í fjölmenni. Og þá er orðið til þriðja hæ-tegundin, ávarpshæ“. Í flestum elstu dæmunum um er eðlilegt að líta á það sem „tilvistarlegt hæ“ eða „athyglishæ“ en þó má finna dæmi frá nítjándu öld þar sem mætti líta á sem ávarp: „Það birtir yfir þeim öllum, þegar hún kemur. „Hæ, hæ, Kitta!““ segir í Ísafold 1890.

Mörður segir einnig í Málkrókum: „Að ávarpað sé með hæi hefur ekki fundist í riti fyrren á fjórða áratugnum, þá reyndar hjá sjálfum Steini Steinarr.“ Í kvæðinu „Blóm“ í Ljóðum frá 1937 segir: „Og annarleg hönd / snart mig / og hvíslaði: / Hæ! / þú skalt deyja.“ Mörður heldur áfram: „Miðaldra fólk og roskið sem spurt hefur verið um þetta á förnum vegi kannast ekki við almennt hæ-ávarp fyrren eftir stríð, og er sá siður undir skýrum áhrifum frá amerísku kveðjunni […].“ Í „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1950 er ávarpsorðum unglingsstúlkna lýst: „Venjulegast segja þær „halló“ eða „hæ“, þegar þær hittast, en „bæ“, þegar þær kveðjast og forðast á allan hátt „ástkæra, ylhýra málið“. Ungu piltarnir nota þessi ávörp miklu minna.“

Mörður heldur áfram og segir: „Það er svo næstum því smekksmál hvort menn vilja telja þetta tvö orð, annað erlent og annað innlent, eða líta svo á að upphrópunin sé ein og söm og íslensk […]. Bæði vegna almennrar notkunar og óskýrrar ættbókar er varla ráðlegt að vígbúast sérstaklega gegn þessu ávarpi.“ Undir það má taka, en vissulega er það rétt að hefur til skamms tíma þótt fremur óformlegt og talmálslegt ávarp. En með rafrænum samskiptum hafa mörk málsniða talmáls og ritmáls dofnað töluvert og þar að auki breytist tilfinning okkar fyrir einstökum orðum oft með tímanum, þannig að orð sem áður þóttu óformleg verða gjaldgeng í formlegra málsniði – og öfugt. Ávarpið Hæ Eiríkur truflar mig a.m.k. ekki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málspjall fimm ára

Í dag eru fimm ár síðan ég stofnaði Facebook-hópinn „Málspjall“ og fór að skrifa þar pistla reglulega, en áður hafði ég skrifað fjölda pistla í „Málvöndunarþáttinn“ um eins árs skeið. Félagar í „Málspjalli“ eru nú hálft tólfta þúsund, og áskrifendur sem fá pistla mína í tölvupósti eru tæplega þrjú hundruð. Vegna þess að félögum fer sífjölgandi finnst mér ástæða til að endurtaka hér lýsingu á meginviðfangsefnum hópsins, sem eru í fyrsta lagi að efla jákvæða umræðu um íslenskuna; í öðru lagi að svara spurningum um íslenskt mál og málnotkun; í þriðja lagi að andæfa óþarfri enskunotkun; í fjórða lagi að birta fræðandi pistla um tungumálið; og í fimmta lagi að vera vettvangur umræðu um mál jaðarsettra hópa. Nánari lýsing fer hér á eftir.

Jákvæð umræða. Megintilgangurinn með stofnun hópsins var upphaflega sá að hvetja til jákvæðrar umræðu um íslenskt mál og málnotkun og reyna að ýta undir slíka umræðu. Mér hefur lengi blöskrað umræðan í málfarshópum á samfélagsmiðlum og athugasemdadálkum vefmiðla og er þess fullviss að sú umræða sé stórskaðleg fyrir íslenskuna – fæli fólk frá því að tjá sig opinberlega og geri ungt fólk fráhverft málinu. Ég á mér þá hugsjón að breyta þessu – auka umburðarlyndi fólks gagnvart málfari annarra og tilbrigðum í máli. Mér finnst mikilvægt að berjast gegn þeirri tvíhyggju sem við höfum flest alist upp við, að málfar sé annaðhvort rétt eða rangt og aðeins eitt sé rétt en allt annað rangt. Það er ekki þannig – íslenskan er alls konar.

Spurningar og svör. Mér finnst mikilvægt að almennir málnotendur eigi sér vettvang þar sem hægt er að bera fram spurningar um hvaðeina sem varðar mál og málnotkun og fá svar við þeim samstundis eða því sem næst. Skilyrði er þó að spurningarnar séu bornar fram á jákvæðum eða hlutlausum nótum og fyrirspyrjendur gefi sér ekki forsendur eða séu að leita staðfestingar á eigin fordómum. Ég reyni að svara öllum spurningum eftir megni, en auðvitað er æskilegt að aðrir hópverjar svari einnig, eins og algengt er. Eftir því sem fjölgar í hópnum aukast einnig líkur á því að einhverjir hópverja geti svarað því sem um er spurt. Ég held að fyrirspyrjendur hafi oftast fengið hér einhverja úrlausn mála þótt vitanlega séu undantekningar frá því.

Óþörf enska. Ein helsta ógnin við íslenskuna um þessar mundir er meðvitundarleysi okkar gagnvart áhrifum enskunnar. Við erum orðin alltof ónæm fyrir enskunni í málumhverfi okkar og tökum oft ekki eftir því að enska er notuð þar sem væri auðvelt og eðlilegt – og jafnvel stundum lagaskylda – að nota íslensku. Ég hef lagt áherslu á að berjast gegn óþarfri enskunotkun fyrirtækja og stofnana – í auglýsingum, á matseðlum, á skiltum, í vöruheitum og víðar. Margir hópverjar hafa tekið virkan þátt í þessari baráttu sem hefur stundum skilað árangri – ýmis dæmi eru um að skiltum og auglýsingum hafi verið breytt í framhaldi af athugasemdum hér. En því miður er líka algengt að athugasemdir séu hunsaðar – baráttan heldur áfram.

Fræðsla. Ég var kennari í nærri 40 ár og hef gaman af að fræða fólk – og hef trú á því að mörgum þyki fengur að fræðslu um íslenskuna. Þess vegna skrifa ég hér pistla um hvaðeina sem varðar hana – um tungumálið sjálft og tilbrigði í formi og merkingu þess, en einnig um notkun þess á ýmsum sviðum, orðræðugreiningu, íslenskukennslu innflytjenda, íslenska málstefnu, o.fl. Þetta eru oft langir pistlar, flestir á bilinu 400-700 orð, og ólíklegt að mörgum endist tími og áhugi til að lesa þá alla til enda. En það er í góðu lagi – ég geri þetta ekki síst sjálfum mér til fróðleiks og skemmtunar. Það er líka alltaf hægt að nálgast pistlana, sem nú eru orðnir á fjórtánda hundrað, á heimasíðu minni, https://uni.hi.is/eirikur/ritaskra/malfarspistlar/.

Vettvangur jaðarsettra. Ég hef auðvitað lengi vitað að sem síðmiðaldra menntaður hvítur karlmaður í efri millistétt, ættaður að norðan, tilheyri ég forréttindahópi. En það hefur smátt og smátt verið að renna upp fyrir mér hvernig þau forréttindi ná einnig til tungumálsins, og að stórir hópar í þjóðfélaginu – ekki síst hinsegin fólk og fólk með annað móðurmál en íslensku – eiga undir högg að sækja í málfarslegum efnum og eru jaðarsettir, ýmist af tungumálinu sjálfu eða notendum þess. Þetta er mjög alvarlegt fyrir þessa hópa en líka fyrir íslenskuna – og fyrir lýðræðið í landinu. Þess vegna finnst mér mikilvægt að jaðarsettir hópar hafi rödd og málfar þeirra hafi vettvang og hef reynt að skýra málstað þeirra og tala máli þeirra eftir mætti.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað er fjaður?

Í „Málspjalli“ var áðan spurt hvers vegna fjaðurpenni héti ekki fjaðrapenni ­– það væri ekki til neitt sem héti *fjaður. Því er til að svara að myndin fjaðrapenni er vissulega til – um hana eru nokkur dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, það elsta frá 1887, og hátt í þrjú hundruð dæmi á tímarit.is. Orðið er líka flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Ritmálssafni eru einnig tvö dæmi um myndina fjaðrarpenni og átta á tímarit.is. Myndin fjaðurpenni er gefin í orðasafni um ritun og skriftartegundir í Íðorðabankanum en er hins vegar ekki flettiorð í helstu orðabókum og aðeins eitt dæmi er um hana í Ritmálssafninu en hátt á annað hundrað á tímarit.is, það elsta frá 1908.

Í fornu máli koma fyrir nokkur orð með fyrri liðinn fjaðr-, svo sem fjaðrhamr og fjaðrspjót. Þetta eru stofnsamsetningar – fyrri liðurinn fjaðr- er stofn orðsins fjöður sem við sjáum m.a. í eignarfallinu fjaðr-ar. En á 14.-15. öld breyttust hljóðskipunarreglur málsins þannig að r hætti að geta staðið á eftir samhljóði í enda orðs og skotið var inn u þar á milli – maðr varð maður, akr varð akur, veðr varð veður o.s.frv. Þetta sést í samsetningunni fjaðrhamr sem nefnd var hér á undan – hamr varð hamur, en þetta gerðist líka þar sem fyrri liður samsetts orðs endaði á r á eftir samhljóði, þannig að fjaðr- í dæmunum hér að framan varð fjaður og út komu orðin fjaðurhamur og fjaðurspjót. Sama ástæða er fyrir því að við segjum ekki *Akranesingur eins og ég hef skrifað um – orðið var í fornu máli Akrnesingr en varð Akurnesingur við u-innskot.

Orðið penni kemur vissulega fyrir í fornu máli þannig að þótt engar heimildir séu um myndina *fjaðrpenni er ekki óhugsandi að hún hafi verið til áður en u-innskotið varð, og lifað í málinu alla tíð þótt hún hafi ekki komist á bækur. Mér finnst samt miklu líklegra að myndin fjaðurpenni hafi verið búin til á seinni öldum, nítjándu öld eða byrjun þeirrar tuttugustu, með orð eins og fjaðurhamur og fjaðurspjót að fyrirmynd. Hugsanlegt er að myndin hafi komið upp sem liður í baráttunni gegn „órökréttu“ máli sem iðulega er rekin af meira kappi en forsjá – einhverjum kann að hafa þótt það „órökrétt“ að hafa fyrri lið orðsins í eignarfalli fleirtölu, fjaðrahamur, þar sem hver penni er vissulega aðeins gerður af einni fjöður. En þetta eru bara getgátur.

Reyndar eru einnig dæmi um að fyrri liður samsetninga af þessu tagi verði fjöður- – þótt orðið fjaðrstafr í fornu máli verði stundum fjaðurstafur á síðari öldum kemur það oftast fram sem fjöðurstafur þar sem myndin fjöður hefur verið skynjuð sem stofn. Á tímarit.is má líka finna tæp 20 dæmi um myndina fjöðurpenni, þau elstu frá 1914. En það er ljóst að fjaðurpenni er aðalmynd orðsins í nútímamáli þrátt fyrir að hún sé ekki gefin í helstu orðabókum eins og áður segir – í Risamálheildinni eru 113 dæmi um hana, en aðeins 21 um fjaðrapenni, og ekkert um fjaðrarpenni eða fjöðurpenni. Ekki er ljóst hvers vegna fjaðrapenni hefur orðið að víkja sem aðalmyndin – eina skýringin sem mér dettur í hug er áðurnefnt andóf gegn „órökréttu“ máli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gasa eða Gaza?

Í „Málspjalli“ var spurt í gær hvort ætti að skrifa Gasa eða Gaza í íslenskum texta. Þetta er áhugaverð spurning sem ekkert eitt rétt svar er við. Þarna er um að ræða arabískt orð sem er ritað غَزَّة á frummálinu en þar sem hvorki er hefð né forsendur fyrir því að nota arabískt letur innan um latínuletur, auk þess sem við myndum ekki vita hvernig ætti að lesa úr þessum rithætti, verður að umrita arabísk orð yfir á latneskt stafróf. Við slíka umritun milli stafrófa kemur tvennt til. Annars vegar er hægt að umrita tiltekið tákn í frummálinu sem annað tiltekið tákn í málinu sem umritað er í – α í grísku er t.d. ævinlega umritað sem a. Hins vegar er hægt að umrita eftir framburði og skrifa orðin eins og þau væru skrifuð ef þau væru úr málinu sem umritað er í.

Þess vegna skiptir oft máli hvar umritunin er upprunnin. Kyrillíski stafurinn ч er t.d. umritaður ch í ensku vegna þess að sú umritun kemst næst því að samsvara enskum framburði, og þar er því ritað Chekhov. Væri nafnið hins vegar umritað miðað við íslenskan framburð væri umritunin Tsjekhov eðlilegri því að hún gefur framburð sem nálgast rússneska framburðinn. En vegna þess að nöfn úr tungum sem nota önnur stafróf eru sjaldnast komin til okkar beint, heldur oftast gegnum enska (og áður danska) ritmynd sína, er mjög algengt að við notum enska (eða danska) umritun þeirra í stað þess að skrifa þau eins og eðlilegast væri miðað við íslenskan framburð. Umritunin Netanyahu miðast t.d. við enskan framburð – á íslensku væri Netanjahú eðlilegast.

Nafnið sem ritað er غَزَّة á arabísku er borið fram [ɣaza] (reyndar skilst mér að framburðurinn sé svolítið annar, [ɣæzɜ], á palestínskri arabísku en það skiptir ekki máli hér). Táknið ɣ stendur fyrir raddað uppgómmælt önghljóð, sama og g-hljóðið í saga. Þótt það hljóð sé til í íslensku kemur það aldrei fyrir í upphafi orða, hvorki í íslensku né ensku. Þess vegna er nafnið umritað með g í byrjun, sem er eðlileg umritun bæði í ensku og íslensku (enda stendur g oft fyrir þetta hljóð inni í orðum í íslensku, eins og í saga). Táknið z stendur fyrir raddað s-hljóð sem ekki kemur fyrir í íslensku en er hins vegar til í ensku og þess vegna er Gaza eðlileg umritun þar – og algeng í íslenskum miðlum enda kemur flest sem ritað er um svæðið til okkar gegnum ensku.

Þegar nöfn eða önnur orð úr málum sem nota latneska stafrófið eru notuð í íslenskum texta finnst mér eðlilegast að rita þau eins og gert er í frummálinu (nema þau eigi sér viðurkennda íslenska mynd eins og Stokkhólmur) – nota þó aðeins grunntáknin en sleppa stafmerkjum eins og broddum og krókum sem ekki er hefð fyrir í íslensku. Þannig er rétt að sleppa broddi yfir n í Poznań og rita Poznan – en halda z þótt hún sé ekki lengur í íslenska stafrófinu. En þegar nöfnin eru úr málum sem nota annað stafróf og krefjast því umritunar finnst mér almennt séð eðlilegast að miða við íslenskan framburð. Samkvæmt því væri eðlilegt að rita Gasa frekar en Gaza. Síðarnefndi rithátturinn á sér þó langa hefð í málinu og hlýtur einnig að teljast réttur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nokkur fá og fáeitt

Í grein frá 1915 um íslenskar mállýskur sem ég birti í „Málspjalli“ um daginn rakst ég á setninguna „Skulu hér gefnar nokkrar fáar bendingar“. Fleirtala óákveðna fornafnsins nokkur er yfirleitt ekki notað með fleirtölu lýsingarorðsins fár í nútímamáli, en mér datt í hug að athuga hvort þetta væri einsdæmi. Í ljós kom að þetta samband tíðkaðist nokkuð áður fyrr. Elsta dæmi sem ég fann er í Nýjum félagsritum 1850: „þá er ætlað til að leigurnar verði hafðar […] til að bæta kjör nokkurra fárra presta.“ Í Nýjum félagsritum 1852 segir: „Hún […] drepur einúngis nokkrar fáar kindur á sumum bæjum.“ Í Þjóðólfi 1875 segir: „Í þjóðþinginu var lítill flokkur, eða heldur nokkrir fáir menn.“ Í Skuld 1878 segir: „Vér höfum nokkur fá kvæði eftir Þorstein.“

Á tímarit.is eru alls yfir tvö hundruð dæmi um þetta samband, flest frá síðari hluta nítjándu aldar og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Um 1960 virðist það að mestu horfið úr málinu þótt því bregði fyrir stöku sinnum eftir það, t.d. í Morgunblaðinu 1995: „Mér er ljúft að minnast með nokkrum fáum orðum míns kæra bróður.“ Í Risamálheildinni eru aðeins um tuttugu dæmi um sambandið frá þessari öld. Það er enginn vafi á því að þetta samband er komið af nogle få í dönsku sem er notað á sama hátt. Í íslensku höfum við hins vegar orðið fáeinir til að nota í þessari merkingu. Það orð er mun eldra í málinu en sambandið nokkrir fáir, kemur fyrir þegar í fornu máli, og hefur nú að mestu útrýmt hinu danskættaða sambandi.

Orðið fáeinir er orðið til við samruna lýsingarorðsins fár og töluorðsins eða óákveðna fornafnsins einn. Það er oft greint sem óákveðið fornafn en eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eðlilegt að greina það sem lýsingarorð vegna þess að það hefur veika beygingu, t.d. þessir fáu menn. Í Beygingarlýsingunni og flestum orðabókum er orðið aðeins gefið upp í fleirtölu sem má teljast eðlilegt af merkingarlegum ástæðum þótt reyndar væri alveg hægt að hugsa sér að það væri notað í eintölu í ákveðnu samhengi, rétt eins og sumur og margur. Við segjum margur maðurinn, og því ekki *fáeinn maðurinn? Slík dæmi virðast þó ekki koma fyrir, en hins vegar má finna slæðing af dæmum um hvorugkynsmyndina fáeitt.

Í Stefni 1981 segir: „það er jafnvel talinn lúxus að tefla, veiða, spila borðtennis og handknattleik svo fáeitt sé nefnt.“ Í Skírni 1994 segir: „Svo litið sé á fáeitt það sem magnar hljóm kvæðisins.“ Í Morgunblaðinu 1994 segir: „Þó má nefna fáeitt.“ Í mbl.is 2019 segir: „Meðal þess sem fylgir með í kaupunum er aðgangur að […] líkamsrækt svo fáeitt sé nefnt.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2019 segir: „Þetta er bara fáeitt af mörgu sem ég gæti nefnt.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Auk þess er gufubað, leikjaherbergi og íþróttaaðstaða svo fáeitt sé nefnt.“ Í Risamálheildinni eru 25 dæmi um fáeitt, nær öll í sambandinu svo fáeitt sé nefnt þar sem venja er að hafa tvö orð – svo fátt eitt sé nefnt. En ég sé ekkert að því að nota þessa mynd og finnst hún hljóma alveg eðlilega.

Posted on Færðu inn athugasemd

Bómull

Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var nýlega vitnað í auglýsingu þar sem segir „Baðskrúbbur úr lífrænum bómul“. Lýsingarorðsmyndin lífrænum sýnir greinilega að nafnorðið bómul er þarna haft í karlkyni. Þetta er ekki einsdæmi og ekki nýtt. Elsta ótvíræða dæmi sem ég finn um karlkynið er í Vikunni 1958: „Þegar bletturinn er þur, þá farið yfir hann með bómul, bleyttum í vatni.“ Í Vísi 1980 segir: „vita þau ekki að það er vetur og bómullinn er mjúkur og heldur vel að?“ Gísli Jónsson nefndi karlkynsbeyginguna nokkrum sinnum í þáttum sínum um „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu, t.d. 1986 þegar hann sagði: „í sjónvarpsfréttum 28. janúar mátti heyra þau undur, að orðið var  beygt eins og karlkynsorðin heigull, djöfull, hörgull o.s.frv.“

Í Bæjarins besta 1998 segir: „Á íslensku er ýmist talað um baðmull eða bómull. Fyrri myndin er forn í málinu en hin seinni gripin miklu síðar blóðhrá úr dönsku – bomuld.“ En þetta er misskilningur – orðið bómull kom inn í málið þegar á sautjándu öld samkvæmt Íslenskri orðsifjabók, úr bomuld sem aftur er komið af lágþýska orðinu Bomwulle sem í háþýsku er Baumwolle – bókstaflega 'trjáull'. Á nítjándu öld var mynduð íslenska samsvörunin baðmull til að koma í staðinn fyrir bómull í anda málhreinsunarstefnu, en baðmur merkir 'tré' í fornu skáldamáli. Elsta dæmi um það í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og á tímarit.is er í Skírni 1846 þar sem talað er um „hinn háa toll á nýlenduvörum (svo sem baðm-ull, sikri, o.s.fr.).“

Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2015 segir: „Bómull er ekki alveg gagnsætt orð. Það á því til að skipta um kyn í beygingu: um „bómul“. Mér finnst langlíklegast að þessi skortur á gagnsæi sé skýringin á karlkynsbeygingu orðsins – málnotendur tengja bómull ekki við orðið ull enda er vissulega ekki um ull að ræða í venjulegri merkingu, 'hár sumra spendýra, einkum sauðfjár'. Það gildir reyndar líka um orð eins og steinull og stálull sem ekki hafa þó neina tilhneigingu til að fá karlkynsbeygingu, en munurinn stafar sennilega af því að málnotendur þekkja fyrra hluta þeirra orða, stein- og stál-, en bóm- hefur enga merkingu í huga þeirra. Ef tengingin við nafnorðið ull er ekki fyrir hendi er nærtækt að tengja bómull við karlkynsviðskeytið -ull.

Skortur á gagnsæi er væntanlega líka ástæðan fyrir því að þótt orðið haldi kvenkyni sínu er nefnifallið ekki alltaf bómull, heldur stundum bómul. Sú mynd getur vel staðist sem nefnifall kvenkynsorðs þótt kvenkynsorð sem enda á -ul séu vissulega ekki mörg. Í Morgunblaðinu 1921 segir: „Kvensokkar og Barnasokkar úr ull og bómul.“ Þarna gæti vissulega verið um karlkyn að ræða þótt þá yrði að gera ráð fyrir að þolfallsmyndin bómul væri líka höfð í þágufalli í stað myndarinnar *bómli sem búast mætti við, með sérhljóðsbrottfalli úr áherslulausu atkvæði, en slíkt er ekki einsdæmi eins og ég hef skrifað um. En í Alþýðublaðinu 1934 sýnir lýsingarorð ótvírætt að um kvenkyn er að ræða: „Sjúkradúkur, skolkönnur, hitapokar, hreinsuð bómul.“

Það má meira að segja finna dæmi um orðið í hvorugkyni. Í skáldsögunni Blandað í svartan dauðann eftir Steinar Sigurjónsson frá 1967 segir: „hún […] hrifsaði í sokkana og bómullið.“ En þetta er eina hvorugkynsdæmið sem ég veit um. Myndin bómul er hins vegar algeng í nútímamáli – hálft sautjánda hundrað dæma er um hana í Risamálheildinni. Mjög oft er útilokað að sjá hvort hún er höfð í karlkyni eða kvenkyni, en í ljósi þess að af myndum með greini eru ótvíræðar karlkynsmyndir rúmlega tvö hundruð en ótvíræðar kvenkynsmyndir aðeins tólf er trúlegt að megnið af dæmunum sé í karlkyni. Ótvíræð dæmi með greini um viðurkenndu kvenkynsmyndina bómull eru ekki nema rúmlega helmingi fleiri en um karlkynsmyndirnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Úrsúla þessi“

Þegar vísað er til fólks sem búið er að nefna til sögunnar en ætla má að sé lesendum ókunnugt er oft notað þessi á eftir nafninu – „Ein ströndin heitir Jon Gislason Beach en Jón þessi var einn fyrsti íslenski landneminn á eyjunni“ segir í DV 2003. Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Jón Ásbjarnarson […] varð ráðherra í Alsír. Jón þessi hefur að líkindum verið seldur austur á firði.“ Í Reykjanesi 2013 segir: „þar bjuggu hjónin Guðrún Klængsdóttir og Magnús Einarsson. Guðrún þessi var ömmusystir Halldórs.“ Í Feyki 2020 segir: „Höfundur að henni er sagður vera Jón Þorgeirsson. […] Segir nú í dóti mínu að Jón þessi hafi búið á Hjaltabakka við Blönduós.“ Þetta er eðlilegt, til að gera skýrt að um sömu manneskju sé að ræða og áður hefur verið nefnd.

En stundum er þessi líka notað á þennan hátt með nöfnum fólks sem er alþekkt. Í Degi 1992 segir: „það var staðfastur ásetningur minn að fjalla að þessu sinni um ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. […] Davíð þessi, sem er susum ekki hátt skrifaður hjá okkur framsóknarmönnum.“ Í DV 2010 segir: „Um daginn las ég grein í LÍÚ-tíðindum, eftir hinn ágæta galgopa Jón Gunnarsson, sjálfstæðismann. […] Núna fer Jón þessi allajafna mikinn.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Steingrímur gaf út yfirlýsingu […]. Steingrímur þessi er með lengra nef en Gosi.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „Geir H. Haarde […] hefði svarað fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um málið […]. Öðrum þremur árum síðar var Jóhanna þessi komin í ríkisstjórn.“

Á yfirborðinu gegnir þessi þarna sama hlutverki og í dæmunum sem áður voru nefnd, þ.e. að kynna fólk fyrir lesendum – en þetta fólk þarf ekki að kynna. Þarna er þessi augljóslega notað til að gera lítið úr fólki, oftast pólitískum andstæðingum – láta líta svo út sem um sé að ræða fólk sem engin ástæða sé til að ætla að lesendur þekki. Ég fór að hugsa um þetta þegar ég sá orðalagið „Úrsúla þessi“ á bloggsíðu þar sem Ursula von der Leyen var til umræðu. Þarna er líka notuð önnur nafnmynd en umrædd kona notar sjálf en eins og ég hef skrifað um er það líka aðferð til að tala niður til fólks. Hvaða skoðanir sem við höfum á fólki er það misnotkun á tungumálinu og ber vott um málefnafátækt að nota málið á þennan hátt til að gera lítið úr því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Merking og orðflokkur orðsins lúmskt

Lýsingarorðið lúmskur er komið inn í málið á nítjándu öld sem tökuorð úr lumsk í dönsku sem merkir 'lævís, slóttugur', 'inn undir sig'. Að uppruna er þetta sama orð og lymskur sem kemur fyrir í fornmáli, t.d. „„Ekki er eg,“ sagði Knútur, „lymskari en þér þótt eg sé skapbráður““ í Sturlungu. Það orð er mjög sjaldgæft í nútímamáli – aðeins nítján dæmi eru um það í Risamálheildinni, mörg hver úr gömlum textum. Hins vegar lifir það góðu lífi í samsetningum eins og lymskulegur, lymskufullur, lymskubragð o.fl. Í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 er lúmskur einfaldlega skýrt 'lumsk', og í Íslenskri orðabók er það skýrt 'undirförull, lævís, lymskur'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin einnig 'undirförull, lævís'.

En skýringarorðin 'undirförull', 'lævís', 'slóttugur' og ‚'inn undir sig' eiga ekki alltaf við – þau eru oft of neikvæð og eiga einkum við um lifandi verur, fólk eða dýr. Þannig er orðið þó sjaldnast notað, heldur oftast um hluti, fyrirbæri eða hugmyndir – sérstaklega hvorugkynið lúmskt sem er langalgengasta myndin. Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Margrét Ólafía segir að háþrýstingur geti verið mjög lúmskur.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Hún er með lúmsk skot og ótrúlega gott auga fyrir leiknum.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Það er lúmskt markmið hjá okkur að koma hvert öðru á óvart.“ Áðurnefnd skýringarorð eiga ekki við þarna – heppilegra væri 'óvænt', 'laumulegt', 'sem á að fara lágt', 'lítið áberandi', 'dulið', 'ósýnilegt' o.þ.h.

Það er vel þekkt að hvorugkyn lýsingarorða fær oft setningarstöðu atviksorðs og er þá iðulega sérstakt flettiorð í orðabókum – sem dæmi má nefna hátt, lágt, hægt, hratt, brátt, fljótt og mörg fleiri sem orðabækur gefa upp sem atviksorð eins og eðlilegt er. Því fer þó fjarri að hvorugkyn allra lýsingarorða sé notað á þennan hátt, og í orðabókum er myndin lúmskt sem atviksorð ekki sérstakt flettiorð – aðeins lýsingarorðið lúmskur. Notkunardæmið um það orð í Íslenskri nútímamálsorðabók er hafa lúmskt gaman af að <stríða yfirmanninum>. Dæmi um þetta samband eru reyndar meira en helmingur af öllum dæmum um myndina lúmskt á tímarit.is, það elsta í Mánudagsblaðinu 1952: „Höfðu menn lúmskt gaman, að þessum kennslustundum.“

Nú er gaman vissulega nafnorð, en mjög sérstakt nafnorð að því leyti að í sambandinu hafa gaman af tekur það venjulega með sér atviksorð en ekki lýsingarorð eins og við væri að búast – oftast er sagt mjög gaman, ákaflega gaman en síður mikið gaman og varla ákaft gaman. Vegna þess að gaman er hvorugkynsorð er þó ekki hægt að útiloka með öllu að lúmskt sé lýsingarorð þegar orðin standa saman, og hægt er að finna dæmi þar sem sambandið fallbeygist og er þá ótvírætt um lýsingarorð að ræða – „Og á meðan mjólkin sogaðist úr tanknum tæpti Bergur á tíðindum af traktorakaupum, heyfeng og heimasætum og réði unglingspiltum heilt í lúmsku gamni“ segir í Morgunblaðinu 1992. En þetta er eina dæmið af þessu tagi sem ég hef fundið.

Það er hins vegar auðvelt að finna dæmi þar sem lúmskt stendur ótvírætt sem atviksorð. Í Tímanum 1952 er talað um „tólf af bræðrum þeirra morðingja, sem svo lúmskt höfðu unnið á hinum hröktu mönnum“. Þetta er sennilega þýðing úr dönsku og gæti notkun lúmskt þarna mótast af því, en nóg er af öðrum dæmum. Í Tímanum 1957 segir: „Um leik Valeri verður það þó að segjast, að hann er lúmskt góður.“ Í Mánudagsblaðinu 1959 segir: „Sumar húsmæður […] urðu í rauninni ,,lúmskt“ fegnar eggjaleysinu.“ Í Speglinum 1965 segir: „Í þriðja lagi mætti svo nefna Akureyringa, sem oss grunar lúmskt að séu Framsóknarmenn.“ Í Mánudagsblaðinu 1965 segir: „Ustinov er oft helzti hjaldrjúgur, lúmskt hrifinn af sjálfum sér.“

Dæmum af þessu tagi hefur fjölgað mjög á undanförnum áratugum og enginn vafi á því að eðlilegt væri að gera atviksorðið lúmskt að sérstöku flettiorði í orðabókum. Merking þess er svipuð merkingu lýsingarorðsins, en merkingin 'dálítið' eða 'býsna' virðist þó oft bætast við 'laumulega'.  „Sömuleiðis hef ég lúmskt gaman af því að elda mat“ segir í Fréttablaðinu 2016 og „Pabbi hafði líka lúmskt gaman af því að setja saman vísur“ segir í Morgunblaðinu 2016. Þarna finnst mér merkingin eiginlega vera 'það kemur kannski á óvart, en ég hef býsna gaman af því að elda mat' og 'það kemur kannski á óvart, en pabbi hafði býsna gaman af því að setja saman vísur'. Sá neikvæði blær sem er á 'undirförull', 'lævís' og 'slóttugur' er þarna víðs fjarri.

Posted on Færðu inn athugasemd

Bullyrðing

Í morgun var spurt í „Málspjalli“ hvort orðið bullyrðing væri nýyrði. Orðið er vissulega ekki gamalt en þó ekki alveg nýtt og er t.d. að finna á vefnum Orðabókin.is þar sem það er sagt „Íslensk þýðing á hugtakinu alternative fact“ og nefnt að elsta dæmi sem hafi fundist um það sé í athugasemd á „Moggablogginu“ 2013: „Það er eitthvað meira en lítið bogið við þessa fullyrðingu, eða öllu heldur bullyrðingu.“ Við þessa athugasemd skrifar síðuhaldari: „Bullyrðing er ágætis nýyrði!“ Annað dæmi er um orðið á Twitter 2014: „Ásakaði þig um bullyrðingar […] skal gefa þér séns samt.“ Einnig má finna dæmi á Twitter 2016, en árið 2019 komst orðið í nokkra notkun, einkum í sambandi við umræður á Alþingi og víðar um þriðja orkupakkann. Á Twitter það ár segir: „Eina góða við umræðu um OP3 er nýyrðið bullyrðingar.“

Í Risamálheildinni eru þrjátíu dæmi um orðið bullyrðing, þar af aðeins tæpur helmingur af samfélagsmiðlum en það er mjög óvenjulegt um nýleg orð af þessu tagi að þau séu meira notuð í formlegu málsniði en óformlegu. Af þessum dæmum eru sex úr ræðum fjögurra þingmanna á Alþingi árið 2019, m.a. þetta: „Þá er kannski eingöngu um svokallaða „bullyrðingu“ að ræða en „bullyrðingum“ erum við orðin býsna vön hér í þessum þingsal.“ Auk þess eru dæmi úr Vísi, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu þar sem segir 2023: „röksemdir þeirra og varnaðarorð „bullyrðingar“ sem í sjálfu sér er skemmtilegt nýyrði.“ Orðið kemur einnig fyrir í vísu eftir Sigurlín Hermannsdóttur um orkupakkaumræðuna 2019: „ég býst við að þar fari bullyrðing.“

Orðið bullyrðing er augljóslega myndað með sambræðslu nafnorðanna bull og fullyrðing. Slík sambræðsla er algeng í ýmsum málum þótt hún hafi ekki notið mikillar hylli í íslensku og einkum verið bundin við óformleg orð sem oftast eru til gamans gerð og stundum að erlendri fyrirmynd, eins og smáhrifavaldur 'áhrifavaldur með smáan hóp fylgjenda' (minfluencer, úr micro influencer). Í ensku eru ýmis þekkt dæmi um þessa tegund orðmyndunar, það þekktasta í seinni tíð Brexit (úr Britain og exit). En þessi orðmyndun er þó fullgild og eitt algengasta orð í íslensku á seinustu áratugum er meira að segja sagt myndað á þennan hátt – tölva, úr tala og völva. Orðið bullyrðing er ágætt orð sem því miður þarf sífellt meira á að halda í samtímanum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tökum ófullkominni íslensku fagnandi

Ég sá umræðu um það á Facebook að danskur fótboltamaður sem hefur spilað á Íslandi í meira en áratug hefði talað (lélega) ensku í sjónvarpsviðtali. Ýmsum fannst þetta ámælisvert, en í umræðum kom þó fram að hann hefði verið spurður á íslensku og skilið spurningarnar, þótt hann hefði kosið að svara á ensku. Það er vissulega umhugsunarvert að maður sem hefur verið hér árum saman og átt í miklum mállegum samskiptum við Íslendinga skuli ekki tala málið, en í stað þess að hneykslast er kannski ráð að velta fyrir sér hvers vegna þetta er svona. Líkleg ástæða var reyndar nefnd í umræðunum – hann „veit sem er að það verður bara gert grín að honum á TikTok og í klefanum ef hann reynir að tala íslensku í sjónvarpinu“.

Þetta kom meira að segja beinlínis fram í viðtali við sænskan fótboltamann sem hefur spilað á Íslandi undanfarin fjögur ár á mbl.is um daginn. Fyrirsögn viðtalsins var „Hlæja þegar fyrirliðinn talar íslensku“ og þegar hann er spurður „Ertu eitthvað að ræða við strákana á íslensku?“ er svarið: „Aðeins. Ég skil mun meira í íslensku heldur en ég tala. Strákarnir hlæja aðallega bara að mér þegar ég reyni.“ Þetta er því miður dæmigert fyrir viðbrögð okkar við ófullkominni íslensku – við hlæjum að henni og gerum grín að þeim sem tala hana. Vonandi er þetta oftast góðlátlegt grín og ekki illa meint, en það getur samt virkað særandi og meiðandi á þau sem fyrir því verða þrátt fyrir það – engum finnst gaman að láta gera grín að sér.

Eins og ég hef áður skrifað um vorum við svo lengi eintyngd þjóð að við vöndumst því ekki að heyra misgóða íslensku hjá útlendingum, og kunnum ekki að bregðast við henni. Á nítjándu öld og langt fram á þá tuttugustu voru hér nánast engir útlendingar nema fáeinir Danir –  embættismenn, kaupmenn, apótekarar, bakarar – sem töluðu brogaða íslensku. Það þótti sjálfsagt að gera grín að málfari þeirra – þetta voru jú Danir, fulltrúar herraþjóðarinnar. En þrátt fyrir þetta sé gerbreytt, og fólki sem ekki á íslensku að móðurmáli hafi fjölgað gífurlega á síðustu áratugum, erum við enn furðu föst í þessu fari. Það þykir enn ekkert athugavert við að gera grín að erlendum hreim, röngum beygingum, skrítinni orðaröð, óheppilegu orðavali o.s.frv.

Þetta er vont – miklu verra en við áttum okkur á í fljótu bragði. Það er vont fyrir fólkið sem fyrir því verður og er að reyna að tala íslensku en er slegið út af laginu með brosi, glotti, hlátri og hvers kyns glósum. Það veldur því að fólk hikar við eða forðast að tala málið, sérstaklega á opinberum vettvangi eins og t.d. í sjónvarpsviðtölum – og fær þá yfir sig hneykslun fyrir að tala ekki íslensku. En þetta er líka og ekki síður vont fyrir íslenskuna og framtíð hennar. Ef íslenskan á að lifa og vera burðarás í samfélaginu þarf að gera þeim sem hingað koma kleift að læra hana – og skapa andrúmsloft sem hvetur þau til að læra hana. Það gerum við ekki með því að gera grín að tilraunum þeirra til að tala málið. Við eigum að taka ófullkominni íslensku fagnandi.